Færsluflokkur: Gamlar myndir og fróðleikur

Braggadrengirnir og Halli-stæl

Iðnskólinn Braggar 2

Árið 1957 kom ónafngreindur Hollendingur, fljúgandi alla leið til Íslands. Hann var liðtækur ljósmyndari, líklega fagmaður. Bölvanlegt að vita engin deili á honum. Hér er mynd sem hann tók á Skólavörðuholtinu. Iðnskólinn hafði verið reistur, en braggar voru enn á holtinu. Í þeim bjó fátækt fólk, og nú voru útlendingar meira að segja farnir að hafa áhuga á þeim.

Tveir strákanna á myndinni eru enn í fótbolta, í strigaskóm og gallabuxum, alveg eins og væru þeir klipptir út úr mynd frá yfirgefnum kolabæ í Bandaríkjunum. Hinir eru í pásu að skoða leikara,að tyggja tyggjó og stæla um hvort þeir séu indíánar eða kábojar. Kannski bjuggu þeir í bröggunum, eða í nágrenninu?

Þjóðviljinn kallaði fólk sem þarna bjó "þetta fólk" árið 1946, þegar fyrst kom til tals að flytja íbúana í aðra bragga í Fossvogi til að reisa minningarkirkjuna um Hallgrím gyðingahatara. Samkvæmt öðlingnum "Bæjargesti", sem skrifaði Bæjarpósti Þjóðviljans línu, því merka alþýðuvinablaði, þá "forpestaði" fólkið í bröggunum andrúmsloftið í Reykjavík með útikömrum. Árið 1957 var "þetta fólk" greinilega enn þarna, góðvinum öreiganna á Þjóðviljanum til lítillar gleði.

Jónasistar í Framsóknarflokknum voru hins vegar fremri Þjóðviljamönnum í hatri sínu á bröggum og fólkinu sem í þeim þurfti að húka. Forfeður fátæklinganna hafði verið barðir í sveitum landsins og nú átti "þetta fólk" ekki að vera fyrir kirkju heilags Hallgríms gyðingahatara. Braggar fóru alla tíð mjög í taugarnar á þeim sem voru svo vel í álnum að þeir þurftu ekki að búa í þeim sjálfir.

Halli StyleAllt í einu stekkur einhver spjátrungur í nýjustu, ammrísku rokktískunni inn í myndina. Við skulum kalla hann Halla. Hann hafði greinilega stúderað myndir með James Dean og Elvis. Hann er í hvítum sokkum, mokkasínum, vel straujuðum sjínóbuxum og college-jakka, líkt og hann hafði labbað inn í settið við skólavörðuna, beint frá Sunset Búlevard með smástoppi í Vinnufatabúðinni.

Ísland var á góðri leið með að verða 51. ríki Bandaríkjanna. Halli hafði greinilega uppgötvað að útlendingur var að taka af honum myndir þar sem hann var að leika sér við yngri drengi. Það mátti Halli ekki.

Ef einhver kannast við söfnuðinn þarna við klappirnar efst á holtinu, þætti ritstjórn Fornleifs kært að fá upplýsingar. Ef Halli er á lífi, er hann kominn vel yfir áttrætt. Þetta eru næstum því fornleifar.

Eitthvað held ég þessi braggar myndu kosta í endurgerð í dag, en þarna hefði ef til vill verið tilvalið að hafa Hallgrímsbar. 700 milljónir, án samninga á Dags gengi.


Á Hudson fljóti, eða ...

Untitled-TrueColor-05

Ljósmynd þessi virðist í fljótu bragði sýna verksmiðjur í forljótu iðnaðarhverfi við Hudson fljótið í New York á fallegum sumardegi. Flotaforingi í bandarísku strandgæslunni siglir framhjá með háttsettum borgarstarfsmanni á Manhattan, eða kannski mafíuforingja. Leyfisveiting fyrir neðansjávarkirkjugarði er kannski í bígerð.

En skoðið myndina betur. Húsin eru við enda eyju, þar sem forfaðir minn einn bjó, og skálinn til vinstri er löngu horfinn, og þar var önnur bygging í tóttinni til skamms tíma, sem var einnig algjörlega horfin síðast þegar ég sigldi þarna hjá. Í húsinu til hægri á myndinni er enn veitt Marshall-hjálp. Reyndar í fljótandi formi.

Myndin var tekin árið 1957 af hollenskum ljósmyndara, líklega Hollendingnum fljúgandi.

Ég held að það sé fokinn einhver Jónas-K í mig; Textinn er orðinn svo stuttur, hálfgert rapp.

Manhattan 2


Pakkamyndir fortíðar 1. hluti

IMG_0006 b

Í dag ferðast fólk um heiminn sem aldrei fyrr, eins og það hafi étið óðs manns skít. Mengunin sem því fylgir er gríðarleg. Þeir sem ferðast einna mest syngja í helgikórnum Heimsendi, sem einatt kyrjar söngva um heimshitnun og náttúruhamfarir af mannsins völdum, en sem allir aðrir en þeir sjálfir eiga sök á. "Er að fara til Víetnam á morgun - nenni ekki að ansaessu rugli", svo dæmi sé tekið um svör við ásökunum um aðild að heimshitnun.

Dóttir ritstjóra Fornleifs, sem stundar nám á þriðja ári í sálfræði, sem er tilvalin grein þegar maður á föður eins og hún, hefur þegar verið í Víetnam og kennt þar unglingum sem vart voru eldri en hún sjálf. Ekki langar mig þangað í mergð af mýflugum og illfygli, en kannski pínu-ponsu. En dóttir mín er vitaskuld mjög meðvituð um mengun og hamfarir að völdum minnar og eldri kynslóða. Við vorum algjör svín að hennar mati, þó við eigum enga hlutdeild í glæpum verstu græðgiskynslóðar allra tíma - hinni baneitruðu 68-kynslóð. Það var bansettur ruslalýður.

Sú var tíðin að almenningur þurfti að lesa sér til um suðræn lönd og komust menn aðeins þannig til fjarlægra stranda. Einnig gátu menn gerst sjómenn eða trúboðar til að finna fjarlægar og framandi þjóðir. Aðrir, eins og margir frönskumælandi menn og Hollendingar, létu sér nægja að dreyma um pálmalundi eða spúandi eldfjöll með því að kaupa sér kakó eða súkkulaðipakka. Í pökkum með ýmsu nautnaefni og annarri vöru fylgdu einatt pakkamerki með ýmsum fróðleik. 

Fornleifssafn hefur í nokkur ár sankað að sér súkkulaðikortum og pakkamerkjum, sem og öðrum kortum sem fylgdu ýmsum vörum þar sem draumamyndum var stungið í pakkann. T.d. voru slík kort mjög algeng með súpukrafti í nokkrum löndum Vestur-Evrópu fyrir rúmlega 100 árum síðan.  Það eru fyrst og fremst myndir sem varða Ísland sem Fornleifur eltir uppi á forn og skransölum. Flest þessara korta hafa með tímanum farið forgörðum og einstaka eru afar sjaldséð. Allir sem komnir eru á aldur muna eftir "leikurunum" sem krakkar söfnuðu. Fótboltakortin í dag eru líklega angi af þeirri menningu. En það er ekkert barnalegt við það að láta sig dreyma í stað þess að hrifsa, taka og ræna, eins og svo margt gengur út á í dag.

Mórallinn með fræðslu og skemmtikortum í pakkavöru var að upplýsa almenning, sem hafði ráð á súkkulaðimolum eða vöru sem var stungið mynd. Þeir sem ekki höfðu það og þar sem sígarettur voru keyptar í stað þess að fá kolvetni fyrir heilann, gátu líka fundið miða, fána og og fróðleik um lönd í tóbakspökkum. Nú eru tímarnir breyttir og myndin er af illkynjuðu krabbameini. Allur þessi áróður í nautnavöru bar að lokum árangur. Kirkjan tók meira að segja upp á því að gefa myndir. Sumir prestar tóku of mikið fyrir eins og nú er orðið kunnugt.

Í dag ferðumst við eins og zombíar, hvert á land sem er, án þess að hugsa nokkuð út í afleiðingarnar en brjálumst þegar eldgos, þ.e. algjörlega náttúruleg mengun, uppi á Íslandi stöðvar þessa sjúklegu ferðaáráttu okkar.

Svo að efninu

Eftir þennan langa formálsvafning, sem að lokum mun líklega eyða ósónlaginu, mun Fornleifur í dag og á næstunni opna nokkra forna súkkulaðipakka og borða innihaldið með góðu kaffi og halda nokkrar sýningar á Íslandskortum sínum úr kaffi-, súkkulaði-, sígarettupökkum og skókössum - svo eitthvað sé nefnt.

Sumir safna hringum af vindlum, (vindlamerkjum) og eitt sinn sá ég dágott safn af vindlamerkjum með íslenskum þemum.  Það er örugglega hægt að komast á flug með þeim líka. Ég vonast til að geta sett safnið mitt smátt og smátt til sýnis hér á blogginu, áður en flæðir yfir danska láglendið vegna hitnunarinnar af allri ferðamennsku nútímans.

IMG_0003 b


Í dag skal byrjað í Frakklandi, sem vafalaust var Mekka pakkamerkjanna. Þar í landi gleymdu menn svo sannarlega ekki Íslandi - frekar en flestum öðrum þjóðum. Frakkar kunnu eitt sinn að láta sig dreyma. Nú hafa þeir orðið allt til alls, óánægja innflytjendur, nærri fullkomna bíla en sumir hanga þó enn í sér eldri konum. Það er vitaskuld líka áhugaverður forngripaáhugi, en verður seint að söfnunaráráttu.

Nýlega eignaðist Fornleifur tvö súkkulaðikort frá verðlaunaðri súkkulaðiverslun, Guérin-Bouteron sem eitt sinn um aldamótin 1900 lá á Boulevard Poissonniere (Fisksalabreiðstræti) nr. 29 í París og sem framleiddi gæðasúkkulaði í eigin verksmiðju á Rue du Maroc númer 23 og 25.  Verðlaunaðir á öllum sýningum, að eigin sögn, og með súkkulaði í hágæðaflokki. Þetta var tilkynnt kaupandanum aftan á kortum sem voru af ýmsum gerðum og sýndu myndir frá mismunandi löndum heims en einnig kyndir með öðru efni en landafræði fyrir alþýðuna. 

Fyrirtækið Courbe-Rouzet í Dole í Júrafjöllum og í París á Rue d´Haueville prentuðu myndirnar fyrir fyrrgreinda súkkulaðiverslun á Boulevard Possonnierre sem og margar aðrar verslanir.

Efst sjáið þið kort sem sýnir smalastúlku gæta lamba, meðan að Hekla lætur aðeins á sér kræla.

Flest litprentskortin frá þessum tíma, um og rétt eftir aldamótin 1900, voru notuð af fjölda verslana. Auglýsingin á bakhliðinni gat verið mismunandi. Til að mynda á Fornleifssafn kortið með smalastúlkunni við Heklu með auglýsingu fyrir framleiðanda skótaus "fyrir ríka sem fátæka" og íþróttaskæðis, Huet, á Rue de Rivoli og Rue de Roule í Paris.

IMG_0011 b

Kortið hér fyrir neðan sýnir tvo ferðalanga með íslenskum leiðsögumanni, dást að himinmigunni í Haukadal sem nú er vart lengur hægt að skoða fyrir útgeldingum sem ferðast um heiminn eins og heimsendir sé í nánd. IMG_0002 b

Kortin tvö eru 6,3 x 10,5 sm stór. Fáið ykkur nú suðusúkkulaði og njótið nægjuseminnar fyrir rúmum 100 árum síðan. Þið fáið aldrei svona kort í Costco. Aðeins á Fornleifi.

  • chokoblog_fornleifur_thumb_1296161Leyfi mér að lokum að minna lesendur á plakatið með Súkkulaði-Siggu, sem er mynd af korti sem stungið var í súkkulaðipakka í Frakklandi. Plakatið er enn fáanlegt (sjá hér). 

Myndarlegir menn - töffarar fyrir sinn tíma

Þorvaldur og Vilhelm Copyright Kaldal--Fornleifur

Um þessa menn hef ég skrifað áður hér á blogginu og bendi fólki á að lesa það (sjá hér). Afi minn, Vilhelm [Árni Ingimar] Kristinsson, er þarna á myndinni. Hann er ungi maðurinn til hægri. Hávaxnari vinur hans og félagi til sjós hét Þorvaldur Ögmundsson. Hann tók út af skipi við austurströnd Bandaríkjanna og drukknaði fáeinum árum eftir að myndin var tekin.

Þrátt fyrir að ég hafi skrifað um myndina sem þjóðminjasafnið á og sent safninu upplýsingar um hana árið 2016, hafa menn það enn ekki fært upplýsingar mínar inn í skráningarkerfið á sarpur.is. Þar er enn lítið að finna um upplýsingar um myndina.

Ég fékk eiginlega helst á tilfinninguna að safnið tryði ekki upplýsingum mínum um að afi minn væri á myndinni; vegna þess að hún var tekin í Flensborgarskóla, þar sem afi minn stundaði ekki nám eins og ég upplýsti safnið skilmerkileg um. Hins vegar var skólameistarinn í Flensborg faðir Þorvalds vinar afa. Þorvaldur trassaði óskir föður síns, Ögmundar Sigurðssonar, um að hann færi menntaveginn. Þorvaldur fór í staðinn á sjóinn, sem var sá vegur sem hélt lífi í íslensku þjóðinni, sem ekki voru óðalsbændur.

Hann nýtti sér þann möguleika að fá teknar myndir af sér ásamt vini sínum þegar Kaldal kom og tók ljósmyndir af nemendum Flensborgarskóla, þar sem hvorugur þeirra stundaði nám. Vonandi skilur Þjóðminjasafnið þetta. Afi var eins og svo margir aðrir einfaldlega of fátækur til að geta lagt stund á nám, þó hann hefði gjarnan viljað það. Slíkt skilur sjálftökufólkið ekki í dag.

Þorvaldur og Vilhelm 2 Copyright Kaldal--Fornleifur

Síðastliðið haust, þegar ég leit eina kvöldstund í fjölmörg myndaalbúm móður minnar rakst ég á tvær aðrar myndir frá sömu upptökunni af Vilhelm afa og Þorvaldi í Flensborgarskóla, þar sem afi minn stundaði reyndar ekki nám, en þar sem myndin var nú samt tekin. Ég ljósmyndaði myndirnar sem móðir mín varðveitir. Myndir Þjóðminjasafnsins getið þið séð hér og hér.

Þjóðminjasafninu er því nú orðið alveg óhætt að bæta við og vitna í upplýsingar á Fornleifi á Sarpi og nefna afa minn, en ekki aðeins skrifa um skólastjórasoninn í Flensborgarskóla sem Jón Kaldal tók mynd af - með afa mínum. Afi minn var sonur verkamanns sem bar kolasekki við Reykjavíkurhöfn og varð loks undir einum slíkum sem féll niður á hann úr miklum stakki sem hrundi. Hann hálsbrotnaði. Enn er ekki finna nafn afa míns á Sarpi við þessa mynd, tveimur árum eftir að Þjóðminjasafnið fékk þær upplýsingar að hann væri á henni. Kannski hafa menn þar á bæ ekki áhuga á öðrum en heldri manna piltum? Ég tel það reyndar öruggt.

Ég geri mér vitaskuld grein fyrir því að það vinnur orðið svo fátt, sérmenntað starfsfólk á Þjóðminjasafninu. Þar vinna flestir nú orðið við einhvern krambúðarkassa, við gæslu, í fatahengi og kaffistofu (sjá hér), meðan að yfirmaðurinn gerir sér enn drauma um að verða prófessor án þess að hafa nokkuð fyrir því, annað en að vinna fyrir hið pólitíska viðundur Sigmund Davíð sem og í ígripavinnu við að reka fólk á öðrum stofnunum. Myndir segja svo margt (sjá hér), en þegar ljósmyndadeild Þjóðminjasafns Íslands er fyrirmunað að skrá upplýsingar um myndir sínar, þegar enn er til fólk sem getur sagt söguna, þá er illt í efni. Reyndar á þetta líka við um aðra muni en ljósmyndir. Þjóðminjasafnið er sannast sagna ekki orðið annað en frekar þreyttar sýningar sem engum breytingum taka og sem veita fjöldann allan af röngum upplýsingum.

Mig langar til gamans að upplýsa, að afi minn var með Þorvaldi á nokkru vertíðum á bátum og togurum frá Siglufirði. Afi þótti listakokkur og sinnti því starfi lengst af þegar hann var sjónum. Hann kom oft til Akureyrar, því honum þótti gott að fara á ball og á kaffihús. Gefinn var hann fyrir kökur, karlinn.


Fríða Sveins, þröstur minn góður!, það var stúlkan hans Xaviers

BR 3

MalfridurÞessi franska litógrafía er varðveitt í geymslum Fornleifssafns sem er aðeins opið almenningi á Fornleifsbloggi, þegar Fornleifaverði hentar. Myndin er einstaklega áhugaverð. Líklegast hefði einhver Íslendingur mótmælt henni, ef hún hefði komið fyrir sjónir þeirra.  Af einhverjum ástæðum sem ekki koma fram í textanum hafa höfundarnir valið að setja Ísland með í kaflann um Svíþjóð sem han kallaði Suede, Islande et Laponie: Costumes et usage populaires.

Íslenska konan á myndinni  hefur lent í bás með frumbyggjum og fólki sem á 19. öld var stundum talið frumstæðra en aðrir Evrópumenn, þegar lærðir menn fóru að draga menn í dilka á síðari hluta aldarinnar út frá líkamsbyggingu og höfuðlagi og jafnvel neflagi.  Myndin er úr heftaröð um búninga og siði manna í Evrópu  sem gefið var út í  París á tímabilinu 1877 - 1888 . Verk þetta var eftir M. A.  Racinet og birtist þessi mynd í 6. hefti ritraðarinnar,  sem bar heitið  "Le Costume historiqueLe costume historique : cinq cents planches, trois cents en couleurs, or et argent, deux cent en camaieu, types principaux du vêtement et de la parure, rapprochés de ceux de l´intérieur de l´habitation dans tous les temps et chez tous les peuples.... VI. Planches et notices 401 à 500  .  etc. etc.

Málfríður Sveinsdóttir hét fyrirsætan

Malfridur hans XaviersSteinprent eftir teikningu Auguste Mayers

Hið undurfagra fljóð á myndinni efst, lengst til hægri, er vitaskuld unnin á grundvelli teikningar Auguste Mayers, samferðamanns Paul Gaimards á Ísland, af prúðbúinni konu með spaðafald. Konan á myndin er Máfríður Sveinsdóttir í Reykjavík, sem fæddist árið 1815. Hún var jafnan kölluð Fríða Sveins. Fríða var dóttir Sveins Ólafssonar á Arnarhóli. Hún sleit barnsskónum í mikilli fátækt í Arnarhólsbænum. Kotið var rifið árið 1828. Fríða var framreiðslustúlka á klúbbnum þegar Gaimards-leiðangurinn var í Reykjavík og virðist svo sem þeim Frökkunum hafi litist nokkuð vel á hana.

Ekki veit ég hvort Fríða hafi verið sleip í frönsku, en það hindraði ekki náin kynni hennar við einn Fransmanninn. 26 ára franskur stúdent, Xavier Marmier að nafni, sem með var í föruneyti Gaimards, eignaðist barn með Fríðu. Ávöxtur þess sambands kom í heiminn árið 1837 og var það drengur sem kallaður var Sveinn Xavier. — Þegar Sveinn Ólafsson, faðir Fríðu, varð að flytja frá Arnarhóli, reisti hann sér bæ, er hann kallaði Þingvöll, þar sem nú er Skólastræti.

Afdrif Fríðu voru þau að hún fluttist til Danmerkur, þar sem hún giftist skósmið. Fornleifur hefur grafið það upp að hann hét Peter Adolph Jensen (f. 1818). Hann er skráður árið 1845 sem skomagersvend til heimilis að Ny Kongensgade 233, sem er Ny Kongensgade númer 7 í dag. Jensen deyr og giftist þá Málfríður aftur árið 1853, þá 38 ára gömul, Carl Johan Fagerstrøm skósmið sem var 31 árs. Líklegast er hægt að finna meira um örlög Málfríðar, en til þess hef ég ekki tíma eins og er.

Ny-Kongensgade-7-5

Í þessu húsi, á jarðhæð, bjó Málfríður með fyrri dönskum manni sínum, Peter Adolph Jensen.

Pétur Pétursson þulur taldi að sonur Málfríðar, Sveinn Xavier, hafi ekki orðið gamall. Um Xavier Marmier, stúdentinn sem elskaði Fríðu, hefur Elín Pálmadóttir síðan skrifað frábæra grein um í Morgunblaðið árið 1993 og um ástarævintýri Marmiers (þau voru fleiri en eitt) unga  í Reykjavík, sem ég hvet menn til að lesa (sjá hér) Þar fór Elín Pálma á flug með hjálp hjónanna Giselle Jonsson og Sigurðar Jónssonar. Í greininni kemur fram hvaða litir hafa verið í búningi þeim sem ungfrú Málfríður var í þegar hún var teiknuð í Reykjavík. Malfríður var Belle de Reykjavík, aðalskvísan í bænum.

Marmier var sæmilega frægt skáld, rithöfundur og prófessor í Rennes. Hann var sömuleiðis meðlimur í Académie française. Jónas Hallgrímsson gerði lítið úr Xavier í skrifum sínum líkt og kemur fram í grein Elínar. Blái frakkinn og gullknapparnir hans Jónasar hafa væntanlega ekki gengið eins í augun á Fríðu, eins og ekta Fransmaður sem hvíslaði hlý orð af ástríðu í eyru ungmeyja í Reykjavík. 

Marmier,_Xavier,_par_Truchelut,_BNF_Gallica

Maðurinn sem elskaði Fríðu Sveins í Reykjavík - um stund - en einnig margar aðrar meyjar. Xavier Marmier (1788-1892) var það sem í dag kallast einarður raðflagari. Hann hætti fyrst þeirri iðju sinni frekar seint á ævinni, eða er hann missti son sinn og eiginkonu með stuttu millibili.

Kannski var hún Fríða Sveins sett á myndina efst með fjarskyldum ættingjum sínum, Sömunum, af hreinni tilviljun. Til dæmis er menn uppgötvuðu á síðustu stundu fyrir útgáfu, að þeir væru búnir að gleyma Íslandi. En ástæðan gæti þó verið önnur. Nokkrir ferðalangar sem til Íslands komu líktu litarhafti Íslendinga við litarhaft Sama. Þóttu sumum ferðalöngum báðar þjóðirnar eitthvað grámyglulegar og líkar í fasi. Sólarleysi gæti verið skýringin, en einnig erfðir. Þær hafa hafa leikið suma Íslendinga grátt, en Málfríður gerði sitt besta til að bæta úr. Já kvennasagan er mjög vanrækt grein.


Síðustu hreindýrin á Suðvesturlandi

Auguste Mayer 1838 c
Man einhver lesenda Fornleifs eftir því að hafa heyrt ættingja sína segja frá hreindýrum þeim sem kúrðu á Hengilssvæðinu fram til 1930? Kannski vill svo vel til að
einhver eigi í fórum sínum ljósmyndir af síðustu dýrunum, eða t.d. málverk.

Síðast hreindýrið Suðvestanlands var fangað skömmu fyrir 1930 á Bolavöllum sunnan við Húsmúlarétt, nærri Kolviðarhól.

Myndin, steinprentið, hér af ofan af hreindýrum sem urðu á leið leiðangursmanna Gaimards milli Reykjavíkur og Þingvalla er að finna í stór verki Paul Gaimards um Ísland frá 1838. Ég man ekki eftir því að nokkur hafi notað þessa mynd í bækur eða greinar um íslensk hreindýr. En þarna eru þau nú blessuð, svört á hvítu.

Hvar eru hreindýrin nákvæmlega stödd á myndinni í verki Gaimards? Kannast einhver við kennileiti á steinprenti Jolys og Bayots eftir teikningu meistara Auguste Mayers?


Ísland til sýnis í Tívolí árið 1905

DNT-119096 2
Myndin hér að ofan ekki frá alþjóðaþingi baráttukvenna árið 1905. Hún er frá sýningu í Tívoli sumarið 1905 og snemma hausts það ár, sýningu sem fór fyrir brjóstið á sumum Íslendingum sem kölluðu hana skrælingjasýninguna.

Á sýningunni var ætlunin að sýna skemmtanaglöðum Dönum hvað var að gerast í nýlendum þeirra, sem og í Færeyjum og á Íslandi. Fullt nafn sýningarinnar var Dansk Koloniudstilling samt Udstilling fra Færøerne og Island.

DNT-119096


Þó svo að sumir Íslendingar hafi á síðari árum verið að halda því fram á heimavettvangi sem og erlendis, en vegna algjörrar vanþekkingar eða vegna misskilning, að litið hafi verið á Ísland sem nýlendu (koloni) á þeim tíma sem sýningin var haldin, þá fer því víðs fjarri. Einnig hafa einstaka furðufuglar í stétt danskra sagnfræðinga, þ.m.t. Bo Lideggaard sem keppist við að skrifa sögu Danmörku að smekk og aðallega smekkleysu ákveðins flokks í Danmörku, verið að halda því fram að Grænland hefði aldrei verið nýlenda. Það er álíka mikil fjarstæða. Þetta eru skilningsslys, sem sýna vanþekkingu á sögu landanna og jafnvel erfiðleika við lestur.

DNT-120272
Sýningin í Tívolí var ekkert freakshow, og það að setja Íslendinga og "kóloníurnar" saman var ekki gert með illum ásetningi. Það var fyrst og fremst viðleitni til menningarauka í skemmtigarðinum. En sýningin, og sér í lagið spyrðing Íslands við nýlendur fór fyrir brjóstið á mörgum og kallaði félagsskapur ungra Íslendinga í Kaupmannahöfn sýninguna eins og fyrr segir. Skrælingjasýninguna. 

Sá titill kom nú helst til af af fordómum Íslendinga, sem litu með fordómafullum augum samtímans á Grænlendinga sem undirmálsfólk eða og  vildu ekki vera undir sama þaki og þeir og negrar afkomendur þræla í Vestur-Indíaeyjum Dana. Íslendingar voru vitaskuld betri, að eigin sögn, og þeir meintu það.

Sýningin varð til að frumkvæði hinar margfrægu konu Emmu Gad sem lét margt til sín taka.  Hún reyndi að komast til móts við óskir Íslendinga fyrir þessa sýningu,  þegar hún sá að Íslendingar í Kaupmannahöfn móðguðust, og t.d. fengu Íslendingar að lokum sérskála vegna "sérstöðu" sinnar og nafn sýningarinnar sýnir ljóslega vandann við að setja Íslendinga með Grænlendingum og negrum á sýningu.  Slíkt gerir maður bara ekki, án þess að móðga hreinustu og bestu þjóð í heimi.

Myndin efst sýnir íslenska konu í peysufötum á sýningunni, ásamt færeyskri konu. Með þeim er frú Jensen, sem upphaflega var frá St Croix eyju, en sem hafði búið í Kaupmannahöfn og var gift Dana. Vel virðist fara á með þeim kynsystrum og vonandi hafa þær getað skeggrætt um allt á milli himins og jarðar án þess að láta lithaft og uppruna hafa áhrif á kynnin. Í sýningarbæklingum kveður við annan tón um konuna frá Vestur-indíum og hún er ekki kölluð frú Jensens heldur negerinden:

forlang af Negerinden en Cocktail, Icecream soda eller anden let Forfriskning og de vil da, medens Solen spiller paa Golfens blaa Havflade og St. Thomas’ Tage drømme dem langt over Oceanet til de Smaaøer, der forhaabentlig en Gang igen skal kunne benævnes Vestindiens Perler.” 

Vart hefur verið hægt að krefjast slíks af íslensku sýningarkonunni, nema að það hafi verið til siðs að krefjast

"mysa, skyrhræringur og eyjabakstur i regnen i Reykjavík ved peysufatakællingen fra Hafnarstræti."

En þannig var nú ekki talað um íslenskar konur, enda var Ísland aldrei nýlenda, líkt og sumir halda þó enn á Íslandi.

Mér sýnist einna helst að konurnar séu að hlæja að látunum í fylliröftunum í Skrælingafélaginu.

Ef menn vilja lesa sér meira til um þessa sérstæðu sýningu og um skoðanir íslenskra eilífðarstúdenta sem drukku ótæpt Bakkusi til samlætis, og sjálfsagt til að deyfa særðar og smánaðar þjóðernistilfinningar sínar, er ágætt efni um hana hér í vefsíðu um Emmu Gad eða í góðri grein um Skrælingjafélagið eftir Margréti Jónasdóttur sagnfræðing í Lesbók MorgunblaðsinsHér má síðan lesa sýningarskrána fyrir sýninguna í Tívoli árið 1905.

div_ad_hoc_jan_001


Íslenskar konur með hlutverk á meðal þjóðanna

IMG_0002 c
Það var snemma tekið eftir því að íslenskar konur teldu sig eiga að gegna hlutverki á meðal þjóðanna, þótt öryggisráð SÞ kæmi ekki til tals fyrr en í síðustu kreppu.

Glöggt er gests augað að vanda. Franskir listamenn sáu fljótlega þennan stórfenglega eiginskap íslenskra kvenna og stungu upp á alls kyns samstillingum við aðrar þjóðir sem Frökkum þóttu einkennilegar, dularfullar og framandi.

Þessi mynd, sem Fornleifur keypti nýlega á fornsölu í Frakklandi, sýnir íslenska konu í faldbúningi á þingi sameinuðu þjóða rómantíkurinnar. Því miður gat skransalinn franski ekki sagt Fornleifi úr hvaða bók myndin er, en hugsanlega er hún úr einhverju riti um þjóðbúninga og frá því um 1850-1870.  Ég er samt helst á því að þetta hafi verið lausblöðungur, og flestir hallast að því að hann hafi verið prentaður 1859. Fólk gat keypt sér slíkar myndir við Signubakka á sunnudegi. Slíkar skildingsmyndir hafði einhver hafði leikið sér við að handlita. Það mun bara koma í ljós hvers kyns er.

Þarna má fyrir utan tvær íslenskar heimasætur, lengst til hægri, sjá vel dúðaða ungmeyju frá Kiev, rússneskan bónda, norskan bóndason sem snýr óæðri endanum að lesandanum og rauðhærðan Skota með sporran-tösku sem virðist líkust dauðum ref. Þetta sýnir að sá sem setti þennan skoplega fund saman hafði misskilið eldri myndir sem hann notaðist við. Svo er þetta samansull kallað EUROPE og sennilegt þykir mér einnig að ESB fantasíufólk hefur líklega haft svona draumsýn endrum og eins, enda misskilur það svo margt.

Myndin var prentuð af Dufour, Mulat og Boulanger í París

IMG_0001 b


Let it slide

23 small Fornleifur ©

Hann er seigur, skyggnumyndabirgir Fornleifs á Englandi. Nú er hann búinn að finna enn eina mynd úr röð Riley bræðra og E.G. Wood. Að þessu sinni er það skyggna númer 23. Myndin er handlituðuð og framleidd af o merkt fyrirtækinu E.G. Wood. (Sjá lista yfir myndir skyggnufyrirlestranna um Íslands sem Riley-bræður seldu fyrst, og síðar E.G. Wood).

Á kant skyggnunnar er límdur lítill miði sem á stendur 32403 Plain of Thingvellir og með penna hefur verið skrifar OXARA. Skyggnan er merkt með hringlaga miða sem á stendur talan 23, en sá miðið er á milli glerferninganna lík og miði sem sýnir að skyggnan er úr röðinni England to Iceland og neðst í vinstra horni skyggnunnar er merki E.G. Wood fyrirtækisins sem var til húsa við 1-2 Queen Street við Cheapside í Lundúnum.

Myndin er tekin ofan frá Almannagjá og yfir Þingvallabæinn. Í baksýn má sjá Ármannsfellið og það grillir í Lágafell. Ljósmyndarinn hefur  staðið upp á vesturbakka Almannagjár.

Eymundsson original

Myndin var tekin af Sigfúsi Eymundssyni og var ein þeirra mynda sem er að finna í varðveittu albúmi sem fyrrum lá frammi á ljósmyndastofu Sigfúsar. Í því gátu gestir á stofunni skoðað Íslandsmyndir og pantað kópíur til minningar um Íslandsdvöl. Svarthvít pósitífa er til af myndinni á Þjóðminjasafni Íslands (Lpr-1152-11).

Framleiðandi skyggnunnar, E.G. Wood, hefur vegna þess að glerskyggnurnar voru réttur ferningur, í þessu tilfelli 8,2 x 8,2 sm. að stærð ekki getað birt myndir Sigfúsar í heild og hafa því valið að notast við hluta myndarinnar

Ljóst er nú orðið og fullvíst, að Þorlákur Johnson og Sigfús Eymundsson, sem um tíma var með Þorláki í skyggnumyndasýningunum (sjá hér og hér) hafa notast við þessar myndir Sigfúsar þegar Íslandslýsing Riley bræðra og E.G. Wood voru framleiddar.

23 England to Iceland FORNLEIFUR COPYRIGHT

Myndin af skyggnunni efst sýnir einna helst það sem fólk sá við sýningar á henni á 19. öld, en þessi mynd er tekin með ljósi úr báðum áttum og sýnir ekki þann lit sem myndin hafði uppi á vegg.

Þessi skyggna ásamt mynd nr. 24 (sjá hér) eru elstu "litljósmyndirnar" frá Þingvöllum. Reyndar handmálaðar. Furðu sætir hve vel konurnar sem störfuðu við að mála skyggnur hjá þessum fyrirtækjum hafa náð litunum á Þingvöllum. Tvennt gæti komið til greina. Þingvellir eru fullir af síbreytilegum, jarðrænum litum og því auðvelt að geta sér til um þá án þess að hafa verið á staðnum. En hugsanlega gæti hafa verið send handlitið kópía með frá Íslandi til að leiðbeina þeim sem unnu við litun ljósmyndanna. En um þetta vitum við ekkert enn sem komið er, en hugsast getur að það finnist ritaðar heimildir sem geti gefið frekari upplýsingar.

Til eru aðrar handlitaðar litskyggnur á Þjóðminjasafni frá 1898, sem eru þó nokkuð yngri  en myndirnar frá E.G. Wood í London.  Þær voru teknar af enskum ljósmyndara T. Throup og hafa verið gefnar Þjóðminjasafni af T. Nokkrum Throup. Hvort ljósmyndarinn er sami maður og gefandinn gefur Þjóðminjasafnið ekki upp. Þeim ljósmyndum fylgir handrit/skýringar í stílahefti (Sjá hér og hérna) en takmarkaðar upplýsingar eru veittar um myndirnar af Þjóðminjasafn. Ein mynda Throup er sýn frá Almannagjá að Þingvallabænum og er myndin tekin nokkru norðar en mynd Sigfúsar Eymundssonar.

Hér verður enn undirstrikað að Íslandsskyggnur Riley bræðra og E.G.Wood eru í dag afar sjaldgæfar. Enn sem komið er eru myndirnar í forngripasafni Fornleifs þær einu sem þekktar eru og hjá LUCERNA sem eru samtök háskóla, safna og sérfræðinga sem rannsaka og safna laterna magica skyggnum, hafa menn enn ekki enn komist yfir myndir úr þessum röðum sem hægt var að kaupa til sýninga í samkomuhúsum fyrirlestrum í lok 19. aldar og byrjun þeirra 20.

Með komu kvikmyndanna hvarf áhugi á skyggnumyndasýningum mjög skyndilega og skyggnumyndirnar lentu svo að segja í glatkistunni. Það er fyrst á síðustu 20 árum að menn hafa sýnt því áhuga að safna slíkum myndum og rannsaka sögu framleiðslu þeirra og sýninga á þeim.


Ró á Austurvelli

Wood nr. 15 Fornleifur copyright

Númer 15 er fundin! Laterna magica skyggnumyndina hér að ofan, sem er handlituð, fann skyggnubirgir minn á Englandi nýlega í ruslakistu sinni. Sú kista reynist honum drjúg tekjulind, enda situr hann á miklum fjársjóð sá góði maður.

Myndin er úr röðinni góðu sem sem Riley Brothters og E.G.Wood framleiddu í samráði við menn á Íslandi og Skotlandi, og sem ég skrifaði um á Fornleifi fyrra í 10 köflum.

Myndin er af virðulegu þinghúsi okkar þar sem allt er nú í uppnámi nú vegna alls konar óra í sjóræningjum og æringjum. Einnig má sjá dómkirkju höfuðstaðarins. Þessi mynd var tekin af Sigfúsi Eymundssyni og er t.d. þekkt á Þjóðminjasafni í tveimur gerðum (sjá hér ; Lpr-380 í lélegu ástandi.  Hina (Lpr-1152-9) er að finna í ljósmyndabók af ljósmyndastofu Sigfúsar Eymundssonar. Bókin lá frammi á stofunni og gátu viðskiptavinir pantað myndir úr henni. Margar myndir úr þessari ágætu bók sendi Sigfús líklega til þeirra sem framleiddu laterna magica skyggnur. Ljósmyndin er af Þjóðminjasafni sögð vera tekin 1882-1883.

Austurvöllur Sigfús

Nokkuð merkilegt er að ná í þetta og ég bíð eftir tveimur myndum til viðbótar, sem sagt verður frá við tækifæri á Fornleifi.

Drengurinn sem hallar sér upp að girðingunni við Austurvöll er Daníel Benedikt Daníelsson (1866-1933), sem var ættaður  norðan  úr Húnavatnssýslu. Hann var skráður sem smali á Þóroddstöðum í Staðarsókn um 1880. Miklu síðar gerðist hann bóndi í Brautarholti í Kjós. Starfaði einnig sem ljósmyndari, kaupmaður og veitingamaður á Selfossi og að lokum sem dyravörður í Stjórnarráðinu. Frægar eru Kleppsvísur í Speglinum sem fjalla um þegar hann reið sem sendill Hriflu-Jónasar með uppsagnarbréf handa Helga Tómassyni lækni á Kleppi (sjá hér).  Ef myndin hefur verið tekin 1882-83 hefur Daníel ekki verið eldri en 17-18 ára gamall.

Daniel Ben Danielsson

Myndin á skyggnunni hefur verið skorin aðeins þannig að ekki sést t.d. í styttuna af Bertel Thorvaldsen sem þá stóð á Austurvelli.

Mér þykir sjálfum afar gaman að sjá þessa mynd af Alþingishúsinu nýbyggðu. Langalangafi minn Sigurður Bjarnason sem fluttist úr Skagafirði vegna fátæktar (hann var það sem í dag er kallað flóttamaður) og sonur hans Þórður (sem unglingur) unnu báðir við byggingu Alþingishússins.

Alþingishúsið 1883 b

Þegar Sigfús tók þessa mynd stóð hann ekki langt frá hinum mjög svo umtalaða Víkurgarði sem allir vildu bjargað hafa. Þar telja fornleifafræðingar sig hugsanlega hafa fundið heiðnar grafir undir þeim kristnu. Ég leyfi mér að efast um það þar til ég sé sannfærandi sönnunargögn því til stuðnings.

Ég tel persónulega að með eins mikla byggð og nú hefur verið sýnt fram á í kvosinni á víkingaöld, hafi kuml landnámsmanna og afkomenda þeirra, sem ekki voru kristnir, verið ekki mjög langt undan. Ég leyfi mér að benda á mjög merka ljósmynd í fórum Ljósmyndasafns Þjóðminjasafnsins OKKAR, sem tekin var  árið 1868 og einnig af Sigfúsi Eymundssyni. Tel ég myndina sýna staðinn þar sem Ingólfur og hinir íbúarnir í Víkinni voru heygðir. Þarna á þúfunum (kumlunum) er löngu búið að byggja hús. En hver veit – í garði rússneska sendiráðsins eða aðeins sunnan við hann gæti verið að kuml fyrstu "víkinga" Víkur séu enn að finna undir reynitrjánum.

Reykjavík 1868

Þegar Hótel Kirkjugarði verður plantað niður í Víkurgarð - því menningarlegu peningavöldin, sem stjórna boginni nú, eru afhuguð menningu - ætla ég nú rétt að vona að hótelhaldarar verði þjóðlegir og hafi myndir í römmum af beinum úr garðinum og nærmyndir af holdsveikum í morgunverðarsalnum. Það er áhugavert fyrir ferðamenn að stúdera slíkt þegar þeir borða árbítinn, innifalinn eða óinnifalinn. Ég er til í að láta hóteleigendum í té litmynd af Austurvelli frá 1889! til að hafa yfir kaffivélinni, en það mun vitaskuld kosta þá dýrt.

Menning kostar nefnilega, en það er svo billegt að eyða henni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband