Bloggfærslur mánaðarins, september 2017
Zweig og tveir íslenskir skallar
27.9.2017 | 07:10
Um síðustu helgi dreif ég mig í tvöbíó á Grand Teater í Kaupmannahöfn til að horfa á kvikmyndina Farewell to Europe. Myndin er afar litrík og heimildatrú innsýn í síðustu ár rithöfundarins Stefans Zweigs. Grand Teater er líka ágætt bíó. Þar má t.d. ekki éta pop corn.
Bíóið er hins vegar jafnan stútfullt af gömlum hommum, sem og ekkjum og ekklum í leit að síðbúnum tangó - eða sjálfum sér. En einhvers staðar verða vondir að vera. Ég var nú bara í bíó með konunni minni og er enn ekki kominn með Alzheimer. Leið eins og unglingi á mynd bannaðri börnum.
Síðan ég tók alla mögulega og ómögulega áfanga í þýsku í MH, á síðustu öld, hef ég átt auðvelt með að lesa þýsku, jafnvel flókna lagatexta. Ég hef setið á skjalasöfnum í Berlín, mér til mikillar ánægju. En þrátt fyrir "afburðarskilning" minn á þýsku, hefur mér alltaf þótt erfitt að líta á Zweig sem þá hetju og mikilmenni sem aðrir sjá í honum. Líka þegar ég les Veröld sem var á íslensku. Þeir sem álíta að Zweig hafi verið "Europeanisti" og "Internationalisti" leggja líka allt annan skilning í þau orð en Zweig gerði sjálfur, ef hann hefur yfirleitt velt þeim fyrir sér. Ég leyfir mér að þýða þessi orðskrípi ekki yfir á íslensku til að valda ekki ónauðsynlegum misskilningi.
Mér fannst kvikmyndin Evrópa kvödd (staðfesta þessa skoðun mína, sem er þó líklega aðeins staðfesting á því að ég hafi aldrei skilið þennan mikla rithöfund eins vel og allir aðrir. Konan mín sem líklega hefur lesið meira en ég eftir Zweig, en á dönsku, þekkti ekki endalok hans fyrr en hún sá kvikmyndina en taldi myndina sýna einlægan, lítillátan og fórnfúsan mann í Zweig. Ég nenni ekki lengur að rífast um slíkt, enda kona mín miklu betur og meira lesinn en ég í heimsbókmenntunum.
Myndirnar efst af Zweig segja heldur ekki allt, en ég valdi þær til að leggja áherslu á mína skoðun á Zweig sem veikgeðja súperegóista, sem var þóknunargjarn við ríkjandi stefnur. Það kemur svo vel fram í kvikmyndinni, þar sem hann segir þátttakendum á PEN-ráðstefnunni í Buenos Aires að hann telji ekki hlutverk sitt að gagnrýna Þýskaland nasismans.
En, ég hef aldrei talið fólk sem fremur sjálfsmorð þegar ekki er brýn nauðsyn til þess, lítillátt. Rannsóknir sýna að fólk sem hafur gaman að því að taka sjálfsmyndir og selfies sé hneigðara til sjálfsmorða en aðrir sem minna gera að slíku. Ég trúi því nú mátulega, en yfirgengileg naflaskoðun er aldrei holl.
Íslenskir skallar smástjörnur í góðri kvikmynd
Mér þykir eins og góðum Íslendingum sæmir merkilegra að tveir íslenskir skallaleikarar eru með hlutverk í kvikmyndinni, þeir Benedikt Erlingsson og Tómas Lemarquis. Tómas hinn Markvissi er skilgreindur meðal aðalstjarna myndarinnar, enda fyrir löngu orðinn heimsþekktur kvikmyndaskúrkur. Hann leikur franskan blaðamann, Lefevre, sem ekki skílur orrrd í týsku, og fer létt með það. Tómas er sannfærandi þrátt fyrir íslensk höfuðlag sitt og augu. Hárgreiðslan er óaðfinnanleg að vanda.
Benedikt leikur örlítið hlutverk, líkast til afguð okkar Íslendinga, sjálfastan Laxness. Hann er náttúrulega í tweedfötum á PEN ráðstefnunni í Buenos Aires árið 1936, og rýkur fyrstur upp til að samþykkja tillögur ráðstefnunnar til stuðnings heimilislausu fólki eins og Stefan Zweig.
Íslenskir leikarar eru eins og svartir sandar sunnan jökla. Þeir taka allt í einu upp á því að blómstra og verða áður en varir orðnir að miklu skóglendi, sem skagar upp í Svartaskóg og Skíraskóg. Þó þeir séu kollóttir.
Benedikt Erlingsson lengst til vinstri með Laxness-tilburði, stendur upp fyrstur til að sýna stuðning sinn þeim sem hafa verið neyddir í útlegð. En studdi Laxness ofsótt fólk? Hvað með Veru Hertzsch og Sólveigu Erlu dóttur hennar? Stóð hann upp fyrir gyðingum og öðrum ofsóttum á Ólympíuleikunum í Berlín 1936? (sjá hér). Ekki er ég nú viss um það.
Hvað er svo hægt að læra?
Benedikt og Tómas fá gullpálma Fornleifs og sköllóttu Berlínarbolluna fyrir leik sinn í Evrópa kvödd sem er hin ágætasta mynd sem fær örugglega fólk til að hugsa.
Kvikmyndin sem þeir leika í sannfærir mig um um að maður megi ekki gefa helstu málefni sín og hugsjónir upp á bátinn, eða segja sem minnst líkt og Zweig gerði, til að móðga ekki elítuna í pólitískum skrípaleik Evrópu á 4. áratug síðustu aldar. Þess vegna kýs ég ekki Katrínu Jakobsdóttur (sem ég kaus síðast og það ætti að vera nóg) því hún hefur opinberlega stutt öfl sem myrðir sama fólkið og Hitler ætlaði sér að útrýma um leið og hún útnefnir sjálfa sig sem sérleyfishafa á réttar skoðanir og hreinar.
Er hún nokkuð betri en allir hinir, t.d. þeir sem eiga pabba sem vilja hjálpa fólki sem hefur orðið á í lífinu? Kannski kýs ég ekki neitt, leggst í rúmið og drep mig. Æi nei, til þess er ég of sjálfselskur og svo er svo lítið í húfi. Allir íslenskir pólitíkusar eru eins, fullir af lygi og yfirborðsmennsku. Engin ástæða er fyrir einn eða neinn að óttast. Ísland slefast áfram eins og áður og þrátt fyrir allt. Ég hef engar áhyggjur af Íslendingum. Þeir er líkir þeim sem þeir kjósa yfir sig.
Kvikmyndir | Breytt 26.7.2021 kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Let it slide
25.9.2017 | 16:10
Hann er seigur, skyggnumyndabirgir Fornleifs á Englandi. Nú er hann búinn að finna enn eina mynd úr röð Riley bræðra og E.G. Wood. Að þessu sinni er það skyggna númer 23. Myndin er handlituðuð og framleidd af o merkt fyrirtækinu E.G. Wood. (Sjá lista yfir myndir skyggnufyrirlestranna um Íslands sem Riley-bræður seldu fyrst, og síðar E.G. Wood).
Á kant skyggnunnar er límdur lítill miði sem á stendur 32403 Plain of Thingvellir og með penna hefur verið skrifar OXARA. Skyggnan er merkt með hringlaga miða sem á stendur talan 23, en sá miðið er á milli glerferninganna lík og miði sem sýnir að skyggnan er úr röðinni England to Iceland og neðst í vinstra horni skyggnunnar er merki E.G. Wood fyrirtækisins sem var til húsa við 1-2 Queen Street við Cheapside í Lundúnum.
Myndin er tekin ofan frá Almannagjá og yfir Þingvallabæinn. Í baksýn má sjá Ármannsfellið og það grillir í Lágafell. Ljósmyndarinn hefur staðið upp á vesturbakka Almannagjár.
Myndin var tekin af Sigfúsi Eymundssyni og var ein þeirra mynda sem er að finna í varðveittu albúmi sem fyrrum lá frammi á ljósmyndastofu Sigfúsar. Í því gátu gestir á stofunni skoðað Íslandsmyndir og pantað kópíur til minningar um Íslandsdvöl. Svarthvít pósitífa er til af myndinni á Þjóðminjasafni Íslands (Lpr-1152-11).
Framleiðandi skyggnunnar, E.G. Wood, hefur vegna þess að glerskyggnurnar voru réttur ferningur, í þessu tilfelli 8,2 x 8,2 sm. að stærð ekki getað birt myndir Sigfúsar í heild og hafa því valið að notast við hluta myndarinnar
Ljóst er nú orðið og fullvíst, að Þorlákur Johnson og Sigfús Eymundsson, sem um tíma var með Þorláki í skyggnumyndasýningunum (sjá hér og hér) hafa notast við þessar myndir Sigfúsar þegar Íslandslýsing Riley bræðra og E.G. Wood voru framleiddar.
Myndin af skyggnunni efst sýnir einna helst það sem fólk sá við sýningar á henni á 19. öld, en þessi mynd er tekin með ljósi úr báðum áttum og sýnir ekki þann lit sem myndin hafði uppi á vegg.
Þessi skyggna ásamt mynd nr. 24 (sjá hér) eru elstu "litljósmyndirnar" frá Þingvöllum. Reyndar handmálaðar. Furðu sætir hve vel konurnar sem störfuðu við að mála skyggnur hjá þessum fyrirtækjum hafa náð litunum á Þingvöllum. Tvennt gæti komið til greina. Þingvellir eru fullir af síbreytilegum, jarðrænum litum og því auðvelt að geta sér til um þá án þess að hafa verið á staðnum. En hugsanlega gæti hafa verið send handlitið kópía með frá Íslandi til að leiðbeina þeim sem unnu við litun ljósmyndanna. En um þetta vitum við ekkert enn sem komið er, en hugsast getur að það finnist ritaðar heimildir sem geti gefið frekari upplýsingar.
Til eru aðrar handlitaðar litskyggnur á Þjóðminjasafni frá 1898, sem eru þó nokkuð yngri en myndirnar frá E.G. Wood í London. Þær voru teknar af enskum ljósmyndara T. Throup og hafa verið gefnar Þjóðminjasafni af T. Nokkrum Throup. Hvort ljósmyndarinn er sami maður og gefandinn gefur Þjóðminjasafnið ekki upp. Þeim ljósmyndum fylgir handrit/skýringar í stílahefti (Sjá hér og hérna) en takmarkaðar upplýsingar eru veittar um myndirnar af Þjóðminjasafn. Ein mynda Throup er sýn frá Almannagjá að Þingvallabænum og er myndin tekin nokkru norðar en mynd Sigfúsar Eymundssonar.
Hér verður enn undirstrikað að Íslandsskyggnur Riley bræðra og E.G.Wood eru í dag afar sjaldgæfar. Enn sem komið er eru myndirnar í forngripasafni Fornleifs þær einu sem þekktar eru og hjá LUCERNA sem eru samtök háskóla, safna og sérfræðinga sem rannsaka og safna laterna magica skyggnum, hafa menn enn ekki enn komist yfir myndir úr þessum röðum sem hægt var að kaupa til sýninga í samkomuhúsum fyrirlestrum í lok 19. aldar og byrjun þeirra 20.
Með komu kvikmyndanna hvarf áhugi á skyggnumyndasýningum mjög skyndilega og skyggnumyndirnar lentu svo að segja í glatkistunni. Það er fyrst á síðustu 20 árum að menn hafa sýnt því áhuga að safna slíkum myndum og rannsaka sögu framleiðslu þeirra og sýninga á þeim.
Ljósmyndafornleifafræði | Breytt s.d. kl. 16:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ró á Austurvelli
20.9.2017 | 08:16
Númer 15 er fundin! Laterna magica skyggnumyndina hér að ofan, sem er handlituð, fann skyggnubirgir minn á Englandi nýlega í ruslakistu sinni. Sú kista reynist honum drjúg tekjulind, enda situr hann á miklum fjársjóð sá góði maður.
Myndin er úr röðinni góðu sem sem Riley Brothters og E.G.Wood framleiddu í samráði við menn á Íslandi og Skotlandi, og sem ég skrifaði um á Fornleifi fyrra í 10 köflum.
Myndin er af virðulegu þinghúsi okkar þar sem allt er nú í uppnámi nú vegna alls konar óra í sjóræningjum og æringjum. Einnig má sjá dómkirkju höfuðstaðarins. Þessi mynd var tekin af Sigfúsi Eymundssyni og er t.d. þekkt á Þjóðminjasafni í tveimur gerðum (sjá hér ; Lpr-380 í lélegu ástandi. Hina (Lpr-1152-9) er að finna í ljósmyndabók af ljósmyndastofu Sigfúsar Eymundssonar. Bókin lá frammi á stofunni og gátu viðskiptavinir pantað myndir úr henni. Margar myndir úr þessari ágætu bók sendi Sigfús líklega til þeirra sem framleiddu laterna magica skyggnur. Ljósmyndin er af Þjóðminjasafni sögð vera tekin 1882-1883.
Nokkuð merkilegt er að ná í þetta og ég bíð eftir tveimur myndum til viðbótar, sem sagt verður frá við tækifæri á Fornleifi.
Drengurinn sem hallar sér upp að girðingunni við Austurvöll er Daníel Benedikt Daníelsson (1866-1933), sem var ættaður norðan úr Húnavatnssýslu. Hann var skráður sem smali á Þóroddstöðum í Staðarsókn um 1880. Miklu síðar gerðist hann bóndi í Brautarholti í Kjós. Starfaði einnig sem ljósmyndari, kaupmaður og veitingamaður á Selfossi og að lokum sem dyravörður í Stjórnarráðinu. Frægar eru Kleppsvísur í Speglinum sem fjalla um þegar hann reið sem sendill Hriflu-Jónasar með uppsagnarbréf handa Helga Tómassyni lækni á Kleppi (sjá hér). Ef myndin hefur verið tekin 1882-83 hefur Daníel ekki verið eldri en 17-18 ára gamall.
Myndin á skyggnunni hefur verið skorin aðeins þannig að ekki sést t.d. í styttuna af Bertel Thorvaldsen sem þá stóð á Austurvelli.
Mér þykir sjálfum afar gaman að sjá þessa mynd af Alþingishúsinu nýbyggðu. Langalangafi minn Sigurður Bjarnason sem fluttist úr Skagafirði vegna fátæktar (hann var það sem í dag er kallað flóttamaður) og sonur hans Þórður (sem unglingur) unnu báðir við byggingu Alþingishússins.
Þegar Sigfús tók þessa mynd stóð hann ekki langt frá hinum mjög svo umtalaða Víkurgarði sem allir vildu bjargað hafa. Þar telja fornleifafræðingar sig hugsanlega hafa fundið heiðnar grafir undir þeim kristnu. Ég leyfi mér að efast um það þar til ég sé sannfærandi sönnunargögn því til stuðnings.
Ég tel persónulega að með eins mikla byggð og nú hefur verið sýnt fram á í kvosinni á víkingaöld, hafi kuml landnámsmanna og afkomenda þeirra, sem ekki voru kristnir, verið ekki mjög langt undan. Ég leyfi mér að benda á mjög merka ljósmynd í fórum Ljósmyndasafns Þjóðminjasafnsins OKKAR, sem tekin var árið 1868 og einnig af Sigfúsi Eymundssyni. Tel ég myndina sýna staðinn þar sem Ingólfur og hinir íbúarnir í Víkinni voru heygðir. Þarna á þúfunum (kumlunum) er löngu búið að byggja hús. En hver veit í garði rússneska sendiráðsins eða aðeins sunnan við hann gæti verið að kuml fyrstu "víkinga" Víkur séu enn að finna undir reynitrjánum.
Þegar Hótel Kirkjugarði verður plantað niður í Víkurgarð - því menningarlegu peningavöldin, sem stjórna boginni nú, eru afhuguð menningu - ætla ég nú rétt að vona að hótelhaldarar verði þjóðlegir og hafi myndir í römmum af beinum úr garðinum og nærmyndir af holdsveikum í morgunverðarsalnum. Það er áhugavert fyrir ferðamenn að stúdera slíkt þegar þeir borða árbítinn, innifalinn eða óinnifalinn. Ég er til í að láta hóteleigendum í té litmynd af Austurvelli frá 1889! til að hafa yfir kaffivélinni, en það mun vitaskuld kosta þá dýrt.
Menning kostar nefnilega, en það er svo billegt að eyða henni.
Gamlar myndir og fróðleikur | Breytt 10.4.2022 kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Illugi Jökulsson veitir njósnara og landráðamanni uppreist æru
5.9.2017 | 15:17
Ég hafði vart lokið færslunni hér á undan um sagnfræðilega ónákvæmni Veru Illugadóttur í útvarpsþætti, en að ég þurfti aftur að stinga niður penna til að rita um óvenju grófa ónákvæmni föður hennar, hins landsþekkta meiningarmanns um allt milli himins og jarðar, Illuga Jökulsson.
Illugi var síðla kvölds hins 3. september sl. með þáttinn Frjálsar Hendur og valdi hann að segja sögu dæmds íslensks landráðamanns, Jens Pálssonar, njósnarans á frystiskipinu Arctic. Fornleifur hefur gert því skipi skil áður (sjá hér).
Það sem Illugi las upp var sagan eins og Jens Pálsson óskaði að hún yrði sögð. Nóg hefur nú heyrst af rugli um ferðir Arctic, en Illugi lék vægast sagt af fingrum fram sem miðill Jens Pálssonar það kvöldið. Hlustið á söguna hér.
Sá galli er á gjöf Njarðar, að saga Jens Björgvins Pálssonar í þeirri útgáfu sem útvarpshlustendur heyrðu, stangast verulega á við þá sögur sem hann sagði Bretum árið 1942 og undirritaði til staðfestingar. Jens viðurkenndi glæp sinn en hafði einnig verið margsaga hjá Bretum, líkt og menn sem margsaga eru dæmdir þyngri dómum í sakamálum á Íslandi í dag.
Gögn um Jens Pálsson eru til á skjalasöfnum erlendis og hann gerði sér greinilega ekki grein fyrir því að þau yrðu aðgengileg þegar byrjað yrði að miðla af endursagðri sögu hans af segulbandi að honum látnum, en Jens lést árið 2000. Illugi Jökulsson hefur ekki gert sér far far um að rannsaka þá sögu sem önnur gögn en íslensk segja. Illugi skrifar stundar einvörðungu það sem Danir kalla andedamshistorie sem útleggst gæti sem heimalningasagnfræði. Þar líta menn sjaldan á heimildir nema í heimalandi sínu. En við erum nú öll hluti af stærra heimi.
Í yfirheyrslugögnum um Jens má ljóst vera, að hann tók að sér njósnir fyrir nasista og var í sambandi við íslenska nasista þegar heim var komið frá Spáni og veðurskeyti höfðu verið send frá skipinu á tækum sem þýskir njósnarar höfðu komið fyrir í skipinu og sem Jens vann við. Jens koma á kreik sögum um barsmíðar á sér á Íslandi og á Englandi, þar sem hann var hafður í haldi til ágústmánaðar 1945. Engar af þeim sögum er hægt að staðfesta. Jens fékk af öllu að dæma góða meðferð hjá Bretum, og fékk meira að segja að svara spurningum með því að skrifa svörin.
Jens var illa þokkaður af öðrum skipverjum Arctic
Samferðamönnum hans á Arctic var langt frá því að vera hlýtt til Jens Pálssonar. Íslenskur sagnfræðingur hefur þetta eftir mönnum sem unnu með Guðna Thorlacius á skipinu Hermóði og lýstu því þegar Jens Pálsson reyndi að fara um borð í Hermóð þar sem skipstjóri var enginn annar en Guðni Thorlacius, afi forseta Íslands, en Guðni skipstjóri hafði einnig verið í áhöfn Arctic (sjá hér):
Kannski áleit hann sig tilneyddan, kannski var honum ekkert á móti skapi að aðstoða nasistana. Hvað veit maður. En ég held að ég hafi skrifað þér sögu Sigurjóns Hannessonar heitins (hann lést í sumar) af því þegar Jens hugðist ganga um borð í Hermóð á Austfjörðum þar sem hans gamli stýrimaður af Arctic, Guðni Thorlacius, réð ríkjum. Guðni lét hindra að Jens kæmist um borð og hafði um hann ill orð, sagði Sigurjón, en slíkur talsmáti mun annars hafa verið sjaldheyrður hjá honum. Það sögðu mér kallar sem ég var með á Árvakri og höfðu verið hjá Guðna. Og þá var nafni hans bara grunnskólapiltur og áratugir í að hann yrði forseti þannig að ekki var verið að smjaðra fyrir honum né neinum öðrum. Kannski var Guðni fyrst og fremst reiður Jens fyrir að hafa logið að honum og öðrum í áhöfn Arctic og komið þeim í vandræði. Ekki veit ég, en aldrei heyrði ég um Guðna talað öðruvísi en af virðingu. Og það átti ekki við um alla skipherra Landhelgisgæslunnar að þeir fengju slíkt umtal af skipsmönnum.
Þegar lesnar eru skýrslur af áhafnarmeðlimum á Arctic, sér maður reginmun á þeim sem teknar voru af saklausum mönnum og þeim seku.
Þetta getur Illugi kynnt sér í stað þess að lýsa svaðilförum úr síðari heimsstyrjöld beint út úr höfði Jens Pálssonar. Sumir menn álíta greinilega síðari heimsstyrjöld hafi verið eins konar fótboltaleikur, þar sem ljótt var að spila af hörku. Athæfi Jens og hugsanlega skipstjórans, sem ekki var drepinn um borð á herskipi líkt og Jens lét ávallt í veðri vaka við viðmælendur á Íslandi, heldur andaðist á sjúkrahúsi í London úr krabbameini ári eftir að hann var fluttur til Englands, gat hafa leitt til dauða saklausra sjómanna.
Smekkleysa Illuga
Í ótrúlegum auðtrúnaði gefur gefur Illugi í skyn að Sigurjón Jónsson hafi dáið skyndilega eftir að hann var sendur til Englands 1942, og jafnvel að krabbameinið sem dró hann til dauða hafi orsakast af illri meðferð hjá Bretum. Reyndar er það rétt að Sigurjón dó, en ári síðar en Illugi heldur, eða 1943.
Illugi lét eftirfarandi orð falla í þættinum Frjálsar Hendur í framhaldi af frásögn um flutning fjögurra áhafnarmeðlima Arctic til Bretlandseyja:
Hinn 13. júlí brá svo við að Sigurjón Jónsson andaðist á sjúkrahúsi - í London. Banamein hans var krabbamein. Það sögðu Bretar að minnsta kosti. Víst hafði Sigurjón verið veikur. Það hafði víst ekki farið milli mála. En hafði ömurlegur aðbúnaður hans í fangavistinni haft áhrif á skyndilegan dauðdaga hans. Ekki sögðu Bretar. En þeir voru líka einir til frásagnar.
Illugi gleymir bara að segja hlustendum sínum og lesendum komandi hasarbókar sinnar, sem væntanlega á að setja undir tréð um jólin, að Sigurjón andaðist ekki árið 1942 á sjúkrahúsinu í London, heldur sumarið 1943. Fjöldi gagna er til um sjúkdóm hans og sjúkralegu. Dauðdaginn var ekki eins skyndilegur líkt Illugi vill láta í verðri vaka.
Sigurjón Jónsson skipstjóri. Myndin efst er af Jens Pálssyni.
Upplýsingar um heilsu Sigurjóns í byrjun júní 1943 (efst) og í júlí sama ár (neðar). Vill Illugi trúa landráðamanni eða þessum skjölum?
Þessi aulasagnfræði Illuga er forkastanleg og dæmir Illuga úr leik. Honum ber að stöðva bók sína, þar sem þetta lítilfjörlega efni verður útlistað, áður en þessi vitleysa hjá honum kemst á prent. En kannski vilja Íslendingar einmitt helst lesa lognar sögur og fá annan endi á mál heldur en þau sem t.d. dómstólar komust að?
Ef hörku var beitt af Bretum við yfirheyrslu á áhöfn Arctic, er það alls ekki óskiljanlegt. Ef til vill orsakaðist barningur bandarískra hermanna og breskra yfirmanna á t.d. Guðna Thorlacius af lygaframburði Jens Pálssonar. En furðulegt er að ekki má ekki sjá marblett á andliti nokkurs í áhöfn Arctic sem Bretar mynduðu í Reykjavík áður en þeir voru sendir utan. Bretum varð fljótt ljóst hverjir voru þeir seku um borð á Arctic voru, og útilokuðu t.d. nær strax Guðna Thorlacius sem var fljótt farinn að túlka fyrir þá, því hann var heiðursmaður og betri í ensku en margir hinna.
Arctic við strendur Skotlands
Gyðingar með demanta dregnir inn í sögu Jens
Frásögn sú sem Illugi las fyrir Jens Pálsson látinn í útvarpi um daginn var á allan hátt afar ógeðfelld. Sagan um gyðinga hlaðna demöntum sem Illugi las fyrst, sem áttu að vera að skemmta sér á hóteli í Vigo, á Spáni er ósómi af verstu gerð. Ætti Illugi eingöngu út frá henni að gera sér grein fyrir því að maðurinn sem segir söguna var enn nasisti þegar hann las sögu sína inn á band. Illugi gerir sér grein fyrir því að óhróðurinn sem Jens setur í munn Sigurjóns skipstjóra um demanta gyðinganna frá Berlín, sé furðuleg saga, en fer svo í staðinn að fabúlera um franska gyðinga og réttlætir söguna að lokum.
Franskir gyðingar komust aldrei frá Vigo til Bandaríkjanna en í einstaka tilfellum árið 1942 komust þýskir gyðingar til St. Louis en ekki með hjálp demanta heldur á síðustu eignum sínum. Örfáir gyðingar frá Þýskalandi fóru með spænskum skipum frá Vigo til New Orleans árið 1942.
Þjóðverjar höfðu rænt flestum eigum af því flóttafólki sem náðu til Spánar og Portúgals. Reyndar segir Jens Pálsson frá gyðinga sem urðu á vegi hans á hóteli í hafnarborginni Vigo. Hann sagðist við yfirheyrslur á íslensku sem þýddar voru yfir á ensku hafa hitt mann, líklega gyðing, Felix Zevi að nafni sem sagðist vera frá Zurich í Sviss. Zevi var um borð í skipi sem hafði verið kyrrsett, og var það eina skipið sem vitað er að hafi flutt gyðinga frá Vigo til Bandaríkjanna, samkvæmt upplýsingum sem ég hef grafið upp. Skjöl um þetta hefði almennilegur sagnfræðingur átt að geta fundið. En Illugi er nú einu sinni ekki sagnfræðingur. Hann er að selja bók sína í útvarpsþætti sem greiddur er fyrir afnotagjöld íslensku þjóðarinnar.
Svo lýkur Jens frásögn sinni af flóttafólki með safaríkri sögu er hann brá sér í land um áramótin 1941-42 i eina af sínu mörgu heimsóknum á hórukassa Vigo. Þessi greinargerð hans árið 1942, sem var þýdd yfir á ensku úr íslensku, var á allan hátt mjög frábrugðin því sem Illugi Jökulsson hafði eftir Jens í þættinum Frjálsar hendur hér um daginn.
Úr afriti af skýrslu undirritaðri af Jens Pálssyni
Jens Pálsson var enn haldinn fordómum nasista rétt fyrir andlát sitt. Með tilbúningi og óhróðri um gyðinga og demanta þeirra setur hann eftirfarandi orð um gyðinga á hóteli í Vigo í munn látins mann, Eyjólfs Jónssonar Hafstein (d. 1959) sem var annar stýrimaður á Arctic. Takið efir því að Jens reyndi ávallt að koma skoðunum sínum og gerðum á aðra menn:
... og ég man að Eyjólfur sagði í glensi að í þessum sal væri nú að minnsta kosti hálf smálest af demöntum. Er ég nú ekki að fjöryrða um það. Þetta fólk var að halda eitthvað hátíðlegt sem ekki var okkar, svo við yfirgáfum hótelið og átum pínusíli og soðin egg á pínubar. Næsta dag voru skemmtiferðaskipin farin til New York.
Þegar farið er að segja endurunna frásögn Jens Pálssonar, dæmds landráðamanns, 75 árum eftir að Jens Pálsson loftskeytamaður á Arctic var til í að njósna fyrir nasista, með endursögn sem stangast á við það sem hann sagði við yfirheyrslur, er sagnfræðin orðið heldur lítils virði. Enginn almennilegur sagnfræðingur myndi láta frásögn Jens standa eina.
Það sem gyldir er Sagan Öll, Illugi, og ekkert annað en sagan öll, en ekki skekkt og skrumskæld útgáfa hennar. Ef þörf er á að koma neikvæðum tilfinningum sínum í garð Breta og Bandaríkjamanna til skila, er hægt að gera það á annan hátt en með samanburði í sögu íslenskra njósnapésa.
Fólk sem tekur málstað hryðjuverkamanna sem teknir hafa verið af Bretum og Bandaríkjamönnum á síðustu árum og fárast yfir aðferðum þeirra við yfirheyrslur á glæpamönnum, í stað þess að hugsa út í þær hörmungar sem hryðjuverkamennirnir hefðu geta valdið, mun ef til vill aldrei nokkurn tímann skilja að hryðjuverkamenn og njósnarar fyrir erlend öfl eru ómerkilegar raggeitur sem oftast nær hugsa ekkert um aðra en sjálfa sig og er skítsama um líf saklauss fólks.
Við höfum séð mikinn fjölda sjálfskipaðra dómara á Íslandi á síðari árum, sem telja sig megnuga þess að sýkna menn af morðdómum um leið og þeir fara hamförum þegar kynferðisglæpamenn fá æruuppreisn. Þessi mjög hlutlæga tilraun Illuga til að hreinsa mannorð Jens Björgvins Pálssonar svipar til þessa furðulegu strauma á Íslandi, enda hefur Illugi ekki ósjaldan verið í hæstaréttardómarasæti götunnar. En þetta er ekki sagnfræði og þaðan að síður góð lögfræði. Illugi er að selja bók á ríkisfjölmiðli, og honum er greinilega slétt sama um hvort hún sé full af rangfærslum.
Læknaðist Jens af staminu?
Að lokum langar mig að nefna, að gott er heyra og lesa, að Jens Björgvin Pálsson læknaðist af staminu sem hrjáði hann er hann var fangi Breta 1942-45.
Hann gat hins vegar hiklaust tjáð sig um þá sögu sem Illugi Jökulsson leyfir okkur að heyra. Enn kannski fengum við einmitt ekki að heyra upptökuna með Jens, vegna þess að Illugi telur ekki við hæfi að láta menn stama í útvarpið. En hér að neðan geta menn svo séð, skjalfest, hvernig greint var frá þessari fötlun mannsins árið 1945.
Jens stamaði hins vegar ekki hið minnsta í lýsingum sínum af nánum samtölum sínum við þýska nasista á Spáni og meinta gyðinga á hótelum í Vigo. Sumir menn geta bara ekki stamað á þýsku.
Íslenskir nasistar | Breytt 4.1.2020 kl. 18:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Si fabula vera est
4.9.2017 | 07:55
Fyrir ekki allmörgum dögum flutti Vera Illugadóttir ágætan pistil um nasista og nasisma í Bandaríkjunum. Því miður gleymdi Vera í umfjöllun sinni um hinn þýskættaða lassaróna Fritz Kuhn og fylgismenn hans mjög mikilvægu atriði í málflutningi sínum. Hún Vera gleymdi Kaþólsku Kirkjunni og sannarlega einnig öðrum kirkjudeildum í Bandaríkjunum. Gyðingahatur og nasismi grasseraði einnig meðal þeirra og þá einna helst í hinni merku borg Boston. Írsk og skoskættaðir kaþólikkar í Boston aðhylltust margir öfgafullan nasisma, sem gekk helst út á að ofsækja gyðinga og berja börn gyðinga.
Það er sama hvað þið heyrið öfgaguðfræðinginn Jón Val Jensson halda fram, þá er kristni (næstum því sama hvaða deild sem við tölum um) rót gyðingahaturs í Evrópu - sem að lokum fæddi af sér kynþáttahatur 19. aldar og nasisma og fasisma í kaþólskum löndum (og einnig öðrum) á 20. öld. Það þýðir ekkert að benda á aðra sökudólga, til að mynda múslíma eða fljúgandi furðuhluti. Kirkjan var sökudólgur og það var syndgað!
Skömmu eftir að Vera flutti langan og góðan pistil sinn, þar sem hún gleymdi hatri meintra frænda Íslendinga, Íranna (sú ættfærsla er að mínu mati tölfræðileg skekkja starfsmanna Íslenskrar Erfðagreiningar), birtist á Times of Israel grein um hinn svæsna nasisma í Boston fyrir og eftir Síðari heimsstyrjöld. Gyðingahatrið var mikið í þeirri borg og stóðu kaþólskir prestar og leikmenn, sem báru nöfn eins og Couchlin, Tobin og Moran gjarnan fremstir í flokki.
Lesið greinina í Times of Israel sem viðbót við pistil Veru Illuga, og munið að gyðingahatur hefur aldrei eingöngu verið bundið við nasisma. Verstu gyðingahatarar sem ég hef fyrir hitt voru einmitt sannkristnir, kaþólikkar, múslímar eða vinstrimenn. Ég hef vitaskuld ekki þekkt svo marga nasista.
Fahnen Hoch in Island. Íslenzkir nasistar þramma í skjóli Landakots. Finnið frændur ykkar!
En áður en menn fara á stúfana og brenna presta og nunnur í Landakoti á báli, án sönnunargagna eins og hefur nú brunnið við, langar mig að minna á að flestir íslenskir nasistar voru upphaflega litlir fermingardrengir og líklega flestir í KFUM áður en þeir fóru að þramma fyrir Hitler; T.d. Davíð Ólafsson, uppeldisafi Egils Helgasonar sem laug til um próf í hagfræði sem hann sagðist hafa fengið í Þýskalandi nasismans. Því er enn haldið fram á vef Alþingis. Nasistinn Davíð Ólafsson komst einnig á hið háá þing. Út á lygar sínar um nám hjá Hitler fékk hann embætti Seðlabankastjóra.
Í KFUM var fánahylling að hætti nasista stunduð um langt skeið eftir Síðari heimsstyrjöld. Hin stjarfa hönd í fánastandinu var skýrð með því að þetta væri rómversk kveðja. Því fer nú alls fjarri. Þetta var aðeins nasistakveðja og kristið starf á Íslandi var greinilega smitað af einstaklingum sem þrifust á gyðingahatri og álíka öfgum. Kannski er ágæt ástæða til rannsaka þetta fyrir ungan og efnilega sagnfræðing.
Heil eða Saluto Romano, sem er seinni alda tilbúningur og á ekkert skylt við Rómverja. Myndin er tekin í Kaldárseli og birtist í Barnablaðinu árið 1987. Hver þekkir sjálfan sig?
Einhvers staðar hef ég heyrt lítinn fugl tísta að Vera Illuga hafi verið nas... kaþólikki á einhverju stigi á unga aldri. Si fabula vera est. Kannski ættu menn að líta í eigin barm, áður en alhæft er á RÚV, sem margir kalla, og það að sönnu, Lygaveitu Ríkisins. Ég held að vandamál RÚV sé fyrst og fremst vankunnátta starfsmannanna, en stundum spila öfgar nútímans verulega inn í.
Sagnfræði | Breytt 27.11.2018 kl. 04:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)