Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2017
Umslagahirðar fortíðarinnar
29.8.2017 | 08:33
Það virðist sem mér hafi skjátlast ærlega varðandi nýtni og endurvinnsluhæfileika hjá hinu opinbera á Íslandi hér á árum áður. Ég hélt í algjöru sakleysi mínu að öllu hefði verið hent á haugana, þegar þar var orðið nokkurra ára gamalt og smá slit var farið á sjást.
Nei, svo var nú aldeilis ekki. Hérna áður fyrr endurnýttu menn allt í ráðuneytum og hjá háum embættum og stofnunum sem ekki höfðu mikið á milli handanna. Grisjur af sárum holdsveikra, syffilista og berklasjúkra voru dauðþvegnar og endurnotaðar; Súr rjómi í matstofu Útvarpsins á Skúlagötunni var til að mynda notaður í pönnukökur, sem gerðu pönnsurnar nú bara betri fyrir bragðið, og Ráðuneyti voru þekkt fyrir að hafa á launalista sínum menn sem losuðu af frímerki sem ekki höfðu verið stimpluð. Merkin voru svo endurnotuð. Mikill sparnaður varð vitaskuld af slíkri nýtni og mættu menn læra sitthvað af slíku í eyðsluæði nútímans, þar sem oft er eytt milljón til að spara hálfa, meðan að götur eru málaðar.
En alltaf finnast veilur í svona vel virkandi þjóðfélögum, þar sem endurvinnslukerfið smellvirkar. Fjallar þessi færsla, sem er ekki sönn nema að ákveðnu marki, um einn slíkan brest.
Fiktsjónin í færslunni er um umslagahirða kjörstjórna sem sáu um brúnu umslögin sem innihéldu utankjörstaðakjörseðla. Þeir embættismenn áttu að sjá um að lítil brún umslög, sem voru utan um utankjörstaðakjörseðla, væri komið fyrir kattarnef. Á ákveðnu stigi á 20. öld var farið að leyfa Íslendingum sem bjuggu erlendis að hafa áhrif á kosningar í eigin landi. Þeir gátu kosið í sendiráðum lands síns á erlendri grundu eða hjá kjörræðismönnum. Útbúin voru sérstök umslög sem Íslendingar erlendis gátu lagt kjörseðil sinn í og sent hann til Íslands. Á umslagi þessu bar manni að skrifa nafn sitt, heimilisfang á Íslandi áður en maður flutti eða ferðaðist til útlanda, og einnig nafnnúmer/kennitölu, þegar þau voru tekin upp.
Þetta brúna umslag varð maður svo að sjá um að fara með á pósthús sjálfur og senda heim til Fróns - þar sem það var opnað, listastafurinn lesinn og skráður og umslaginu hent - eða það héldu menn að minnsta kosti.
En hjá kjörstjórninni Reykjavík vann starfsmaður, sem við getum kallað "Garðar". Hann tók endurvinnslu og nýtni mjög alvarlega. Það hafði hann alist upp við á uppvaxtarárum sínum í kreppunni í Skuggahverfinu. Þó svo að hann fargaði kjörseðlunum í stórum miðstöðvarofni eftir ákveðinn tíma, þ.e. þegar menn voru öryggir um að enginn rausaði um að talning hefði verið röng og ólögmæt, taldi hann ekki við hæfi að farga ágætisumslögum með fallegum frímerkjum frá framandi löndum. Garðar hafði lesið það í Æskunni sem ungur, að maður gæti orðið stórríkur, jafnvel milljónamæringur, á því að safna frímerkjum. Þessi stafsmaður kjörstjórnarinnar vissi mætavel að á þessum umslögum voru persónuupplýsingar um fólk, sem engum kom við, en samt ákvað hann að geyma þessi umslög til eigin vinnings.
Garðar varð þó aldrei ríkur maður, enda kennari svona dags daglega. Hann lést nokkrum árum eftir að vera kominn á eftirlaun og frímerkja- og umslagasafn hans uppfylltu aldrei drauma þessa manns um að verða milljónamæringur. Ættingjar, tóku til í íbúð Garðars sem var piparsveinn, og fundu 20 hillumetra af frímerkjasöfnum og umslögum og þar að auki nokkur kassafylli af ósorteruðu. Þau komu þessu í verð á einu bretti. Fjölskyldan fékk töluvert fyrir nokkur mjög fágæt frímerki sem frændi þeirra átti og allir gátu vel við unað. Frímerki mannsins fóru svo kaupum og sölum og bárust til útlanda, þar sem Íslendingar voru alfarið búnir að gefast upp á að verða ríkir á frímerkjum. Þeir höfðu fundið mun betri aðferð. Þeir stofnuðu banka og töldu fólki trú um að þeir gætu gefið betri lánakjör og vexti en bankar í eyðimerkum Arabíu.
Umslögin, sem þessi uppdiktaði starfsmaður Kjörstjórnarinnar í Reykjavík hafði stungið í tösku sína og farið með heim til sín, seljast nú grimmt á frímerkjasölum erlendis. Ekki er laust við að þessi umslög séu orðin álíka mikils virði og þegar þau voru send fyrir rúmum 25 árum síðan og fyrr. Nú geta menn í útöndum keypt sér umslög með nöfnum Íslendinga, kennitölum þeirra og hvaðeina.
Það gerði ég einmitt, og ég hringdi í einn af þeim sem sent höfðu slíkt umslag til Borgarfógeta árið 1991. Það var hinn ágæti Ólafur Ragnarsson stýrimaður og skipstjóri (f. 1938) sem nú er búsettur í Vestmannaeyjum, vel þekktur sem bloggari, einnig hér á moggablogginu og hann skrifar einnig í Heima er best og Sjómannablaðið. Hann hefur helgað sig vinnu við að skrá sögu farskipa og unnið ómetanlegt starf. Hér t.v. fáið þið mynd af Ólafi frá sokkabandsárum hans, eða þar um bil, ekki ósvipaður breskum leikara. En nú situr hann í Vestmannaeyjum og undrast arfavitleysuna á meginlandinu. Svo á hann líka afmæli í dag, eins og menn geta séð á umslaginu. Til hamingju Ólafur!
Ólafur var árið 1991 kominn í þjónustu dansks skipafélags sem hét H. Folmer og Co, sem enn siglir um höfin sjö, og væntanlega oft með eitthvað grunsamlegt og vafasamt. Ólafur var staddur í Piræus hafnarborg Aþenu, þegar hann fór þar á fund ræðismannsins í Aþenu, sem þá var frú Emelía Kristín Kofoed-Hansen Lyberopoulos, dóttir lögreglustjórans sem menn höfðu svo miklar mætur á í Berlín á tímum Hitlers. Kosningar voru í nánd á Íslandi og menn verða að gera skyldu sína, þó svo að þeir séu í suðlægum löndum. Ólafur ætlaði nú ekki að láta helvítis ... komast til valda.
Aftan á umslagi Ólafs hefur einhver skrifað bókstafinn D með blýanti. Hvað það þýðir, væri gaman að fá upplýsingar um. Kannski þýddi það bara að í umslaginu hefði legið kosningarseðill íhaldsmanns?? Ólafur, er þetta rétt athugað?
Ólafur varð vitaskuld afar undrandi á að heyra umslagið utan um kjörseðil hans frá 1991 hefði verið til sölu, og sagði:
jah maður, er maður nú til sölu á netinu?.
Ég jánkaði því, og sagði honum að ég hefði keypt hann og borgað 60 krónur danskar (þ.e. 1015,oo/- freðnar ískrónur) fyrir umslagið - og nafnnúmerið hans í kaupbæti.
Hver assgotinn, sagði Ólafur og þótti þetta nokkuð fyndin frétt að fá og minntist þess um leið að skipverjar á Írafossi hefðu einnig verið í Piræus um svipað leyti og hann árið 1991.
Eru til einhver umslög með nöfnum þeirra?, spurði Ólafur. Mestar áhyggjur hafði hann af því, hvort kjörseðill hans hefði lent í réttum höndum. Þar varð mér svara vant, en upp í huga mér kom upp annar möguleiki á plottinu í eftirfarandi frásögn Fornleifs:
Hún er um póststarfsmanninn (póstinn/póstmanninn) sem hirti umslög kjósenda sem hann taldi öruggt að kysu ekki rétt.
Eins og vitum öll voru eintómir kommar og óferjandi óþjóðalýður í námi erlendis, en þessi póstur var eins og allir vita enginn allaballi og tíður gestur í Valhöll. Kannski misminnir mig. Hét hann kannski "Þorgeir" og var argasti steinsteypustalínisti sem sögur fara af; Fór á jólaskemmtanir MÍR og taldi Alþýðubandalagið vera svikara? Það geta allir sem þekktu Geira Póst vitnað um. Í frístundum sínum var hann einnig mikill umslagasafnari og sömuleiðis esperantisti. Hann flautaði Nallann falskt þegar hann skoðaði ekki takka á frímerkjum sínum með stækkunargleri, og á sölufundum hjá Frímerkjasafnarafélaginu tautaði hann klæmna brandara á esperantó og hló dátt af því sjálfur. Hann átti eitt besta safn rússneskra frímerkja vestan járntjalds, jafnvel fyrstadagsumslög sem send höfðu verið úr Gúlagi. ... En eins og alla Íslendinga, þá dreymdi hann einnig um að verða milljarðamæringur á frímerkja- og umslagasöfnun. Hann gerði mér kleyft að kaupa persónugögn um Íslendinga á frímerkjasölum í útlöndum.
Þökk sé Þorleifi og Garðari fyrir söfnunargleðina.
Hér er umslag utan um kjörseðli starfsmanns Eftirlitsstofnunar EFTA í Brussell til margra ára. Enginn sem ekki setti kosningarumslagið í annað umslag áður en þeir sendu það borgar- og bæjarófétum var óhultur fyrir umslagahirði kosningarstjórnarinnar í Reykjavík.
Aðrir möguleikar gætu einnig verið á plottum í sögu þessari:
A) Umslögunum unan af utankjörstaðaseðlum úr kosningum 1991 hefur hugsanlega verið hent á haugana, þar sem einhver máfur hefur fundið þau og síðan selt, eða til vara...
B) að póststarfsmaður erlendis hafi gerst fingralangur. En það sem mælir gegn síðasta "kostinum" er að einnig var nýlega selt umslag undan af kjörseðli sem einn starfsmaður Ríkisútavarpsins hafði útfyllt í Kaupmannahöfn og sent til Bæjarfógetans í Kópavogi. Það var í maí 1970, eða 21 ári áður en að umslag Ólafs Ragnarssonar fór í endurvinnsluferlið.
Gunnvör Braga, sem ég sendist stundum fyrir þegar ég var sendill hjá RÚV á Skúlagötunni, sendi kosningarseðil sinn ekki bara í ábyrgð, heldur einnig EXPRES. Svo sendi hún einn fyrsta ESB áróður sem barst að Íslands ströndum á frímerkjum. Var þessu umslagi stolið af íhaldspósti?
Þurfa yfirvöld ekki að skýra betur út fyrir lesendum Fornleifs og ritstjóra bloggsins, hvernig í pottinn er búið. Hvernig í ósköpunum var hægt að koma kosningagögnum, umslögum með kennitölu (nafnnúmeri) manna í verð og það erlendis? Svör óskast, og helst ekki þessi loðnu. Allt á borðið!
Ítarefni um frímerki og því sem var hent á haugana:
Þegar Matthíasi var hent á haugana; Þegar Þjóðminjasafnið kastaði safngripum á haugana.
Bloggar | Breytt 3.9.2021 kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bullið vellur endalaust úr Trumpóníu
23.8.2017 | 12:30
Harvey Mann: Do not look at me, I am not a Harvard man.
Það virðast stundum engin takmörk fyrir þvælu og ruglingi í sumum háskólaumhverfum Vestanhafs. Þar á ég nú fyrst og fremst við Bandaríkin.
Fyrr í þessum mánuði var forngripum rænt á fornminjasafni háskólans í Bergen eins og m.a. hefur verið greint frá hér á Fornleifi. Á FB-síðu, sem sett hefur verið á laggirnar í Bergen til að freista þess að finna þannig aftur forngripina sem voru um 400 að tölu, ritaði einn af góðkunningjum Þjóðminjasafns Íslands, sem fengið hefur að valsa í íslenskum forngripum (sjá hér) á þessa leið: "It seems like a lot of the items taken were Insular from Ireland or the British Isles. Could this shed some light on the thieves and their choices? " Ég les þetta einvörðungu á þann hátt að gefið sé í skyn að ránið í Björgvin hafi verið framið til að metta markað manna sem hafa áhuga á forngripum frá víkingaöld sem ættaðir eru (stolnir voru) frá Bretlandseyjum. Nema að sá sem setti athugasemdina telji fólk frá Bretlandseyjum vera þá fingralöngu. Ég hélt nú ég hefði gert grín að slíkum vangaveltum um daginn, þegar ég henti gaman að því að nú væri búið að ræna þýfi foreldra íslenskra landnámsmanna.
Græni liturinn sem er skvett á Ísland táknar: Viking settlements in Scandinavia in 7th and 8th c. Rauðu línuna milli skýringarinnar og Íslands hefur ritstjórn Fornleifs sett inn til skýringar.
"The Digital Atlas of Roman and Medival Civilizations"
Í morgun sá ég á vef FB hóps sem hefur áhuga á Miðaldafornleifafræði. Þar var kynnt til sögunnar ný kortagrunnur, The Digital Atlas of Roman and Medieval Civilizations, sem fræða á um tíma Rómverja og miðaldir, þar með talið norrænar miðaldir. Það er hvorki meira né minna en Harvard Háskóli sem léð hefur þessum vef nafn sitt.
Ég athugaði í fljótu bragði, hvað mætti finna fróðlegt um Ísland á þessum söguatlas Harvards: Það var akkúrat ekkert að viti og sönnuðust þar aftur orð prófessors Sveinbjarnar Rafnssonar sem eitt sinn sagði að menn sem ekki væru læsir á menningu Íslendinga, ættu ekkert að vera að leika sér að henni. Þetta á við um fleiri lönd, þjóðir og menningar sem lent hafa á þessu korti Harvard-háskóla.
Til dæmis var hægt að sjá á kortinu, hvar búseta á Víkingaöld hafi verið á "7. og 8. öld" á Íslandi. Þar að auki er því haldið fram að Ísland sé í Skandinavíu. Ljóminn er víst farinn af þessu Harvard-fyrirbæri. Víkingaöld hefur aldrei verið tímasett fyrr en til loka 8. aldar. En menningarsnauðir kjánar í Harvard, sem setja þetta rugl út á netið, segja tímasetningu Víkingaaldar vera 7. til 10. öld. BNA er greinilega fullt af illa læsu fólki eða jafnvel treggáfuðu og Trump er aðeins einn þeirra - og ég er ekki kommi.
Ruglfræði | Breytt s.d. kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Pavlova hittir Vilhjálm á Grand
19.8.2017 | 18:29
Pavlova er nafn á miklum eftirrétt sem Fornleifur fékk í fyrsta sinn á ævi sinni fyrir um tveimur árum síðan hjá íslensku vinafólki sem ég heimsótti í sumarhúsi hér í Danmörku.
Oft hafði ég áður heyrt um þennan desert og séð í breskum matreiðsluþáttum. Ég taldi víst að þetta væri gríðar gómsætur réttur, hlaðinn umframorku. Það reyndist rétt vera. Slíkir réttir henta eiginlega ekki ballettdönsurum, miklu frekar sjómönnum. Eftirrétturinn ber reyndar nafn frægra ballettdansmeyjar, Önnu Pavlovu (1881-1931), en ef ballettmær borða slíkan mat er dansferlinum væntanleg rústað eftir fyrstu skál. Þessi frægi desert samanstendur mest af sykri, eggjahvítu og rjóma. Það einasta sem hollusta er í eru berin, og þá helst jarðaber, sem stráð er ójafnri og ónískri hönd efst á pavlóvuna.
Margt er á huldu um þennan eftirrétt. Ástralir og Nýsjálendingar, sem áður fyrr þóttu afar óábyggilegar heimildir hafa rifist um það í áratugi, hver þjóðanna hafi fundið þennan rétt upp fyrstar. Báðar þjóðir vilja nefnilega eigna sér eftirrétt þennan sem hefur fengið mikla heimsútbreiðslu.
Báðum ber saman um að hann hafi verið búinn til til heiðurs Önnu Pavlóvu ballettdansmeyju, þegar hún heimsótti löndin tvö árið 1926. Og nú er desertinn væntanlega orðinn frægari en Pavlova sjálf. En í meðförum fornmatgæðinga vandast nú málin, því engar uppskriftir eða heimildir geta sannað tilurð þessa réttar árið 1926 og dagbækur dansarans svipta ekki hulunni af neinu, því þar er hann hvergi nefndur. Fyrstu uppskriftirnar að réttinum eru frá 4. áratugnum og voru prentaðar bæði á Nýja Sjálandi og í Ástralíu.
Hér verður ekki séð hver er eftirrétturinn eða forrétturinn. Bæði þekktu hins vegar lítið til föður síns.
Árið 1926 var reyndar gefin út í Ástralíu uppskrift að ávaxtahlaupi, fjarri ólíku þeirri Pavlóvu sem flestir tengja nafni ballettdansmeyjunnar. Svo halda aðrir því fram að þessi blessaði réttur sé bara kominn með innflytjendum frá Þýskalandi til landanna tveggja í neðra. Ekki ætla ég að skera úr um upprunann, því laktósaóþol mitt sem uppgötvaðist er ég var fimmtugur, sem og menningarvömbin fína, valdar því að ég verð að halda mig frá slíku lostæti nema í hófi. En góð er hún hún Pavlóva.
Jafn dularfullur og uppruni pavlóvukökunnar er, var uppruni Önnu Pavlovu dansstjörnu það einnig. Hún var dóttir fátækrar þvottakonu í Sankti Pétursborg sem ekki gat eða vildi gefa upp nafn föður barnsins. Dóttirin Anna fékk síðar nafn manns sem móðir hennar giftist og hét Pavlov að eftirnafni. Anna Pavlova andaðist úr lungabólgu í den Haag í Hollandi árið 1931, aðeins fimmtug að aldri (svo dans er kannski ekki eins hollur fyrir líkamann og oft er haldið fram). Minning hennar lifir enn í hinni girnilegu köku (sem menn geta brennt smá fitu við sjálfir að leita uppskriftinni fyrir). Þó er ég hræddur um að svitinn leki ekki af ykkur við leitina. Pavlóvurétturinn er nefnilega orðinn þekktari en dansmærin. En munið aðeins í hófi, annars verðið þið ekki deginum eldri en Anna Pavlova varð sjálf.
Anna Pavlov kemur til den Haag í Hollandi
Þess verður að geta að einn Íslendingur fékk tækifæri til að hitta Önnu Pavlóvu. Það var enginn annar en Vilhjálmur Finsen, einn af feðrum Morgunblaðsins. Eftir Morgunblaðsárin starfaði hann löngum sem blaðamaður í Noregi, þar sem hann stofnaði fjölskyldu. Árið 1927 kom Anna Pavlova til Oslóar og leyfi ég mér hér að birta frásögn Finsens sem út kom í fyrri ævisögu hans Alltaf á heimleið (1953).
Anna Pavlova
Í maímánuði 1927 kom ballettdansmærin Anna Pavlova til Oslóar í fylgd með 36 konum og körlum, það féll í minn hlut að taka á móti henni á járnbrautarstöðinni og eiga tal við hana fyrir Oslo Aftenavis.
Önnu Pavlovu hefur verið líkt við flamingó, sem líður eða svífur áfram fremur en gengur, og þessi lýsing áttir mjög vel við hana, því að hún var svo létt og yndisleg í hreyfingum, er hún leið fyrir slitinn stöðvarpallinn, grönn og mjóslegin, með dásamleg djúp svört augu í fölu andliti, að maður varð hálfhræddur um að hún mundi fljúga burt.
Á brautarstöðinni vildu hún ekkert segja við okkur blaðamennina, en hún bað okkur koma með sér upp á Grandhótelið, og þar átti ég viðtal við hana, á meðan teiknarinn teiknaði hana.
Hvernig hugsið þér til þess að sýna list yðar hér? Skandínavar eru sagðir svo kaldlyndir, sagði ég.
Fólki, sem kemur fram á leiksviði, sagði frúin, hættir til að halda, að það hafi ekki komizt í ákjósanlegt samband við áhorfendur, ef þeir láta ekki hrifningu sína óspart í ljós. Ég fyrir mitt leyti kann vel við þess konar áhorfendur, því að ég þekki ótt manna við að láta tilfinningar sínar í ljós. Það eru hinar þöglu bylgjur frá hjarta til hjarta, sem allt veltur á.
Teiknari Aftenavisen i Osló náði Pavlovu vel. Hún er með sama hattinn og í den Haag. Myndin birtist í bók Vilhjálms Finsens Alltaf á Heimleið, sem út kom árið 1953.
Ég spurði hana um álit hennar á nýtízkudansi.
Mér er í rauninni vel við allt nýtt, en við verðum að virða hið gamla, siðvenjurnar. En nýtízkudansar, black bottom og hinir, eru hræðilegir. Fólk lítur út ein og það væri vitskert, meðan það er að dansa. Dansinn virðist óheflaður, klunnalegur og trylltur.
Orðum Pavlovu fylgdu hrífandi hreyfingar handa og axla, og svipur hinna djúpu augna og andlitsdrættirnir voru síbreytilegir. Hin eldsnöggu og leiftrandi hugbrigði hennar og hrífandi framkoma voru ógleymanleg. Ofurlítil handahreyfing varð svo mikilvæg og áhrifarík, að það var eins og hún svifi ein í rúminu. Það var ekki að ástæðulausu, að Pavlova var kölluð geðþekkasta kona heimsins.
Kvöldið eftir naut ég þeirrar ánægju að sjá hana dansa, og er það eitt fegursta, sem ég hef séð á ævinni.
Vihjálmur Finsen, sem bráðnaði eins og klaki í Kenýa undan sjarma Önnu Pavlovu, greinir ekki frá neinum eftirrétti sem bar nafn hennar, enda hefur hann vart verið búinn að ná útbreiðslu alla leið til Noregs ári eftir að hann á að hafa orðið til. Í Noregi nútímans er hann hann hins vegar í hávegum hafður, löngu eftir að hann naut sem mestra hylli á Bretlandseyjum og í Danmörku á 8. Og 9. áratug 20. aldar.
Að minnsta kosti 667 uppskriftir munu vera til af Pavlóvu. Prófessor Helen Leach við háskólann í Otago á Nýja Sjálandi hefur safnað þeim saman úr 300 heimildum, og ber bókin heitið The Pavlova Story: A Slice of New Zealands Culinary History. Helen Leach telur öruggt að pavlova eins og hún er best þekkt í dag sé fyrst lýst í riti á Nýja Sjálandi árið 1929, en að Ástralar hafi ekki skrifað neitt að viti um eftirréttinn fyrr en 1935.
Núvitiðiþað. Ef þið fitnið getið þið dansað black bottom, Svartrass, dansinn sem Pavlovu var hugleikinn í Osló árið 1927.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Af Nathan án Olsens
18.8.2017 | 12:09
Fyrir nokkrum árum síðan skrifaði ég stutta grein um mjög svo skemmtilega kattarleit danska gyðingsins Fritz Nathans sem ungur hafði farið til Íslands til að stunda verslun. (Sjá kattargreinina á dönsku hér)
Ég lék mér að því hér um árið að skrifa smákafla úr sögu gyðinga á Íslandi, og geri reyndar enn. Þar sem mér þóttu sagnfræðingar sem rituðu um gyðinga á Íslandi, fyrst og fremst vera að rífast um hver hefði verið andstyggilegri við gyðinga fyrir stríð, Framsóknarmenn eða Sjálfstæðismenn, eða vildu gera annan hvern Dana á Íslandi að gyðingi (sjá meira hér), sá ég annan vinkil á sögunni. Hatur Framsóknarmanna og Sjálfstæðismanna skiptir vitaskuld engu máli, því svæsna gyðingahatara getur maður bent á í báðum herbúðum en einnig á meðal íslenskra vinstri manna, t.d. krata. En inn á milli voru hins vegar ágætismenn í öllum búðum.
Síðar sneri ég mér um alllangt skeið í frítíma mínum að rannsóknum mínum á brottvísun flóttamanna af gyðingaættum frá Danmörku á stríðsárunum sem ég uppgötvaði fyrstur manna og ritaði um það bók sem olli því að danskur forsætisráðherra baðst afsökunar á gerðum forvera sinna (sjá hér). Það þoldu t.d. ekki vinstri menn í Danmörku, því hatur þeirra á gyðingum er mikið og óskiljanlegt - en uppgötvar maður að í ættum framsækinna vinstri manna í Danmörku voru oft svæsnustu nasistarnir. Þessi ósköp virðast nefnilega ganga í ættir, þótt ekki sé hægt að útiloka trú og uppeldi.
Ég hafði hitt Ove Nathan, son Fritz Nathans. Ove var prófessor í eðlisfræði við Niels Bohr stofnunina og um tíma rektor Hafnarháskóla, og við það má bæta að hann var einnig Íslandsvinur. Áður en hann dó fékk ég hjá honum ýmsar upplýsingar um föður hans, sem hann kynntist þó lítið þar sem hann var ungur er faðir hans dó. Ég vissi því ýmislegt um Fritz Nathan áður en ég skrifaði þessa grein mína um kattarleit hans í Reykjavík. Barnabarn hans, Daniel Nathan, bróðursonur Ove Nathans hafði þá áður (1993) skrifað stutta grein í tímaritið Rambam sem ég ritstýrði löngu síðar. Í það skrifaði ég einnig grein mína um Nathan og fressið sem Fritz Nathan leitaði að fyrir konu sína, sem hann kvæntist í Stokkhólmi.
Móðurbróðir móður minnar, Helgi Þórðarson, hafði eitt sinn sagt mér frá Nathan eins og hann man eftir honum ungur og sá hann á götu í Reykjavík. Helgi sagði mér það kringum sumarið 1976 eða 1977, að Fritz Nathan hefði gelt eins og hundur og ósjálfrátt og þótti ungum drengjum í Reykjavík það afar fyndið, merkilegt og minnisstætt. Mér varð um og ó þegar Helgi heitinn lýsti þessum ósköpum í Nathan fyrir mér nokkuð myndrænt.
Um daginn var ég svo að lesa fyrsta hluta ævisögu Vilhjálms Finsens sem afi minn hafði átt, þegar ég rakst á lýsingu á Nathan. Vilhjálmur Finsen taldi að Nathan hafi verið haldinn sjúkdóminu Vítusardansi (Sct Vitusdans), sem venjulega er talinn sami sjúkdómur og í dag er kallaður Huntingtons Chorea. Væntanlega hefur Vilhjálmur Finsen haft rangt fyrir sér, því Huntington sjúkdómurinn lýsir sér öðruvísi og alvarlegar en kvilli Nathans. Nathan dó heldur ekki úr Huntingtons sjúkdómi sem er alvarlegur taugasjúkdómur sem dregur menn til dauða.
Vilhjálmur Finsen ritaði svo um Nathan:
...Nathan, sem var rauðhærður og freknóttur Gyðingur, hafði ferðast um landið sem farandsali, safnað pöntunum [fyrir] alls konar erlendar vörur hjá smákaupmönnum og gengið ágætlega. Svo greinir Finsen frá því hvernig Nathan stofnaði heildverslunina Nathan & Olsen með Carl Olsen, sem Finsen hafði hinar mestu mætur á.
Síðan skrifar Finsen:
Nathan þjáðist af Vítusardansi (Sankt Veitsdans) svo óskaplegum, að stundum var ekki komandi nærri honum, en að því gat vitanlega ekkert gert. Höfuðið á honum hristist og skókst þá hræðilega, ul leið og hann rak upp ýmis undarleg hljóð, barði höfðinu við borð, stóla og veggi og spýtti í allar áttir.
Mig grunar að Fritz Nathan hafi verið haldinn slæmu tilfelli af Tourette heilkenni, sem fólk sem ekki þekkir til getur lesið sér til um á netinu (t.d. hér).
Aðra gamansögu, örlítið illkvittna segir Finsens af Nathan:
Nathan var sagður kvensamur i meira lagi, en vegna áðurnefnds sjúkleika átti hann erfitt með að kynnast sæmilegum stúlkum. Þetta vissu kunningjar hans í Reykjavík. Þeir vissu líka, að Nathan var mjög nærsýnn og náttblindur. Nú hugsuðu þeir sér eitt sinn, að þeir skyldu leika á Nathan.
Hann bjó þá á Amtmannsstíg. Þeir fengu í lið með sér danskan mann Henningsen að nafni, en honum hafði skolað hér á land til Brydesverslunnar, og var hann vefnaðarvörusérfræðingur. Kvöld eitt klæddu þeir Henningsen í kvenmannsföt, kápu, hatt og slæðu og létu hann vera á vakki á Amtmannstíg, þegar Nathan kom heim úr mat. Nathan kom spýtandi og geltandi upp stíginn, þegar stúlkan vindur sér að honum ósköp hæversklega og segir: Gott kvöld, herra Nathan. Meira sagði daman ekki. Nathan var ekki lengi að átta sig, fór undir eins að klappa á handlegginn á stúlkunni og leit á hana á annan hátt, en það var ekki við komandi að stúlkan vildi fara með honum heim. Það var þó fyrst fyrir framan húsið, að Henningsen gaf sig skellihlæjandi fram, en Nathan fór einn sneyptur upp í herbergi sitt. Að frátöldum nefndum ágöllum var margt prýðilegt um Nathan heitinn.
Mig grunar að þessum Henningsen hafi þótt ansi notalegt að klæðast ótvíræðum kvenmannsfötum endrum og eins, líkt og oft hendir ýmsa karla. Í byrjun 20. aldar fóru menn þó ekki í árlegar skrúðgöngur til að hylla slíkar hetjur og fjölbreytileika kynhneigðanna. En ungir menn geta líka oft verið fjári illkvittnislegir í uppátækjum sínum og er þessi saga til marks um að þannig hafi ungir menn alltaf verið; Helvítis fífl og fábjánar og sumir eru þannig víst alla sína tíð fram í háa elli. Er nema von að konur átti sig hvorki upp né niður á þessum frumstæðu lífverum og öllu hátterni þeirra. Enn sú mæða...
Heimildir:
Finsen, Vilhjálmur 1953. Alltaf á heimleið. Bókaverzlun Sigfúsar Eymunssonar H.F. Reykjavík.
Ok Þetta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þýfi foreldra íslenskra landnámsmanna rænt á safni í Bergen
16.8.2017 | 19:17
Kæmpeskandale er nú í uppsiglingu í Noregi. Menn spyrja sig af hverju Háskólasafnið í Björgvin var ekki betur varið en að þjófar gátu farið inn um glugga á 7. hæð hússins með því að fara upp á byggingapalla sem utan á húsinu eru vegna viðgerða á því. Þjófarnir gátu nokkuð auðveldlega komist inn á safnið inn um glugga á stigaturni byggingarinnar sem hýsir safnið - og út fóru þeir svo með þjóðargersemar Noregs. Þjófavarnarkerfið fór reyndar í gang tvisvar sinnum, en vaktmenn fyrirtækis úti í bæ, sem sjá um vöktun og eftirlitið sáu ekkert grunsamlegt og fóru jafnóðum af vettvangi. Greinilega eru ekki mikil not af slíkum fyrirtækjum þegar virkilega þarf á þeim að halda. Viðvörunarkerfin fara svo oft í gang vegna mistaka og tæknigalla, því þannig þéna fyrirtækin meira en umsamið er. En þegar virkilega þarf á þeim að halda, halda vaktmennirnir að það það sé "sama gamla bilunin" í kerfinu.
Þjófarnir rændu, að því er fréttir herma, meira en 245 gripum frá járnöld og víkingaöld, og þar á meðal gersemum úr sumum af helstu kumlum víkingaaldar í Noregi.
Norðmönnum hefur því greinilega ekki tekist að varðveita þann menningararf og þýfi sem forfeður Íslendinga stálu á Bretlandseyjum um 850 e.Kr. áður en haldið var til Íslands.
T.d. gersemar Vélaugar Hrappsdóttur sem heygð var í Gauseli á Rogalandi, /sjá ljósmynd af litlum hluta haugfjár hennar efst). Gröf hennar innihélt trogarfylli af illa fengnu en kristilegu írsku bling er bræður hennar og faðir höfðu rænt á Írlandi. Gudda er formóðir flestra bankaútrásarþjófanna á Íslandi. Sjá Íslendingabók til að sjá hugsanlega ættartengsl ykkar við Vélaugu eða írsku blingprinsessurnar sem bræður hennar börnuðu í Dyflini.
Á smettiskruddu Háskólasafnsins í Björgvin, má nú lesa þessa frekar aumu yfirlýsingu á ensku, því eins og Íslendingar búast Norðmenn við því að útlendingar séu á bak við öll misyndisverk :
ENGLISH: Monday morning, 13th of August, employees at the University Museum discovered that there had been a burglary at the Historical Museum. It looks like people have entered the seventh floor from the scaffolding outside the museum tower.
Several important objects from the Norwegian cultural heritage are missing. Irreplaceable pieces of history are gone. For a museum, there is hardly anything worse than have objects stolen.
Now we only have one wish; to get as many as possible of the stolen objects returned to us.
So we need people's help. In this group we will continuously post pictures of objects we miss.
You can post pictures of objects, ask questions, share things and discuss. Of course you can share photos from our album with others.
Do you know someone who may be interested in helping us? Invite them in by pressing "Add Friend".
Contact us here, by PM or email if you think you have found or seen parts of our common heritage.
Hjálpum nú frændum okkar ef einhver býður ykkur þýfið til kaups. Gripina má sjá hér að einhverjum hluta til, svo hægt sé að velja bestu gripina til að bjóða í. Hér er einnig áhugaverð frétt um málið.
Forngripir | Breytt 19.8.2017 kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)