Færsluflokkur: Menning og listir

Penis destitutus in litore

imgp5108_b.jpg

Sigurður Hjartarson kenndi mér í MH á sínum tíma (sjá hér) og var meðal bestu kennara sem ég hef haft. Sigurður hefur síðar orðið þekktastur fyrir reðursafn sitt, Reðurstofuna sem varð að Hinu Íslenzka Reðasafni, sem fyrst var til húsa í Reykjavík, svo á tímabilinu 2004-2011 á Húsavík og nú í furðulegu samlífi með Tryggingastofnuninni á Laugavegi. Fornleifur er á því að það sé hvergi meiri reisn á nokkru safni á Íslandi, nema ef vera skyldi á Skógasafni, hjá fremsta fornfræðingi þjóðarinnar Þórði Tómassyni.

Þessi myndasyrpa er tileinkuð Sigurði Hjartarsyni. Hvalveiðasýning sjóferðasafns Hollendinga, Scheepvaartmuseum, í Amsterdam, sem ég heimsótti nýverið, espaði mig upp í þetta typpa-show. Pennateikningin efst blasti við flennistór, þegar inn í sýninguna var komið. Börn hlupu út af hræðslu.

Ég segi síðar frá sýningunni en þessi röð mynda af strönduðum hvölum með skaufann úti, fínu fólk og phallólógum? að mæla lengd hans, deili ég hér með lesendum mínum. Hægt er að stækka hverja mynd með því að þukla með músinni á hval reðrið (ekki klikka).

bzrson.jpg
Hvalrekinn í Berckhey árið 1598, teikning frá 1599.
 

Árið 1598 strandaði hvalur á ströndinni við Berckhey í Hollandi, þar sem einnig heitir Katwijk nærri Scheveningen, þar sem ég baðaði á ströndinni sem barn. Hvalrekinn og teikningar ýmissa listamanna af honum frá 17. og 18. öld er gaman að skoða og sér í lagi þann gífurlega áhuga sem menn sýndu hvalreðrunum. Upplýsingar um myndirnar er hægt að sækja á RijksStudio Rijksmuseums.

rp-p-ob-52_992.jpg
rp-p-ob-52_992b.jpg

  rp-p-ob-80_362.jpg

Hvalreki varð nærri Ancona á Ítalíu árið 1601. Notuðust Ítalir við hollenska list til að lýsa þeim atburði. Einu sinni rak ítalskan mann að Íslandsströndum, Paolo Turchi að nafni og var hann frá Ancona ef ég man rétt, en við æfðum einu sinni og stæltum vöðva okkar hjá Hrafni heitnum og Ágústu Johnsson.

rp-p-ob-80_362_b.jpg
 
rp-p-ob-80_361_1.jpg
 
rp-p-ob-80_361_b.jpg
 
rp-p-ob-80_355.jpg
Listamaðurinn sem bar ábyrgð á þessu var ekki áhugasamur um hvalareður.
 
 rp-p-ob-4635_1231442.jpg
 
rp-p-ob-4635_b_1231445.jpg

Mikilvæg verðmæti

handritin_heim_1971.jpg

Fornleifur er sammála Guðrúnu Nordal. Þegar handritin byrjuðu að koma heim á sínum tíma, hafði í flýti verið reist frekar léleg bygging, sem er í dag er lítið meira varið í en flekablokk í Grafarvogi. Þeir sem biðu eftir handritunum bjuggust við meiru.

Ég heyrði um daginn, að ferðamannaiðnaðurinn hefði nýlega farið fram úr fiskveiðum og -vinnslu hvað varðar verðmætasköpun. Fólk verður að gera sér grein fyrir því, að þegar ríkisstjórnin telur sig hjálpa fólki með lánabyrðarnar, þá heggur hún á lífvænlega undirstöðu þeirrar menningar sem margir ferðalangar koma til að sjá. Peningarnir eru teknir frá menningararfleifðinni og settir í dalla fólks sem sumt var í græðgikasti er það setti sig í skuldir. Handritið og annar menningararfur eru mikilvægar grunnstoðir "ferðamannaiðnaðarins" sem hefur eina mestu verðmætasköpun í landinu. 

Skammtímavermir fyrir fólk, sem flest mun hvort sem ekki er kjósa ríkistjórnina aftur, veldur því að stóra menningarholan hennar Guðrúnar Nordal við Hótel Sögu (sjá hér) verður ekki fyllt með menningarmiðstöð fyrir ritaðan menningararf þjóðarinnar. En ef Íslendingar geta ekki sýnt það glæsilega sem þeir eru frægastir fyrir utan bankahruns og Bjarkar, og byggt upp nútímalegar sýningar á hinum ritaða arfi sem og á fornminjum, þá eykst ekki þessi blómlega verðmætasköpun sem nú keppir við fiskinn. Gestirnir sem færa peninga í búið þurfa í staðinn að horfa niður í stóra gryfju við Hótel Sögu, holu þar sem átti að rísa Hús Íslenskra Fræða. Þar er nú stór ómenningarhylur.

Forsætisráðherra hefur eins og kunnugt er hertekið menningararfinn og ætlar að liggja á honum eins og Miðgarðsormurinn. En hann gerir ekkert að ráði fyrir arfinn. Fornleifafræðingar örvænta. Ráðherrann hefur látið smáskildinga af hendi rakna sem runnið hafa í framkvæmdir á gömlum húsum í kjördæmi hans. Greinilegt er að hann ætlar sér í sparnað á menningararfinum, sem nota á til þess að fjármagna kosningarloforðin. Þetta má einnig sjá á vali hans á embættismanni, Margréti Hallgrímsdóttur, sem var þjóðminjavörður fram til 1. febrúar. Menning er bara í munninum á Sigmundi.

Hvergi í löndum sem við líkjum okkur við, myndi kona með eins litla grunnmenntun og Margrét fá stöðu Þjóðminjavarðar. Hún hefur hins vegar sýnt frábæra takta í að spara, skera niður, reka fólk og loka öðrum söfnum. Margrét situr eins og Neró við hlið Miðgarðsormsins til þess að stjórna niðurrifi, og mikilvæg verðmæti "fuðra upp" í óvissunni og "gætu orðið að engu" eins og Guðrún Nordal orðar það.

Reyndar er ljótt að líkja Neró við Margréti, því nú vita menn að orðspor Nerós hefur verið svert af samtímamönnum hans og sagnfræðingum um aldaraðir. Hann var ekki einu sinni í Róm þegar borgin brann. En flestir muna ef til vill eftir því, að Guðrún Nordal sótti handrit í Þjóðmenningarhúsið, vegna þess að þessi óábyrgi þjóðminjaneró vildi ekki hafa næturvaktmann í húsinu (sjá hér). Færri vita að aðkomu hennar í lokun Náttúrminjasafns Íslands og er það hin ljótasta saga.

simmi_et_nero.jpg
Neró og Sigmundur
 

Ef taka á Sigmund Davíð alvarlega og þennan rómaða "menningaráhuga" hans, verður að efla það hugvit og þær stofnanir sem margir ferðamenn hafa áhuga á. Margréti Hallgrímsdóttur hefur ekki tekist það, þótt hún hafi fengið nýtt safn upp í hendurnar eftir að Þór Magnússon var látinn fara fyrir áratuga skussahátt og óreiðu. Þjóðminjasafnið er enn statísk stofnun með storknaða sýningu, og er starfsólkið í fræðilega hlutanum fátt og ekki eins vel menntað og það ætti að vera. Þjóðminjasafnið er með ómögulega safnastefnu. Gæslufólk á ekki að vera í meirihluta starfsmanna á safni og kökubakstur í anddyrinu á ekki að vera helsti reksturinn, þótt kaka sé vissulega líka mikil menning. En það sýnir vel forgangsröðunina að skrifstofustjóri safnsins gengur í starf Margrétar á meðan hún er í sérverkefnum fyrir Sigmund.

Sigmundur verður nú að sýna hinn mikla áhuga sinn fyrir öllu fornu og fallegu sem fyrst. Annars er ljóst að hann er bara áhugamaður um gerviantik eins og þá sem hægt er að kaupa í of dýrum skranbúðum. Það er ekki nóg að segja túristunum frá handritunum í rútunni, og miðað við staðnaða menningarmiðlun Þjóðminjasafnsins og svöðusárið hjá Bændahöllinni, þá er Sigmundur ekki í verðmætasköpun. Hann er bara að borga fyrir gömul kosningarloforð og gerir það á kostnað menningararfsins í landinu.


mbl.is Mikilvæg verðmæti gætu orðið að engu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mínir bræður, víðar er fátæktin en á Íslandi

ferdinand_medici_mauri_livornese.jpg

 

Síra Ólafur Egilsson prestur að Ofanleiti í Vestmannaeyjum (1564-1639) var einn þeirra Íslendinga sem mannræningjar námu á brott á hinn hrottalegasta hátt árið 1627. Mannrán sjóræningja frá Alsírsborg var ekki aðeins aðferð til að ná í þræla og ambáttir. Leikurinn var einnig gerður til þess að reyna að krefjast lausnargjalds. Þetta var ekkert annað en fjárkúgun á fólki sem þótti vænna um mannslíf en mönnum þótti í Norður-Afríku. Sumir sjóræningjanna voru Norðurevrópumenn, t.d. Hollendingar sem sjálfum hafði verið rænt og sem höfðu snúist/eða verið beygðir til Íslam. Þess vegna var síra Ólafur settur á skipsfjöl í Salé, ári eftir að hann kom í Barabaríið. Skipið sigldi  til hafnarborgarinnar Livorno í Toscana á Norður-Ítalíu. Ólafur var talin vænlegastur Íslendinganna til að koma skilaboðum um lausnargjaldskröfu til réttra aðila.

jan_luykens_slaves.jpg
Hluti af ristu eftir Jan Luykens í bók Pierre Dans Pierre. Historie van Barbaryen, en des zelfs zee-roovers, 2 delen. Amsterdam: Jan Claesz ten Hoorn, 1684. Hægt er að stækka myndina mikið með því að klikka á hana, og sjá hana alla hér í boði Fornleifs.

 

Reisubók Séra Ólafs var gefin var út í danskri þýðingu árið 1741 og síðar á íslensku í Höfn. Hún er til í fjölmörgum afritum og er frábær heimild um mannránin á Íslandi, dvöl Íslendinganna í Barabaríinu, en sömuleiðis vitnisburður af ferð Ólafs frá Salé til Íslands, sem og af gífurlega glöggu auga prestsins. Ég hef margoft lesið bókina í ágætri útgáfu Sverris Kristjánssonar sem kom út hjá AB árið 1969, sömuleiðis sum handritin, og dönsku útgáfuna frá 1651. Sumar lýsingar síra Ólafs eru mér eftirminnilegri en aðrar. Þótt Reisubókin sé stutt finnst mér ég alltaf vera að uppgötva nýja hluti í hvert sinn sem ég les frásögnina.

Livorno

Ég held mikið upp á lýsingunni á ferð hans frá Salé (nú í Marokkó), sem tók lengri tíma en ætlað varð þar sem sjóræningjar eltu skipið og skipstjórnaði hörfaði allt austur til Möltu. Áhöfn og farþegar urðu vatnslausir og urðu að leita lands til að finna sér vatn.Ólafur lýsir ferðafélögum sínum þannig:

Fyrst voru þar á þeir Italiani vij, Gyðingar iiij, hverjir mér gáfu nokkra brauðmola stundum, item iiij Engelskir, iiij Spanskir, v Franskir, og þá óttaðist eg, því þeir sáu jafnan súrt upp á mig, item v Þýskir með mínum förunaut. 

Það bætti enn í hræðsluna og hremmingar síra Ólafs, þó svo að súrir Frakkar væru alveg nóg. Skipið var einnig sett í sóttkví og er lýsing Ólafs sú fyrsta sem til er af þeirri aðgerð í sögu Evrópu. Íslendingar eru alltaf á staðnum. Loks komst Ólafur í land í fríföninni Livorno, sem hann kallaði Legor (þ.e. Leghorn sem var annað nafn borgarinnar sem Norðurevrópumenn kölluðu hana). Honum þótti mikið til borgarinnar koma, og fékk glorsoltinn vín epli og ost þegar hann komst í land eftir 6 daga á ytri höfninni í Livorno. Hann lýsir borginni vel, m.a. miklu "meistaraverki" sem fyrir augun bar: ­­

Þessu framar sá eg þar það meistaraverk, sem eg sá hvergi slíkt, hvað að voru iiij mannsmyndir steyptar af eiri, sem að svo sátu við einn stólpa af hvítum marmarasteini. Þær myndir voru í fjötrum af eyri. Stólpinn var ferskeyttur og sat einn við hvern flöt, og sáu því nær út sem lifandi menn, eftirmynd eins Tyrkja og þriggja hans sona, hverir eð kristninni höfðu stóran skaða gert, þeir eð voru að vexti sem risar, en sá hertogi sem þann stað byggði, vann þá í stríði, og lét svo steypa þeirra myndir til minningar, og hans mynd stendur upp yfir þeim með stóru sverði í hendi, og þar á múrnum eru settir Tyrkja hausar í kring, og svo rekinn stór gaddur í gegnum þau ofan í múrinn. Nú hljóðar ritningin, að ólukkan sú kom i yfir þá óguðlegu, sem þeir fyrirbúa þeim.livorno_lille.jpg

Stytta þessi stendur enn í dag í Livorno. Hún var gerð af Giovanni Bandini og Pietro Tacca á árunum 1617-1626 og sýnir Ferdinand I Medici greifa sem gerði Livorno af fríhöfn árið 1595. Gyðingar borgarinnar sem voru fjölmargir þökkuðu fyrir borgararéttindi sín með því að borga fyrir þetta mikla verk. Koparristan er eftir Stefano della Bella og er frá 1655.

 

Marseille

Ólafur ferðaðist frá Livorno til Marsaille og aftur var Ólafur í vanda:

Um kvöldið þess sama daga fékk eg hvergi hús í þeim stað allt til dagseturs. En eg bað með grátandi tárum vel í 20 stöðum. Á móti sjálfu dagsetri þá kom að mér ein kvinna, sem til mín talaði í réttri íslensku, þar eg sat með harmi hugar, sú sem sagðir: "Hvað ertú fyrir einn?". Eg ansaði og sagði: "Einn aumur Íslendur" Ertu Íslendur?" sagði hún, "svo kom með mér. Ég skal ljá þér hús í nótt. Eg er og svo íslend kvinna og svo herleidd." En þá ég kom í hennar hús, þá voru þar bæðir þýskir menn og engelskir, hverir að undirstóðu mín orð, og einn af þeim engelsku þekkti mig, sá eð var einn brillumakari. Þessi sagði, eg væri einn prestur af Íslandi. Þá skipaði hún mér strax út áf húsinu. Í því bili, þá hún tók til mín og vildi hrinda mér út af húsinu, þá uppvakti guð minn góður einn þýskan kaupmann. Sá gekk strax fram og upp frá drykkjuborðinu - því það var víndrykkjarhús - og lofaði að bítala fyrir mig mat og drykk, hús og sæng svo lengi sem ég væri í þeim stað.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort kráarmúttan íslenska hafi ekki í raun verið táknmál hjá síra Ólafi fyrir sjálfan djöfulinn, sem reyndi að lokka hann. Líklegast hefur hann í veruleikanum látið lokkast af portkonu og lent á porthúsi þar sem hann var ekki borgunarmaður fyrir neinu.

Þá má furðu sæta að Ólafi hafi tekist að ná til Íslands, aura- og allslausum, en á einhvern yfirnáttúrulegan hátt hitti hann ávallt gott fólk og gjafmilt sem hjálpaði honum í nauð og áfram áfram á ferð sinni. T.d. hinn hollenski kapteinn Caritas Hardspenner sem tók hann upp á arma sína í Marseille og sigldi með hann til Hollands á aðfangadag jóla 1628. Ferðin tók rúman mánuð. Ólafur segir frá:  

11 dögum fyrir Pálsdag missti ég um nóttina mína nærpeysu, hverja ég hafði þvegið  og upp í togin fest, hverja bátsfólkið niður sté um nóttina, þó óviljandi, svo eg þá ekki hefi eftir á mínum kropp, nema skyrtu gamla og lífstykki gamalt, í hverju ég var með fyrstu fangaður. Og strax þar eftir missti eg af hattinn af veðri. Þá gaf mér aftur annan hatt lítinn og gamlan minn frómi Caritas, og einn stýrimaður hálfa peysu gamla, en eg keypti hálfa sjálfur.

Í Kaupmannahöfn vildi Kristján 4. engu spandera á herleidda þegna frá Íslandi, sem nú voru fangar í Barbaríinu. Hann þurfti að nota hvern dúkat og eyri í hallir sínar og stríð. Hann fyrirskipaði því söfnun í kirkjum á Sjálandi og henni lauk ekki fyrr en 1635. Fé það sem þar safnaðist, sem og gjafir af Íslandi, voru sendar til mannræningjanna, sem að öllum líkindum hafa verið með vafasama umboðsmenn í Hollandi og Livorno sem tóku sér ríflega prósentu. Íslendingar voru leystir úr haldi fyrir um 4000 kýrverð eða 16.687 dali. Hinir útleystu voru þó aðeins 37 að tölu, en talið er að 300 Íslendingar hafi ekki snúið heim úr ánauðinni. Sumir vildu reyndar ekki snúa aftur, voru líklega af því kyni sem þykir allt betra annars staðar, sumir voru of dýrir, enn aðrir dauðir og snúnir til Íslam.  

Fyrir hina 300 Íslendinga voru aldrei manngjöld greidd. Þeir lágu óbættir hjá garði. Líkt og þeir rauðhæru kynlífþrælar sem hnepptar voru í þrældóm og fluttar til Íslands af norskum höldum, ef trúa skal DNA-fræðingum (sem ég geri aðeins mátulega). Konu sína, Ástu Þorsteinsdóttur, prests á Mosfelli, fékk Ólafur aftur úr Barbaríinu árið 1637, en þrjú börn þeirra urðu eftir. Síra Ólafur hefur örugglega andast í mikilli sorg. Ásta lifði mann sinn fram í háa elli. Ekki hefur sorgin verið henni minni.

Fleygust athugasemda síra Ólafs þykir mér: Mínir bræður, víðar er fátæktin en á Íslandi, sem hann lét flakka um lífið í Marseille. Þetta er eru orð sem enn eiga við og sem margir hálærðir prófessorar og herrar landsins hafa ekki skilið.

luykens_detail.jpg

Torfhús í Hollandi

plaggenhut_nederlands-openlucht-museum.jpg

 

Margir Íslendingar skömmuðust sín mjög fyrir að hafa búið í torfhúsum. Sumir menn, sem fæddust á fyrri hluta 20. aldar og fyrr, hafa reyndar haft þá draumsýn að skálar að fornu hafi verið miklu merkilegri hús en síðari tíma gangna- og burstabæir, eða þá kotin sem þeir fæddust sumir sjálfir og ólust upp í, sótugir í fasi. Það er þjóðernisrómantík, sem hefur alið af sér sögufölsun og afskræmi eins og Þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal, sem á ekkert skylt við síðasta skálann á Stöng í Þjórsárdal, sem eftirlíkingin á að sýna.

Ekki var "torfkofinn" fyrr yfirgefinn á Íslandi, en að einhver ruddist yfir hann með jarðýtu sem fengin var að láni úr vegavinnunni. Ég hef talað við gamlan mann sem ruddi niður rústum og torfbæjum í sveit þegar hann vann við vegavinnu. Það var kvöldvinna hjá honum. Hann fékk kaffi, stundum eitthvað sterkara, og gott bakkelsi fyrir greiðann. Karl Marx nefndi þessi híbýli Íslendinga og gerði lítið úr þeim í einhverju verka sinna. Íslenskir marxistar, sem hafa lesið Marx eins vel og Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur, hafa því alltaf verið miklir áhugamenn um steinsteypu. Danska hugtakið "Beton-kommunist" er því nafn með réttu, þó það hafi orðið til að öðru tilefni.

Fornleifafræðingar telja vitaskuld enga skömm af torfhúsum enda rum við flest komin af fólki sem byggði sér slík hús. Íslendingar byggðu með því efni sem þeir höfðu aðgang að. En sökum skammar og annarra þátta eru þau fáu torfhús sem enn standa á Íslandi söfn eða hluti af söfnum. Hitt varð tímans tönn að bráð eða jarðýtunum.

plaggenhut2.jpg

Torfhús í Hollandi

Eftir þetta formálasteyputorf er best að koma sér að efninu.

Það kemur kannski á óvart að torfhús voru einnig þekkt, og búið í þeim fram á 20. öldina í öðru Evrópulandi en Íslandi og það í landi sem er eitt rótgrónasta ESB-landið í Evrópu. Fæstir Hollendingar vita reyndar, að í landi þeirra bjó fólk í frekar hrörlegum torfhúsum sem Hollendingar kölluðu plaggenhut (plaggenhuten í fleirtölu). Fólk sem bjó í slíkum húsum var fátækt fólk til sveita, og það þótti skömm af búa úr slíkum hreysum, líklega svipað og að búa í Höfðaborginni í Reykjavík. Þessi hús var að finna í nyrstu héruðum Hollands, Drendthe, Fríslandi og Overijssel.

oude_peel001.jpg

Ýmsar aðferðir voru við byggingar þessara hollensku torfhúsa. Stundum voru veggir úr eins konar torfhnauss, en torfið var ekki skorið af sömu list og á Íslandi. Þetta voru oftast kofar reistir í neyð og engin stórbýli. Stundum var gafl úr múrsteini eða timbri. Oftast var þekjan torfi lögð en brenndir þaksteinar voru undir að strá-/reyrmottur. Það var enginn stíll yfir þessu eins og stundum á Íslandi, enda torfið kannski eins gott alls staðar í Hollandi og það var á Íslandi. Langhús úr torfi voru líka reist á járnöld á Fríslandi og á Jótlandi og menn telja að torfhýsi hafi einnig verið til í Hollandi á miðöldum og síðar.

 

15372.jpg

Í dag eru Hollendingar farnir, í nostalgíu og náttúruæði, að byggja eitthvað í líkingu við plaggenhuten fyrri tíma. Þeir koma víst ekki nær náttúrunni en það, í landi þar sem hver fermetri hefur verið umturnaður af mönnum. Þessar eftirlíkingar er ekki eins óhrjálegar og hús fátæklinganna sem bjuggu í hollensku torfhúsunum forðum. Í dag má einnig finna þessi torfhús endurgerð á byggðasöfnum og sumir hafa búið sér til sumarhús í þessum fátæklega byggingarstíl Hollendinga, sem vart getur talist til gullaldar þeirra.

Hér fylgja nokkrar myndir af hollenskum torfhúsum, stækkið líka myndina efst, hún er í góðri upplausn:

veen5.jpg
 
westerhaar-villa_bruggink.jpg
Þetta hús höfðu eigendur kallað Westerhaar Villa. Ekki skorti kímnigáfuna þrátt fyrir fátæktina.
binnenkant_harkema_spitkeet.jpg
 
spitkeet_harkema.jpg
 
plaggenhut_van_j_van_dijk_pb_middendorp.jpg
 
resolve.jpg 

Þessi mynd sýnir örvingluð hjón í Suður-Hollandi sem hófu að byggja sér torfhýsi árið 1937, þegar þeim hafði verið varpað á götuna. Hollenskir lögregluþjónar koma að. Enn aðrir reistu sér þessi hús þó þeir væru komnir í góðar álnir og aðallega til að minnast æskuáranna. Fjölskyldan sem átti húsið hét Vis (sem þýðir fiskur).

minne-vis-plaggenhut.jpg

Skyr på dansk

 skyrlifi.jpg

Danskerne påstår gerne, tynget af deres verdenskendte selvironi, at deres sprog er en afart af en halssygdom. Når det kommer til stykket, så vil de ikke altid indrømme det, sådan som så meget andet.

Dansk accent gennemsyrer også danskernes udtalelse af andre sprog. Danskere synes derimod selv, at svenskere og nordmænd ikke kan tale engelsk. Svensken og nordmænd er dog helt klart bedre til at ytre sig på engelsk en danskerne - siger jeg som islænding, for vi er naturligvis bedst til engelsk og amerikansk, bortset fra dem der bor i Oxford og Harvard. 

Engelsksprogede nationer undrer sig over det bløde d efter en lang vokal når danskere siger noget på engelsk. Det bliver således til "many possibilitiiids", eller da danske hippier sagde "Piiiids meehn" (Peace man). Nogle islændinge gør også en dyd ud af at udtale "udenlandsk" med hård islandsk accent. Blot for at vise sit vikingetrods, så ruller de ekstra hårdt på alle r'er og hvæser alle s, så det lyder som en boremaskine som er kørt fast i en betonvæg.

Man har som islænding vænnet sig til forskellige danske forvanskninger af islandske ord. Ordet Geysir lyder i dansk mishandling som en tysker der forsøger at sige gæs (gæsir) på islandsk. Ey, i geysir, udtales som a-et i det engelske orde late, og i-et lyder som et kort, dansk e eller i i det engelske ord is.

Den danske Skyr-voldtægt

Velmenende danskerne har nu taget det oldgamle islandske produkt skyr til sig. De tror det er en slags yoghurt (sådan som en skribent i Weekendavisen analyserede produkter), men det er faktisk ens slags ost.

Produktet blev i det tidlige 20. århundrede eksporteret fra Island til Danmark og endda forsøgt produceret i Danmark til nogle af datidens børns skræk og væmmelse. For den gang var det ikke det flødeblandede eller frugtberigede skyr som vi kender det i dag.

Jeg er holdt op med at mundhugges med danskere som udtaler ordet som om det er noget i slægt med skyer på himlen. Uanset om folk får at vide, eller hører, at jeg er islænding, så nægter de at tro mig med hensyn til ordet skyr. "De kan jo læse hvad der står på dosen", og der står "Skyer". Jeg afskyr når danskere er så stædige.

Hvis man, derimod, vil være lidt finkulturel og forstående overfor et stakkels, fintfølende mindretal i Nordatlanten, og ikke spise deres "skyer" (som Arla har fået et tysk mejeri til at producere for sig) på doser, så skal y-et i ordet skyr udtales som et kort e på dansk uden stød og r-et skal ikke sluges eller rulles, men dannes blidt bag fortænderne med svagt blæselyd forrest i munden. Hvis det gøres helt rigtigt, så lyder det endda sexet på islandsk.

Hvis man ikke kan udtale skyr rigtigt, virker den diabetesnedsættende effekt, produktet har ifølge forskerne, slet ikke.

Helt ærligt, så kan danskerne for min skyld forvanske alle ord og navne på islandsk, men skyr er et mere end 1000 år gammelt, islandsk produkt, som omtales i Sagaerne som glidekrem og underarmshårbalsam, og hvis indtagelse bl.a. har medført at gennemsnitslevealderen i min mors familie siden 980 har været 77 år, og det til trods for vulkanudbrud, hungersnød og temmelig megen druknedød på havet. Sådant et kulturelt ladet ord skal danskere og andre "værsgu" kunne udtale lige så godt som jeg udtaler rødgrød med fløde

 

Billedet øverst viser Islands tidligere udenrigsminister, Jón Baldvin Hannibalsson, som for mange år siden gjorde reklamefremstød for Skyr og påstod, at han ville gøre alt for islandsk landbrug, bortset fra at posere nøgen. På Island er man lige så glad for at han undlod at strippe, som man er utilfreds med dansk afskyerlig sprogfascime.

Kampen fortsætter

2018: Kampen for skyr fortsætter. Efter at den overstående udtalelsesvejledning for danskere blev skrevet, har firmaet ARLA, efter en forbrugerafstemning, bestemt! at det islandske ord skyr skal voldtages og kaldes for skyer, eller noget i den stil, (se her). Flertallet af danske skyr-spisere har fortsat ingen fornemmelse for sprog. Det har "islandske rådgivere" heller ikke når du påstår at skyr skal udtalers som "sgir" på dansk. De dansk-svenske mælkepushere hos Arla har tyskere i sin tjeneste i små lejre syd for grænsen, hvor de laver "skyer" til danskerne. Det er den omvendte Samarbejdspolitik, men respekten for andres kultur og sprog er lige så lille som hos et rigtigt Herrenvolk. Lad os hellere kalde det stjålne produkt for Rådgrod med flude, for danskeren kan nok aldrig kureres for deres halslidelse, deres manglende fornemmelse for sprog eller deres æselstædige sind - og det indrømmer de ikke.

 


Fyrsta skóflustungan

kopavogskirkja.jpg

Þessa mynd af fyrstu skóflustungunni fyrir byggingu Kópavogskirkju árið 1958 fann ég nýlega á netflakki. Myndin er svo falleg að hún verður að teljast til fornminja. Mér sýnist að hún sé tekin í kvöldbirtu. Kórinn er samsettur af fallegu fólki í sínu fínasta pússi og maður heyrir hann næstum því syngja angurvært og ein konan syngur aðeins falskt. Myndina sér maður í lit þó hún sé svarthvít. Presturinn er virðulegur og stórglæsilegur þar sem hann heldur fyrirmannlega á gleraugunum og horfir íbygginn inn í framtíðina, sem varð líklega allt önnur en hann hafði hugsað sér hana.

Aldrei hef ég inn í Kópavogskirkju stigið. Mér þótti þetta musteri svo fallegt þegar ég var barn, og fallegast áður en það var málað. Síðar hef ég komið nær því og orðið fyrir vonbrigðum. Mér sýnist að kórinn og presturinn standi þarna á einhverri rúst, sem horfið hefur þegar kirkjan var byggð. Það voru örlög rústa á þessum tíma. Takið eftir landmælingastikunni til vinstri á myndinni. Hún er nærri því eins virðuleg og síra Gunnar.

Heimild: Ljósmynd Vikunnar/Ljósmyndasafn Reykjavíkur


Drakúla á Þjóðminjasafninu

christopher-lee-001.jpg

Skömmu eftir að ég hóf störf á Þjóðminjasafninu í mars 1993 var haldin norræn kvikmyndahátíð í Reykjavík.

Ég hafði ekki tíma til að líta á hana, þar sem ég stóð í búferlaflutningum og var að koma mér fyrir í turni Þjóðminjasafnsins. Þjóðminjasafnið var lokað á mánudögum og er líklega enn. Ég var þennan morgun að koma út úr lyftu og að ganga inn í  fornaldarsalinn fyrrverandi, sem var orðin nokkuð fornfálega sýning en ágæt miðað við aldur, þegar að ég sé eldra, mjög vel klætt fólk komið inn á gólf í anddyri safnsins. Aðeins lítill hluti ljósanna var kveiktur og ég sá ekki hvaða fólk þetta var til að byrja með, en er ég gekk nær þeim sá ég að þarna var kominn sjálfur Drakúla greifi og spúsa hans, þ.e.a.s leikarinn heimsþekkti Christopher Lee (f. 1922) og kona hans dönsk. Lee var dómari á norrænu kvikmynda-hátíðinni.

Úti var leiðindaveður og éljagangur, og þau hjónin höfðu gengið veðurbarinn frá Hótel Sögu til safnsins til að fræðast um íslenska menningu. Þá var gengið inn um annan enda en nú á safnahúsinu. Árni húsvörður hafði líkast ekki enn lokað dyrunum þegar hann var að skafa tröppurnar en hann kom einnig að Drakúlu þegar hann var búinn að koma frá sér verkfærum.

Frúin talaði við mig dönsku og var ánægð yfir því að ég gæti talað við hana á dönsku, en heldur óhress á mjög yfirvegaðan og aristókratískan hátt yfir því að safnið væri lokað. Ég ég bað þau að koma daginn eftir.  Ég sé enn eftir því að hafa ekki boðið Drakúlu að skoða safnið í fylgd með mér. En ég var, man ég nú, upptekinn við að vinna verkefni sem tengdist sýningu íslenskra gripa í Bogasal sem höfðu verið á stórri víkingasýningu erlendis, en ég hafði skrifað sýningatexta um íslensku gripina fyrir þá sýningu.

En svona er maður stundum vitur eftirá og lítil blóðsuga í sér. Vona ég svo sannarleg að Drakúla hafi fyrirgefið mér þetta blóðleysi og skort á gestrisni í lok mars árið 1993. Annars er ég með blóðsugutryggingu, nóg af geirlauk og hælum sem reka má á bólakaf, og ef ég leita gæti verið að hentugur kross leyndist einhvers staðar ofan í skúffu uppi á háalofti.

chris-lee-dracula-web.jpg

Tannpína á laugardegi

nikolin.jpg

Í bráðskemmtilegu bréfi Benedikts Gröndals til Þorsteins Jónssonar læknis í Vestmannaeyjum árið 1895, sem birtist í Óðni árið 1919 má lesa ofanstæða klausu um Nikolin nokkurn sem stundaði "tannlækningar" á Íslandi á tímabilinu 1887-1895.

Nikolin var ekki maður sem Gröndal syrgði, en ekki höfðu allir eins slæman bifur á þessum manni og Gröndal. Var þessi tannsi aldrei öðruvísi nefndur á nafn en Nikolin, sem líkast til hefur verið eftirnafn hans. Auglýsti hann "þjónustu" sína í tímaritum og þar kemur fram að hann hafi stundað tannatog úr fátæklingum á þriðjudögum, fimmtudögum og laugadögum milli kl. 10 og 12.

_burns_archive_american_dentist_11.jpg
Ekki er þetta Gröndal í stólnum hjá Nikolin, en svona gæti Nikolin hafa borið sig að er hann dró tennur úr Íslendingum, þegar hann var ekki á fylleríi með Gröndal.

 

nikolin2.jpg

Ég býst við því að verðlagi hafi annað hvort verið stillt í hóf fyrir fátæklingana (sem í dag væri ólíkleg góðverk á meðal tannlækna), eða að Nikolin hafi veitt ómögum og fátækralimum verri þjónustu en þeim efnameiri. Oft var það þó svo, að fátækir voru með betri tennur en þeir sem endalaust sugu brjóstsykur, kandís og sykurmola. En það þótti fínt að láta draga úr sér tennurnar á tímabili, eða öllu heldur að fá nýjar mublur á góminn. Sumir fátæklingar gera eins og kunnugt er allt til að fylgja tískustraumum.

Svo mikill þjóðþurftarmaður taldist þessi Nikolin vera hjá þjóð kvalinni af tannverkjum, að hann var settur á fjárlög. Í 17. tölublaði Norðurljóssins árið 1891, þar sem greint er frá fjárlögum þess og næsta árs er undir Aðrar Styrkveitingar taldir upp þeir fræðimenn og sérfræðingar sem ekki gátu flokkast með aðalverkefnum sem fjármögnuð voru af hinu opinbera: Adjunkt Þorvaldi Thoroddsen veittar 1000 kr. hvort árið til jarðfræðisrannsókna í Skaptafellssýslu m. m. Hannesi Þorsteinssyni cand. theol. 600 kr. hvort árið til að koma skipulagi á landsskjalasaftnið o. s. frv. Nikolin tannlækni 500 kr. hvort árið til að halda áfram tannlækningum her á landi. Birni Ólafssyni augnlækni á Akranesi sömuleiðis 500 kr. hvort árið til að halda hér áfram augnalækningum. Halldóri Briem 300 kr. fyrra árið til að gefa út kennslubók i þykkvamálsfræði (sem á fræðimáli kallast stereometri).

Líklega finnast svör við því hverra mann Nikolin var, eða hvaðan hann kom, í ritgerð Lýðs Björnssonar um tannlækningar fyrr á öldum sem birtist fyrir löngu í Tannlæknatali. Enginn getur álasað mig fyrir að hafa ekki keypt æviskrár tannlækna, miðað við hvað ég hef bætt efnahag margra tannlækna. Ég vil helst ekki af þessari stétt vita. En samt þætti mér vænt um ef einhver gæti upplýst mig frekar um Nikolin þennan og hvaðan hann kom til að lina tannpínu Íslendinga.

nikolinaaa.jpg

Hvalasaga - 2. hluti

abraham_storck_-_walvisvangst.jpg

Ýmis konar heimildir um hvalveiðar fyrri alda á Norðurslóðum eru til. Nú fleygir fornleifafræðinni fram og fornleifarannsóknir sem gerðar hafa verið á Spitsbergen, Íslandi og Nýfundnalandi veita okkur haf af upplýsingum sem ekki voru áður þekktar. 

Á okkar tímum má finna öfgafyllstu hvalavinina á meðal Hollendinga. Um tíma hélt ég að annar hver Hollendingur væri annað hvort öfgafullur ESB sinni eða haldinn enn öfgafyllri hvalaþrá. Fyrr á öldum voru Hollendingar aftur á móti ein stórtækasta hvalveiðiþjóð í heiminum. Þess vegna er til margar heimildir um iðnvæddar hvalveiðar Hollendinga, og sumar ritheimildir um það efni eru enn órannsakaðar. Hugsanlega kann eitt og annað að finnast þar um hvalveiðar við Íslands. Við Íslendingar höfum varðveitt annála frá 17. öld sem upplýsa um upphaf þessara mikilvægu veiða við Ísland, en nú bæta frábærar fornleifarannsóknir í eyðurnar.  Enn hafa ekki fundist leifar eftir hvalveiðiútgerðir Baska við Íslandsstrendur, en það er aðeins tímaspursmál, hvenær slíkar minjar finnast.

Hvalveiðar og lýsi í list 

Eitt skemmtilegasta heimildasafn um hvalveiðar á 17. og 18. öld er að finna í alls kyns myndefni, sér í lagi frá Hollandi, hvort sem það eru málverk, prentverk, teikningar eða annað. Áhugi Hollendinga á hval var gríðarlegur, eins og öllu sem þeir sáu arð í á gullöld sinni á tíma hollenska lýðveldisins. 

Myndirnar sýndu mikilvægan iðnað, sem gaf af sér mikilvæga vörur, t.d. hvalalýsið, sem notað var til götulýsinga og vinnslu á brennisteini til púðurgerðar. Dýrasta lýsið var hins vegar höfuðlýsi, einnig kallaður hvalsauki. Það var unnið úr fitu úr höfði búrhvala og annarra hvala. Hvalsaukinn varð fljótandi við 37°C en storknaði við 29 °. Talið er að þessi olía stýri flothæfni hvala.  Fyrrum óðu menn í villu um eðli olíunnar og töldu hana vera sæði, þar sem hún þótti minna á sæði karla og var kalla spermaceti (dregir af sperma og ceti, sem er latneskt orð fyrir hvali). Úr stórum búrhval gátu menn fengið um 3-5 tonn af þessari merku olíu, sem var notuð í snyrtivörur smyrsl, kerti og margt annað.

Ríkir útgerðamenn í hollenskum bæjum þar sem hvalaútgerðin hafði heimahöfn létu útbúa fyrir sig skápa með myndum af hvalveiðum. Húsgaflar hvalveiðiskipstjóra voru skreyttir með lagmyndum af hvalveiðum og ýmsir smærri gripir voru skreyttir með myndum af hvalveiðum. Hvalskíði voru notuð í alls kyns vöru, t.d. regnhlífar, en einnig í ramma utan um myndir, í öskjur og mismunandi heimilisiðnað.
a0860b66c3e6adb72300c76295b330d8266ec1d9.jpg
Lágmynd af húsgafli sem varðveitt er á Fries Scheepvaart Museum.
 

Skoði maður málverk og myndir af hvalveiðum Hollendinga á 17. öld, er oft hægt að finna hafsjó af upplýsingum, þó svo að myndirnar hafi ekki verið málaðar af mönnum sem sjálfir ferðuðust til Spitsbergen, Jan Mayen, Grænlands og Íslands. Áður hef ég greint frá málverki Cornelis de Man af Smeerenburg (sem yfir á íslensku er hægt að þýða Spikbær) á Spitsbergen (sjá enn fremur hér). Þar er mikið um að vera og stórir brennsluofnar í notkun. Leifar af ofnum í líkingu við þá sem sjást á málverkinu hafa ekki verið rannsakaðir á Spitsbergen, og hafa ekki fundist. Prentmyndir (ristur) annarra listamanna myndir sýna ef til vill raunsærri mynd af vinnu við hvalinn í landi og ofna sem líkjast meira þeim sem rannsakaðir hafa verið, t.d. á Strákatanga og á Spitsbergen. Þeir eru af sömu stærð (sjá fyrri færslu). Listamaðurinn de Man hefur líklega sett spikofna eins og hann þekkti þá frá Hollandi inn á mynd sína, eins og svo margt annað.

lysisbrae_sla.jpg
Myndin er af korti Thomas Edge af Spitsbergen, sem hann kallar Grænland fyrir misskilning, sem kom út í bókinni Purchas His Pilgrimes/Hakluytus Posthumus eftir Samuel Purcahs (London 1625. Sjá kortið hér.
 
walvisvangst_bij_de_kust_van_spitsbergen_-_dutch_whalers_near_spitsbergen_abraham_storck_1690_detail.jpg

Málverk eftir Abraham Storck. á Rijksmuseum het Zuiderzeemuseum, Enkhuizen. Klikkið nokkrum sinnum með músinni á myndina til að sjá smáatriðin.

Tvö málverk Abrahams Storcks (1644-1708) sýna úrval að því sem gerist við hvalveiðar og hvalavinnslu á norðurslóðum. Þó að allt sem á myndunum sjáist sé ekki nákvæmt, eru þær frábær heimild, jafnvel þó svo að listamaðurinn hafi aldrei sett færu á Spitsbergen. Hann hafði heimildarmenn, og notaðist við teikningar annarra listamanna og safaríkar frásögur hvalveiðimanna sjálfra. 

abraham_storck_-_walvisvangst_detail.jpg
Skoðið þennan hluta málverksins efst, og klikkið á myndina til að skoða smáatrið.  Er þetta er miklu skemmtilegra en sjóræningjamynd? Málverkið tilheyrir Rijksmuseum í Amsterdam.

 

Föt hvalveiðimanna

Gaman er bera saman hinar mismunandi heimildir um hvalveiðar á 17. öld. Skoðar maður til dæmis vel föt og flíkur hvalveiðimanna á málverkum hollenskrar gullaldar, er ævintýri líkast að sjá þau föt sem fundust við fornleifarannsóknir á gröfum hvalveiðimanna á Smeerenburg. Stækkar maður brotið úr mynd Abrahams Storcks hér fyrir ofan mætti halda að þarna væru þeir komnir sem létust við störf sín þegar þeir dvöldu á Spitsbergen. 

dutch_pants_spitsbergen_2.jpg
 
img_0004.jpg
Húfur hvalveiðimanna á Spitsbergen frá 17. og fyrri hluta 18. aldar.

 

Tengd efni:

Hvalasaga - 1. hluti

Hvít Jól

Kaptajn, Købmand og Helligmand

Allen die willen naar Island gaan


Hvalasaga - 1. hluti

walvisch_zorgdraager_lille.jpg

Einn af merkari fornleifauppgröftrum síðari ára á Íslandi eru rannsóknir dr. Ragnars Edvardssonar á rústum hvalveiðistöðvar frá 17. öld á Ströndum. Ragnar hefur rannsakað rústir hvalveiðiverstöðvar og lýsisbræðslu á Strákatanga í Steingrímsfirði, (sem er að finna í Hveravík í norðanverðum firðinum gegnt Hólmavík). Ragnar hefur sömuleiðis unnið frumrannsókn á rústum hvalveiðistöðva í Strákey og í Kóngsey, sem eru norður af Steingrímsfirði. Rannsóknirnar varpa skíru ljósi á verslunar- og iðnaðarsögu Íslands. Sögu hvalveiða er einnig mikill akkur af rannsóknum Ragnars. 

Ég set hér hlekki í rannsóknarskýrslur Ragnars svo menn geti kynnt sér þessar merku rannsóknir hans og félaga hans árin 2007, 2008, 2009, 2010 og 2012.lysisofn.jpg

Lýsisbræðsla á Strákatanga

Á Strákatanga fundust vel vaðveittar rústir lýsisbræðsluofns. Engum vafa er undirorpið að hann er byggður af hollenskum hvalföngurum. Tígulsteinninn í honum er greinilega hollenskur, einnig minni forngripir sem fundust þeim húsarústum sem rannsakaðar voru. Reyndar telur Ragnar að mögulegt sé að Baskar hafi einnig verið þarna á ferðinni. Það þykir mér frekar ólíklegt út frá þeim forngripum sem fundist hafa á Stráka. En ekki ætla ég að útiloka ég það, þar sem baskneskir hvalveiðimenn kenndu Hollendingum hvalveiðar og hollenskar útgerðir höfðu í byrjun 17. aldar oft baskneskar áhafnir eða baskneska sjómenn um borð á skipum sínum.  Íslenskir annálar greina hins vegar frá hvalveiðum Baska frá Spáni við Íslandsstrendur upp úr 1610 og frá baskneskum hvalveiðiskipum. Önnur heimild, Íslandskort frá 1706 (í útgáfu á Blefken sem prentuð var í Leyden í Hollandi), upplýsir að Baskar hafi verið við hvalveiðar við Ísland árið 1613. Það hefur verið til umræðu áður á Fornleifi.

ofn_plan_1227801.jpg

Bræðsluofninum á Strákatanga svipar mjög til bræðsluofns sem rannsakaður var á 8. áratug síðustu aldar á Spitzbergen. Í Gautavík í Berufirði hefur einnig verið rannsakaður hollenskur lýsisbræðsluofn. Óvíst er þó hvort hann hefur verið notaður til bræðslu á hvalspiki.

lysisofn_smeerenburg.jpg

Þessi ofn var rannsakaður af hollenskum fornleifafræðingum á Smeerenburg-tanga á Amsterdameyju á Spitzbergen á 8. og 9. áratug síðustu aldar. Hann er sömu gerðar og ofninn sem rannsakaður var á Strákatanga. Úr gein Louwrens Hacquebords um rústirnar í bókinni Walvisvaart in de Gouden Eeuw (Amsterdam 1988). Hvalveiðistöðin á Strákatanga var lítil miðað við stöðina á Spitzbergen. 

Fornleifafræðingarnir hollensku, sem rannsökuðu hvalveiðistöðina í Smeerenburg á Spitzbergen á 8. áratug síðustu aldar, gerðu sér í hugarlund að brennsluofninn sem þeir rannsökuðu við erfiðar aðstæður hefði verið byggður upp á þennan hátt:

ofnar_smeerenburg.jpg

Svona ímynda menn sér að ofninn á Smeerenberg hafi verið byggður. Úr grein Louwrens Hacquebords um rústirnar í bókinni Walvisvaart in de Gouden Eeuw (Amsterdam 1988). Eins og sjá má voru þetta stórar hlóðir sem á var sett stór ketill, þar sem spikið bar brætt. Eldsneytinu var ýtt inn um bogamynduð göng, sem mér sýnist vera samanfallin, en annars vel varðveitt á ofninum á Strákatanga.

Einnig er til fjöldi málverka og prentmynda frá 17. og 18. öld sem sýnir spikbræðslu Hollendinga, annars vegar í Hollandi og hins vegar í Norðurhöfum.

Þar að auki eru húsin á Strákatanga sem Ragnar og samstarfsmenn hans hafa rannsakað mjög svipuð húsakynnum Hollendinga á hvalveiðistöðvum þeirra í Norðuríshafinu.  Gólf sumra húsanna í hvalverstöðvum Hollendinga voru lögð tígulsteinum.

strakatangi_hus.jpg
hus_a_smeerenberg_1227812.jpg
 Hús á Strákatanga með gólfi lögðu tígulsteinum (efri mynd). Húsið er frá fyrri hluta 17. aldar, en sams konar gólf fannst í rústum stórrar byggingar frá sama tíma á Smeerenburg á Spitzbergen.
 
Hugmynd Ragnars Edvardssonar um húsaskipan á Strákatanga:
strakatangi_hugsyn_red_2008.jpg

 

Leifar eftir baskneskar hvalveiðar hafa enn ekki fundist á Íslandi?

Hugsanlega má vera að bræðsluofn að gerð Baska sé að finna undir hollenska ofninum á Strákatanga.  Hann væri þá meira í líkingu við þá ofna sem fundist hafa á Penny Island í Red Bay á Nýfundnalandi, þar sem Baskar höfðu hvalstöðvar þegar á 16 öld. Kanadamenn hafa gert hvalveiðiminjum Baska í Rauðuvík hátt undir höfði og voru minjarnar og staðurinn settar á heimsminjaskrá UNESCOs árið 2013. Hugsanlega gera Íslendingar sögu annarra þjóða við Ísland eins vel, en  miðað við þær heimalningslegu áherslur sem Íslendingar hafa lagt áherslu á til útnefningar á Heimsminjaskrá er ólíklegt að hinn merki minjastaður Strákatangi fari á þá skrá í bráð, þó svo að hvalveiðar Baska og Hollendinga hafi verið ein mesta byltingin í veiðum við Strendur Íslands.

article_large_1227780.jpg

Lýsisbræðsluofnar Baska á Penny Island voru miklu minni en ofnar Hollendinga og af annarri gerð. Ef þannig ofnar finnast einhvern tíman á Íslandi, höfum við fornleifar sem styðja ritheimildir um Baska. Enn sem komið er sýna fornleifar ekki þau tengsl. Það er hins vegar aðeins tímaspursmál að slíka minjar finnist.

row2_3.jpg

 

 Svona ímynda menn sér að basknesku ofnarnir á Penny Islands hafa litið út, en miðað við upplýsingar af fundarstað, er þetta oftúlkun. 

Til þess að ég sé sæmilega fullviss um að hvalveiðistöð sem grafin er upp á Íslandi hafi verið undir stjórn Baska, verða forngripirnir að vera frá Baskalandi, þ.e. Spáni eða t.d. Frakklandi. Í því forngripameni sem fundist hefur á Strákatanga er ekkert sem bendir til Baksa, hvorki leirker né aðrir gripir. Á Spitzbergen, hafa hins vegar fundist spænskir diskar og krukkur, en það er hins vegar ekki mjög óeðlilegt, því hollendingar fluttu unn leirker frá Spáni.

Þessa færslu er vart hægt að enda nema með tilvitnun í meistaralegt en hvalræðislegt prumpurraggae eftir Ómar Ragnarsson, föðurbróður Ragnars Edvardssonar. Ómar lýsir þar raunum sínum eftir kynni sín af hinum umdeilda bjór Hvalnum, sem mun innihalda vel soðnar iðraleifar. Pempíur og nöldurkerlingar nútímans, sem fárast yfir hvaða bakteríu sem er, ættu þá að vita hvað sett er í ostinn sem þær borða svo ekki sé talað um jógúrtina, sem byggð er upp af bakteríum sem danskt fyrirtæki ræktar eftir að hafa safnað þeim úr bleyjum kornabarna á dönskum spítölum:

Kvalinn eftir Hvalinn

Hvalaiðra beiskan bjór

í bland með skötu kæstri

ákaft  bergði og svo fór

með útkomunni glæstri

á klósett eftir þetta þjór 

með þarmalúðrablæstri. 

 

Vínþolið, það var að bila, -  

veifað gulu spjaldi, -

orðið nærri að aldurtila

og gegn dýru gjaldi,

þarmabjór hann þurfti að skila

í þarmainnihaldi.

(Ómar Ragnarsson, 2014)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband