Stephan G. Stephansson á Íslandi 1917
18.6.2017 | 12:48
Þann 16. júni sl. minntist RÚV þess að eitt hundrað ár voru liðin frá því að Stephan G. Stephansson, Fjallaskáldið, heimsótti Ísland í eina skiptið eftir að hann yfirgaf landið með foreldrum sínum og systkinum. Hann hélt t.d. ræðu í Reykjavík þann 17. júní, daginn eftir að hann kom til Reykjavíkur.
Það kom fram í fréttum Útvarps, byggt á merkum fræðilegum rannsóknum, að honum hafi verið boðið til landsins af Ungmennasambandi Íslands, Guðmundi Finnbogasyni og Ágústi H. Bjarnarsyni. Það er víst ekki allur sannleikurinn. Boðið hefur líklega aðeins náð til ferðakostnaðar og ferða Stephans um Ísland. Stephan G. var á Íslandi fram í október 2017. Í Reykjavík bjó skáldið hins vegar á venjulegu alþýðuheimili, heimili langafa míns Þórðar Sigurðssonar sjómanns. Hann bjó þá á Nönnugötu 1 b í Reykjavík (síðar á Bergstaðarstræti 50 a).
Þórður og Stephan voru systrasynir, og engu líkara var en að þeir væru bræður. Þórður var fæddur 1863, en Stephan 1853. Svo svipaðir voru þeir frændur í útliti að með ólíkindum þótti. Þórður var þó ekkert skáld og afar fámæltur maður og hlédrægur. Ég hef skrifað um Þórð langafa minn hér áður (sjá hér) fyrir það sem hann var vel að sér í, þótt mælskan væri kannski ekki hans sérgrein.
Ef einhver þekkir til ljósmyndar af móður Þórðar, Sigríði Hannesdóttur, sem fæddist á Reykjarhóli hjá Víðimýri árið 1824, þætti mér vænt um að fá af myndinni skán. Myndin af langafa mínum sem birtist í Sjómanninum hékk ávallt á vegg hjá ömmu minni og afa. En skömmu fyrir andlát ömmu, sem var elsta dóttir Þórðar, hefur hún lánað einhverjum í fjölskyldunni myndina og viðkomandi hefur aldrei skilað myndinni. Sá sem fékk myndina að láni er vinsamlegast beðinn um að skila henni til mín hið fyrsta.
Menning og listir | Breytt 3.5.2025 kl. 12:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lakkspjöld ástar og hjónabands
14.6.2017 | 06:39
I. Inngangur
Enn freista menn þess að finna Gullskipið svonefnda á Skeiðarársandi, eða öllu heldur á Skaftafellsfjöru, þar sem skipið sökk nú að öllu heldur. Menn gefast oftast upp að lokum á vitleysunni og nú lítur út fyrir að síðasti hópur leitarmanna sé búinn að leggja árar sínar í bát.
Heimasíðu sjóræningjafyrirtækis, sem kallaðist eins og fyrirtækið Anno Domini 1667 og sem fékk leyfi frá Minjastofnun Íslands til vitleysu og ævintýramennsku, er að minnsta kosti búið að loka og læsa. Hætt er við að menn hafi rekist á lítið gull og væntanlega enga geimsteina. Minjastofnun gerir oft vísindamönnum erfitt fyrir að fá leyfi til rannsókna, jafnvel vegna duttlunga, vanþekkingar og pólitískra tenginga starfsmannanna, en stofnunin gefur hiklaust leyfi til að grafa upp loftkastala í svörtum söndum Sunnanlands. Og þegar vel liggur á er heimilað að leita hins heilaga grals á öræfum Íslands. Það er ekki laust við að íslensk þjóðminjalög séu enn ófullkomin, þrátt fyrir meira en 20 ára vinnu við að breyta þeim til batnaðar.
Eins og ég hef skrifað um áður, hefur gullið úr Het Wapen van Amsterdam, einu af skipum Austurindíafélags Hollendinga, þegar fundist. Menn verða að sætta sig við það að annað gull finnist ekki, og að þeir hafi einfaldlega ekki verið læsir á þann menningararf sem skipið tilheyrir. Um það hef ég fjallað áður (sjá hér og hér).
Hér mun ég aftur á móti ég fjalla um helstu dýrgripina sem nær ugglaust eru úr skipinu. Þar á meðal eru hurðarspjöld og kistulok með lakkverki. Öðrum gripum sem tengjast hugsanlega Austurindíafarinu Het Wapen van Amsterdam geri ég svo skil síðar.
Íslendingar hirtu gripina úr Het Wapen van Amsterdam sem rak á fjörur þeirrar og endurnotuðu þessa fáséðu gripi af mikilli ánægju í kirkjum sínum. Annað sökk í sandinn, riðlaðist í sundur og um tíma brögðuðust sandormar af fínust karrýblöndu, sjófuglum til ómældrar ánægju. Er ekki laust við að sumir fuglar gargi enn "Karríkarríkarríkarrí". En gerumst nú ekki of skáldlegir á miðvikudegi og höldum okkur við efnið.
Um er að ræða:
1) Kistulok í Skógum
Kistulok, (sjá mynd efst) notað sem sálmaspjald, sem varðveitt er á Byggðasafninu í Skógum undir Eyjafjöllum og sem ber safnnúmerið R-1870. Það er komið í Skóga úr Eyvindarhólakirkju, þar sem þar var notað sem sálmaspjald. Þar á undan hafði lokið/spjaldið verið notað sem altaristafla í Steinakirkju.
Lokinu er er lýst þannig á Sarpi :
Spjald með gylltu blómkeri, lakkerað, kínverskt eða austurlenskt, mun upphaflega " fulningsspjald" úr húsgagni, var lengi notað sem altaristafla í Steinakirkju, síðar sem númeraspjald í Eyvindarhólakirkju. Svipuð spjöld voru í nokkrum kirkjum í Skaftafellssýslu og kynnu að hafa borist hingað til lands með Austur-Indíafarinu, sem strandaði á Skeiðarársandi 1663 [Athugasemd Fornleifs: árstalið er rangt, skipið fórst 1667]. Afhent af sóknarnefnd Eyvindarhólakirkju.
Stærð: Stærð loksins var mæld af Andra Guðmundssyni starfsmanni Byggðasafnsins í Skógum þann 7.12.2015. Safngripurinn R-1870 er 72,2 cm að lengd, 2,1 cm að breidd og 51,2 cm að hæð.
Þess ber að geta að um miðbik 19. aldar mun einnig hafa verið til spjald, sem notað var sem sálmaspjald í kirkjunni að Dyrhólum í Mýrdal. Séra Gísli Brynjólfsson greinir frá því í grein í Lesbók Morgunblaðsins árið 1971 er Helgi biskup Thordersen vísiteraði kirkjuna að Dyrhólum árið 1848:
Biskup telur, eins og venjulega, alla muni kirkjunnar. Um þá er ekkert sérstakt að segja. Fremur virðast þeir hafa verið fátæklegir. Biskup getur um fornt og lakkerað slétt spjald, sem til forna var yfir altari en er nú brúkað til að kríta á númer og er ei heldur til annars hæft." Þessi gripur hefur eflaust áskotnazt Dyrhólakirkju úr strönduðu skipi. Slíkt spjald er enn til í altarishurðinni í Kálfafellskirkju í Fljótshverfi.
2) Spjald af hurð frá Höfðabrekku
Ljósmynd: Þjóðminjasafn Íslands
Spjald í hurð úr skáp sem varðveitt er á Þjóðminjasafni Íslands (Þjms. 11412/1932-122) og var áður í kirkju að Höfðabrekku í Mýrdal í V-Skaftafellssýslu.
Hurðarblaðinu er lýst á þennan hátt af Þjóðminjasafni á Sarpi:
Altarishurð, 58,5 cm að hæð og 39 cm að breidd, umgerðin úr rauðmáluðum furulistum, sem negldir eru með tveimur trénöglum í hverju horni. Listarnir eru 6,9 - 7,5 cm breiðir. Járnlamir eru hægra megin á hurðinni, en læsingar útbúnaður enginn. Fyllingin, sem er 44 x 24,5 cm að stærð, er úr furu, sem sjá má á bakhliðinni, en framan á er lakkað spjald með fínu austurlenzku, listskrautverki. Grunnurinn er svartur, en uppdrátturinn er blómsturker, sem stendur á ferköntuðum reit ( borði?). Kerið er brúnflikrótt og dálítið upphleypt, 12,7 cm að hæð og 9.8 cm yfir um bolinn, útlínurnar gylltar og þannig eru einnig blóm þau öll, er upp ganga af kerinu. Sum eru lögð með silfurlit, önnur gulls lit, ein/blaðka er brúnskýjótt eins og kerið, og efst í blómvendinum er stórt blóm með rauðum krónublöðum. Allt er skrautverk þetta gert af hinum mesta hagleik og öryggi í handbragði. Verkið er líklega japanskt eða ef til vill austurindverskt, en ekki kínverskt. Hugsanlegt er að gripur þessi sé úr dóti því er á land rak, er Austurindiafar braut fyrir Skeiðarársandi árið 1669 [Athugsemd Fornleifs: Þetta er rangt ártal og á að vitaskuld að vera 1667], sbr. Ísl. annála, það ár. Úr Höfðabrekkukirkju.(Framan við bogageymslu).
Takið eftir notkuninni á orðinu dót í skráningu Þjóðminjasafns og sjá síðan skýringu sérfræðinga á því orði. Maður trúir því nú vart að grip sem þessum sé lýst sem dóti.
3) Spjald í hurð á altarisskáp í Kálfafellskirkju
Hurðin er enn notuð í altarisskáp í Kálfafellskirkju í Fljótshverfi. Lakkmyndin á spjaldinu, sem er nú mjög illa farin og slitin, snýr nú inn í altarisskáp sem er frá 18. öld og sem er undir altaristöflunni í kirkjunni, en taflan er greinilega frá 18 öld, þótt einhver hafi reynt að spyrða hana við 17. öldina. Spjaldið er svipað að stærð og hurðarblaðið frá Höfðabrekku, og með sams konar mynd og er á spjaldinu í Þjóðminjasafni og því sem hangir í Skógum (sjá neðar); það er blómsturvasa sem á er einfalt skreyti: Hjarta sem upp úr logar efst og sem tvær örvar stingast gegnum í kross að ofan.
Myndin og vinnan við vasann á spjaldinu en er greinileg unnið af sama listamanni og spjaldið frá Höfðabrekku. Lásinn/skráin sem upphaflega hefur ugglaust verið á kistu er japanskur. Hespa af japönskum kistulás hefur verið settur á utanverða altarisskápshurðin þegar lakkmyndin var látin snúa inn í skápinn innanverðan. Hvort það hefur gerst þegar kirkjan var máluð af Grétu Björnsson og eiginmanni hennar skal ósagt látið, en það þykir mér sennilegt. Spjaldsins er getið í vísitasíu árið 1714 og sneri þá fram.
Því miður hafði láðst að taka málband með í leiðangurinn til að skoða hurðina í janúar 2016 og verða mál að bíða betri tíma. Lakkmyndin á spjaldinu í Kálfabrekkukirkju er þó að sömu stærð og lakkmyndin frá Höfðabrekku og eru myndirnar spegilmyndir hverrar annarrar.
Hespa af læsingu af japanskri kistu. Hespan hefur verið tekin af japönsku lásverki. Hægt er að sjá notkunina á henni á myndunum hér fyrir neðan. Hluti hennar, þ.e. spjaldið, var endurnotað sem skráarlauf þegar lakkspjaldið var sett í hurðarramman á altarisskápnum. Sænskættaða listakonan Gréta Björnsson (sem upphaflega hét Greta Agnes Margareta Erdmann) og eiginmaður hennar Jón Björnsson málarameistari máluðu skápshurðina eftir forskrift Önnu Jónsdóttur frá Moldgnúpi, sem og kirkjuna að innan í eins konar sænskum "horror vacuii-stíl" með tískulitum 8. áratugar 20. aldar. Hugsanlegt er að þau hafi sett gulllakk á hespuna og shellakk yfir það, þannig að bronshespan hafi varanlega, gyllta áferð. Hjónin Jón og Gréta skreyttu ófáar íslenskar kirkjur að innan. Ljósmynd Kristján Sveinsson.
Hér sést hvernig hespur eins og sú sem er á altarishurðinni að Kálfafelli, voru festar á lok kistla og skrína og var hlutinn af lásafyrirkomulaginu. Myndir þessar eru af netinu og hespurnar og lásarnir á Namban-lakkverki með perlumóðurskreyti frá lokum 16. aldar og byrjun þeirrar 17, listmunum sem Portúgalar sóttu mjög í. Namban var það heiti sem Japanar gáfu Portúgölum og þýðir Namban einfaldlega Suðrænir barbarar. Barbararnir höfðu þó sæmilega smekk og voru sólgnir í listiðnað Japana - og gátu borgað fyrir sig með með gulli sem þeir höfðu ruplað í Suður-Ameríku. Þessir lásar héldust þó áfram í notkun langt eftir 17. öldinni á kistum jafnt sem á kistlum og smærri skrínum. Myndir fundnar á veraldarvefnum.
II. Rannsóknarferð á Gullskipsslóðir þann 23.janúar 2016
Laugardaginn 23. janúar 2016 svifu þrír þjóðlegir menn á besta aldri langt austur í sveitir í sænskum eðalvagni eins þeirra. Slíkur fararskjóti er vitanlega við hæfi þegar menn fara að vitja gulls og gersema úr Austurindíafarinu Het Wapen van Amsterdam, Skjaldamerki Amsterdamborgar. Samferðarmenn mínir eru oft miklar fræðilegar hjálparhellur fyrir ritstjóra Fornleifs.
Verðrið var með ólíkindum gott, enginn snjór á láglendi, sólskin upp úr hádegi og hlýtt. Fyrst var komið í Skóga, á Byggðasafnið í Skógum, þar sem á móti okkur tók einn helsti fornfræðingur þjóðarinnar, Þórður Tómasson sem og starfsmaður safnsins í Skógum Andri Guðmundsson. Við ljósmynduðum spjaldið/kistulokið með lakkverkinu sem þar er að finna og sem ég hef ósjaldan haft í huga síðan ég kom fyrst í Skógasafn er ég gróf þar sem ungur námsmaður öðrum efnilegum ungmennum undir stjórn Mjallar Snæsdóttur á Stóru-Borg undir Eyjafjöllum.
Hér má sjá efst yfirlýstan Einar Jónsson frá Skógum, Þórð Tómasson og Kristján Sveinsson, og í neðri röð Andra Guðmundsson með spjaldið góða úr Het Wapen van Amsterdam, síðan ritstjóra Fornleifs að bograr yfir lakkverkinu sem hann hafði ekki strokið síðan 1993 og að lokum unglambið Þórð Tómasson í Skógum. 23. Janúar 2016. Ljósmyndir Kristján Sveinsson og Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.
Við ræddum mikið og lengi við meistara Þórð sem þótti vitaskuld áhugavert að við hefðum gert okkur leið um miðjan vetur á safnið hans, sem hann hefur byggt upp með svo miklum myndabrag.
Komið var fram yfir hádegi er við héldum áfram uppfullir af fróðleik. Áð var í Framnesi í Mýrdal í einstaklega fallegu sumarhúsi sem Einar Jónsson lögfræðingur og sagnfræðingur hefur byggt með öðrum, Einar var staðkunnugur leiðsögumaður okkar þremenninganna vísu í sænska Veltisvagninum. Þegar við höfðum borðað hádegisverð sem við höfðum tekið með okkur úr stórborginni og rætt við móðurbróður Einars, hinn kankvísa Siggeir Ásgeirsson í Framnesi, kom Kristján Sveinsson, sagnfræðingurinn prúði og bílstjóri okkar í ferðinni, okkur að Kálfafelli í Fljótshverfi. Þar hafði kirkjan verið skilin eftir opin fyrir okkur, þökk sé síra Ingólfi Hartvigssyni á Kirkjubæjarklaustri, sem því miður gat ekki heilsað upp á aðkomumenn vegna anna. Við gengum í kirkju og tókum margar myndir af altarisskápnum og héldum svo að Núpsstað þar sem við heimsóttum kirkjuna þar til að fá andlega blessun áður en við leituðum aftur á vit stórborgarinnar.
Kálfafellskirkja. Ljósmynd Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson
En maður lifir ekki á andlegu brauði einu saman. Á bakaleiðinni áðum við á nýju hóteli í Vík, þar sem ritstjórn Fornleifs bar mat á samferðamenn sína. Það var hin besta máltíð fyrir utan undarlegustu sósu sem ritstjóri Fornleifur hefur bragðað - Opal-sósu !? Hún var borin fram með ljúffengri lambakrónu. Ópalsósa er alvarlegt slys og sullumall í íslenskri matargerðarlist sem ætti að banna. Miklu nær væri fyrir hótel á slóðum Gullskipsins að bjóða upp á lambakjöt framreitt á indónesískan hátt og kalla réttinn t.d. Het Wapen van Amsterdam. Tillaga þessi er hér með til sölu.
Þegar til Reykjavíkur var komið, eyddum við kvöldstund með kaffi, te og meðlæti heima hjá Kristjáni Sveinssyni, sem dags daglega er starfsmaður hins háa Alþingis. Úti í rómagnaðri og magnesíumgulri Reykjavíkurnóttinni var farið að snjóa, en þríeykið ræddi afar ánægt um árangur ferðarinnar sem var mikill, þó ekki væru notaðir radarar, fisflugvélar, dýptarmælar, Ómar Ragnarsson eða annar álíka hátæknibúnaður aðeins ljóskastari frá 1983 og myndavélar, ein þeirr óttarlegur garmur.
III. Myndmálið á spjöldunum
Myndmál lakkverksspjaldanna þriggja er það sama: Blómavasi, sem upphaflega virðist hafa átt að vera brúnleitur, jafnvel með skjaldbökuskeljaráferð. Hugsanlega var listamaðurinn að reyna að sýna japanskan bronsvasa. Vasinn stendur á litlum þrífæti sem sem hvílir á ferningi/plötu á borði. Blómin í vasanum eru greinilega sum austurlensk, en vel þekkjanleg (sjá neðar).
Spjöldin úr Höfðabrekkukirkju og Kálfafellskirkju eru nær eins að útliti og gerð og blómavasarnir á þeim nær nákvæm spegilmynd hvers annars. Spjaldið frá Höfðabrekku er nokkuð slitið þannig að litir og gylling hafa afmáðst. Hins vegar er spjaldið í altarisskápnum að Kálfabrekku mjög illa farið þar sem lakkið hefur sums staðar losnað frá undirlaginu og tréspjaldinu undir. Spjöldin gætur vel verið úr sama grip, skáp eða kistu. Þau eru örugglega ættuð frá sama verkstæðinu og eru að mínu mati gerð af sama handverksmanninum.
Spjaldið í Skógum er greinilega frá sama verkstæði og spjöldin frá Kálfafelli og Höfðabrekku, en gerð með annarri tækni og á helmingi þykkara spjald. Myndmálið er það sama og gert eftir nær sama skapalóni, en er aðeins gyllt en nær ekkert litað nema vasinn sjálfur. Gyllingin hefur máðst nokkuð af og ekki er ólíklegt að það hafi gerst þegar á strandstað. Hinn stóri sandpappír Íslands er ekki fínkornóttur við viðkvæma hluti eins og þennan.
Á blómavösunum (sem í verkinu Kirkjur Íslands eru svo þjóðlega kallaðir "jurtaker") ofarlega er skreyti: hjarta sem logar úr að ofan og sem tveimur örvum hefur verið skotið í gegnum í kross að ofan.
Afar erfitt reyndist að taka mynd af spjaldinu í Skógum vegna endurskins frá lakkinu og án einhvers apparats til að sía ljósið. Á þessari mynd af spjaldinu í Skógum, sem sýnir dýptina í myndverkinu nokkuð vel, hefur endurskin frá lampa verið fjarlægt með photosjoppu hægra megin við vasann. Ljósmynd Kristján Sveinsson.
Vasi með logandi hjarta og örvum á spjaldinu í Kálfafellskirkju. Ljósmynd Kristján Sveinsson.
IV. Uppruni og aldursgreining lakkspjaldanna sem talin eru vera úr Het Wapen van Amsterdam
Engin vafi leikur á því að lakkspjöldin þrjú eru japanskt verk og gerð af japönskum listamönnum á 17. öld. Þau eru annað hvort framleidd á eyjunni Kyushu í Japan eða í Macau í suður-Kína, þangað sem japanskir lakkverkslistamenn, kaþólskir, höfðu flúið vegna trúar sinnar frá Japan og héldu þar áfram að framleiða fyrir portúgalskan markað sem upphaflega hafði hafið innflutning á lakkverki til Evrópu á 16. öld.
Afar sennilegt má því telja að spjöldin séu reki úr Het Wapen van Amsterdam. Strönduð verslunarskip önnur frá VOC, Vereenigde Oostindische Campagnie, frá Hollandi þekkjum við ekki við Ísland frá þessum tím. Það álit manna að spjöldin séu komin úr skipinu virðist því engum vafa undirorpið.
Hugsanlega verður hægt að skera úr um, hvort spjöldin séu frá Japan eða Macau í Kína með efnagreiningum á lakki og undirlaginu undir lakkinu, og stendur til að sækja um leyfi til slíkra rannsókna sem gerðar verða af portúgölskum sérfræðingi í forvörslu sem vinnur að doktorsverkefni um lakkverkshúsgögn sem voru flutt frá Austur-Asíu til Portúgals.
V. Aldursgreining
Aldursgreiningin á lakkspjöldunum sem nær örugglega rak í land á Íslandi árið 1667, er einnig hægt að byggja á samanburðarmyndefni á kínversku og japönsku útflutningspostulíni frá sama tíma.
Blómavasar áþekkir þeim sem skreyta vasana á lakkverksgripunum á Íslandi, var greinilega mjög hugleikin Portúgölum og síðar Hollendingum á 17. öldinni og er hann upphaflega skreyti sem kom fyrir á kínversku postulíni en síðar t.d. á fajansa frá Delft og öðrum borgum í Hollandi. Blómavasi á þremur litlum fótum með tígullaga stalli undir kemur oft fyrir á kínverskum og japönsku postulínsdiskum og skálum frá síðasta hluta 16. aldar og meira eða minna alla 17. öldina og er algengastir á leirtaui frá síðari hluta aldarinnar. Her skulu sýnd nokkur dæmi. Einn diskanna er evrópsk eftirlíking og gaman væri að sjá hvort einhver sér í fljótu bragði hver diskanna er þýskur.
VI. Túlkun myndmálsins
Hollenskur listfræðingur, Christiaan Jörg að nafni, sem er vafalítið fremsti sérfræðingur heims í innfluttu lakkverki frá Japan og Kína til Portúgals og Niðurlanda, hefur aðstoðað mig við rannsóknir mínar á lakkverkinu sem rak á fjörur Íslands. Hann lagði upphaflega til að vegna skreytisins, hins logandi hjarta með örvum, að spjöldin væru gerð á Macau, þar sem hann taldi að hjartað væri hjarta Ágústínusar eða brennandi hjarta Krists eða Maríu meyjar, cor ardens, þ.e.a.s. kaþólskt tákn.
Við nánari athugun hefur þetta þó ekki reynst rétt tilgáta hjá Jörg. Logandi hjarta með örvum sem skotið hefur verið að ofan er miklu frekar algengt tákn hjónabands í Hollandi sem og á Ítalíu og í Portúgal á 17. öld. Fjöldi dæma um þetta tákn, eitt og sér ellegar í tengslum við annað tákn, vinarhandabandið eða hjónahandabandið, hefur fundist á mismunandi gripum í Hollandi sem eru frá sama tíma og óheillafleyið Het Wapen van Amsterdam.
Ef lakkverkið, sem varðveist hefur á Íslandi, hefur verið framleitt í Japan, er ekki víst að Japanir, sem voru mjög andsnúnir harðhentu kaþólsku trúboði og þreyttir á öfgafullri framkomu Portúgala á 16. og í byrjun 17. aldar hafi tengt þetta tákn trú.
Mun líklegra verður að teljast, að einhver sem vel var í álnum í Hollandi hefur pantað gripi frá Batavíu (Jakarta á Jövu) með þessu tákni á, til að færa hjónakornum í Hollandi að gjöf.
Hollenski fornleifafræðingurinn og leirkerjasérfræðingurinn Sebastiaan Ostkamp, sem er hafsjór að fróðleik um miðalda- og endurreisnarfræði, og að mínu mati einn fremsti sérfræðingur á því sviði, hefur sýnt fram á það í mjög áhugaverðri grein um táknmál hjónabands í hollenskri list, grein sem er afar áhugaverð fyrir evrópska listasögu og skilning á myndmáli hjónabandsins á 17. og 18. öld.
Handaband og brennandi hjarta. Tvö brot af diskum. Til vinstri er brot af ítölskum fajansadiski sem er jarðfundinn í Graft í Norður-Hollandi. Til hægri brot úr hollenskum fajansadisk sem er í eigu einkasafnara. Myndirnar er teknar af Sebastiaan Ostkamp hjá Terra Incognita í Amsterdam, sem vinsamlegast hefur sent mér þær.
Pyngja útsaumuð með gull og silfurþræði. Upphafsbókstafirnir M og S eru sitt hvoru megin við hjartað, en á hinni hliðinni eru bókstafirnir D og A og standa þeir fyrir Dirck Alewijn (1571-1637) sem giftist Mariu Schurman (1575-1621). Pyngjan er talin vera frá því um 1617-1620, en líklega eldri þar sem þau MS og DA gengu í hjónaband árið 1599. Þau voru ekki kaþólikkar. Rijksmuseum, Amsterdam (BK-NM-8327).
Það er ekki Maríumynd sem sést á þessu meni, né aftan á samkvæmt lýsingu safnsins sem varðveitir það. Hjartað (safnnúmer Z08959) er túlkað sem trúlofunargjöf frá 1600-1699 og er að finna í Fries Museum í Leuwaarden á Fríslandi (sjá frekar hér).
Annað tákn sem sést á gjöfum sem gefnar voru við brúðkaup í Hollandi, voru gripir með einmitt myndir af blómavösum; t.d. myndir af blómavösum á leirtaui, fajansa og postulíni. Svo allt ber að sama brunni.
Hið logandi hjarta, stundum ásamt handabandi hjóna eru tákn sem sett voru á alls kyns gjafir handa nývígðum hjónum. Lakkgripirnir sem rak á fjörur Íslands voru því vafalaust hlutar úr kistum, skápum eða álíka húsgögnum sem einhver Hollendingur sem var vel í álnum hafði pantað til til að gefa sem gjöf við brúhlaup.
Portúgalskur diskur frá því um 1660-1700, fundinn í jörðu í Hollandi árið 1982. Hann var gerður í Lissabon og fundinn við rannsóknir við göturnar Visserdijk-Van Bleiswijkstraat í Enkhuizen þar sem rannsóknir fóru fram 1994 og 2010. Huis van Hilde (8727-04). Hér fyrir neðan er ítalskur majolicadiskur fra lokum 16. aldar eða byrjun 20. aldar.
VII. Blómin í vasanum
"Segðu það með blómum", einkunnarorð Interflora-keðjunnar, þekkja allir rómantíkerar sem komnir eru á aldur. Japanir eru mikið fyrir blóm, og frá örófi alda hafa ákveðin blóm verið notuð sem tákn fyrir góða eiginleika og fagrar kenndir. Það er ekki laust við að flest blómanna í vösunum á lakkverkinu sem rak í land á Íslandi árið 1667 hafi verið valin til segja það sama og hjartað og örvarnar á vasanum: Þ.e. Til hamingju með brúðkaupið. Uppstilling blómanna er eins konar Ikebana blómaskreyting, sem er mikil list í Japan.
Ritstjóri Fornleifs er sannast sagna hvorki mikill grasafræðingur né blómaræktunarmaður. En karlinn telur sig þó með hjálp sér vísari fólks þekkja blómin á lakkspjöldunum. Flest blómin tákna ýmislegt sem tengist hjónabandi og árnaðaróskum við þann áfanga í lífi margra.
Íris, Iris Sanguinea (Japönsk Iris)
Jap. Ayame.
Blómið táknar göfgi eða ættgöfgi, glæsileika sem og von og visku. Rauðleit eða írrauð íris var upphaflega aðeins til í Ameríkunum. Blómin á spjöldunum eiga að öllum líkindum að tákna purpurarauðar Írisar. Purpurarauður litur táknaði Meðal Japana visku og von en tengist einnig göfgi eða ættgöfgi og glæsileika, von og visku.
Freyjulykill, Primula Sieboldii (Enska:Primrose).
Jap. Sakurasou
Sakurasou táknar ástarþrá eða langlífa ást.
Kirskuberjablóm, Prunus serrulata (Japanskt kirsuberjatré).
Jap. Sakura
Sakura táknar hjartafegurð.
Bóndarós, Paeonia (ættin Paeoniaceae)
Jap. Botan
Á lakkspjöldunum þremur má sjá bóndarósir sem eru við það að springa út.
Bændarósin táknar m.a. velmegun, auð og góða auðnu.
Bóndarósin var flutt frá Kína til Japan á 8. öld og ræktuð þar í klaustur- og hallargörðum fram til 1603 þegar farið er að rækta blómið víðar. Síðar á 19. og 20. öld voru peóníutré/-runnar fluttir út frá Yokohama í Japan til Evrópu og Ameríku.
Hugsanlega má einnig sjá eina staka fræblöðku af hlyn sem hefur verið stungið í blómaskreytingarnar í vösunum.
Japanskur hlynur, (Acer Palmatum).
Jap. Momiji.
Momiji táknar hendur barna og er þar átt við blöðin á hlyninum. Er tákn frjósemi og barnaauðs. Hlynurinn táknar einnig tímann í japanskri list.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 2017
Þakkir.
Höfundur þakkar sérlega Kristjáni Sveinssyni og Einari Jónssyni fyrir fylgdina á Gullskipsslóðir í janúar 2016. Þakkir færi ég einnig Christiaan Jörg, Sebastiaan Ostkamp, Mariu Joao Petisca og Jan van Campen fyrir veittar upplýsingar við ritun greinarinnar.
Greinin er tileinkuð föður mínum, sem ættaður var úr Amsturdammi og var sömuleiðis mikill áhugamaður um Austurlandaverslun og blómarækt. Hann hefði orðið 91 árs í gær hefði hann ekki fallið frá um aldur fram.
Nokkrar heimildir.
Duijn, Dieuwertje M., 2010: Het vondstmateriaal van de opgraving op het terrein van de Banketfabriek in Enkhuizen. Materiaalpracticum master archeologie en prehistorie, Universiteit Amsterdam
Impley, Oliver & C.J.A. Jörg 2005: Japanese Export Lacquer 1580-1850. Hotei Publishing. The Netherlands.
Jörg, C.J.A. 1983: Oosters porselein Delfts aardewerk. Wiselwerkingen. Uitgeverij Kemper Groningen.
Ostkamp, Sebastiaan 2004: Tortelduiven en vlammende harten; Huwelikssymbolen op zilver en aarewerk uit Alkmaar tussen 1575 en 1675. Vormen uit vuur 186/187, 2004/1-2 ;[Sérnúmer: De verbogen stad. 700 jaar Alkmaar onder de grond], 112-168.
Tómasson, Þórður 2011. Svipast um á söguslóðum. Skrudda 2011.
Menning og listir | Breytt 9.5.2019 kl. 15:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fjárfesting framtíðarinnar ?
25.5.2017 | 15:58
Mikið er gaman að frétta af því að íslenskur aurapungur ausi fé sínu í annað en olígarkaíbúð í New York eða rúningamellur á snekkjum við strendur Flórída.
Það kætir mig að lesa að Reynir Grétarsson, sem m.a. hefur auðgast vel í Afganistan og Afríku á lánshæfismati ?? á fátækustu þjóðum heims, kaupi sér gömul Íslandskort og vilji sýna þær almenningi og ferðamönnum. Ugglaust getur slík sýning staðið undir sér og enn frekari kaupum á fornum kortum af Íslandi.
Sjálfur er ég áhugamaður um gömul kort og á reyndar fáein kort sem ég hef erft, keypt eða fengið þegar Þjóðminjasafni henti hlutum á öskuhaugana. Landsbókasafnið á einnig heilmikið safn sem mestmegnis hefur verið gefið því af mönnum sem höfðu mikið á milli handanna, líklega meira en þeir höfðu á milli eyrnanna, því stundum voru kortin fölsuð, jafnvel í ljósritunarvél, eða ekki eins gömul og eigendurnir héldu. Kort voru sömuleiðis oft endurprentuð meira en 100 ár eftir að þau voru rist á koparinn.
Ég gef hér aðeins eitt dæmi, og vona að Reynir Grétarsson falli ekki í sömu gryfju og fyrri auðmenn íslenskir sem söfnuðu kortum. Ef farið er inn á kortasafn Landsbókasafns, Islandskort.is, og náð í Íslandskort Porros frá 1572, koma upp myndir af tveimur kortum (síðum) úr kortabók Tomasso Porcacchis, L´Isole piu famose del Mondo, sem upphaflega var gefin út árið 1572 í Feneyjum. Kortin tvö á Islandskort.is eru hins vegar ekki úr upphaflegri útgáfu bókar Porcacchis frá 1572, heldur úr tveimur endurprentunum af þeirri bók, þar sem íslandskort Girolamos Porros voru endurnotuð.
Ég á reyndar kortið hans Porros frá 1572 (sjá efst). Það keypti ég árið 1975 fyrir aleiguna, sem var lítill sjóður. Ég keypti kortið í den Haag af vini föður míns, Bob Loose, fornbókasala í Paperstraat. Lose fæddist i Königsberg sem nú tilheyrir Rússum (Kaliningrad). Loose lét ávallt föður minn vita ef eitthvað sem varðaði Ísland rak á fjörur hans. Eftir að faðir minn, sem fæddist í Amsterdam, lést, komst Loose í samband við mig, en ég keypti aðeins smáræði af Bob Loose, enda er ég bara fátæk háskólagengin rotta og (of)menntaður aumingi. Þar síðast, er ég var með fjölskylduna í den Haag, frétti ég að Loose væri allur, að versluninni hans hefði verið lokað. Blessuð sé minning hans. Ég minnist þó langra kjaftaþinga föður míns og hans með lítilli gleði.
Bob Loose að stússa í verslunarkytru sinni. Að baki búðarinnar var heilmikið húsnæði, 10 sinnum stærra en verslunin, þar allt var fullt af bókum og öðru.
Reynir Grétarsson segir dýrasta kortið sitt hafa kostað um 15 milljónir króna. Ekkert kort af Íslandi er svo mikils virði og hefur Reynir því látið pretta sig dálaglega ef hann hefur keypt Íslandskort sem var svo rándýrt. Þegar menn kunna ekki aura sinna ráð, hverfur náttúrulega verðskynið. En hugsanlega er Reynir landakortafjárfestir að reyna að hækka tryggingarverðið fyrir opnun sýningarinnar með því að keyra upp verðið í fjölmiðli íslenskra stóreignamanna.
Reynir hyggur einnig á útgáfu kortabókar samkvæmt frétt Morgunblaðsins. Bókina kaupi ég ugglaust, en aðeins á sanngjörnu verði. Þangað til nota ég m.a. tveggja binda verk Haraldar Sigurðssonar, Kortasaga Íslands I-II sem faðir minn gaf mér árið 1978 og Haraldur áritaði fyrir hinn verðandi fornfræðing, sem átti kort Porros, sem ég man að Haraldi kallinum langaði ósköp mikið í og vildi fjálgur kaupa af mér. Kortið var hins vegar ekki falt. Kannski er það orðið 15 milljóna króna virði nú, ha, ha, ha, ha. Dream on Fornleifur. Í hæsta lagi nokkur hundruð dollarar. Menn fjárfesta enn sem komið er miklu betur í lánshæfismati á fátækustu þjóðum heims en í Íslandskortum.
![]() |
Opnar safn með gömlum Íslandskortum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íslandskort | Breytt 31.1.2023 kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Blámannsraunir
24.5.2017 | 06:51
Nú er það svart maður. Fyrir mína næpuhvítu parta verð ég strax að lýsa því yfir, og viðurkenna, að titillin negri var allt of hlaðinn fyrir mig í fyrstu. Ég var í sjokki þegar ég sá verkið fyrst og titil þess sem reynt hafði verið að fela. Ég hlammaðist í gólfið og stundi "Ásmundur, Ásmundur, - þú líka"!! Nú, eftir að ég hef náð mér að mestu, hef ég rannsakað málið og hef sætt mig við niðurstöðu Ólafar K. Sigurðardóttur safnstjóra, þótt vafasöm sé.
Styttan er nefnilega af flatbrjósta og skapastóru módeli, Bolette að nafni, sem sat fyrir á þriðja áratug 20. aldar á Académie Julien í París. Bolette, sem var fyllibytta, var ættuð frá Bordeaux. Hún var illilega hrokkinhærð og rauðhærð að auki. Hún var oft notuð sem módel í stað negra, því ekta negrar fengust engir til að sitja fyrir sem negrar. Negrar á þessum tíma voru of meðvitaðir um að þeir væru negrar til að þéna nokkra franka á því að sitja fyrir sem negrar. Þeir tóku hins vegar í harðærum að sér að sitja fyrir sem hánorrænt fólk, sem var sjaldséð í París.
Til að allar skoðanir komi fram í þessu alvarlega máli og ekki sé hallað að nokkurn mann, ber þess að geta að franski listfræðingurinn Alex Kuzbidon Negroponte hefur bent á að nemendur á Académie Julien hafi alls ekki haft aðgang að fyrirsætum og hafi unnið skólaverkefni sín eftir minni eða skissum sem þeir gerðu á götum og á hóruhúsum Parísarborgar. Ýmislegt virðist benda til þess að prófessor Alex Kuzbidon Negroponte hafi ýmislegt til síns máls að leggja. Fótleggirnir á negra Ásmundar Sveinssonar eru greinilega íslenskir og typpið er allt allt of lítið til að vera svart. Líklega er það líka íslenskt. Skyldi Ásmundur hafa notað líkama sinn til að gera þennan skúlptúr (styttu)?
Ólöf K. Sigurðardóttir í Ásmundarsafni á hrós skilið fyrir að hafa unnið fyrir launum sínum. En þrátt fyrri allar þær raunir og svefnlausu nætur sem hún hefur upplifað, áður en hún ákvað að negrinn mætti áfram vera negri, verður hún ugglaust sæmd nafnbótinni kúkur mánaðarins af skólastjóra Trommuskóla Waages og hálfbróður hans gyðingahataranum Gunnari. Jafnvel Ásmundur Sveinsson gæti fengið hinn vafasama titil koprolítur 3. áratugar 20. aldar, því allir geta séð að Ólöf segir sannleikann:
Stytta Ásmundar Sveinssonar er líklegast af negra. Þeir sem ekki eru á ofskynjunarlyfjum og sjá nýju fötin keisarans í stað berrassaðs negra, eða segja sannleikann og voga sér að horfast í augu við hann, eiga líkt og Ólöf á hættu að verða kúkar og fá mynd af sér setta upp í rassboruna á asna trommuskólans.
![]() |
Breyta ekki nafni verks Ásmundar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt 1.7.2020 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Julius A. Leibert, fyrsti rabbíninn á Íslandi
10.4.2017 | 15:44
Fyrsta trúarathöfn á Íslandi eftir að kristinn siður var upp tekinn á Íslandi árið 1000, var haldin rúmlega 941 árum eftir formlega kristnitöku á Alþingi. Það var trúarsamkoma gyðinga og það þurfti heimsstyrjöld til að ný trú væri iðkuð í þessu menningarlega einsleita landi okkar.
Að öllum líkindum kom fyrsti rabbíninn sem stýrði trúarlegri athöfn á Íslandi á vegum Bandaríkjahers til Íslands. Það var á haustmánuðum 1942. Hann hét Júlíus Amos Leibert og var nokkuð merkilegur karl og talsmaður nútímalegs gyðingdóms, reformed Judasism. Þó Leibert hafi aðeins komið tvisvar eða þrisvar til Íslands er nokkuð öruggt að hann sé fyrsti rabbíninn sem þjónaði söfnuði gyðinga á Íslandi. Þykir mér því ærin ástæði til að minnast hans, því hann var á allan hátt mjög merkilegur maður.
Zelig Lebedko fæddist i Litháen
Julius Amos Leibert fæddist ekki sem Bandaríkjamaður. Hann var eins og margir í aðrir Bandaríkjamenn fátækur innflytjandi í hinu stóra landi. Innflytjendur leituðu þangað til að bæta kjör sín og á stundum til að forða sér frá ofsóknum og vísum dauða vegna ofsókna í heimalandi sínu.
Leibert fæddist í Litháen þann 20. mars árið 1888. Sumar heimildir herma þó að hann hafa fæðst þegar árið 1885; Og að hann hafi með vilja verið yngdur í skjölum til að eiga betri möguleika að því komast til Bandaríkjanna. Er Julius fæddist, heyrði Litháen undir rússneska keisaraveldið.
Julius Leibert var ekki það nafn sem þessum fyrsta rabbína á Íslandi var gefið á Lithaugalandi. Drengnum var gefið hið gyðinglega nafn Zelig, og ættarnafnið var í rússneskum stíl, Lebetky, en um aldamótin 1900 var hann einnig skráður sem Zalkan Lebedko (Lebedky og einnig Lebedkin sem eru nöfn sem afleidd eru af ha Levi).
Zalkan fæddist í bænum Kedainiai, litlum bæ sem gyðingar kölluðu Keidan á jiddísku. Keidan er ekki mjög langt frá Kaunas, sem gyðingar kölluðu þá Kovno (sjá grein um frægðarför mína í þeim bæ hér).
Nafn Lebedky-ættarinnar hefur að öllum líkindum einnig verið skráð á litháísku, þegar hún var leyfð sem tungumál í Kedainiai. Um það leyti sem Zelig fæddist lögðu Rússar blátt bann við notkun litháísku. Menn voru fangelsaðir eða myrtir, prentuðu þeir svo mikið sem stafkrók á því máli.
Foreldrar Zalkans Lebedkos voru þau Chaim HaLevi Lebedky (ca. 1851-1936), sonur Itzik HaLevi Lebedkys (1806-1888), sem var sonur Dov (Berel) HaLevi Lebedkys (1751-1806). Móðir hans var Leya eða Ley (Leah), fædd Weintraub (1848-1902). Móðir Zelig Lebedky dó úr krabbameini í maga árið 1902 og Chaim andaðist skömmu síður. Árið 1904 flutti Zalkan/Zeug til Bandaríkjanna ásamt 6 systkynum sínum. Systkynin hétu Morris, og systurnar hétu (Fanny) Feige Elle sem síðar giftist Weinstein. Aðrar systur voru Bluma Magil, sem flutti til Kanada, Esther Feldman sem bjó í New York, Rachel Sager og Molly Moskowitz sem bjuggu í Los Angeles.
Í Bandaríkjunum breytti Lebetky hinn ungi, líkt og margir í hans sporum, um nafn og hét upp frá því Julius Amos Leibert. Systkini hans tóku einnig þetta nýja nafn. Rabbí Leibert sagði síðar sjálfur frá, að Leibert-nafnið hefði hann tekið til að fagna því frelsi, Liberty, sem honum hlotnaðist í Bandaríkjunum. Leibert líktist Liberty að hans mati
Samkunduhúsin í Kedainiai
Þegar Zalkan/Julius fæddist, voru margar synagógur, bænahús og gyðinglegir skólar í Kedainiai. Sjö bænahús á seinni hluta 19. aldar. Meirihluti íbúa bæjarins í lok 19. aldar voru gyðingar. Gyðingar settust fyrst að í bænum á 17. öld og bærinn varð mikilvæg trúarmiðstöð og lærdómssetur, og ekki aðeins fyrir gyðinga. Skoskir mótmælendur settust þar einnig að. Í dag eru varðveittar tvær fallegar byggingar frá 19. öld í Kedainiai sem fyrir helförina voru samkunduhús. Þau eru i dag notuð sem söfn bæjarins. Kaidan var einnig þekkt fyrir framleiðslu sína á agúrkum (súrsuðum gúrkum) og var bærinn og næsta nágrenni helsti framleiðandi agúrka í baltnesku löndunum.
Fyrir 1920 hafði gyðingum fækkað mjög í Kedainai. Margir trúaðir gyðingar flýðu þangað frá Póllandi og Hvíta Rússlandi árið 1939, en eftir að Þjóðverjar komu til bæjarins í lok júní 1941 myrtu þeir fram til ágústbyrjunar sama ár 325 gyðinga í bænum. Aftökurnar fóru fram í tveimur skógum umhverfis bæinn og það með dyggri hjálp margra heimamanna. Þeir gyðingar í Kedainai sem eftir lifðu og sömuleiðis 1000 gyðingar frá minni þorpum í nágrenninu voru myrtir við ána Smilaga. Þar var fólkið látið grafa skurði, sínar eigin grafir. Það var skotið á staðnum, lík þeirra rænd og síðan heygð í skurðunum.
Gyðingum í Keidainai smalað saman til aftöku
Það verður því að viðurkennast að Helförin heppnaðist vel í Litháen með dyggum stuðningi heimamanna. Á okkar tímum dýrka margir Litháar morðingjana sem þjóðhetjur og er af því MIKIL SKÖMM þegar þeir þramma árlega um götur stærstu bæja Litháens með fullu leyfi yfirvalda. Breytt hefur verið um nöfn á götum og þær hafa á síðari árum fengið nöfn gyðingamorðingjanna.
Vinsæll rabbíni á faraldsfæti
Ferill Leiberts sem rabbína í Bandaríkjunum var mjög langur og spannaði allt frá 1915 fram yfir 1960. Maðurinn var mikill vinnuþjarkur og gat í raun aldrei sest í helgan stein.
Julius A. Leibert stundaði nám að kappi í landi möguleikanna. Framhaldsnám stundaði hann við Hebrew Union College i Cinncinati í Ohio undir prófessor Julian Morgenstern. Morgenstern var einn af af fremstu guðfræðingum og stofnendum Union of American Hebrew Congregations (UAHC), hreyfingu sem síðar var kölluð Union for Reform Judaism (URJ) . Julius Leibert lauk rabbínanámi sínu árið 1915, en fyrir utan guðfræðinámið lagði hann stund á laganám. Smá hlé urðu á náminu vegna herþjónustu Leiberts í fyrri heimsstyrjöld. Hann þjónustaði sem rabbíni í bandaríska hernum, en fór þó aldrei til átakasvæða í Evrópu.
Fyrsta embætti hans eftir þjónustu í hernum sem rabbíni mun hafa verið við Beth El samkunduhúsið í Scott, South Bend i Indiana og síðar Aavath Shalom söfnuðinum í Indianapolis.
Julius Leibert kvæntist árið 1919. Kona hans hét Leona Goodmann (1896-1971),
Um þrítugt fékk hann embætti við nýtt samkunduhús, Emanu-El í borginni Spocane i Washingtonfylki, þar sem honum var mjög vel tekið og honum og konunni var gefinn bíll árið 1920 sem þakklætisvottur fyrir vel unnin störf. Ferðuðust hjónin vítt og breitt í bílnum um vesturhéruð Bandaríkjanna.
Leibert lét mikið til sín taka í Spokane, m.a. við byggingu nýs samkunduhúss og var mjög virkur í starfi fyrir ungmenni. Hann lét einnig í sér heyra opinberlega og oft þurfti á því að halda því á þessum slóðum var mikið gyðingahatur sem aðrir Evrópumenn, þ.á . m. lúterskir Svíar höfðu flutt með sér í ríkum mæli frá gamla landinu. Í Spokane starfaði Leibert frá 1919 til 1923.
1923 til 1928 þjóðnaði Leiberts í Temple Israel á Langasandi (Long Beach) í Kaliforníu og um tíma í Temple Emanuel í Los Angeles.
Í lok árs 1930 var Leibert tilnefndur kapellán fyrir Hollywood Legion 43, sem var 43. deild í American Legion sem eru samtök fyrrverandi hermanna. Þessi deild var talin ein stærsta deild herdeildarinnar. Sem meðlimur af varaliði yfirmanna þótti hann efnilegastur til að gegna þessari heiðursstöðu.
Leibert starfaði einnig í CCC, Civil Conservaton Corps, þar sem ungmenni fengu nytsama vinnu við ýmsar framkvæmdir í hinu mikla atvinnuleysi 4. áratugarins. Leikarinn Walther Matthau mun eitt sumar sem unglingur hafa verið í vinnu ungra gyðinga undir stjórn Leiberts og fór leikarinn frægi fögrum orðum um það sumar. Myndin hér fyrir neðan er frá haustinu 1935 er Leibert stjórnaði nýjárshátíð fyrir gyðinga sem unnu fyrir CCC. Nokkrir kollegar Leiberts úr prestastétt bandaríska hersins tóku einnig þátt. Leibert er annar frá vinstri.
Árið 1933 venti Leibert sínu kvæði í kross og starfaði mestmegnis um tíma sem lögmaður í Los Angeles og oftast fyrir lítilmagnann. En svo braust síðari heimsstyrjöldin út og Leibert fór aftur í búning kapelánsins (chaplain) í Bandaríkjaher.
Til Íslands kom Leibert árið 1941
Julius Amos Leibert var Army Chaplain og major að tign frá 1940 og síðar lieutenant colonel og starfaði hann í Bandaríska hernum fram til síðla sumar 1945. Hann ferðaðist víða innan Bandaríkjanna sem og og utan á stríðárunum, og meðal annars til Íslands. Til Íslands kom hann haustið 1942. Til að byrja með höfðu gyðingar í herjum Breta og Bandaríkjamanna ekki með sér rabbína (sjá hér og hér). Samkomur fóru fram undir stjórn kantora eða þeirra sem best voru að sér í helgisiðum gyðingdóms.
Ýmsar heimildir eru til um komu hans 1942 er hann stjórnaði nýárshátíð (Rosh Hashanah) og friðþægingadegi (Jom Kippur), en þó helstar þær upplýsingar sem fram koma í blaði Bandaríkjahers The White Falcon. Skemmtilegustu lýsinguna á fyrstu heimsókn Leiberts er hins vegar að finna í Wisconsin Jewish Chronicle 23. október 1942 í dálki Boris Smolin, Between YOU and ME:
And here ar regards from the Jewish boys in Iceland and Greenland - Chaplain Major Julius Leibert of the U.S. army, who is stationed at Jefferson Barracks, St. Louis, Mo., has just returned from a special overseas mission. - He conducted services in Iceland on Rosh Hashanah and Yom Kippur. - More than 800 Jewish soldiers attended these services, among them, at least 40 officers and men of the RAF - On his way back from Iceland, Major Leibert conducted services for Jewish soldiers in Greenland and Labrador. - This is perhaps the first time in recorded history that organized Jewish services have been held in these far-flung northern outposts. In Iceland Major Leibert found two Jewish families, one of the refugees.
Yfirmaður herja Bandaríkjanna á Íslandi, Charles Bonesteel heimsótti söfnuð gyðinga á Íslandi haustið 1942. Myndin byrtist í The Daily Times Tribune i Alexandria í Indiana í december 1942. Maðurinn með gleraugum til hægri við hershöfðingjann er enginn annar en Julius Leibert.
Sama mynd, en óskorin í The Edwardsville Intelligencer (Edwardsville, Illinois), 18, maí 1944. Sjá einnig Morgunblaðið.
Árið 1943 tók rabbíni að nafni William H. Rosenblatt við trúarhaldi meðal gyðinga á Íslandi og síðar starfaði á landinu rabbíni sem hét Abraham Goldstein. Oft tóku flóttamenn af gyðingaættum, sem fengið höfðu að setjast að á Íslandi í lok 4. ártugarins, að taka þátt í þeim samkomum. Einn þeirra sem mest kom til bænhalds og stærri hátíða var Hans Mann. Hans (síðar Hans Jakobsson) fékk og notaði lengi bænabók (siddur) sem Bandaríkjaher gaf út á stríðsárunum. Fjölskylda íslenskrar konu Hans hefur vinsamlegast leyft mér að nota mynd af bókinni sem er nú í þeirra eigu.
Gyðingar hittust til bænahalds á ýmsum stöðum í Reykjavík og nágrenni borgarinnar. Í White Falcon árið 1945, má sjá ýmsa staði: 6. mars 1946 var t.d. bænahald í Finley skála (Day Room) kl. 11.00. Á þriðjudegi var guðsþjónusta í Davis Theater kl. 18.00, White Rose Hall Theater í Reykjavík klukkan 19.30 og í Turner Kapellu sömuleiðis kl. 19:30. Laugardaginn 10. mars var guðsþjónusta á skrifstofu rabbínans í Dailey-bragga kl. 11:00.
Áður en Leibert kom til landsins, sá Benjamin Feldman um að all færi sómasamlega fram.
Gyðingar og Henrdik Ottósson árið 1945.
Leibert, annar frá vinstri í aftari röð, á ráðstefnu rabbína í hernumvið Harvard háskóla í maí 1943.
Eftirstríðsárin
Eftir síðari heimsstyrjöld þjónaði Leibert í ýmsum söfnuðum í Bandaríkjunum, bæði í föstum stöðum og í afleysingum. Hann var í Pensacola í Florída (1951-1954), síðar í Anchorage í Alaska, San Luis Obispo, Eureka og San Rafael (1956-57) og Santa Cruz (1957-58) í Kaliforníu.
Júlíus og kona hans settust um tíma að í Marin County árið 1956 og byggðu þar upp söfnuðinn Rodef Sholom og hann kenndi einnig trúarbragðasögu við menntaskóla í Marin. En þar staldraði hann heldur ekki lengi við, þótt meiningin hefði verið að setjast þar að og njóta ævikvöldsins. Önnur og ný verkefni biðu ávallt þessa eldhuga.
Fangelsispresturinn Leibert 1954-57
Julius Leibert tók árið 1954 að sér sálusorgarstörf fyrir gyðinga sem voru fangar í San Quentin fangelsinu. Hann gegndi einnig störfum sem kapellán í fangelsunum í Folsom og Alcatraz, og þar fyrir utan þjónaði hann á flugstöð hersins í Hamilton (Hamilton Air Force Base).
Störf Leiberts sem fangelsisprests voru mjög athyglisverð og honum var mjög annt um réttindi fanga sem bandarísk yfirvöld reyndu að brjóta á og niður. Árið 1957 sagði hann starfi sínu lausu við San Quentin fangelsið. Það gerði hann vegna þrýstings frá yfirvöldum. Hann var einn þeirra Guðs manna sem neitað harðlega að gangast undið lygamælapróf. Yfirvöld vildu að sálusorgarar í fangelsum létu upplýsingar í té sem fangar hefðu hugsanlega trúað prestum sínum fyrir. Julius Leibert lét þá þessi orð falla við brottför sína úr fangelsiskerfinu:
"If the word of a man of God is not enough - be he rabbi, priest or minister - he might just as well take of his clerical gown and bury them".
Hann sagði enn fremur:
"I resent the thought of having mechanical means testing my credibility".
Leibert skrifaði með hjálp Emily Kingsbery bókina Behind Bars, What A Chaplain Saw in Alcatraz, Folsom & San Quentin . Bókin, sem kom út árið 1965, sýnir verk og hugsanir manns sem mat öll mannslíf jafnt og dæmdi ekki menn æðsta dómi þegar þeir höfðu þegar verið dæmdir brjálæðislega löngum og hörðum dómum í hinu miður réttláta og jafnvel sjúka réttarkerfi BNA, þar sem vísvitandi hefur verið trampað á rétti minnihlutahópa þjóðfélagsins; kerfi sem fleiri og fleiri Íslendingar virðast þó aðhyllast.
Að loknum störfum í þágu fanga, þjónaði Leibert söfnuði í Santa Cruz, en gat þegar hann "komst á aldur" fyrir enga muni sest í helgan stein. Hann hóf nú að leiða guðsþjónustur í Reno í Nevada. Hann var fyrstur rabbína nýs safnaðar í þeirri borg. Árið 1964 gaf hann söfnuðinum (Temple Sinai) sína eigin Torahrúllu, sem er enn notuð. Mark Davis uppeldissonur Sammy David jr., (sem tekið hafði gyðingatrú eftir bílslys), las upp úr er hann var fermdur (Bar mitzvah) í Reno árið 1973. Um Nevada skrifaði Leibert, sem var maður andlegs frelsis: Nevada is the only state that has shed hypocrisy by allowing liberal attitudes.
Leibert með fyrsta bar mitzva-drengnum (fermingabarninu) í Temple Sinai íReno 1964. Hann heitir Stephen Jaffe og býr enn í Reno.
Julius Leibert andaðist árið 1968 og hvílir við hlið konu sinnar Leonu í grafreit gyðinga á Hills of Eternity Memorial Park í Colma, San Mateo County í Kaliforníu.
Höfundur: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, í apríl 2017
Fyrri færslur um fyrstu samkomur gyðinga á Íslandi:
Fyrstu trúarsamkomur gyðinga á Íslandi
The first Jewish services in Iceland 1940-1943
Þakkir/Thanks: to Josh and Jeff Weinstein, New York.
Gyðingar á Íslandi | Breytt 18.2.2020 kl. 07:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Afar líkleg strýtulausn
9.4.2017 | 13:39
Mér bárust þessar línur frá Birni Hólmgeirssyni fyrrverandi starfsmanni Orkuveitu Húsavíkur:
Sæll Fornleifur.
Sendi þér mínar hugmyndir um karlinn í strýtunni. Ekki þekki ég manninn, en mér finns ég kannast við umhverfið. Þessar myndir eru trúlega teknar 5-6km í vest-suð vestur af Laxamýri í Aðaldalshrauni. Á mynd nr. 2 blasir við fjallgarður sem ég tel að séu Kinnarfjöll. Bogamyndaða fjallið á bak við borgina er fjallið með 3 nöfnin. Galti, Bakrangi og Ógöngufjall. Skessuskál til vinstri við manninn og Nípá fellur þar niður gilið. Til hægri á myndinni sést Skálahnjúkur gnæfa yfir fjallsbrúnina. Á 3 myndinni er horft til baka í austur og önnur hraunborg notuð. Heiðin á bak við er Hvammsheiði sem endar í Heiðarenda á bak við borgina. Undir heiðinni glittir í Laxá, þar sem hún rennur til sjávar skammt norðan við Laxamýri.
Hugleiðingar Björns Hólmgeirssonar, Hóli á Tjörnesi.
Með kveðju að norðan.
Mér þykir tillaga Björns Hólmgeirssonar mjög líkleg eftir að hafa litið á Örnefnakort Landmælinga og önnur kort. Sjálfur hef ég ekki komið þarna í áraraðir og aldrei gengið um hraunið. Maður á það eftir.
Líklegast gildir sú regla enn, sem manni voru innprentaðar í prófum í gamla daga, að vera ekki að breyta neinu og stroka út á síðustu stundu. Myndin í York frá 1893 var fljótlega útbúin eftir leiðangur Tempest Andersons til Íslands. Þetta var mynd í röð skuggamynda og þeim fylgdi fyrirlestur, sem Anderson hélt vítt og breitt á Bretlandseyjum. Bókin sem nefnd var í síðustu færslu var hins vegar fyrst birt árið 1903 og á 10 árum hefur eitthvað getað skolast til hjá höfundi eða útgefanda.
Þangað til aðrar betri tillögur berast, heldur Fornleifur sig við upphaflega skýringu á staðsetningu strýtunnar (nærri Laxamýri) og nú hina nákvæmari skýringu Björns Hólmgeirssonar. Færi ég Birni mínar bestu þakkir fyrir upplýsingarnar. Það er ávallt gaman að sjá að margir lesa Fornleif og hugleiða málin með honum þegar hann veður í villu.
Sjá fyrri færslur um ljósmyndirnar hér og hér.
Bloggar | Breytt 16.2.2021 kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjar fregnir af karlinum í strýtunni
8.4.2017 | 09:31
Bergþóra Sigurðardóttir, sem er læknir á eftirlaunum og mikill áhugamaður um náttúru landsins, ritaði Fornleifi snemma í dag og gerði viðvart um mynd af sama manninum sem ritað var um hér á Leifi í febrúar á sl. ári.
Í merkilegri bók Tempest Andersons, Volcanic Studies in many Land frá 1903, sem Bergþóra hafði lesið, bregður sama rauðhærða manninum fyrir á mynd (sjá hér efst). Það er þó ekki sama myndin sem varðveitt hefur verið á safni í York, og sem skrifað var um hér á Fornleifi í fyrra.
Nú er sömuleiðis ljóst að upplýsingin við skuggamyndina sem varðveitt er í Jórvík er röng. Myndin getur á engan hátt hafa verið tekin nærri Laxamýri. Enda kemur fram í bók Andersons frá 1903, að ljósmyndin af rauðhærða karlinum í strýtunni sé tekin norðvestur af Mývatni.
Ég þakka Bergþóru Sigurðardóttur innilega fyrir upplýsingarnar. Vona ég svo að áhugasamt fólk leiti nú uppi þessar strýtur og hugsi út í það hver karlinn á myndinni hafi verið. Ef til vill var þetta vinnumaður séra Árna Jónssonar (1849-1916) á Skútustöðum sem einnig var í för með Tempest Anderson á þessum slóðum. Hvað hét karlinn í strýtunni? Allar ábendingar eru vel þegnar.
Ljósmyndafornleifafræði | Breytt 16.2.2021 kl. 10:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Brotasilfur - óáfallið
31.3.2017 | 13:23
Í þessari færslu má sjá tvær stórmerkar ljósmyndir sem finna má á vef Héraðsskjalasafns Austurlands. Hér bograr Kristján Eldjárn yfir silfursjóð sem fannst austur a landi, óáfallinn, árið 1980. Eldjárn þótti vitaskuld, sem eins konar fornleifafræðingi, furðulegt að sjóðurinn kæmi óáfallinn úr jörðu. Það þykir flestum reyndar enn í dag. Ég held að menn séu hættir að leita að skýringum. Það er svo óþægilegt.
Hér má lesa aðrar greinar Fornleifs um þennan sjóð:
Det ville som sagt være meget beklageligt for skandinavisk arkæologi... (2011) Greinin er ekki á dönsku.
Hvar er húfan mín? (11.12. 2012; sjá síðustu athugasemd neðst)
"Miklu betri en Silvo" (16.12.2012)
Moldin milda frá Miðhúsum er horfin (4.1.2013)
Hvað fær maður fyrir silfur sitt ? (13.4.2013) Í þessari grein birtist eftirfarandi frásögn:
Auðun H. Einarsson segir frá (1.5. 1997, sjá færslu dags. 13.4.2013)
Neðri myndin af vef Héraðssafns Austurlands er unaðsleg ljósmynd af finnandanum og syni hans. Gleðin skín úr augum þeirra. Ekki þótti finnandanum fundarlaunin góð, en síðar var bætt úr því fyrir tilstuðlan þingmanns eins frá Snæfellsnesi og skálds í Reykjavík, sem er sonur fyrrverandi forseta Íslands.
Eldjárn | Breytt 23.5.2021 kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
They are back!
29.3.2017 | 23:12
According to the Icelandic press (links a; b; c and d) the new British Ambassador to Iceland, Michael Nevin, twitted about a large yellow casket which he recently received from London. Yesterday Mr. Nevin revealed to the Icelandic public the contents of the big box. In the casked were two oil paintings from 1790 with Icelandic motifs.
The yellow box containing the two paintings has arrived under the curious eyes of Jón Stefánsson Milkmaid (1921). The photography on the Edwardian dresser is of Ambassador Nevin after having delivered his Diplomatic credentials to the Icelandic president Guðni Th. Jóhannesson.
The two paintings, used to hang in the British Embassy in Reykjavík, but were sent to London some 10 years ago for repair at the Government Art Collection GAC (not the National Gallery like the Icelandic media reported). Before they were returned to Reykjavík last week, they went on exhibition in the Whitechapel Gallery in London, as well as in Birmingham and Ulster. For a while, the painting ornated the walls of the Department for Environment, Food & Rural Affairs, at Nobel House, Smith Square in London. But now they are back "home", where they are appreciated more than at an odd meeting on Fine British food and rural affairs, i.e. The Naked Cook and River Cottege.
GAC 4822: The New Geyser, (Icel. Strokkur) a geysir which awoke after an earthquake in 1789. It lost its power in 1896 to reawake in 1963.
The Paintings, showing the famous Icelandic hydrothermal feature Geysir as well as Strokkur in Haukadalur S-Iceland, are entitled The Great Geyser (GAC 4821)and The New Geyser (GAC 4822). They were painted by Edward Dayes (1763-1804), seen here to the left, who was a well known London artist albeit mostly known for his watercolours.
In May 1789, encouraged by the naturalist and patron of science Joseph Banks, John Thomas Stanley (later first Baron Stanley of Alderley) set off from Leith on an expedition to Iceland. His intention was to research the island with his team of 26 experts and assistants. He returned with a collection of dried plants and numerous sketches drawn by Stanley himself or by other crew members. Edward Dayes and Nicholas Pocock were then commissioned to prepare completed drawings and etchings from these amateur studies. Both of the paintings that have now been returned to the UK embassy in Reykjavík base on sketches by the Stanley-expedition skilful draftsmen, and are quite similar to stone-prints made from the same drawings (see below). (See here for more information on Forleifur about Stanley in Iceland)
In 1958 the paintings were bought at a Christie's auction in London from a private collection. They were were bought by Frank T. Sabin Art Dealers in Shaftesbury Avenue, London for the Ministry of Works. After the auction in November 1958 they were listed by the British government Art Collection as:
'The Property of a Nobleman'; by whom sold through Christie's, London, 'Pictures by Old Masters' sale, on 28 November 1958
(Lot 97), as 'The Great Geyser' and 'The New Geyser, Iceland'.
Let us hope that the paintings will hang in the British Embassy in Reykjavík for a long time to come. They are such an important source to Icelandic life in the late 18th century, in an age when Iceland hardly had a painter, except for the autistic Sæmundur Hólm (see here and here in Icelandic), who drew or painted fictive Icelandic motifs which he sold to Danish patrons. Later this year, I hope to take a closer look at the two paintings in the British Embassy in Reykjavík, if I may.
Here are some interesting details from two of the two paintings just returned back 'home': Have a look at the fantastic brass quadrant with a small telescope, fixed on a tripod. They don't make instruments like that anymore.
Thanks: The author would like to thank Andrew Parratt, curator at the GAC in London, for helpful information.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, March 2017.
Gamlar myndir og fróðleikur | Breytt 8.4.2017 kl. 12:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Njósnarar og dátar í stórborginni - hvað annað?
20.3.2017 | 10:15
Heljarmennið Egill Helgason er alltaf að pæla eitthvað í óttalegri fáfræði sinni, en vill þó helst alltaf hafa á réttu að standa. Nú brá svo við um daginn að hann vissi í það sinn ekki svarið við spurningu sinni. Slíkt kemur óvenju sjaldan fyrir Egil (sjá hér).
Egill vildi láta segja sér hvaða dularfulli maður gekk inn í mynd af þýskum dátum fyrir utan Hótel Borg árið 1934. Besta tillagan sem borist hefur Agli er að það hafi verið skákmaðurinn Ásmundur Ásgeirsson, sem þó var aldrei eins hávaxinn og maðurinn sem gekk aftan við þýsku dátana árið 1934.
Frank le Sage de Fonteney um 1920, ekki ósvipaður manninum á myndinni frá 1934 - eða spæjara í síðari tíma 007 kvikmyndum.
Ég fór að hugsa málið, sem ég get ekki upplýst Egil Helgason um, því hann hefur síðan 2005, er hann fór með dónaskap og ósóma um mig á Silfrinu meinað mér að gera athugasemdir hjá sér.
Ekki Ásmundur skákmaður
Þetta er öruggleg ekki Ásmundur Ásgeirsson, hugsaði ég með mér, en hugsanlega Frank le Sage de Fonteney sendiherra Dana á Íslandi, sem var mjög hávaxinn maður. Hann hafði töluverðar áhyggjur af veru Þjóðverja á Íslandi og sendi margar skýrslur til Kaupmannahafnar um það. Honum var þó örlítið í blóð borið að dramatísera hlutina. Var Frank kvæntur Guðrúnu Eiríksdóttur, sem áður hafði verið gift dönskum manni, Tage Møller, og átti með honum Birgi síðar ráðuneytisstjóra.
Einnig er til í dæminu, að Frank sendiherra hafi verið þarna staddur til að njóta góða veðursins á einum mesta menningarpunkti heimsþorpsins sem hann var sendiherra í. En við nánari eftirgrennslan er ég nær viss um að þarna spígspori sendiherrann ekki, því Frank var 54 ára árið 1934 og miklu karlalegri en maðurinn á myndinni. Með því að skoða skó kauða sá ég strax að hann er í sams konar skóm og dátarnir. Þess vegna tel ég líklegra að sá hávaxni hafi verið skipverji á Kreuzer Leipzig, hugsanlega yfirmaður, sem fengið hefur að fara í bæinn óeinkennisklæddur.
Var hann njósnari? Hvað var svo sem að njósna um árið 1934? Mikilvægi Íslands kom ekki fyrr en með NATÓ.
Ég á reyndar til afrit af sumum bréfum sendiherrans Frank le Sage de Fonteney um Þjóðverja til yfirvalda í Kaupmannahöfn og ekki er laust við að sendiherrann af greifaættunum hafi verið dálítill spæjari, þegar hann var ekki í útreiðartúr með íslenskum hrossapröngurum. Hér má lesa meira um hollenska ljósmyndarann Wim van de Poll og samferðakonu hans Anitu Joachim.
Danski sendiherrann var reyndar líka fyrir utan Hótel Borg
Til upplýsingar Agli og öðrum má greina frá því að til er önnur mynd af dátunum frá Kreuzer Leipzig, þar sem þeir koma úr suðurátt og hafa þá líklega verið búnir að hrista Frank sendiherra af sér og gefa öndunum. Kannski fór Frank inn á Borg og fékk sér kaffi og líkjör. En þar sem Egill hafði myndina sem hann birti á Silfrinu í sl. viku úr borunni á einhverjum Lemúr, er nú ekki nema von að hann sé ekki nægilega vel upplýstur. Hins vegar tel ég víst að sendiherrann sitji lengst til hægri á myndinni hér fyrir neðan. Hann gekk stundum með baskahúfu, enda franskur húgenotti að ætt. Mynd, þar sem hann er með slíka húfu, birtist t.d. af honum í íslenskum og dönskum blöðum árið 1939.
Gamlar myndir og fróðleikur | Breytt 26.12.2022 kl. 09:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)