Ó, þvílík ósköp !!

BBB

Brynja Björk Birgisdóttir (BBB) sveiflaði heldur betur fléttunni gær í viðtali í Kastljósi. Það var stundum erfitt að sjá hvort hún væri í þættinum í pólitísku sjálfspoti eða sem fornleifafræðingur. Brynja var níundi maður á lista €vru-flokksins Bjartrar Framtíðar í Reykjavík Norður í nýafstöðnum Alþingiskosningum. 

Í Kastljósi sagði BBB, sem aðallega hefur stundað skrifborðsfornleifafræði í Noregi, frá skýrslu sem hún hefur unnið fyrir Menntamálaráðuneytið um fornleifarannsóknir á Íslandi. Skýrslan, Athugasemdir við skýrslu menntamálaráðuneytis um stjórnsýslu fornleifarannsókna og fornleifaverndar, er sem betur fer ekki plagg sem Menntamálaráðuneytið segist ábyrgjast, enda kannski orðið aðeins of seint nú, þegar fornleifa- og minjamálin hafa verið færð yfir á borð Sigmundar Davíðs. Aumingja Sigmundur.

Líkast til væri best fyrir forsætisráðuneytið að sniðganga þetta plagg sem greinilega hefur verið gert eftir pöntun. Það er stútfullt af skilningsleysi, rangfærslum, aðdróttunum og jafnvel ærumeiðingum og slúðri. Þó sumt (en fátt) sé ágætt er í skýrslunni stendur, hefur BBB einfaldlega ekki valdið því verki að skrifa þessa skýrslu.

Ég, sem annars er frekar gagnrýninn á versta ruglið í íslenskri fornleifafræði, tel þessa skýrslu BBB öfgakennda gangrýni og of mikla problematíseringu. Fyrr má nú ofgera. Mér sýnist þetta enn ein tilraunin til að gera fornleifafræðina að vandræðaunglingi og milljónirnar sem farið hafa í rannsóknir að töpuðu fé. Því fer hins vegar fjarri að fé hafi tapast í fornleifarannsóknir, þrátt fyrir lélega fornleifafræði á köflum.

Ásökun um óráðsíu á almannafé

Eftir inngang Kastljóss, mátti jafnvel halda að stjórnendur þáttarins hefði skilið skýrslu BBB sem ákæru á hendur ákveðnum fornleifafræðingum og rannsóknum þeirra.  Var rannsóknin að Hólum sérstaklega tekin í karphúsið. Fékk ég þá tilfinningu að gefið væri í skyn að sá ágæti, vandaði og duglegi fornleifafræðingur Ragnheiður Traustadóttir (sem er með álíka menntun og BBB), sem stjórnað hefir rannsóknum á Hólum, hafi stundað sukk, bruðl og lítið sem ekkert gert fyrir allar tugmilljónirnar sem runnu í verkefnið. BBB dró reyndar í land í viðtalinu, en orð hennar hljómuðu sem innantómt fals, eftir það sem á undan hafði verið básúnað í fréttaskýringunni.

Ráðist á vísindamennsku

Mörgu er ábótavant í skýrslu BBB og á stundum er einfaldlega ekki sagt rétt eða nógu fyllilega frá, þótt í orðagjálfrið sé eytt yfir 100 blaðsíðum af afnorskri stofnanaíslensku.  Palladómar eru allt of margir til að hægt sé að taka skýrsluna alvarlega.

BBB mælir með því að opinberu fé verði framvegis mest megnis varið í þjónusturannsóknir og björgunaruppgreftri, og gerir hún lítið úr rannsóknaruppgröftrum. Rök þau sem hún telur til því til stuðning eru tilviljanakennd og ósanngjörn, því rannsóknarfornleifafræði á Íslandi hefur í raun skilað mun meira til fræðanna og þekkingar en tilfallandi björgunar- og þjónustugreftir. 

Hins vegar er það svo, að pláss verður að vera fyrir alla þessa þætti og sömuleiðis fjármagn, ef Íslendingar ætla að teljast til siðmenntaðra þjóða.

Maður fær það óneitanlega fljótt á tilfinninguna að skýrslan einkennist af "faglegri öfundsýki" og hnýtingum í fólk sem halda mætti að BBB væri illa við (fyrir hönd annarra).  Mikið er í skýrslunni af þeim leiða norska sið sem kallast flisepikkeri,  sem Danir kalla svo fallega pindehuggeri eða flueknepperi, og á ensku er þekkt sem nit-picking. Sparðatíningur og smámunasemi, sem þessi leiðindi heita á mínu heimili, er aldrei góð latína í gagnrýni, sér í lagi þegar lélegar, ef nokkrar, lausnir eru gefnar. 

T.d. fárast BBB yfir tveimur kumlum í tengslum við rannsóknir á Böskum (bls. 31 ). Ef kuml eru á þeim stað sem minjar um Baska (og fyrst og fremst Hollendinga) er að finna, er það fornleifafræðilegur ávinningur að hægt sé að rannsaka kuml í leiðinni. En, nei, nei, nei, BBB telur að það sé af og frá að slá tvær flugur í einu höggi, því það gera menn ekki í Noregi þar sem hún þekkir til.

Ég man sannast sagna ekki eftir neinu sem bætir verulega við söguna og þekkingu okkar úr björgunaruppgröftrum. En dr. Ragnar Edvardsson, sem ómaklega fær að kenna á svipu BBB, stundar nú rannsóknir með öðrum á uppruna fiskistofna við Íslands, þar sem forleifafræði, erfðarannsóknir og ýmis konar vísindi sameinast í einum áhugaverðustu rannsóknum síðari ára sem mun varpa nýju ljósi á Íslandssöguna. Slíkt kallar á vísindalegar rannsóknir og kemur ekki úr tilfallandi raski við vegagerð. Geri þeir sem grófu upp á skrifstofu í Noregi betur.

Endalaus samanburður  við Noreg, sem er það eina sem BBB þekkir til, er út í hött og vonandi á ekki að fara að drepa íslenska fornleifafræði í dróma vegna þess að einhver kona,  sem sérmenntuð í norsku suði og Bjartri framtíð, nema fyrir fornleifafræði, sé svo svartsýn í Kastljósi.

imagesCARVFK41

Norska aðferðin. Verður hún tekin upp í Forsætisráðuneytinu?

Menntun fornleifafræðinga

Íslensk fornleifafræði er vissulega afar misjöfn að gæðum, eins og fólkið sem hana hefur stundað (en það verður að vera pláss fyrir alla - án slysa). En ég efast stórlega um að menn hafi verið að leika sér að almannafé og séu þess vegna ekki búnir að skila forngripum á Þjóðminjasafni.

Ég er ekki viss um að norsk stofnanaskriffinnska BBB henti ýkja vel við íslenskar aðstæður og mér heyrðist og sýnist líka að BBB sé afar illa að sér um fyrirkomulag við fornleifarannsóknir á Norðurlöndum, sem hún hélt fram að hefðu ávallt verið stjórnað af þrælmenntuðum einstaklingum, nema á Íslandi. Það er einfaldlega haugalygi. Fornleifafræðinemar hafa að mestu stjórnað fornleifarannsóknum í Danmörku síðustu 70 árin, og margir hafa gert það með ágætum.

Rétt er hins vegar, að enn er fátt um doktorana á Þjóðminjasafni Íslands og ekki var BBB á meðal þeirra, er hún vann þar, en það er auðvitað ekki nefnt í skýrslunni, enda á margt í henni uppruna sinn á þeirri stofnun.

Eins og BBB sagði réttilega í viðtalinu í Kastljósi gengu um menn sem kölluðu sig fornleifafræðinga en voru það ekki. Í skýrslunni segir hún frá fornleifafræðingum án nægilegrar menntunar sem á síðari árum hafa verið að grafa.  Guðmundur Ólafsson á Þjóðminjasafni Íslands, sem lengi vel kallaði sig State Archaeologist í bréfaviðskiptum við erlenda menn var lengi ekki með lokapróf í fornleifafræði; heldur ekki hinn ágæti fornleifafræðingur Mjöll Snæsdóttir, eða hvað þá heldur Þór Magnússon. Ekki einu sinni Kristján Eldjárn, sem var samt ekki verri fornleifafræðingur en margur ofurmenntaður sérfræðingurinn í fornleifafræði á sínum tíma. En BBB greinir einnig í þeim kafla illa og rangt frá.

Hún gleymir því að klíkuskapur, skyldleikarækt og furðulegur afdalaháttur varð til þess að ráðinn var sagnfræðidoktor, Orri Vésteinsson, til að vera prófessor í fornleifafræði við HÍ.  Mannorð dr. Bjarna F. Einarssonar var hins vegar dregið í svaðið af dómnefnd í HÍ, sem braut stjórnsýslulög og allar almennu siðlegar reglur þegar honum var hafnað í stöðu sem hann sótti um. Það mál fór fyrir dómstóla og ættu menn ekki að gleyma niðurstöðunni.

Hins vegar hafa menn án doktorsnafnbótar, sem sótt hafa Svarta Skóla í París, viljað eiga það til að haga sér eins og kóngar og vaðið uppi með alls kyns frekju og siðleysi gangvart landsins lögum og kollegum sínum, sbr. þetta sem BBB skrifar: Þá eru einnig dæmi um að grafið hafi verið í fornleifar án þess að tilskilið leyfi hafi legið fyrir. Í framvinduskýrslu Adolfs Friðrikssonar um kumlarannsóknir sem birt var árið 2004 er greint frá rannsókn á meintu kumli við Hrísheima í landi Baldursheims í Mývatnssveit.48 Skýrsla um uppgröftinn kom út árið 2011, 9 árum eftir vettvangsrannsóknina.49 Ekki verður séð af fyrirliggjandi gögnum að Fornleifavernd ríkisins hafi gefið út leyfi til rannsóknarinnar.

Margir íslenskir fornleifafræðingar hafa tekið þátt í útilokunum og ofsóknum í garð kollega sinna, og neiti því þeir er þora. Dr. Margrét Hermanns-Auðardóttir, var lengi vel úthýst á Þjóðminjasafni Íslands, þar sem neðanmálslið (menntunarlega séð) vann í því leynt og ljóst að eyðileggja mannorð hennar. Árið 2009 sótti Margrét um stöðu minjavarðar Suðurlands. Hún fékk ekki stöðuna þótt hún væri með meiri menntun og starfsreynslu en sá ungi maður sem fékk stöðuna. Það var ekki aðeins skandall fyrir fornleifafræðina heldur einnig fyrir það auma fyrirbæri sem kallast Jafnréttisráð, sem gaf út þennan úrskurð er Margrét kærði stöðuveitinguna. Víðar er pottur brotinn í íslenskri stjórnsýslu en í fornleifamálum og minjavernd.

Nú er hinn norskmenntaði fornleifafræðingur BBB reyndar starfandi á Þjóðskalasafni Íslands, þar sem hún var nýlega ráðin fyrir hinn venjulega klíkuskap í íslensku þjóðfélagi. Þar var hún tekin fram fyrir miklu betur menntaða menn með doktorspróf og sérmenntun á því sviði sem auglýsti var eftir. Áður vann BBB á Þjóðminjasafni og fór þar mikinn þegar hún kom heim frá Noregi.  Hún hefur greinilega lært mikla norska stjórnsýslu og skriffinnsku, sem er góð að mörgu leiti. En við fljótum ekki á hyldjúpum olíupolli eins og frændur okkar og getum ekki leyft okkur þann vandlætingarhátt sem BBB hefur í frammi.

Gott er til þess að vita að BBB sé komin á önnur mið, og sökkvi sér nú niður í skjalbunka og hætti með tíð og tíma að velta vöngum yfir þeim mörgu afburðalélegu kollegum sem haldið hafa fyrir henni vöku meðan hún skrifaði "norsku" skýrsluna sína.

NORSK FORNLEIFAFRÆÐI

Hver er lausnin?

Hluti lausnarinnar er vitaskuld meiri úrvinnsla eins og BBB bendir á. En það á ekki að gerast á kostnað vísinda og fræða. Menn verða að muna, að úrvinnsla kostar meira en rannsóknirnar sjálfar og er mjög tímafrek. Það skýrir m.a. lélegar heimtur úr rannsóknum þar sem þúsundir forngripa hafa fundist, og þar sem stjórnendur vilja ekki rugla í fjölmiðla um grænlenskar konur og fílamenn.

Afhending forngripa til Þjóðminjasafns Íslands er ekki nauðsynlega besti kosturinn. Ég gaf lesendum mínum dæmi um það nýlega, þegar ég sagði frá því hvernig Þjóðminjasafn Íslands olli eyðileggingu forngripa sem ég og samstarfsmenn mínir við rannsóknirnar á Stöng í Þjórsárdal fundum árið 1984. Safnið skuldblindaði sig þá til að forverja gripina, en það gerðist aldrei. Þeir sem það áttu að gera sitja nú sem yfirmaður Minjastofnun Íslands og hinn nefndarmaður í nefnd undir Minjastofnun. Gaman væri t.d. að vita hve mikið slys hefur orðið á fornminjum úr rannsóknunum á Stóru-Borg. Mikið magn þeirra eyðilagðist fyrir ýmsar sakir á Þjóðminjasafni Íslands. Engar upplýsingar eru um það í skýrslu BBB. Skýrslan er því sögufölsun.

Óskir um að senda alla gripi á Þjóðminjasafnið eru eins mikið út í hött eins og aðgengi almennings og vísindamanna er nú að upplýsingum um fornminjaarfinn. Ekki er enn hægt að fá aðgengi að Sarpi, gagnagrunni þjóðminjavörslunnar, sem reyndar er fullur af villum. Er mönnum stætt á því að heimta þegar þeir geta ekki veitt? 

Nú eru fornleifamálin ekki lengur undir menntamálaráðuneyti og er það kannski vel. Óskandi væri að forsætisráðuneytið gefi þann möguleika að fornleifar og varðveisla rannsóknargagna geti farið fram í héraði. Afrit væri svo hægt að hýsa á einum stað.

Besta lausnin væri svo, að yfir- og fjárveitingarvaldið gerði sér grein fyrir þeim baktjaldaerjum sem yfirmenn Minjastofnunar Íslands (áður Fornleifaverndar Ríkisins) og Þjóðminjasafnsins (sem á greinilega ítök í skýrslu BBB) hafa átt í í áraraðir, sín á milli og við aðra. Kattarslagur þeirra er ekki neinum til gagns, og því fyrr sem nýir aðilar yrðu settir í þau embætti, því betra.

Sú miðstýring og kontrólmanía, sem BBB mælir með í skýrslu sinni, leiðir lítið gott af sér fyrir fornleifafræðina sem fræðigrein. Þannig mun hún verða mun dýrari í rekstri en fornleifafræðin er í dag. Á endanum fáum við samkvæmt þessu hjali BBB, sem þykist dómbært á vinnu annarra, að á Íslandi munu berast á banaspjót fígúrur eins og almáttugur yfirfornleifafræðingur Egyptalands, Zahi Hawass, sem ekki leyfir neinar rannsóknir nema að hann fái að vera með í öllu og koma fram í öllum sjónvarpsþáttunum og lýsa andstyggð sinni á gyðingum í leiðinni.

zahi1

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Reyndar er sarpur kominn á netið en ekki í endanlegri mynd http://sarpur.is/Default.aspx

Hrönn (IP-tala skráð) 28.5.2013 kl. 17:07

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Það var nú kominn tími til og hlýtur það að hafa verið nýlega, því ég hafði samband við Menntamálaráðuneytið um þetta og kvartaði yfir fyrir tveimur mánuðum.

Þá er það vígi loks fallið!

FORNLEIFUR, 28.5.2013 kl. 17:36

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Hrönn í fyrra fékk ég grundvallarupplýsingar um grip á Þjóðminjasafni og skrifaði um hann lærða grein hér á Fornleif:

http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1216738/

Ég sendi greinina til þeirra sem sendu mér upplýsingu, og hafa þeir nýtt sér það? NEI. Þjóðminjasafnið er mannað meira eða minna óhæfu fólki, sem týnir fornleifum og eyðileggur. Lestu þér til hér á blogginu. Hvar eru upplýsingar um eyðilögðu gripina frá Stöng í Þjórsárdal? Hvenær koma þeir í Sarp? Hvar eru þeir hundruðir gripa frá Stóru-Borg sem eyðilagðir hafa verið í vörslu Þjóðminjasafnsins????

http://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=318568

FORNLEIFUR, 28.5.2013 kl. 17:55

4 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ahugavert. Hef beðið eftir úttekt a þessu viðtali frá þér. Fannst það einfaldlega of einhliða og skandala hlaðið. Hef alltaf fyrirvara a þegar þessi spyrillinn fer að róta i sorpinu og hann brást ekki nú frekar en fyrri daginn.

Ragnhildur Kolka, 28.5.2013 kl. 18:30

5 identicon

Þetta var nú bara ætlað til upplýsingar, ég hef sjálf ekkert að gera með sarp eða þjóðminjasafnið.

Hrönn (IP-tala skráð) 28.5.2013 kl. 20:13

6 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Nei Hrönn, ég taldi nú ekki svo vera, því þá hefðir þú ekki sagt neinum frá því. En þakka þér fyrir að láta mig vita.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 28.5.2013 kl. 20:25

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þessi sjálfmiðaði sensationalismi BBB hefur nú þegar kallað fram málsókn um meiðyrði. Þetta verður vonandi til þess að þessi ormadós verði opnuð og sett fyrir allra augu að sjá.

Jón Steinar Ragnarsson, 28.5.2013 kl. 22:36

8 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Sigmundur Davíð ætlar að tala við eitt af vandamálum fornleifavörslunnar á Íslandi, Kristínu Huld Sigurðardóttir, sem nú er væntanlega gengin í Framsókn, eftir að hafa fæðst með félagsskírteini inn í Sjálfstæðisflokkinn og gefið Samfylkingunni undir fótinn á þegar kreppan skall á í fornleifageiranum. Stjórnmálamenn eiga ekki að stjórna menningarmálum, þeir eiga að styrkja þau. Ég trúi því að Sigmundur viti það og skilji.

Geri hann það ekki, lætur hann konuna sem bar aðalábyrgð á skrípinu Þorláksbúð og sem ætlar að byggja 700.000.000 dæmi ofan á órannsökuðum rustum í Þjórsárdal til að efla ferðamennsku, vaða uppi og valda meiri usla.  Sigmundur hefur látið hafa þetta eftir sér: Sigmundur bendir á að mikilvægt sé að hlúa að sögulegum minjum, einkum þegar ferðamönnum fjölgi hér á landi líkt og raun ber vitni. „Það er enn ein ástæðan fyrir því að gefa þessu aukið vægi,“ segir Sigmundur. Sigmundur verður að gera sér grein fyrir því að Þorláksbúð og 700.000.000 votir draumar Kristínar Huldar eru ekki aðhlynning sögulegra minja.

Þessi skýrsla BBB var gerð til að reyna að kasta rýrð á fornleifafræðinga og beina sjónum manna af hinu raunverulega vandamáli, sem er léleg stjórn Minjaverndar á Íslandi og þeirra verðbólgu sem komin eru í fornminjamál, t.d. vegna þess að farið var að fjöldaframleiða fornleifafræðinga með pungapróf við HÍ, sem margir hverjir eru áhangendur skussanna í minjavörslunni. Þess ber t.d. að geta að Minjavörður Suðurlands sem miðstýrt var af Kristínu Huld í Þorláksbúðarmálinu fékk stöðuna sem hann er í meðan Kristín Huld hafnaði fornleifafræðingi með doktorspróf, Margréti Hermanns- Auðardóttur.

Þegar menn velja það versta, fá þeir það versta ! (með allri virðingu fyrir núverandi minjaverði Suðurlands).

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 29.5.2013 kl. 06:07

9 Smámynd: FORNLEIFUR

Fyrrverandi Menntamálráðherra, Björn Bjarnason, greinir á bloggi sínu landsþekktu frá ónákvæmni í skýrslu BBB: http://bjorn.blog.is/blog/bjorn/entry/1300406/

Stór grein í tveimur hlutum sem ég og Bjarni Einarsson skrifuðum eitt sinn í Morgunblaðið er líka misnotuð af BBB (Brynju Björk)  sem plokkar út setningu sér til handagagns og það úr samhengi og andstætt heildarskoðun greinar okkar Bjarna.

Hvernig má það vera að hægt sé að koma framfæri þannig vinnubrögðum gengum ráðuneyti?

Jú sjáið þið, vinir þeirra sem sitja á bak við samsoðninguna, vinna í ráðuneytinu.

Nú eru fornleifafræðingar farnir að segja sig úr Félagi Fornleifafræðinga vegna yfirlýsingar formanns félagsins sem gerði sína persónulegu og tækifærisinnuðu skoðun á skýrslunni að skoðun alls félagsins. Spái ég því að sá félagsskapur sjái nokkra fækkun í sínum röðum á næstunni.

Svo er ekki að spyrja að því. Lygaveita RÚV er með áróður í sambandi við þessa skýrslu og segjir ekki allan sannleikann, frekar en fyrri daginn.

FORNLEIFUR, 29.5.2013 kl. 12:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband