Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2017
Sagnfræðileg perla komin úr skel fyrir Vestan
23.11.2017 | 13:30
Ritdómur:
Vestur á Súðavík býr tiltölulega ungur maður sem lengi hefur helgað sig sögu útlendinga og þeirra sem ekki voru velkomnir á Íslandi. Þetta er Snorri G. Bergsson sagnfræðingur. Bók hans Erlendur Landshornalýður? er nýkomin í bókaverslanir og kjörbúðir. Með þessu góða og breiða verki hefur Snorri gefið íslensku þjóðinni perlu og nýtt grundvallarverk, sem ætti að vera skyldulesning í menntaskólum.
Íslendingar eru að mínu viti enn upp til hópa útlendingahatarar eða haldnir óþoli eða öfund gagnvart útlendu fólki, jafnvel þeir sem bjóða til landsins ferðamönnum í þúsunda tali. Útlistingar og yfirlit yfir skoðanir Íslendinga á útlendingum á 18. og 19. öld er því kærkominn fengur til að skilja þessa bölvuðu áráttu margra á Íslandi, að kenna útlendingum um allt illt og líta á tilflutt fólk sem 2. flokks fólk.
Ég er enn að lesa bók Snorra, og mjög margt nýtt sem kemur á óvart og annað vissi ég, enda vitnar Snorri óspart í mig og mín fræði. Nú er gott að fá þessa sögu í bók. Við erum mörg sem lengi höfum beðið eftir þessum opus Snorra um gyðinga og útlendinga. Við vitum að hann hefur unnið að þessu lengi og það ber bókin vott um. Hún er vel skrifuð, yfirveguð og læsileg.
Fyrir utan það sem ljóst var, að Hermann Jónasson væri andstyggilegur gyðingahatari og að slíkar kenndir hafi fylgt flokknum hans lengi, tel ég nú víst að Snorri hafi séð ljósið og viti nú að slíkar kenndir voru einnig að finna meðal annarra flokka, t.d. meðal sjálfstæðismanna og krata. Snorri gefur dæmi um útlendingahatur Vilmundar Jónssonar landlæknis. Það kemur mér ekki á óvart. Ég á afrit af skjali sem ég rakst á hér í Kaupmannahöfn, frá Vilmundi, þar sem hann skrifar til danskra yfirvalda um hætturnar sem stafa af því ef kaþólskir menn, erlendir, fái að reisa spítala á Íslandi.
Þar sem bók Snorra nær því miður aðeins til 1940, fá lesendur ekki upplýsingar um gyðingahatur sem gerjaði á Íslandi eftir síðara stríð og sem framleitt var og dreift af flokksbundnum krata og þingmanni um tíma, Jónasi Guðmundssyni (sjá t.d. hér).
Annað markvert í bókinni, og þar er margt, er að Snorri gefur sterklega í skyn að höfuðskáld þjóðarinnar og nóbelsverðlaunahafi, Halldór Laxness hafa verið gyðingahatari og hefur fundið texta þar sem hann talar af óvirðingu um fórnarlömb nasista og jafnaði gyðingaofsóknum við hundahatur. Af hverju voru Hannes (sem ég finn því miður ekki í nafnaskrá bókar Snorra) og Halldór ekki með það í bókum sínum? Halldór skrifaði í Parísarbréfi sínu í Þjóðviljanum árið, þ. 31. október 1948:
Morðíngi Evrópu dró þessa umkomulausu flóttamenn sína hér uppi vorið 1940 [við hernám Frakklands]. Ég atti nokkra kunningja í hópi þeirra. Þeir voru pólskir. Mér er sagt að þeir hafi verið drepnir. Þeir hafa sjálfsagt verið fluttir austur til fángabúðanna í Ásvits (Oswiekim, Auschwitz) þar sem Hitler lét myrða fimm milljónir kommúnista og grunaðra kommúnista á árunum 1940-1945, jú og auðvitað gyðínga.
Ég tel að greining Snorra á þessum ósóma í Laxness sé fullkomlega hárrétt. Ég er þakklátur Snorra fyrir að hafa þorað að minnast á þetta, en ég tel að afgreiðsla Laxness á veru sinni í Berlín 1936 hafi einnig sýnt hugarfar hans í garð gyðinga, fólks sem hann kynntist ekki neitt. Ég skrifaði um þær, m.a. hér og fékk Hannes Hólmsteinn það m.a. að láni í aðra bók sína um Laxness.
Þessa myndin af Laxness (án mottu og kollu) er að finna í bók Snorra. Eftir að hafa lesið kaflann um skoðanir hans á gyðingum gat ég ekki staðist mátið og brugðið á leik. Svipur er óneitanlega með þeim arísku frændum, Hjalta litla og Dóra. Enda var Laxi velkominn til Berlínar árið 1936.
Nú er spurningin til allra þeirra sem þekkja og unna Laxness, og sumir meira en aðrir. Hverjir voru þessi pólsku vinir hans? Hann átti líka að eigin sögn gyðingavini sem sköffuðu honum miða á nasísku ólympíuleikana í Berlín? Er ekki kominn tími til þess að gera sér grein fyrir því, að þó Laxness hafi verið mikið skáld og hafi fengið merk verðlaun, að hann líka á stundum það sem siðmenntaðar angló-saxískar þjóðir kalla "full of shit" - en fyrst og fremst var hann afsprengi þjóðfélags þar sem hræðslan við útlendinga var gífurleg. Slíkt gerist oft í fámennum þjóðfélögum og á einangruðum eyjum.
Mig langar að setja spurningarmerki við eina greiningu Snorra á Vilhjálmi Finsen ritstjóra Morgunblaðsins. Í frásögn sinni af Þjóðverjanum Obenhaupt sem Finsen taldi vera gyðing en var það ekki (sjá hér), ályktar Snorri að Vilhjálmur hafi lítið þótt til gyðinga koma. Það held ég að sé röng greining, því er Þjóðverjar höfðu hrakið Finsen, sem starfaði í danska sendiráðinu í Osló, til Stokkhólms árið 1940, var hann beðinn um að hjálpa gyðingum í Noregi vegna góðra tengsla við stjórnmálamenn og áhrifafólk í Noregi. Eftir stríð hlaut hann bæði heiðurspening sænska Rauða Krossins og Sct. Ólafsorðuna fyrir framgang sinn við að hjálpa flóttamönnum frá Noregi í Svíþjóð. Margir þeirra voru einmitt gyðingar.
Fjöldi gyðinga sótti um landvist á Íslandi en var hafnað skriflega
Snorri Bergsson birtir í bók sinni margar góðar upplýsingar úr íslenskum skjalasöfnum um gyðinga sem reynda að komast til Ísland með því að hafa samband bréfleiðis við íslensk yfirvöld. Fæst þessa fólk komst til Íslands. En einstaklingarnir voru miklu fleiri eins og kemur fram á bls. 187 og 252, því enn meiri fjöldi skrifaði til Sendiráðs Dana í Berlín og ræðismanna. Dönsk yfirvöld höfðu samband við sendiráðið í Kaupmannahöfn sem varð að vísa öllum beiðnum frá gyðingum frá vegna stefnu Hermanns Jónassonar og félaga á Íslandi. Menn reyndu alla möguleika. Flestir þeir sem skrifuðu og leituðu ásjár íslenska yfirvalda enduðu líf sitt í útrýmingarbúðum nasista.
Í þessu samhengi ber að hafa í huga, að það virðist ekki hafa hjálpað mönnum á Íslandi að afneita trú sínum eða uppruna. Þegar Edelstein hjónin komu til Íslands voru þau búin að taka kaþólska trú. Charlotte Edelstein bar t.d. kross á passamynd sinni. Þau lentu í mikilli baráttu við öfl Hermanns Jónassonar. Fjölskylda Róberts Abrahams (Ottóssonar) hafði tekið kristna trú þegar á 19. öld og lagði hann mikið kapp á að koma dönskum yfirvöldum í skilning um það áður en hann fékk vinnu á Íslandi. Allt kom fyrir ekkert, hann fékk ekki að dvelja í Danmörku til frambúðar, því yfirvöld í Danmörku og á Íslandi fylgdu og virtu Nürnberg-lög nasista. Hann var ávallt stimplaður sem gyðingur á Íslandi. Trúskipti gyðinga í gettóum sem nasistar lokuðu þá í hjálpuðu einnig afar fáum. Gyðingahatrið hafði fengið "líffræðilegan" vinkil þar sem trúin skipti engu heldur "blóðið".
Bókin Erlendur Landshornalýður? ætti eins og áður segir að vera skyldulesning í lærðum skólum. Hún gæti jafnvel orðið gagnlegt lyf gegn útlendingahatri sem enn geisar á Íslandi. Bókin væri einnig holl lesning þeim sem telja sig forsvarsmenn flóttamanna á Íslandi í dag, sem einn daginn vaða í tárum yfir meðferð þeirra, en eru í óhemju fávisku sinni með sótsvart gyðingahatur daginn eftir. Gyðingar eru sem betur fer ekki aðalefni bókar Snorra og því engin ástæða til að skýra Súðavík núverandi bústað Snorra á Júðavík. Argh, þessi var lélegur.
Eitt að lokum sem betur hefði mátt fara, en sem ekki getur skrifast á höfundinn. Pappírinn sem bókin er prentaður á er algjör sparnaðarpappír og er það leitt. Svo eru 14 síður aftast í bókinni sem eru alveg tómar og óskrifaðar. Grunar mig að þar hafi Snorri laumað inn stefnuskrá Samfylkingarinnar eða "samfóista" sem er helsta "aversjón" Snorra svona dags daglega þarna fyrir vestan þar sem hann býr undir öllum snjónum.
En farið nú að kaupa jólagjafirnar og munið að taka Erlendan Landshornalýð með. Bókin er t.d. tilvalin handa fúlum frændum eða frænkum sem hafa útlendinga á hornum sér. Ekkert spurningamerki.
Erlendur Landshornalýður? Flóttamenn og framandi útlendingar á Íslandi, 1853-1940. Almenna Bókafélagið 2017, ISBN 978-9935-486-28-8
Bókin fær 6 grafskeiðar og hér er ekki hægt að fá fleiri:
Ritdómur | Breytt 24.11.2017 kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Vísi-Gísli var aldregi á námslánum
21.11.2017 | 09:00
Á 17 öld var uppi Gísli Magnússon (1621-1696) einnig kallaður Vísi-Gísli. Ég get því miður ekki sýnt ykkur mynd af honum, og ekki er þetta hann hér fyrir ofan*. Tel ég þó að hann hafi ekki verið ósvipaður gáfnaljósinu Mr. Bean - og byggi ég það útliti dóttur hans á málverki sem varðveist hefur, sjá neðar.
Gáfuheitið fékk hann ekki að ósekju, því hann hóf nám í Skálholtsskóla er hann var aðeins ellefu ára gamall. Þar lærði hann í þrjú ár og þrjú ár til viðbótar í Hólaskóla. Síðan hélt Vísi-Gísli til Hafnar árið 1639 og stundaði þar nám til margra ára. Hann las sömuleiðis við hinn virta háskóla í Leiden í Hollandi, þar sem hann hefur mögulega setið fyrirlestra Rene Descartes. Vel getur hugsast að hann hafi fengið að drekka kaffi með Descartes á kennarastofunni í Leiden. Enn síðar, og fram til ársins 1646 sótti Gísli nám á Englandi.
Bókasafn háskólans í Leiden árið 1610. Bækurnar voru festar í keðjur. Takið eftir rykhlífunum yfir hnattlíkönunum.
Gísli nam fyrst og fremst náttúrufræði, einkum grasafræði, læknisfræði og efnafræði, en einnig lagði hann stund á tungumálanám, heimspeki og stjórnmálafræði. Ekkert er vitað til þess að þessi sprenglærði gæðingur hafi dispúterað í neinu en hann fékk þó heiðursnafnið Vísi-Gísli þegar hann sneri alfarið aftur til Íslands, þar sem lítið liggur eftir hann af andans verkum. Andans striti þurfti hann ekki að hafa áhyggjur af því hann fékk sýslumannstign í Múlaþingi og síðar í Rangárþingi.
Gísli er þó talinn hafa stundað einhver vísindastörf og meðal annars gert tilraunir með kornrækt að Hlíðarenda í Fljótshlíð þar sem hann bjó. Sömuleiðis telja menn næsta víst að hann hafi reynt kartöflurækt. Í bréfi sem hann sendir til sonar síns Björns, sem var við nám í Kaupmannahöfn, biður Gísli Björn um að senda sér kartöflur til útsæðis. Næsta öruggt er að hann hafi sáð út kúmeni carum carvi. Þegar ég var barn sýndi faðir minn, sem var áhugagrasafræðingur, mér kúmenplöntur að Hlíðarenda. Telja sumir menn að Skúli Magnússon fógeti hafi um 1760 sáð kúmeni í Viðey, sem hann hafi sótt að Hlíðarenda. Enginn heimild er fyrir því, en kúmenið vex víst enn í Viðey.
Það var ekki hlaupið að því fyrir Íslendinga að sækja nám erlendis á 17, öldinni, nema að þeir væru af afskaplega ríkum ættum. Gísli var af einn af þeim ríkustu, sonur Magnúsar Björnssonar lögmanns, sem stóð fyrir fyrstu galdrabrennunni á Íslandi. Það er því engin furða að hann hafi getað setið fyrirlestra við marga virta háskóla og jafnvel hlustað á René Descartes.
Við vitum nokkuð um hagi Gísla vegna þess að hann átti í bréfasambandi við hinn mikla danska fræðaþul, lækninn og safnarann Ole Worm (1588-1654). Bréfasafn Ole Worm er vel varðveitt og hefur verið gefið út. Ole Worm leitaði til Íslendinga vegna áhuga síns á fornum bókmenntum og rúnum. Hann fann það fljótlega út að ´æislenskir kennimenn voru fúsari til að senda honum upplýsingar ef hann spyrði þá um heilsufarið. Þar sem flestir andans menn á íslandi voru hrjáðir af gigt, skyrbjúg, holdsveiki og öðru óáráni, sendi Worm þeim pillur og medicin. Það þótti mönnum gott og þótti vænt að fá línu frá Worm.
Ole hafði mikið álit á Gísla og bréf Gísla sem innihalda annað en fræðilegar vangaveltur hafa verið gefin út í bréfabók Worms, þó með smáu letri. Lítum hér á hluta af bréfi Vísa Gísla til Ole Worms. dags. 12.9. 1648:
Denne Seddel leveres Eder af Købmanden Peder Hansen og kommer ikke andre for øje. Den 15. Juli blev jeg Sysselmand over Mulasysla. Den 16. Juli havde jeg Fæstensøl med Drude Thorleifsdottir til Hlidarendi. Jeg skal give 100 Slettedaler til Holar Skole, fordi vi er beslægtede i tredie Led. Vi skal ikke holde Bryllupsmaaltid før Juli næste Aar. Tak for Eders Lykønskning. Jeg ønsker Hr. Doktors Hjælp til Opnaaelse af Skridu Kloster i Mulasysla som Forlening. Men lad ikke Jens Sørensen vide noget herom. Præsten Hr. Thord Sigfusson, som har været min Faders Præst her ved Reikahlid Kirke blev i Vinter afsat, fordi han var faldet i Skørlevnet med en Kvinde, dog før Ankomsten af det Kongebrev, som fastsatte Afskedigelse for denne Forseelse. Jeg søger om hans Genindsættelse.
Han skikker sig iøvrigt vel og har været min Faders Tjener. Biskop Thorlak
Skulason søger paa hans Vegne hos Hertug Frederik (d.v.s. Kong Frederik III).
Fyrir fornleifafræðinga og þeim sem una antíkinni meir en aðrir er kannski það merkilegasta sem við vitum um Vísa-Gísla, að hann lofaði að senda Ole Worm íslenska skyldi forna og sverð eins og hann ritaði honum einnig í bréfi sínu dagsettu 12. september 1648:
Fra min Arvegaard Møðruvellir sender jeg nogle gamle norske og islandske Skjolde til Eders Museum. Paa Grund Gaard har jeg ogsaa nogle Sværd, men dem skal jeg have gennem Slægtninge, der har Gaarden. Christen Olufsen vil bringe Eder en Sølvstob som vejer 10 Rigsdaler
Ekki er með góðu móti hægt að sjá sverð eða skildi á þessari koparstungu af hluta af safni Worms, sem birtist verkinu Museum Wormianum sem út kom árið 1655, ári eftir að Worm andaðist. Kannski hefur Gísli gleymt loforði sínu. En á hillunni rétt til hægri ofan við gínuna í grænlensku klæðunum er silfurkanna eða krús með síðmiðaldalagi. Gæti þetta verið 'Sølvstob' sú sem vegur 10 Ríkidali sem Vísi-Gísli nefni í bréfi sínu til Worms frá 1648. Fyrir um 7 árum síðan léku safnamenn sér að því að gera eftirlíkingu af safni Worms á Naturhistorisk Museum.
Eins og sjá má var Gísli stór í sniðum, þótt að hann væri skyldleikaræktaður ættarlaukur valdastéttar sem ekki vílaði fyrir sér að kála mönnum á báli til að fá meiri völd. Takið eftir því hvernig hann reddaði kvonfangi sínu við Þrúði Þorleifsdóttur sýslumanns að Hlíðarenda, þótt þau væru náskyld, ellegar því sem hann lofaði um byggingu spítala. Lítið hefur breyst. Eins og svo oft áður og síðar lofuðu ættarlaukar meiru en þeir gátu haldið. Tangur af þessu sést enn í fari íslenskra stjórnmálamanna af fínum ættum, sem hegða sér þar eftir og ekki ósvipað og Gísli. Stundum er ekki nóg að fjarlægja ættarnafnið. Kenndirnar eru þarna enn í blóðinu. Fátt er einnig um gráður hjá laukum nútímans þó menn séu vel sigldir - eða auður þeirra. En þeir tala allir fjálglega um spítala.
Þórður Þorláksson og Guðríður Gísla. Hanga þau nú á Þjóðminjasafninu eins og illa gerðir hlutir og það á tveimur málverkum. Það er Kristur sem er að berrassast þarna á bak við þau. Eins og sjá má á myndinni er safnið búið að klína nafni sínu á ljósmyndina, en við eigum þetta nú öll. Þóra Kristjánsdóttir ritað um þessa og hina myndina af hjónunum í frábærri bók sinni Mynd á Þili (2005) sem er sem biblía fyrir þá sem hafa áhuga á Íslenskri listasögu. Hún telur að mynd sem gefin var Þjóðminjasafninu árið 1993 sé eftir séra Hjalta Þorsteinsson í Vatnsdal.
Vísi-Gísli flutti gamall í Skálholt og bjó síðan hjá dóttur sinni Guðríði sem var vitaskuld ekki gift neinu slori, heldur sjálfum Þórði Þorlákssyni biskup. Hann var engu síðri lærdómsmaður en Vísi-Gísli og kvæntist hann vel, enda vildu maddömur á Íslandi helst giftast þeim fáu náfrændum sínum sem voru séní - en ekki hálfgerðir afglapar eins og hinir.
Þórður, tengdasonur Gísla, nam við Kaupmannahafnarháskóla, og síðar eftir að hafa verið skólameistari í Hólaskóla hélt hann til Rostock og Wittenberg, heimsótti París og tók Belgíu og Holland á heimleiðinni. Hann samdi Íslandslýsingu (Dissertatio chorographico-historica de Islandia) sem fyrst var prentuð í Wittemberg árið 1666 (lesið hana hér á latínu er þið nennið hér) og teiknaði landakort af Íslandi og Grænland. Hann fékk prentverk flutt til Skálholts og lét penta fyrstu útgáfuna af Landnámu árið 1688 (lesið hana hér). Eins og góðum tengdasyni sæmir hafði hann sömu áhugamál og Vísi-Gísli. Þeir voru vitaskuld ekki í golfi eins og laukar nútímans. Þórður gerði í staðinn tilraunir með kornrækt í Skálholti og þar vex líka kúmen, hvort sem það er honum að þakka eður ei.
Vísi-Gísli andaðist úr steinsótt, sem væntanlega er hægt að sjúkdómsgreina sem þvagrásarstíflu eða krabbamein í blöðruhálskirtli. Þetta var örugglega merkur karl.
* Myndin efst er af samtímamanni Vísa-Gísla. Hann hét Samuel van Hoogstraten og var listmálari, listfræðingur og nemandi Rembrandts frá Rín. Málverkið er sjálfsmynd Samuels. Þannig litu víst ungir gáfumenn út um það leyti sem Vísi-Gísli var í Hollandi.
Forn fróðleikur | Breytt 25.10.2020 kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Af lygum og sjálfsblekkingu (vinstri) manna á Íslandi
17.11.2017 | 19:09
Hatur margra Íslendinga í garð gyðinga og gyðingdóms er bölvuð staðreynd. Siðblinda þessi er algeng hjá sumu lútersku fólki, enda ekki furða. Lúther hataði gyðinga af öllu sínu feita hjarta og lét þær tilfinningar óspart í ljós í ræðu og riti.
En síðan um 1980 hefur lúterska kirkjan að eigin sögn gert mikið til að fjarlægjast hatursboðskap lúterskunnar gagnvart gyðingum. Í nokkrum löndum hefur þetta átak því miður ekki borið árangur. Til dæmis á Íslandi, þar sem enn er tönnlast á gyðingum með opinberum lestri Passíusálmanna. Þeir eru hluti af svæsnu gyðingahatri 17. aldar og innihalda ótímabæran þvætting á okkar eigin "upplýstu" tímum. Sjá fyrri skrif Fornleifs um Passíusálmana og hatur hér, hér og hér.
En samt keppast menn um að fá að lesa sálmana upp í kirkjum og þar á meðal hafa íslenskir vinstrimenn, flestir yfirlýstir trúleysingjar að því er best er vitað, fengið að lesa grófustu sálmana upp í auðvaldsfyrirbærum eins og kirkjum. Eitthvað kick fá þeir út úr því blessaðir.
Engu minni er gyðingafárið á meðal margra vinstri manna á Íslandi en hjá svæsnustu áhangendum Lúthers og verður maður sí og æ var við leiðigjarnar klisjur hjá "gömlum kommum" sem þykjast vita allt sem hægt er að vita um gyðinga og gyðingdóm, þó þeir viti ekki rass í bala.
Stjórnmálamaður að lesa upp úr Passíusálmum. Efst er helgríma Lúters og afsteypa af höndum hans við andlátið.
Á fimm alda afmæli þess er Lúther tók æði og negldi 95 boðorð sín á hallarkirkjudyrnar i Wittenberg, sigldi ég á milli heims og helju á fésbókum fjölda manna um daginn, til að finna eitthvað almennilega viturlegt. Endaði ég loks hjá Úlfari Bragasyni rannsóknarprófessor, sem kenndi lengi íslensku í HÍ, þegar hann var ekki að spóka sig í Vesturbæjarlauginni. Úlfar hafði verið á Akureyri og hafði skoðun á öllu því sem miður hafði farið þar í bæ. Hitti hann loks gamla nemendur og kunningja á Bláu könnunni. M.a. Viðar Hreinsson sem er, held ég, hjá Reykjavíkurakdemíunni.
Æi, hugsaði ég, eins ókunnugur ég er orðinn öllum á Íslandi, hver er nú þessi Viðar. Ég hélt því áfram inn á FB Viðars og sá að það var einmitt hann sem skrifaði bók um frænda minn Stephan G. Viðar auglýsti á fésbók sinni tvo fyrirlestra sem hann heldur ásamt Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur í Endurmenntunarstofnun HÍ. Líklega hefði ég sótt þessa fyrirlestra hefði ég búið í Reykjavík. Endurmenntunin ber heitið Töfrandi hugarheimur 17. aldar. Fjallar hann þó fyrst og fremst um Jónana tvo, Jón lærða Guðmundsson og Jón Daðason á 17. öld út frá nútímalegu íslensku sjónarhorni. Jón lærði Guðmundsson hrökklaðist úr landi vegna andmæla sinna gegn Spánverjavígum og vegna þess að hann var síðar dæmdur fyrir galdra. Ég verð um það leyti sem fyrirlestrarnir verða haldnir í Amsterdam, einni af vöggu evrópskrar endurreisnar á 17. öld og læt mér það nægja af töfraheimum.
Aftur á FB. Eftir kynningunni á hinum töfrandi hugarheimi tveggja óvenjulegra og kannski skrýtinna karla á 17. öld kemur inn gamall bóndi og Alþýðubandalagsmaður, Gvendur Beck, og hreytir þessu út úr sér, sem Viðar Hreinsson "lækaði" - vonandi fyrir kurteisi sakir:
Sá hugmyndaheimur rakst á bókstafstrúar kreddur lúterskunnar sem sótti refsivöndinn í gyðingdóminn. [sic]
Kannski hefur lútersku ríkiskirkjunni tekist heldur illa til í kennslu sinni á hatri Lúthers, nema að fyrrverandi Lúterstrúarmenn séu farnir að kenna gyðingum sjálfum um gyðingahatrið.Hatur Gvendar bónda hefur væntanlega gerjast frá því að hann fékk Lúter í æð í kirkjunni sem barn, síðar hatrið úr kommúnismanum þegar hann gerðist eldri, og nú þegar hann er orðin gamall og þreyttur kall, geltir hann eitthvað ljótt á fésbókum lærðra manna og er upp með sér af því, þó það stangist á við þá frelsuðu lífsstefnu sem hann segist fylgja.
Þetta lúterska hatur virðist enn lifa góðu lífi á Íslandi, þar sem menn kenna enn gyðingum um gyðingahatrið og jafnvel um helförina. Gyðingum er kennt um það hatur sem Hatur margra Íslendinga á trú og á útlendingum, kemur einnig ljóslega fram í þeirri herferð sem rekin hefur verið gegn útlenskum prestum kaþólsku kirkjunnar. Í hvaða siðmenntuðu landi í heiminum er hægt að finna yfirvöld sem greiða skaðabætur fyrir glæpi sem ekki hafa verið sannaðir á fólk? Slíkt athæfi er ekki dæmi um töfrandi hugarheim ellegar siðmennt.
Hugmyndaheimur 17. aldarinnar blómstraði mest í þeim löndum þar sem gyðingar fengu frelsi í einu formi eða öðru. En á Íslandi, anno 2017, eru sumir menn enn bundnir í anda og öld hins endalausa haturs ekki ólíkt þeim mönnum sem drápu Baska á 17. öld. Sjáið svo tvískinnunginn http://vertunaes.is/askorun-einstaklingar-gudmundur-beck/ hjá þessum mönnum sem telja sig erindreka vinstri stefnu á Íslandi og alvitra á kreddur lútherskunnar. Þeir virðast nú frekast stjórnast af blóðugu Stalínísku hatri. En samtímis álíta þeir sig vera sérleyfishafa á réttar og heilbrigðar skoðanir. Þar sem þetta hatur er svo rammt, er þetta ekki rakið dæmi um einhvers konar geðklofa eða frumstæðar kenndir annars siðmenntaðs fólks til að finna sér eitthvað til að hata í frístundum sínum.
Nei, Jón Valur, Passíusálmarnir eru ekki kærleiksboðskapur. Sparaðu þér tíma í stað þess að fylla hér allt upp í athugasemdum um ágæti sálmanna. Þeir fá menn til að hata minnihluta.
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Holy Olaf leggst á Landakot
11.11.2017 | 14:10
Athafnaskáldið Olaf J. Olafsson í New York er búinn að rita enn eina bókina, sem byggir á atburðum sem aldrei áttu sér stað, þó hann haldi öðru fram. Nú, það er auðvitað ekki í frásögur færandi. Að skálda er nú einu sinni það sem skáld hafa að atvinnu, þegar þeir eru ekki að stjórna stórfyrirtæki. En annars skrifa menn frekar eins konar sagnfræði. En sannleikurinn eða næstum því hann, verður aldrei eins vinsæl metravara og tilfinningaklám og rugl í ekta skáldsögum. Misjafn er nefnilega smekkur manna.
Mig grunar þó að Olaf í Nýju Jórvík telji sig hafa lagst á skrið yfir sundið til sagnfræðinganna hinum megin við flóann. Í viðtali á RÚV heldur hann því fram, að það sé alvitað að glæpir hafi verið framdir í Landakotsskóla á síðustu öld. Vandamálið fyrir hinn verðandi drama-documentarista Olaf J. Olafsson, er að það liggur akkúrat engin sönnun fyrir því sem hann heldur fram um glæpi í Landakotsskóla, nema að maður álíti að ósamhangandi sögur meintra fórnarlamba séu sannanir, eða að dómur rennusteinsins í Háuhlíð sé réttvísin á Íslandi. Olaf er því enn skáld eða afar lélegur sagnfræðingur.
Það litla sem verðandi lesendur Olafs eru búnir að fá að vita um söguþráðinn í nýju bókinni hans er að frönsk nunna, á vegum Vatíkansins, sé aðalhetja bókarinnar. Harla ólíklegt má þó þykja að Vatíkanið sé látið senda nunnu til rannsókna á brenglun kirkjunnar þjóna, því Vatíkanið lét barnaníð óafskipt í aldaraðir. Það var næstum álitið privilegium lærðra manna að leggjast á börn, eða í það minnsta að nýta sér primus ius noctis ef þeir voru ekki fyrir börnin.
"Je suis française", écrivait la religieuse
Frönsk nunna reddar málunum
Að frönsk nunna a la madame Joly sé fengin til að pota í kaunin er ólíklegt. Frakkar hafa svo að segja ekkert komið að kaþólsku starfi á Íslandi, nema austur á fjörðum á meðal Pompóla. Frakkar ofveiddu fisk og stöguðu þess á milli í slitið erfðamengi einstaka fjölskyldna þar sem þumbaraháttur var farinn að sliga karlpeninginn og væg Down-heilkenni skinu óbeint út úr ásjónum sumra manna.
Mynd af Olaf J.. Þess má geta að upphaflega hét Olaf Ólafur Jóhann Ólafsson.
Þegar Olaf tekur upp á því í nýrri bók að segja "sannsögulega" sögu, sem ugglaust verður einnig gefin út á kostnað höfundar á ensku, fær umheimurinn að vita að glæpir hafi verið framdir í Landakotsskóla -- þó svo að engin sönnun hafi enn verið færð fyrir því og enginn hafi verið sóttur til saka. En til langrar framtíðar mun Ísland samt standa á listum yfir illmennsku erlendra presta gagnvart ungviðinu. Íslendingar eru líka afkomendur brenglaðra, kristinna kynlífsþræla frá Skotlandi og Írlandi svo vitnað sé í léleg skáld meðal vísindamanna. Sögufölsun í skáldsögum geta náð þó nokkru flugi. Fama est...
Mig grunar að ef Olaf Olafsson takist vel upp í þessari bók sinni, þá trúi alheimur því von bráðar að útlendir kaþólskir prestar hafi nauðgað börnum á Íslandi í stórum stíl. Sumt fólk kann eins og alkunnugt er ekki að gera greinarmun á sagnfræði og skáldsögu.
Þegar hvíthærðir menn á sextugsaldri eins og Olaf fara að leika listir Judith Krantz er mikil hætta á ferðum. Venjulega er brunnur skálgyðjunnar þá þurrausinn hjá þeim greyjunum og þeir hella sér yfir viðfangsefni sem þeir kunna ekkert á og hafa enn minna vit á, reknir áfram af fordómum. Útlendingar eru alltaf illmennin á Íslandi. Tommi plastbarki var til dæmis prettaður af ítölskum lassaróna. Íslendingar eru viljalaus hismi þegar kemur að vondum útlendingum (tekið skal fram að höfundur þessar bloggs er hálfur útlendingur - svo passið ykkur bara).
Bjarna saga barnariðils
Væri ekki nær að skrifa skáldsögu, eða nýja Íslendingasögu, Bjarna sögu barnariðils, um alla Íslendingana sem hafa nauðgað börnum og gera enn. Lesið þið ekki dagblöðin og horfið ekki á fréttir? Algengasta fréttin á Íslandi árið 2017 var barnaníð? Sögubrot um skyldleikaræktarsemina á Íslandi væri hægt að bæta inn í söguþráðinn. Það gætu orðið að góðu efni fyrir sjónvarpsframhaldsmyndirnar Ice Incest I-IV, framleidd af Time Warners Inc, með einn af hinum valinkunnu runkurum í Hollywood sem leikstjóra. Kevin Spacey hefði getað leikið prestinn Ágúst Frans, en er hann víst fjarri góðu gamni.
Hinn sauðgrái almenningur á Íslandi, sem virðist hafa furðumikinn áhuga á öllu kinky, getur svo fróað safaríku ímyndunarafli sínu með senum þar sem Fräulein Margrét Müller og séra George (Ágúst Frans) eru í hörku sleik undir altarinu í Landakotskirkju, blindfull af árgangsmessuvínum og étandi oblátur líkt og væru það kartöfluflögur - og þess á milli séð Guðmunda og Sigurða ríða börnum sínum í vistvænum torfhúsum úti á andnesjum, eða í svokölluðum hobbit-húsum (sem einnig hafa nú verið nefnd "turf chateaux" samkvæmt UNESCO sem haft hafa sér til hjálpar illa gerða íslenska heimildamenn með minnimáttarkennd), meðan Gudda og Munda eru að lessast úti í hlöðu eins og englar með húfur og rauðan skúf, í peysu.
Góða skemmtun píratar og aðrir pervertar!
Vilji menn fá betri innsýn í Landakotsfárið, þar sem íslenskir xenófóbar með kynóra eru ekki sögumennirnir, má fara á þessa síðu þar sem er að finna blogg ritað í fyrra sem inniheldur fjölmarga hlekki í greinar sem ég hef skrifað um Riftúns- og Landakotsmál. Sagnfræðilega séð er ég feti framar en nunnan hans Olafs J. Ég er þó ekki viss um að sannleikurinn muni sigra.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Er hormottan undir nefi Hitlers enn helg á Íslandi?
6.11.2017 | 18:55
Orkuveita Reykjavíkur (OR) hyggst minnast aldarafmælis Jóhannesar Zoëga fyrrv. hitaveitustjóra næstkomandi fimmtudag, 9. nóvember. Þá verður haldið málþing um Jóhannes eftir hádegi. Er það vart í frásögur færandi, nema fyrir það að nú hefur maður úti í bæ, sem leyfði sér að hafa skoðun á einu atriði á æviferli Jóhannesar upplifað að skoðanir hans hafi verið fjarlægðar af FB Orkuveitunnar. Þetta vakti furðu mína.
Orkuveitan tilkynnti á FB um málþingið, sem er væntanlega opið öllum meðan húsrúm leyfir eins og sagt er. En það nokkur umræða á FB OR eftir að maður að nafni Steinþór Bjarni Grímsson leyfði sér að minnast á tengsl Jóhannesar Zoëga heitins við Þýskaland Hitlers, þar sem Jóhannes stundaði framhaldsnám. Ættingjar Jóhannesar og aðrir sættu sig greinilega ekki við þær skoðanir sem Steinþór hefur
En viti menn. Hefur nú heila ritsennan frá því í gær verið fjarlægð og ný mynd sett í stað þeirrar sem var á FB-færslunni í gær. Á brott eru bæði skoðanir Steinþórs, sem og svör ýmissa í hans garð, t.d. afkomanda Jóhannesar Zoëga. Nú í morgun er bara ein athugasemd sem hljóðar svo: Þessu vil ég helst ekki missa af. Hlakka mikið til og takk fyrir allir sem að þessu koma. Þetta verður meira en eitthvað. Síðan hafa komið nokkrar athugasemdir manna sem spyrjast fyrir um hvað hafi gerst, en ábyrgðarmaður Facebókar Orkuveitunnar veitir greinilega ekki svör við þessari furðulegu ritskoðun sem átti sér stað í gær
Af hverju láta menn svona, æsa sig út af engu og fremja ritskoðun ... spúla allt í burtu með sjóðandi heitu vatninu? Lítum á rök:
Jóhannes Zoëga valdi að stunda nám í Þýskalandi Hitlers á tíma, er mönnum var ljóst að mannréttindi voru þar fótum troðin.
Jóhannes Zoëga valdi að yfirgefa ekki Þýskaland, þegar það stóð til boða í byrjun stríðsins.
Jóhannes Zoëga valdi að vinna fyrir fyrirtækið BMW, sem notaði þræla í verksmiðjum sínum.
Jóhannes Zoëga valdi að fara út að borða á uppáhaldsveitingastað Hitlers í München, Osteria Bavaria, þegar hann fagnaði prófum sínum árið 1941. Látið hann sjálfan segja ykkur makalausa söguna með hjálp sonar síns (lesið hér).
Jóhannes Zoëga, fátækur stúdent frá Íslandi, át á Osteria Bavaria og sá þar Unity Valkyrie Mitford með Hitler. Unity var systir Diönu Mitford sem gift var Mosely leiðtoga breskra nasista. Þessi mynd er einmitt af þeim Adi (Adolf) og Unity Valkyrju á Osteria Bavaria, en hvort hún er tekin sama dag og Jóhannes fagnaði prófum sínum, veit ég ekki. Myndin hér fyrir neðan er litmynd af því er þegar Hitler kemur á veitingastaðinn árið 1941.
Maður sem valdi að leggja braut sína eins og Jóhannes Zoëga gerði, getur ekki hafa verið annað en nasisti og aðdáandi Hitlers á ákveðnum tíma ævi sinnar. Af hverju er svo erfitt að horfast í augu við það?
Enn einu sinni leyfi ég mér að minna menn á, að menn gátu verið svæsnir nasistar, þó þeir klæddust ekki einkennisbúningi Hitlersveldisins eða tækju ekki þátt í hernaði Þriðja ríkisins.
Jóhannes Zoëga starfaði hjá BMW sem verkfræðingur. BMW stundaði þá eingöngu framleiðslu hergagna, sem urðu þúsundum manna að bana. "Vinna að smíði flugvélahreyfla hjá BMW" er það sama og vinna við dauða saklauss fólks fyrir BMW. BMW hefur loks í fyrra beðist afsökun á þátttöku fyrirtækisins í morðum, hryðjuverkum og stríðsglæpum. Jóhannes vann hjá einni deild BMW og var því þátttakandi. Hann taldi sig hafa fengið vinnu hjá BMW, þar sem Gestapo hefði horn í síðu sinni (sjá hér). Stjórnendur BMW héldu þræla og hjá BMW var augljóslega ekkert mál fyrir vel menntaðan Íslending að fá vinnu sem vel launaður verkfræðingur.
Þrælar í BMW verksmiðju árið 1943. Þeir borðuðu ekki á Osteria Bavaria, svo mikið er víst.
Ef Jóhannes vissi ekki af þrælkun í verksmiðjum BMW, hefur hann verið mjög óathugull maður, jafnvel siðblindur, og verður maður alvarlega að draga ævisögu þannig manns mjög í efa. Meðan Jóhannes var hjá BMW hafði eigandi BMW, Günther Quandt, og sonur hans Herbert skilyrðislausa samvinnu við þýsk stjórnvöld og notuðust þeir feðgar við 50,000 þræla í hergagnaverksmiðjum sínum. Um 80 þrælar létust í mánuði hverjum vegna lélegs aðbúnaðar í verksmiðjubúðum BMW og fjöldi fólks var tekinn þar af lífi. Hérhttps://bmwslave.wordpress.com/ má fræðast betur um BMW á stríðsárunum.
Ef ekki má ræða um fortíð Jóhannesar Zoëga á málþingi um Jóhannes Zoëga og ævi hans, eru Íslendingar ef til vill enn ekki reiðubúnir að heyra allan sannleikann um sjálfa sig og sér í lagi Íslendinga sem veðjuðu á Hitler? Gangstætt því sem gerðist í Evrópu var slíkum mönnum hyglt á Íslandi og þeir fengu margir ágætis embætti (Lesið meira hér).
Á málþinginu fimmtudaginn 9. nóvember mun Stefán Pálsson sagnfræðingur segja sögu Jóhannesar í erindi sem ber heitið Ævi og störf Jóhannesar.
Á flokksskírteininu í rassvasa Stefáns stendur mjög greinilega VG. VG er einn þeirra stjórnmálaflokka sem telja sig sérleyfishafa á réttar hugsanir, sannar skoðanir og á tíðum á hinn heilaga sannleika. Félagarnir í VG eru, eins og allt heilvita fólk veit, andsnúnir þrælahaldi og fjöldamorðum. Vart er því við öðru að búast en að Stefán segi alla sögu Jóhannesar hjá glæpafyrirtækinu BMW og Tækniháskólanum í München. Eða eigum við frekar að búast við einhverju snöggu Hitler-Stalín samkomulagi í höfði Stefáns og að ritskoðun verði á fullu hjá honum líkt og á fésbók OR?
Kannski ætlar Stefán Pálsson sér ekkert að fjalla um stríðsárin í lífi söguhetjunnar sem hyllt verður nk fimmtudag. En fjallar Stefán Pálsson (VG) þá um hvernig Jóhannes fékk stöðuna sem hitaveitustjóri, algjörlega án þess að staðan væri auglýst, og var settur í embættið af mági sínum, eftir að Jóhannes var búinn að gera Landssmiðjuna að einkafyrirtæki? Eða er Stefán á launum við að skrifa um OR eins og pólitískir vindar þjóta? Þá vitum við náttúrulega hvar Davíð keypti ölið.
Íslenskir nasistar | Breytt 7.9.2019 kl. 04:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Back to the 70s
5.11.2017 | 18:01
...og færist nú sagan aftur á 20. öld. Nýlega var ég staddur í móðurhúsum á Íslandi. Fór ég þar að skoða gömul myndaalbúm sem móðir mín hefur tekið saman að mikilli alúð í gegnum árin og verður seint þakkað nóg fyrir það. Ég skannaði m.a. þessa mynd, sem sýnir mjög efnilegan bekk í Hlíðaskóla í byrjun 8. áratugarins. Ég held að þetta sé 8. bekkur og kennarinn okkar var engin önnur en Edda Snorradóttir, sem var frábær kennari á allan hátt, mikill skörungur, drengur góður sem kunni sitt fag... einnig margfræg fyrir góðan smekk í leðurbuxum.
Ritstjóri Fornleifs er í efstu röð alveg eins og meðlimur í englakór. Þetta var að því er ég best man enginn englabekkur. Við vorum voða óþekk og leiðinleg og svo lyktaði stofan af blöndu af táfýlu, 8x4 og svitalyktinni af Gústa - og mjólkinni sem súrnaði í skápnum í nokkra mánuði þangað til enskukennari okkar fann orsök ólyktarinnar af okkur og fékk í kjölfarið taugaáfall og varð að hætta. Ég skammast mín mjög fyrir allt sem þar gerðist, þótt ég hafi ekki tekið þátt í Mission Sour Milk.
Skömm er frá því að segja, að ég hef ekki séð nema örfáa úr þessum fríða hópi vænlegra ungmenna í áratugi. Ég veit hvað varð um suma en ekki alla, og sumum nöfnum hef ég alveg gleymt. Ég er tengdur tveimur á FB. Tveir, sem mér eru kunnugt um, eru því miður látnir og við verðum öll eldri.
Nokkrir urðu handverksmenn t.d. lögfræðingar og einn tannlæknir. Þrír læknar, sem ég veit um, og líklega fleiri því ég veit ekki hvað allar skólasysturnar urðu þegar þær urðu stórar og enn fríðari en þær voru á þessum auma aldri.
Önnur örlög: Ein í bekknum varð líffræðingur, einn fornleifafræðingur og Jón heitinn Egill varð veðurfræðiprófessor. Ekki má gleyma flugvélaverkfræðingnum Jens og heimsmeistaranum Jóni Lofti og sameindagúrúnum Einari Gröndal. Allir góðir þjóðfélagsþegnar.
Vona ég að flestum hafi vegnast vel og er ég búinn að melda mig í The Legend Edda Snorradóttir á Facebook. Vonast til að sjá fleiri ykkar þar. Silla Gröndal er þegar mætt sé ég! Við vorum mjög heppin með kennara í 8. ES í Hlíðaskóla, og má nefna snillinga eins og Árna Pé, Hrólf Kjartansson og Baldur Sveinsson. Blessuð sé minning þeirra heiðursmanna.
Bloggar | Breytt 5.11.2021 kl. 10:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)