Færsluflokkur: Menning og listir

Ástandsnjósnir

bretinn.jpg

Ég hlakka til að lesa grein prófessors Þórs Whiteheads í Sögu um persónunjósnir Jóhönnu Knudsens hjúkrunarkonu og fyrstu lögreglukonunnar á Íslandi, sem gerð var að yfirmanni ungmennaeftirlits lögreglunnar árið 1941, eða þangað til hún var sett af árið 1944.

Þór Whitehead hefur greinilega beðið eftir þessu rannsóknarefni, sem var lokað efni í 50 ár eftir að það var afhent Þjóðskjalasafninu árið 1961. Ég sé Þór fyrir mér eins og ólman, breskan latínuskólanema (þó svo að hann hafi nú gengið í Verslunarskólann og lært höfuðbækur í stað latínu), sem kemst í fullar útgáfur af gömlu meisturunum, þar sem klámfengið efni hefur ekki verið sleppt úr eða klippt út úr bókunum.

Að umfang njósna þessarar gammeljómfrúar Knudsen hafi verið svo mikið, og að 1000 konur hafi verið undir smásjá hennar, kemur hins vegar á óvart, þó svo að þóttinn og öfgarnar hafi verið miklar t.d. í grein hennar gegn Arnfinni Jónssyni kennara og meðlimi í barnaverndarnefnd. Hann skrifaði um aðferðir Knudsens (Sjá hér og eitt svara hans hér).

Vitaskuld var "ástand" á kvenfólkinu, að því leyti að það hafði allt í einu einn vordag í maí 1940 úr grösugri garði að gresja en áður. Þær hittu fyrir menn sem voru ef til vill meiri sjentilmenni en íslenskir karlar. Karlar eru það oft þegar þeir eru ekki heima hjá sér. Kaninn var enn glæsilegri en Tjallinn og þá fauk í flest skjól fyrir marga íslenska karla í kvennaleit, þegar glæsikonur bæjarins völdu hermenn fram yfir þá. Vonlausir gaurar, eins og þeir heita í dag, gerðu einnig sínar athuganir, sem Knudsen hefur líklega þótt kræsilegar, og einn þeirra, sem kallaði sig S.S., birti þær í lágkúrulegum bæklingi. S. S. þessi hét í raun Steindór Sigurðsson (1901-1949) Sjá hér.

setuli_i_og_kvenfolki_ljosm_vilhjalmur_rn_vilhjalmsson.jpg

 

Hermann Jónasson, ekkert er nýtt undir sólinni

Auðvitað var Hermann Jónasson með fingurinn í þessu eins og öðru. Þó vona ég að Þór Whitehead sé ekki enn að velta fyrir sér hverjir hafi verið meiri nasistar, Sjálfstæðismenn (sem hann tilheyrir) eða Framsóknarmenn? Bæði Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn voru hallir undir Hitler!

Hverju mátti búast við af manni (Hermanni), sem kom því til leiðar að landflótta gyðingar væru sendir úr landi, og sem einnig setti hindranir í veg fyrir þá eina, meðan aðrir hópar sem tilheyrðu hinum "aríska" stofni var hleypt inn í landið. Ekki breyttust hlutirnir eftir stríð. Þýskar vinnupíur, sumar hverjar dætur dæmdra stríðsmanna Hitlers, voru fluttar inn í stórum stíl og gerðust myndarhúsfreyjur á hrakbýlum landsins og eignuðu börn og buru með sveitadurgum sem engin heilvita íslensk kona leit við. En það féll hins vegar fyrir fyrir brjóstið á sumum Íslendingum, að svartir menn þjónuðu á herstöðvum Bandaríkjamanna á Íslandi. Í dag eru menn með fáeina múslíma og annað "dekkra" fólk á milli tannanna á sér og halda mætti af máli sumra, að til landsins væri mættur heill her.

f7a08fae13ce7071.jpg
18bba6b35caa3be4_1226763.jpg
Ekki létu herir bandamanna sér alveg á sama um hvað sumum Íslendingum þótti um samlíf íslenskra kvenna og dátanna.  Skautakvikmyndin Iceland vakti gagnrýni í BNA sem og meðal Íslendinga, jafnvel þó þeir hefðu ekki séð myndina. Menn í Bandaríkjunum töldu að "ástandið" sem sýnt var í myndinni gæti orðið til að skapa BNA óvildarmenn. Sjá hér. Þessar myndir hér að ofan eru hins vegar ekta myndir af svellinu á Íslandi.

Þegar ég les um ofsa fyrstu lögreglukonu Íslands, er mér hugsað til danskrar lögreglukonu sem starfaði á skrifstofu dönsku lögreglunnar í síðara stríði. Þegar danskur verkamaður í Berlín bjargaði gyðingnum Bröndlu Wassermann og þremur börnum hennar til Kaupmannahafnar, var tekin sú ákvörðun að senda hana og börnin úr landi með fyrstu lest. Til að fylgja þeim til Þýskalands var fengin lögreglukonan sem vann á skrifstofunni. Ég fékk áhuga á því að vita hvað kona þetta var, og kom þá í ljós að þetta hún var meðlimur í nasistaflokki Dana. Hún tók ekki að sér flutninginn til Þýskalands af "kvenlegri miskunnsemi" heldur vegna fordóma sinna, og hefur líklega talið sig vinna góðverk. Mánuði eftir að Brandla og börnunum hennar hafði verið vísað úr landi í Danmörku, höfðu börnin verið myrt í gasklefum Auschwitz og Brandla var myrt þann 15. desember 1942, þegar SS-læknir sprautaði fenóli beint í hjarta hennar eftir að brotist hafði út taugaveiki í skála þeim sem hún var í. Lesið um þetta í góðri bók sem hægt er að fá lánaða á bestu bókasöfnum landsins.

Ástandið var nauðsynlegt !

Svonefnd ástandsskýrsla sem gerð var 1941, byggð á gögnum Jóhönnu Knudsens, upplýsir að lögreglan sé með á skrá 20% þeirra kvenna sem séu í ástandinu, eða um 500 konur. Miðað við fjölda kvenna 12 til 61 ára í Reykjavík þýddi það, að 2.500 konur væru í ástandinu. Þetta er vitaskuld út í hött. Líklega hafa allar konur sem þvoðu fyrir Breta, t.d. hún amma mín á Hringbrautinni, komist á lista Knudsens yfir léttúðugar konur. Amma mín þénaði einhverja smáaura fyrir þessa vinnu. Langamma mín, heiðvirð stýrimannsfrú og peysufatakona, komin vel yfir 61 árs aldur, hafði einnig samband við Bretann, þegar hún var stundum með í sumarbústað dóttur sinnar og tengdasonar í Mosfellssveitinni. Að sögn móður minnar, sem er fædd árið 1929, elskaði amma hennar að tala við Tjallann, þó hún kynni ekki stakt orð í ensku. Fingramál gekk ágætlega og hermennirnir voru hrifnir af henni, því stundum færði hún þeim kaffi. Mesta mildi má þykja að hún langamma mín hefði ekki verið skotin þegar hún þeyttist yfir holt og hæðir til að hitta vini sína í breska hernum, en þarna nærri sumarbústaðnum stunduðu Bretar skotæfingar.

g_min_1226767.jpg

Háttalag langömmu minnar hefði ekki fallið frú Knudsen í geð, en Guðrún var bara gestrisin kona úr Kjósinni sem kunni sig í umgengni við erlent fólk.

Ætli Jóhanna Knudsen og ýmsar aðrar konum hefðu ekki lagst undir fyrsta þýska nasistann, hefðu þeir komið hér í stað Breta og Ameríkana? Hver veit? Það er eðli flestra kvenna að "falla" fyrir mönnum og konur eru jafnan nýjungagjarnari en karlar. Hefur það ekki bjargað þjóðinni frá afdalamennsku þökk sé góðum leik íslenskra kvenna, og komið í veg fyrir meiri skyldleikarækt en þá sem er staðreynd á Íslandi ?

Í Danmörku fúlsuðu mjög margar konur ekkert við Günther og Siegfried, en mjög margir Danir fæddir á tímabilinu 1941-45 vita alls ekki enn að þeir eru með erfðamengi "herraþjóðarinnar" í æðum sér.


Þingsályktunartillaga fyrir þá sem veggfóðra með Kjarval?

louvre.jpg

Nýverið var sett fram þingsályktunartillaga http://www.althingi.is/altext/143/s/0499.html sem er ætlað að stefna stigu við málverkafölsunum.

Gott og vel. Ég þurfti ekki að lesa tillöguna lengi til að sjá, að hún ber fyrst og fremst hag þeirra fyrir brjósti sem hafa látið snuða sig með því að kaupa fölsuð málverk.  Á annarri blaðsíðu tillögunnar kemur þessi setning eins og skrattinn úr sauðaleggnum, en hún skýrir nú margt:

"Nokkrir einstaklingar urðu og fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni vegna kaupa á fölsuðum myndverkum. Þessari þingsályktunartillögu er stefnt gegn slíkum svikum og því leggja flutningsmenn áherslu á að embætti sérstaks saksóknara, sem fer með efnahagsbrot, taki þátt í þeirri vinnu sem tillagan mælir fyrir um."

Einn af þeim sem ber fram tillöguna er Vilhjálmur Bjarnason fjárfestir og fjármálasérfræðingur. Það leitar vissulega að manni sú spurning, hvort Vilhjálmur hafi talist til þeirra mörgu vel stæðu Íslendinga sem ekkert vit höfðu á list, en sem  keyptu hana í metravís í góðærinu til að betrekkja stofuveggina hjá sér.  Ég læt spurningunni ósvarað, því mér finnst tillagan öll full af ósvöruðum spurningum.

Eins finnast mér kjánar, sem í einhverjum snobbeffekt keyptu allt sem þá langaði í, án þess að hafa nokkurt vit á því sem þeir keyptu, sjálfir bera ábyrgð á slíkum mistökum. Slíkir einstaklingar eru ekki listasöfn. Aðalatriðið er að listasöfn landsins séu ekki að sýna falsaðan menningararf, alveg sama hvað hann er gamall.  

Þessu er t.d. haldið fram í þingsályktunartillögunni:

" Ótvírætt virðist að á 10. áratug síðustu aldar hafi talsverður fjöldi falsaðra myndverka verið í umferð á Íslandi og gengið þar kaupum og sölum. Hefur verið sett fram sú tilgáta af fagmanni, sem þekkir vel til íslenskrar myndlistar og myndlistarmarkaðarins hér, að allt að 900 fölsuð myndverk (málverk og teikningar) muni hafa verið á sveimi hérlendis á þessum tíma."

Ég tel víst að fagmaðurinn sem nefndur er hér sé Ólafur Ingi Jónsson forvörður (sjá hér og hér). Þó svo að ég trúi því fastlega að fölsuð málverk hafi verið í umferð og sannanir séu fyrir því, þá hef ég því miður enn ekki séð neitt birt á riti eftir Ólaf, t.d. ítarlegar rannsóknir hans, sem rennt get stoðum undir þá skoðun hans að 900 fölsuð myndverk hafi verið á sveimi.

Mér þykir einfaldlega ekki nægilega undirbyggð hin fræðilega hlið þessarar þingsályktunartillögu, sem mest ber keim af því, að þeir sem keypt hafa svikna list vilji fá hið opinbera til að setja gæðastimpla á verkin. Að mínu mati á slíkt aðeins við um verk í opinberri eigu. Ríkisbubbarnir, sem jafnvel höfðu Kjarval á klósettinu heima hjá sér, verða sjálfir að bera ábyrgð á gerðum sínum og fjárfestingum.

00-intro.jpg

 

Hins vegar er það hlutverk lögregluyfirvalda og hugsanlega nefndar sérfræðinga að rannsaka mál sem koma upp um falsanir. Meira er ekki hægt að gera. Og svo mætti Ólafur forvörður birta rannsóknir sínar, svo fólk í kaupshugleiðingum geti hugsanlega varað sig, ef það hefur aðeins peningavit en enga þekkingu á list eða annarri menningu.

Lokaorð tillögunnar eru: "Hin mikla áhersla á þekktan og ósvikinn uppruna menningarminja er tiltölulega ný í sögunni en nýtur engu síður víðtækrar viðurkenningar sem ein af höfuðforsendum þess að slíkar minjar þyki tækar til varðveislu. Skal í því sambandi nefnt að Mennta-, vísinda- og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, gerir það að ófrávíkjanlegri kröfu fyrir því að menningarminjar fái sæti á heimsminjaskrá að þær séu ófalsaðar og sömu kröfu gera lista- og minjasöfn á Vesturlöndum til safnkosts síns."

Þetta er greinilega skrifað af einhverjum, sem ekkert þekkir til heimsminja (ég hélt nú annars að Katrín Jakobsdóttir vissi meira í sinn haus). Heimsminjaskrá telja ekki einstök málverk eða einstaka gripi. Heimsminjar, menningarlegar eða náttúruminjar, eru heildir. Vissulega verða söfn að gera þá kröfu að safnkostur þeirra sé ófalsaður. En á Íslandi hefur það því miður ekki talist nauðsynlegt. Þrátt fyrir að fleiri rannsóknir og álit sérfræðinga sýni að það séu falsaðir gripir í silfursjóði í Þjóðminjasafni Íslands, heldur safnið áfram að sýna sjóðinn sem silfursjóð frá Víkingaöld, eins og ekkert hafi í skorist, jafnvel þrátt fyrir alvarleg vandamál í danskri skýrslu um sjóðinn og þrátt fyrir sérfræðiálit í nýlegri útgáfu með greinum frá Víkingaráðstefnunni sem haldin var á Íslandi sumarið 2011.

Í einni af bókum langalangafa míns sáluga, Iszëks, sem ég nefndi um daginn, fann ég þessa frábæru mynd frá Louvre frá miðri 18. öld sem er efst í þessari grein. Einu sinni var sumt af því sem þar fór fram ekki talið til falsanna. Þarna voru menn bara að kópíera. Síðar uppgötvuðu óprúttnir náungar að hægt var að plata peninga út úr þeim sem vildu eiga da Vinci, Gainsborough eða jafnvel Kjarval. Þetta er spurning um framboð og eftirspurn. Því fleiri vitleysingar, því betri sala.

Eimskipasaga

eimskip_1930.jpg Ljósm. höfundur.

Saga Eimskipafélags Íslands eftir Guðmund Magnússon kom aftur út í gær. Guðmundur, sem nú er aftur orðinn blaðamaður á Morgunblaðinu, var eitt sinn Þjóðminjavörður Íslands, og var einn af þeim betri í því starfi. Þessa grein, sem tengist Eimskipafélaginu og mörgum örðum skipafélögum, birti ég fyrst árið 2008, en birti hana hér aftur með afmæliskveðjum til skipafélagsins sem flutti bróðurpartinn af því sem faðir minn flutti til landsins meðan hann var heildsali um 35 ára skeið.

Ég man eftir ófáum ferðum mínum með föður mínum í Eimskipafélagshúsið, þar sem við fórum með gömlu lyftunni upp á stóra skrifstofu, þar sem faðir minn fékk pappíra sem voru stimplaðir og svo var farið í bankann og upp í Arnarhvál til að fá aðra stimpla og stundum líka á Tollpóststofuna til að fá enn fleiri stimpla. Svo var náð í vörur og ók Hallgrímur nokkur frá Sendibílastöðinni Þröstum fyrir föður minn. Hallgrímur var frændi Ólafs Ragnars Grímssonar. Hallgrímur keðjureykti London Docks vindlinga, sem ég "reykti" glaður óbeint þegar ég fékk að hjálpa til við að aka út vörum í verslanir. Í Eimskipafélagshúsinu fór ég líka stundum til rakarans sem þar var.

Ekki er ég viss um að Guðmundur Magnússon hafi þessa sögu frá 1940 með í bók sinni, þó hún varði lítillega Eimskipafélagið:

 

5. febrúar árið 1940 fór Valerie Neumann, 65 ára (f. 13.10. 1874) kona í Vín Austurríki, í sendiráð Dana í Vín og sótti um 14 daga landvistarleyfi í Danmörku, til þess að bíða þar eftir skipi til Íslands. Erindi hennar var sent til útlendingadeildar Ríkislögreglunnar í Kaupmannahöfn, sem hafði samband við skipafélög sem sigldu á Ísland.

Danska skipafélagið DFDS upplýsti, að ekki yrði siglt í bráð til Íslands, þar sem hætta væri á því að skip félagsins yrðu tekin af Bretum og færð til hafnar á Bretlandseyjum, sérstaklega ef "þýskir þegnar" væru um borð.  Danska lögreglan fór annars með umsókn Valerie Neumann sem umsókn gyðings og færði hana inn í skýrslur sem Valeire Sara Neumann. Lögreglan gerði DFDS það ljóst að Valerie Neumann væri gyðingur frá Austurríki. Þýsk yfirvöld kröfðust þess að gyðingakonur bæru millinafnið Sara í skilríkjum sínum og karlar millinafnið Israel. Hún var líka afgreidd sem Valerie Sara Neumann í Danmörku.

Eimskipafélagið hf upplýsti, þegar mál Valerie Söru Neumann var borið undir það, að maður myndi gjarnan taka þýska ríkisborgara með á skipum sínum, ef þeir hefðu meðferðis vottorð frá breskum yfirvöldum. Eimskipafélagið vissi hins vegar vel að þýsk yfirvöld gáfu ekki út nein slík vottorð.

Danski lögreglufulltrúinn H. Krause, sem var nasisti og gyðingahatari, skrifaði í skýrslu sína um Valerie Neumann: "Það kom fram í máli félagsins að maður vildi helst vera laus við farþega sem kynnu að valda vandamálum eða seinkunum fyrir skipið".

Norðmenn neituðu líka Valerie Neumann um leyfi til að bíða eftir skipi til Íslands í Bergen.

 

d_billeder_the_wonderland_of_contrasts.jpg
"The Wonderland of Contrasts 1937": Ekkert er nýtt undir sólinni. Ljósmynd Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson. Myndin efst er einnig tekin af Vilhjálmi.
 

Nokkrum mánuðum síðar, eftir að Valerie Neumann ítrekaði umsókn sína og einnig fjölskylda hennar á Íslandi, maður systudóttur hennar Viktor Ernst Johanns von Urbantschitsch (Urbancic) sem var búinn að kaupa handa henni farmiða, var aftur haft samband við Eimskipafélag Íslands í Kaupmannahöfn. (Í skjölum danska sendiráðsins í Reykjavík og danska utanríkisráðuneytins var Viktor sagður systusonur Valerie, en hið rétt er að Valerie var systir Alfreds Grünbaum föður Melittu Urbancic, konu Viktors).

Eimskipafélagið upplýsti þann 5. apríl 1940 að það hefði verið svo mikið "Vrøvl" og erfiðleikar með bresk yfirvöld, svo það væri ekki hægt að leyfa frú Neumann að sigla, nema að hún fengi bresk vottorð og gildandi íslenskt landgönguleyfi. Í lögregluskrýrslu Ríkislögreglunnar dönsku kemur þetta fram

"Islands Eimskipafjelag, Strandgade 35, forkl. at man ikke har noget egentligt Forbud mod at medtage en saaden Passager, selv om man for saa vidt helst er fri, da det ved et Par enkelte tidligere Lejligheder har vist sig, at man faar en del "Vrøvl go Ubehageligheder med de engelsek Kontrebandemyndigheder", ja endog kan risikere af samme Grund at blive ført til engelsk Kontrolhavn. - Man vil kun medtage den. pgl., hvis hun forinden har en officiel britisk Attest, som sikrer hende "frit Lejde", og naturligvis mod gyldigt islandsk Indrejsevisum." 

Skrifstofa félagsins í Kaupmannahöfn upplýsti að siglt yrði þann 10. apríl og svo aftur 1. maí. Embættismaður við Ríkislögregluembættið, Troels Hoff, ákvað hins vegar sama dag, að Valerie Neumann fengi ekki leyfi til að dvelja í Danmörku.

Fjórum dögum síðar buðu Danir, svo að segja án nokkurrar mótspyrnu, þýsku herraþjóðina velkomna. Og já, ekki má gleyma því að Þjóðverjar, sem Íslendingar báru svo mikla virðingu fyrir, tóku Gullfoss traustataki í Kaupmannahöfn.

Valerie Neumann sat áfram í Vín og fjölskyldan á Íslandi var rukkuð um 31 íslenskar krónur fyrir símskeytakostnaði í bréfi dags. 28. nóvember 1940. Áður hafði danska forsætisráðuneytið minnt á þessa skuld í bréfi til Sendifulltrúa Íslands í Kaupmannahöfn.

Danir fengu peningana sína, eins og alltaf, og Eimskip losnaði við vandræði. Nasistar fengu Gullfoss og var skorsteinsmerki skipsins þeim líkast til að skapi.

Valerie Neumann var send í fangabúðirnar í Theresienstadt 21. eða 22. júlí 1942. Andlát hennar var skráð 9. ágúst 1944. Hvort hún hefur dáið þann dag eða verið send í útrýmingarbúðir, er óvíst.

Skömmu áður en Valerie andaðist höfðu nasistar búið til áróðurskvikmynd um ágæti þessara fangabúða í fyrir utan Prag. Í kvikmyndinni sést fólk í sparifötunum við ýmsa iðju. Flestir þeir sem þarna sjást voru sendir til útrýmingarbúðanna Auschwitz og Sobibor að loknum myndatökunum, m.a. kvikmyndagerðamaðurinn. Kvikmyndin sýnir gyðinga frá Austurríki, Hollandi, Danmörku, Austurríki og Tékkóslóvakíu.

Hér og hér eru tvö skeið úr áróðurskvikmyndinni frá Theresienstadt.

urbancic.jpg

Viktor Urbancic, kona hans Melitta (f. Grünbaum) og fjölskylda í Reykjavík. Á flótta undan hakakrossinum varð annar slíkur, íslenskur, á vegi þeirra. Hefði Eimskipafélagið og aðrir aðilar verið sveigjanlegri, hefði frú Valerie Neumann, móðursystir Melittu, hugsanlega verið með þeim á myndinni. Móðir Melittu, Ilma, andaðist í Theresienstadt í janúar 1943.


Hin fagra framtíð

ljosaskilti_ari_1837.jpg
coollogo_com-233162008.gif
Árið 1837 eða 1838 las einn langalangafi minn um rafmagnaðan heim framtíðarinnar.  Í uppfræðandi ársriti fyrir upplýstan almúgann, Nederlandsch Magazijn sem gefið var út í Amsterdam, mátti það ár lesa um unaðssemdir framtíðarinnar með rafmagni og raflýsingu og þá möguleika sem rafstraumur átti eftir að gefa mönnum.
flikkerglas.jpg
 

Meðal þess sem menn dreymdi um var ljósapera, nánar tiltekið ljósrör (flikkerlicht), þar sem menn ímynduðu sér að lýsing skapaðist ef straumur yrði leiddur gegnum tinþráð. Rafmagnið ímynduðu menn sér að kæmi fyrst og fremst úr batteríum, svokölluðum Leydenflöskum.  Menn trúðu því, að ef þær væru margar settar saman væri til frambúðar von um að hægt væri að nota strauminn til lýsingar.

leydse_fles.jpg
 
Leydenflöskubatterí

Einnig gat karlinn lesið um unaðssemdir glerplötu sem á hafði verið sett tinþynna. Í þynnuna átti að skera út bókstafi með vasahníf! og svo leiða í gegnum þynnuna straum svo bókstafirnir lýstu með flöktandi ljósi (flikkerend licht).

Dreymdi menn þarna um fyrstu ljósaskiltin, fyrstu skjáina eða IPad ?

Langalangafi hefur vart trúað þessu rugli og tautað einhverja teutónísku með hrákahljóði í skeggið. Hann kveikti aldrei á perunni, svo mikið er víst. En nú eru þessi framtíðarsýn samtíðarmanna hans fornleifar einar og löngu kulnaðir draumar um bjarta framtíð.

nederlandsch_magazijn.jpg

Ice and fire

iceland_eldspytur.jpg

Fornleifafræðingar með söfnunaráráttu eru fáir til, og það er illa séð að fólk í þeirri stétt sé að koma sér upp einkasöfnum. Ef þeir nenna að safna fram yfir það sem þeir grafa upp, er það venjulega allt annars eðlis en jarðfundnir gripir.

Sjálfur er ég ekki haldinn söfnunaráráttu, en hef þó haft ákveðna gleði af að safna hlutum sem ég tel skemmtilega, einkennilega og sem t.d. tengjast Íslandi á einn eða annan hátt. 

Ég hef í nokkur ár safnað öllu sem ég finn um veitingastaðinn Iceland á Broadway í New York (sjá hér). Ég þekki það vel til þess staðar, þó ég hafi aldrei komið þar, að ég sé strax þegar vankunnugir viðvaningar telja auðtrúa fólki í trú um þeir viti allt um þennan sögufræga stað. 

iceland_matches.jpg

Nýlega keypti ég á eBay eldspýtnabréf sem forðum varð deilt út á Iceland á Broadway, og er ég nokkuð stoltur af þeim kaupum og deili hér með ykkur myndum. Þessa eldspýtur eru frá því á fyrri hluta 5. áratugarins. Eins og þið sjáið var íslenska "smörgásborðið" mjög rómað. Barinn var líka vel þekktur. 

iceland_matches_2_litil.jpg

Innanklæðaþukl Naflajóns - líka á Íslandi

hjon_og_ljon_2_1224412

Á Þorláksmessu, áður en nýjasta tölvan mín var höggvin í hné af KB2670838 (sem er glæpsamleg viðbót sem er neydd upp á notendur um leið og Internet Explorer 10 og 11 er halað niður, og sem lamar sumar tölvur með ákveðna gerð grafíkkorta), birti ég grein um kerlingu og karl á spýtu sem ég skrifaði um fyrir löngu í bókina Gersemar og Þarfaþing sem Þjóðminjasafnið gaf út á 130 ára afmæli sínu, og sem líklegast er meðal merkustu bóka sem safnið hefur gefið út.

Helga Kristjánsdóttir „bara húsmóðir", sem er tryggur lesandi Fornleifs, skrifaði eftirfarandi athugasemd við greinina um hjónin og ljónin:  

Var einmitt að rýna í fatnað karlsins, með tilliti til tísku. Greinilegt er að hann stingur vinstri hendi í einskonar útbungaðan vasa,sem er á hægri boðungi,nema að hann sé þar fráflettur.Það gæti hafa verið siður ef kalt er,en líklegra finnst mér að hann geymi þar digran pengepung sinn og listamaðurinn þekki takta þeirra sem fálma eftir þeim.annað hvort til öryggis,eða á leið að kaupa fyrir konu sína t.d. sjal eða nælu,giska á Jólunum!!

Við þessa athugasemd vöknuðu hjá mér gamlar heilaboðleiðir - sem virka ágætlega þótt ég sé nú að þjösnast á fornri tölvu (5 ára gamalli) sem ég hef eitt ófyrirsjáanlegum tíma í að setja upp á ný vegna mistaka Bill nokkurs Gates - boðleiðir sem minntu mig á að ég hafði fyrir nokkrum árum lesið haldbæra skýringu á því af hverju Naflajón (Napoleon Bonaparte) hafi alltaf stungið hendinni inn undir boðung á jakka sínu eða frakka.

Menn hafa í tímans rás sett fram ótal tilgátur varðandi þetta háttalag Naflajóns, og sumir menn ganga um á þennan hátt og halda að þeir séu keisarar. Sumir töldu hann hjartveikan, aðrir kenndu magakveisu um eða gallsteinum, enn aðrir töldu víst að keisarinn væri á kafi í naflaskoðun eða haldinn ólæknandi kláða. En það var allt saman tóm þvæla og kjaftæði. Höndin sem Naflajón stingur inn undir fötin má rekja til þess að skoskur aðalsmaður, Douglas að nafni, mikill aðdáandi Korsíkumannsins, pantaði málverk af Naflajóni hjá hinum þekkta franska málara Jacques-Louis David sem málaði margar myndir af Bonaparte. Málverkið, sem Douglas pantaði, var í þetta sinn málað án þess að Naflajón sæti fyrir. Myndin líktist víst ekkert keisaranum, en Napolen sá hana og honum líkaði hún vel þar sem David hafði fegrað hann til muna. Bonaparte sendi á David kveðju er hann hafði séð málverkið á sýningu, sem hljóðaði svo:" Þú hefur skilið mig, kæri David".

Á 19. öld varð þessi mynd og aðrar skyldar til þess að Naflajón var ávallt sýndur klórandi sér innan klæða, stundum með vinstri hönd, annars með þeirri vinstri. Þannig hefur hann verið matreiddur í óteljandi kvikmyndum, t.d. ríðandi um Rússland með höndina á mallakútnum.

370px-Jacques-Louis_David_-_Napoleon_in_his_Study_-_WGA6093

Glöggur bandarískur listfræðingur, Arline Meyer að nafni, hefur í merkri grein í Art Bulletin (College Art Association of America), Vol. 77, sem hún kallar „Re-Dressing Classical Statuary: The Eighteenth-Century 'Hand-in-Waistcoat' Portrait", bent á að siðurinn að mála karla með höndina eins og Naflajón hafi verið mjög algengt fyrirbæri í portrettmálverkum á 18. öld. Meyer sýndi fram á, að farið hafði verið að mála menn með aðra hvora höndina á þennan hátt áður en Naflajón fæddist. Hún benti á að Francois nokkur Nivelon hafi árið 1783 gefið út bókina  „A Book On Genteel Behavior, þar sem þessari „stellingu" var lýst og átti hún að sýna karlmannlegt fas með sneið af lítillæti. Meyer telur enn fremur að 18. aldar menn hafi orðið fyrir áhrifum af því hvernig Grikkir og Rómverjar sýndu rithöfunda sína og ræðumenn í höggmyndalist. Þeir voru gjarnan sýndir með eina höndina undir togunni. Eskines frá Makedóníu (390-331 f. Kr.) sem var leikari og ræðusnillingur hélt því fram í bók sem eignuð er honum, að það væri ekki góður siður að tala nema með hendurnar undir togunni. En ekki gátu allir menn ráðið við hendurnar á sér undir klæðum eins og kunnugt er.

Karlar á Íslandi tolldu glögglega vel í tískunni eins og spýtukarlinn frá Munkaþverá í Eyjafirði sýnir okkur. Parísartískustraumar voru ekki óþekkt fyrirbæri meðal karla á Íslandi. Konurnar voru hins vegar í klæðnaði sem að hluta til átti ættir að rekja aftur til miðalda og höfðu sumir karlar greinilega ekkert annað að gera í harðærum í lok 18. og 19. aldar en að velta fyrir sér hvernig hægt væri að pakka konum inn í sem fyrnstar flíkur, meðan þeir leyfðu sér að spankólera um eins og tískudræsur í París.

Kannski er það þó svo að karlinn á spýtunni eigi einfaldlega að vera Naflaljón og kerlingin sé hún Jósefín, en þau voru hjón. Hvað er betra en að setja þau ofan á keisaraleg ljón sem urðu aflögu af einhverju spýtnarusli frá fyrri hluta miðalda sem ekki þótti lengur fínt að hafa uppi við í kirkju. En líklegra er þó að þetta séu einhver hreppstjórahjón sem viðvaningur í útskurði, eða listhneigður unglingur, setti á stall, þegar honum var ekki þrælkað út dags daglega.


Hjón og ljón

Hjón og Ljón 2 

Oft er erfitt að segja til um aldur gripa. Nýtni eða endurnotkun verður til þess að gripir frá ýmsum tímum eru settir saman og valda þá oft vísindamönnum miklum heilabrotum. Þessi virðulegu útskornu hjón, sem vafalaust hafa farið á flakk, hafa lent á spýtu sem líklega er miklu eldri en þau. Á spýtuna, sem er undir þeim, eru skorin tvö ljón. Bæði ljónaspýtan og hjónin eru úr birki og hafa einhvern tíma verið máluð. Nú er ljónaspýtan orði mjög máð en litirnir á karli og kerlingu eru ennþá greinilegir.

Sé hugsað að uppruna verksins er fátt til stuðnings. Jón Jónsson hreppstjóri á Munkaþverá í Eyjafirði gaf safninu gripinn árið 1873 en honum fylgdi engin saga. Því verður að leita upprunans í hlutnum sjálfum.

Mannslíkönin ná rétt niður fyrir brjóst og eru 27 cm og 35 cm að hæð. Bæði líkönin eru samsett. Framhlutinn af hempu konunnar er sérstakt stykki Það er fellt undir háls henni og að bakhluta hempunnar. Þessi framhluti er festur með trénöglum sem ganga í genum líkanið. Líkan karlsins er sett saman á svipaðan hátt, þar er treyjubakið fellt i að aftan en nær sá hluti upp á hnakka. Í gegnum karlinn eru líka tveir naglar til að halda honum saman.

Karlinn og kerlingin eru vafalaust skorin út á seinni hluta 18. aldar eða fyrri hluta þeirrar 19. Konan hefur kraga um hálsinn og er í hempu með leggingum í kringum hálsmálið og niður með börmum. Hempan er krækt niður á mitt brjóstið, en þar fyrir neðan sér í rautt. Þessi búnaður kemur vel heim og saman við búninga um aldamótin 1800. Þá höfðu pípukragarnir vikið en undirlag þeirra hélst sem kragi. Höfuðklútar voru algengir og hempan var notuð fram yfir aldamótin 1800. Klæðnaður karlsins er líka dæmigerður fyrir þennan tíma. Hugsanalegt er að karlinn og kerlingin hafi upphaflega verið fest á
rúmstólpa eða stól. Í Þjóðminjasafni er til rúmstokkur með stólpa frá Laufási í Eyjafirði, frá miðri 18. öld, sem á er skorið mannslíkneski og svipar til hjónanna frá Munkaþverá.

Spýtan sem líkönin standa á er 39 cm að lengd. Ljónin sem á hana eru skorin liggja og snúa hölum saman og leggja þá upp á bökin. Afar ólíklegt er að hjónin hafi upphaflega staðið á ljónaspýtunni. Þau passa illa á hana, standa út af og falla ekki vel að yfirborði spýtunnar. Auk þess er stíll útskurðarins allur annar. Ljónin sem hafa stór og sakleysisleg kringlótt augu með bogadregnum augabrúnum eru greinilega í rómönskun stíl og svipar mjög til ljóna sem algeng eru í alls kyns kirkjulist á 12 og 13. öld. Líkjast þau ljónum á útskurði í norskum stafkirkjum, á dönskum granítkirkjum og skírnarfontum frá
Gotlandi.

Athyglisvert er laufskrúðið á milli ljónanna. Nærri alveg ein ljón með laufskrúð á milli sín eru á broti úr steini sem fannst við fornleifarannsókn í dómkirkjunni í Niðarósi. Hann var undir turni elstu miðaldasteinkirkjunnar. Tvö ljón með tré, blóm eða pálmasúlu á milli sín eru oft á steinbogum fyrir dyrum kirkna frá fyrri hluta miðalda, sérstaklega þó í Danmörku. Algengt er í miðaldalist að tvö ljón beri súlu eða tré, sem táknaði súlu sannleikans, þ.e.a.s. krossinn, Tvö ljón með laufskrúð á milli sín eru í miðaldalist oft undirstaða róðu, lífstrésins sem á latínu heitri arbor vitae, öðru nafni crux florida, eða blómakrossinn

Mjög líklegt er að ljónaspýtan hafi upphaflega verið undirstaða róðukross á altari eða ofan á kórþili. Róða þýðir upphaflega staur eða eða súla. Ferkantað gat er í gegnum miðja spýtuna og gæti kross hæglega hafa verið skorðaður þar. Hugsanlegt er einnig að götin, sem líkönin hafa verið skorðuð í, hafi upphaflega verið fyrir Maríu mey og Jóhannes, sem oft eru sýnd standa við krossinn.

Það er ekki hægt að útiloka að ljónaspýtan sér frá því um 1200, en hugsanlega er hún eitthvað yngri. Á Munkaþverá var kirkja og klaustur frá árinu 1155 til siðaskipta. Þess má geta að um leið og líkneskin komu á safnið komu fleiri hlutir frá Munkaþverá, m.a. fjöl frá miðöldum sem hugsanlega er komin úr kirkju (Þjms. 964). 

Grein þessi er eftir Vilhjálm Örn Vilhjálmsson og Berglaugu Skúladóttur og birtist árið 1994 í hinni stórmerkilegu bók Gersemar og þarfaþing; Úr 130 ára sögu Þjóðminjasafns Íslands. Ritstjóri Árni Björnsson, bls. 32-33. Heimildaskrá á bls. 282.

Hjónin og ljónin hafa safnnúmerið Þjms. 960.

Ljósmynd Ívar Brynjólfsson, Þjóðminjasafn Íslands.

 

Viðbót: Höfundur er í dag ekki lengur sammála aldurgreiningu á hjónunum, sem byggðu á fræðum Elsu E. Guðjónssons. 1750-1775 finnst mér líklegri aldur út frá tísku karlsins, jafnvel þótt tekið sé tillit til að tískan hafi ekki komið eins fljótt til Íslands og úti í hinum stóra heimi.


Hvít jól

Witte Delft 

Flestir kannast við fyrirbærið Delft-keramík (Delft ware), sem er nafn sem hinn enskumælandi heimur hefur gefið öllu leirtaui (fajansa) sem er blátt og hvítt, sama hvort það kemur frá bænum Delft eður ei. Delft var þó langt frá því að vera eini bærinn í Hollandi þar sem hin blámálaða og hvíta keramík var framleidd.

Bláhvítur fajansi var þegar á fyrri hluta 17. aldar framleiddur í Hollandi. Hin mikla fjöldaframleiðsla á bláum og hvítum fajansa sem hófst í Hollandi upp úr 1625, átti að hluta til uppruna sinn að rekja til innflutnings og áhrifa frá Norður Ítalíu, Spáni og Portúgal í lok 16. aldar. Umfangsminni fajansaframleiðsla hófst þó miklu fyrr í Hollandi. Í Hollandi hófu menn einnig á fyrri hluta 17. aldar að líkja eftir blámáluðu skreyti á kínversku postulíni, sem barst í æ vaxandi mæli til Niðurlanda með austurförum hollenska austurindíska kompaníinu (VOC). Blámálaði, hvíti fajansinn í Hollandi var oft undir áhrifum af skreyti á kínversku postulíni, og stundum gerðist það að hollenskar gerðir diska og skála bárust til Kína, þar sem Kínverjar gerðu strax vandaðri eftirmyndir af þeim úr postulíni sem betur stæðir Hollendingar 17. aldarinnar sóttust mikið í.

Nú er í gangi sýning sem nýlega opnaði á Borgarsafninu í Haag (Gemeentemuseum den Haag). Það er ekki blámálaðri Delft vöru, heldur hvítri og rjómahvítri Delft-framleiðslu, sem er gert hátt undir höfði á þeirri sýningu. Sýningin ber heitið Delfts Wit, Het is niet alles blauw dat in Delft blinkt, á ensku White Delft, Not just blue sem á íslensku gæti útlagst Ekki er allt blátt sem í Delft blikar.

Í tengslum við sýninguna hefur verið gefin út mikil bók/sýningarskrá á hollensku og ensku, og svo vill til að ég er höfundur að efni í þeirri bók sem er einstaklega vel hönnuð. Það er svo sem ekkert merkilegt sem ég hef til málanna að leggja en ég hef ritað tvo litla innskotskafla í mjög merka grein ungs og efnilegs fornleifafræðings Ninu Jaspers sem ritar um hvítan fajansa frá Frakklandi, Ítalíu, Spáni og Portúgal sem hefur fundist í jörðu í Hollandi. Bókina er hægt að kaupa hér. Hollendingar keyptu t.d. hvítan, franskan fajansa fram til 1659 er þeir seldu t.d. íslenskan fisk í Frakklandi og keyptu þar salt, sem m.a. var notað til að salta íslenskan fisk. Nina Jaspers, sem rekur fyrirtæki í Amsterdam, leiddi mig í allan sannleika um uppruna sumra þeirra brota sem fundust í flakinu á hollenska skipinu de Melckmeyt (Mjaltastúlkunni), sem sökk í Höfninni við Flatey árið 1659, og sem byrjað var að rannsaka árið 1993.

44 white 3

Skál frá Spáni eða Portúgal sem fannst í flaki de Melckmeyt árið 1993. Ljósmynd Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.

Þegar ég fór með nokkur brot úr de Melckmeyt til Hollands árið 1995 hélt einn af fremstu sérfræðingum Hollands í keramík á þeim tíma, Jan Baart, því fram að hvítu diskarnir úr de Melckmeyt væri Ítölsk vara. Mjög áhugaverðar rannsóknir Ninu Jaspers hafa aftur á móti leitt í ljós, að brotin hvítu sem fundust á meðal bláhvítra brota í Flateyjarhöfn sé frönsk, og eitt brotanna, sem er úr fínni grautarskál er líklega frá Spáni eða Portúgal. Verslun með fisk frá Íslandi í höndum Hollendinga náðið allt suður til Kanaríeyja um miðja 17. öldina. Saltið var fengið á Spáni, í Portúgal og Frakklandi og fiskurinn sem allir vildu var m.a. sóttur til Íslands.

deMelkmeyt shards

Brot af ýmsum gerðum fajansa. Bylgjaða brotið lengst til vinstri í efri röðinni er af frönskum diski og kemur annað hvort frá Rouen (Rúðuborg) eða Nevers. Hinir diskarnir eru hollenskir og gætu sumir þeirra verið frá Delft eða nálægum bæjum. Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.

Fyllilegri saga skipaskaðans í Flatey árið 1659 og stærra samhengi þeirrar sögu reifa ég í grein sem nýlega kom út í síðasta tölublaði danska fornfræðiritsins SKALK árið 2013, sem ber heitið Købmand, Kaptajn og Helligmand sem hér má lesa. Í þessari nýju grein er að finna upplýsingar sem ekki hafa áður komið fram um leigjanda skipsins de Melckmeyt, Jonas Trellund, svo nú þýðir ekkert annað en að dusta rykið af dönskunni og lesa sér til fróðleiks. Jonas Trellund var danskur maður sem snemma leitaði hamingjunnar í Hollandi, færði síðan tengdafólki sínum mikil auðæfi, varð síðar gjaldþrota í Kaupmannahöfn og endaða ævina sem heilagur maður í bænum Husum í Suður-Slésvík. Þetta er spennandi Flateyjarsaga sem fer um alla Evrópu.

Ég stefni nú að því með dr. Ragnari Edvardssyni, að halda áfram rannsóknum á de Melckmeyt i Flateyjarhöfn, og vonast til að sem flestir vilji styrkja þær rannsóknir, svo ekki sé talað um Sigmund Davíð og upprennandi fornleifadeild ráðuneytis hans. Sigmundur, fornir diskar og Gleðileg Jól... 

Sjá einnig Allen die willen naar Island gaan   og Frönsku tengslin


Vond ljós og góð

kristjan_i_lundi 

Íslensk norn, sem oft er afar pólitískt korrekt, en þess á milli algjörlega ókórrétt og óþægileg örgustu kynsystrum sínum, skrifaði nýlega jólapistil þar sem hún vildi fullvissa menn um að sjöarma, sænska jólastikan sem hefur orðið svo vinsæl á Íslandi, sé alls ekki nein "gyðingaljós".

Það verður auðvitað að vara menn við að vaða í villu, ef þeir halda að þessi ljótu tröppuljós frá Svíþjóð eigi eitthvað skylt við gyðinga. Ekki er t.d. Össur gyðingur, svo mikið er víst, þó svo að hann hafi klínt  sænskri ljósastiku í gluggann heima hjá sér.

Not Jewish

Eva Hauksdóttir, sem menn héldu um tíma að væri af gyðingaættum, fræðir bæði í Kvennablaðinu og á Eyjunni um að þessar sænsku týrur séu ekki gyðinglegar og því með öllu óhættulegar. Góðir Íslendingar, þið móðgið sem samt ekki Palestínuþjóðina með því að vera með þessa lampa heima hjá ykkur.

Í fremur lélegri greinargerð sinni í Kvennablaðinu og Eyjunni um þessi ljós sem blásaklaus og illa gefinn almúginn leyfir sér að kalla "gyðingaljós", hefur Eva ekki einu sinni fundið hinn sanna uppruna ljósanna sænsku (sjá hér og hér), og heildsalinn sem byrjaði að flytja þetta "hemslöjd" frá Svíþjóð er rangnefndur í grein nornarinnar.

En sama hvað Eyjan og Kvennablaðið segja, eða hvað Eva norn lætur ljós sitt skína, þá er það nú staðreynd, að ljósastika gyðinga, hin sjöarma menorah, er fyrirmyndin að ljósunum sænsku. Sjöarma ljósastikur voru oft í kirkjum Evrópu á síðari hluta miðalda og t.d. á altörum sænskra kirkna frá því á 17. öld. Menn vildu minnast þess að kirkja þeirra stóð i beinu sambandi við musteri Salómons í Jerúsalem.

Í dómkirkjunni í Lundi er forláta sjöarma stika úr messing frá 15. öld, sem framleidd var í Niðurlöndum. 

Á myndinni efst stendur Kristján Sveinsson sagnfræðingur og starfsmaður Alþingis við stikuna stóru í Lundi og lætur ljós sitt skína, og er hann hvorki gyðingur né aðdáandi sænskrar stórmenningar. Kristján er hins vegar með hærri mönnum, þannig að þið sjáið að sjö arma ljósastikur eru oft hærri og veglegri en hæstu Svíar, svo ekki sé talað um spítnaruslaljósin sænsku sem seld eru í IKEA og víðar.

Svíaljósin, sem ekki eru "gyðingaljós", eru búin til af misnotuðum smábörnum sem þrælkað er út í Kína. Þið getið því hæglega haldið áfram að nota þessi ljós án vondrar samvisku. Gyðingar hafa ekkert grætt á þeim og þau hafa nú verið gæðastimpluð af virtri norn á Íslandi sem fremur særingar á Eyjunni, þar sem menn selja ekki söguna dýrar en þeir keyptu hana.

Menorah Kinga

Kinga frá 2. eða 3. öld e. Kr. , fundin í Jerúsalem, og sem sýnir m.a. Menoru, sjö arma ljósastiku gyðinga, sem var upphaflega olíulampi.


Gamalt kók á gömlum flöskum

coca-cola_ad_american_soldier_in_iceland_1943  

Hver kannast ekki við akfeita jólasveininn, sem drekkur kók í einum teyg? Hver man ekki eftir kókbílnum sem keyrði um sveitir og varð stærri og stærri sem árin liðu? Hver hefur ekki séð kóklestina, þetta unaðslega samgöngutæki sem svalar þorsta mannkyns og tendrar jólaljósin hvert sem hún fer, nema kannski í Darfúr?

Hver man ekki eftir fallega fólkinu, af öllum mögulegum og ómögulegum kynþáttum, sem söng á hæð (í Kaliforníu) á Ítalíu? Og allir sungu með: "I´d like to teach the world to sing". Milljón ropum síðar og með sætar minningar um rotnandi tennur og kókvömb, er fróðlegt að minnast þess að kókið hefur leikið mikilvægt hlutverk í utanríkisstefnu (sem sumir kalla heimsveldisstefnu) Bandaríkjamanna. Rússar áttu ekki drykk eins og Coca Cola, og því fór sem fór.

Kókið kom til Íslands árið 1942, um svipað leiti og Kaninn tók við af Bretum í hernáminu. Vildi Bandaríkjastjórn sýna sjálfri sér og heiminum, hve annt Íslendingum var um hersetuna, m.a. hvernig dátarnir svöluðu þorsta Íslendinga með kóki, þar sem þeir keyrðu um sveitir í jeppum og deildu út kóki á fólk í bæjum og til sveita. Allir teyguðu brátt kókið til sjós og lands.

Ætli þessi þjóðardrykkur Íslendinga sé ekki meira drukkinn af Íslendingum en blávatnið?

Með þessari kókminningu óska ég lesendum mínum gleðilegra jóla, og vona að Grýla, Leppalúði og Jólakötturinn fari ekki illa með ykkur. Ég er viss um að nokkrar þúsundir lítra af heimsveldisgosinu muni renna niður með steikinni ykkar um jólin og valda þembu og sýruátu á tönnum og í maga. Verið samt blessuð og sæl. 

Hér er gömul Pepsi-saga og Sinalco-saga.

Viðbót: Ég varð snemma kókþræll. Nýlega greindi ég meira frá dvöl minni í Riftúni, þaðan sem 3 börn komu aldrei söm til baka:

10. júlí árið 1969 skrifaði ég þaðan hróðugur til móður minnar og föður. "Við erum hér heppin að það er strákur hér og afi hanns heitir Björn Ólafsson og hann á Kóka Kóla verksmiðjuna og þers vegna fáum við Kók og Kóla að drekka í afmælum og segðu henni Siggu [systur minni] það." Drengurinn hét Halldór, en hann lést fyrir nokkrum árum síðan. ...

from Idaho to Iceland
 
Áður birt á www.postdoc.blog.is þann 20.12.2010
 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband