Góði hirðirinn í Fellsmúla og lélegi hirðirinn við Suðurgötuna

1051644

Fréttir (sjá hér og hér) herma að Þjóðminjasafnið hafi fengið plastkassa frá Góða Hirðinum/Sorpuversluninni í Fellsmúla fullan af forngripum úr bronsi, járni og gleri, sem einhver skilaði af sér í Sorpu í nytjagám. Góði hirðirinn hirti góssið en glöggir sérfræðingar þeirra sáu að Þjóðminjasafnið ætti líklega frekar að fá gripina sem lent höfðu í nytjagám Sorpu í Kópavogi.

Einn ágætur starfsmaður Þjóðminjasafns  Íslands hefur nú sýnt þessa gripi Morgunblaðinu og Ríkissjónvarpinu en virðist greinilega ekki vita rass í bala um það sem hann hefur á milli handanna.

oexi goda hirdisins

Hann talar um að sumir gripanna geti verið frá miðöldum, t.d. öxin. Að tala um spjót úr bronsi frá miðöldum líkt og hann gerir er álíka og þegar bandaríski fornleifafræðingurinn sem er giftur ruðningsboltafréttamanninum í BNA taldi sig hafa fundið danska koparmynd frá lok Víkingatíma í Skagafirði (koparmynt var aldrei slegin í Danmörku á þeim tíma). Hann hafði reyndar fengið smá "hjálp" hjá myntsérfræðingi Seðalbanka Íslands, sem er eins og allir vita stofnun sem ekki þekkir aura sinna ráð.

s-l1600

Þessi öxi var til sölu á eBay. Kemur frá Úkraínu.

Það virðist nú greinilegt að starfsmenn Þjóðminjasafns Íslands hafa aldrei lært neitt um gripafræði rómverskar eða keltneskar járnaldar (keltneska járnöld kalla Danir stundum ældre romersk jernalder). Spjótsoddar þeir sem í kassanum fundust eru frá því um Krists burð eða skömmu síðar og öxin er af gerð sem notuðu var víða, en þó mest Mið-Evrópu. Slíkar fornar axir er í dag reyndar hægt að kaupa á eBay fyrir 100 bandaríkjadali. Þegar á bronsöld á áttundu öld f.Kr. var þessi gerð af flatöxum notuð í Evrópu, en síðar var farið að framleiða þær úr járni. Sú gerð sem hent var á haugana á Íslandi ver í notkun á frekar löngu tímabili, eða frá ca. tveimur öldum fyrir Krists burð fram á 1. öld eftir Krists burð.

56842971_2_x

Þessi öxi kom úr safni bresks safnara og var nýlega seld á uppboði.

Að mínu mati má telja líklegt að þessir gripir hafi komið frá Miðevrópu hugsanlega Póllandi eða Litháen.

Góði Hirðirinn og Sorpa sinntu skyldum sínum og sýndu frábæra árvekni, en Þjóðminjasafnið sýnir enn og aftur allt annað en afburðahæfileika. Safnið verður aldrei betra en starfsfólkið. Safnið ætlar að bíða þangað til einhver gefur sig fram sem eiganda þessara gripa;

"Við förum nú ekki í rannsóknir á þessu að svo stöddu"

eins og starfsmaður Þjóðminjasafnsins orðaði það í sjónvarpsfréttum 9. júní 2018. Já hvers vegna að afhjúpa vanþekkingu sína í einni svipan? Þetta er uppgjöf í beinni.

En það er tvímælalaust hlutverk Þjóðminjasafnsins að svara spurningum um þessa forngripi og nú þegar. Ef þeir eru ekki frá Íslandi, sem er afar ólíklegt - en er auðveldlega hægt að komast úr skugga um - ber safninu skylda að ganga úr skugga um hvaðan þeir eru ættaðir, svo ekki komist á kreik gróusögur um að þetta séu fornleifar frá "landnáminu fyrir landnám", sem mörgum manninum er svo hjartnæmt. Nú þegar eru  fjölmiðlar farnir að tala um að gripirnir gætu "sumir hverjir verið frá fyrstu öldum Íslandssögunnar" og hafa það eftir fornleifafræðingi á Þjóðminjasafni Íslands.

En ef þessi "fundur" úr Sorpu, líkt og ég held, hafi verið eign eins margra þeirra ágætu Austurevrópubúa sem sest hefur að á Íslandi, sem hugsanlega er látinn eða fluttur á brott, þá geta menn orðið að bíða heldur lengi eftir dæma má út frá þeirri aðferð sem starfsmaður  Þjóðminjasafnsins ætlar sér að nota: Að fara ekki rannsóknir á þessu að svo stöddu.

Keðjan sem fannst er alls ekki nokkurra áratuga gömul eins og haldið var fram á RÚV, og er hvorki úr Bauhaus eða Húsasmiðjunni. Glerið sem var í plastkassanum þarf ekki að vera úr lyfjaglasi. Það gæti allt eins verið úr rómversku glasi, til að mynda glasi fyrir ilmvötn.

Mér þykir líklegt að gripirnir séu ekki allir frá sama stað eða nákvæmlega sama tíma. Ég útiloka það þó ekki.


Áður en menn haldnir keltafári og ranghugmyndum um elstu sögu Íslands fara að ímynda sér að hér sé komið í leitirnar haugfé fyrir einn af leiðangursmönnum Pýþeasar frá Massalíu sem borinn var til grafar í Kópavogi, að þetta séu leifar eftir Rómverja eða jafnvel eftir Krýsa, góðkunningja Íslendinga úr bjánasagnfræði sjálfstæðisbaráttunnar -  svo ekki sé talað um lyklana að skírlífsbeltum Papanna og vopn þeirra, þá leikur enginn vafi á því skv. lögum, að það er algjör skylda Þjóðminjasafns Íslands að rannsaka þessa gripi og miðla fræðilegri þekkingu um þá. Safninu ber að hirða um þá fljótt og samviskusamlega líkt og starfsmenn Góða hirðisins/Sorpu gerðu, er þeir komu gripunum strax til Þjóðminjasafnsins, sem þeir héldu að hefði sérfræðiþekkingu til að upplýsa hvað þeir hefðu á milli handanna. En kannski er bara orðið betra að fara með fornleifar beint í Góða hirðinn  þegar þekkingin og áhuginn eru í algjöru lágmarki eins og raun ber vitni ?

Plastkassinn, sem gripirnir fundust í, gæti einnig veitt svarið við spurningunni um uppruna eiganda gripanna. Ekki sýnist mér hann vera úr Ikea, Bauhaus, Hagkaup, eða Húsasmiðjunni. Reyndar sýnist mér að á kassanum standi Plast Team, en það eru danskir kassar, sem seldir hafa verið á Íslandi. En þeir eru helst framleiddir í Slupsk í Póllandi. Nú verða menn því að vinna fyrir laununum sínum á Þjóðminjasafninu. Miðinn á kassanum gæti verið hjálplegur.

Kassinn


Tímavél Íslenskrar Erfðagreiningar er minnislaus

Uppruni 2

Ég tel persónulega að jáeindaskanninn sé merkilegri maskína en ný tímavel deCode. Í nýrri grein frá deCode (Íslenskri Erfðagreiningu / héðan í frá skammstafað Í.E.), sem í gær birtist í tímaritinu Science (1. júní 2018; Vol. 360, Issue 6392, pp. 1028-1032; sjá hér) er kynnt til sögunnar "algjör bylting". Það er svo sem ekkert nýtt, því allt sem kemur frá Í.E. er iðulega kynnt sem algjörar byltingar - eða þangað til annað sannast og þykir réttara - og það gerist nú ærið oft.

22 ára saga Í.E. eru reyndar heil röð eintómra byltinga, sem við nánari athugun reyndust ekki vera það. Byltingar þessar virðast einna helst hafa verið framdar til þess að styrkja æ verðlausari bréf fyrirtækisins á verðbréfamörkuðum og til að ganga í augun á furstum alheimslyfjafyrirtækjanna.

Í byrjun aldarinnar var heiminum kynnt sú niðurstaða út frá raðgreiningu Í.E. á erfðamengi núlifandi Íslendinga, að landnámsmenn hefðu verið karlar frá Noregi og Skandínavíu, en að konurnar hefðu verið þrælar frá Bretlandseyjum. Sú "bylting" kom sér vel við að selja fyrirmennum auðtrúa lyfjafyrirtækja þá kreddu að Íslendingar væru sérstaklega einsleitur hópur sem hentaði einstaklega vel til alls kyns erfðarannsókna, og þar að auki til þess að rannsaka erfðir ýmissa sjúkdóma sem lyfjafyrirtækjaheimurinn telur sig best og fljótast geta grætt á.

Í nýju greininni í Science, sem ber heitið Ancient genomes from Iceland reveal the making of a human population, er komist að nokkuð annarri niðurstöðu um uppruna Landnámsmanna, eftir að erfðaefni úr tönnum 27 einstaklinga, beinagrinda sem búsettar eru á Þjóðminjasafni Íslands, hafði verið greint. 

Þó svo að aðal erfðefnismannfræðingur Í.E. hafi með vissu heyrt um niðurstöður danska líkamsmannfræðingsins Hans Christian Petersens eru þær virtar að vettugi þó svo að þær geti staðfest "byltingu" Í.E. Rannsóknir Hans Christian Petersen sem voru unnar á Þjóðminjasafni í samstarfi við mig sem styrkumsækjanda, fóru fram með leyfi (1991) þjóðminjavarðar á Þjóðminjasafninu sumarið 1993.

Öll mælanleg mannabein úr kumlum á Íslandi voru mæld. Ekki aðeins bein 27 einstaklinga, eins og tennurnar 27 sem erfðaefnið var raðgreint úr fyrir rannsóknina sem í gær birtist í Science. 27 einstaklingar eru tölfræðilega algjörlega óhaldbært úttak. Árið 1993 voru mæld voru bein 150 einstaklinga (landnámsmanna) fundin í kumlum, sem og bein 60 einstaklinga fundin í kirkjugarðinum að Skeljastöðum í Þjórsárdal.   .

Helstu niðurstöður Petersens voru þær að um 70 % elstu Íslendinganna hefðu verið af "norrænum" uppruna; Ættaðir frá Noregi/Skandinavíu. Hér má lesa stutta greinagerð H.C. Petersens.

Ég veit þó mætavel, að DNA-vísindamenn gefa afar lítið fyrir samanburðarmælingar á hlutföllum á lengd útlimabeina. DNA eru nefnilega vísindi dagsins, alveg sama hve niðurstöðurnar eru oft mistúlkaðar og misskildar og hafa jafnvel sent saklausa menn í rafmangsstólinn.

Tímavélin er komin 

Agnar Helgason, fræðilegur gúrú þess fjölbreytta hóps sem framreitt hefur umrædda vísindagrein Í.E., lætur hafa þetta eftir sér á vefsíðu deCode:

„Nú þurfum við ekki lengur að áætla á grundvelli arfgerða úr núlifandi fólki. Þetta er nánast eins og að hafa aðgang að tímavél. Núna getum við rannsakað fólkið sjálft sem tók þátt í landnámi Íslands.“  (Sjá hér).

Í kynningargrein Science um greinina er þessu rugli fleygt í lesandann:

"Medieval histories suggest Iceland was first settled between 870 C.E. and 930 C.E. by seafaring Vikings and the people they enslaved, who possessed a mélange of genes from what is now Norway and the British Isles." (Sjá hér)

"Medieval histories" var það heillin. Þannig er íslensk rithefð á miðöldum afgreidd í Science þann 29 maí 2018.  Lágkúran hefur víst náð lægstu lögum.

Genaflökt var mikið og margs konar

Fyrir utan að nýja tímavélin hans Agnars gengur á DNAi úr aðeins 27 einstaklingum, sem er tölfræðilega algjörlega óásættanlegt úrtak, virðist mér innri tímavél og minni Agnars sjálfs vera í lamasessi.

Í lok síðustu aldar (1998) kynnti ég niðurstöður mínar og Hans Christian Petersens á mannfræðiráðstefnu á háskólanum í Kaupmannahöfn. Þá ráðstefnu sat Agnar Helgason einnig og ég fann titil hennar á CV Agnars (1998 Nordic Meeting of Biological Anthropologists; Clara Lachmann Symposium. Copenhagen, Denmark, 29th –31st January 1998). Þar hafði maður hafði ekki meira en 10 mínútur til að segja frá niðurstöðum sínum. Ég nýtti þær til hins ýtrasta og gerði merkilegum niðurstöðum H.C. Petersens góð skil, en bætti við upplýsingum um fjölbreytileika þeirra hópa sem til Íslands hafa komið eftir landnám. Það gerði ég til að minna menn á, að DNA-rannsóknir, sem voru að hasla sér völl til rannsókna á uppruna þjóða, þætti mér oft settar fram of ógagnrýnið og án þekkingar á sögu þeirri sem þær gætu hugsanlega breytt. Ég minnti áheyrendur á að genamengi Íslendinga væri flóknara en sem svo - og taldi upp þær tegundir af karlpungum sem mest sást til á Íslandi - og sem örugglega skildu eftir sig breytingar á genasamsetningu Íslendinga.

Þetta var löngu fyrir tíma yfirhöfðafyrirlestra, svo ég sýndi þessa fornu glæru (efst) sem ég hafði útbúið og teiknað. Um kvöldið þáði hinn ungi og efnilegi mannfræðingur Agnar Helgason boð mitt og konu minnar að koma í kaffi á heimili mínu á Vandkunsten 6 í hjarta Kaupmannahafnar, þar sem ég bjó þá. Þar var lengi kvölds talað um uppruna Íslendinga.

Þá var Agnar ekki kominn á jötu hjá Kára Stefánssyni hjá Í.E. og var reyndar (og eðlilega) afar gagnrýninn á fyrirtækið sem hann fann allt til lasts. Nokkru síðar var Agnar svo komminn á spenann hjá Í.E. og rannsakaði fyrir miljónirnar frá ónafngreindu lyfjafyrirtæki sem trúði frekar blint á möntru og auglýsingar Kára Stefánssonar um einsleitni Íslendinga gegnum aldirnar.

Nú 20 árum síðar er Agnar líklegast búinn að gleyma öllu um fyrirlestur minn og niðurstöður Hans Christians Petersens, þegar hann setur fram niðurstöður á rannsóknum á tönnum 27 einstaklinga úr íslenskum kumlum. Það er nú frekar tannlaus niðurstaða. Agnar fékk á sínum tíma niðurstöðu Hans Christians í hendur en allt virðist þetta hafa gleymst. DNA-gleymni - eða selektíf hugsun væri líkast til verðugt rannsóknarefni fyrir Í.E.

Á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn forðum benti ég mönnum á að DNA rannsóknir á núlifandi Íslendingum myndi vera vandmeðfarið efnið í ljósi þess hve margir Danir og Norðmenn hefðu haft viðkomu á Íslandi. Hans Christian Petersen sýndi með hjálp beina fyrstu Íslendinganna, fram á að uppruni Íslendinga var allt annar en sá sem Agnar hélt síðar fram í fyrri greinum sínum um norska karla  og "keltneskar" griðkonur þeirra.  Upplýsingar um niðurstöður Hans Christian Petersens hafa verið aðgengilegar hér á Fornleifi í langan tíma og Agnar hlustaði á þær árið 1998. En DNA sérfræðingar leggjast auðvitað ekki svo lágt að lesa þetta blogg og trúa á gamaldags beinarannsóknir.  

Fyrirlestur Agnars árið 1998 í Kaupmannahöfn hét reyndar: Drift and origins: Reconstructing the genetic and demographic history of the Icelanders. Síðar, eða þegar hann var farinn að vinna fyrir Í.E., virðist svo sem að hann hafi þó gleymt því sem hann sagði árið 1998 um genaflökt, er hann setti fram greinar sínar um íslenska landnámsmenn sem norska karla og "keltneskar" konur. Nú, þegar borað hefur verið í tennur 27 einstaklinga, eru genaflökt og önnur áhrif aftur komin á vinsældalista Agnars.

Þó dr. Agnari Helgasyni og teymi hans þyki líklega ekki mikið til hefðbundinna hlutfallamælinga á mannabeinum frá landnámi koma, þá verður að minna hann á að bein meirihluta fundinna landnámsmanna hafa verið rannsökuð af einum fremsta mannabeinalíffræðingi og mannfræðitölfræðingi Norðurlanda. Rannsóknir hans sýndu alls ekki yfirgnæfandi fjölda kvenna frá Bretlandseyjum, en þó voru landnámsmenn ekki allir Norðmenn. Samkvæmt mælingum á mælanlegum beinum úr kumlum voru um það bil 30% þeirra  annars staðar frá; Frá Bretlandseyjum og úr Norður-Noregi, blandaðir fólki sem eru forfeður Samanna í dag.

Það var einfaldlega meiri munur á hlutföllum milli útlimabeina Skandínava og fólks á Bretlandseyjum, en munurinn á erfðaefni þessara hópa. Mælingar á hlutfalli á milli lengd framhandleggs og upphandleggs annars vegar, og sköflungs og læris hins vegar, er því langtum gæfulegri aðferð til að sýna fram á uppruna en DNA rannsóknir á frekar erfðafræðilega líkum hópum.

Þessi litla athugasemd mín verður send Agnari Helgasyni og öðrum ábyrgðarmönnum greinarinnar í Science til minnis og ensk gerð hennar verður fljótlega send tímaritinu Science til upplýsingar um hve lítið Í.E. þekkir til rannsókna annarra fræðigreina á sama viðfangsefni og þeir birtu 1. júní 2018.

MaggieWalserandAggieFrá kynningu Í.E. á niðurstöðu sínum 31. maí 2018. Þjóðminjavörður, Joe W. Walser III og Agnar Helgason. Ljósmynd deCode/Í.E.

Ny-syn-a-uppruna-islendinga-012

Eins og sjá má gerir Agnar Helgason ekki ráð fyrir uppruna í Noregi norðan Álasunds. Ljósm deCode/Í.E. 2018


Burtséð frá allri gagnrýninni

Til þess að þetta verði ekki allt eintóm gagnrýni á fornar syndir helstu nútímafræðinnar, sem menn telja að leyst geti allar gátur, hefði verið gaman ef niðurstöður úr DNA rannsóknunum á 27 einstaklingunum hefði verið bornar saman við mælingar Hans Christian Petersens á útlimabeinum þeirra sem DNA-rannsóknin nú hefur raðgreint . Þá er hugsanlega hægt að sjá, hvort mælingar Petersen sýndu "kelta-einkenni" í einstaklingum sem hafa "kelta-DNA" í tönnunum. 

Vatnsdalur

Við mælingar H.C. Petersens árið 1993 sýndu allar konurnar í kumlunum á Hafurbjarnarstöðum á Rosmhvalsnesi greinilega að þær voru ættaðar frá Bretlandseyjum. Greiningar Í.E. á tönnum kumlverja á Hafurbjarnarstöðum var því miður ekki hægt að nota. Erfðaefnið hafði ekki varðveist sem skyldi eða rannsóknin mistekist. 

Kumlin í Vatnsdal í Patreksfirði sýndu aftur á móti við hlutfallamælingar á útlimabænum, að fólkið þar hefði komið úr norðanverðum Noregi. Voru einstaklingarnir í kumlateigunum með einkenni sem benti til blöndunar Sama við Norðmenn. Eins og ég hef oft bent á voru fornleifarnar og greftrunin öll mjög lík því sem við þekkjum í nyrstu héruðum Noregs.

Rannsóknir á erfðamengi í tönnum úr kumlinu í Vatnsdal (VDPA) reyndist vel hentugt til raðgreininga og samkvæmt niðurstöðum sem birtar eru greininni í Science, er greinilegt að kumlverjar í Vatndal eru hvorki augljósir "Gael", né heldur hreinir Norðmenn. Ég merki þá með appelsínugulum stjörnum á grafi sem fengið er úr greininni í Science.

Erfðaefni úr tönnum úr kristinni gröf í Þjórsárdal (ÞSK-A26) er tölfræðilega mitt á milli kelta og norrænna manna. Það kemur einnig heim og saman við niðurstöður Hans Christians Petersens á mælingum hans á útlimabeinum Þjórsdælinga sem einnig sýna að einhver hluti Þjórsdælinga hafi átt ættir að rekja til Norður-Noregs. Ánægjulegt er einnig að sjá C-14 aldursgreininguna 1120 sem Í.E. hefur fengið (þótt hún sé alls ekki birt á réttan hátt). Hún sýnir einnig, eins og ég hélt fyrstur fram, og aðrir hafa síðar tekið undir, að byggð í Þjórsárdal hafi ekki lagst af í eldgosi árið 1104. Ég þakka fyrir staðfestinguna.

Þetta er kannski algjör tilviljun. Ég á einnig eftir að skoða niðurstöðurnar á greiningu Í.E. á tönnum úr öðrum haugverjum/kristnum gröfum og bera þær saman við niðurstöður H.C. Petersens, í þeim tilfellum sem það er hægt og beinin eru ekki fundin eftir 1993.

Þó Í.E. líti ekki niðurstöður annarra manna viðlits, gætu þær hugsanlega verið staðfesting á ágætum þess sem Í.E. hefur nú loks framleitt, þar sem ekki gleymdist að huga að genaflöktinu sem Agnar Helgason var svo upptekinn af þegar hann var ungur maður, en gleymdi síðan um langa hríð þegar varðbréf Í.E. seldust sem best.

En mikið hefði nú verið gott og blessað ef DNA-sérfræðingar á Íslandi hefðu sýnt aðeins meiri auðmýkt en þeir gera oft. Þeir eru nefnilega ekki alltaf að uppgötva heiminn á undan öðrum. Ritarar Landnámu og Íslendingabókar, sem nú eru kallaðar medieval histories af miður fróðum mönnum úti í heimi sem eru ólæsir á íslenska menningarsögu, voru greinilega með upplýsingar undir höndum, sem ekki voru langt fjarri niðurstöðum danska mannfræðingsins Hans Christian Petersens. 


A Holy Man for Shabbat

Rabbi Slideower 3
Recently I bought this fantastic face on eBay. I like to look at the faces of holy men and sages of considerable age and of all religions. Call it a perversion if you wish.  Old people simply look wiser than young people. In the modern society disrespect for our elders is growing. I know they said the same 100 years ago, but now it is really bad. Young people think they know everything and old people, often defenceless as they are with their illnesses and ailments, have never had as little acknowledgement by  younger people as they do today.  Ageing hits us all and also the youth-fascist that think they know everything at the age of 25. So it has been - and that´s how its always going to be. But they are so wrong.

Faces showing scars of a long life and history are specially intriguing and aesthetically superior to all the radiant beauty of youth - in my opinion. I also find it interesting to see that goodness and kindness can often be seen in a face. Evil, envy and other unpleasant human traits are easier to hide behind a mask, a wig, some make-up, a series of transplants and several injections of Botox.

The above face, which I bought on eBay, belongs to a Magic Lantern Slide series from around 1900-1910. One month ago, I introduced another slide from a Jerusalem series in my collection (see here). 

The Ashkenazi Rabbi on the above slide, whose name I do not know, was living in Jerusalem around year 1900. He was photographed by one of the fantastic photographers of the American Colony in Jerusalem*. His face to me radiates kindness and wisdom, and at the same time pain and sadness. You can read his entire life of this man in his wrinkles, his eyes and hair.

In Europe and North-America, children in Sunday schools or Jewish schools were seeing the Holy land in the fantastic photographs of the photographic department of the American Colony commune. The photographers of the American Colony like Elijah Meyers, Hol Lars Larsson and G. Eric Matson mediated the now long gone Middle East to the world. Now many of these images of the past are immensely important to historians and archaeologist. The photograph above is likely to be that of Elijah Meyers. Below is the print verion sold by the American Colony in its two shops in Jerusalem and around the world. The Edith and G. Eric Matson´s photo collection from the American Colony, donated to the Library of Congress, can be studied here.Jew Jerusalem 1900

Jew Jerusalem 1900 2

*The American Colony in Jerusalem was a religious society of Christian utopians from Chicago headed by Horatio and Anna Spafford, who in 1881 settled in Jerusalem (north of the Old City) and established a community.  Later their community also counted members of Swedes from Chicago and Sweden. The society engaged in philanthropic work amongst the people of Jerusalem regardless of religious affiliation, gaining the trust of the local Muslim, Jewish and Christian communities. One of the activities they have become best known for was their photography of Jerusalem, The Holy Land and the surrounding Bible lands. The aim was to sell these photographs to introduce the Holy land to the rest of the world. Series with photographs from the Holy land spread around the world. The American Colony was also engaged in helping  Yemeni Jews move to Jerusalem and aiding the poorest of the Eastern European Jews who had made the journey back and who often lived in great poverty compared to their Arab neighbours. The utopians of the American Colony were not engaged in the annoying and respectless missionary activity among the Jews and the Muslims, like many later groups of Christian have practised in the region. See the photographs of the American Colony here.


Sonur Þórhildar gerist gamall

Relateret billede

Friðrik Danaprins verður 100 ára eftir 50 ár. Hann hélt upp á það um daginn með því að hlaupa dágóðar vegalengdir eins og bandóður maður í nokkrum að helstu bæjum Danmerkur. Það er örugglega viturlegt áður en lagst verður í lagkökuát. Blessaður prinsinn þreytti afmælishlaup sitt annan í Hvítasunnu, þrátt fyrir að vera sárþjáður maður með þursabit og gigt. 

Pingo den 1 2
Blaðamaður Fornleifs, sem er snobb og laumu-konungssinni, fór á stúfana til að kanna líkamlegt ástand þessa hálfgerða forngrips, sem verður að bíða konungstignar þangað til mamma hans, sem er hálfgerður fornleifafræðingur, er orðin langþreytt. Ekki held ég að Frederik þurfi þó að bíða eins lengi og frændi hans Charles á Englandi, sem vel gæti tekið upp á því að hrökkva upp af áður en móðir hans gerir það. Vonum að svo verði ekki. Hann yrði líka dágóður kóngur.

Danskir þegnar sóttu mjög í að hlaupa með prinsi sínum í tilefni fimmtugsafmælisins. Svo mikill fjöldi hljóp á götum höfuðborgarinnar, að ljósmyndari Fornleifs hætti að skima eftir erfingjanum og tók bara myndir í belg og við Norðvesturhornið á Konunglega leikhúsinu. Heppnin var með honum, því það tókst að ná mynd af prinsinum, þar sem hann nálgaðist leikhúsið með tvo fíleflda lífverði sér við hlið.

Þarna við hornið, þar sem ég hafði komið mér fyrir, átti hlaupaprinsinn að stöðva og skokka á staðnum meðan að hann hlustaði á fjölda kóra syngja óð sem saminn hefur verið sérstaklega honum til heiðurs. Sá gamli gleymdi því alveg og hljóp rakleiðis áfram, án þess að hlusta á afrakstur margra vikna æfinga fjölda góðra kóra. Kórstjórinn og höfundur söngsins sem pantaður var af hirðinni, lét þau orð falla, eftir að Friðrik Prince Light hafði hoppað framhjá, að nú væri hann orðinn repúblikani. 

Ég skil nú prinsinn eiginlega vel. Hvaða tilgangur er með því að taka þátt í hlaupi sjálfum sér til heiðurs, svo farlama fólk og hækjulið fari fram úr manni vegna þess að maður þarf að hlusta á lofsöng einhvers pöpuls rétt áður en komið er í mark. Hins vegar þykir mér vitaskuld mjög leitt að frú Fornleifs, sem söng fyrir hans konunglegu hátign, ásamt fjölda annarra góðra söngvara, hafi ekki fengið fulla athygli þessa gamla skólafélaga sinn úr stjórnmálafræðinni í Árósi.

Lífið er hraðhlaup, en söngurinn lengir það. Hér er hægt að hlusta á sönginn eftir kórstjórann Peter Spies, þegar fyrstu æfingar hluta kórsins fór fram. Þórhildur gamla er örugglega búin að fá sönginn á diski og flautar hann dagana langa, alein og yfirgefin í höllinni.


Flugvélafornleifafræði: SÓLFAXI TF-FIP

Icelandair Heathrow 1965
Sólfaxi TF-FIP var fræg flugvél sem æ færri muna eftir. Vélin var vitaskuld ein af hinum endingargóðu Douglas Cloudmaster DC-6B vélum. Þær voru bæði sterkar og fagrar á að líta, líkt og konur.

Vélin er smíðuð í júlí 1952 hjá Douglas Aircraft Company í Santa Monica í Kaliforníu. Raðnúmer hennar var 43549.

Á Íslandi var vélin skráð 3. janúar 1964 sem eign Flugfélags Íslands hf. Flugvélina keypti flugfélagið af SAS, en hún hafði áður átt heimavöll í Noregi og svaraði nafninu Heming Viking LN-LML .

Heming Viking Skotlandi

Heming Viking á Skotlandi

Áður en vélin kom til Íslands hafði SAS selt hana til Taílands. Þar flaug hún skráð sem HS-TGB, en SAS keypti hana aftur og var vélin um tíma skráð sem SE-XBO.

Sólfaxi flaug mikið á millilandaleiðum Flugfélags Íslands. En eftir að Gullfaxi, Boeing 727, fyrsta þota Íslendinga kom árið 1967, hafði Sófaxi frekar frá verkefni fyrir Icelandair eftir það. Vorið 1972 var vélin seld Delta Air Transport í Belgíu. Hún var tekin af skrá á Íslandi 18. apríl 1972. Í Belgíu var vélin ekki notuð lengi og  seld í september 1972. Hér fyrir neðan er mynd af henni í einhverjum erindagjörðum í Napólí.

Efst er mynd sem nýlega komst í einkaeigu Fornleifs (varist myndaþjófnað). Myndin var tekin af vélinni á Heathrow-flugvelli árið 1965. Hér fyrir neðan er hún komin í búning Delta Air Transport (með skráningarnúmerið OO-RVG). Vélin var stolt Íslands, þar sem hún stóð í sólinni á Heathrow. Þá voru hlutirnir líka betur gerðir. Ég er t.d. fæddur árið 1960 og miklu betur byggður og betri en margar síðari árgerðir. Ég veit að því er erfitt að kyngja, en þannig eru staðreyndir lífsins.

Douglas DC-6B - Delta Air Transport - in Napoli1972

Sólfaxi varð að Delta Air Transport-vél og sést hér árið 1973 á flugvellinum í Napólí.

Árið 1974 var vélin hins vegar komin til Bandaríkjanna og var þá í eigu flutningafyrirtækisins Zantop International Airlines í Detroit í Bandaríkjunum. Fyrir Zantop flaug vélin með einkennisstöfunum NR549H.  Síðar keypti CONIFAIR í Kanada vélina og skráningarnúmerið varð nú C-GBYH. Síðast var hún í þjónustu Northern Air Cargo í Kanada og flaug með einkennisstafina N6204U.

Sólfaxi í Alaska 2004

Myndin hér fyrir ofan er af vélinni í Alaska árið 2004. Vélin virðist hafa verið tekin af skrám árið 2005. Þá var þessi fagra vél orðin líffæragjafi fyrir aðrar Douglas DC-6 B vélar. Leifar hennar ætti því helst að vera hægt að leita uppi í Alaska. Reyndar upplýsir þessi danska vefsíða, að ætlunin hafi verið að setja flugvélina í stand árið 2011, en Fornleifi hefur ekki tekist að finna upplýsingar um að því verki hafi verið lokið. Ef þessi upplýsing er rétt, flýgur Sólfaxi ef til vill enn um loftin blá, 65 árum eftir að flugvélin flaug frá Santa Monica í fyrsta skipti.

Þetta var fögur vél árið 1964, þegar Icelandair keypti gamlar vélar með eldgamlar innréttingar sem allir gerðu sér að góðu. Þá var heldur ekki til óþakklátur yfirstéttarskríll á Íslandi eins og sá sem nú hefur myndast, sem berst á líkt og pakkið tilheyri einhverjum forgömlum erfðaaðli. Fyrir nokkrum árum heimtaði nýríkur lögfræðingur nýja innréttingu í flugvél sem hún flaug með, því hún var með miða á Saga-Class. Hún hafði auðgast á að skipta fjármunum Landbankans (almennings í landinu) beint niður í budduna sína - sjá færsluna hér á undan.


Fjárbændur beita á þjóðlendur í Þjórsárdal

Draumsýn græðginnar úr lofti

Þótt öll merki séu á lofti um að vindurinn sé að mestu farinn úr ferðaiðnaðarloftbelgnum sem sveimaði til skamms tíma yfir Íslandi, eru greinilega til Íslendingar sem eru vissir um að allt sem þeir taka sér fyrir hendur verði að skíragulli.

Nú vilja menn byggja fleiri "Kurstelle", sem þeir kalla Fjallaböð. Þar verður hægt að bræða gull og eðalsteina úr mergfitu milljónamæringa þar sem þeir liggja í heitu pottunum og ímynda sér að þeir séu í einhverjum fjöllum, þar sem þeir sitja í nuddpotti í aðeins 200 m. hæð yfir sjávarmáli.

Jafnvel þó að þýsku tannlæknarnir séu að mestu hættir að koma til Íslands, enda búnir að fá nóg af klondike-stemningunni á Íslandi, er enn verið að þjónka undir rassinn á indverskum auðmönnum. Indverjarnir höfuðríku eyða illa fengnu ránsfé sínu í íslenskar lystisemdir sem einhverjir græðgispekúlantar á Íslandi framreiða.

Ekki fara fallegar sögur af Indverjunum, sem munu vera langtum heimtufrekari en þýsku tannlæknarnir. Nýríkir Rússar eru víst eins og dýrlingar í samanburði við indverska mógúla og gandreiðarmenn, sem fara með fólk í íslenskum ferðaiðnaði líkt og það væri óæðri verur sem deyja úr hor í ræsum Mombæ. Hætt er við því að indverski aðallinn gefi brátt Ísland upp á bátinn, ef ekki verður innifalið í verðinu að hann megi fá að sparka í hið íslenska neðanmálslið líkt og venjan er að gera við alþýðinu heima í Dehli.

Ný hefur hluti sjálftökuaðals Íslands, það sem kemur næst illgjörnum Indverjum á Íslandi, komist í feitt, til að ávaxta fé sitt. Áform eru nú um sannkallað alþýðuhótel í Þjórsárdal, svokölluð Fjallaböð sem stendur til að byggja fremst við Reykholt í Þjórsárdal. Þar dreymir menn um hótelbyggð sem grafin verður inn í Reykholtið, sem er örfoka hraun og vikurfell að frátöldum fornum rústum, sem vera kynni að þyrfti að rannsaka áður en framkvæmdir geti hafist.

Sveitarfélagið, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, sem býður sjálftökufólkinu hluta af þjóðlendu Íslendinga, er stórhrifið, því menn eru greinilega búnir að fá nóg af venjulegum ferðamönnum. Þeir eru ekki lengur velkomnir í Þjórsárdal.

Skeggjaða konan og vandláta Dísa eru á bak við ævintýrið

Einn af forkólfum hóteldraumsins í Þjórsárdal er Magnús Orri Schram. Einhver ykkar munið líklega drenginn sem taldi fólki hér um árið trú um að hann væri Krati.  Hann er víst enn á bitlingum úr pólitíkinni og gengur undir viðurnefninu skeggjaða konan. Magnús er stjórnarmaður í UN Women, sem er vel af sér vikið í ljósi þess að hann er karl. (Takk ISG). Konan hans er heldur ekkert slor frekar en Schramið. Hún heitir Herdís Hallmarsdóttir og er lögmaður og hundaræktunarkona. Hún mjólkaði vel í skjólur sínar auðfengnum milljónum er hún var slitastjóri Landsbankans. Hún sleit og tætti vel í sig.

Slíkt fólk berst á í stað þess að sýna auðmýkt yfir léttunnum auði sínum. Magnús Orri var best klæddi kratinn á Íslandi frá upphafi og  Slitin-Dísa gerði gröfur um að flugvélar sem flaug í væru gallalausar. Viðskipablaðið  meira að segja kváði við alþýðlegheitunum í konu þessari, því þegar árið 2012 var hún farin að haga sér eins og indversku gestirnir í hellaunum sem grafa á inn í vikursallann í Reykholti:  "Við innritun spurði hún afgreiðslukonuna með hvaða vél hún færi. Hvort það væri ekki örugglega búið að taka hana í gegn að innan. Hún nennti nefnilega ekki að sitja í gamla settinu. Þetta er kona sem er vandlát á flugvélar." Sjá hér . Viðskiptablaðið gaf henni nafnið Herdís hin vandláta.

Nú ætla þessi gervilegu hjón, gervikratinn og sú vandláta, að byggja sér hótel í Þjórsárdal, þar sem á að þjóna þeim er enn skyldu hafa áhuga á gullgrafaraæðinu í gráðugum Íslendingum.

Þetta verður að teljast töluverð áhætta. En skeggjaða konan er með MBA og sú vel slitna er júristi, svo einhver plön hafa þau gert í nýju eldhúsinnréttingunni í nýja húsinu við Elliðavatn, sem sett var í um daginn, því það kom fitublettur á upphaflegu innréttinguna.

Hvernig það hefur gengið fyrir sig að fá leyfi til þess þrýsta fjögurra milljarða króna ferðamannadæmi inn í þjóðlendur Íslendinga, verður maður nú að spyrja yfirvöld. Þjóðin á þetta svæði og allur arður af því á að renna til hennar. Samkvæmt lögum um þjóðlendur ætti það í eðlilegu þjóðfélagi að vera töluvert ferli áður en veitt er leyfi til reksturs og rasks í þjóðlendu, en svo virðist sem Bjarni Ben hafi reddað öllum leyfum og undantekningum.

Nú er Ísland, líkt og flestir vita, kannski ekki alveg eðlilegt þjóðfélag. Súperkapítalistar kalla sig krata og fólk sem heimtar nýjar innréttingar í flugvélarnar eru vitaskuld flokksmenn í Viðreisnarsvínaríinu. Frétt Viðskiptablaðsins er því miður ekki nægilega upplýsandi um hvernig menn fara að því fá leyfi til að byggja hótel í þjóðlendum eins og ekkert sé.

Hvað finnst ykkur, lesendur góðir?  Verður Forsætisráðherra ekki að útskýra málið og einnig heimamenn, sveitaaðallinn í Þjórsárdal, sem ekki vill lengur venjulega ferðamenn í dalinn, og allra síst Íslendinga með nestismal sinn. Slíkur skríll skal nú gerður útlægur úr dalnum. 

Mig langar að lokum að benda glerinnflytjendum á, að þeir geta komist í feitt í Þjórsárdal ef ævintýri skeggjuðu konunnar og vandlátu Dísu verður að veruleika. Eftir 1-2 ár verða allir gluggar á neðanjarðarvirkinu, sem menn dreymir um að byggja í Þjórsárdal, mattir af Hekluvikri sem lemur á gluggum í sunnan- og vestanáttum. Allt er úthugsað.


mbl.is Fjallaböð í Þjórsárdal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndarlegir menn - töffarar fyrir sinn tíma

Þorvaldur og Vilhelm Copyright Kaldal--Fornleifur

Um þessa menn hef ég skrifað áður hér á blogginu og bendi fólki á að lesa það (sjá hér). Afi minn, Vilhelm [Árni Ingimar] Kristinsson, er þarna á myndinni. Hann er ungi maðurinn til hægri. Hávaxnari vinur hans og félagi til sjós hét Þorvaldur Ögmundsson. Hann tók út af skipi við austurströnd Bandaríkjanna og drukknaði fáeinum árum eftir að myndin var tekin.

Þrátt fyrir að ég hafi skrifað um myndina sem þjóðminjasafnið á og sent safninu upplýsingar um hana árið 2016, hafa menn það enn ekki fært upplýsingar mínar inn í skráningarkerfið á sarpur.is. Þar er enn lítið að finna um upplýsingar um myndina.

Ég fékk eiginlega helst á tilfinninguna að safnið tryði ekki upplýsingum mínum um að afi minn væri á myndinni; vegna þess að hún var tekin í Flensborgarskóla, þar sem afi minn stundaði ekki nám eins og ég upplýsti safnið skilmerkileg um. Hins vegar var skólameistarinn í Flensborg faðir Þorvalds vinar afa. Þorvaldur trassaði óskir föður síns, Ögmundar Sigurðssonar, um að hann færi menntaveginn. Þorvaldur fór í staðinn á sjóinn, sem var sá vegur sem hélt lífi í íslensku þjóðinni, sem ekki voru óðalsbændur.

Hann nýtti sér þann möguleika að fá teknar myndir af sér ásamt vini sínum þegar Kaldal kom og tók ljósmyndir af nemendum Flensborgarskóla, þar sem hvorugur þeirra stundaði nám. Vonandi skilur Þjóðminjasafnið þetta. Afi var eins og svo margir aðrir einfaldlega of fátækur til að geta lagt stund á nám, þó hann hefði gjarnan viljað það. Slíkt skilur sjálftökufólkið ekki í dag.

Þorvaldur og Vilhelm 2 Copyright Kaldal--Fornleifur

Síðastliðið haust, þegar ég leit eina kvöldstund í fjölmörg myndaalbúm móður minnar rakst ég á tvær aðrar myndir frá sömu upptökunni af Vilhelm afa og Þorvaldi í Flensborgarskóla, þar sem afi minn stundaði reyndar ekki nám, en þar sem myndin var nú samt tekin. Ég ljósmyndaði myndirnar sem móðir mín varðveitir. Myndir Þjóðminjasafnsins getið þið séð hér og hér.

Þjóðminjasafninu er því nú orðið alveg óhætt að bæta við og vitna í upplýsingar á Fornleifi á Sarpi og nefna afa minn, en ekki aðeins skrifa um skólastjórasoninn í Flensborgarskóla sem Jón Kaldal tók mynd af - með afa mínum. Afi minn var sonur verkamanns sem bar kolasekki við Reykjavíkurhöfn og varð loks undir einum slíkum sem féll niður á hann úr miklum stakki sem hrundi. Hann hálsbrotnaði. Enn er ekki finna nafn afa míns á Sarpi við þessa mynd, tveimur árum eftir að Þjóðminjasafnið fékk þær upplýsingar að hann væri á henni. Kannski hafa menn þar á bæ ekki áhuga á öðrum en heldri manna piltum? Ég tel það reyndar öruggt.

Ég geri mér vitaskuld grein fyrir því að það vinnur orðið svo fátt, sérmenntað starfsfólk á Þjóðminjasafninu. Þar vinna flestir nú orðið við einhvern krambúðarkassa, við gæslu, í fatahengi og kaffistofu (sjá hér), meðan að yfirmaðurinn gerir sér enn drauma um að verða prófessor án þess að hafa nokkuð fyrir því, annað en að vinna fyrir hið pólitíska viðundur Sigmund Davíð sem og í ígripavinnu við að reka fólk á öðrum stofnunum. Myndir segja svo margt (sjá hér), en þegar ljósmyndadeild Þjóðminjasafns Íslands er fyrirmunað að skrá upplýsingar um myndir sínar, þegar enn er til fólk sem getur sagt söguna, þá er illt í efni. Reyndar á þetta líka við um aðra muni en ljósmyndir. Þjóðminjasafnið er sannast sagna ekki orðið annað en frekar þreyttar sýningar sem engum breytingum taka og sem veita fjöldann allan af röngum upplýsingum.

Mig langar til gamans að upplýsa, að afi minn var með Þorvaldi á nokkru vertíðum á bátum og togurum frá Siglufirði. Afi þótti listakokkur og sinnti því starfi lengst af þegar hann var sjónum. Hann kom oft til Akureyrar, því honum þótti gott að fara á ball og á kaffihús. Gefinn var hann fyrir kökur, karlinn.


Swiss Misses

Kerlingar við kirkju small FORNLEIFUR copyright
Fornleifur horfir heldur til mikið á konur á netinu. Þetta tómstundagaman hans hefur færst í aukana frekar en hitt. Hans yfirsjón og perversjón eru gamlar boldangskonur, helst kappklæddar og hann kaupir þær ef þær eru falar.  Íslenskar kerlingar eru í miklu uppáhaldi hjá honum. Í tölvu hans finnst töluvert magn af alls kyns myndum af peysufatakerlingum, upphluts-Unum, faldbúninga-Siggum svo eitthvað sé talið. 

Slíkum myndum hefur hann sankað að sér, keypt á netinu og fundið hjá skransölum í þremur heimsálfum. Hann hefur mikla unum af því að skoða þessar konur og sýna öðrum hvað margar konur eru í haremsfjósi hans. Hann telur, að íslenskar konur séu allar fædd módel; Ávallt til í tuskið og hafi viljugastar hoppað í fínu fötin í hvert skipti sem útlendingur birtist með myndavél eða bara blýant og blokk.

Stundum finnur hann fegurðardísir sínar og módel á furðulegustu stöðum. Nú síðast festi hann kaup á tveimur boldangskonum í sunnudagsfötunum, þar sem þær stilla sér upp við kirkju undir fjallshlíð. Myndin er að öllum líkindum frá 3. eða fjórða áratug síðust aldar, og er glerskyggna fyrir töfralampa (magica laterna).  Myndin er líklega tekin af ensku ferðalangi, þó ekki sé hægt að útiloka aðra, en myndin var til fals á Englandi.

Hvort þessar konur reyndu að villa á sér heimildir skal ósagt látið, en þær voru seldar sem konur frá Swiss á eBay. Þær bjuggu hjá skransala í Beccles í Suffolk og fengust fyrir slikk, því að skransalinn hélt að þær væru jóðlandi alparósir, sem auðvitað er nóg til af og þær því ekki í háum kúrs á kjötmarkaði fortíðarinnar.

Fornleifur vill komast í nánari kynni við þessar konur og er ólmur eftir því að vita hvar þær bjuggu, hvað þær hétu og hverra manna þær voru.  Kirkjan þeirra er undir hlíð, kórinn er stór, fjallshlíðin er steind. Svona konur hljóta að hafa verið vel giftar og átt marga afkomendur sem muna þær og hafa margar upplýsingar á takteinum um þær. 

Fornleifur bíður spenntur eftir því að fá upplýsingar um þessi vel þroskuðu módel.

Fyrir hönd Fornleifs, sem er of upptekinn yfir maddömunum til að geta skrifað nokkur að viti.

Vilhjálmur ritstjóri


Fríða Sveins, þröstur minn góður!, það var stúlkan hans Xaviers

BR 3

MalfridurÞessi franska litógrafía er varðveitt í geymslum Fornleifssafns sem er aðeins opið almenningi á Fornleifsbloggi, þegar Fornleifaverði hentar. Myndin er einstaklega áhugaverð. Líklegast hefði einhver Íslendingur mótmælt henni, ef hún hefði komið fyrir sjónir þeirra.  Af einhverjum ástæðum sem ekki koma fram í textanum hafa höfundarnir valið að setja Ísland með í kaflann um Svíþjóð sem han kallaði Suede, Islande et Laponie: Costumes et usage populaires.

Íslenska konan á myndinni  hefur lent í bás með frumbyggjum og fólki sem á 19. öld var stundum talið frumstæðra en aðrir Evrópumenn, þegar lærðir menn fóru að draga menn í dilka á síðari hluta aldarinnar út frá líkamsbyggingu og höfuðlagi og jafnvel neflagi.  Myndin er úr heftaröð um búninga og siði manna í Evrópu  sem gefið var út í  París á tímabilinu 1877 - 1888 . Verk þetta var eftir M. A.  Racinet og birtist þessi mynd í 6. hefti ritraðarinnar,  sem bar heitið  "Le Costume historiqueLe costume historique : cinq cents planches, trois cents en couleurs, or et argent, deux cent en camaieu, types principaux du vêtement et de la parure, rapprochés de ceux de l´intérieur de l´habitation dans tous les temps et chez tous les peuples.... VI. Planches et notices 401 à 500  .  etc. etc.

Málfríður Sveinsdóttir hét fyrirsætan

Malfridur hans XaviersSteinprent eftir teikningu Auguste Mayers

Hið undurfagra fljóð á myndinni efst, lengst til hægri, er vitaskuld unnin á grundvelli teikningar Auguste Mayers, samferðamanns Paul Gaimards á Ísland, af prúðbúinni konu með spaðafald. Konan á myndin er Máfríður Sveinsdóttir í Reykjavík, sem fæddist árið 1815. Hún var jafnan kölluð Fríða Sveins. Fríða var dóttir Sveins Ólafssonar á Arnarhóli. Hún sleit barnsskónum í mikilli fátækt í Arnarhólsbænum. Kotið var rifið árið 1828. Fríða var framreiðslustúlka á klúbbnum þegar Gaimards-leiðangurinn var í Reykjavík og virðist svo sem þeim Frökkunum hafi litist nokkuð vel á hana.

Ekki veit ég hvort Fríða hafi verið sleip í frönsku, en það hindraði ekki náin kynni hennar við einn Fransmanninn. 26 ára franskur stúdent, Xavier Marmier að nafni, sem með var í föruneyti Gaimards, eignaðist barn með Fríðu. Ávöxtur þess sambands kom í heiminn árið 1837 og var það drengur sem kallaður var Sveinn Xavier. — Þegar Sveinn Ólafsson, faðir Fríðu, varð að flytja frá Arnarhóli, reisti hann sér bæ, er hann kallaði Þingvöll, þar sem nú er Skólastræti.

Afdrif Fríðu voru þau að hún fluttist til Danmerkur, þar sem hún giftist skósmið. Fornleifur hefur grafið það upp að hann hét Peter Adolph Jensen (f. 1818). Hann er skráður árið 1845 sem skomagersvend til heimilis að Ny Kongensgade 233, sem er Ny Kongensgade númer 7 í dag. Jensen deyr og giftist þá Málfríður aftur árið 1853, þá 38 ára gömul, Carl Johan Fagerstrøm skósmið sem var 31 árs. Líklegast er hægt að finna meira um örlög Málfríðar, en til þess hef ég ekki tíma eins og er.

Ny-Kongensgade-7-5

Í þessu húsi, á jarðhæð, bjó Málfríður með fyrri dönskum manni sínum, Peter Adolph Jensen.

Pétur Pétursson þulur taldi að sonur Málfríðar, Sveinn Xavier, hafi ekki orðið gamall. Um Xavier Marmier, stúdentinn sem elskaði Fríðu, hefur Elín Pálmadóttir síðan skrifað frábæra grein um í Morgunblaðið árið 1993 og um ástarævintýri Marmiers (þau voru fleiri en eitt) unga  í Reykjavík, sem ég hvet menn til að lesa (sjá hér) Þar fór Elín Pálma á flug með hjálp hjónanna Giselle Jonsson og Sigurðar Jónssonar. Í greininni kemur fram hvaða litir hafa verið í búningi þeim sem ungfrú Málfríður var í þegar hún var teiknuð í Reykjavík. Malfríður var Belle de Reykjavík, aðalskvísan í bænum.

Marmier var sæmilega frægt skáld, rithöfundur og prófessor í Rennes. Hann var sömuleiðis meðlimur í Académie française. Jónas Hallgrímsson gerði lítið úr Xavier í skrifum sínum líkt og kemur fram í grein Elínar. Blái frakkinn og gullknapparnir hans Jónasar hafa væntanlega ekki gengið eins í augun á Fríðu, eins og ekta Fransmaður sem hvíslaði hlý orð af ástríðu í eyru ungmeyja í Reykjavík. 

Marmier,_Xavier,_par_Truchelut,_BNF_Gallica

Maðurinn sem elskaði Fríðu Sveins í Reykjavík - um stund - en einnig margar aðrar meyjar. Xavier Marmier (1788-1892) var það sem í dag kallast einarður raðflagari. Hann hætti fyrst þeirri iðju sinni frekar seint á ævinni, eða er hann missti son sinn og eiginkonu með stuttu millibili.

Kannski var hún Fríða Sveins sett á myndina efst með fjarskyldum ættingjum sínum, Sömunum, af hreinni tilviljun. Til dæmis er menn uppgötvuðu á síðustu stundu fyrir útgáfu, að þeir væru búnir að gleyma Íslandi. En ástæðan gæti þó verið önnur. Nokkrir ferðalangar sem til Íslands komu líktu litarhafti Íslendinga við litarhaft Sama. Þóttu sumum ferðalöngum báðar þjóðirnar eitthvað grámyglulegar og líkar í fasi. Sólarleysi gæti verið skýringin, en einnig erfðir. Þær hafa hafa leikið suma Íslendinga grátt, en Málfríður gerði sitt besta til að bæta úr. Já kvennasagan er mjög vanrækt grein.


Síðustu hreindýrin á Suðvesturlandi

Auguste Mayer 1838 c
Man einhver lesenda Fornleifs eftir því að hafa heyrt ættingja sína segja frá hreindýrum þeim sem kúrðu á Hengilssvæðinu fram til 1930? Kannski vill svo vel til að
einhver eigi í fórum sínum ljósmyndir af síðustu dýrunum, eða t.d. málverk.

Síðast hreindýrið Suðvestanlands var fangað skömmu fyrir 1930 á Bolavöllum sunnan við Húsmúlarétt, nærri Kolviðarhól.

Myndin, steinprentið, hér af ofan af hreindýrum sem urðu á leið leiðangursmanna Gaimards milli Reykjavíkur og Þingvalla er að finna í stór verki Paul Gaimards um Ísland frá 1838. Ég man ekki eftir því að nokkur hafi notað þessa mynd í bækur eða greinar um íslensk hreindýr. En þarna eru þau nú blessuð, svört á hvítu.

Hvar eru hreindýrin nákvæmlega stödd á myndinni í verki Gaimards? Kannast einhver við kennileiti á steinprenti Jolys og Bayots eftir teikningu meistara Auguste Mayers?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband