Dorrit og Ólafur á Hanukkahhátíð í Reykjavík 2018
3.12.2018 | 13:57
Hin síunga og vinsæla Dorrit Moussaieff og karlinn hennar óframfærni, hann Ólafur Ragnar Grímsson, sem og t.d. þýski sendiherrann á Íslandi mættu í gær við fyrstu opinberu tendrun ljósa á Chanukka. Fyrsta ljósið var kveikt á risavaxinni Hanukkíu, áttaarma ljósastikunni, sem notuð er til að minnast ljóshátíðarinnar. Átta ljós verða tendruð á næstu dögum fram til 9. desember til að minnast þess er gyðingar vígðu aftur musterið sitt árið 164 fyrir okkar tímatal eftir að þeir höfðu sigrað Grikki sem um tíma höfðu gerst herrar í landinu helga.
Reyndar eru ljósin á ljósastikunni stóru rafmangsljós, sem er ef til vill viðeigandi á Íslandi,þar sem rafmang er enn ódýrt, því Ísland er ekki með í ESB. En við tendrun ljósanna minnast gyðingar ólívuolíunnar sem gyðingum tókst að skrapa saman eftir sigurinn gegn Grikkjum til að tendra stikuna góðu, sem reyndar var sjöarma (smáatriði), í Musterinu í Jerúsalem.
Myndin er tekin af vef Gyðinglegu miðstöð Chabad hreyfingarinnar á Íslandi (Jewish Center of Iceland).
Fornleifur óskar öllum ljóss í svartnættinu. Eftir Klausturkráardrukktúr útsendara myrkrahöfðingjans er um að gera að upplýsa borgina og landsmenn alla sem mest. Chag Hanukkah Sameach. Borðið Latkes og sufganiot og fagnið ljósinu í öllu myrkrinu.
Einhvern tímann verður ljósastikan í Reykjavík stærri en jólatréð á Austurvelli. Það verður að lyfta rabbínanum upp til að kveikja. Þessi mynd er tekin í Mumbai) á Indlandi.
Þessa mynd, af ljósahátíðareiðhjóli Chabad-manna í Kaupmannahöfn, tók ritstjóri Fornleifs fyrir fáum árum (2015) í Kaupmannahöfn við tendrun stikunnar á Ráðhústorginu þar. Þar dönsuðu menn sér til hita, en mér sýnist að slíkt hafi ekki gerst í Reykjavík.
Bloggar | Breytt 4.12.2018 kl. 09:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Meira um garðahúfuna
2.11.2018 | 10:13
Hér á Fornleifi hefur áður verið skrifað um garðahúfuna (sem einnig var kölluð kjólhúfa og tyrknesk húfa). Það var gert út frá myndskyggnu frá lokum 18. aldar í safni hans sem sýnir slíka húfu borna af Reykjavíkurmeyju.
Þetta höfuðfat fær ekki náð fyrir tískudrósunum í Þjóðbúningaráði, sem er vitaskuld mjög mikilvægt fyrirbæri í landi þar sem fólk segist ekki vera þjóðernissinnað.
Í byrjun þessa árs uppgötvaði ég fleiri heimildir um garðahúfuna, sem aldrei fékk náð fyrir sjónum þjóðbúningasérfræðinga á Íslandi.
Danski liðsforinginn, landkönnuðurinn, fornfræðingurinn og Íslandsáhugamaðurinn Daniel Bruun sýndi þessari húfu nokkurn áhuga og teiknaði hana í þrígang. Teikningar hans eru varðveittar í Danska Þjóðminjasafninu. Ég birti þessar myndir hér í von um að einhverjar þjóðernissinnaðar konur geri þessu pottloki hærra undir höfði, því það getur allt eins verið eldri hefð fyrir en t.d. skúfhúfunni. Garðahúfan gæti jafnvel haft miðaldarætur (sjá hér).
Fornleifur er á því að menn hafi hugsanlega farið að kalla húfu þessa garðahúfu, eftir garderhue, dönskum hermannahúfum í lífvarðaliði konungs.
Bjarnarskinnshúfur voru ekki einu höfuðföt lífvarðar konungs. Teikningin er frá 1886.
Þjóðbúningar | Breytt s.d. kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nú fjölgar Þórshömrum ört : Kennslustund í fornleifafræði
20.10.2018 | 18:57
Svo virðist sem að áður óþekkt bæjarrúst hafi fundist í Þjórsárdal. Hvort það er rúst sem áður hefur verið vitað um, skal ósagt látið, en ekki hefur verið gefinn upp staðsetning á hana opinberlega. Best er að hún fái frið.
Fréttir af fundi Þórshamarsins berast eins og eldur í sinu um heiminn allan. Nú síðast til Japan. Það er þó fyrst og fremst vegna þórshamarsins skornum úr sandsteini sem fannst er fornleifafræðingar fóru að róta á yfirborði rústarinnar sem hefur verið frekar stórt.
Flest rústanöfn í Þjórsárdal voru búin til og útskýrð/skírð og staðsett með mikilli óvissu á 19. og 20. öld, t.d. Brynjólfi Jónssyni og síðar af Jóhanni Briem og Gísla Gestssyni. Þegar bæjarrúst sem nú er nákvæmlega staðsett, gangstætt því sem áður var, fær nafn núlifandi Þjórsdælinga og er kölluð Bergstaðir eftir Bergi Björnssyni á Skriðufelli, er það góð lausn í stað vangavelta um staðarnöfn sem 19. aldar menn og voru að velta fyrir sér. Þess má geta að bróðir áhugafornleifafræðingsins Bergs, Björn Hrannar, vann eitt sinn við viðgerðir á Stöng með Víglundi Kristjánssyni hleðslumeistara og var hinn mesti dugnaðarforkur. Þeir bræður eru sannir Þjórsdælingar.
Ljóst er að þetta er rúst staðsett, svipað og margar aðrar rústir í dalnum, fremst við lítið fell. Hvort varðveisla rústarinnar er góð, er eftir að koma í ljós. Líklegt er a er mest allt upp blásið, rústað og runnið til. Kannski er einhver heillegur kjarni eftir undir uppblásturssprengdu yfirborðinu og því vert að rannsaka staðinn að hluta til til að sjá hvers kyns er.
Þórshamratal: Öxi var upphaflega Þórshamar
Ef fornleifafræðingarnir, sem nú vinna við fornminjaskráningu í Þjórsárdal fyrir sveitarfélagið þar, hefðu haft góða og almenna þekkingu á íslenskri fornleifafræði úr námi sínu í HÍ, vissu þeir, að Þórshamarinn eða Mjölnistáknið sem þeir fundu í mannvistarleifum á bæjarhólnum sem Bergur Þór Björnsson fann, er ekki annar Þórshamarinn sem fundist hefur á Íslandi líkt og haldið var kinnroðalaust fram í frétt sjónvarpsins/RÚV.
Hann er sá fimmti og jafnvel sá sjötti. Með þessari grein er ekki ætlunin að fjölga Þórshömrum Íslands á innan við hálfum mánuði. Þeir eru einfaldlega fleiri en tveir! Greininni er aðeins ætlað að vera fræðsla fyrir fornleifafræðinga sem greinilega fengu ekki nægilega góða menntun við Háskóla Íslands eða úr öðrum menntastofnunum. Vonandi nýtist greinin einnig öðrum sem nenna að lesa hana.
1
Fyrsti Þórshamarinn sem fannst á Íslandi er ugglaust sá hamar sem sést á líkneskinu frá Eyrarlandi í fyrrv. Öngulsstaðarhreppi í Eyjafirði. Ég tel persónulega að líkneskið eigi að sýna Þór með Mjölni og sömuleiðis fjarstæðu að velta því fyrir sér, að þetta sé mynd af Kristi að kljúfa kross.
Eyrarlands Þór (Þjms. 10880). Ljósm. Þjóðminjasafn Íslands.
2
Annar Þórshamarinn sem fannst á Íslandi er líklegast blanda af krossi og Þórshamri. Það er krossinn frá Fossi í Ytrihreppi í Hrunamannahreppi, sem ég tel persónulega að sé kross frekar en hamarstákn, þó svo að hann sé seldur sem minjagripur í alls kyns forljótum afmyndunum um allan heim sem þórshamar. Þjóðminjasafnið kallar hann hins vegar enn Þórshamar og því ber að fylgja því safnið er heimahöfn krossins. Í sýningarbæklingi frá 1992-93 fyrir stórar Víkingasýningar sem haldnar voru í stórborgum Evrópu, benti ég fyrstur manna á að krossinn ætti sér hliðstæðu í Noregi (sjá hér).
Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
3
Þriðji hamarinn, sem er úr silfri, fannst í bátskumli í Vatnsdal í Patreksfirði, og hef ég m.a. gert honum skil í grein í hinni góðu bók Gersemar og Þarfaþing sem Þjóðminjasafnið gaf út árið 1994 (sjá hér). Gripurinn er án nokkurs vafa Þórshamar.
Ljósmynd Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
4
Fjórði þórshamarinn sem fundist hefur, fannst á Stöng í Þjórsárdal árið 1992. Hann var skorinn út á enda beinprjóns og fannst í fyllingu grafar frá 11. öld og gæti hæglega hafa komist í hana úr gólfi byggingar sem var á Stöng, sem byggð var skömmu eftir landnám í lok 9. aldar.
Gröfin sem prjónninn fannst í var grafin í gegnum gólfið á þeirri byggingu (sjá grunnteikningu hér fyrir neðan). Upphaflega túlkaði ég hamarinn sem öxi, þótt samstarfsamaður minn einn hefði haft það á orði að prjónninn hafi upphaflega rétt eins geta verið þórshamarlíki. Hamarinn er skorinn út sem höfuð á beinprjóni. Greinilegt var að prjónninn hefði í öndverðu getað hafa orðið fyrir hnjaski þannig að af honum brotnaði og hann leit upp frá því út sem öxi.
Beinprjónn sem fannst á Stöng í Þjórsárdal árið 1992 og sem upphaflega hefur haft form Þórshamars. Prjónsbrotið var 6 sm langt er það fannst, en hefur styst nokkuð við forvörslu. Ljósmynd Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.
Eftir fund Mjölnis á Bergsstöðum, er ég nú orðinn fullviss í minni sök varðandi prjóninn sem fannst á Stöng 1992. Höfuð prjónsins var að því er ég hélt með axarlagi. En nú verð ég að breyta um skoðun. Það var brotinn Þórshamar sem fannst á Stöng. Form beinprjónsins frá Stöng, utan þess sem á vantar, er ekki alveg eins og annarra Þórshamra frá sama tíma á Norðurlöndum, en aftur á móti nákvæmlega það sama og Þórshamarsins frá Bergstöðum.
Best er heldur ekki að gleyma því að ég minntist á möguleikann á því að prjónninn sem fannst á Stöng hefði upphaflega verið Þórshamar í grein sem ég skrifaði fyrir hið víðlesna danska tímarit Skalk árið 1996 (sjá hér).
Prjónninn fannst í fyllingu grafarinnar sem gefinn hefur verið blár litur á þessari teikningu. Hann er vafalaust ættaður úr gólfi rústar sem merkt er með C á teikningunni, sem var hús byggt um 900. Ofan á það hús var reist smiðja (B) og ofan á smiðjunni var byggð kirkja (A) sem hefur verið fjarlægð að hálfu til að rannsaka hluta smiðjunnar.
Til gamans gert.
5
Fimmti þórshamarinn er nú nýlega kominn undir hendur fólks með hvíta hanska. Einnig var ranglega hermt í frétt á RÚV, að þetta væri eini þekkti þórshamarinn sem skorinn hefur verið í stein.
Hann er skorinn úr steini. Þórshamar hefur einnig fundist ristur í stein á Grænlandi (sjá neðar) og Þórshamrar hafa til forna einnig verið skornir úr rafi, sem er steingert efni. Einn slíkur hefur t.d. fundist í Hedeby (Haithabu) ásamt mynd af Þórshamri sem hefur verið ristur í stein (kléberg). Kannski er þessi fáfræði um Þórshamra lélegri kennslu í HÍ að kenna?
Bergsstaðahamarinn. Ljósm. RÚV
Þórshamrar fundnir í Hedeby í Slésvík.
6
Ef til vill er sjötti íslenski þórshamarinn kominn í leitirnar. Ég hafði í vikunni samband við Berg Þór Björnsson varðandi fund hans á rústinni í Þjórsárdal, sem er ekki langt frá Reykholti í Þjórsárdal, sem nú ber nafn hans. Hann sagði mér frá fólki frá Selfossi sem hafði fundið þórshamar við rústina í Sandártungu, sem var rannsökuð af vanefnum árið 1939. Hún er austur af bænum Ásólfsstöðum.(Reyndar hefur sorphaugur við rúsina verið rannsakaður nýlega og telur Gavin Lucas einn af kennurunum við HÍ í fornleifafræði að íbúar í Sandártungu hafi ekki verið eins miklir kotungar og Kristján Eldjárn hélt. Sandártunga fór fyrst í eyði á 17. öld).
Hafði ég samband við Ragnheiði Gló Gylfadóttur fornleifafræðing sem vinnur við fornleifaskráningu í Þjórsárdal á vegum einkafyrirtækisins Fornleifastofnunar Íslands. Ragnheiður sendi mér þessar upplýsingar um fundinn frá Sandártungu er ég hafði samband við hana:
"Ég fékk þennan grip í hendurnar fyrir viku. Og hann er ekki líkur öðrum þórshömrum sem ég þekki. Ég er enn að skoða hann, hann er mjög lítill og mögulega hægt að tengja hann við börn á einhvern hátt. En ég er að skoða gripinn og túlkunin gæti breyst í því ferli."
Það verður spennandi og fræðandi að sjá hvað kemur út úr rannsóknarferli Ragnheiðar Glóar Gylfadóttur við að greina meintan Þórshamar úr Sandártungu. Þann hamar hef ég ekki enn séð.
Kljásteinn úr klébergi sem á hefur verið ristur Þórshamar. Gripurinn fannst við fornleifarannsóknir í Brattahlíð. Ljósm. NM, København.
Þess ber að geta að aldursgreining með Þórshömrum er annmörkum háð. Menn voru til að mynda að krota Þórshamra á hluti eftir árið 1000 e. Kr. á Grænlandi. Við rannsóknir í Bratthlíð á 7. áratugnum fundu fornleifafræðingarnir kljástein úr tálgusteini (klébergi) sem á hafði verið krotaður Þórshamar. Annað hvort hefur listamaðurinn í Brattahlíð verið að krota hamar sem hann vildi smíða sér, eða að einhvern íbúa Brattahlíðar, sem flestir voru orðnir kristnir að því að talið er, hefur lengst eftir gömlu goðunum sínum, heima á gamla landinu (Íslandi). Tel ég síðari möguleikann líklegri en þann fyrri.
Því miður er prjónninn frá Stöng í dag ekki lengur eins og hann var árið 1993, er ég fann hann og ljósmyndaði hann áður en hann var afhentur til forvörslu. Hann er t.d. orðinn styttri en hann var er hann fannst. Hann var enn í kæliskáp á þáverandi forvörslustofu safnsins árið 1996 er mér var bolað úr starfi á Þjóðminjasafninu. Síðar, bæði 2004 og 2011, bað ég um ljósmyndir af prjóninum sem við fundum á Stöng, og fékk loks senda afar lélega mynd, sem ég get ekki notað til neins, því hún er ekki í nægilega góðum gæðum til að birta hana. Best er ekki að sakast við forverðina, þeir gerðu bara það besta sem þeir gátu á illa reknu safni. Mynd af af prjóninum frá Stöng hefur enn ekki birst á Sarpi (sarpur.is).
Efnið í Þórshamrinum frá Bergsstöðum
Þrjú sandsteinsbrot úr skálum eða kerjum, sem fundust í yngsta skálanum á Stöng árið 1983 og 1992. Brotin á efrimyndinni heyra saman. Lengra brotið lengst er 9,4 sm. Brotið á neðri myndinni fannst árið 1992 vestan við kirkjuna á Stöng kantbrot af skal/keri og er um 4.4 sm að lengd. Ljósmyndir Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
Efnið, þ.e.a.s. sandsteinninn í Þórshamrinum frá Bergsstöðum, sýnist mér sömuleiðis vera það sama og í skál einni mikilli sem fannst í búrinu á Stöng árið 1939.
Skál eða bolli úr fínkornóttu móbergi sem fannst í búrinu á Stöng árið 1939. Mesta þvermál bollans er 38,5 sm og hæðin er 14 sm. Myndin er úr bókinni Forntida Gårdar i Island frá 1943.
Þrjú brot úr grýtum úr svipuðu efni fundust við fornleifarannsóknir á Stöng árið 1983 og 1984.
Reyndar hafa einnig fundist á Stöng og víðar brot af írskum eða enskum sandsteini (Lithic Arenite) sem voru notaðir sem hverfisteinar og brýni. Þeir bera sama lit, en eru úr miklu harðari steini og innihalda kvarts-kristalla sem þessi steinn gerir ekki. Sandsteinninn í brýnunum og hverfisteinunum er miklu harðari og hentar ekki til þess að skorið sé í þá.
Ég leyfi mér því að halda að steintegundin í hamrinum sé úr nágranni fundarstaðarins og að efnið í hamrinum sé sandsteinsset sem steypst hefur inn í móberg við gos undir vatni eða ís. Líkt efni er t.d. í steinkistu Páls Biskups Jónssonar í Skálholti.
Þjórsárdalur var yfirgefinn í áföngum og lagðist ekki í eyði árið 1104
Þjórsárdalur á sér fullt af leyndarómum, sem almenningur virðist ekki hafa haft miklar spurnir af, þrátt fyrir mikið erfiði við að halda því í frammi. Ógurlegur ferðamannaiðnaðurinn sem nú tröllríður íslensku efnahagslífi á vissan hátt í að breiða gamlar dogmur úr.
Í stuttu máli sagt þá fór dalurinn ekki endanlega í eyði í miklu Heklugosi árið 1104. Þetta sýndi ég fram með rannsóknum á aldri ýmissa forngripa sem fundist hafa á Stöng í Þjórsárdal, fjölda kolefnisaldursgreininga kolefnisaldursgreiningum og afstöðu gjóskulaga á 9. áratug síðustu aldar. Síðan hafa aðrir fornleifafræðingar og jarðfræðingar komist að sömu niðurstöðu og ég en um leið reynt að rúa höfund þessarar greinar heiðrinum fyrir þessari tilgátu minni um áframhaldandi byggð í Þjórsárdal eftir eldgosið 1104, sem á sínum tíma var vægast sagt ekki öllum um geð (sjá hér, hér og hér).
Sumir bæir á Þjórsárdalssvæðinu fóru í eyði fyrir 1104, aðrir eftir gosið og enn aðrir, líkt og Stöng, rúmum 100 árum eftir að gosið átti sér stað. Staðsetning bæjanna hafði mikið að segja um hvort byggð lagðist af í gosinu 1104 eða ekki. Uppblástur í hluta dalsins var engu síðra vandamál fyrir frumbyggjana þar en eldgosin.
Annar leyndadómur Þjórsárdals er að íbúar í dalnum á mismunandi tímum voru harla náskyldir hvorum öðru, og voru það greinilega þegar í Noregi. Þetta kom árið 1993 fram við mannfræðirannsóknir dr. Hans Christians Petersen (sem nú er prófessor við Syddansk Universitet) í verkefni sem við unnum saman að. Miklar líkur er á því að íbúar dalsins hafi að verulegum hluta átt ættir að rekja til nyrðri hluta Noregs. Um það er hægt að lesa í ýmsum greinum hér á Fornleifi.
Í Þjórsárdal voru menn völundarsmiðir og það vekur furðu hve oft sömu gerðir af fornminjum finnast í dalnum með sama skreytinu (sjá hér). Margar rústanna í dalnum eru með sama lagi, hinu svo kallaða Stangarlagi, sem er þó hin yngsta gerð af skálum sem reistir voru í dalnum og líklega ekki fyrr en um og eftir 1100.
Þjórsárdalur | Breytt 21.10.2018 kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Hvenær leiðréttir Alþingi villur á vef sínum?
16.10.2018 | 09:11
Á vef Alþingis eru upplýsingar um alla alþingismenn. Einn þeirra hefur gefið rangar upplýsingar um sjálfan sig, eða aðrir um hann. Hér á ég við Davíð Ólafsson sem var þingmaður 1963-1967 og einnig fiskimálastjóri og seðlabankastjóri.
Glæstur ferill Davíðs er útlistaður á vef Alþingis, en þar er þó hvergi minnst á pólitískan feril hans sem meðlims Þjóðernishreyfingar Íslendinga.
Upplýst er að hann hafi fengið prófgráðu við háskólann í Kiel árið 1939.
Skjalasöfn í Þýskalandi finna engar upplýsingar um þá prófgráðu eða að hann hafi verið á lista yfir erlenda námsmenn við háskólann í Kiel.
Vitaskuld er ekki við Alþingi að sakast, ef þinginu hafa verið færðar rangar upplýsingar. Í Hagfræðingatali er því haldið fram að Davíð hafi verið Bac. sc. oecon. eða "bac[calaureus] sc[ientiæ] oecon[omicæ]. Það er bara einn galli á gjöf Njarðar við þessa upplýsingu, og það heldur stór. Ekki voru gefnar bakkalárusagráður í Þýskalandi að ráði eftir 1820 (þið lesið rétt: Átjánhundruð og tuttugu). (sjá hér og hér).
Óskandi væri að Alþingi tæki ekki þátt í hvítþvætti á íslenskum nasistum sem lugu til um menntun sína, Íslandi til vandræða á alþjóðavettvangi. Það þarf að gera betur hreint !
Myndin efst er af hálfóttaslegnum Davíð Ólafssyni. Hún var tekin á OECD-fundi. Engu er líkara en að Davíð hafi verið hræddur á meðal allra topp-hagfræðinganna sem þar voru staddir.
Íslenskir nasistar | Breytt 17.10.2018 kl. 04:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í minningu Janusz Korczaks og í tilefni af heimsókn Önnu Zalewsku
15.10.2018 | 12:32
Nú þegar Anna Zalewska (f. 1965) menntamálaráðherra Póllands hefur sótt Ísland heim, m.a. í tilefni af 10 ára afmæli Pólska skólans í Reykjavík, er kannski ekki alvitlaust að minnast þess að aðeins eru tvö ár liðin frá því að þessi kona neitaði því að Pólverjar hefðu átt nokkurn hlut að máli við fjöldamorð á gyðingum í þorpinu Jedwabne í Póllandi árið 1941. Hún hefur einnig neitað því að pólskir borgarar í bænum Kielce hafi eftir stríðið ráðist á gyðinga sem lifað höfðu af verstu hugsanlegu ofsóknir. Pólverjar myrt gyðinga á götum úti í Kielce. Maður getur lesið um málið hér á pólsku, en það er reyndar heimsþekkt.
Þessi afneitun er því miður hluti af nýrri sjálfsímynd og ofstækisfyllri þjóðerniskennd margra Pólverja og sér í lagi þeirra sem tilheyra ríkistjórnarflokknum PIS (Prawo i Sprawiedliwosc) líkt og Anna Zalewska gerir.
Vitaskuld geta Pólverjar á Íslandi ekki gert að því að mennta- og menningarmálaráðherra lands þeirra sé eins og hún er. Ég er ekki í vafa um að flestir Pólverjar á Íslandi séu fyrirmyndarfólk sem flúið hefur atvinnuleysi og efnahagslega eymd heimalands síns.Víða í Póllandi er ástandið ekki beint glæsilegt og ekkert í líkingu við þann furðuheim sem Anna Zaleweska sér fyrir sér í hyllingum.
Svo má vitanlega nefna að pólski laugardagsskólinn í Reykjavík er rekinn í minningu Janusz Korczaks. Korczak sem var læknir, gyðingur, en reyndar trúleysingi á síðari hluta ævi sinnar. Rétt nafn hans var Henryk Goldzmit. Skóli, sem starfar í minningu þessa mikla barnavinar, á ekki að geta kennt uppbelgda þjóðernisrembingssögu eins og heimur Önnu Zalewsku krefst, því fyrsta fórnarlamb ömurlegra Pólverja í Kielce árið 1945 sem réðust gegn gyðingum sem heim voru komnir fangabúðum, var vitaskuld barn.
Mig langar að benda Pólska skólanum í Reykjavík á að myndin sem skólinn notar af Karczak á FB-síðu sinni er í raun ekki af honum. Þessi mynd hér fyrir ofan er ljósmynd og sögulega réttari en sú furðulega, teiknaða mynd sem mikið er notuð í Póllandi og sem skólinn hefur valið að nota.
Nú þegar Anna Zalewska hefur notið gestrisni Íslendinga og hitti tvo ráðherra úr ríkisstjórn Íslands, Katrínu Jakobsdóttur og Lilju Alfreðsdóttur, er ekki úr vegi að minnast þess að síðan að kona þessi afneitaði staðreyndum árið 2016, hefur pólska stjórnin breytt lögum hins nýja lýðveldisins Póllands þannig að hægt er að dæma menn í 10 ára fangelsi m.a. fyrir því að halda því fram að Pólverjar hafi myrt gyðinga í Jedwabne og Kielce, eða verða það á að tala um pólskar útrýmingarbúðir fyrir slysni eða vegna vanþekkingar.
Anna og Lilja ræða saman. Flokkur Lilju hefur á stundum minnt lítillega á PIS-flokkinn í Póllandi, t.d. í umræðu um flóttafólk og útlendinga. Árið 2018 leitaði ég til utanríkisráðuneytisins til að freista þess að það gæti borgað fyrir boð fyrsta gyðingsins sem fæddist á Íslandi í tilefni af áttræðisafmælis hans. Engir peningar voru víst til í slíkt að sögn Lilju sem þá var utanríkisráðherra. En greinilega eru til fjármunir til að bjóða ráðherra sem afneitar þáttum af helförinni sem koma við kaunin á Pólverjum.
Þessi pólski ráðherra segir sagnfræðingum að þegja og hótar þeim fangelsisvist ef þeir leyfa sér að skrifa annan sannleika en þann sem ríkisstjórnin og PIS-flokkurinn vill heyra.
Æri finnst manni oft lýðræðið nútímans í Póllandi bera keim af alræði Sovéttímans. Margt af því fólki sem nú er við völd ólst reyndar upp á þeim tíma, sem skýrir kannski aðstæður og hugarfarið hjá sumum Pólverjum. En ekki er nú lýðræðið í hávegum haft hjá PIS-flokknum.
Óska ég pólska skólanum í Reykjavík til hamingju með að hafa verið til í 10 ár og að hann sé rekinn í minningu Janusz Korczaks! Haldið merki Janusz Korczaks á lofti í skólanum, en ekki því sem Anna Zalewska stendur fyrir.
Heræfingin í Þjórsárdal: Operation "Cuckoo on the Pole"
14.10.2018 | 10:31
Þinn tími er víst búinn, Katrín Jakobsdóttir. Þú ert algjörlega rúin öllum trúverðugleika. Nú síðast boðar þú til herleikja í Þjórsárdal með vinum okkar í varnarsambandinu NATÓ. RÚV sagði frá því í gær og nú er þetta í heimsfréttum.
Þau samtök eru vitaskuld nú orðið algjörar fornleifar og stunda alls kyns forneskjuhátt og fornaldarþrá með stríði og tilheyrandi hörmungum. Nýlega borgaði NATO t.d. fyrir kvikmynd í Litháen, þar sem gyðingamorðingjar á Lithaugalandi eru hylltir sem heiðursmenn og föðurlandshetjur sem börðust frækilega við Rússa eftir að gyðingamorðunum var lokið. NATÓ eru sem sagt samtök sem borga fyrir áróðursmyndir þar sem gyðingamorðingjar eru mærðir. Það var gert til að sýna hve hættulegur Pútín er.
NATÓ, sem nú á að hleypa á Þjórsárdalinn eins og brjáluðum bitrollum eftir heyleysi að vori, er líka á kafi í samvinnu við heri Úkraínu og senda sífellt lið til að aðstoða við uppbyggingu herafla þess lands, sem fyrr á árum stóðu sig einna best í aðstoð við herji Hitlers, t.d. í gyðingamorðunum. Lítið hefur augljóslega breyst.
Katrín Jakobsdóttir veit greinilega að strákar í herleik hafa gaman af víkingum og rúnum. Það hefur t.d. Azov-sveitin í Úkraínu, sem reynir á allan hátt að líkjast fyrirmyndinni, Waffen-SS í Þýskalandi. Þetta er hluti af her Úkraínu. Í þessum sveitum berjast nýnasistar frá Svíþjóð, Finnlandi og mjög líklega líka frá Danmörku. Noregur skipaði hins vegar Úkraínu að senda sinn skíthæl heim. Hann er eftirlýstur og unni áður fyrr Breivik hugástum, líkt og nokkrir Íslendingar gerðu víst líka. Meira um það síðar. Þar fyrir utan eru venjulegir hermenn frá Norðurlöndunum að vasast í Úkraínu.
Eins þið sjáið eru Úkraínskir vinir NATO með skildi sem þeir bíta í og skjaldarbólur að hætti ímyndaðra forfeðra sinna og merki Sveitanna minnir óneitanlega á fornt, norrænt búmark.
Hvað með tindátaleik í Dagsbragga?
Æi þessa sprengóða Kata ætti nú frekar að láta dátana ljúka sér af með tindáta í bragganum hans Dags. Það er spáð vondu veðri um næstu helgi þegar heræfingin á að fara fram. Dagur getur örugglega lánað þeim tölvuspil og Þjóðminjasafnið á örugglega nóg af rúnakeflum sem þeir geta æft sig á, litlu víkingarnir. Guðlaugur Þór Íslandskadett, maðurinn á bak við ruglið, getur svo verið með utanríkisbingó, þar sem skiltið af þýska sendiráðinu 1940 er í verðlaun og ein fálkaorða með tilheyrandi eimskipamerki frá Guðna bónda á Bessó (hann á alveg glás af fálkum í poka). Sérverðlaun fyrir heiðarlega framkomu í bragganum verður morðbúningur sonar fyrsta forseta íslenska Lýðveldisins. Pönnukökur á eftir í boði Ingibjargar Sólrúnar.
Til vara, ef engin úrkoma verður, er hægt að láta helvítis hermennina gera gagn og slíta upp helvítið puntbirkið sem búið er að planta ólöglega í aðra hverja rúst í Þjórsárdal á skjön við öll möguleg lög. Það er versti skæruhernaður sem farið hefur fram í dalnum, fyrir utan beit hrossa.
On the double, Kaptein Katrín!! Annars koma bara Pútín og Fornleifur í boði Soros. Hinn alræmdi skæruliðið Stefán Pálsson kemur einnig með rútufylli af grimmum VG-sveitum gráum fyrir pottum (Sjá hér), sem er afar nastí lið þegar að nærhernaði kemur. Varið ykkur.
Eða var þetta rúta af fullum VG-mönnum, Fornleifur?
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sambandinu endanlega slitið í Kaupmannahöfn í gær
11.10.2018 | 08:02
Áhöfn Fornleifs eins og hún leggur sig, bæði mús og menn, mætti í gær á ráðstefnu um íslenska Fullveldið, sem haldin var á nýbyggingu lagadeildar Hafnarháskóla á eyjunni Amákri.
Veðrið var eins og það er alltaf í Danmörku, 20 stiga hiti og sólskin, og sáu íslenskir gestir á ráðstefnu þessari, hvers þeir fóru á mis við með því að kveðja kóng sinn að mestu árið 1918.
Fyrirlestrarnir voru misjafnir og ýmislegt meira hefði mátt segja. En þegar menn hafa ekki nema 20 mínútur hver, er erfitt að segja allt sem manni langar og öllum líkar. Þeir sem ekki eru sérfræðingar, fengu hins vegar góða innsýn í aðdraganda sambandsslitanna árið 1918.
Líkt og ég greindi frá á þessu bloggi mínu í fyrradag fannst mér vanta danska hlið málsins sagnfræðilega séð, en þeir tveir dönsku sagnfræðingar sem töluðu og einn þeirra af hálfgerðum vanefnum, snertu ekki á því. Fyrirlestur sagnfræðilektors frá Hafnarháskóla sem ég nefndi hér um daginn var þó með ágætum.
Lagalegu hliðunum (þær eru alltaf margar) voru hins vegar gerð góð skil af afar nákvæmum, samviskusömum og einstaklega hæfum konum frá tveimur háskólum á Íslandi og þeirri þriðju frá Hafnarháskóla sem var hreint út sagt séní í ensku. Rektor Kaupmannahafnarháskóla sem var karlpungur á mínum aldri talaði um Surtsey, Heimaey og Eyjafjallajökul með sínu nefi, en virtist mest hrifinn af Íslenskri Erfðagreiningu, sem lá ef til vill næst hans þekkingu, sem er matvælaöryggi.
Kaffihlé og snittur
Guðni forseti heilsaði á mig í kaffihléi. Framsaga hans var því til sóma, persónuleg og fyndin að auki. Eins ræddi ég við Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðing, þegar komið var að snitteríinu og Rínarvínum í boði Íslenska lýðveldisins eftir ráðstefnuna. Gunnar Þór sagði mér og öðrum frá bók um sambandsslitin sem brátt kemur út eftir hann. Í henni mun hann kannski fyrstur sagnfræðinga framreiða eitthvað um danska þáttinn í ferlinu fyrir sambandsslitin, sem ég hef líka skoðað lítillega og undrast mjög að engin hafði birt eitthvað úr þeim skjölum sem ég hef lesið. Nú ræður Gunnar Þór bót á því með jólabókinni í ár, hann hefur farði í Ríkisskjalasafnið í Kaupmannahöfn. Danir undirbjuggu ýmislegt árið 1918, enda voru þeir hluti af þessu máli.
Í Köben í gær var líka mætt frú Vigdís fyrrv. forseti, Steingrímur forseti Alþingis (og enginn gekk á dyr þótt hann sæist á svæðinu). Utanríkisráðherrann okkar var þarna líka, enn og aftur í of þröngum jakkafötum (það verður einhver að fara að segja honum að þau passi honum ekki lengur). Honum hefur greinilega ekki tekist að ná af sér bumbunni sem hann reyndi að slétta þegar ég og hann hömuðumst á gólfinu hjá Hrafni og Ágústu í gamla daga. Þarna var meira að segja ræðismaður Íslands í Færeyjum, Pétur jr. Thorsteinsson, en samkoma þessi verður að hluta til endurtekin í Þórshöfn á dag.
Það var einstaklega vel að þessu staðið. Þingið var íslenska sendiráðinu og Hafnarháskóla til mikils sóma. Fullvalda Fornleifi ekki boðið
Ritstjóra Fornleifs var hins vegar ekki boðið á gala-viðburðinn í dönsku drottningalegu Óperunni í gærkvöld, þó ég hafi búið undir oki dönsku krúnunnar lengur en flestir Íslendinga - og þykir boðleysan furða þar sem ég er eini maðurinn í þessu landi, og þó lengi væri leitað, sem hefur tekist að ná út úr danskri ríkisstjórn afsökunarbeiðni fyrir löngu liðna atburði, þó það hafi aldrei nokkurn tíma verið ætlun mín. Það mál varðaði ekki Ísland og venjulega gefa Danir engar afsakanir fyrir mistök sín. Og þessi var sínu áhugaverðari, þar sem ég hafði ekkert farið fram á slíkt. Ég hjólaði bara með eintak bók eftir mig í danska forsætisráðuneytið því þáverandi ráðherra, Anders Fogh Rasmussen, hafði heyrt af henni og látið ráðgjafa sína segja sér að Símon Wiesenthal stofnunin væri farin að láta illa út af niðurstöðum í henni. Núverandi forsætisráðherra hefur hins vegar greinilega aldrei lesið bók mína, og er hún því komin í röð flestra bóka sem hann hefur átt við. Nýlega er hann minntist björgunar fólks undan nasistum og elskulegri samvinnu Dana við setuliðið þýska, nefndi hann ekki aukatekið orð um að danskir stjórnmála- og embættismenn á 5. áratug 20. aldar vísuðu flóttafólki úr landi og oftast beint í dauðann - sem forveri hans í starfi hafði beðist afsökunar á árið 2005.
Forsætisráðuneytið danska og þingið bauð 900 gestum á þessa skemmtum og íslenska sendiráðið fékk að afhenda lista yfir 500 íslendingum eða fólki i dansk-íslensku samstarfi, og þar að auki 80 sérvöldum ásamt maka.
Ég kemst líklegast aldrei á svo fína samkomu og það gerir svo sem ekkert til því jakkafötin mín standa mér meira á beini en James Bond dress Gunnlaugs Þórs Þórðarsonar.
Forsætisráðherrann danski kom ekki á ráðstefnuna á Hafnarháskóla í gær. Hann valdi að fara á tækniháskólann, þar sem kona mín vinnur, og þar sem miklu þjóðhagslegri atriði en löngu liðin sambandsslit við vitaómögulega þjóð voru díluð.
En hann var þó gestgjafi í óperunni í gærkvöld. Þar var líka mætt Pia Kjærsgaard sem fékk að heyra það á Íslandi í sumar vegna þess að hún vill losna við flóttamenn í dag. Margrét drottning og sonur hennar og tengdadóttir létu sig heldur ekki vanta. Svo flóttamönnum sé enn einu sinni blandaði í málið líkt og gerðist í sumar á Íslandi, þá hjálpaði afi Margrétar drottningar aldrei flóttamönnum, því embættismenn hans komu í veg fyrir slíkt og týndu viljandi bréfum frá fólki í vanda til hans. Frá því er m.a. greint með nokkrum dæmum í bók minni Medaljens Bagside (2005). Öll fögnuðu þau í gær að losna friðsamlega við Íslendinga fyrir 100 árum síðan, jafnvel þó þeir væru ekki helvítis flóttamenn.
Mig grunar eftir þennan fræðandi gærdag, að Danir hafi fyrst og fremst reiknað út, hvort það væri hagkvæmt fyrir Danmörku að veita sambandsslitin. Danir gera, eins og kunnugt er ekkert nema að þeir græði á því eða að dæmið fari að minnsta kosti ekki í mínus. Danir viðurkenna þetta sjálfir. Ég held að menn hafi reiknað það út árið 1918, að Ísland yrði Danaveldi aðeins til vansa og endalaus dragbítur á alla þróun. Kannski var það þess vegna að menn voru svo glaðir að losna við Ísland að mestu leyti árið 1918. Það var það sem menn kalla win-win situation í bönkunum í dag, áður en allt fer á hausinn.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 08:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fullveldisöldin stendur í hálsinum á RÚV og fræðimönnum
9.10.2018 | 08:43
Fullveldisöldin heitir þáttaröð í tíu hlutum sem nú er sýnd í Ríkissjónvarpinu. Mér var heldur brugðið eftir þrjá fyrstu þættina. Fyrsta þættinum var hleypt af stokkunum með mynd af Kristjáni IX, sem þulan kallaði Kristján X. Vinur minn einn sagði mér frá þessu og þótti ekki mikið til koma. Ekki uppgötvaðist þessi vitleysa fyrir sýningu þáttanna.
Mynd frá 1908 sem notuð er í fyrst þætti "Fullveldisaldar" við frásögn af hræðslu Íslendinga við að skipakomur yrðu fáar sem engar vegna stríðsátaka árið 1917.
Fyrst hélt ég, líkt og vinur minn sem sagði mér frá ruglinu á Kristjánunum, að það væri líklega einsdæmi og ergileg byrjunarmistök. En þegar ég hlustaði og horfði á fyrstu þrjá þættina fannst mér slysin harla mörg.
Myndir pössuðu t.d. ekki allar við tímann sem talað var um. Í frásögn um hernað í Evrópu og ótta Íslendinga við að þeir fengu ekki nægilegar nauðsynjar til landsins árið 1917 vegna kafbátahernaðar, er birt mynd (3 mínútur og 7 sekúndur inni í fyrsta þættinum). Myndin er hins vegar ekki frá 1917, heldur er hún tekin af mannfjölda á fundi um sambandslög við Miðbæjarskólann 2. júní árið 1908. Myndin sýnir undrandi og jafnvel áhyggjufullan mann. En maðurinn á myndinni var vitaskuld ekkert að hugsa um stríð eða skipakomur árið 1908. Slík handvömm í meðferð heimilda er kannski heldur ekki neitt stórmál, en það versta er að alls kyns meinloka og kredda læðist inn í annan hvern kapítula, þegar menn reyna að líkja fullveldisferlinu við nútímann á frekar billegan hátt í stað þess að lýsa honum út frá þeim tíma sem samningurinn varð til á. Ef það hefði verið gert hefði kannski ekki þurft nema þrjá eða fjóra þætti til að gera "Fullveldisöldinni" skil.
Guðmundur Hálfdánarson sagnfræðingur tekur fram í þriðja þætti, að Íslendingar hafi lengi litið á sögu sína sem umsátur erlendra manna. Þetta er vitaskuld rétt ályktun, en ekki er alveg sama hvernig maður notar það mat. Hann hafði vart sleppt orðinu fyrr en þáttagerðarmenn gerðu þetta að samlíkingu við nokkuð margt, þó enginn skyldleiki væri. Síðar í þættinum var hoppað fram í nútímann og því haldið fram að slík hræðsla, nánar tiltekið útlendingahræðsla og þjóðerniskennd væri skoðun sem ríkti meðal þeirra sem andsnúnir eru ESB. Þessir þættir eru eins og gott skólabókadæmi um það sem á ensku er kallað "the blaming game", sem er óþolandi fyrirbæri að Vestan (en jafnvel einnig alíslenskt). Það tröllríður mörgum fræðigreinum í nútímanum en ekki bara brjálaða forsetanum í BNA.
Ég man nú ekki betur en að tilraunir til að láta alla Íslendinga borga fyrir afhroð einstaklinga, glæpamanna í bankaleik, hafi sér í lagi orðið til þess að Íslendingar urðu fráhverfir ESB. ESB-sinnar á Íslandi var að finna í mörgum flokkum, en áhuginn meðal flestra flokka nema Samfylkingarinnar minnkaði þegar Íslendingum varð ljóst með hvaða hætti ESB ætlaði sér að rúa okkur til blóðs. Ef Ísland hefði þegar verið komið í þessi samtök fyrir hrun, hefðu landið ekki farið eins vel út úr hruninu og það gerði í raun, t.d. með hjálp Alþjóðarbankans og sumra nágrannaþjóða okkar, sem sumum Íslendingum þótti algjörlega andsnúir okkar þjóð - Því er haldið fram í þættinum að svo hafi verið. Atburðarrásin var vitaskuld ekki svo svart-hvít. Á 10 árum tókst mönnum að mistúlka hrunið. Því er kannski ekki mjög einkennilegt að Fullveldið standi í mönnum. En þurftu þurftu starfsmenn RÚV að blanda hruninu árið 2008 við Fullveldið árið 1918?
Leitt er að sjá slík vinnubrögð, og þó sagnfræðingar séu innan handa fyrir þá sem búa þessa þáttaröð til, er greinilegt að þeim hefur ekki tekist að bjarga þáttarhöfundum frá hættuna af að nota kjánalegar samlíkingar (anológíur) milli alls og jafnvel einskis, því í flestum tilfellum eiga þær samlíkingar sem ég hef séð í þáttunum engan rétt á sér. Þær eru rugl vegna þess að menn eru með of þykk samtímagleraugu á nefinu.
Vitaskuld hafa margar hættur ógnað Íslendingum á síðustu 100 árum fullveldisins, en flestar hafa þær nú verið að völdum Íslendinga sjálfra. Hrunið var algjörlega íslenskt, mennirnir sem ollu því víkingar, konurnar þeirra sætar og vatnið tært. Þessum "fríða hópi" hafði tekist að fullvissað sig um að hann hefði hlutverk á meðal þjóðanna og væri í fremstu röð. Menn keppast enn við að setja hrunið í samhengi við erlenda atburði og einstaka menn, jafnvel gyðinga sér í lagi, ef einhverjum skal kennt um.
Blessuð náttúran og ónáttúran
Þegar er búið að gera mikið úr ógn náttúrunnar í þáttaröðinni, en hún hefur nú sannast sagna í verið minnsta vandamál Íslendinga á sl. 100 ár. Lítilfjörleiki auðlindanna og lítill stöðugleiki þeirra vegna ýmissa þátta hafa verið helstu örlagavaldar Íslendinga,
Íslendingar hafa alla tíð verið á kanti uppgjafar. Því kemur ESB-löngun eftir sjálfskaparvítið í byrjun núverandi aldar ekkert á óvart. Peningavitið, hin nýja atvinnugrein sumra Íslendinga, reyndist algjörlega óhæf auðlind og í ljós kom að þeir sem unnu við hana voru alls ekki þeir snillingar sem flestir virtust halda og þeir hlutu að lokum jafnmörg ár í steininum, og fullveldið sem þeir settu næstum í sjálfheldu, hefur varað.
Í þeim harðindum sem "hrunið" var, var gömlu fólki ekki skipað að ganga fyrir björg (en þó næstum) eins og fyrr á öldum, heldur lá lausnin í einhverri ímyndaðri útópíusýn sem sumir hafa á ESB, án þess að nokkuð sé hæft í draumnum. Enn sér maður þessa óskhyggju hjá fólki sem sjálft segist vera fráhverft kapítalisma og þjóðerniskennd. En hvar eru nasistaflokkarnir sem við sjáum alls staðar í ESB-Evrópu og þjóðernisflokkarnir - á Íslandi? Þeirra er ekki þörf. Smávísir að þeim hefur reyndar myndast í kjölfar hrunsins með áherslu á útlendingahræðslu, sem er þó í raun ekkert minni meðal þeirra sem vilja ólmir ganga í ESB um leið og þeir úthrópa annan hvern mann sem rasista ef þeir eru ekki sammála.
Fullveldi og innilokunarstefna
Þjóð sem sem fékk fullveldi eftir stuttan kröfukafla sem var hafnað árið 1908, lét utanríkismál sín að mestu liggja í höndum Dana þar til 1940. Það var fyrst og fremst málamiðlun.
Ásteytingarsteina eins og fánann og hlutleysi Íslendinga í stríði fengu Íslendingar 1918 með því að fallast að að Danir færu með utanríkismálin í umboði Íslendinga. En sömu menn, í ýmsum flokkum , sem lentu samningnum, settu samt fram tillögur um að Danir skyldu ekki hafa sömu réttindi í landinu og Íslendingar, t.d. til veiða, nema ef þeir hefðu fasta búsetu í landinu. Sömuleiðis settu sömu stjórnmálamennirnir sem fengu fullveldi innflutningsbann til að styrkja krónuna árið 1924. Gengi krónunnar var líka hækkað. Þetta var árið 1924. Umheimurinn starði á hið fullvalda land sem furðufyrirbæri og töldu að Íslendingar óskuðu sér að fara aftur á steinaldarstig með einangrunartilburðum sínum. Betri kunnátta heimsins á andarpollinum á Íslandi, hefði leitt hins vegar leitt alheim í skilning um, að með tollalögum og verslunarhindrunum voru "sannir Íslendingar" að reyna að gera út af við útlendinga sem stunduðu verslun og viðskipti á Íslandi. Þeim var að mestu bolað úr landi með steinaldaraðferðum.
Síðan hafa slíkar hundakúnstir í íslenskri pólitík oft verið stundaðar með ýmsum tilbrigðum. En ávallt þegar mönnum þykir allt fara úrskeiðis er það allt saman öðrum að kenna, meira segja þeim sem töldu óðs manns æði að vaða inn í hið helsjúka ESB til að bæta fyrir afleiðingar hrunsins, sem að hluta til var ættað þaðan samkvæmt sama fólki sem svo fjálglega vildi ganga í sambandið. Já, það hefur margt furðulegt gerst á Íslandi sl. 100 ár. Mótsagnirnar voru margar.
Í sannleika sagt, þá hafa Íslendingar aldrei haft sérlega mikinn eða djúpan áhuga á því sem gerðist árið 1918 og þess vegna er það kannski svo erfitt fyrir sagnfræðinga nútímans að gera sig skiljanlega í þáttaröð RÚV og sér í lagi þegar þáttagerðamennirnir eru uppteknir af ruglingslegum og tilgangslausum samlíkingum milli byrjunar 20. aldar og þeirrar 21.
1. desember hvarf fljótlega í skuggann á 17. júní eftir lýðveldisstofnun, enda kalt og leiðinlegt að fara í skrúðgöngur um miðjan vetur. Krakkar fengu frí í skólum, og maður gat í Mogganum lesið sama viðtalið við sömu konurnar með 5 ára millibili, þar sem þær voru spurðar um hvernig þeim þætti að vera fæddar 1. desember árið 1918. Það var nú öll minningin. Upp úr 1980 fóru reyndar að birtast betri greinar um sambandsslitin fyrir almenning.
Hvað áhugaleysið á sambandsslitasamningnum og fullveldinu varðar, var svo komið á 9. áratug síðustu aldar, að samningurinn góði frá 1918 hafði týnst í Dómsmálaráðuneytinu. Dauðaleit var sett að stað og fannst samningurinn í loks í frumritinu. Að því tilefni sagði Jón Helgason, dómsmálaráðherra við hátíðlega athöfn árið 1984: Það þykir ekki hlýða að skjöl þessi sem svo mikla sögulega þýðingu hafa fyrir íslensku þjóðina séu geymd með öðrum almennum skjölum, og geti þannig horfið og gleymst í skjalamergð áratuga skjalavörslu. En aldrei birtist á því skýring af hverju samningurinn fór á vergang. Það heyrðist þó sú Gróusaga að embættismaður í ráðuneytinu hefði látið setja samninginn í gullramma og hafi farið með hann heim til sín. Ef rétt er, er það ekki Ísland í hnotskurn?
Af hverju var Scavenius ekki nefndur?
Kannski er það eftir að koma fram í þáttaröðinni að Erik Scavenius var utanríkisráðherra í Danmörku árið 1918. Scavenius, meðlimur stjórnmálaflokksins Radikale Venstre, var í mun um að ljúka samningum við Íslendinga árið 1918 einfaldlega vegna þess að hann óttaðist að landið færi undir yfirráð Breta í fyrri heimsstyrjöld, en einnig er mögulegt að hann hafi haft hliðsjón af framtíð Slesvíkur/Suður-Jótlands í Danska konungsríkinu. Um það var þó fyrst kosið árið 1920, svo maður getur verið í vafa um hvort Scavenius hafi nokkuð verið að velta Wilsonianisma (sjá hér) og Suður-Jótlandi fyrir sér í sambandi við Ísland.
Já, sama lítilfjörlega kenndin sem fær menn til setja samlíkingar á milli hrunsins árið 2008 og sambandslaganna var einnig til staðar hjá Dönum. Scavenius varð síðar mest þekktur fyrir samvinnupólitík (sem sumir kalla svo fínt "forhandlingspolitik" , þó kollaboration sé óefað eina, rétta orðið) sína við nasista í síðara stríði.
Viti menn: Til eru sagnfræðingar í Danmörku í dag, sem telja samvinnu við nasista það besta sem komið gat fyrir Dani í síðara stríði. Vegna þess að Danir græddu og Þjóðverjar voru blíðari við þá. Óneitanlega var Scavenius hrifnari af Þjóðverjum en Bretum, í báðum stríðum. Sömu dönsku sagnfræðingar nefna hins vegar ekki í bókum sínum að þessi samvinnupólitík Scaveniusar leiddi til þess að Danir vísuðu gyðingum og öðru flóttafólki úr landi á árunum 1940-43, þó þýska setuliðið færu í flestum tilvikum ekki fram á slíkt. Þar að auki veita þeir þessum manni og pólitík hans heiðurinn af því að það tókst að bjarga flestum dönskum gyðinga til Svíþjóðar. En það er reyndar ekkert annað en tálsýn sem búin hefur verið til á síðari árum.
Var þessi maður, Erik Skavenius, sem hér sést ræða vinarlega við Hitler, örlagavaldur sambandsslitinna, eða var almenn tortryggni hans í garð Breta stærsta áhyggjuefni hans árið 1918?
Í tilefni 100 ára afmælis Fullveldisins verður haldin þriggja tíma ráðstefna á morgun í lagadeild Hafnarháskóla. Þar verða ýmsir merkismenn frá Íslandi með allt of stuttan tíma fyrir framsögn á ensku en einnig kemur einn þessara dönsku sagnfræðinga, Jes Fabricius Møller, sem heiðra mun Scavenius og flokkinn Radikale Venstre. Nú í tengslum vi Sambandsslitin. Fabricius Møller er einn þeirra dönsku sagnfræðinga sem gjarnan úthrópar aðra sagnfræðinga sem leyfa sér að minnast á gyðinga sem fórnað var á altari hinnar frábærlega góðu dansk-þýsku samvinnu á þeim árum að Danmörk var hersetin. Hann kallar þá "móralista" (vandlætara) án þess að undirbyggja það.
Hann byrjaði á því í júní 2005, þegar sagfræðingur sem skrifaði ritdóma fyrir Politiken hrökk upp af þann 19. apríl 2005 er hann las nýjar uppgötvanir sem sýndu að dönsk yfirvöld höfðu vísað saklausu fólki úr landi í hendur nasista. Fabricius Møller var fenginn til að taka við keflinu og eftir að allir fjölmiðlar höfðu keppst við að lofa verkið sem sýndi fram á þessa slagsíðu danskrar sögu, hljóp Fabricius Møller fram og skeit bókina út án nokkurra raka og hélt því fram að bókin væri skrifuð af manni sem væri að leita að sökudólgum og sekt. Það fjallaði bókin sem hann hataðist út í alls ekki um, heldur um líf einstakra fórnarlamba þessara algjörlega tilhæfulausu brottvísanna sem er lýst í smáatriðum. Fabricius Møller hafði greinilega alls ekki lesið bókina áður en hann dæmdi hana. Hann er einn af þessum Dönum sem kippir sér ekki upp við þó gyðingar hafi verið sendir frá Danmörku í dauðann. Það veldur engum rispum á vellakkaðri sögu dansk-þýskra samskipta í síðari heimsstyrjöld. En brottvísun gyðinga og annarra til Þýskalands nasismans var fórn sem algjörlega var á ábyrgð danskra stjórnvalda sjálfra. Þá sögu vilja Danir helst ekki heyra og gleyma henni sífellt.
Stundum væri óskandi að menn eins og Jes Fabricius Møller, en sérstaklega í þessu tilfelli íslenskir sagnfræðingar, sem rita bækur um Fullveldið, sambandsslit og fánamálið, noti meiri tíma í dönskum skjalasöfnum en að éta dogmur og kreddur upp eftir hvorum öðrum.
Mér sýnist að það sé frekar sjaldgæft að íslenskir sagnfræðingar sem vinni með 20. öldina geri sér ferð til Danmerkur. Gaman væri að menn kynntu sér hvað menn í Utanríkisráðuneytinu danska voru að hugsa í Danmörku þegar þeir skutluðust til Íslands í júlí 1918; Eða hvað Scavenius hugsaði, ef hann hugsaði yfirleitt nokkuð annað en að blíðka Þjóðverja sem hann, líkt og stór elíta í Danmörku, hafði tröllatrú á. Nú er hægt að komast í mikinn hluta nefndarskjala Utanríkisnefndar danska þingsins sem stofnað var árið 1923. Sjaldan sér maður þó íslenska sagnfræðinga nýta sér upplýsingar um "móðurlandið" sem það lét stjórna utanríkismálum sínum fram til 1940. Menn virðast halda að allan sannleikann um áframhald Fullveldisaldarinnar fram til 1944, sé að finna í Reykjavík eða jafnvel í Bandaríkjunum. Þeir gleyma því að Danir voru aðal mótleikarinn.
Ríkisskjalasafnið danska er opið alla daga nema sunnudaga og mánudaga, en reyndar er lokað á laugardögum yfir sumartímann. Sjón er stundum sögu ríkari.
Sagnfræði | Breytt 10.10.2018 kl. 06:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Next stop, Hawaii Club
6.10.2018 | 10:00
Fornleifur hefur í síðustu færslum sínum verið að sýna verk ónafngreinds hollensks meistara sem kom við á Íslandi árið 1957. Þessa mynd telur Þjóðskalasafn Hollands vera frá því 1940 en áður sagði safnið hana vera frá 1957.
Breyting færslu 30.1. 2019: Rétt skal vera rétt
Myndin er ekki frá 1940, heldur fréttamynd sem send var vítt og breytt til bandarískra fjölmiðla í síðara stríði. Myndin var tekin árið 1942.
Myndin er líklegast tekin í Nauthólsvík Nauthólsvík að sögn Tryggva Bluensteins rafvirkja, en hann hefur safnað ýmsu fróðleik um hernámsárin á Íslandi sem hann birtir á skemmtilegri vefsíðu sinni sen kölluð er FBI.is .
Kanar voru með marga klúbba og þetta mun hafa verið Officers Club í Camp Kwitcherbelliakin (Quit-Your-Belly-Aching)í Nauthólsvík og hann kostaði örugglega ekki 750 milljónir á Dagsvirði. Þetta eru líka fínir pálmar fyrir hið nýja Vogahverfi.
Þessi pálmaklúbbur var mikið menningarbæli, þar sem offiserar og gentílemenni komu virðingarlega fram við konur úr íslenskum plássum sem vildu dansa og dufla við dáta. Hawaii var greinilega vinsælt þema og dreymdi menn um að Sámur frændi sendi þá þangað í stað veðurblíðunnar á Rosmhvalsnesi eða í Nauthólsvík. Hér má lesa um rosa Hawaiipartí á vellinu árið 1967. Það var löngu áður en Trúbrot spilaði graðhestarokk og íslenskar gógó píur dönsuðu á Midnight Sun klúbbi verndaranna. Sjón er sögu ríkari.
Það er líklega til of mikils mælst að biðja um minningar manna frá þessum pálmum skreytta bragga. Konurnar segja barasta ekkert, og muna enn minna. Íslensk börn sem urðu undir í nánd flugvalla vita það flest ekki. Menn fóru dálítið mannavillt við feðrunina á þeim.
Ljósmyndafornleifafræði | Breytt 30.1.2019 kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Déjà vu
5.10.2018 | 07:30
Eftirfarandi myndatexta mátti lesa á baksíðu Alþýðublaðsins sáluga sunnudaginn 13. júní 1965.
Gamli símklefinn á torginu horfinn
ÓÐUM er miðborgin að breyta um svip, gömul og virðuleg verzlunarhús úr timbri eru rifin og í þeirra stað rísa himinháir bankar og skrifstofubyggingar úr stáli og gleri. Og nú er gamli símaklefinn á Lækjartorgi horfinn, hann hefur staðið þarna í nokkra áratugi, en til hvers vita líklega færri, því síminn þarna hefur yfirleitt ekki verið í sambandi, en það er sama,turninn setti sinn svip á bæinn og er ekki laust við að Lækjartorg sé heldur sviplausara eftir að hann hvarf.
Ritstjóri Fornleifs var tæpra 5 vetra þegar þessi hræðilegi atburður átti sér stað. Hann man því lítið eftir þessum merka símklefa og þurfti sjaldan að hringja. Er ekki eins símóður og margir landar hans.
Þó hitnaði honum um hjartarætur þegar hann uppgötvaði að Hollendingurinn fljúgandi, sem kom til Íslands árið 1957, og sem greint var frá í færslunni í gær og fyrr, hafði tekið mynd af þessum merka klefa. Fornleifur, sem er eldri sál en ritstjórinn, telur víst að klefinn sé ættaður frá Svíþjóð. Hann hefur séð slíka klefa þar og hélt að þeir væru hernaðarmannvirki, til taks ef Rússarnir kæmu einn daginn.
Síminn á Lækjartorgi virtist þó ekki vera bilaður árið 1957 og stelpurnar í klefanum sýnast mér vera að hringja, eða voru þær bara flissandi í þykjustunnileik fyrir Hollendinginn, sem þeim þótti greinilega sætur.
Þrátt fyrir spár Alþýðublaðsins gæti þessi frétt hafa birtist nýlega, því enn er verið að reisa himinháa banka, skrifstofubyggingar og hótel úr stáli og gleri. Og samt er Lækjartorg enn líkt Lækjartorgi, og ungt fólk sem þar bíður verður enn ástfangið, þangað til það hverfur í hverfin sín með strætisvögnum Reykjavíkur sem nú heita bara því ómerkilega nafni Strætó.
Reykjavík var þarna á vordegi, eins og undarleg blanda af Múrmansk og New York. Blanda af draumum, hryllingi og norðanátt. Takið eftir sveitamanninum sem situr á bekknum til hægri. Það er eins og hann hafi brugðið búi í gær, eða sé að bíða eftir vagninum að Kleppi. Sá hann hvert stefndi?
Ljóshærði strákurinn glápir á undarlega útlendingin og grettir sig. Það gerir Fornleifur líka. Reykjavík er sem betur fer enn lítil, þrátt fyrir gler og stál. Gleðjumst yfir því, í stað þess að farast í græðgiskasti tengdu hinni eilífu, íslensku minnimáttarkennd.
Reykjavík er bara helvíti fín, gott fólk og spilltir stjórnmálamenn, eins og alltaf. Reyndar er búið að gera bankann í bakgrunninum að dómshúsi. Þangað mætti hífa borgarstjóra inn við tækifæri til að staga í götin í vösum þeirra. Því fylgir ábyrgð að stjórna borg, þar sem enginn símklefi er. En ef trúði og íhaldi tekst það, ætti mórauðum borgarstjóra með ólívukrullur að takast það líka. Það er nefnilega aldrei neitt eftirlit. Enn virkar síminn ekki og borgastjórinn verður upptekinn út kjörtímabilið. Hringið bara, ekkert svar...
Ljósmyndafornleifafræði | Breytt 29.12.2022 kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)