Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Det ville som sagt være meget beklageligt for skandinavisk arkæologi...

Miðhús halsring

Eitt af þeim einkennilegustu málum sem upp hafa komið í fornleifafræði á Íslandi er málið sem spannst um Miðhúsasjóðinn. Það var sjóður gangsilfurs sem fannst óáfallinn í jörðu austur á landi árið 1980, svo hreinn að það vakti undran Kristjáns Eldjárns og annarra. Á síðasta tug 20. aldar hélt virtur breskur sérfræðingur því fram að sjóðurinn væri að miklum hluta til falsaður. Aðdragandinn að rannsókn hans verður lýst mjög ítarlega síðar hér á Fornleifi.

Þjóðminjasafnið, sem upphaflega hafði beðið um rannsókn Graham-Campbells og borgað fyrir hana, vildi ekki una niðurstöðu Graham-Campbells og pantaði því og keypti aðra rannsókn, annað mat á sjóðnum hjá Þjóðminjasafni Dana árið 1994. Þjóðminjasafn Dana, Nationalmuseet, sendi svo frá sér skýrslu árið 1995, þar sem meginniðurstaðan var sú að silfursjóðurinn væri ófalsaður, en lýst var miklum vafa um uppruna nokkurra gripa í sjóðnum. Danska skýrslan var ekki gerð almenningi aðgengileg, heldur var skrifuð íslensk skýrsla sem ekki var samróma þeirri dönsku.  

Fyrirfram gefnar skoðanir 

Fljótlega kom í ljós, að danski fornleifafræðingurinn Lars Jørgensen á Þjóðminjasafni Dana var með harla ákveðnar og fyrirfram gefnar skoðanir á rannsókn James Graham-Campbells, sem hann lýsti við þá tvo íslensku embættismenn, Lilju Árnadóttur á Þjóðminjasafni og Helga Þorláksson hjá Háskóla Íslands, sem bæði voru vanhæf til að standa að rannsókninni að mínu mati. Það kom í þeirra hlut að falast eftir rannsókn Þjóðminjasafns Dana. Lars Jørgensen skrifaði 17.11. 1994:

Det vil som sagt være yderst beklageligt for skandinavisk arkæologi, hvis Prof. Graham-Campbel  [sic] antagelser er korrekte. Nationalmuseet vil naturligvis derfor meget gerne medvirke til en afklaring af de pågældende tvivlsspørgsmål omkring dele af skattens ægthed.

Í þessum orðum Lars Jørgensens felst  greinilega sú upplýsing, að hann eða aðrir hafi lýst því yfir, áður enn að rannsóknin hófst, að það væri mjög miður, ef álit James Graham-Campbells væri rétt.

Þannig byrjar maður auðvitað ekki óvilhalla rannsókn og dæmir sig strax úr leik. Lars Jørgensen hefur  harðneitað að svara hvað hann meinti með þessum orðum sínum, þegar nýlega var leitað til hans um það. Þó svo að honum hafi verið gert ljóst að þessi orð hans hefði verið hægt að lesa í þeirri skýrslu sem lögð var fram á Íslandi, sem var reyndar ekki skýrsla hans.

Jørgenssen þekkir greinilega ekki stjórnsýslulög í Danmörku. Hann hefur einnig neitað að segja álit sitt á skoðun helsta sérfræðings Breta á efnagreiningum á fornu silfri, en dr. Susan Kruse lét þessa skoðun í ljós árið 1995. Dr. Kruse gaf ekki mikið fyrir rannsókn Þjóðminjasafns Dana.

Vonandi neita menn á Íslandi ekki að skýra orð Lars Jørgensens þegar til þeirra verður leitað. Greinilegt er, að hann var annað hvort að endurtaka skoðun þeirra sem báðu hann um rannsóknina, eða að láta í ljós og endurtaka mjög litaða skoðun sína, eða kannski yfirmanns síns Olafs Olsens þjóðminjavarðar, áður en óvilhöll rannsókn átti að fara fram.

Miðhús uppgröftur 1
Þór Magnússon finnur silfur á Miðhúsum árið 1980. Úr frétt á RÚV.

 

Rangfærslur í skýrslu Þjóðminjasafns

Þetta mun allt þurfa að koma fram. Hvað segir t.d. prófessor Helgi Þorláksson? Fór hann með, eða sendi, silfrið til Kaupmannahafnar vegna þess að hann taldi að það væri vandamál fyrir skandínavíska fornleifafræði ef James Graham-Campbell hefði hitt naglann á höfuðið? Það yrði mjög leitt fyrir íslensk fræði ef Helgi vildi ekki svara, en hann hefur nú þegar verið spurður. Hann er reyndar ekki fornleifafræðingur og vill kannski ekki svara vegna vankunnáttu. En aðferðafræðirnar í fornleifafræði og sagnfræði eru ekki svo frábrugðnar hverri annarri. Í hvorugri fræðigreininni taka menn að sér rannsókn á úrskurðarefni með eins fyrirfram ákveðnar skoðanir og Lars Jørgensen hafði á Miðhúsasjóðnum.

helgi-thorlaksLilja Árnalars-joergensen

Helgi, Lilja og Lars. Hvert þeirra taldi, að það væri mjög miður fyrir skandínavíska fornleifafræði, ef James Graham-Campbell hefði á réttu að standa?

Ætli þau hafi í dag sömu skoðun á aldri silfursins, þegar ljóst er að efnagreiningar Þjóðminjasafns Dana "on their own as they stand now could not prove that [it is Viking Age silver]" eins og dr. Susan Kruse skrifaði 1995. Þáverandi formaður Þjóðminjaráðs, Ólafur Ásgeirsson þjóðskjalavörður, hafði þegar í júní tekið undir þá ábendingu James Graham-Campbells, að Susan Kruse yrði fengin til að annast frekari rannsóknir á sjóðnum. Menntamálaráðuneytið vildi ekki taka afstöðu til tillögu Ólafs, en bætti við þann 12. september 1994:

"Ráðuneytið telur þó koma til álita að leita til sérfræðinga á Norðurlöndum, þar sem sjóðir af þessu tagi hafa verið ítarlega rannsakaðir."

Sjóðir frá Víkingaöld í Skandinavíu höfðu aldrei verið efnagreindir ítarlega í heild sinni árið 1994, og nú er komið í ljós að Lilja Árnadóttir hafði þegar haft samband við Lars Jørgensen í apríl 1994, heilum 6 mánuðum áður en formlega var haft samband við Olaf Olsen, þjóðminjavörð Dana, í október 1994. Annað er reyndar upplýst í skýrslu hennar og Helga um rannsóknina. Þar er ekki sagt frá því að Lilja Árnadóttir og Þjóðminjavörður voru þegar í apríl 1994 búin að ákveða að rannsókn færi fram á silfrinu í Kaupmannahöfn. Skýrslunni er því einfaldlega ekki hægt að treysta; Í henni er greint rangt frá rannsóknarferlinu.

Er ekki kominn tími til að biðja dr. Susan Kruse að rannsaka silfrið og láta sér í léttu rúmi liggja hvað einhver lögfræðingur í Menntamálaráðuneytinu heldur og telur um rannsóknir á silfri á Norðurlöndum? Þessari spurningu er hér með beint til Þjóðminjasafns Íslands og Menntamálaráðuneytisins.

Hér má lesa skýrslu Þjóðminjasafns Dana. Niðurhal pdf-skrár tekur talsverðan tíma.

Hér er skýrsla og Helga Þorlákssonar og Lilju Árnadóttur, þar sem ranglega er greint frá rannsóknarferlinu á silfursjóðnum frá Miðhúsum.

1993 er ekki 1989 

Þess ber einnig að geta að ranglega er í skýrslu Helga og Lilju greint frá áhuga mínum á silfrinu frá Miðhúsum. Sagt er að ég hafi hreyft við því árið 1993, er Guðmundur Magnússon var settur þjóðminjavörður í leyfi sem Þór Magnússon var settur í. 

Ég var þegar búinn að hafa samband við Þór Magnússon þjóðminjavörð árið 1989 um málið, sjá hér. Rannsóknarsagan í skýrslu sagnfræðiprófessorsins og þjóðfræðingsins er eins og fyrr segir fyrir neðan allar hellur. Áhugi minn og aðkoma að málinu var vísvitandi rengdur með skýrslu þeirra. Áhugavert væri að vita af hverju.

Virðingarfyllst,

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson


Þorláksbúð stendur ekki á lagalegum grunni

Lögbrot
 

Fornleifur hefur látið rannsaka, hvernig staðið var að leyfisveitingu, þegar endanlega var leyft að reisa "tilgátuhús" með þakpappa og steinull á tóftum Þorláksbúðar í Skálholti. Ég hafði samband við yfirmann Fornleifaverndar Ríkisins, Kristínu Sigurðardóttur, og hún sendi mér þetta leyfisbréf frá fornminjaverði Suðurlands, Ugga Ævarssyni.

Það sem maður heggur eftir í þessu makalausa bréfi, sem er í andstöðu við allt er reynt var að efla vægi þjóðminjalaga á 10. áratug síðustu aldar, er þessi setning:

"Að öllu jöfnu leyfir FVR ekki að byggt sé ofan í tóftir en eins og málum er háttað í Skálholti hefur verið gefið leyfi til að byggja ofan í tóft Þorláksbúðar. Sú ákvörðun stendur á gömlum grunni, hefur sinn aðdraganda sem ekki verður tíundaður hér."

Þegar ég grennslaðist fyrir um, hver hafði "gefið leyfi áður en að leyfi var gefið" og á hvaða "gamla grunni" sú ákvörðun stóð, sem "hafði sinn aðdraganda sem ekki varð tíundaður" í leyfisveitingunni, fékk ég þetta svar frá Ugga Ævarssyni, sem nú þvær greinilega hendur sínar af þessu einstæða leyfi með því að fullyrða að: Ég sá aldrei formlegt leyfi til þess arna en á 10. áratugnum var rætt við Þjóðminjasafnið um slíka framkvæmd og þar á bæ voru  framkvæmdirnar ekki blásnar af þó svo að skriflegt leyfi hafi ekki endilega verið veitt. Eins og gengur þá eru slíkar ákvarðanir ekki alltaf rekjanlegar í kerfinu og satt best að segja veit ég ekki í smáatriðum hvernig á málum var haldið áður en málið kom inn á borð til mín 2009."

Þetta er með endemum og ungur embættismaður hefur hér greinilega lent í miklum vandræðum og verið undir mikilli pressu frá aðilum sem sitja honum hærra í kerfinu. Þeir bera ábyrgð á vandalismanum, ekki hann.

Mér er ekki kunnugt um að ákvörðun eins og sú sem ýjað er að í leyfisveitingunni hafi verið tekin á Þjóðminjasafni Íslands, í fornleifanefnd eða Þjóðminjaráði á tímabilinu 1992-1996. Þetta var ekki stefna safnsins og fornleifavörslunnar, þegar ég vann þar. Þjóðminjasafnið eða þjóðminjavörður hefur heldur ekkert með að ákveða svona framkvæmdir. Ákvarðanir á skjön við lög í kerfinu er satt best að segja vel hægt að rekja til upphafsins. Legg ég því til að Menntamálaráðherra geri það nú þegar, og láti fjarlægja Þorláksbúð við fyrsta tækifæri, því bygging hennar er greinilega lögbrot og afleiðingar vamms í starfi þeirra sem eiga að vernda fornleifar í landinu.

Einnig er ljóst, að gefið var leyfi til að reisa tilgátuhús sem byggði á gamalli hefð. Þakpappi og steinull voru ekki í húsum á 16. öld. Leyfið hefur því verið misnotað.

Greinilega má lesa bréf fornminjavarðar Suðurlands þannig, að Þjóðminjasafn Íslands beri ábyrgð á því hvernig leyfisveiting hans var úr garði gerð árið 2010. Hvernig sem því líður, þá verður hið rétta að koma fram í máli þessu, og Þorláksbúð þarf að finna annan stað, þannig að geðþóttaákvarðanir ráði ekki ríkjum og lögbrot séu ekki framin.


Upp á stól stendur mín kanna ...

Kanna Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Ljósmynd Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Margt dýrgripa er að finna á Þjóðminjasafni, sem enn hefur ekki verið skrifað um ellegar af vanþekkingu. Einn þeirra er þessi forláta kanna sem myndin er af. Henni var lýst svo í aðfangabók safnsins í lok 19. aldar:

Þjms. 7169
Vatnskanna úr messing, sívöl, 11,2 að þverm. um bumbuna, 4,2 um hálsinn, 8,5 um opið, sem er með kúptu loki yfir á hjörum við handarhald, sem er á einn veginn, en langur og mjór stútur er gegnt því á hinn veginn: 4 cm. hátt, sívalt og útrent kopartyppi er á lokinu miðju.  Uppaf löminni á lokinu gengur typpi til að opna með lokið, ef vill, um leið og haldið er í handarhaldið: það typpi er sem dýrshöfuð með stórum, uppstandandi eyrum. Stúturinn er einnig sem dýrshaus og er pípa fram úr gininu á honum.  Undir bumbunni er um 6,5 cm. hár fótur, 3,5 að þverm. en stjettin á honum 12,5 cm. Öll er kannan með laglegu útrensli og vel smíðuð, há og grönn og fallega löguð: h. er alls 33,3 cm. Útlend er hún vafalaust og líklega frá síðari hluta 16. aldar, eða varla yngri. Hún er frá Bólstaðarhlíðarkirkju og mun hafa verið höfð þar undir skírnarvatn
.

Ekki er hægt að fetta fingur út í svo greinagóða lýsingu, en aldurgreiningin er hins vegar alvitlaus. Uppruninn hefur einnig verið greindur rangt í skrám Þjóðminjasafnsins og þar er nú vitnað í Kirkjur Íslands 8. Bindi (bls. 125), þar sem kannan er sögð vera "þýzk" og frá síðari helmingi 16. aldar, þar sem „slíkar könnur sjást oft á málverkum frá þeim tíma". Er sú tímasetning fjarri lagi og verður það að skrifast á höfund þess verks.

Ímikilli fræðigrein frá 1975 lýsti A.-E. Theuerkauff-Liederwald: Die Formen der Messingkannen im 15. Und 16. Jahrhundert, grein til heiðurs Frau Prof. Dr. Lottlisa Behling. Í þessari lærðu grein kemur fram að málmkönnur þeirri gerðar sem varðveittist í Bólstaðarhlíðarkirkju séu flestar frá síðari hlut 15. aldar. Reyndar er ein nánasta hliðstæða könnunnar frá Bólstaðarhlíðarkirkju að finna á mynd á altaristöflu frá 1437 eftir Hans Multscher, sem sýnir Pílatus þvo hendur sínar. Altaristaflan er varðveitt í Berlín, á Stiftung Preußischer Kulturbesitz.

Hans_Multscher_-_Christ_before_Pilate_(detail)_-_WGA16325

Ekki voru þessar messingkönnur alltaf notaðar fyrir vígt vatn eða sem skírnarkönnur. Á heldri manna heimilum í Evrópu voru þær notaðar sem vatnskönnur eða til handþvotta. Þær voru iðulega seldar með fati úr sama efni, messing eða bronsi, svokallaðri mundlaug, en á Íslandi og öðrum Norðurlöndum voru slík föt gjarnan notuð sem skírnarföt. Könnur með svipuðu lagi voru einnig steyptar í tin.

Hans Multscher 2

Kannan úr Bólstaðarhlíðarkirkju í Austur-Húnavatnssýslu er úr messing, sem er blanda af  ca. 68% kopar og 32% zinki. Því minna sem zinkið er, því rauðleitari verður málmblandan. Þegar þessum grunnefnum er blandað saman í fyrrgreindum hlutföllum fáum við hið gyllta messing. Á miðöldum þekktu menn ekki zink sem málm (grunnefni) eða kunnu að vinna hann. Þeir bræddu „Galmei", málmstein úr Eifel fjöllum, inniheldur mikið zink, saman við kopar sem helst kom frá Harz- og Erzfjöllum. Ef koparmálmblandan samanstendur hins vegar af kopar og tini gefur það rauðleitan eða appelsínugulan lit á málmblönduna, og er sú blanda það sem flestir kalla brons.

Kannan frá Bólstaðarhlíðarkirkju er svokallað Dinanterí, þ.e.a.s. fjöldaframleidd messingvara frá Niðurlöndum, sem fékk nafn sitt af bænum Dinant í Namur í Belgíu, sem var þekktust niðurlenskra borga í Maas-dalnum fyrir framleiðslu á ílátum úr messing. Erfiðara er þó að segja til un hvort hún er ættuð frá öðrum borgum í núverandi Belgíu, eða hvort hún sé frá Vesturhluta Þýskalands, þar sem einnig var farið að fjöldaframleiða messingvöru til útflutnings á 15. öld. Þetta var eftirsótt vara og höfðu Mercatores de Dinant heildsölur og markaði í mörgum stærri borgum Evrópu og var sá þekktasti Dinanter Halle í Lundúnum.

Því er haldið fram, og réttilega, að framleiðsla messingíláta og sala þeirra hafa verið vagga kapítalismans í evrópskum viðskiptum. Meira um það síðar.

Hingað til lands hefur kannan án efa borist með Hansakaupmönnum, sem áttu mikil ítök í t.d. Dinant og sáu til þess að afurðir þessa iðnaðar bárust um alla Norðurevrópu og alla leið til Íslands. Saga messingiðnaðarins á miðöldum í Niðurlöndum og Norðvestur Þýskalandi er mjög merkileg, en allt of viðamikil til að lýsa henni frekar hér.

Því má bæta við að í Heynesbók AM 147 4to, sem er líklega frá 15. öld eða byrjun 16. aldar, er að finna mynd af konu sem færir liggjandi konu könnu, sem mjög líklega á að sýna messingkönnu, þar sem hún er gul á litinn. Sjá enn fremur hér.

heynes3

Upp á stól, stól, stól

stendur mín kanna.

Níu nóttum fyrir jól

kemst ég til manna

og þá dansar hún Anna.

Eins og dr. phil.og úraauglýsingafyrirsætan Árni Björnsson hefur bent á, fjallar þessi vísa alls ekki um jólasveina. Þeir eru að vísu margir um þessar mundir á Þjóðminjasafni, og hefur greinilega einn bæst í hópinn og heitir sá Aldavillir. Menn verða að kunna deili á því sem þeir eru  með í söfnum sínum.

Ítarefni:

Hatcher, J. 1973. English Tin Productions and Trade before 1550. Oxford.

ter Kuile, Onno 1986. Koper & Brons. Rijksmusuem Amsterdam. Staatsuitgeverij. Gravenhage (den Haag).

Teuerkauff-Liederwald, Anna-Elisabeth 1975. Die Formen der Messingkannen im 15. Und 16. Jahrhundert. Rotterdam Papers II, A contribution to medieval archaeology, (Ritstj. J.G.N. Renaud), Rotterdam 1975.

Teuerkauff-Liederwald, Anna-Elisabeth 1988. Mittelalterliche Bronze- und Messinggefässe : Eimer, Kannen, Lavabokessel.Deutscher Verlag für Kunstwissenschaft, Berlin.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 1983. Metallysekroner i senmiddelalderen. Hovedfagseksamensopgave, prøve e. Afdeling for Middelalder-Aarkæologi, Aarhus Universitet, maj 1983.


Tilgátuhús með þakpappa

Rugl
 

Við höfum fengið að vita að „Þorláksbúð", sú sem verið er að reisa ofan á friðlýstum fornleifum í Skálholti, sé tilgátuhús, það er að segja tilgáta um hvernig hús var reist og leit út fyrr á öldum.

Myndin hér að ofan er sögð sýna smíði „tilgátuhússins" á lokasprettinum. Þakið, sem er verið að ganga frá, á þó ekkert skylt við þök á húsum á fyrri öldum á Íslandi. Ég er hræddur um að íslenskum smiðum fyrir 500 árum hefði þótt fínt að komast í þakpappa og annað gott frá byggingavörumarkaði.

Þorláksbúð Gunnars Bjarnasonar er alls ekki tilgátuhús. Gunnar Bjarnason, og aðrir sem hafa staðið að þessum skrípaleik, hafa reist sér ærið lélegan minnisvarða í Skálholti. Þeir hafa leikið á allt það fólk sem trúir því að þetta sé tilgáta.

Kristín Sigurðardóttir forstöðumaður Fornleifaverndar Ríkisins, sem upphaflega leyfði byggingu tilgátuhússins ofan á friðlýstum fornleifum, boðar nú til fundar þann 6. janúar 2012:

Fornleifavernd ríkisins boðar hér með til fundar föstudaginn  6. janúar 2012, kl. 13.00 og verður umræðuefnið endurgerð, viðhald og varðveisla  fornleifa. Frummælandi verður Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins. Þeir sem hafa áhuga á að sækja fundinn eru vinsamlegast beðnir um að tilkynna sig á netfangið

fornleifavernd@fornleifavernd.is

Stefnt er að því að halda fundinn hér í kjallaranum að Suðurgötu 39 í Reykjavík. Reynist þátttakan fjölmennari en fundarherbergið í kjallarnum [sic] ræður við, munum við flytja okkur um set og tilkynna nýjan fundarstað með góðum fyrirvara.

Ég hvet menn til að fjölmenna á fundinn, og mótmæla ákvörðun um að leyfa svokallaða endurgerð á húsi frá miðöldum, sem búin er til úr efniviði frá BYKO, þakpappa og steinull, og að byggingin hafi verið reist ofan á friðlýstum fornleifum.

Rugl 3

Kjósum Kristján

Kjósum Kristján

Þegar ég var í Ísaksskóla (1968) hélt ég að ég myndi fá að kjósa í forsetakosningum. Þegar svo kom í ljós að það var ekki hægt, varð ég vitaskuld afar vonsvikinn. Ég hafði þetta á orði við Svenna vin minn í sandkassanum á róluvellinum okkar í Hvassaleitinu. Hann "kaus" Gunnar Thor eins og flestir í götunni, en ég ætlaði svo sannarlega að kjósa Kristján, meðal annars vegna þess að altalað var, að Gunnar væri bytta, en þó fyrst og fremst vegna þess að Kristján var ÞJÓÐMINJAVÖRÐURINN, og hjá mér var það það sama og vera í guða tölu.

Svo ég skríði nú aftur í sandkassa minninga minna, þá var ég leiður yfir því að geta ekki kosið. Ég vissi ekki alveg hvað það gekk út á, en ég var staðráðinn í því. Ég borgaði meira segja hundraðkall, sem ég átti, í stuðningssjóð Kristjáns Eldjárns, og á enn kvittunina, sem ég ætla að láta innramma við tækifæri. Sýni hana hér sem jarteikn.

Svo þegar Kristján sigraði í kosningunum, fór ég til að hylla hann á tröppum Þjóðminjasafnsins. Þar komst ég upp á tröppur. Þar biðu mín líka vonbrigði. Ég hrasaði á tröppunum og það kom gat á buxurnar mínar. En ég stóð þarna og hyllti forsetann fyrir aftan risavaxinn mann og sá lítið annað enn bakhlutann á honum, sem lyktaði frekar óþægilega. Ég sá ekki einu sinni forsetann.

Ég beit þetta þó í mig ... og loks sumrin 1981 og 1982 komst ég eins nálægt átrúnaðargoði mínu eins og hægt var. Þá var ég byrjaður í námi í fornleifafræði og það hafði Kristján frétt og boðaði mig á fund sinn, tvo sunnudagsmorgna, og talaði um heima og geima og þáði af mér mína fyrstu fræðigrein um fornleifar fyrir Árbók Hins íslenzka Fornleifafélags, félag sem ég hafði gerst félagsmaður í undir "lögaldri". Ég hef því miður ekki verið í félaginu síðan 1995, og veit ekki af hverju, en ætti líklega að ganga í það aftur við tækifæri.


Falskir Íslendingar í Þýskalandi árið 1936

Eismennschen

Árið 1936 steig á fjöl frekar fölleitur leikflokkur í München. Leikflokkurinn kom fram á mörkuðum, kabarettum og á leikvöngum á Oktoberfest, þar sem þeir klæddust eins konar fornaldarklæðum. Íslenskur læknir, Eyþór Gunnarsson (1908-69), (afi Péturs súperbloggara Gunnarssonar), sem um þessar mundir var staddur í Þýskalandi, nánar tiltekið við nám og störf á eyrnadeild Háskólans í München, brá sér á kabarett og sá sýningu þessara listamanna. Eyþór Gunnarssyni ofbauð sýningin svo, að hann fór daginn eftir í danska konsúlatið í München og setti fram kæru vegna þessa hóps loddara sem sögðu sig vera Íslendinga.

Dr. Eyþór greindi frá því að flokkurinn kallaði sig "Eismännschen" (sem má víst útleggjast sem ísdvergar). Hann lýsti listamönnumum sem stríhærðu fólki með rauðleit augu. "Die ganze Aufmachung und die Primitivität der Darbietungen ist geeignet, bei den Zuschauern das isländische Volkstum herabzuwürdigen" var haft eftir íslenska lækninum. Ræðismaðurinn danski lét þegar rannsaka málið og skrifaði skýrslu, sem send var danska sendiráðinu í Berlín og utanríkisráðuneytinu í Kaupmannahöfn.

Rannsóknin leiddi í ljós, að um var að ræða 6 manna hóp og fékk ræðismaðurinn mynd af hópnum. Í ljós kom einnig að hópurinn kallaði sig ekki Eismännschen heldur Eismenschen (Ísfólk). Á kynningarspjaldi var sagt að hópurinn kæmi frá "Islands hohem Norden". Kynnir sýningarinnar tilkynnti hins vegar, að hér væri á ferðinni "blómaviðundur" frá Reykjavík. Það kostaði 10 pfenniga að sjá sýninguna. Ræðismaðurinn lét sig hafa það. Hópurinn kom svo fram á einföldu sviði og lék "Sunnuleiki" (Sonnenspielen), þar sem töfruð voru fram blóm svo að lokum varð úr blómahafinu Reykvískur blómagarður.

Eftir showið spurði ræðismaðurinn fyrirliða hópsins, hvort hann eða aðrir meðlimir væru í raun Íslendingar. Sagði fyrirliðinn, að foreldrar hans og forfeður hefðu verið Íslendingar, en að hann væri sjálfur Austurríkismaður. Hann bætti því við að allir í hópnum væru albínóar. Er kynnir sýningarinnar var spurður um uppruna hópsins, fór hann í fyrstu undan í flæmingi, en sagði að lokum að maður mætti ekki búast við neinni þjóðfræðilegri sýningu - það sem boðið væri upp á væru "Listir frá Norðurhöfum".

Ræðismaðurinn, sem greinilega hefur brosað út í annað munnvikið þegar hann skrifaði skýrslu sína, bætti við: "Sýning þessara albínóa gæti vel hugsast að gefa áhorfendum með litla þjóðmenningarlega þjálfun ranghugmyndir, en hins vegar verður að líta þannig á málið, að það er mjög lítill trúverðugleiki í sýningunni og að hana ber frekast að flokka undir töfrasýningu." Ræðismaðurinn lauk bréfi sínu til sendiráðsins í Kaupmannahöfn með því að skrifa: "Skylduð Þér, þrátt fyrir það sem fram er komið, óska eftir því að ég hafi samband við tilheyrandi yfirvöld hér í bæ, þætti mér vænt um að fá skeyti þar að lútandi."  H.P. Hoffmeyer í danska sendiráðinu taldi ekki neina þörf að eyða meiri tíma ræðismannsins í erindi Eyþórs Gunnarssonar, sem móðgaðist yfir blómasýningu sex albínóa í München árið 1936.

Þetta á ekki að verða lærð grein, en þess má þó geta, að albínóar þóttu gjaldgeng viðundur fyrir sýningaratriði í fjölleikahúsum fyrr á tímum. Hér að neðan er mynd af "hollenskri" albínóafjölskyldu, Lucasie, sem sagðist vera komin af negrum frá Madagaskar. Hið rétta var að herra Lucasie var frá Frakklandi, kona hans frá Ítalíu og sonurinn var fæddur í Hamborg. Hinn heimsþekkti bandaríski sirkusmaður Phineas Barnum, flutti þau með sér til Bandaríkjanna árið 1857. 

Allar frekari upplýsingar um austurrískan albínóa, son íslenskra hjóna, eru hins vegar vel þegnar.

Fam. Lucasie

Þessi færsla birtist fyrst árið 2007 á www.postdoc.blog.is

Heimildir voru sóttar á Ríkisskjalasafni Dana.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband