Ísland í töfralampanum: 10. hluti
21.6.2016 | 12:19
Jæja ágætu gestir, nú er komið að síðasta hluta skuggamyndasýningar Fornleifs. Síðasta myndin af þeim sem Fornleifur keypti á Cornwall fyrr í ár verður sýnd og reifuð í dag.
Við vitum hvaða dag hún var tekin, hvar hún var tekin og hverjir tóku ljósmyndina - og við vitum sömuleiðis að þeir tóku tvær myndir af sama atburðinum. Þar fyrir utan vitum við hver framleiddi skuggamyndina.
En það er líka mikinn annan fróðleik af finna í þessari mynd. Hún er t.d. merkilegt fyrir mig, sem á að hluta til ættir að rekja í Kjósina og sýnir hvernig fólk, sem ég er ekki kominn af, var sumt vel í álnum í Kjósinni á 19. öldunni, og lék sér þar á eins konar þjóðbúningatískusýningum meðan fátæklingarnir á landinu þurftu að flýja til Reykjavíkur eða Vesturheims. Myndin sýnir vel eina af dellunum sem Íslendingar fengu á þeim öldum sem þeir voru mest hrjáðir. Þeir fóru að hanna sér þjóðbúninga. Skrýtinn veruleikaflótti það. Körlum þykir nú alltaf gott að konan sé sæt og góð, þó svo að illa áraði. Mín tilgáta er sú að konur gefist einnig síður upp en menn í hörmungum og harðæri. En venjulega voru það karlar sem stóðu fyrir hönnun á kvenbúningnum.
Reynivellir í Kjós, 11. júní 1882
Þann 11. júní 1882 var enn Kristni í landinu og því fermt í kirkjunni að Reynivöllum í Kjós. Svo vel vildi til að tveir erlendir ferðalangar voru boðnir til kirkju. Þetta voru þeir Maitland James Burnett og Walter H. Trevelyan, efnamenn sem stunduðu stangaveiðar á Íslandi og ljósmynduðu þess á milli fólk og fyrirbæri (sjá hér ef þið hafið þegar gleymt, eða lesið hina ágætu bók Ponzis frá 1995 Ísland fyrir Aldamót).
Skuggamyndin hér að ofan var líklega tekin þegar fólk kom úr kirkju og stillti sér upp vestan og suðvestan við kirkjuna til að láta útlendingana eilífa sig.
Teknar voru tvær myndir
Þegar skuggamynd númer 38 í syrpu Riley Bræðra í Bradford í Jórvíkurskíri var keypt af forngripasala fyrr á þessu ári, varð fljótlega ljóst að hún hafði verið framleidd af fyrirtækinu fljótlega eftir að hún var tekin árið 1882. Í sölulistum Riley Brothers var hún kölluð Coming from Church. Líklegast er að Burnett og Trevelyan hafa útvegað myndir sínar til þessarar framleiðslu, eða að Sigfús Eymundsson hafi framkallað myndir fyrir þá félaga, en síðan sjálfur séð um að setja mynd þeirra til framleiðslu í skuggamyndaröðunum sem hann lét útbúa með Þorvaldi Ó. Johnson (sjá hér). Enn annar möguleiki er vissulega sá að Sigfús hafi tekið myndirnar fyrir Burnett og Trevelyan að Reynivöllum, en um slíkt samtarf vitum við aftur á móti ekkert.
Við nánari samanburð á mynd Burnetts og Trevelyans frá fermingunni við mynd 38 í syrpu Riley Bræðra kemur í ljós að alls ekki er um sömu mynd að ræða, þó hún sé tekin af sama ljósmyndara og sama dag.
Þetta sést á ýmsu, en greinilegast þegar maður beinir sjónum að konunum fyrir framan kirkjuna við heysátuna fremst í myndinni. Þær eru allar á iði. Þegar myndin, sem birt er í bók Frank Ponzis er tekin stendur ung kona í dyrgættinni á kirkjunni. Á myndinni sem hefur verið notuð í skyggnu númer 38 er hún horfin úr gáttinni. Þess vegna má álykta að teknar hafi verið tvær glerplötur af fólkinu sem kom frá kirkju þann 11. júní 1882.
Tískusýning eftir messu
Konurnar á myndunum frá Reynivöllum eru mesta prýði myndanna. Flestir karlanna sjást ekki á skuggamyndinni, því þeir standa vestar en myndin nær, þar sem hún hefur verið klippt skorin til að passa á glerið í skuggamyndunum sem var 8,2 x 8,2 sm að stærð meðan að glerplöturnar voru ferhyrndar og lengri á einn veginn en hinn eins og gjarnt er um ferhyrninga.
Í frekar svölum júnímánuði árið 1881 sveipuðu konur sig með innfluttum skoskum teppum eða stórum sjölum sem Bretar kalla rugs eða scarves þegar þau voru minni, en Danir kalla þessi teppi plaide eftir mynstrinu sem er áþekkt því sem ofið tartan-vaðmál skotapilsa hefur. Teppi þessi voru kölluð sjöl á Íslandi og seldust mikið á 9. og 10. áratug 19. aldar.
Mjög athyglisvert er að skoða búninga kvennanna sem höfðu verið við guðsþjónustuna. Þær eru flestar klæddar í skautbúninga hannaða af Sigurði Guðmundssyni málara á árunnum 1858-60. Fjórar kvennanna eru hins vegar í 19. aldar faldbúningi með spaðafald og traf. Enn enn aðrar í upphlut eða peysufötum. Ein kvennanna í skautbúningi og ber skikkju eða slá bryddaða með hvítu skinni. Aðrar frúr bera ofin, köflótt teppi yfir herðarnar, líklega innflutt. Það var mjög kalt í veðri árið 1881-1882 samkvæmt heimildum, en ljóst er að konur í sveitum áttu enn ekki almennilegar kápur á þessum tíma líkt og karlar. Tvær konur eru hins vegar með með hekluð sjöl. Ein kvennanna lítur út fyrir að vera í kyrtli við skautið. Kyrtilinn hannaði Sigurður málari um 1870. Konan í kirtlinum er hugsanlega dóttir síra Þorkels Bjarnsonar á Reynivöllum. Hún eða systir hennar er í þessum kirtli á annarri ljósmynd þeirra Burnetts og Trevelyans sem er birt í hinni góðu bók Frank Ponzis Ísland fyrir Aldamót (1995).
Engin kvennanna er sjáanlega með garðahúfu/kjólhúfu (sjá hér). Slík húfa sést á mynd 13 í myndaröð Riley Bræðra frá Ísland. Hins vegar var einnig til mynd af konu í hátíðarbúningi, Woman in Holiday Dress, sem líklegast var skautbúningur. Sú mynd var númer 37 samkvæmt auglýsingum Riley Bræðra. Gæti hugsast að það hafi verið mynd af af prestsfrúnni að Reynivöllum, þar sem hún stóð ein við borð fyrir utan íbúðarhúsið að Reynivöllum (sjá mynd 95 í Ísland fyrir Aldamót).
Prestar og karlar
Karlarnir virðast miklu færri en kvenpeningurinn í kirkju þennan daginn. Kannski hafa þeir ekki haft eins mikla þörf á því að eilífast á ljósmynd og konurnar, og eigi eru þeir nú beint glæsilegir, karlarnir í Kjósinni
Mikið ber á að karlarnir séu með bowlerhatta sem hafa væntanlega komið í kaupstað frá Bretlandseyjum með teppunum sem konurnar keyptu sér sem sjöl. Greinilegt var að bresk eða réttara sagt skosk sveitatíska var að ryðja sér til rúms á Íslandi.
Burnett og Trevelyan komu oft við á Reynivöllum og voru vel kunnugir endurreisnarprestinum og Alþingismanninum Þorkatli Bjarnasyni (1839-1902) sem þar bjó með fjölskyldu sinni. Burnett kom einnig sumarið 1886 að Trevelyan látnum og ljósmyndaði fjölskyldu prestsins í bak of fyrir. Prestsfrúin, Sigríður Þorkelsdóttir (1835-1912), átti þessi forláta sólgleraugu sem gjörsamlega skáka augnbúnaði Fornleifs.
Látum þetta ágæta fólk setja punktinn að sinni og ef menn vilja fræðast meira um Reynivelli á 19. öld, þá er ágætt að horfa á þessa litlu fræðslumynd og stórmerku um Reynivelli i Kjós byggða á ljósmynd Sigfúsar Eymundssonar af bænum. Það er Inga Lára Baldvinsdóttir forstöðumaður myndasafns Þjóðminjasafns Íslands sem segir frá. Síðan ættu menn að lesa bók Frank Ponzis Ísland fyrir Aldamót (1995). Þannig geta þeir fengið sér góða sýnisferð aftur á 19. öld.
Myndin er úr bókinni Ísland fyrir Aldamót eftir Frank heitin Ponzi. Ljósmynd Maitland James Burnett 1886.
Þakkir:
Þakkir færi ég vinum mínum sagnfræðingunum Kristjáni Sveinssyni, mag.art. og Einari Jónssyni úr Skógum, sem einnig er löglærður. Þeir eru báðir fyrrverandi sveitadrengir með annan fótinn á 19. öldinni. Ég þakka þeim viðræður og upplýsingar um myndirnar; Sér í lagi Einari Jónssyni fyrir að greina mér frá myndum Burnetts og Trevelyans frá Reynivöllum í Kjós í hinni góðu bók Frank Ponzis Ísland fyrir Aldamót. Þó að faðir minn hafi útvegað eina mynd í bókina entist honum ekki aldur til að sjá bókina útgefna, en ég náði loks í eintak hjá ágætum fornbókasala á Selfossi sem tók sér ríflega greiðslu fyrir hana, enda bókin orðin afar sjaldséð. Vonandi vill einhver standa í því að gefa hana aftur út.
Ísland í töfralampanum 1. hluti
Ísland í töfralampanum 2. hluti
Ísland í töfralampanum 3. hluti
Ísland í töfralampanum 4. hluti
Ísland í töfralampanum 5. hluti
Ísland í töfralampanum 6. hluti
Ísland í töfralampanum 7. hluti
Ísland í töfralampanum 8. hluti
Ísland í töfralampanum 9. hluti
Þú varst að enda við að lesa Ísland í töfralampanum 10. hluta
Titlar ljósmynda í syrpu Riley Bræðra frá Íslandi. Myndir með bláum bakgrunni hafa fundist, hinar ekki.
Meginflokkur: Ljósmyndafornleifafræði | Aukaflokkar: Gamlar myndir frá Íslandi, Ljósmyndarýni, Menning og listir | Breytt 14.5.2021 kl. 11:21 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.