Ísland í töfralampanum: 5. hluti

19_england_to_iceland_fornleifur_copyright.jpg

db_smederij1.gifFornbíó Fornleifs hamrar járnið meðan það er heitt, en til þess þarf kol. Kolagrafir fornar eru ugglaust margar þar sem myndin hér fyrir ofan var tekin.

Hér birtist nefnilega 19. skuggamynd Riley Bræðra úr syrpunni England to Iceland. Hún ber heitið Guides and Ponies. Glerskyggnan ber merki Riley Bræðra efst i vinstra horni. Enginn getur því verið í vafa um ágæti og gæði þessarar myndar, svo ekki sé talað um landið fagra sem hún sýnir. Þar sem birki og reyniskógum var eytt með glórulausri ofbeit þegar fólk var ekki að að farast úr hor og sauðféð úr gaddi.

Myndin er tekin af meistara Sigfúsi Eymundssyni, nema að hann hafi framkallað hana fyrir aðra. Að minnsta kosti er sama myndin og á skuggamynd Riley Bræðra varðveitt á þurrnegatífu í Þjóðminjasafni Íslands (sjá neðar) og er tileinkuð Sigfúsi (sjá sömuleiðis hér og hér). Sú ljósmynd kom hins vegar úr safni Péturs Brynjólfssonar ljósmyndara, sem var barnungur þegar myndin var tekin, en það hefur verið um 1882-83.

mynd_eymundssonar_jms.jpg

Í Grafningi eða nærri Laugavatni?

Á myndinni má sjá fjóra karla, leiðsögumennina (Guides), sem bendir einhvern megin til þess að útlendingar gætu hafa verið með í för. Myndin sýnir einnig fjögur hross. Áð er við stórt og gamalt reynitré. Þjóðminjasafnið upplýsir að myndin sé tekin í Grafningi og að maður sjái líka á í bakgrunninum niðri á flatlendinu. Mér sýnist hins vegar að þetta séu aðeins voldugri vötn en á, og ímyndaði mér, áður en ég sá dóm Þjóðminjasafns fyrir þeirra mynd, að hún væri tekin nærri Laugavatni. Ef einhverjir geta skorið úr um það væru upplýsingar vel þegnar. Er myndin úr Grafningi eða úr nágrenni Laugavatns?

Reynirinn "í Grafningi" hélt líklegast áfram að vaxa og dafna, því í byrjun 20. aldar var tekin mynd reyni einum miklum (sjá hér). Myndina tók Magnús Ólafsson og á bakhlið hennar er ritað: 10 álna hátt Reyniviðartré í Grafningi. Ætli það pár sé nú ekki frekast ástæðan fyrir því að myndin af reyninum hér ofar í "brekkunni" er tileinkuð Sigfúsi Eymundssyni og sögð úr Grafningi? En er þetta nú í raun og veru sama tréð og á myndunum tveimur hér ofar?  Hvar er þá fjallið í bakrunninum sem er á steríómynd Magnúsar Ólafsson, sem var tekin á tímabilinu 1905-1920?

magnus_lafsson_steroreynir.jpg

Spurningar vakna alltaf í Fornbíói Fornleifs. Maðurinn með tyrknesku húfuna (Sjá nánar um tyrkneska húfur á Íslandi í 4. hluta greinasafnsins um myndir úr syrpunni England to Iceland) virðist að dæma af flóttalegu augnaráðinu ekki vera með nein svör á reiðum höndum. Hvað með ykkur lesendur góðir? Þið eru nú flest nokkuð fróð um staðhætti.

Ég þakka ykkur svo enn og aftur fyrir komuna, en ef þið eruð með einhver læti í salnum, hagið ykkur eins og vitleysingar og hendið poppi eða pippi í sýningastjórann, þá hendir hann ykkur óhikað út. Bíóstjórar hafa mikil völd.

db_ogenturk1_1282286.gif

Ísland í töfralampanum 1. hluti

Ísland í töfralampanum 2. hluti

Ísland í töfralampanum 3. hluti

Ísland í töfralampanum 4. hluti

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Vilhjálmur.

Þekki ekki þetta reynitré sem á myndinni sést, en myndi halda að hún væri tekin mun austar, jafnvel austanvið Úthlíð.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 29.5.2016 kl. 08:31

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Brynjólfur hefur sennilega verið barnungur hundrað árum fyrr, en innsláttarvilla Fornleifs er fyrirgefin. Hlíðar Ármannsfells, ofan Bolabássvæðið, sýnist fáfróðum tuðara þetta vera. Ef ekki, brekkuskógur, rett ofan Brúarfoss. (Það kaupir enginn poppkorn af þessum tyrkja)

Neðri myndin er tekin í Borgarfirði, ofan Hraunfossa......getgáta.

Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 30.5.2016 kl. 01:02

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Gleymdi að þakka fyrir stórskemmtilega töfralampapistla. Þakka hér með.

Áfram góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 30.5.2016 kl. 01:04

4 Smámynd: FORNLEIFUR

Sæll Halldór Egill Guðnason,

19 hefur verið leiðrétt í 18, og Pétur er orðinn ungur aftur. Brynjólfur faðir hans var hins vegar forgamall. En hverju skipti ein öld eins og einhver írskur slagarasmiður söng - eða var það ár

Ég hugsaði líka með mér þegar ég skoðaði mynd Magnúsar Ólafssonar, að reynirinn hefði verið fyrir ofan Hraunfossa. Mér fannst glitta í fossana. Þarna eru enn reynitré.

Mig grunar einnig að þú hafir rétt fyrir þér með hinn reynirinn. Mynd þessi af Guides and Ponies kemur nefnilega á undan Lake Thingvallavatn, og á eftir Valley near Reynivellir (Kjós) samkvæmt sölulista Riley Bræðra. Það er rökrétt röð í ferðinni austur fyrir fjall.

Ég held heldur ekki að þetta sé mynd Sigfúsar, en það er annað mál. Grunar mig að Grafningurinn hafi legið hjarta einhvers á Þjóðminjasafninu nær en öðru og (víðsýnna) fólki.

Ef aðrir koma ekki með betri tillögur, verð ég að lýsa mig samþykkan góður áliti þínu, og ansa því ekki Gunnari Heiðarssyni í þetta sinn, þó hann sé nú ekki alvitlaus.

Góðar kveðjur, öllu syðri en þínar.

FORNLEIFUR, 30.5.2016 kl. 06:44

5 identicon

Sæll Vilhjálmur !

Myndin er spegluð og það villir fyrir.  Ekki svo að ég sé mjög kunnugur, en það greinielga horft yfir Úlfljótsvatn. Þingvallavatn og Sogskjafturinn við Skinnhúfuhöfða ber þar á milli.  Hæðarmunurinn er greinilegur. Reyniviðurinn fagri gæti verið utan í Háafelli í Grafningi og glittir í Ljósafoss við enda Úlfljótsvatns.  Þarna er líka nokkurt kjarr og gaman væri að skoða hvort þarna vaxi enn myndarlegur reyniviður, þó þessi sem myndin sýnir sé vaflaust löngu fallinn.

Kann að vera skemmd í myndinni, en mér sýnist engu að síður blasa við símastaur niðri á melunum.  Þá væri myndin líka talsvert yngri !!

Kveðja

Einar Sveinbjörnsson

Einar Sveinbjörnsson (IP-tala skráð) 30.5.2016 kl. 17:55

6 Smámynd: FORNLEIFUR

Sæll Einar Sveinbjörnsson

Þegar Þjóðminjasafnið snýr þurrkópíum sínum á sama hátt og skuggamyndinni var snúið hjá Riley Bræðrum, þá á ég erfitt með að trúa því að myndin sé spegilmynd. Allar aðrar myndir í skuggamyndasyrpunni snúa hárétt. En hver veit? Ekki finnst mér ég heldur kannast við Þingvallavatn á myndinni, en nú ætla ég að reyna að sjá hvað Google-jörð sýni.

Þetta eru heldur ekki myndir sem teknar voru með aðdráttarlinsu, og nei, það er enginn símastaur sjáanlegur á myndinni. Ég átta mig ekki á því hvar það ætti að vera, en myndin er tekin á fyrri hluta 9. áratugar 19. aldar, svo ég er alveg staur. Þetta hlýtur að vera einhver rispa.

Ég sá að Sigurður Sigurðsson var einnig að velta fyrir sér speglun á bloggi sínu (sjá hér).

Það er gaman að sjá að svona vandamál geri menn áhugasama um landið og þennan reynivið sem líklegast er því miður horfinn. Og er þetta sama tréð??

Ég hafði eiginlega einnig búist áliti Andra Snæs sem þekkir öll fjöll og firnindi og sérhverja hríslu sem vaxið hefur. En eitthvað segir mér að kaffihúsainnréttingar Reykjavíkur séu meira hans sérgrein. Mig langar nú helst að fara heim og fara á þá staði sem hafa þegar verið nefndir til að athuga þetta sjálfur, en nú er ekki þverfótandi fyrir ferðamönnum sem ganga örna sinna út um allt. Ætli verði ekki komin kirsuberjatré þarna úr fræi sem gengið hefur aftan af túrhesti sunnar úr álfunni.

FORNLEIFUR, 31.5.2016 kl. 05:31

7 Smámynd: FORNLEIFUR

Sæll aftur Einar,

ég skoðaði þetta á Google og ja.is. Ef þín tilgáta er rétt ætti maður að sjá Súlur, Ármannsfell og jafnvel Skjalbreið. Mér þykir því enn ólíklegra að þetta sé tekið frá Háafelli að Úlfljótsvatni og Þingvallavatni. Hvar er þá fjallasýnin á svo heiðskírum degi?

FORNLEIFUR, 31.5.2016 kl. 05:46

8 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Það er ástæða fyrir því að ekki sér til fjalla og hún er sú að það er lágskýjað þá stund sem myndin er tekin.  Sér vel í lága skýjabólstra á myndinn.  Algengt veðurlag að sumri á Suðurlandi þegar er hæg S eða SV-átt og þurrt að kalla.  Fjallsýn verður þá engin þó svo að skyggni sé annars gott.  Sjónlínan er annars beint á Hrafnabjörg sem ættu að blasa við ofan vi trjátoppanana eða svo ef ekki væri svona skýjað. 

"Símastaurinn" er rispa, en við fyrstu sýn líkist hún mjög símstaur eins og þeir voru með einum vír.

Hæðarmunur á milli vatnanna er svo greinilegur að á Suðurlandi kemur vart annað til greina en þetta sé Úlfljótsvatn og Þingvallavatn.  Það blekkir að sjónarhornið er yfir Ölfusvatnsvíkina (suðausturhluti vatnsins) með snjórnarhorni til norðuasturs.  Því sér ekki í stærsta hluta vatnsins.

Myndin er vissulega úr Grafningi, en þessi Þingvallavatnskenning fær ekki staðist nema aðeins svo að myndin sé spegluð !

Einar Sveinbjörnsson

Einar Sveinbjörnsson, 31.5.2016 kl. 08:50

9 Smámynd: FORNLEIFUR

Þessi ljósmyndafornleifafræði á reyniviðnum er orðinn nokkuð skemmtileg. Þú heldur fast í þitt Einar Sveinbjörnsson. En hvar eru hrjúf hraun þar sem þú telur að myndin sé tekin? Mér þykir nokkuð greinilegt, að það sé apalhraun sem sést hægra megin við tréð.

Einnig hefur borist tillaga frá Ágústi H. Bjarnasyni á tölvupósti sem bendir á að þetta geti verið "að því að hann haldi örugglega" reynihríslan í Hvammsurð í Fagradalsfjalli í Vatnsdal (Húnaþingi). Ég held alveg örugglega að svo sé ekki, því reynihríslurnar þar eru tvær og hafa aldrei verið stór tré, og eru þar að auki í mikilli skriðu, þar sem enginn annar kjarrgróður er. En birkihríslur má glögglega sjá á myndinni efst og er þar ekki skriða. Bjarni E. Guðleifsson skrifaði um reynihríslurnar í Fagradalsfjalli í Skógræktarritið 2. tlb. árið 2003. Þar má sjá ljósmyndir sem taka af allan vafa um að myndin hafi verið tekin í Húnaþingi.

FORNLEIFUR, 31.5.2016 kl. 13:49

10 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Góðir hálsar

Nú er gátan leyst, og það gerði Ágúst H. Bjarnason grasafræðingur, sem sendi mér þessa mynd með tölvupósti.

sig_l_1936_bildfellslundur_sent_4397.jpg

Allir höfðu örlítið rétt fyrir sér og einnig þeir sem seldu myndina á Bretlandseyjum. Þeir sneru henni ekki rangt eins og sumir ykkar héldu og gáfu réttar upplýsingar um svæðið.

Myndin snýr rétt! Hún er tekin í Grafningi, en hún er tekin í Bíldsfellslundi; Í Ársrit Skógræktarfélags Íslands árið 1937 (http://skog.is/skjol/Rit1937/) ritaði Hákon Bjarnason (faðir Ágústs H. grasafræðings) grein með myndum sem hann kallaði 'Ýmislegt'. Aftast í greininni á blaðsíðu 71 er mynd af reynitrénu í Bíldsfellslundi. Hákon skrifar við myndina:

"Einstök reyniviðahrísla í Bíldsfellslundi í Grafningi. Er í afturför vegna þess að fólk ristir í börkinn og sker hann út." 

Ljósmyndina af reyninum hefur Sigurður Ólafsson tekið, 23. ágúst 1936.

Við þökkum Ágústi H. Bjarnasyni fyrir og vonum að einhver hafi tök á því að planta reynihríslu honum til heiðurs í sumar.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 1.6.2016 kl. 11:45

11 Smámynd: FORNLEIFUR

Í sunnaverðu Bíldsfelli, horft til suðurs að Álftavatni

bildsfellslundur_1282585.jpg

FORNLEIFUR, 1.6.2016 kl. 11:47

12 Smámynd: FORNLEIFUR

Alþýðublaðið 24. ágúst 1944, bls. 5

Meira um reyninn í Bíldsfelli:

Enn ein himnasendingin frá Ágústi H. Bjarnason grasafræðingi, syni Hákonar skógræktarstjóra: Hér er það Hannes á Horninu (Vilhjálmur S. Vilhjálmsson). Vilhjálmur vissi margt. Ég man,eða var minntur á, að þegar Vilhjálmur S. kom í heimsókn til afa á Hringbrautinni hafi honum þótt það merkilegt að við sátum saman Vilhelm afi minn, Vilhjálmur tengdasonur hans, Vilhjálmur Örn og Vilhjálmur S. Konunglegra gat það ekki orðið á litlu krataheimili vestur í bæ.

FORNLEIFUR, 1.6.2016 kl. 11:48

13 identicon

Ég hygg að myndin sé tekin norðar en örin á kortinu sýnir, t.d. þar sem stendur Klifsskógur. Horft er til suðurs og sést í Sogið og Álftavatn. Á þrívíddarmyndinni af reyniviðartrénu er horft til austurs í átt að Búrfelli í Grímsnesi, sem sést í baksýn.

Sigurjón Páll Ísaksson (IP-tala skráð) 5.6.2016 kl. 20:18

14 Smámynd: FORNLEIFUR

Líklega hefur þú rétt fyrir þér Sigurjón. Ég vona bara að einhverjir klífi fjöll og finni afkomendur reynisins.

FORNLEIFUR, 7.6.2016 kl. 10:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband