Kjósum Kristján

Kjósum Kristján

Þegar ég var í Ísaksskóla (1968) hélt ég að ég myndi fá að kjósa í forsetakosningum. Þegar svo kom í ljós að það var ekki hægt, varð ég vitaskuld afar vonsvikinn. Ég hafði þetta á orði við Svenna vin minn í sandkassanum á róluvellinum okkar í Hvassaleitinu. Hann "kaus" Gunnar Thor eins og flestir í götunni, en ég ætlaði svo sannarlega að kjósa Kristján, meðal annars vegna þess að altalað var, að Gunnar væri bytta, en þó fyrst og fremst vegna þess að Kristján var ÞJÓÐMINJAVÖRÐURINN, og hjá mér var það það sama og vera í guða tölu.

Svo ég skríði nú aftur í sandkassa minninga minna, þá var ég leiður yfir því að geta ekki kosið. Ég vissi ekki alveg hvað það gekk út á, en ég var staðráðinn í því. Ég borgaði meira segja hundraðkall, sem ég átti, í stuðningssjóð Kristjáns Eldjárns, og á enn kvittunina, sem ég ætla að láta innramma við tækifæri. Sýni hana hér sem jarteikn.

Svo þegar Kristján sigraði í kosningunum, fór ég til að hylla hann á tröppum Þjóðminjasafnsins. Þar komst ég upp á tröppur. Þar biðu mín líka vonbrigði. Ég hrasaði á tröppunum og það kom gat á buxurnar mínar. En ég stóð þarna og hyllti forsetann fyrir aftan risavaxinn mann og sá lítið annað enn bakhlutann á honum, sem lyktaði frekar óþægilega. Ég sá ekki einu sinni forsetann.

Ég beit þetta þó í mig ... og loks sumrin 1981 og 1982 komst ég eins nálægt átrúnaðargoði mínu eins og hægt var. Þá var ég byrjaður í námi í fornleifafræði og það hafði Kristján frétt og boðaði mig á fund sinn, tvo sunnudagsmorgna, og talaði um heima og geima og þáði af mér mína fyrstu fræðigrein um fornleifar fyrir Árbók Hins íslenzka Fornleifafélags, félag sem ég hafði gerst félagsmaður í undir "lögaldri". Ég hef því miður ekki verið í félaginu síðan 1995, og veit ekki af hverju, en ætti líklega að ganga í það aftur við tækifæri.


Falskir Íslendingar í Þýskalandi árið 1936

Eismennschen

Árið 1936 steig á fjöl frekar fölleitur leikflokkur í München. Leikflokkurinn kom fram á mörkuðum, kabarettum og á leikvöngum á Oktoberfest, þar sem þeir klæddust eins konar fornaldarklæðum. Íslenskur læknir, Eyþór Gunnarsson (1908-69), (afi Péturs súperbloggara Gunnarssonar), sem um þessar mundir var staddur í Þýskalandi, nánar tiltekið við nám og störf á eyrnadeild Háskólans í München, brá sér á kabarett og sá sýningu þessara listamanna. Eyþór Gunnarssyni ofbauð sýningin svo, að hann fór daginn eftir í danska konsúlatið í München og setti fram kæru vegna þessa hóps loddara sem sögðu sig vera Íslendinga.

Dr. Eyþór greindi frá því að flokkurinn kallaði sig "Eismännschen" (sem má víst útleggjast sem ísdvergar). Hann lýsti listamönnumum sem stríhærðu fólki með rauðleit augu. "Die ganze Aufmachung und die Primitivität der Darbietungen ist geeignet, bei den Zuschauern das isländische Volkstum herabzuwürdigen" var haft eftir íslenska lækninum. Ræðismaðurinn danski lét þegar rannsaka málið og skrifaði skýrslu, sem send var danska sendiráðinu í Berlín og utanríkisráðuneytinu í Kaupmannahöfn.

Rannsóknin leiddi í ljós, að um var að ræða 6 manna hóp og fékk ræðismaðurinn mynd af hópnum. Í ljós kom einnig að hópurinn kallaði sig ekki Eismännschen heldur Eismenschen (Ísfólk). Á kynningarspjaldi var sagt að hópurinn kæmi frá "Islands hohem Norden". Kynnir sýningarinnar tilkynnti hins vegar, að hér væri á ferðinni "blómaviðundur" frá Reykjavík. Það kostaði 10 pfenniga að sjá sýninguna. Ræðismaðurinn lét sig hafa það. Hópurinn kom svo fram á einföldu sviði og lék "Sunnuleiki" (Sonnenspielen), þar sem töfruð voru fram blóm svo að lokum varð úr blómahafinu Reykvískur blómagarður.

Eftir showið spurði ræðismaðurinn fyrirliða hópsins, hvort hann eða aðrir meðlimir væru í raun Íslendingar. Sagði fyrirliðinn, að foreldrar hans og forfeður hefðu verið Íslendingar, en að hann væri sjálfur Austurríkismaður. Hann bætti því við að allir í hópnum væru albínóar. Er kynnir sýningarinnar var spurður um uppruna hópsins, fór hann í fyrstu undan í flæmingi, en sagði að lokum að maður mætti ekki búast við neinni þjóðfræðilegri sýningu - það sem boðið væri upp á væru "Listir frá Norðurhöfum".

Ræðismaðurinn, sem greinilega hefur brosað út í annað munnvikið þegar hann skrifaði skýrslu sína, bætti við: "Sýning þessara albínóa gæti vel hugsast að gefa áhorfendum með litla þjóðmenningarlega þjálfun ranghugmyndir, en hins vegar verður að líta þannig á málið, að það er mjög lítill trúverðugleiki í sýningunni og að hana ber frekast að flokka undir töfrasýningu." Ræðismaðurinn lauk bréfi sínu til sendiráðsins í Kaupmannahöfn með því að skrifa: "Skylduð Þér, þrátt fyrir það sem fram er komið, óska eftir því að ég hafi samband við tilheyrandi yfirvöld hér í bæ, þætti mér vænt um að fá skeyti þar að lútandi."  H.P. Hoffmeyer í danska sendiráðinu taldi ekki neina þörf að eyða meiri tíma ræðismannsins í erindi Eyþórs Gunnarssonar, sem móðgaðist yfir blómasýningu sex albínóa í München árið 1936.

Þetta á ekki að verða lærð grein, en þess má þó geta, að albínóar þóttu gjaldgeng viðundur fyrir sýningaratriði í fjölleikahúsum fyrr á tímum. Hér að neðan er mynd af "hollenskri" albínóafjölskyldu, Lucasie, sem sagðist vera komin af negrum frá Madagaskar. Hið rétta var að herra Lucasie var frá Frakklandi, kona hans frá Ítalíu og sonurinn var fæddur í Hamborg. Hinn heimsþekkti bandaríski sirkusmaður Phineas Barnum, flutti þau með sér til Bandaríkjanna árið 1857. 

Allar frekari upplýsingar um austurrískan albínóa, son íslenskra hjóna, eru hins vegar vel þegnar.

Fam. Lucasie

Þessi færsla birtist fyrst árið 2007 á www.postdoc.blog.is

Heimildir voru sóttar á Ríkisskjalasafni Dana.

 


Þar misstu Íslendingar enn einu sinni af sögu sinni

Vasi

Fjölmiðlar einblína mikið á falsanir á málverkum íslenskra meistara sem endalaust eru boðnar upp í Danmörku. En þegar dýrgripir, sem eru mikilvægir fyrir sögu Íslands, eru boðnir upp, heyrist ekkert. Þá er enginn áhugi. Ríkisútvarpið gerði þó grein fyrir vasanum sem í gær var seldur fyrir 130.000 danskar krónur (2.8 milljónir íslenskar) hjá listaverka-uppboðsfyrirtækinu Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn. Fyrir minna verð en Skóda Fabia gátu Íslendingar hneppt mikilvæga heimild um Ísland. Vasinn fór líklega í staðinn til einhvers safnara í Þýskalandi, en að minnsta kosti ekki til Íslands. Það staðfesti Bruun Rasmussen nú rétt áðan.

Ekki eru mörg ár síðan að Íslendingar keyptu allt steininum léttara, og þyngra, í Danmörku, svona til að sýna að þeir væru orðnir þjóð sem taka ætti mark á. Þjóð með peninga. Ef það voru ekki hótel og dagblöð, þá voru það fasteignafyrirtæki, flugfélög og bjórverksmiður. Ég varð eitt sinn vitni að stórinnkaupum íslensks bubba á uppboði á Bruun Rasmussens. Þar var á ferðinni mikill og feitur víkingur, sem m.a. er þekktur fyrir að hafa tæmt sjóð sem frænka hans stofnaði í Ameríku, sem átti nota til að styðja listamenn. Sá maður á nú ekki bót fyrir rassinn á sér, er búinn að fá skuldafyrirgreiðslu í bankanum sínum. Hann kveikir líklegast upp í ofninum með Kjarvölum sem hann keypti fyrir peninga frænkunnar.

Bessastaðir

Sjáið myndina stærri með því að klikka á hana
 
Nú er öldin önnur, og ekki var það Íslendingur sem í gær keypti hinn forláta vasa með Íslandsmyndum frá 1836, sem þá var boðinn upp í Kaupmannahöfn. Vasinn fór á 2,8 milljónir (ísl.), sem hefðu verið smáaurar fyrir íslenska ríkið. Þennan vasa hefði átt að kaupa fyrir Þjóðminjasafnið.
 
Þessi svokallaði Delfín-vasi (Höfrungavasi) var hannaður af  C.F. Hetsch en ber mynd þýsk-danska listmálarans Frederiks Theodors Kloss (1802-1876) sem ferðaðist með Friðriki Danaprins (hann hét síðar Friðrik VII) til Íslands árið 1834. Lauritsz nokkur Lungbye málaði vasann. Vasinn var gerður í Den Kongelige Porcelainsfabrik árið 1836.
 
Vasinn, sem er 55 sm. að hæð, sýnir mynd af Bessastöðum og umhverfi. Þetta er svokallaður panoramavasi með mjög fallegri fjallasýn. Við sjáum Esjuna, Skarðsheiðina, Akrafjall, Hafnarfjall og Snæfellsjökul og við sjáum Reykjavík, Seltjarnarnes og Gálgahraun. Hugsanlega hefur vasi þessi upphaflega átt "bróður", og þar að auki voru tveir minni vasar með myndum frá Íslandsförinni. Friðrik VII konungur hinn barnlausi gaf aðalsfjölskyldunni Scheel þennan vasa og var hún í eigu einhvers fátæks afkomandans þangað til í gær, þegar hann fékk peninga fyrir hann, sem væntanlega fer í að borga upp í Skóda Fabíu.
Esjan og Reykjavík
Reykjavík, Esjan, Skarðsheiðin. Sjáið nærmynd með því að klikka nokkrum sinnum á myndina

Í aumingjaskap sínum misstu Íslendingar af þessum kostagrip og heimild, meðan þeir voru að rausa um rétt einhvers Kínverja uppi á Grímsstöðum. Í stað þess að Menntamálaráðuneytið friðar skúra í Skálholti, hefði það átt að senda mann til Kaupmannahafnar til að bjóða í þennan vasa. Þetta er ómissandi saga og heimild sem Íslendingar misstu hér af. 

Gálgahraun

Konungur kemur ríðandi með fylgdarliði um Gálgahraun, nokkuð meira úfið en það er í raun og veru.

Fyrr á árinu fór fyrir lítið lituð pennateikning eftir Frederik Theodor Kloss, sem sýndi kyssandi par á Þingvöllum árið 1834. Það fór á skitnar 4200 DKK (90.000 ISK), og örugglega ekki til Íslands (sjá myndina neðar). Árið 2009 fór málverk eftir Kloss, sem málað var í Reykjavík árið 1834 á 8000 DKK (172.000 ISK). Spottprísar, en var þetta keypt til Íslands? Nei, íslendingar vilja miklu frekar fá endurgerð "miðaldaflugskýli" í Skálholti og skemmur ofan á friðlýstar fornminjar. Verðmætamatið er brenglað.

Fyrirgefið mér að ég segið það. Margir Íslendingar eru menningarlegir óvitar, en nýi vasinn hans Helmuths fer örugglega vel við ísbjarnarteppið.

Viðbót: Helmuth borgaði 130.000 DKK fyrir vasann.

Akrafjall
Stækkið myndina og sjáið hvað þið misstuð
F.T.Kloss Par der kysser på Thingvellir
Þessi teikning var seld fyrr á árinu fyrir 4200 DKK

Þið munið hann Jörund - eða hvað?

ATHUGASEMD 

5. desember birtist þessi frétt á Pressan.is. Þar er viðtal við Þjóðminjavörð um gripi á Þjóð-minjasafni Íslands, sem ég hafði haldið fram að hefði týnst,  og hefur mér að hluta til orðið á í messunni. Ég biðst velvirðingar á því að ég hélt að smámyndin af Jörundi Hunda-dagakonungi væri týnd, svo og stytta úr safni Jóns Sigurðssonar. Á 8. áratug  síðustu aldar var mér tjáð af nokkrum af hinum yndislegu gæslukonum safnsins, að postulínsstytta í safni Jóns hefði týnst, eins og ég lýsi hér á blogginu. Því miður kannaðist ég ekki við grein Ingu Láru Baldvinsdóttur í Árbók Hins íslenzka Fornleifafélags og vissi því ekki að smámyndin af "Jörundi" hafi verið í geymslu frá því snemma á 8. áratug síðustu aldar. En áður hékk hún í hliðarsal til norðvesturs af svo kölluðum fornaldarsal.

Hins vegar á ég bréfaskrif við fyrrverandi þjóðminjavörð og annan starfsmann fornleifa-vörslunnar sem leituðu til mín vegna týndra innsiglishringa frá Skálholti í Þjóðminjasafni Íslands, þó ég hafi aldrei skilið af hverju, þar sem ég var ekki starfsmaður safnsins þegar gripirnir týndust/hurfu. Vona ég að þeir hafi komið í leitirnar, en mér hefur aldrei verið greint frá því með óyggjandi hætti. Það gleður mig hins vegar, að loks sé komin opinber staðfesting á því að hin forna kinga úr kumlinu í Granagiljum, sem ég ritaði nýlega um, sé týnd og tröllum gefin, þótt ekki hafi verið greint frá því í 2. útgáfu af doktorsritgerð Kristjáns Eldjárns fyrir rúmlega 10 árum síðan, og heldur ekki annars staðar síðan kingan hvarf árið 1967.

Það er virðingarvert af Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjaverði að greina Pressunni frá öðru því sem miður hefur farið, en sem hún á engan hátt ber ábyrgð á.

Lengi var því haldið fram, að málverk eftir hinn heimsþekkta danska listmálara C.W. Eckersberg (1783-1853) sýndi Jørgen Jørgensen, sem við Íslendingar köllum jafnan Jörund Hundadagakonung.

jorgen

Jörundur á Frederiksborgarsafni

Fyrir tveimur árum flutti danskur grúskari, Jørn Dyrholm að nafni, erindi um málverkið, sem talið er vera eftir Eckersberg, á þingi sagfræðingafélagsins á Íslandi um Hundadagakonunginn. Dyrholm telur hins vegar að myndin sé ekki eftir C.W. Eckersberg, heldur Hans Hansen (1769-1828). Myndin er heldur ekki af Jörundi, ef trúa má Dyrberg. Færði Dyrholm fyrir því sterk rök að maðurinn á portrettinu með tæru, bláu augun og rósrauðu kinnarnar, sem hingað til hefur verið bendlaður við Jörund, passaði ekki alveg inn í þá lýsingu sem Englendingar gáfu af sakamanninum Jörundi, sem var dökkhærður og með hnotubrún (hazel brown) augu. Því miður hef ég enn ekki séð neina grein eftir Jørn Dyrholm  um efnið, og gat ekki fundið hann í neinum skrám í Danmörku, er ég var að leita að honum til að reyna að spyrjast fyrir um útgáfu niðurstaðna hans. Hér má hins vegar lesa um erindi Dyrholms í Reykjavík.

1417396.jpg
 

Jörundur sem einu sinni hékk sem er í geymslu á Þjóðminjasafninu

Annað málverk er til af Jörundi, það er fróðir menn telja. Reyndar ætti ég frekar að skrifa, að það „var til". Málverkið, smámynd, hékk eftir 1948 í Þjóðminjasafni Íslands og bar safnnúmerið 18974. En Þjms. 18974 (Rétt númer er MMS 18974) hefur nú ekki hangið í langan tíma uppi á safninu. Málverkinu var víst hnuplað, að því mér var sagt, og held ég því miður að ekki sé einu sinni til af því almennileg litmynd (Þetta er ekki rétt sjá athugasemd hér að ofan). Ég man vel eftir myndinni á Þjóðminjasafninu í æsku minni og bakgrunnurinn á myndinni var grænn (svipað því sem ég hef reynt að endurgera hér á myndinni fyrir ofan).

Jörundur á Brújorgenbridge2

 

Jörundur á Ross brú í Tasmaníu

Svo telja sumir að konungurinn af Íslandi hafi verið höggvinn í ástralskan sandstein á brú einni mjög veglegri í Tasmaníu, sem kölluð er Ross Bridge, eftir bænum sem hún stendur við.

Lista- og sakamaðurinn Daniel Herbert hjó lágmyndir á brúna, sem lokið var við árið 1836, og mun Herbert hafa notað þekkt fólk og kunningja sem fyrirmyndir. Telja margir að maðurinn með kórónuna sé enginn annar en Jørgen Jørgensen, og ýkt kvenmynd við hlið konungsins er talin sýna Noruh Corbett, fyllibyttuna írsku sem Jørgensen kvæntist þarna andfætis landinu sem hann stýrði árið 1809. Ekki er það svo galin tilgáta. En ekki ætla ég mér að skera úr um hvort það er rétt, að lágmynd sé til af konungi Íslands í Tasmaníu. 

Lítið hefur þó verið vísað til myndarinnar á brúnni  í Tasmaníu á Íslandi. En fyrir nokkrum árum hló ég mig máttlausan þeg ég las viðtal við tvo íslenska kvikmyndagerðarmenn sem höfðu lagt leið sína til Ástralíu til að mynda fugla. Haft var eftir þeim að höfundur lágmyndanna á brúnni hafi væri Jörundur sjálfur, að brúin væri í Ros (sic) og að Jörundur hefði notað steinlím sem varð afgangs til að móta myndirnar. Limestone, (sandsteinn), varð þarna að steinlími hjá fuglaljósmyndurunum. Hér með leiðréttist það og bí bí og blaka.

Að lokum má nefna skopteikningu Jörundar sjálfs frá dansiballi í Reykjavík árið 1809, þar sem ein maddaman krækir hárkollu sinni í ljósakrónu, en menn telja sig sjá Jörund í salnum. En það eru víst líka eintómar getgátur. 

Jorgensen og Norah

Týnda kingan

  Kinga 3

Eitt af þeim orðum sem hljómuðu svo fornlega og seiðandi í doktorsritgerð Kristjáns heitins Eldjárns, Kumli og Haugfé í heiðnum sið á Íslandi, var orðið kinga. Ef maður leitar að orðinu kinga og ljósmyndum af kingum á Google, er svo sannarlega um auðugan garð að gresja, þar sem þetta er líka nafn á kvendýrlingi í Pólandi. Kingur nútímans í Pólland líkjast þó margar föllnum snótum, eða kannski er ég ekki með nógu pólskan smekk til að sjá þessa pólsku fegurð. Sjón er sögu ríkari.

Aftur að kingum Eldjárns. Hann lýsti í bók sinni Kuml og Haugfé fjórum forláta kingum sem fundist höfðu í fornu kumli á Granagiljum fyrir ofan Búland í Skaftártungum (Granagil eru kölluð svo eftir Grana Gunnarssyni sem Kári Sölmundarson drap). Á myndunum hér að ofan og neðan sjáið þið að kingur þessar eru kringlótt, steypt men með opnu verki, sem menn og konur hengdu við sörvi (steinahálsfesti) eða einhvers staðar á klæðnað sinn. Kingurnar frá Granagiljum eru um 2,5 sm í þvermál.

Kinga 2

Þið furðið ykkur kannski á því, að hér er aðeins að finna myndir af þremur kingum, en en ekki fjórum. Það er ekki vegna plássleysis. Í nýrri útgáfu Kumls og Haugfjár, þaðan sem myndirnar eru fengnar að láni, eru nefnilega aðeins hægt að finna ljósmyndir af þremur kingum, þótt textinn nefni fjórar. Og viti menn, þegar maður athugar í frumútgáfu Kumls og Haugfjár, þá eru þar vissulega sýndar fjórar kingur frá Granagiljum á blaðsíðu 323 (mynd 142, kingan í miðjunni).

Og hér kemur skýringin. Fyrir allmörgum árum, síðast á 9. áratug og fyrst á síðasta áratug síðustu aldar, áður en ég hóf störf á Þjóðminjasafni Íslands, skráði ég og ljósmyndaði valda hluta kumlfjár á Íslandi í tengslum við doktorsverkefni mitt. Einn daginn var ég kominn að kingunum. Sama hvað ég leitaði, þá fann ég ekki allar kingurnar frá Granagiljum. Mér var sagt að leita í skúffunum undir gömlu sýningarskápunum í Fornaldarsalnum svokallaða, en allt kom fyrir ekkert. Í aðfangabók voru kingurnar vissulega sagðar fjórar. Loks náði ég tali af Þór Magnússyni þjóðminjaverði, sem gat sagt mé, að ein kingan hefði verið send til Kanada á heimssýninguna ásamt öðrum gripum úr Þjóðminjasafni, en hún kom aldrei aftur til Íslands.

Kingan var send á heimssýninguna EXPO67 i Kanada og kom aldrei aftur til baka. Hún hvarf, eða kannski var henni stolið? Þór gat lítið skýrt fyrir mér, af hverju ekkert var fært af upplýsingum inn um þetta tap, t.d. í aðfangabók safnsins. Þór sagði það ekki venju að bæta við skráningu á gripum í handritaðri aðfangabók safnsins.

Kinga 1

Kannski hefur Þór Magnússon heldur ekki haft fyrir því að segja yfirritstjóra annarar útgáfu Kuml og Haugfjár, Adolfi Friðrikssyni, frá þessu tapi, því ekki er Adolf að furða sig á því að upphaflegi textinn, sem og textinn í 2. útgáfu, greini frá fjórum kingum frá Granagiljum, meðan að hann er aðeins með mynd af þremur kingum í nýrri útgáfu á doktorsritgerð Kristjáns forseta. Hann er líka með heldur lélegar pennateikningar af kingunum, þremur og ekki fjórum. Gripateikningarnar í 2. útgáfu Kuml og Haugfjár er reyndar mikill ljóður á útgáfunni, en það er önnur saga sem verður farið inn á síðar. 

Fleiri týndir gripir 

Ætli Þjóðminjasafnið sakni fleiri gripa en kingunnar frá Granagiljum? Ég tel mig vita að svo sé, en veit ekki hvort tekið er á því máli eins og eðlilegt mætti þykja. Vissuð þið að stytta úr safni Jóns Sigurðssonar hvarf eitt sinn eftir að hópur fólks af Keflavíkurflugvelli hafið fengið að heimsækja safnið á mánudegi, þegar safnið var annars lokað. Gömul kona, sem gætti herbergis Jóns Sigurðssonar, sór og sárt við lagði, að postulínsstyttan hefði horfið úr safninu þann dag (og hún var enginn Kanahatari). Hún og aðrar konur sem gættu gripa á safninu í mörg ár greindu mér frá þessu þegar ég var barn, líklegast hefur það verið um 1970, en styttan hvarf fyrr.

Gripir hafa einnig horfið skömmu eftir að þeir voru grafnir úr jörðu, því þeir hafa ekki fengið forvörslu. Þar hafa farið forgörðum upplýsingar sem hefðu verið miklu verðmætari fyrir áhugasama ferðamenn en tilgátuóskapnaðurinn sem menn dreymir um, og þeir byggja nú jafnvel í Skálholti

Ítarefni:

Kristján Eldjárn 1956. Kuml og Haugfé í heiðnum sið á Íslandi. Bókaútgáfan Norðri, Akureyri.

Kristján Eldjárn 2000. Kuml og Haugfé í heiðnum sið á Íslandi. 2. útgáfa. Ritstjóri Adolf Friðriksson. Fornleifastofnun Íslands, Mál og Menning, Þjóðminjasafn Íslands.


Ráðherrann veður í villu

Brynjólfskirkja og kofinn við hana

Katrín Jakobsdóttir veður í villu. Rústir Þorláksbúðar og margar aðrar minjar í Skálholti voru friðaðar árið 1927. Sú friðlýsing stendur, og eru fyllileg nægileg til að stöðva framkvæmdir við skúrinn sem verið er að reisa í Skálholti. 

Rutt var yfir friðlýsinguna frá 1927 af Kristínu Sigurðardóttur forstöðumanni Fornleifaverndar Ríkisins, sem gaf leyfi til að reisa hagsmunakofa ofan á friðuðum fornleifum. Það sem forstöðumaðurinn hefur gert er svo mikil vömm í starfi, að leysa ætti hana frá störfum. En það mun örugglega ekki gerast því  konur á Íslandi standa saman, sérstaklega þegar þær vaða í villu, sama hvaða flokkur hefur potað þeim í embættin. Í stað þessa að hlusta á rök fer Katrín með málið í hring, meðan lagabrjótarnir í Skálholti halda áfram að reisa kofann, með tilvitnun í Davíðssálma og vitranir frá Guði á himnum, svo næstum því má heyra Hallelújahrópin, þegar búðarsmiðirnir holnegla Þjóðminjalögin við undirleik Árna brekkusöngvara.

Árið 2009 var einmitt gerð rannsókn á Þorláksbúð og kom þá í ljós að rúst var undir yngstu Þorláksbúð og fornar grafir lengra undir.

Húsafriðunarnefnd hefur svo öðrum hnöppum að hneppa og treystir maður því að hún vinni vinnuna sína án fleiri gerræðislegra afskipta menntamálaráherrans gagnvart nefndinni. Stöðvun nefndarinnar á framkvæmdum við "Þorláksbúð" var algjörlega lögmæt.

Þetta mál er farið að minna mig á sumarbústaðinn sem gerræðisráðherrann Össur Skarphéðinsson fékk í gegn með hótunum, þannig að einhver fuglaskoðandi lyfsali gat reist bústað sinn fyrir vestan ofan í fornminjum og einnig í trássi við Náttúruverndarlög. En það var áður en Fornleifavernd var stofnuð og menn héldu að sú stofnun myndi vernda fornminjar. Össur gæti kannski sagt okkur frá málinu.

Sjálftökutímanum hélt maður að væri lokið, en svo virðist ekki vera.

20110330132202481

Stína lögbrjótur og Kata lagakrækja


mbl.is Þorláksbúð ekki óafturkræf framkvæmd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lausn á 3. getraun Fornleifs

Hæstikaupstaður lille

Sigurvegari 3. getraunar Fornleifs heitir Tumi Þór Jóhannsson og býr á Ísafirði. Hann þekkti greinilega heimaslóðirnar, því myndin sýnir Hæstakaupstað árið 1877. Þá var Tumi ekki fæddur og því var mér spurn, hvernig hann sá að þetta var á Ísafirði? Tumi svaraði, að það væru fjöllin, enda eru þau vel teiknuð. Jón Steinar hefði nú átt að þekkja þetta líka.

Myndin í þriðju gátu Fornleifs sýndi þá félaga Gerrit Verschuur (1840-1906) og J.C. Greive (1837-1891) frá Hollandi, sem komu til Íslands í maí 1877, eins og greint var frá í blöðum þess tíma. Þeir ferðuðust um landið í mánaðartíma. Myndin sem spurt var um sýnir þá á Ísafirði, kappklædda, líklega nokkrum klukkustundum áður en þeir stigu á skipsfjöl og sneru aftur til síns heima.

p_Verschuur
Gerrit Verschuur

Gerrit Verschuur  var þekktur ferðalangur, sem skrifaði m.a. frægar bækur um ferðir sínar til Asíu og Ástralíu.  J.C. Greive var þekktur listamaður sem sérhæfði sig í að teikna myndir við ferðalýsingar í myndríkum vikublöðum sem urðu algeng afþreying fyrir borgarstéttina í Evrópu um miðja 19. öldina. Ljósmyndin var dauði listamanna eins og Greive. 

Greive
J.C. Greive

Á myndinni, sem spurt var um, sjáum við þá félaga í Hæstakaupstað (Ísafirði) í júní 1877, en frá Ísafirði sigldu þeir til Bretlandseyja á leið heim til sín. Það er Gerrit Verschuur sem stendur með kúluhatt (stækkið myndina með því að klikka á hana) og talar við karl og konu í söðli, og J.C. Greive stendur og teiknar og vekur það verðskuldaða athygli einhverra karla.

Greive teiknar
J.C. Greive teiknar sjálfan sig?

Myndin bitist í 2. tölublaði hollenska vikuritsins EigenHaard árið 1870. Rit þetta kom út í borginni Haarlem á síðari hluta 19. aldar og var lesið víða í Hollandi og Belgíu. Gerrit Verschuur birti ferðalýsingu sína frá Íslandi með titlinum Ultima Thule, of Eene maand op Ijsland

Teikningar J.C. Greive höfðu verið sendar þeim félögum Joseph Burn-Smeeton og Auguste Tilly,   Breta og Frakka, sem ráku saman fyrirtæki sem vann málmstungur úr teikningum listamanna til nota í myndablöðum margra landa Evrópu.

Ýmsar skemmtilegar teikningar aðrar eru við Íslandslýsingu Verschuurs í nokkrum fyrstu heftunum af vikublaðinu EigenHaard árið 1878, t.d af torfbæ á Seyðisfirði með einkennilegt strýtulaga hornherbergi. Falleg mynd er frá Flateyri af lýsisbræðslu, mynd af konum í skautbúningi fyrir utan Dómkirkjuna í Reykjavík (sjá neðar) og af þeim félögum Verschuur og Greive úti í Engey svo eitthvað sé upp talið. Mynd af þeim félögum, þar sem þeir gistu í kirkjunni á Mosfelli í Mosfellsdal birtist fyrir allmörgum árum í Lesbók Morgunblaðsins. Karl faðir minn, sem átti þessar myndir, gaf eina þeirra, og líklega þá skemmtilegustu, Sigurjóni Sigurðssyni sem lengi var kaupmaður á Snorrabraut, og skrifaði Sigurjón heitinn smá grein um Mosfell og myndina sem má lesa hér.  Ég birti kannski síðar einhverjar af öðrum myndum Greive frá Íslandi.

Greive Dómkirkjan 2
Við tröppur Dómkirkjunnar í Reykjavík áður en kirkjan var tekin í gegn og lagfærð árið 1878.

3. getraun Fornleifs

Getraun 3
 

Fornleif langar nú að sjá hve fljótir fornaldardýrkendur þeir sem venja komur sínar hingað í forneskjuna geta verið að sjá:

1) hvaða stað myndin sýnir?

2) hvenær ristan var gerð og hvar hún birtist?

Ósköp einfalt. Hér að neðan er smá brot úr myndinni. Kannski gefur það einhverjum lausn á ráðgátunni.

Brot 

Monstrum Medievalis

Horror Medievalis

Ekki var fyrr stöðvað ruglið með ólöglega torflistaverkið norðaustan við kór Skálholtsdómkirkju, en að annar miðaldahroði hefur sig á loft með miklum drunum, svo halda mætti að 1. apríl væri runninn í garð.

Icelandair og eitthvað dularfullt crew í samfloti við þá eru komnir á miðaldaruglubull. Þeir hafa líklega lesið of mikið eftir Dan Brown þegar þeir biðu of lengi í Leifsstöð. Það er vitaskuld rétt athugað hjá Icelandair, að ferðamenn erlendis sæki mjög í dómkirkjur miðalda. En þær eru frá miðöldum.

Það ferlíki sem menn vilja nú fara að reisa í Skálholti á hins vegar ekkert skylt við miðaldir. Þessi misskilningur byggir á teikningum sem skapaðar voru af teiknikennaranum og þjóðernisrómantíkernum Herði Ágústssyni, sem  ekki  var menntaður í miðaldafræðum. Hann skapaði t.d. „Þjóðveldisbæinn", sem á ekkert skylt við rústirnar á Stöng, sem hann byggði hugsýn sína á. Í Þjóðveldisbænum eru steinsteyptir veggir og plastdúkur í þekju.

Oftúlkun á hleðslum sem skráðar voru við fornleifarannsóknir í Skálholti leiddi suma til að álykta að dómkirkjan hefði þar verið stærst um 50 metrar að lengd. Sú túlkun er óskhyggja ein. Þar að auki hefur teiknari Icelandair, sem ég tel mig vita hver sé,  gert vont verra. Engin miðaldakirkja lítur út eins og þetta ljóta flugvélaskýli með kjallara og með samfelldum steindum gluggum efst undir þaki háskipsins. Eru prestar á Íslandi svo sögulausir og vitlausir að þeir kaupi þetta rugl? Hafa þeir ekki skoðað miðaldakirkjur á ferðum sínum erlendis?

Þessi horror slær tollbúð Árna Johnsen alveg út! Svona verkefni eru auðvitað hugarórar frá því fyrir hrun. Þá urðu Icelandair og arkitektinn þeirra hái nefnilega of seinir að komast í loftpeninga í vösum gjafmildra útrásarvíkinga, en núna er víst komnir peningar í kassann hjá Icelandair, og vilja menn greinilega að kirkjan greiði restina sem aflátspeninga.

En mest af öllu eru svona brjálaðar hugmyndir birtingarmynd þess að sumt fólk á Íslandi vill ekki sætta sig við látlausa sögu lands síns, þar sem mannanna verk lifðu ekki í þúsund ár, þótt andans verk væru sterk. Íslendingar, sem skammast sín fyrir sögu sína, stunda sögufölsun eins og þá sem Icelandair og ónafngreindir aðilar vilja nú hella sér út í.

Ég hvet Icelandair til þess að styrkja heldur fornleifarannsóknir í stað þess að borga fyrir Disneykirkju í Skálholti.


Ekki er öll vitleysan eins

Þorláksbúð
 

Þorláksbúð hin nýja er ekki þau stóru verðmæti sem Árni Johnsen þingmaður heldur fram að hún sé. Kannski eru þetta verðmæti á nútímamælikvarða, en menningarleg verðmæti verður endurreisn Þorláksbúðar aldrei, meðan hún er reist á fornminjum, sem ekki hafa verið rannsakaðar að fullu. Framgangsmátinn við gerð Þorláksbúðar og undirbúningur fyrir hana eru afar ljót dæmi um íslenska stjórnarhætti og frekju þingmannapotara sem þurfa að líða undir lok, ef íslenska þjóðin á að eiga sér einhverja von.

Það er mikið fagnaðarefni, að Húsafriðunarnefnd Ríkisins hefur nú stöðvað byggingu "21. aldar fornleifa" við 20. aldar byggingar í Skálholti. 

Það er að sama skapi grátbroslegt að þurfa að vera vitni að því, að hin frekar klunnalega, íslenska steinsteypubyggingarlist 20. aldar, sem venst með tímanum, varni því að tómt rugl eins og að Þorláksbúð hin nýja verði byggð ofan á friðuðum fornminjum.

Rúst svonefndrar Þorláksbúðar var friðuð árið 1927. Árið 2009 var hún rannsökuð af starfsmönnum Fornleifastofnunar Íslands hf  vegna fyrirhugaðra áforma um endurreisn Þorláksbúðar. Niðurstaða þeirra rannsóknar hefur hvorki verið aðgengileg á heimasíðu Fornleifastofnunar Íslands hf né á vefsíðu Fornleifaverndar Ríkisins. Ekki hefur tekist að finna röksemdir Fornleifaverndar Ríkisins fyrir því að rannsóknin árið 2009 gæfi kost á því að reistar yrðu eftirlíkingar fornleifa ofan á raunverulegum fornleifum.

Við rannsóknina árið 2009 kom í ljós, að rústin hafði, eins og menn töldu sig vita, verið "rannsökuð" að hluta til árið 1954, er fornleifarannsóknir fóru fram í Skálholti undir stjórn Norðmannsins Haakons Christies. Við fornleifarannsóknina árið 2009 kom í ljós að þarna voru eldri byggingarskeið undir yngstu rústinni og sömuleiðis fornar grafir. Fornleifafræðilega var rannsóknin árið 2009 ekki sérstaklega merkileg, þar sem grafinn var langskurður eftir í rústinni endilangri í stað þess gera þversnið, sem þætti eðlilegra aðferðafræðilega séð.  

Þrátt fyrir niðurstöður rannsóknar Mjallar Snæsdóttur hjá Fornleifastofnun Íslands, ákvað Fornleifavernd Ríkisins, sem á að fylgja lögum, að gefa leyfi til þess að hlaða veggi fyrir endurgerð nútímabyggingar beint ofan á friðaðar rústir. Það er ekkert annað en lögbrot !

Er forstöðukona Fornleifaverndar Ríkisins, Kristín H. Sigurðardóttir undir hæl dellugjarnra stjórnmálamanna og héraðshöfðingja í einhverri leikmyndagerð, eða telur hún bara að lög um fornleifar beri að túlka eftir geðþótta sínum, þegar hún ákveður á skjön við lög og reglur að leyfa byggingu gervifornleifa ofan á ekta fornleifum? 

Ef Kristín Huld Sigurðardóttir hefði unnið eðlilega að leyfisveitingunni, hefði þetta mál aldrei þurft að fara eins langt og það er nú komið í eintómum skrípaleik. Ef hún hefði unnið vinnuna sína hefði ekki þurft að nota "listrænt gildi" Skálholtskirkju hinnar steinsteyptu til að bjarga því að alvarlegt menningarsögulegt slys ætti sér stað.

Fornleifavernd Ríkisins ber mikla sök í þessu máli og skil ég vel að starfsmaður sem ég talaði við þar á bæ eftir hádegi í dag (9. nóvember 2011) hafi ekki viljað tjá sig og hafi bent á yfirmann sinn Kristínu H. Sigurðardóttur, sem er vitanlega hin eiginlega ljósmóðir andvana barns Árna Johnsens og félaga ofan á friðuðum fornleifum í Skálholti.

Húsafriðunarnefnd á allar þakkir skyldar fyrir að stöðva tragíkómískan skrípaleik byggingameistarans Árna Johnsens, sem er hvorki menningarlegur né verðmætaskapandi.  

Ítarefni: 

Mjöll Snæsdóttir 2009: Könnunarskurðir í svonefnda Þorláksbúð í Skálholti.Skýrsla Fornleifastofnunar Íslands FS435-09041.

Skýrsluna yfir rannsóknina árið 2009, sem gerð var fyrir Félag til endurreisnar Þorláksbúðar, með leyfi Fornleifaverndar Ríkisins, Fvr 2009070023/KHS, er hægt að fá senda í tölvupósti með því að hafa samband við Fornleifastofnun Íslands og biðja um hana.

Ljósmyndin efst er úr skýrslunni sem Fornleifastofnun Íslands gerði. Varist að rugla saman Fornleifavernd Ríkisins og Fornleifastofnun Íslands. Síðastnefnda "stofnunin" er fyrirtæki sem ungað var út með hjálp ákveðins enntamálaráðherra og stundum mætti halda að "stofnunin" haldi að hún sé ríkisapparat. Ekki hefur samband Fornleifaverndar Ríkisins og Fornleifastofnunar Íslands verið sérlega friðsamlegt, en það er svo önnur saga.

Sjá einnig fyrir færslu á Fornleifi: http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1193274/


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband