Bloggfærslur mánaðarins, desember 2014
Fornleifafræðingar ásakaðir um eyðileggingar
23.12.2014 | 11:09
Haraldur Sigurðsson jarðfræðingur birtir í dag (23.12. 2014) athyglisverða og líkast til réttmæta skammarræðu á vinsælu bloggi sínu, þar sem hann segir frá röskun fornleifa að Gufuskálum, sem má rekja til slælegs frágang fornleifafræðinga á rústum sem þeir hafa verið að rannsaka þar á síðastliðnum árum.
Fornleifur gerði eftirfarandi athugasemdir við blogg Haralds, sem vitnaði í grein í Fréttablaðinu 22.12.2013 (bls. 2), en blogg Haralds skýrði málið enn frekar en Fréttablaðið. Hér er athugasemd mín:
Ekki held ég að meginþorri íslenskra fornleifafræðinga verðskuldi kaldar kveðjur þínar, Haraldur, hér á Þorláksmessu.
Rannsóknin að Gufuskálum er gerð af Fornleifastofnun Íslands, sem þrátt fyrir hið fína "opinbera nafn" er sjálfseignarfyrirtæki. Rannsóknin var unnin í samvinnu við NABO, sem eru samtök sem stofnuð voru af bandarískum fornleifafræðingi, Thomas H. McGovern, sem gengið hefur uppi með ofstopa í öðrum löndum en BNA, til að halda uppi deild sinni við CUNY. McGovern þessi skrifaði mér einu sinni og hótaði mér að sjá til þess að ég yrði útilokaður frá íslenskri fornleifafræði og að allir peningar frá Bandaríkjunum sem hefðu annars farið í rannsóknir á Íslandi yrðu sendir "to the Soviets". Þessi maður og lið hans byrjaði eitt sinn rannsóknir á Ströndum, án þess að hafa tilskilin leyfi til þess. Þá vann ég með honum, en ákvað þegar að hætta er ég uppgötvaði hvernig hluti rannsóknarliðsins hunsaði íslensk lög. Í kjölfarið fékk ég bréf, þar sem mér var hótað og þegar ég kom til starfa á Þjóðminjasafni Íslands árið 1993, sendi McGovern bréf til setts Þjóðminjavarðar Guðmundar Magnússonar, þar sem ég var illilega rægður.
Þess vegna undrar frágangurinn á rannsökuðum minjum að Gufuskálum mig ekki. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem NABO og Fornleifastofnun Íslands skilja minjar eftir sig í lamasessi og óvarðar, eftir að þeir hafa framið strandhögg fyrir fornleifa-bissness sinn.
Í skýrslu Fornleifastofnunar yfir skráningar á fornleifum að Gufuskálum, er vitaskuld ekki minnst á þetta rask.
Ljóst er að yfirvöld verða að grípa inn og láta aðra rannsaka á Gufuskálum til bjarga því sem bjargað verður.
Árið 2007 skrifaði ég einnig um aðfarir Fornleifastofnunar Íslands að fornleifum í Hringsdal við Arnarfjörð árið 2007. Lítið var gert, en eigendur fyrirtækisins Fornleifastofnunar Íslands æstu sig víst mikið út af gagnrýninni við alla aðra en mig, þó ég hefði afhjúpað slæleg vinnubrögð þeirra í grein sem ég kallaði Kumlarask.
Myndin efst er frá heimsókn fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Luis E. Arreaga, hjá fornleifafræðingum að Gufuskálum. Sendiherrann skrifaði þetta á blog sitt: The archeological dig at Gufuskálar is a great example of the longstanding partnership between American and Icelandic premiere scientific institutions (Sjá hér). Sendiherrann hefur vonandi ekki vitað af eyðileggingu og lögleysu þeirri sem á stundum hefur fylgt verkefnum NABO-hópsins og "premier institutions".
Eyðilegging fornleifa | Breytt s.d. kl. 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Rennur ítalskt blóð í æðum Grýlu?
17.12.2014 | 07:58
Hún er sig svo ófríð
að höfuðin ber hún þrjú,
þó er ekkert minna
en á miðaldra kú.
Þó svo að Grýla okkar hafi aldrei verið rómuð fyrir andlegan eða líkamlega fríðleika og séra Stefán Ólafsson í Vallanesi hafi m.a. lýst henni sem óvætti með þrjú höfuð og ýmsar aðrar lýtir á 17. öld, grunar Gvend að Grýla eigi lítið annað að sækja til tröllkonunnar Grýlu sem Snorri Sturluson lýsir á 12. öld, en sjálft nafnið.
Ég hef lengi velt því fyrir mér, hvort Grýla eigi ekki frekar ættir að rekja til Ítalíu og sé engin önnur en La Befana, jólakerling þeirra Ítala og margra annarra.
La Befana var samkvæmt þjóðsögunni kona sem fékk Vitringana þrjá í heimsókn nokkrum dögum fyrir fæðingu Jesúbarnsins. Vitringarnir báðu hana að vísa sér til vegar svo þeir gætu fundið Guðs son. Þeir hefðu séð stjörnu eina mjög bjarta á himni. Hún sagðist ekki vita hvar Jesúbarnið væri að finna. Þeir voru þreyttir svo hún leyfði þeim að gista eina nótt. Daginn eftir buðu Vitringarnir henni að slást í för með sér, en hún afþakkaði boðið með þeirri röksemd að hún hefði allt of mikið að gera, sér í lagi við húsverkin, alls kyns tiltektir og sópun. Síðar sá la Befana sárlega eftir þessari ákvörðun sinni og hóf að leita uppi vitringana og Jesús. Hún fann þá ekki og leitar þeirra enn þann dag í dag. Hvar sem hún fer gefur hún góðum og þægum börnum leikföng og karamellur, eða ávexti, meðan óþægu börnin fá aðeins kol í sokkinn, eða jafnvel lauk eða hvítlauk...og sum fá að kenna á vendinum.
Grýla Ítalíu líkist greinilega á margan hátt sonum sínum. Hún gefur kol í sokkinn, meðan Grýla sigar Jólakettinum á óþekk börn. Þessi fékk hvítlauk og aftur hvítlauk þegar hann var ungur.
Önnur þjóðsagan lýsir Befönu sem móður er missti drengbarn sem hún elskaði mjög hátt. Befana varð vitstola við barnsmissinn. Er hún heyrði að Jesús var í heiminn kominn, lagði hún land undir fót til að finna hann, í þeirri trú að hann væri sonur sinn. Loks fann hún Jesús og færði honum gjöf. Jesúbarnið á í staðinn hafa gefið La Befana gjöf og gerði hana að "móður" allra barna á Ítalíu.
Enn önnur sagan segir að la Befana hafi rekið vitringana þrjá á dyr, því hún var svo upptekin við að sópa og snurfusa. Hún var skapstór. Síðar uppgötvaði hún mikið stjörnuskyn á himni og lagði þá land undir fót til að leita Jesúbarnsins með sætabrauð og aðrar gjafir handa því. Hún tók einnig kústinn með til að hjálpa Maríu mey við hreingerningarnar. Hún fann þó aldrei Jesús og er enn að leita hans, og þess vegna gefur hún börnum enn gjafir í þeirri von að hún hafi fundið Jesúbarnið, vegna þess að Jesúsbarnið er að finna í sálum allra barna, eða þangað til fólk með einkarétt á sannleikann bannar þeim það og kallar það siðmennt.
La Befana
Enn ein sagan segir að la Befana ferðist um á vendi sínum og flengi alla með vendinum sem hana sjá á flugi, þar sem henni er ekki um gefið um að fólk og börn uppgötvaði að húni komi klofvega til byggða á kústinum.
Befana kemur til byggða fyrir Þrettándinn (6. janúar) sem var eins og allir vita opinber fæðingardagur Krists allt fram á 6. öld. Dagurinn er á Ítalíu einnig kallaður Festa della Befana. Þrettándinn, síðasti dagur jóla, hefur fangið gamalt grískt heiti hátíðar Epiphania og tengdist síðar Vitringunum þremur sem mættu í fjárhúsið í Betlehem. Kenna sumar þjóðir því enn daginn við Vitringana þrjá (sbr. Helligtrekonger í Danmörku og Driekoningen í Hollandi).
Af Epiphania er nafn Befönu dregið. Eldri mynd nafns hennar var Pefania.
Befana í heimsókn í bænum Adria nærri Feneyjum. Ekki er laust við að hún hafi tekið með sér karlinn sinn sem er dálítið lúðalegur. Kannski hafa þeir lesið bók Árna Björnssonar um Jólin og tekið upp Il "Leppaludo"?
Margt merkilegt hefur verið skrifað um Befönu, og telja ítalskir sérfræðingar með svipaða menntun og Árni okkar Björnsson, að rekja megi uppruna hennar allt aftur til steinaldar. Minna má það auðvitað ekki vera. Kenndu Ítalir ekki Kínverjum að búa til pasta?
Líkt og Befana, var Grýla okkar dugleg með vöndinn sinn (kústinn) og hún lét köttinn svarta? (kolin sem í dag á atómöld eru gefin með táknrænni lakkrískaramellu í sokkinn) nægja börnum sem höfðu verið óþekk:
Þannig hljóðaði margfræg jólasveinsvísa á Hornströndum á 19. öld
Jólasveinar ganga um gólf
og hafa staf í hendi.
Móðir þeirra sópar gólf
og strýkir þá með vendi.
Skarpan hafa þeir skólann undir hendi.
Ýmsar aðrar gerðir eru til af vísunni (sjá hér og hér), en Grýla er líkt og la Befana iðin við flengingar, hýðingar, tiltektir og sópun. La Befana sópaði samkvæmt þjóðsögunni dagana langa. Ef vitnað er í gamlar vísur um Befönu verður þetta enn augljósara. Befana býr nefnilega einnig í fjöllunum eins og Grýla:
Viene, viene la Befana
Vien dai monti a notte fonda
Come è stanca! la circonda
Neve e gelo e tramontana!
Viene, viene la Befana
Hér kemur, já hér kemur hún Befana
Úr fjöllunum ofan um miðja nátt
Þreytt og öll dúðuð upp, sjáið hana.
Í snjó, hrími og norðanátt!
Hér kemur, já hér kemur hún Befana.
Vitaskuld er margt annað ólíkt með Grýlu og La Befönu. La Befana átti til dæmis ekki jólasveina, en eins og við vitum eignast Ítalir ekki mörg börn. Þannig er það enn.
Auðvitað er ekki allt fundið upp á Íslandi, nema kannski vitleysan. Jólakötturinn er að öllum líkindum heldur ekki íslenskur og örugglega ekki sænskur eins og einn kyndugur kvisturinn í sænsku menningarmafíunni á Íslandi hélt einu sinni fram með jólaglampann í augum í Árbók hins íslenska fornleifafélags.
Uppruni jólasiðanna er líklega margslungnari en menn halda.
Ítalskir karlmenn og einstaka stjórnmálamenn munu víst margir óska sér einhvers í sokkinn frá þessari tötralega klæddu banka-Befönu, en flagð er víst oft undir fögru skinni. Hún ætti að flengja þá ærlega, og sumir hafa víst einmitt óskað sér þess fyrir jólin.
Þjóðhættir | Breytt 23.12.2021 kl. 01:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Herramannsmatur
13.12.2014 | 15:20
Hollendingar eru þekktir fyrir að mála matinn sinn, enda hluti þjóðarinnar miklir matmenn og þorði að láta berast á þegar velmegun ríkti. Annar hluti Hollendinga eru sparsamir púrítanar sem í gegnum aldirnar hafa hneykslast mjög á málverkum sem sýna bruðl og allsnægtaborð matgæðinga yfirstéttanna á 17. og 18. öld.
Árið 1780 málaði Maria Margaretha la Fargue þetta skemmtilegu ólíumálverk af fisksala sem heimsækir hús efnaðrar fjölskyldu við Dunne Bierkade (Þunna bjórsgötu) í Haag (den Haag) í Hollandi. Á hjólbörum sínum er fisksalinn með girnilegan, fallega hvítan saltfisk, sem Hollendingar kölluðu oftast klipvis (v-ið borði fram sem f).
Ekki er laust við, að dæma út frá svipnum, að hefðadömunum þyki fiskurinn girnilegur, eða kannski voru það bara fisksalar sem þeim þóttu lokkandi? Þeir hafa að minnsta kosti verið hugleiknir listakonunni, því hún málaði annan, þar sem hann var að selja girnilegar, reyktar laxasíður. Þetta var víst löngu áður en fisksalar fóru að hafa sterkari efni í fiskborðinu.
Mjög líklegt má teljast, að saltfiskurinn, sem seldur var í hús við Þunna-Bjórsgötu í Haga árið 1780, hafi verið verkaður á Íslandi, þótt aðrir upprunastaðir verði þó ekki útilokaðir.
Hafa fróðir menn á Íslandi lengi talið víst, að Íslendingar hafi fyrst lært að verka og þurrka saltfisk á síðari hluta 18. aldar. Það er ekki rétt, þótt vinnslan hafi þá orðið meiri en áður. Saltfiskverkun var orðin að veruleika á fyrri hluta 18. aldar. Á fyrri hluta 17. aldarinnar votsöltuðu menn fisk i tunnur fyrir erlendan markað, en það var aldrei gert í miklum mæli. Svo var einnig fluttir úr landi svokallaður stapelvis, sem hefur verið fiskur sem var lagður í stakka og ef til vill verið líkur signum fiski. En á 17. öldinni var skreiðin enn sú afurð sem mest var flutt út af frá Íslandi.
Hvíta gullið - salt lífsins
Öll söltun var þó háð innflutningi á salti, og voru aðföng þess oft stöpul, en lengst af kom saltið til Íslands á "einokunaröld" með Hollendingum. Þess ber að geta að upp úr 1770 var soðið salt í Reykjanesi við Djúp. Framleiðslan hófst árið 1773 en var ekki mikil (sjá hér), en nú er endurreisnaröldin greinilega hafin (http://www.saltverk.com/). Jón biskup Vídalín stakk einnig upp á því danskan embættismann árið 1720, að hann sendi menn til að kenna saltsuðu svo framleiðsla á salti gæti farið fram á Reykjanesi (Gullbringusýslu), svipuð þeirri sem þá var stunduð í Noregi. Aldrei varð neitt úr því.
Saltið í fisksöltunina kom sunnan úr Frakklandi, Spáni og Portúgal og barst til Íslands á svokallaðri "einokunaröld", sem margir Íslendingar hafa misskilið og tengt eymd, vosbúð og vöruskorti. Þó svo að einokun (monopol) konungs á versluninni hafi verið komið á og Jón Aðils, og margar kynslóðir Íslendinga hafi séð það sem mikla þrautagöngu, þá gleyma menn að konungur seldi hæstbjóðanda, og mörgum tilfellum Hollendingum, verslunar og athafnaleyfi á Íslandi. Íslendingar seldu áfram fisk sinn, sem þeir söltuðu með salti sem fyrst og fremst var útvegað af Hollendingum. Fjórar tegundir af salti voru fluttar til landsins: Spánskt, franskt, þýskt Lynenborgarsalt (sem gat gefið fiski grænan lit vegna kopars í saltinu)og salt sem soðið var úr sjó í Noregi á 18. öld. Algengast var svokallað grásalt, sem mun hafa verið spánskt.
Verslunin við Ísland á 17. og 18. öld varð hluti af Atlantshafsverslun Hollendinga og annarra stórþjóða í verslun. Skip sem sigldu til Madeira og Kanarí á vetrum sigldu til Íslands með salt að vori og sóttu m.a. saltfisk og annan varning. Saltfiskurinn var vitaskuld seldur í Hollandi, en mestmegnis var hann sendur áfram til Spánar og Portúgals og síðar Ítalíu, þar sem hann var kallaður var bacalao, bacalhau, og bacallà sem sumir telja ættað úr basknesku (bakailo, makailao, makailo, basknesk orðinu fyrir þorsk) en aðrir úr gamalli hollensku bakaljauw/bakkeljau. Sumir telja það afmyndum orðsins fyrir þorsk í miðaldafrönsku, cabillaud, sem fyrst kemur fyrir í varðveittum texta frá 1272. Fransmenn telja hins vegar orðið komið af niðurlenska orðinu kabeljauw.
Hvað sem öllum þessum þessum fiskisögum líður, þá hafa flestir Hollendingar ekki hundsvit á því lengur hvað salfiskur er, nema ef það er saltlakkrís sem er í laginu eins og fiskur. Listfræðingur sem síðast lýsti myndinni af fisksalanum við Þunna-Bjórsgötu í Haag telur fiskinn á hjólbörunum vera flatfisk.
Frekari lesning:
Hér getið þið lesið grein mína um elsta málverkið af skreið, sem Hollendingar kölluðu "stokvis" og hér grein um Jonas Trellund (sjá einnig hér og hér)og skip hans de Melckmeyt sem lýsir í hnotskurn verslunarsögu Hollendinga á 17. öld á Íslandi, öld sem frekar ætti að kalla hollensku öldina í íslenskum kennslubókum en einokunaröld. Lesið meira um það í 2. hluta um fálkasögu Íslands sem brátt verður birt á Fornleifi. Eins mæli ég alltaf með því að menn lesi bækur Gísla Gunnarssonar Upp er boðið Ísaland (1978) og Fiskurinn sem munkunum þótti bestur: Íslandsskreiðin á framandi slóðum 1600-1800 (2004)
Matur og drykkur | Breytt 29.6.2023 kl. 06:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Tapað fé og fundið
11.12.2014 | 16:25
Þríhyrndur, íslenskur hrútur birtist skyndilega í Frakklandi á síðari hluta 18. aldar. Nánar tiltekið um 1760. Talið er að hann hafi lamb að aldri hlaupið í franskt skip landmælingamanna og siglt utan og forframast; jafnvel orðið forystusauður í Frakklandi.
Hann endaði því miður sína þríhyrndu ævi sem ragout í Bastillunni, enda hafði hann allt á hornum sér.
Einum fremsta náttúrufræðingi Frakklands, greifanum Georges-Louis Leclerc, comte du Buffon, þótti hinn íslenski Móri svo föngulegur að hann lét eilífa hann á mynd og birti í stórverki sínu um dýrafræði í fjölda binda: "Histoire naturelle, générale et particulière" (1749-1788). Var það í fyrsta sinn sem íslenski sauðasvipurinn birtist á bók. Síðar birtust eftirmyndir af honum í öðrum ritum, frönskum, enskum og þýskum.
Tel ég víst að hrútur þessi hafi verið ættaður af Skagaströnd og hafi svarað nafninu Erlendur. Gamansamur og gáfulegur glampinn í augum skepnunnar gæti bent til þess, enda er fyndnasta fé landsins ættað af Skagaströnd.
Þess ber að geta, að haft hefur verið samband við fornleifaráðuneytið og forystusauð þess til að freista þess að bjarga þeim þríhyrnda úr útlegðinni. Sigmundur Davíð var stuttur í spuna og kærir sig kollóttan um þennan vanskapnað og taldi hann of útlenskan fyrir sinn smekk. Líklega er bannað að flytja inn slíka forframaða dilka vegna smithættu sem gæti valdið hruni í stofni heimalninga og sparðatínslumanna.
Þeir sem enn kynnu að sakna þríhyrnda Móra eru beðnir að hafa samband við Fornleif eða Hollande yfirhafnarstjóra, og vera hvorki loðnir í máli né teygja lopann um of.
Forndýrafræði | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þjóðum líka þínir haukar (1. hluti)
2.12.2014 | 17:07
Allvaldr, dýrkask út með Serkjum
innan lands af mildi þinni.
Þjóðum líka þínir haukar
þaðra allt með Blálands jaðri.
Víða hrjóta veglig mæti
vægðarlaust af yðrum frægðum.
Hollar prýða heiminn allan
hnossir þínar, mærðar tínir.
Þannig orti Sturla Þórðarson (1214-1284) lögsögumaður og skáld mjög fleðulega í hrynhendu sinni til Hákons konung gamla Hákonarson (1204-1263). Hans bestu haukar voru íslenskir og gaf Hákon einnig öðrum konungum Íslandsfálka í tækifærisgjafir, jafnvel sultaninum í Túnis á Blálandi (Afríku). Íslenskir fálkar þóttu fyrir utan að vera einstaklega góðir veiðifálkar (geirfálkar) og bera af í fegurð.
Íslandsfálkinn, (einnig nefndur valur, geirfálki, fjörsungur, forseti og gollungur), er annálaður fugl. Við þekkjum hann öll af gömlu skjaldamerki Íslands, af fálkaorðunni, og hugleikinn er hann ákveðnum stjórnmálasamtökum, knattspyrnuliði , sem og þjófum sem stundað hafa eggjatöku á Íslandi um langan aldur.
Íslandsfálkinn (Falco rusticolus islandicus) er ein deilitegund fálka, náskyldur hvítfálkanum (Falco rusticolus candidans), sem m.a. verpir á Grænlandi en á stundum á Íslandi, þar sem hann hefur blandað geði við íslenska fálka. Samkvæmt Skúla fógeta var það þannig að á stundum voru einstaka ungar í hreiðrum hvítari en íslenskir fálkar. Munu "flugfálkar" frá Grænlandi hafa borið ábyrgð á því ástandi, sem ekki þótti leitt, því miklu hærra verð fékkst á miðöldum fyrir hvítan fálka en þau afbrigði sem grárri voru. (Hér má til dæmis lesa meira um dýrafræðilega atriði). En hér í áframhaldinu skal grafið dýpra í sögu íslenska fálkans að hætti Fornleifs.
Útflutningur eða höfðingjasleikjuháttur?
Við vitum lítið um útflutning á fálkum frá Íslandi frá því að land var numið og sumir segja fyrr, þar til á 12. öld. En voru fálkar aðeins gefnir sem konungagjafir, eða var útflutningurinn stórtækari? Tillaga Einars Eyjólfssonar Þveræings, sem stakk upp á því á Alþingi að senda fálka til Ólafs Konungs Haraldssonar hins helga(995-1030) sem seildist eftir Grímsey, gæti bent til þess að menn hafi verið farnir að flytja út fálka frá Íslandi löngu fyrir 12. öld. Það gera líka ákvæði Grágásar um að menn megi ekki veiða fálka á jörðum annarra manna. Slíkt bann var reyndar líka við veiðum á gæs og álftum.
Fyrsta örugga heimildin sem við höfum um íslenska fálka er hins vegar skrif Giraldus Cambrensis, öðru nafni Gerald de Berry (frá Wales), sem í riti sínu Topographia Hibernica (frá því um 1185) upplýsir þetta: Haec terra girofalcones et accipitres grandes et generosos gigmit et mittit/Þetta land gefur og sendir okkur stóra og gjöfula veiði fálka og hauka.
Árið 1223 og 1225 sendir fyrrnefndur Hákon gamli, sem þá var ungur maður á konungsstóli, Heinreki III Englandskonungi fálka. Fyrst fékk Heinrekur 6 fugla en í síðari sendingunni voru þeir 13 talsins, þar af 3 hvítir. Í bréfum kemur fram, að Hákon haf sent menn sína fyrir tveimur árum til Íslands til þess að veiða þar fugla handa Heinreki konungi. Hafi menn þessir orðið að þola ótrúlegt hungur og kulda í íshafinu, og séu þeir nýlega komnir aftur með fugla þá, sem þeir hafi veitt. Hákon biður Hinrik að taka á móti þessum fálkum með sömu vinsemd og þeir væru gefnir og bætir við í bréfi sínu - og nú upp með latínuorðabækurnar: si aliquam hujusmodi cuam habueritis, sicut pater vester et predcessores vestri habuerunt, qui aves Islandiccas carias quam aurum et argenum amplexari dicebantur. Þeir sem eikki eiga latínuorðabækur geta atað músinni blítt á textann og þá birtist þýðingin: "Ef þér metið þetta á líkan máta og faðir yðar og fyrirrennarar gerðu það, en um þá hefur sagt verið að þeir teldu íslenska fugla dýrmætari en en gull og silfur". Þessi upplýsing gæti bent til þess að fálkar hefðu borist frá Íslandi til Noregs og þaðan til annarra landa í langan tíma og verið sumum Íslendingum góð tekjulind, þegar norskir veiðimenn konungs voru þá ekki að stunda ólöglegar veiðar í landinu eins og þær sem Hákon lýsti fyrir Heinreki konungi. Það er ekki rétt sem sumir íslenskir sagnaþulir, t.d. Árni Óla, hafa haldið fram, að Hákon konungur hafi sent fálkaveiðimennina til Íslands þegar hann var konungur Íslands. Það varð hann ekki fyrr en einu ári áður en hann dó árið 1263, ári eftir að Gamli sáttmáli varð til. Fálkaveiði Hákons á Íslandi átti sér hins vegar stað á 3. ártug 13. aldar.
Úr De Arte Venendi cum Avibus, fálkabók Friðriks 2.
Friðrik II Þýskalandskeisari (d. 1250) og jafnframt konungur Jórsala og Sikileyjar var einnig hrifinn af íslenskum fálkum og ritaði um þá lofsorðum í bók sinni De Arte Venandi cum Avibus, "Listin að veiða með fuglum". Í handriti Friðriks, sem ritað var á Sikiley og myndskreytt, er greint frá íslenskum fálum sem bestum allra fugla/sunt meliores omnibus aliis. Friðrik II náði sér einnig í önnur dýr af Norðurslóðum eins og kunnugt er, t.d. Hvítabjörn. Einn slíkan fékk hann að gjöf árið 1230 og hann gaf sultaninum af Egyptalandi Malik al-Kamil (sem var Kúrdi) björn. Hann var líklega sá sami sem Serklendingur sem Sturla Þórðarson orti um í dróttkvæði sínu handa Hákoni gamla. Dýrið kom til Damaskus árið 1233 eða 1234 samkvæmt annálaritaranum Kitab al-Wafi, sem einnig var þekktur sem Safadi. Fyrir hvítabjörninn fékk Friðrik keisarinn gíraffa. Sultaninn á Egyptalandi hafði einnig í byrjun 13. aldar fengið forláta skinn af hvítabjörnum samkvæmt annálaritaranum og ljóskáldinu Ibn Said al Maghribi. Makalaus var þessi áhugi á dýrum meðal heldri manna fortíðarinnar. Heinrekur III Englandskonungur sem einnig fékk Íslandsfálka átti líka hvítabjörn samkvæmt heimildum góðum og mun sem Hákon Noregskonungur hafa gefið honum björninn. Björn og fálki hét konungspakkinn í þá daga. Heinrekur III tjóðraði björninn í Tower of London og á tyllidögum fékk björninn að synda í Thamesá og veiða sér fisk (hlekkur). Henry var mikill "dýravinur" og átti líka fíl.
Páll Biskup Jónsson í Skálholti (d. 1211) (sjá mynd t.v.) mun einnig hafa verið ötull við að senda fálka til vina sinna erlendis, t.d. erkibiskupsins í Niðarósi.
Eftir að Íslendingar glopruðu frelsi sínu í hendur norskra konunga, má sjá af ritheimildum að eftirspurnin eftir fálkum hélt áfram að vera mikil. Jónsbókarákvæði endurspegla það líka: Konungur má láta veiða vali á hvers manns jörðu, er hann vill ok leggja verð eptir, utan á kirkjueignum. Var lengi deilt um þetta og annað sem auðtrúa Íslendingar misstu í hendur konungsvalds, en endanlega var þessum lögum þröngvað upp á íslenska landsölumenn og aðra minnst megandi árið 1277.
Síðan þagnar fálkasaga Íslendinga um tíma eins og svo margt annað sem tínst hefur og gloprast niður, og ekkert heyrist af Íslandsfálkum fyrr en í tollaskjölum í bænum Kings Lynn í Norfolk árið 1518: pro uno Geffaucon cust xii d./fyrir einn veiðifálka 12 d. tollur). Þetta þýðir þó ekki að fálkar hafi ekki verið útflutningsvara frá Íslandi eins og fyrr og síðar.
Líkur hér fyrsta hluta fálkasögu Fornleifs.
Nokkrar heimildir:
Árni Óla 1967. Fálkahúsið og Fálkaverslun Koungs. Lesbók Morgunblaðsins 42. tbl. 19.11.1967, bls. 6-7;12.
Björn Þórðarson 1924: Íslenzkir fálkar og fálkaveiðar fyrrum. Iðunn VIII, 4, bls. 266-295. (Sjá hér).
KL: Kulturhistorisk Leksikon for Nordisk Middelalder, bd. 4: Falkar, dálkur 142-154.
Handritið: Pal. lat. 1071: Friðrik II (1194-1250): De Arte Venandi cum Avibus ca. 1258-1266. Biblioteca Apostolica Vaticana. (Sjá hér).
Vilhjálmur Þ. Gíslason 1947: Bessastaðir; Þættir úr sögu höfuðbóls. Bókaútgáfan Norðri Akureyri.
Forndýrafræði | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)