Beðið eftir Skussaráðuneytinu

waiting.gif

Það eru ekki bara skussar í embættisverki ESB, sbr. færslu bloggvinar míns Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar í gær. Á Íslandi er til nóg af þeim. Það er ekki bara ráðuneyti Hönnu Birnu sem hefur lokaða rifunni og sem engin svör veitir. Við stöndum frammi fyrir ríkisstjórn sem ætlar sér að valta yfir allar reglur og lög.

Í byrjun apríl skrifaði ég skrifstofustjóra Menningararfsskrifstofu Forsætisráðuneytisins til að fá ósköp einfaldar upplýsingar um starfsemi þeirrar skrifstofu. Ég hef enn ekki fengið svör. Jú, nú veit ég reyndar að skrifstofan er búin að endurskíra Þjóðmenningarhúsið. Safnahúsið á að sýna valin verk frá t.d. Náttúruminjasafni Íslands sem skrifstofustjóri Menningararfskrifstofu forsætisráðherra slátraði fyrir fáeinum árum.

Getur verið að skrifstofustjórinn, sem var ráðinn að þessari nýju skrifstofu viti ekki hvað hún hefur verið að gera sl. 5. mánuði. Eða er hún svo mikil með sig að hún telji sig geta brotið lög með því að svara ekki þessari fyrirspurn frá 3. apríl 2010 sem ég ítrekaði þann 9. apríl. sl.

"Sæl Margrét,

ég hef án árangurs, t.d. hér; http://www.forsaetisraduneyti.is/leit?q=Skrifstofa+Menningararfs, leitað að markmiðslýsingu, skilgreiningu og starfslýsingu fyrir Skrifstofu Menningararfs í Forsætisráðuneytinu. Værir þú ekki til í að senda mér allt það sem ákveðið hefur verið um tilurð og rekstur þessarar skrifstofu ráðuneytisins.

Ég sá á vefsíðu Forsætisráðuneytisins, að Hildur Jónsdóttir er sérfræðingur á deildinni. Ég tel næsta öruggt að hér sé komin sama konan sem hafði samband við mig út af Ikea vörulistum sem hún þýddi fyrir margt löngu, og sem stundaði nám um tíma í Árósum. Hver er sérfræðiþekking Hildar Jónsdóttur hvað varðar menningararf?

virðingarfyllst,

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, ph.d.
atvinnulaus fornleifafræðingur
Danmörku"

"The Simmonian Museum"

Nú fer ég að skilja sitt af hverju. Menningararfskontór Simma var svo upptekin í að búa til skyndilistasafn við Hverfisgötuna fyrir haustið að hann gat ekki svarað því hvað skrifstofan starfar. 

Hefði ekki verið viturlegra, þegar Hús íslenskra fræða fær ekki að rísa, að nota þetta góða gamla hús fyrir sýningu á handritaarfinum? Í stað þess er búið til skyndibitasafn með geirfugli, róðukrossum og skruddum í belg og biðu. Mini Simmonian safnið við Hverfisgötu, gjöriðisovel! Það breytist auðvitað ekkert við að gefa gömlum kassa nýtt nafn. Ráðuneyti verða að svara bréfum.

Sjá einnig fyrri færslu um málið: Menningararfspizzan


mbl.is Þjóðmenningarhúsið verður Safnahúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Logið að Páfanum í Rómi

olafur_ragnar_grimsson_pope_benedict_xvi_meets_uhfnnytup7el.jpg
 

Það vekur athygli mína, að forseti Íslands er sjálfur farinn trúa þeirri sögu að Guðríður Þorbjarnardóttir hafi verið fyrsta hvíta og kristna móðirin í Ameríku, og að íslensk kona hafi því skákað Kólumbusi í víðförli. Þótt Bill Clinton geti ekki lesið Njálu ætti Ólafur Ragnar að geta lesið sér til gagns.

Guðríður Þorbjarnardóttir var ekki fyrsta "hvíta" konan í Vesturheimi. Þótt hún hafi samkvæmt sögunum eignast Snorra son sinn og Þorfinns Karlsefnis þar, og einnig lýst því yfir að hún væri kristin, er hún ekki nauðsynlega fyrsta hvíta móðirin í Vesturheimi. Forsetinn segir í ræðu sinni, að Snorri hafa verið skírður á Vínlandi. Það stendur hvorki í Grænlendinga sögu eða Eiríks sögu rauða. Heldur ekki að Guðríður hafi farið til Rómar. "Hún gekk suður", en það er ekki þar með sagt að hún hafi verið í Róm. Reyndar var það ekki orðið sérlega algengt að menn gengu til heilagra staða á 11. öld. Sérstaklega ekki frá Norður-Evrópu. Sagan um Guðríði er vitanlega að mestu leyti tilbúningur.

En fyrir þá sem trúa bókstaf fornsagnanna okkar má upplýsa, að fyrsta hvíta konan í Ameríku var Freydís Eiríksdóttir, mikill vargur sem drap indíána og alla þá sem í vegi hennar urðu. Hún gæti vel hafa verið kristin og átt börn á Grænlandi.

Ég hef því miður aðeins skrifað um málið á ítölsku, svo Páfastóll gæti fengið innsýn í hvernig menn reyna að fegra landafundasögu íslenskra kvenna. Setjið ítölskuna í google translate og lesið (best er að þýða yfir á ensku).

Kvenvargurinn sem var fyrst hvítra kvenna í Ameríku var Freydís, og hún var líka morðingi.

Freydís, dóttir Eiríks rauða var einnig fyrsti rasistinn á Vínlandi. Hún myrti einnig "norrænar" kynsystur sínar þar vestra með öxi. Samkvæmt Eiríks sögu rauða þótti henni lítið koma til varna karlpeningsins gegn skrælingjum:

Freydís kom út og sá er þeir héldu undan. Hún kallaði: "Hví rennið þér undan slíkum auvirðismönnum, svo gildir menn er mér þætti líklegt að þér mættuð drepa þá svo sem búfé? Og ef eg hefði vopn þætti mér sem eg mundi betur berjast en einnhver yðvar." Þeir gáfu öngvan gaum hvað sem hún sagði. Freydís vildi fylgja þeim og varð hún heldur sein því að hún var eigi heil. Gekk hún þá eftir þeim í skóginn en Skrælingjar sækja að henni. Hún fann fyrir sér mann dauðan, Þorbrand Snorrason, og stóð hellusteinn í höfði honum. Sverðið lá hjá honum og hún tók það upp og býst að verja sig með. Þá koma Skrælingjar að henni. Hún tekur brjóstið upp úr serkinum og slettir á sverðið. Þeir fælast við og hlaupa undan og á skip sín og héldu á brottu. Þeir Karlsefni finna hana og lofa happ hennar.

freydis.jpg

Þannig var nú fyrsta, hvíta mamman í Ameríku. White trash ættuð frá Íslandi og morðóð þegar hún var á túr.

Mér þykir ólíklegt að Vatíkanið sé búið að viðurkenna Guddu, eins og Ólafur Ragnar telur, fyrst þeir eru ekki enn búnir að viðurkenna að Kólumbus hafi verið gyðingur. En kannski hafa þeir nú góða átillu til að gleyma Busa og kenna íslenskri herfu, Freydísi Eiríksdóttur, um allt sem miður hefur farið í Ameríku að völdum kirkjunnar og hvíta ma... hvítra kvenna.

Ítarefni og aukaupplýsingar til gamans:

Sjá einnig þetta. Margfrægt er einnig orðið að Dorrit Moussaieff mætti í Vatíkanið með kaþólskan prestahatt þegar Ólafur var að vinna í PR fyrir styttu Ásmundar Sveinssonar af Guddu, sjá hér. Nú má einni telja víst að frumgerð styttu Ásmundar sem sýnd var á Heimssýningunni í New York árið 1939 hafi verið komið fyrir kattarnef af Mafíunni. Mafían dýrkar, eins og kunnugt er, mjög minningu Kristófers Kólumbusa, sem þeir telja ítalskan. Get ég mér til að styttan liggi sundurskotin á botni Hudsonflóa, eða bundin um ökkla Albano Mozzarellos, mafíósa sem kastað var út af Brooklyn Bridge.


mbl.is Clinton réði ekki við Njálu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danska moldin geymir margt

untitled-duplicated-02.jpg

Það er mikil íþrótt í Danmörku að fara um með málmleitartæki um lendur bænda sem það leyfa og leita að fjársjóðum.

Í Danmörku finna málmleitarmenn nú orðið flesta þá málmfundi og sjóði sem bitastæðir þykja í Danaveldi og víðar. Talið er að flestir hópar og klúbbar málmleitartækjamanna séu heiðarlegt fólk sem skilar af sér verðmætunum á tilheyrandi safn, sem síðan rannsakar fundarstaðinn þegar uppskeru á akri bóndans lýkur.

Lög í Danmörku, svokölluð Danefælov (Dánarfjárlög), sjá einnig til þess, að þeir sem sjóðina finna fái eitthvað fyrir sinn snúð. Tekið skal fram, að leit að fornminjum á Íslandi með hjálp málmleitartækja er ekki leyfileg almenningi eða sérfræðingum nema að fengnu leyfi Minjastofnunar Íslands (áður Þjóðminjavarðar). Þess ber einnig að geta, að enn hefur ekki fundist óáfallinn silfursjóður í Danmörku, líkt og gerðist á Miðhúsum árið 1980. Ísland hefur greinilega sérstöðu á meðal þjóðanna, einnig þegar kemur að hreineika eðalmálma í jörðu.

Nýlega hafa fundist nokkrir merkir fundir í Danmörku með aðstoð málmleitartækja og alltaf má búast við að einhverju á Borgundarhólmi, eins og áður greinir, en þar voru menn ríkir á góða málma á Víkingaöld, enda hafa þar líklega búið margir víkingar og kaupahéðnar.

"Nýjasti" sjóðurinn sem málmleitartækin hafa fundið á Borgundarhólmi (Bornholm) er mjög sérstakur. Eftir að nokkrar myntir höfðu verið teknar upp af fjársjóðaleitarfólkinu í málmleitargenginu "Nissebanden", gátu fornleifafræðingar, sem kallaðir voru til, náð mestum hluta sjóðsins upp í moldarköggli. Hann er verið að rannsaka á Þjóðminjasafni Dana. Sjóðurinn, sem hefur verið grafinn niður nærri bænum og kirkjunni Vestermarie um 1080, inniheldur meira en 250 gullpeninga, silfurspennu, fingurbaug úr gulli og steypta silfurstöng.

Meðal myntanna eru gulldínarar sem slegnir voru á Egyptalandi árið 1040, þegar Al-Mustansir Billah (Abu Tamim Ma'add al-Mustanánsir billah) var kalífi í Kaíró. Hann komst til valda árið 1036, þá aðeins 6 ára gamall, og ríkti fram til 1094. Einnig fannst við Vestermarie gullmynt erkibiskups í Köln sem hét Annó II, og sem uppi var 1010-1075. Erkibiskup var hann frá 1056 til 1075. Anno II var tekinn í heilagra manna tölu árið 1153.

anno.jpg
Myntin sem slegin var í Erkibiskupstíð Annós II er af
gerð sem ekki hefur áður fundist eða þekkst.
 

Fornleifafræðingar á Borgundarhólmi viljaendilega klína "víkingastimpli" á sjóðinn. Ég tel það vera út í hött, ef yngstu gripir sjóðsins eru frá því um 1080. Fornleifafræðingar og danskir fjölmiðlar velta því einnig fyrir sér hvaða tengsl "víkingar hafi haft við Egypta". Engin, er svarið, en í Landinu helga, (Ísrael/Palestínu) þangað sem menn voru farnir að fara í suðurgöngur og krossfarir í lok 11. aldar, og Sigurður Jórsalafari fór 1107-1108, voru þessir dínarar gangmyntir og stundum löngu eftir að myntirnar höfðu verið slegnar.

Gulldínara frá valdatíma Al-Mustansir Billah kalífa er reyndar hægt að kaupa fyrir 40.000 - 80.000 krónur stykkið hjá góðum myntsölum í dag. Fyrir fáeinum árum datt fornleifafræðistúdent einn í Ísrael bókstaflega í lukkupottinn. Stúdentinn fann 108 gulldínara frá tímum Fatimída kalífatsins, sem Al-Mustansir Billah tilheyrði, sem hafði verið komið fyrir í leirkrukku í gólfi krossfarakastala í Arsur (Appolonia), norður af Jaffa. Kastalinn var notaður af krossförum á síðari hluta 13. aldar. Myntirnar í krukkunni voru frá tímabilinu 908 - ca. 1100. 

Nýlega fannst sömuleiðis forn sjóður á Fjóni sem innihélt leifar af hringspennu gylltri, sem einnig hefur á einhverju stigi verið sett steinum, áður en plógar aldanna hafa eyðilagt gripina í sjóðnum. Í sjóðnum var einni heilt innsigli Nicolais nokkurs Hwide og mun sjóðurinn vera frá því um 1300-1350, eða jafnvel síðar ef dæma skal út frá leturgerðinni á innsigli Nikolais Hvíta. Sjóðurinn hefur þó ekki verið rannsakaður til hlítar. 


Dýr er Drottinn

soluro_a.jpg

Nú er frekar ólögulegur, skagfirskur Jesús til fals fyrir 4,6 milljónir króna og hefur Þjóðminjasafnið forkaupsrétt. Mér finnst þessi Kristur nokkuð dýr miðað við gæði. En hvað veit ég?

Safnaramiðstöðin heitir fyrirtækið sem er með róðuna til sölu fyrir einhverja afkomendur bændakirkjueigenda sem geymt hafa þennan kross og þurfa nú líklega að kaupa sér betri bíl eða búa til sólstofu, frekar en að horfa á óvinsælan mann hanga á veggnum hjá sér.

Rómverkur stíll?

Safnamiðstöðin upplýsir þetta á smettiskruddu sinni:

"Einstakur róðukross úr Reykjakirkju í Rómverskum stíl.

Hann heldur sér vel þrátt fyrir að vera orðinn nokkurhundruð ára, róðukrossinn úr Reykjakirkju í Tungusveit. Gripurinn er frá 13.-15. öld, er 80 cm á hæð og 55 á breidd. Þessi einstaki gripur er nú til sölu hjá okkur og bíður nýs eiganda sem tekur að sér það verkefni að varðveita hann fyrir næstu kynslóðir."

Aðstandendur Safnaramiðstöðvarinnar vita greinilega ekkert hvað þeir eru að selja og eru búnir að búa til nýjan stíl. Listasagan mun vart þakka þeim fyrir það klámhögg. Vitanlega er átt við rómanskan stíl, en krossinn er reyndar alls ekki í rómönskum stíl, frekar en "rómantískum". En svona fágætur stíll gæti hins vegar verið ástæðan til þess að menn vilja fá heilar 4,6 milljónir króna fyrir Krist sinn. 

Það er gaman að skoða. hvernig þessi róða hefur þróast, því að Jesús úr Tungusveit er frá mismunandi tímum og er mismunandi vel byggður, sem og í misgóðum holdum.

Samsettur Kristur

Greinilegt er, að frá hálsi niður á tær er Kristur í gotneskum stíl þegar sá stíll var ungur. Þessi hluti Kristmyndarinnar er frá 13. öld og er listilega útskorin. Enn eru báðir fætur negldir hver fyrir sig líkt og var venjan í rómönskum stíl en þetta hélst stundum þegar gotnesk list var að ryðja sér til rúms. Engin sveigja er þó komin í hina mjóu fótleggi Krists, en lendarklæðið er farið að falla samkvæmt hinum nýja stíl. Brjóstkassi Guðssonarins er ber og magur,  og það sést sérhvert rifbein og þjáningin þar á milli. Þarna er kominn hin gotneska líkamsbygging hins líðandi Krists.

Svo gerist eitthvað furðulegt. Handleggirnir á hinum mjóleggjaða og mergsogna Kristi fyrir neðan háls eru eins og handleggir líkamsræktarmanns og nærri því eins langir og fótleggirnir. Ljóst er að þessu armar eru ekki frá 13. öld, en öllu heldur frá 16. eða jafnvel 17. öld. Lúkurnar eru lokaðar en það sést sjaldan á Kristi á miðaldakrossum. Á 17. öld hefur einhver snikkari líklegast splæst saman handleggjalausum Miðaldakristi og þessum stæltu, heimasmíðuðu handleggjum sem hann hefur tálgað til, og ugglaust haft vel vaxinn Skagfirðing sem fyrirmynd og líklegast sjálfan sig.

Miðað við stærð höfuðsins á þessum Skagfirska Kristi þykir mér líklegt að það það sé einnig frá 16. eða 17. öld.  Sjálfur Krossinn er hugsanlega frá sama tíma og Jesúslíkneskið fyrir neðan háls, en krossinn er hins vegar of stuttur.

Ég hef litað krossinn, svo menn geri sér grein fyrir hinum mismunandi hlutum hans.

Fyrst þegar ég sá þennan samsetta Krist hugsaði ég, að kannski væru einhver brögð í tafli. Það er hins vegar erfitt fyrir mig að segja til um það án þess að sjá krossinn með eigin augum.  Ég vil ekki gefa 4,6. milljónir til þess, og ekki fyrir nokkurn kross. Ég set ekki verð á slík verkfæri, enda bannar siðfræði fornleifafræðingsins mér slíkt.

Gripurinn er að mínu mati gott dæmi um nýtni manna fyrr á öldum og fátækt. Miðaldalíkneski sem hefur verið í lamasessi hefur verið að mínu mati verið lagfært og notað áfram í lúterskum sið. Þess vegna hefur þessi róða menningarsögulegt gildi og ætti að vera á safni.

En dýr þykir mér þessi samsetti Jesús. Kannski getur seljandi fengið meira í Evrópu, þar sem menn gefa góðar evrur fyrir allt og selja jafnvel ömmu sína.

Michelangelo á 500 milljónir, íslenskur Sveitakristur á 4,6 millur

Árið 2008 keypti ítalska ríkið útskorna Kristsmynd eftir Michelangelo fyrir hálfan milljarð króna. Miðað við að listamennirnir á bak við Krist frá Reykjum í Tungusveit voru þrír óþekktir menn, er verðlagið á Hverfisgötunni kannski heldur dýrara en í stórborgum Evrópu. 

Verðlag á krossum á Íslandi hefur verið sett mjög hátt. Lesendur mínir muna kannski eftir "krossinum", eða réttara sagt ólögulegum sandsteinshnullung sem sendur var á Kristnisýningu í Þýskalandi, þótt alls endis væri óvisst hvort um kross væri að ræða.


Finnar á Íslandi

ellen_andersdatter_labba_1233529.jpg

Finnar á Íslandi  kallar norski fornleifafræðingurinn Dennis Moos mastersritgerð sína við háskólann í Tromsø. Undirtitillinn er hins vegar á norsku "Samiske spor i det islandske arkeologiske materiale fra landnåmstid".

Það er mikill fengur af þessari ritgerð sem er góð viðbót við fyrri skrif þeirra fáu fornleifafræðinga sem velt hafa fyrir sér hlut Sama í landnámi Íslands. Ég er einn þeirra sem það hafa gert, og hefur Dennis Moos verið svo vænn að koma inn á þátt minn í ritgerð sinni, sem og niðurstöður annarra fornleifafræðinga sem hafa haft rænu á að hugsa til Sama í öllu því hjákátlega Keltafári og tækjatrú sem tröllriðið hefur umræðu um landnám Íslands, m.a. nú á síðustu árum vegna ofurtrúar á DNA-rannsóknir á Íslendingum nútímans.

Ég er persónulega á þeirri skoðun að flestir landnámsmanna á Íslandi hafi komið úr nyrðri hluta Noregs og að sumir þeirra hafi verið blandaðir frumbyggjum Skandinavíu, sem í dag kalla sig Sama.

Dennis Moos vitnar einnig í skýrslu eftir Hans Christian Petersen, sem í samvinnu við mig rannsakaði elstu mannabein á Íslandi. Petersen sýndi fram á að meðal fyrstu Íslendinganna hafi veið samískir einstaklingar eða öllu heldur afkomendur Sama. Nýlegar DNA-rannsóknir á uppruna Íslendinga, sem gerðar eru á nútímaíslendingum, hafa hins vegar ekki sýnt sterk samísk tengsl, en það var heldur ekki leitað að honum og samískur uppruni, skilgreindur með DNA, er reyndar afar flókinn. M.a. hefur því verið haldið fram að mítókondríal gen í Berbum (í Norður Afríku) og Sömum, sýni að þessar tvær þjóðir eigi sameiginlega formóður fyrir ca. 9000 árum. Erfðafræðingar eru þar að auki smám saman að sjá/uppgötva hve varasamar og vafasamar DNA rannsóknir á þjóðum á nútíma eru til að rannsaka uppruna þjóða eða þjóðarbrota.

bjork-sami.jpg
Mér er nokk sama hvort hún Björk sé skyld Sömum eða Berbum? En getur einhver yfirleitt mælt hana án þess að vera barinn? Ætli Kári Klónari sé búinn að fá úr henni DNA til að sýna fram á að hún sé "borderline" eins og allir listamennirnir í ætt hans? =(:)>

 

Hvað varðar rannsóknir á uppruna landnámsmanna á Íslandi, ef maður trúir ekki í blindni á Íslendingabók og Landnámu, tel ég vænlegra að líta til fornleifa og mælinga (antropometrískra mælinga) á beinum landnámsmanna í stað þess að gera allt of mikið úr einni vessa- og hrákarannsókninni eftir annarri. Fyrst voru það blóðflokkarannsóknir og síðar DNA. Mikið tilgangslaust blóð hefur runnið í  íslenskum landnámsvísindum. Lítið af þeim rannsóknum hefur staðist, og er ég viss um að rannsóknin á mítrókondríal DNA, sem leiddi í ljós að fyrstu konurnar á Íslandi hafi flestar verið frá Bretlandseyjum, byggi á röngum forsendum.

tumblr_m04esiqpnr1qa9j9oo1_500.jpg
Það er ekki alveg sama hvernig mælt er.

 

Ég tek eftir því að nálhúsið sem ég fann á Stöng í Þjórsárdal, telur Dennis Moos einnig til austrænna gripa, sem finnast einnig í  nyrstu héruðum Skandinavíu. Það er þó aldrei hægt að útiloka aðra þætti en uppruna eigenda til að útskýra uppruna forngripa. Sérstaklega þegar um er að ræða gripi sem ekki eru frá landnámsöld, eins og nálhúsið.  En meðal Þjórsdælinga eru samkvæmt fyrrgreindum rannsóknum Hans Christian Petersen margir einstaklingar sem bera mælanleg samísk einkenni sem og torus mandibularis og palatinus sem er algeng einkenni meðal Sama og Íslendinga (sjá hér).

skeljasta_ir_torus_1233533.jpg

Heimildir:

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, "Archaeological Retrospect on Physical Anthropology in Iceland". Populations of the Nordic countries Human population biology from the present to the Mesolithic." [Proceedings of the Second Seminar of Nordic Physical Anthropology, Lund 1990. Editors Elisabeth Iregren and Rune Liljekvist ]. Report Series from the Archaeological Institute, University of Lund No. 46 (1990), 198-214. Sjá hér

Hér, hér , hér og hér má lesa aðrar greinar mínar um Sama á Íslandi, þar sem hægt er að finna enn aðrar greinar.

Ég hvet menn til að lesa hina áhugaverðu ritgerð eftir Dennis Moos.

Menningararfspizzan

simmapizza.jpg

Fornleifur hefur tvisvar sinnum beðið um skilgreiningu á störfum og tilgangi Menningararfsskrifstofu forsætisráðuneytisins. Líklega er ekkert slíkt til, því engin fæ ég svör. Þá er vitanlega kolólöglegt að veita ekki svör innan ákveðins tímafrests, jafnvel þótt menningararfsskrifstofan sé orðin hluti af pizzustað.

Það telst til tíðinda, að vestrænt ríki færi menningararf þjóðar sinnar sem málaflokk beint undir forsætisráðherra eða álíka valdapersónu. Slíkt er víst þekkt í Afríkuríkjum og menningararfurinn heyrði líka beint undir Foringjann í Berlín, sem safnaði menningararfinum í stórsafn sitt þegar hann var hættur að mála gömul hús. Við vitum hvernig það fór. Ekki ætla ég að saka Sigmund Davíð um neitt slíkt, eða uppnefna hann og svína hann til eins og fólk gerir í athugasemdum á DV, Silfri Egils og í pistlum Illuga Jökulssonar. En Sigmundur og pizza eru óneitanlega orðnir óaðskiljanlegir hlutir, svo ég leyfi mér að bíta aðeins í pizzuna án þess að vera með ónot um persónu forsætisráðherrans. Hann skiptir mig engu máli. Ég hef áhyggjur á menningararfinum og rannsóknum á honum.

Sumir fornleifafræðingar hafa lítið annað gert síðan 1997 en að kæra mann og annan í Menntamálaráðuneytinu. Tel ég næsta öruggt að starfsmönnum menntamálaráðuneytisins sé létt að vera lausir við slík mál. Nú þegar skrifstofa í forsætisráðuneytinu er orðin að veruleika, hefur þessi vandasama stétt sett klögumálin á ís, því sumir hafa væntanlega beðið átektar til að sjá hvort að Sigmundur Davíð var himnasending eður ei.

pizza_culturale.jpg
Hinn heimsþekkti fornleifafræðingur Indiana Jones efast um að hægt sé að baka menningararfspizzur.


Hvernig stendur á því, að í ráðuneyti, þar sem málaflokkar eru leystir á fljótan hátt a la Pizza pronto, að deildastjóri menningararfsskrifstofu Framsóknarflokksins geti ekki svarað einfaldri spurningu um áleggið á pizzunni í deildinni? Svo vekur það vissulega einnig undran Fornleifs, að "blaðamaður" sem starfað hefur fyrir Ikea við að þýða katalóga og síðar með jafnréttismál í ráðuneytum mismunandi ríkisstjórna er nú orðinn fulltrúi í menningararfsskrifstofu forsætisráðuneytisins. Vitanlega veit ég að það þarf ekki sérfræðinga til að baka pizzur, en það er samt betra. En er öllu jafnrétti uppfyllt þegar gammall karlkyns fornleifafræðingur fær engin svör frá menningararfsskrifstofu forsætisráðuneytisins við einfaldri spurningu um botninn í menningararfspizzunni?

Mig, glorsoltinn fornleifafræðing, langar að sjá rökin fyrir stofnun þessarar deildar í ráðuneytinu. Með þekkingu mína á störfum deildastjórans, Margrétar Hallgrímsdóttur, sem nú er í fríi sem þjóðminjavörður, tel ég víst að Menningararfsskrifstofan sé megrunarráðgjöf frekar en deep pan pizza með hvítlauksbrauði og 4 lítra kóki og kokkteilsósu. Með þekkingu mína á því hvernig Margrét útrýmdi Náttúruminjasafni Íslands í tíð síðustu ríkisstjórnar, með glæsilegri aðkomu Össurar Skarphéðinssonar og Jóns Gunnars Ottóssonar, þá grunar Fornleif að lítið verði um pizzusendingar til menningararfsins meðan hún vinnu í bakaríinu.

Öllu líklegra tel ég, að áleggið á hjálparflatbökum til skuldsettra "fórnarlamba" eigin græðgi og óraunsæis verði m.a. sótt til þess sem skorið verður af í menningararfinum og menntakerfinu. Þau fáu grjúpán og sperðlar sem farið hefðu í aska menningararfsins í góðærum enda nú sem phoney baloney á pizzum menningarbakarans mikla. Þannig verður þetta meðan að fjármagni ríkisins verður hellt í kosningapizzur Framsóknarflokksins. Rýr hefur kosturinn hingað til verið, en óðal Simma bónda er ekkert menningaheimili, þótt hann kunni að baka pizza fiscale.

b8b14cd6f3faf96f160992e243df0447


Nú er það svart maður

african-presence-02.jpg

Málverk frá miðöldum, endurreisnartímanum og verk hollenskra gullaldarmeistara sem sýna þeldökkt fólk hafa alltaf heillað mig gífurlega mikið.  Ég hef einnig skrifað örsögu negra á Íslandi (sjá hér, hér og hér), sem fór í fínu taugarnar á forpokuðum Íslendingum sem telja það ljótt að skrifa svartur og negri, en notar sjálft pempíuleg orð eins og þeldökkur yfir þann hluta mannkyns sem Íslendingar hafa löngum kallað ýmist blámenn, svarta, svertingja eða negra.

2012-2014 var haldin merkileg sýning í Walters listasafninu í Baltimore, þar sem sýnd var list, þar sem svartir menn koma við sögu. Sýningin bar heitið Revealing the African Presence in Renaissance Europe.

Sérfræðingarnir í Baltimore vissu af lítt þekktu málverki á listasafni milljónamærings í Portúgal (Museu Berado/sem mestmegnis er nýlistasafn) sem þeir fengu lánað til sýningarinnar. Mikið hefur verið síðan rætt og talað um þetta málverk. Málverkið, sem talið er vera eftir hollenskan málara, er málað á árunum 1570-80 og sýnir götulíf við Chafariz d´el Rey (við Konungsbrunn) í Alfama hverfinu í Lissabon. Myndina fyrir ofan er hægt að stækka.

Alfama, eða réttara sagt Alhama-hverfið, var lengi fjölþjóðadeigla og nafnið sjálft er t.d. arabískt. Á 16. öld bjuggu í hverfinu margir gyðingar. Í dag er þarna allt öðruvísi umhorfs en á 16. öld, því hverfið eyðilagðist mjög í jarðskjálftanum mikla í Lissabon árið 1755.

blacks_and_jews_16th.jpg

Lögregla Lissabongyðinga (með rauða hatta) handsama þræl sem hlaupið hefur á brott

african-presence-02b.jpg
Svartur þræll dansar við hvíta þjónustupíu, meðan svartur vörður ríður hjá.

Málverkið sýnir vissulega marga negra, sem flestir voru væntanlega húsþrælar og þjónar. Það sem listfræðingarnir í Baltimore gerðu sér hins vegar ekki grein fyrir, en sérfræðingur einn í sögu gyðinga benti á, var að annar minnihlutahópur var einnig ríkulega til staðar á myndinni, þ.e. gyðingarnir, sem voru oft vel stæðir kaupmenn (sem tóku beint og óbeint þátt í þrælaversluninni). Síðustu gyðingarnir, sem ekki beygðu sig á bálkesti Rannsóknarréttarins, voru flestir flæmdir frá Portúgal nokkrum áratugum síðar en þetta málverk var málað. Þeir flýðu til Niðurlanda, Ítalíu, Grikklands og víðar og er margt gott fólk komið af þeim sem og og negrunum.

Myndin sýnir fjörugan dag við brunninn, þar sem þjónar og þrælar, vatnsberar, sækja sér vatn. Það er líf og fjör  í tuskunum. Fólk dansar og daðrar meðan yfirvaldið, og þar með talið gyðingalögreglan sækir þræla sem ekki var treystandi eða höfðu farið á fyllerí. Meira að segja má sjá svartan lögreglumann ríðandi svörtum hesti, líklega á vegum kirkjunnar eða einhvers greifa. Skoðið og látið heillast.

Svona málverk er einfaldlega á við ferð aftur í tímann.

african-presence-02c.jpg

Ljóst er að Dom Aharon de Castro y Costa ætlaði sér ekki kristinn mann fyrir Leu sína, sama hvað það kosta þyrfti. Aharon mundar byssu sína. Stækkið til að sjá dramaið.

Fornleifur mælir með: Áhugaverðu bloggi Dr. Miröndu Kaufmanns sagnfræðings.

Fyrri færsla Fornleifs um negralistfræði: Negrinn á fjölinni

 

african-presence-02d.jpg
Hvað þessi þeldökki maður gerði til að verðskulda svona meðferð ætla ég mér ekki að velta mikið fyrir mér, en hann hefur kannski orðið dálítið "fresh" við brunninn.

Oh Lord won't you buy me a Mercedes Benz

fornleifur_benz.jpg

Þótt margir eigi erfitt með að trúa því, þá hef ég átt og ekið Mercedes Benz. Já þið lesið rétt.

Ég fékk reyndar bílinn í 2. ára afmælisgjöf frá afa mínum og ömmu, en afi hafði látið einhvern kunningja sinn á Fossunum kaupa bílinn fyrir sig í Þýskalandi. Ég var alls ekki barn sem benti á allt og fékk það. Ég fékk bara allt án þess að benda.

Eins og sjá má á myndinni var ég ekki lítið ánægður með kaggann. Þetta var smækkuð mynd af Benz 190 SL, en fótstiginn útgáfa. Á þessum eðalvagni, sem var póstkassarauður, voru ljós og stefnuljós og flauta. Þetta var rammþýsk framleiðsla frá FERBEDO (Ferdinand Bethäuser GmbH & Co.) verksmiðjunum i Fürth, sem enn eru í leikfangaframleiðslu.benz_2.jpg

Ekki man ég beint eftir því er ég fékk tryllitækið, en ég man samt vel eftir þessu farartæki sem flutti með mér úr Vesturbænum í austurhluta borgarinnar, þegar foreldrar mínir keyptu hús þar þegar ég var á 4. ári. Í götunni vakti tryllitækið strax mikla athygli hjá yngri sem eldri drengjum. Þá voru reyndar ljós og flauta og ýmislegt annað úr lagi gengi, því það leyndist dálítill bifvélvirki í mér á fyrstu æviárum mínum. Ég var algjör ökufantur. Mér var ýtt um götur af stærri drengjum, sem fengu svo í staðinn að ærslast að vild í bílnum úti í götu, sem þá hafði ekki einu sinni verið malbikuð. Bíllinn missti því fljótt fyrri fegurð sína og varð algjör drusla.

Einhverju sinni tók afi bílinn aftur og hann var gefinn fátækum dreng í Höfðahverfi. Ég sá stundum eftir Benzanum, en ég var fyrir löngu vaxinn upp úr bílnum og bíladellunni, sem ég hef aldrei síðan fengið. Ég vona að einhver hafi haft af honum eins mikla ánægju og ég.

Það er nú alveg á hvínandi bremsunni að þessi gripur geti verið til umtals hér á Fornleifi. En sams konar vagnar, sem tilheyrðu þægum drengjum sem líklega bjuggu allir við malbikaðar götur, hafa farið fyrir þó nokkuð fé á stórum uppboðum uppboðshúsa á síðari árum. En alltaf hefur mér þótt undarleg börn sem ekki léku sér eða leyfðu öðrum að leika sér af fallegum leikföngum sínum og bíða þangað til þau verða 50 ára og fara með gullin sín á uppboð.

Vel getur hugsast, að þegar ég vinn í Lottó, muni ég kaupa mér svona bíl til að aka inn í barndóminn á.

Ég lýk þessari nostalgíu með þessari bæn Janis Joplins og ykkar sem aldrei hafið átt Benz eins og ég og Jón Ásgeir.


Ferðasögur fyrirmenna

melavollur_1936.jpg

Heyrt hefi ég, að verið sé að skrifa sögu konungsheimsóknanna á Íslandi. Það er afar merkileg saga og verður gaman að sjá hvernig það verk verður leyst.

Saga íslenskra ráherra- og forsetaferða gæti einnig orðið hin skemmtilegasta lesning. Áhugi manna á tímabundnu hvarfi núverandi forsætisráðherra sýnir mikinn áhuga á slíku efni. Eitt sinn fóru íslenskir forsetar ekki eins víða og ferðalangarnir Vigdís Finnbogadóttir og Ólafur Ragnar Grímsson hafa gert. Flugferðir voru dýrar og forseti eins og Kristján Eldjárn var aldrei eins mikið partýljón og eftirmenn hans.

Þegar Bjarni Benediktsson var utanríkisráðherra komst hann oft aðeins í opinberar utanlandsferðir vegna þess að velunnari Íslendinga, C.A.C. Brun ráðuneytisstjóri í Danska utanríkisráðuneytinu og fyrrum sendiráðsritari í Reykjavík, sá til þess að hann gleymdist ekki. Þetta gerðist til dæmis árið 1948 í janúar á ráðstefnu norrænna utanríkisráðherra. Brun reit: "Vi tog imod paa Bristol. Dagen igennem ordinært nordisk Udenrigsministermøde, Island inkluderet. Bjarni Benediktsson spiller, imidlertid som sædvanlig, en aldeles ynkelig Rolle..." . C.A.C. Brun bjóst við meiru af embættismönnum unga lýðveldisins, sem hann hafði stutt manna mest í fæðingarhríðunum. En þar er saga sem nú er verið að vinna í.

Sveinn Björnsson í Kaupmannahöfn 1947

Sveinn Björnsson forseti átti í stökustu erfiðleikum með sjálfan sig þegar Kristján síðasti konungur Íslendinga (1918-47) andaðist vorið 1947 og honum var boðið í útförina. Sveinn hafði m.a. áhyggjur á viðhorfum Dana til sín vegna sonarins, sem var svæsinn nasisti og SS-liði í Danmörku á stríðsárunum. Sveinn hafði því samband við gamlan vin sinn, C.A.C. Brun. Brun sagði honum að koma og sá persónulega til þess að dagblöð eins og Information héldu sig á mottunni og væru ekki með neitt skítkast á meðan Sveinn var í Danmörku.

Síðdegis þann 28. apríl 1947 ók Brun út á flugvöll með J.R. Dahl, sem var hásettur í danska hernum og átti að fylgja Sveini Björnssyni við hvert fótmál. Dahl þessi var hins vegar ekki eins háttsettur og generalmajorinn sem fylgja átti Hákoni Noregskonungi. Einhverjar rökræður höfðu spunnist í utanríkisráðuneyti Dana um hvort hægt væri að senda lágsettan mann eins og J.R. Dahl til móts við Svein. Brun lýsti svo því sem gerðist á flugvellinum, hér í þýðingu minni:

"Á flugvellinum var okkur vísað inn á skrifstofu flugvallastjórans, þar sem Prins Knud var þegar mættur. Þarna var kræsilegt rækjusmurbrauðsborð með bjór og snaps, sem Prinsinn var þegar búinn að gera sig ríkulega heimakominn í. Hann hagaði sér eins og trúður. Friðrik Konungur vildi gjarnan hafa tekið á móti forsetanum, en þar sem ekki hafði verið gefinn upp nákvæmur lendingartíma um hádegi, hafði hann sent erfðaprinsinn í sínu umboði.

Mér kveið örlítið fyrir því, hvernig það myndi fara og .... Þegar prinsinn segir við mig:

„Heyrðu, hvað vill þessi forseti eiginlega hingað niður?"

Ég: „Já það er eðlilegt að hann mæti"

Pr: "Núú, eftir allt sem hefur gerst!"

Ég: „Hvað er hans konunglega hátign að gefa í skyn?"

Pr: "Þér vitið alveg eins vel og ég. Hann fór bara til Íslands bara til að ræna krónunni af Pabba!"

Ég: "Ég held, að yðar konunglega hátign hafi fengið rangar upplýsingar. Sv. Bj. gerði alveg öfugt allt til að seinka málinu og setti alla sína pólitísku framtíð og politískan orðstír undir (o.s.fr.)".

Pr: "Já, en það var akkúrat það, sem Þér áttuð að segja maður! Þess vegna gaf ég boltann upp. Ég hef heyrt eitthvað um það, en aðrir segja að það sé rangt. En ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að honum líkaði við pabba minn og vildi halda í Konungsdæmið. Segðu bróður mínum þetta, heyrið Þér, það er mjög mikilvægt, hann hefur gott að því að heyra það"!. "

Þá vitum við það.

Knútur prins (f. 27.7. 1900 - d. 14.6. 1976) var reyndar hið mesta flón, og vegna gáfnabrests var rétturinn til að erfa krúnuna eftir eldri bróður hans, Friðrik 10., tekinn af honum og gefinn Margréti Þórhildi árið 1953. Orðatiltækið "En gang til for Prins Knud" er enn notað þegar einhver "fattar" ekki hlutina nógu fljótt.

En gang til for prins Knud  

Þessi barnsungi matrós skemmti sér konunglega með Knúti. Takið eftir háðskunni í svip þess litla.

Hvað varðar Knút er grein Glücksborgarættarinnar út frá honum dálítið veik að líkamlegu og andlegu atgervi og var greinilega lengi hornkerling í höllum Margrétar Danadrottningar. Frænka Margrétar, Elisabeth prinsessa, dóttir Knúts, heldur nú orðið jólin ein og yfirgefin með eldabusku sinni og sagði frá því í Søndagsavisen árið 2005.

Það sem Knútur prins sagði við Brun yfir smurbrauðinu á flugvellinum í Kastrup endurspeglaði viðhorf bróður hans, Friðriks 9, sem var óþreyttur að segja C.A.C. Brun neikvæða skoðun sína á fyrsta íslenska forsetanum, en Friðrik rómaði hins vegar jafnan aðra Íslendinga.

Sveinn Björnsson kom til Kaupmannahafnar og tók þátt í útför Kristjáns 10. á tilheyrilegan hátt og enginn angraði hann opinberlega.

Á myndinni efst eru nokkrar söguhetjanna saman komnar á Íþróttavellinum í Reykjavík (Melavellinum) þann 18. júní 1936. Knútur prins (1), Kristján 10. (2), C.A.C. Brun sendiráðsritari (3), Hermann Jónasson (4) og óþekk(t)ur drengur (5). Ef einhver þekki drenginn þætti mér vænt um að fá upplýsingar.

strakur_kikir.jpg


Þórður Sigurðsson sjómaður (1863-1950)

014a.jpg

Jólin 1939 birtist viðtalsgrein við langafa minn Þórð Sigurðsson í Sjómanninum. Inngangsorð greinarinnar voru þessi:

ÞÓRÐUR SIGURÐSSON, Bergstaðastræti 50 hér í bænum, verður 77 ára gamall í maímánuði næstkomandi. Hann er enn ótrúlega unglegur og það er einkennilegt hve lítinn svip hann ber af æfistarfi sínu, sjómennskunni. Hann er liðlegur á velli, næstum fíngerður og enginn skyldi ætla, að hann hafi eytt meirihluta æfi sinnar á sjónum og við hin erfiðustu störf. Við fyrstu sýn lítur hann út eins og uppgjafalæknir utan af landi, eða gamall kaupmaður. En málið segir til sín. Um leið og hann mælir fyrstu setninguna verður maður ekki lengur í vafa um, hvaða æfistarf þessi maður hefur haft. Hann talar ómengað sjómannamál. Þórður Sigurðsson stundaði sjómennsku í 47 ár, þar af var hann í 27 ár stýrimaður, og hann hefur rétt til að sigla millilandaskipum, þó að hann hafi aldrei tekið neitt próf eða gengið á sjómannaskóla. Þetta leyfi fékk hann fyrir mörgum árum hjá stjórnarráðinu. Það er þó engin hætta á, að hann fari að keppa við hina sprenglærðu sjómenn; hann er seztur í helgan stein. Nú heyrir hann aðeins byljina berja súðina sína og sér hvítfyssandi öldurnar, þegar hann horfir út á hafið.

Viðtalið allt er mjög góð heimild um líf ungs sjómanns á Íslandi í lok 19. aldar.

Ég er ættleri

Þegar ég, sem vart hef migið í saltan sjó, les þetta samtal í Sjómanninum við langafa minn Þórð Sigurðsson, er mér ljóst, að ég er ekkert annað en ættleri. Atvinnulaus í ESB með mitt einskisnýta doktorspróf, því hásetar og síst af öllu háttsettir á Íslandi þurfa slíkar merkistikur til neinna starfa, beygi ég mig lotningu fyrir þessum langafa mínum, sem var ekki uppgjafadoktor eins og ég.

Ég hvet menn til að lesa viðtalið við hann, sem ég tel næsta víst að Jón Axel Pétursson (1898-1980), hafnsögumaður og síðar bankastjóri m.m. (bróðir Péturs heitins Péturssonar þuls) hafi tekið og skráð. Líklegt þykir mér einnig, að afi minn, Vilhelm Kristinsson (1903-1993), lengstum vatnsvörður hjá Reykjavíkurhöfn, sem var ævivinur Jóns Axels, hafi hóað í Jón þegar hann var ritstjóri Sjómannsins og látið hann taka viðtalið við Þórð tengdaföður sinn.

Eitt langar mig að leiðrétta. Þórður var ekki Sunnlendingur, eins og fram kemur í greininni. Hann var Skagfirðingur í húð og hár, en foreldrar hans höfðu flust suður vegna fátæktar eða til að leita sér betri tækifæra í lífinu. Þórður fæddist reyndar að Minna-Mosfelli í Kjós árið 1863, en foreldrar hans Sigurður Bjarnason og Sigríður Hannesdóttir voru bæði Skagfirðingar og framættir þeirra að mestu úr Skagafirði og Húnaþingi. Það kemur þó fram í greininni að Þórður og Stephan G. Stephansson hafi verið systrasynir. Svo kemur heldur ekki fram í greininni, að Þórður var einnig á erlendum hvalveiðiskipum á sjómannsárum sínum.

stephan_og_or_ur.jpg

Systrasynirnir Stephan G. og Þórður Sigurðsson voru greinilega steyptir í sama skagfirska mótinu. Þegar Stephan G. heimsótti Ísland bjó hann hjá frænda sínum Þórði. Amma mín, Sigríður Bertha Engel Þórðardóttir, minntist ávallt með ánægju þeirra gjafa sem hann hafði fært henni barnungri, t.d. mikils pappapáskaeggs, fullu að dýrindis sælgæti, sem hann færði henni er hún var nýstigin upp úr miklum veikindum.

Myndin efst frá 1890 sýnir skonnortur frá Gloucester í Massachusetts. En það voru einmitt skonnortur frá Gloucester við Boston, sem Þórður Sigurðsson stundaði lúðuveiðar á frá Dýrafirði á sama tíma og myndirnar voru teknar. Ég sé að Þjóðminjasafnið er með spurningarlista í gangi um lúðuveiðar og -verkun (sjá hér). Safnið hefði líklegast átt að vera úti heldur fyrr.

Neðri myndin aths: Sama myndin af langafa mínum (t.h.) og birtist í Sjómanninum hékk ávallt í stofunni hjá Sigríði Berthu, ömmu minni, og afa Vilhelm á Hringbrautinni. Margir í ættgarði ömmu fengu hana að láni til eftirtöku. Er amma mín lést árið 1998 var myndin ekki lengur í íbúð hennar. Ef einhver ættingja minna eða aðrir hafa fengið myndina lánaða hjá ömmu, langar mig vinsamlegast að biðja viðkomandi að skila henni til móður minnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband