Færsluflokkur: Fornminjar

Stolnir gripir og rangar upplýsingar

Stolen from Iceland in NM Copenhagen

Í framhaldi af færslu minni í gær, sem fjallaði um algjört umkomuleysi og aumingjahátt íslenskrar minjavörslu og ráðuneyti hennar er Unnur Brá Konráðsdóttir bað menntamálaráðherra um svar um fornminjar frá Íslandi í erlendum söfnum, langar mig að upplýsa, að sumt þeirra gripa sem nú er að finna á Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn var hreinlega stolið á Íslandi

Það á til dæmis við um ljósahjálminn (NM D 8073) úr Hvammskirkju (sjá t.d. hér) sem Daniel Bruun seldi Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn fyrir 300  krónur árið 1912. Það gat hann ekki samkvæmt íslenskum fornleifalögum frá 1907, sem sögðu til um að Forngripasafnið í Reykjavík hefði forkaupsrétt af öllum forngripum. Kapteinn Bruun rændi því forngripum á Íslandi og seldi Þjóðminjasafni Dana, sjálfum sér til vinnings.

Þegar þetta kom til umtals á milli mín, Olaf Olsens fyrrverandi þjóðminjavarðar og Þórs Magnússonar á þingi Þjóðminjavarða Norðurlandanna árið 1995, og ég sagði frá áformum Guðmundar Magnússonar setts þjóðminjavarðar að reyna að fá þennan og aðra gripi til Íslands, þá lýsti Þór Magnússon Guðmundi sem öfgamanni og taldi það af og frá að við ættum að biðja Dani um íslenska gripi í Kaupmannahöfn. Danski þjóðminjavörðurinn varð mjög undrandi á Þór, en vildi náttúrulega ekki missa íslensku gripina, þótt stolnir væru.

Svör Þjóðminjasafns Íslands eru fyrir neðan allar hellur

Ekki er var nóg með að þegar Unnur Brá Konráðsdóttir bað um upplýsingarnar, að hún fengi þær ónógar og aðeins það sem Matthías Þórðarson fyrrv. Þjóðminjavörður skráði þegar í byrjun 20. aldar(sjá hér). Nokkrir íslenskir gripir í Kaupmannahöfn fóru fram hjá Matthíasi og ég hef skrifað um þrjá þeirra í Árbók hins Íslenska Fornleifafélags árið 1984. Í skránni Sarpi er þess hvergi getið og þar tekur heiðurinn skrásetjarinn, Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir, en Matthías Þórðarson er sagður skrá hina gripina frá Íslandi í Sarpi. Matthías dó árið 1961, alllöngu áður en að Sarpur kom til.

Af hverju var ekki getið þess manns sem fann þá íslensku gripi sem Matthías fann ekki 70 árum fyrr?

innsigli Steinmóðs Ábóta
Ég uppgatvaði snemma á 9. áratug síðustu aldar, að á Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn væru til innsigli Jóns Arasonar prests (síðar biskups) og Steinmóðs ábóta í Viðey, sem hér sést.
 

Maðurinn, sem ekki má nefna í Sarpi, og sem uppgötvaði gripi frá Íslandi í Kaupmannahöfn sem höfðu farið framhjá glöggu auga Matthíasar, þarf hins vegar að bíða í marga daga eftir því að fá upplýsingar um einn einasta grip í Sarpi, því starfsmenn þjóðminjasafnsins álíta greinilega Sarp sína einkaeign. En hugsanlega er þessi ófullkomna og greinilega mjög svo ranga skrá bara síðasta vígi stofnanakarlakerfisins, sem á Þjóðminjasafninu verður víst að kalla stofnanakerlingakerfi vegna kynjahlutfallsins þar.

Það myndi létta öllum vinnuna, ef Sarpur yrði gefinn frjáls. Þessi skrá, sama hve ófullkomin og full af rangfærslum hún er, er eign þjóðarinnar, en ekki ódugandi starfsmanna Þjóðminjasafns Íslands, sem geta ekki veitt þær upplýsingar sem þeim ber að veita, þótt það ætti ekki að vera mikið mál.

Þess ber að geta, að Margrét Hallgrímsdóttir var ekki að biðja um stolna ljósahjálminn eða aðra illa fengna gripi á Nationalmuseet í Kaupmannahöfn, þegar hún var þar um síðustu mánaðamót.


Menntamálaráðuneyti gefur rangar upplýsingar um fornminjar

Skrín
 

Í fyrra lagði Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins fram fyrirspurn á Alþingi til menntamálráðuneytisins um íslenskar fornminjar í erlendum söfnum. Áhugi þingmannsins er ánægjulegur. Við erum mörg sem teljum að fágætir íslenskir forngripir, sem erlend ríki hafa t.d. lagt eign sína á, þó svo að Ísland sé ekki í lengur í ríkjasambandi við viðkomandi ríki, eigi aðeins heima á Íslandi. Líkneskjaskrínið hér að ofan, sem er frá 13. öld, er t.d. að finna í Þjóðminjasafni Dana í Kaupmannahöfn, en var upphaflega eign kirkjunnar á Keldum á Rangárvöllum. Auðvitað á þetta skrín að vera á Íslandi og hefur ekkert að gera í Kaupmannahöfn.

Spurning Unnar hljóðaði þannig:

Á ráðuneytið skrá yfir íslenskar fornminjar varðveittar á erlendri grund og ef svo er, hvaða munir og minjar eru á þeirri skrá?

Ráðuneytið svaraði:

Samkvæmt þjóðminjalögum, nr. 107/2001, sem enn eru í gildi, eru fornminjar annars vegar fornleifar og hins vegar forngripir.  Þar sem fornleifar eru staðbundnar minjar eru engar íslenskar fornleifar til á erlendri grundu.
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið sjálft á ekki skrá yfir forngripi sem varðveittir eru á erlendum söfnum en slík skrá er hins vegar til í menningarsögulega gagnagrunninum Sarpi, www.sarpur.is. Langflestir gripir eru varðveittir á Þjóðminjasafni Dana og til frekari upplýsingar má sjá á fylgiskjali lista sem tekinn er úr Sarpi yfir þá forngripi sem þar eru skráðir. Eitthvað er til af munum á öðrum söfnum, þó í mun minna mæli.

Menntamálaráðuneytið (Þjóðminjasafnið) gaf ónógar og rangar upplýsingar

Unnur Brá hefur því miður ekki fengið tæmandi svör frá Menntamálaráðuneytinu sem hlýtur að hafa ráðfært sig við starfsmenn Þjóðminjasafn Íslands.

Listi sá sem  Unnur Brá hefur fengið í hendur í kjölfar fyrirspunar sinnar er alls ekki tæmandi. Fyrir utan fornleifar og forngripi í dönskum og sænskum söfnum, er þá að finna annars staðar í Danmörku, á Bretlandseyjum, Hollandi, Frakklandi, Noregi og víðar. Um marga þeirra gripa hefur verið ritað í Árbók hins íslenzka Fornleifafélags og annars staðar. En greinilega hefur enginn haft fyrir því að setja upplýsingarnar um þá í Sarp. Ég hef t.d. skrifað um einn íslenskan grip í erlendu safni í Árbókina (sjá hér). Það er áhyggjuefni að Þjóðminjasafnið hafi ekki gert góða skrá yfir íslenska forngripi og muni sem í erlendum söfnum.

Dýrabein voru flutt út af erlendum fornleifafræðingum í stórum stíl á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Fæstum þessara beina hefur verið skilað. Ég þekki til þess að stóru beinasafni frá Stóru-Borg undir Eyjafjöllum hafi verið fargað á öskuhaugum New York, m.a. vegna þess að umhverfisslys varð í byggingu þeirri þar sem stofnunin, sem var með beinin að láni, var. Ef einhver hefur áhuga á að rannsaka niðurstöður bandaríkjamannanna sem tóku að sér að rannsaka beinin, og lofuðu sömuleiðis að skila þeim, þá er það ekki hægt í öllum tilvikum.

hunterc
Á Hunter College í New York fór mikið magn dýrabeina úr fornleifarannsóknum frá Íslandi forgörðum, þar sem í byggingunni varð alvalegt mengunarslys. Prófessor Thomas H. McGovern sem var ábyrgur fyrir rannsóknum á þeim beinum getur gefið yfirvöldum nánari upplýsingar um það eða aðstoðarmenn hans á Íslandi, Guðmundur Ólafsson og Mjöll Snæsdóttir sem í fjölda ára kölluðu sig fornleifafræðinga án þess að vera það.

 

Menntamálaráðuneytið segir réttilega í svari sínu til þingsmannsins, að engar íslenskar fornleifar findust á erlendri grund. Þetta er ekki alls kostar rétt. Til eru í söfnum á Norðurlöndunum heimildir og frumgögn um samnorrænar rannsóknir á fornleifum sem fóru fram á Íslandi. Þessi gögn eru heldur ekki talin upp í Sarpi.

Ekki get ég séð annað en að dýrabein þau sem fóru forgörðum í Nýju Jórvík á 9. áratug síðustu aldar séu forngripir samkvæmt þjóðminjalögum (sem nú heita Lög um menningarminjar) - og þess vegna tel ég víst að þingmanni  hafi verið gefin röng svör og gegn betri vitund starfsmanna Þjóðminjasafnsins, en þar vinna enn menn sem aðstoðuðu við útflutning dýrabeina til rannsókna.

Sarpur tilheyrir þjóðinni en ekki starfsmönnum safnanna

Í bréfi sínu til Unnar Brár Konráðsdóttur nefnir Menntamálaráðherra Sarp, líkt og það sé einhver Mímisbrunnur. En það getur oft reynst ári erfitt að fá upplýsingar úr þeim brunni.

Í síðustu viku bað ég t.d. um upplýsingar um einn grip á Þjóðminjasafni Íslands. Gripurinn ber númerið Þjms. 635. Starfsmenn þar hafa alla möguleika til að svara um hæl, því þeir geta flett upp í Sarpi, gagnasafni sem Íslendingar hafa borgað fyrir með skattpeningum sínum. Svar við fyrirspurn minni um einn grip hef enn ekki borist, þó svo að starfsmennirnir séu með Sarp í tölvum sínum og gæti hæglega slegið Þjms. 635 inn, klippt og límt uppklýsingarnar í gagnagrunninum til mín um hæl.

Það er líklegast ekki nokkur vafi á því, að nú er kominn tími til að allir hafi aðgang að því sem þeir hafa borgað fyrir. Sarpur á ekki að vera einkaheimild stofnanna sem geta ekki einu sinni veitt réttar upplýsingar til þingmanna landsins.

Ég á ekki sem fornleifafræðingur að þurfa að bíða eftir upplýsingum úr Sarpi upp á geðþótta starfsmanna Þjóðminjasafnsins sem geta ekki einu sinni gert almennilega grein fyrir forngripum sem týnst hafa í tímans rás á Þjóðminjasafni, eða sýnum sem hafa horfið. Það er algjörlega óviðunandi.

KronefraSydisland b
Ljósahjálmur í Þjóðminjasafni Dana í Kaupmannahöfn. Hjálmurinn er frá 15. öld og tilheyrði eitt sinn íslenskri kirkju. Nú er hann í geymslu danska safnsins engum til gagns.

Stradivarius íslenskra langspila

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson langspil

Drengurinn á þessari ljósmynd er enginn annar en ritstjóri Fornleifs, Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, dekraður drengur úr vel stæðu raðhúsahverfi í austurhluta Reykjavíkur. Myndin var tekin vorið 1972. Ég er að leika á langspil sem ég smíðaði í skólanum með mikilli hjálp smíðakennara míns, Auðuns H. Einarssonar heitins.

Þessi grein er fyrsti hlutinn í safni upplýsinga um langspilið, sem ég mun setja hér á síðuna svo allir hafi aðgang að þeim upplýsingum.

Hvers konar börn smíða langspil?

Snemma beygðist hugur minn til flest þess sem gamalt er. Eftir því var tekið og drengurinn talinn frekar undarlegur. Hvaða 8 ára barn fer með eintak af gamalli og slitinni skólaútgáfu af Hávamálum upp í Öskjuhlíð í nestistösku sinni, og fer að lesa þau undir heitavatnstönkunum í sólinni án þess að skilja aukatekinn staf? Það gerði ég. Kennarinn tók af mér Hávamál og þetta einkennilega uppátæki kom til umræðu á næsta foreldrafundi. Ég varð snemma, allavega á 7. ári, heimagangur á Þjóðminjasafninu. Þangað fór ég tvisvar, stundum þrisvar í viku yfir vetrarmánuðina og hékk og skoðaði allt og las alla miða og alla bæklinga  og ræddi við gömlu gæslukonurnar, sem þótti gaman að tala við þennan fróðleiksfúsa strák, sem hafði Kristján Eldjárn í guða tölu. Gæslukonurnar á Þjóðminjasafninu, sem sumar hverjar voru ævafornar, urðu verndarenglar Fornleifs.

106616857_10222708385040612_3422861892052766868_n

Einn þeirra, sem tók eftir því hve undarlegur þessi drengur var, var smíðakennarinn minn í barnaskóla, sá ágæti maður Auðun H. Einarsson (1941-2009) en honum og minningu hans er þessi grein tileinkuð. Auðun kenndi mér smíði í  Æfinga- og tilraunadeild Kennaraskóla Íslands, sem í dag heitir Háteigsskóli. Þar kenndi Auðunn mér smíði frá haustinu 1969 til barnaprófs árið 1973. Auðun, sem margir þekkja fyrir smíðakennarastörf sín og vandaða smíðavinnu, sem og torfbæjabyggingar, var líka áhugamaður um allt fornt og sögu Íslands. Þar að auki var hann með hagari mönnum á Íslandi. Betri smíðakennara og smið gat maður ekki fundið.

Hin listagóða ljósmynd af Auðuni hér fyrir ofan er birt með leyfi fjölskyldu hans.

Gert upp á milli nemenda

Þótt að Auðun væri frábær kennari, varð honum einu sinni á í messunni. Hann gerði upp á milli drengjanna og bauð mér einum að smíða langspil og ekki öðrum. Líklega var það vegna þess að hann taldi mig geta valdið verkefninu. Hann þekkti hinn mikla forneskjuáhuga og teiknihæfileika, og hafði þar fyrir utan heyrt mig tala um langspil af miklum móð. Hann reyndi að haga því þannig til, að ég ynni eitthvað að verkefninu í skólanum, stundum á eftir tímum, en mest heima. Ég fór líka heim til hans vestur í bæ um helgar, þar sem hann var með lítinn bílskúr sem var fullur af smíðaefni.

Vitanlega hjálpaði Auðun mér mikið með smíðina á langspilinu. Hann treysti mér samt fyrir óhemjumiklu og það gerði þetta smíðaverkefni okkar afar ánægjulegt. En þetta skapaði auðvitað einnig öfund meðal sumra skólafélaganna. Einn bekkjafélaga minna, sem í dag er lögfræðingur, reyndi meira að segja að koma langspilinu fyrir kattarnef, þegar það var að mestu klárað.

Ég fór á Þjóðminjasafnið og fékk þar með leyfi þjóðminjavarðar að mæla langspil með bogadregnum hljómkassa sem þar var varðveitt og sem hefur safnnúmerið Þjms. 635. Ég fór í eitt skipti á safnið með bekkjafélaga mínum Eggert Pálssyni, sem nú er páku- og slagverkmeistari í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það var fyrsta eiginlega rannsóknarferð mín í fræðunum.

Ég hafði einnig samband við Önnu Þórhallsdóttur söngkonu sem lengið hafði reynt að efla áhugann á langspilinu og það gladdi hana, að heyra að strákpjakkur í barnaskóla væri að smíða sér slíkt hljóðfæri og ætlaði að leika eftir henni listina. Sjálf hafði hún látið smíða fyrir sig langspil eftir hljóðfæri frá 18. öld sem varðveitt er á Musikmuseet í Kaupmannahöfn (sem nú er hluti af Þjóðminjasafni Dana). Oft var Anna látin kyrja með sinni hástemmdu rödd og strjúka strengi langspilsins rétt fyrir hádegisfréttir í útvarpinu hér á árum áður. Ég mun brátt gefa lesendum mínum hljóðdæmi af hennar list. 

Þjms 365
Mackenzie Langspil
D130_1 lille
Efst er langspil á Þjóðminjasafni (Þjms. 635), en langspil dóttur Magnúsar Stephensens sem teiknað var árið 1810 í Viðey er fyrir miðju. Þessi hljóðfæri eru mjög svipuð og má telja næsta öruggt að sami maður hafi smíðað þau. Hljóðfæri mitt hefur þó reynst líkast mest því hljóðfæri frá 19. öld sem til er á Musikmuseet í Kaupmannahöfn (neðsta myndin) og sem upphaflega kom þangað árið 1915 úr búi dansks skólaumsjónarmanns (skolebetjent) sem Hans Peter Lyum hét (f. 1859; Hét upphaflega Nielsen) og bjó í Larslejestræde 9 í Kaupmannahöfn (allar upplýsingar um hann væru vel þegnar um þann mann og hvernig það kom til að hann átti langspil).

 

Ég mældi lengd og bil milli þverbandanna á gripbrettinu. Límingar, sögun, heflun og pússun hliðanna í hljómkassanum sá ég alfarið um, en Auðun hjálpaði náttúrulega með að líma saman gott tré í snigilinn og skera hann út,  skeyta saman og líma allt hljóðfærið. Eins og í fiðlu og gítar var hornlisti límdur til styrktar í innanverðum langspilskassanum. Auðuni og að útvega mahóní í gripbrettið. Ég náði í íbenholt fyrir lyklana (sem sumir kalla skrúfur eða stillingarpinna) og raspaði þá, þjalaði og pússaði eftir að Auðun hafði rennt sívalningana sem fara inn í snigilinn. Ég sá svo um lökkun og pússun. Eitt af því skemmtilegasta við þetta verkefnið, fyrir utan að heyra hljóminn þegar strengirnir voru komnir í, var að beygja eina hliðina. Það gerðum við heima hjá Auðuni yfir tvær helgar. Hliðin var mýkt með gufu og sett í koparklædda pressu sem Auðun hafði smíðað. Hliðin var svo lögð í pressu til að fá lags sitt.

Langspil 1 

»Eins og mjúkt selló«

Þegar langspilið mitt var tilbúið, fór ég með móður minni í hljóðfæraverslunina RÁN og keypti ýmsa strengi til að reyna í langspilið. Ég man þegar ég hrindi í Auðun til að láta hann heyra í gegnum símann hvernig hljóðfærið hljómaði. Auðun varð hinn ánægðasti og sagði kátur, »þetta hljómar eins og mjúkt selló«. Síðar fékk hann að heyra betur í hljóðfærinu.

Ég lék við tækifæri á langspilið, með fingrum og boga sem ég fékk að láni, en þó mest fyrir sjálfan mig. Ég spilaði þjóðlög og miðaldasmelli eftir eyranu en sjaldan fyrir áheyrendur. Hljómurinn í langspilinu var fallegur og dýpri og þýðari en í langspilinu á Þjóðminjasafninu sem var fyrirmyndin. Mér fannst sjálfum betra að heyra tóninn í mínu langspili en t.d. því sem Anna heitin Þórhallsdóttir spilaði öðru hvoru á í útvarpið. En það hljóðfæri var líka með bogadregnum kassa og var gert eftir hljóðfæri sem var frá 18. öld og sem nú er varðveitt á Musikmuseet í Kaupmannahöfn.

Svo varð maður eldri og það var ekki beint í lagi að vera kvæðamaður og sólisti á langspil í Menntaskólanum í Hamrahlíð, þar sem allir voru annað hvort að dansa í takt við Travolta eða Þursaflokkinn. Ég fór svo árið 1980 erlendis til náms og langspilið góða hékk áfram á veggnum í gamla herberginu mínu, þar sem það hangir enn móður minni til augnayndis. Engin tónlist hefur því miður komið úr langspilinu í langan tíma. Úr þessu ætla ég að bæta við fyrsta tækifæri og stend nú í að semja fornleifafræðingarímur og McGoverns-bálk um skálmöld í íslenskri fornleifafræði, sem henta örugglega vel i flutningi við undirleik mjúks sellós.

Langspil 2
Langspil 3
Langspil Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar smíðað 1971-72. Á hljóðfærið vantar nú útskorið lok á hljóðopið, strengina og stóla, sem margir voru reyndir til að fá sem bestan tón. Ljósm. Sigríður B. Vilhjálmsdóttir, sem einnig hefur tekið myndina að ofan með bláum bakgrunni.

David G. Woods finnur besta hljóðfærið

Árið 1981 dvaldist á Íslandi bandarískur sérfræðingur í tónmennt, David G. Woods. Á Fullbright-styrk rannsakaði hann íslenska langspilið og íslensku fiðluna, sögu þessara hljóðfæra og eiginleika. Hann rannsakið þau langspil forn sem hann hafði spurnir af og fékk sér til hjálpar ýmsa menn sem þekktu til hljóðfærisins og gátu smíðað það. Þeirra á meðal var heiðursmaðurinn Njáll Sigurðsson sem kennt hafði mér um tíma í Barnamúsíkskólanum þegar hann var nýkominn úr námi (og sem líklegast smitaði mig upphaflega af langspils-bakteríunni), og Auðun H. Einarsson sem tók Woods í smíðatíma.

Woods, sem síðar varð m.a. prófessor við háskólann í Connecticut í Bandaríkjunum lét smíða nokkur hljóðfæri, sem ég mun sýna ykkur síðar þegar hann er búinn að senda mér myndir. Þau voru smíðuð með gömul hljóðfæri að fyrirmynd. Auðun smíðaði eintak af því hljóðfæri sem ég mældi upp á Þjóðminjasafninu (þótt það hafi ekki að lokum orðið alveg eins).

Meira en áratug eftir dvöl Woods á Íslandi kom út frekar stutt grein eftir hann í Árbók hins islenzka Fornleifafélags árið 1993 sem Njáll Sigurðsson hafði þýtt. Árið 1993 hóf ég störf á þjóðminjasafninu og þá ræddi ég einmitt við Auðun um þessa grein dr. Woods. Woods greinir frá langspilsgerð, sem var að sögn Auðuns smíðuð eftir móti Auðuns og teikningu minni. Sú eftirlíking á hljóðfærinu (Þjms. 635) á Þjóðminjasafni reyndist samkvæmt tónmenntafræðingnum Woods vera það langspil sem hefði fegurstan tóninn.

Nýlega skrifaði ég prófessor emerítus David G. Woods í Connecticut tölvupóst og sagði honum frá fyrsta langspilinu með bogadreginn kassa sem Auðunn og ég smíðuðum eftir Þjms. 635. þessa góða langspils sem honum líkaði betur en mörg önnur. Þetta "Stradivaríus íslenkra langspila" var ekkert annað en samstarfsverkefni mitt og meistara Auðuns H. Einarssonar. 

Woods greindi einnig frá því í grein sinni í Árbók Fornleifafélagsins, að gerður hafði verið pakki fyrir kennslu í smíði langspila. Því miður hef ég ekki séð þessi gögn og þætti vænt um ef einhver gæti útvegað mér þau. 

Auðun kenndi fleiri börnum að smíða langspil

Ekki get ég útilokað að Auðun hafi smíðað langspil með öðrum nemanda áður en hann leyfði mér að smíða mitt hljóðfæri. En ef svo var, var það hljóðfæri ekki með bogadregnum hljómkassa. Tíu árum eftir að ég smíðaði mitt hljóðfæri með Auðuni, kenndi hann 14-15 ára krökkum að smíða ýmis konar hljóðfæri. Kennslan fór fram í kvöldtímum í Tónmenntaskóla Reykjavíkur við Lindargötu. 

1982 Tónmenntaskólinn við Lindargötu
Auðun og nemendur hans í Tónmenntaskóla Reykjavíkur árið 1982. Greinilegt er að tvær stúlknanna hafa smíðað "Stradivaríus Vilhjálms og Auðuns". Þarna má einnig sjá stoltan miðausturlandasérfræðing með gítar.

 

Á myndinni, sem birtist í Þjóðviljanum sáluga vorið 1982, má sjá fólk sem síðar hafa orðið þekktir tónlistarmenn og á sviði stærðfræði. Á þessu námskeiði ungra hljóðfærasmiða var til að mynda Jóhann Friðgeir Valdimarsson, síðar söngvari, og Katarína Óladóttir fiðluleikari, en í þessum hópi var einnig mjög svo efnilegt fólk sem því miður féll allt of snemma frá af ýmsum ástæðum, líkt og Auðun, sem snemma varð Alzheimer sjúkdómnum að bráð. Blessuð sé minning þess völundarsmiðs. 

Í þarnæstu færslu skal sagt frá ýmsum þeim

 heimildum sem til eru um

langspilið fyrir

 aldamótin

1900

langspil 4


Týnda táknið

Kambur Stöng 3

Nú haldið þið að ég sé enn og aftur að fara að skrifa um týnda gripi á Þjóðminjasafninu. Nei, þar er fæst týnt, geymt eða grafið.

Eitt er það forna skreyti, sem ég er nokkuð viss um að sé eitt það algengasta á fyrri öldum. Það hefur verið notað jafnt á Íslandi, sem í Kína og Egyptalandi, meðal Indíána, Sama og Rómverja. Engin tengsl eru nauðsynlega á milli þeirra sem notuðu þetta skreyti. Það er einnig tilfellið á Íslandi. Þetta munstur er svo einfalt, að varla er hægt að kalla það stíl, og svo alþjóðlegt og algengt í tíma og rúmi, að það er til einskis nýtt við tímasetningu, eins og maður getur þó varlega með öðrum stíltegundum, eins og t.d. dýrastíltegundunum víkingaaldar.

100px-Sun_symbol_svg

 

Mynstur það sem hér um ræðir er punktur og hringur utan um. Englendingar kalla þetta circle dot, dot and circle eða jafnvel circled dot, sem lýsir öllu sem lýsa þarf. Hálfguð okkar íslenskra fornleifafræðinga, Kristján Eldjárn, kallaði þetta depilhringi og er þá ágætt heiti.

Þetta "tákn" hefur t.d. verið notað af Dan Brown í bókinni The Lost Symbol, sem á íslensku heitir Týnda táknið.  Menn leggja mismunandi skilning í hvað depilhringir getur táknað, ef það táknar þá nokkuð, og er ekki bara einfaldasta mynstur/skreyti sem til er, og sem er einfalt að grafa eða slá í málm eða bein með þar til gerðu verkfæri, til dæmis þar til gerðum síl eða járnal (grafal). Ég les alls ekki Dan Brown, svo ég veit ekki hvaða þýðingu hann leggur í þetta "tákn". Ég hef þó heyrt að sumir sjá í þessu alsjáandi auga eða tákn fyrir Jesús. Það held ég að sé langsótt hringavitleysa.

Hér sýni ég lesendum mínum safn fallegra gripa á Þjóðminjasafni Íslands, sem fundist hafa á Íslandi og sem eru skreyttir með þessu einfalda munstri. Sumir depilhringirnir eru grafnir með sýl og aðrir slegnir með grafal. Þetta skreyti finnst á gripum út um allt land sem notaðir voru á löngu tímabili. Man ég t.d. eftir kefli úr sauðalegg, sem til er á Þjóðminjasafninu, sem alsett er þessu skreyti. Þó virðist sem depilhringurinn hafi verið sérlega algengur í Þjórsárdal. En ekki vil ég leggja of mikið í það.

Kambur Stöng teikn 85 2
Þjms. 13829, Ljósm. og teikn. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Kambar Skallakot 3 

Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 1983

Kambar frá Stöng (Þjms. 13829) og Sámsstöðum í Þjórsárdal (númer 30 og 31 í uppgreftri Sveinbjarnar Rafnssonar sem þar fór fram sumrin 1971-72; Sjá hér). Kambarnir eru af gerð (højryggede enkeltkamme) sem algengir voru í Noregi á 12. öld. Aldursgreining á kömbunum í t.d. Björgvin og Þrándheimi í Noregi var ein af mörgum ástæðunum til þess að ég dró tilgátu Sigurðar Þórarinssonar um eyðingu allrar byggðar í Þjórsárdal í gosinu í Heklu árið 1104 í efa. En sú meinloka, að halda að  Þjórsárdalur hafi farið í eyðið árið 1104 er harla lífseig. Jafnvel eftir að aðrir fornleifafræðingar en ég hafa reynt að gera þá skoðun að sinni eigin, er enn verið að kenna börnum vitleysuna í skólum landsins og ljúga þessu að ferðamönnum (sjá hér). Aðrir kambar en Þjórsárdalskambarnir, með depilhringaskreyti, en eitthvað eldri, eru einnig varðveittir á Þjóðminjasafni Íslands, en ég á víst ekki tiltækar myndir af þeim.

Prjónn Steinastadir

Ljósmynd og teikning Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson  

Nál úr bronsi, rúmlega 6 sm löng, með hnattlaga haus úr bronsi sem fannst við rústina á Steinastöðum í Þjórsárdal árið 1960 (skráð í aðfangabækur Þjms. sem 1960:42). Svipaðar nálar en fíngerðari og úr silfri eða gulli teljast venjulega til 10. og 11. aldar.

Prjónn 2 sh

 Ljósmynd V.Ö.V. 1988

Hringprjónn (dálkur), Þjms. 5252, frá Hróarsstöðum í S-Þingeyjarsýslu. Prjónninn er aðeins 6,2 sm langur og er úr bronsi. Prjónninn, sem er með 6 depilhringi á haus og 3 á prjóninum,fannst eins og svo margt á Íslandi í uppblæstri. Fyrir mörgum árum teiknaði ég og ljósmyndaði alla dálka sem fundust höfðu á Íslandi og sendi Thomas Fanning, sem var írskur fornleifafræðingur (einnig prestur/munkur) og , sem í áraraðir hafði rannsakað hringprjóna á Írlandi og annars staðar. Ég kynntist Fanning lítillega í Danmörku. Því miður dó Thomas Fanning um aldur fram og ég fékk aldrei neinar aldursgreiningar frá honum. Árið 1994 kom hins vegar út verk hans Viking Age Ringed Pins from Dublin. Samkvæmt tegundafræði hringprjóna í þeirri bók, sem byggði á rannsókn Fannings á fjölda hringprjóna sem fundust við fornleifarannsóknir í Dublin á 7. áratug 20. aldar, virðist þessi prjónn á grundvelli annarra áreiðanlegra aldursgreininga vera frá 11. öld. Þessi tegund telst til Polyhedral headed ringed pins. Síðar verður hér farið betur inn á hringprjónana sem varðveittir eru í Þjóðminjasafni Íslands. Þeir eru í dag eru sýndir í stílfræðilegri og tímatalslegri belg og biðu sem sýnir væntanlega að þekking starfsmanna á þessum gripum hefur ekki aukist síðan að Kristján Eldjárn ritaði sitt ágæta rit Kuml og Haugfé í heiðnum sið á Íslandi 

329
Hringur

Beinhólkur (Þjms. 329) sem fannst árið 1866 í dys við Rangá eystri. Á hólknum eru ristar (krotaðar, svo notuð séu orð Eldjárns) myndir af tveimur hjörtum (eða hreindýrum) í frekar Vest-norrænum stíl. Hirtirnir bíta lauf af stílgerðu tré (lífsins tré/arbor vitae). Hirtir sem er mjög kristið (einnig gyðinglegt: Zvi) tákn sem táknar hreinleika eða sál. Svo eru á hólkinum fjórir depilhringir. Menn hafa sökum skreytisins og fundastaðarins talið sér trú um að hringur þessi hafi tilheyrt Hirti bróður Gunnars á Hlíðarenda. Stílfræðilega getur það ekki staðist. Bergsteinn heitinn Gizurarson brunamálastjóri fór árin 1996 og  2000 á skeið í hugmyndafluginu í þremur áhugaverðum greinum í Lesbók Morgunblaðsins þegar hann skrifaði um þennan grip. Tengdi hann hólkinn vítt og breitt um steppur Asíu (sjá enn fremur hér). Ekki tel ég ástæðu til að rengja hugmyndir Bergsteins, en maður velur hverju maður trúir.  

Nálhús Stöng 1983:25 Copyright VÖV

Ljósmynd Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 1995

Nálhús úr bronsi sem fannst á Stöng í Þjórsárdal árið 1983 (Stöng 1983:25). Nálhúsið (sjá meira hér), sem er aðeins 4,5 sm að leng fannst neðst í gólfi skálarústarinnar sem er undir þeim skála sem menn geta enn skoðað á Stöng í Þjórsárdal. Nálhúsið er álitið vera af aust-norrænni gerð. Nálhúsið er frá 11. öld. 

Bjalla 2 
Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 1989.
Batey bjalla 2

Bjalla úr bronsi, 2,5 sm, að hæð með depilhringum (Þjms. 1198). Fundin í kumlateig á Brú í Biskupstungum (Kumlateigur 29, skv. kumlatali Kristjáns Eldjárn í Kumli og Haugfé,1956, bls. 62-3). Bjallan og annað haugfé fannst fyrir 1880 af 10 ára stúlku og föður hennar. Kristján Eldjárn taldi víst, að þar sem steinasörvi (perlur) og bjalla hafi fundist á sama stað og vopn og verjur, að þarna hafi verið a.m.k. tvö kuml, karls og konu. Kristján Eldjárn gekk ekki með perlur (sörvitölur) svo vitað sé, en það gerðu hins vegar forfeður hans. Ekki getur því talist ólíklegt, að fundurinn sér úr kumli eins karls. Tvær aðrar bjöllur svipaðar hafa fundist á Íslandi, ein í kumli karls, hin úr kumli konu. Svipuð bjalla, sem fannst sem lausafundur á Freswick Links á Caithness á Skotlandi, er sýnd hér til samanburðar (sjá enn fremur hér).

nordlingaholl

Kirkjukambur úr bronsi, frá Norðlingahól hjá Melabergi á Miðnesi í Gullbringusýslu. (Þjms. 5021). Sjá meira um kambinn hér hér.


Lítil og "ljót" þjóð á leiðarenda

End of reason
 

3. mars næstkomandi mun RÚV hefja sendingar íslenskra fræðsluþátta á ensku, íslensku framtíðarinnar, sem kallast Journey's End (Ferðalok á íslensku). Þættirnir verða sex í allt. Í þessum þáttum er myndavélinni beint að Íslendingasögunum, bæði út frá bókmenntalegu og fornleifafræðilegu sjónarhorni. Myndavélin dvelur einnig í nærmynd við fjölmarga sérfræðinga úr ýmsum greinum og stéttum. Þetta gæti orðið spennandi.

Lítil og ljót þjóð? 

Í kynningarslóða fyrir myndina  hegg ég eftir ýmsu afar fyndnu og bölvuðu rugli fyrir myndavélina. Takið t.d. eftir því  þegar einhver fræðingurinn, sem ekki sést, segir að "það sé svo gaman þegar lítil, ljót, fátæk þjóð í norðri hafi gert eitthvað svipað og Shakespeare, 3-400 árum áður" (1,47 mínútur inni í slóðann). Eitthvað er konan sú rugluð á ritunartíma fornbókmennta okkar og ekki er það beint fátæk þjóð sem lýst er í þessum ýkjubókmenntum, sem lýsa því best að á Íslandi hefur alltaf búið hástemmd þjóð með mikið sjálfsálit, sem vitanlega varð til þess að hún lifði allan andskotann af. 

Það að þjóðin sé ljót verður hins vegar að skrifast á reikning sérfræðingsins andlitslausa, því ég hef auðvitað alltaf staðið í þeirri vissu að Íslendingar væru fallegasta, gáfaðasta og besta þjóð í heimi. Annar hefði hún ekki getað skrifað Íslendingasögurnar og framleitt svona marga fornleifafræðinga, eða þáttaröð eins og Journey's End. 

Hringur

Beinhringur bróður Gunnars á Hlíðarenda? 

Á einum stað bregður fyrir beinhring (eftir 0,51 mín.) með útskurði, sem fannst á Rangárbökkum Eystri. Sumir menn, sem trúa sérhverju orði í fornsögunum, hafa reynt að tengja hringnum ákveðinni persónu, vegna þeirra mynda sem ristar eru í hringinn sem og vegna fundarstaðarins. Síðast skrifaði fyrrverandi brunamálastjóri í Reykjavík Bergsteinn heitinn Gizurarson um hringinn. Þegar ekki var allt á bál og brandi í vinnunni hjá Bergsteini, skrifaði þessi skemmtilega blindi bókstafstrúarmaður á ritheimildir, sem trúði fornsögunum betur en fornleifafræðingum, þrjár greinar í Lesbók Morgunblaðsins 1996 og 2000 um beinhringinn frá Rangá Eystri og fór hann allvíða í vangaveltum sínum. Lengi töldu margir, og vildu trúa, að þessi hringur hefði verið eign Hjartar Hámundarsonar, bróður Gunnars á Hlíðarenda. Menn töldu að að það væru hirtir sem sjást á hólknum. Hjartarhorn eru þetta ekki frekar en hreindýrahorn, stíllinn er frá 11. öld og þetta er kristið mótív. Engin för eru heldur eftir bogastreng á þessum hring, og ekkert sýnir að hann hafi verið notaður sem fingravörn við bogaskot. En hér er hann svo kominn í kynningarslóðann fyrir Ferðalok rétt á undan mynd af bogaskyttu. Það verður gaman að sjá hvernig menn fara fram úr sér við túlkun á honum þar.

Sláum því hér föstu, áður en þáttaröðin Journey's End verður sýnd, að þessi hringur sannar hvorki áreiðanleika Íslendingasagna, né að sögurnar nefni slíkan hring. Vangaveltur um Hjört Hámundarson og "Húnboga" í tengslum við hringinn er ekkert annað en þjóðernisrómantík af verstu gerð. Menn skoða helst ekki hringinn, enn spóla beint í Ísendingasögurnar og gefa hugórum sínum lausan tauminn. Það er ekkert sem fornleifafræðingar eiga að stunda of mikið.

Vice versa

Aðeins lengra fram í slóðanum stingur einn statistinn, einhver argasti drag-víkingur sem ég hef séð lengi, því sem mest líkist miðaldasverði (án blóðrefils) í þúfu við Þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal (sjá efst), sem oft er uppnefndur Gúmmístöng, og á sögn að vera eftirlíking af bæ á Þjóðveldisöld, en í raun aðeins votur draum þjóðernisrómantíkers á þeirri 20., sem misskildi eðli og aldur yngstu bæjarrústanna á Stöng í Þjórsárdal. Bær frá því um 1200 er ekki mjög snjöll sviðsmynd fyrir eitthvað sem á að gerast á 10. öld.

Byock og Egill 

Í slóðanum fyrir "Ferðalok", eins og myndin er víst kölluð á íslensku, bregður einnig fyrir germönskufræðingnum Jesse Byock, sem allt í einu varð fornleifafræðingur og vatt sinni  stjörnu í kross og settist að á Íslandi og er nú Íslendingur og fornleifafræðingur eins og svo margir aðrir.

Byock hóf rannsóknir sínar út frá blindri trú á Íslendingasögunum sem sagnfræðilegum heimildum. Hann var ekkert að pæla í deilum um bókfestu- eða sagnfestukenningar. Hann sá þetta með ferskum vestrænum augum, en í Ameríku þykir fínt að skilja allt upp á nýtt, (þótt sumir skilji ekki neitt). 

Byock byrjaði á síðasta áratug 20. aldar að leita að beinum Egils Skallagrímssonar m.a. út frá sjúkdómslýsingu og rændi heiðrinum af þeirri skoðun að Egill hefði verið með hinn illvíga Paget-sjúkdóm (Paget's disease), frá íslenskum lækni. Paget-sjúkdómur, veldur því meðal annars að bein verða mjúk og brothætt, en Byock taldi út frá lýsingum á meintum beinum Egils í Eglu, að þau hafi verið mjög hörð og að það lýsti Paget-sjúkdómi best. Byock segir örugglega ekki frá þessari meinloku sinni í þessari þáttaröð, sem ég vona að verði sýnd í öðrum löndum en á Íslandi, svo maður geti fengið dálítið entertainment um "litla og ljóta þjóð". Fornleifur eldar sér þá poppkorn yfir langeldinum og teygar ískaldan, amerískan mjöð. Þetta verður örugglega hin besta skemmtun ef dæma skal út frá kynningunni á Vimeo.

Sjálfur hef ég mildast í skoðun minni á gildi fornbókmenntanna og er ekki eins harður andstæðingur þeirra og t.d. kollega minn dr. Bjarni Einarsson. sérstaklega í ljósi þess að á Stöng í Þjórsárdal, þar sem ég þekki best til, fann ég og teymi mitt sönnun fyrir því að bein höfðu verið flutt í burtu samkvæmt ákvæðum Kristinnar laga þætti í Grágás. Stöng var líka í notkun lengur en áður var talið, og Grágás var svo að segja samtímaheimild við beinaflutninginn á Stöng. Það þýðir þó ekki að ég trúi því sem skrifað var 3-400 árum eftir að meintir atburðir sögualdar áttu sér stað. Egils-saga er fyrir mér gott drama síns tíma og ekkert meira og Byock er bara enn ein dramadrottningin í íslenskri fornleifafræði. Í raun er auðvelt að sjá að Íslendingasögurnar eru að lýsa ákveðnum aðstæðum á Sturlungaöld, þeim tíma sem sögurnar voru ritaðar á. Sorry Jesse!

Ég hef skrifað tvo stóra bálka um bein Egils og leit Byocks að þeim á öðru bloggi mínu og leyfi nú lesendum mínum, sem ekki hafa lesið það fyrr að lesa það aftur í heild sinni. Greinarnar voru upphaflega kallaðar Leitin að beinum Egils:

Egill 

Leitin að beinum Egils Skallagrímssonar 

Í gær birti kollega minn merka grein í Lesbók Morgunblaðsins. Ég frétti af grein Margrétar Hermanns-Auðardóttur gegnum Morgunblaðsbloggið. Við dr. Margrét erum kannski ekki lengur starfsfélagar, því hvorugt okkar hefur haft sérstaklega góð tök á því að vinna við fræðigrein þá sem við notuðum fjölda ára til að sérhæfa okkur í. Ég hef þurft að leita á önnur mið eftir að mér var vísað úr starfi og ég settur í ævarandi atvinnubann á Þjóðminjasafni Íslands (Það er víst einsdæmi á Íslandi). En Margrét hefur alla tíð verið útundan í greininni, einatt vegna öfundar og óskammfeilni ýmissa kollega hennar og aðila, sem hafa reynd að hefta framgang fornleifafræðinnar á Íslandi.

Grein Margrétar fjallar á gagnrýninn hátt um fornleifarannsóknir Jesse L. Byocks í Mosfellsdal; um leitina að beinum Egils Skallagrímssonar, rannsóknir á haugi hans; um kirkju þá sem menn telja að haugbúinn Egill hafi verið greftraður í eftir að haugurinn var rofinn, svo og rannsóknir á Mosfelli, þar sem bein kappans munu hafa verið flutt til hinstu hvílu.

Jesse L. Byock er ekki fornleifafræðingur, en hefur samt stjórnað fornleifarannsóknum á Íslandi í rúm 10 ár. Það sem Margrét Hermanns- Auðardóttir skrifar um rannsóknir hans í grein sinni í Lesbók Morgunblaðsins, get ég í alla staðið tekið undir. Hvet ég fólk til að ná sér í Lesbókina og lesa greinina gaumgæfilega. Þar er einnig hægt að lesa um vinnubrögð í Háskóla Íslands, sem eru fyrir neðan allar hellur.

Ég skrifaði 9 blaðsíðna greinargerð þegar umsókn um leyfi til rannsóknarverkefnisins "The Mosfell Archaeological Project" barst Fornleifanefnd árið 1995. Ég sat þá í Fornleifanefnd tilnefndur af Háskóla Íslands. Það varð uppi fótur og fit. Lektor einn í háskólanum kvartaði fyrir hönd Jesse Byocks til Fornleifanefndar (með bréfi og greinargerð) og til menntamálaráðherra, sem kallaði strax formann nefndarinnar á teppið. Formaðurinn reyndi svo með öllum mætti að fá mig til að draga greinargerð mína til baka og Byock framdi það sem í öðrum menningarheimi kallast Lashon hara. Ég neitaði, því hún stangaðist ekki á við neitt í Þjóðminjalögum. Ég var bara að vinna fyrir nefndarlaununum og ég sá líka óhemjumarga galla á umsókninni. Rannsókninni var síðan veitt leyfi og það reyndar gefið fornleifafræðingi er heitir Timothey Earle (sem ekki er lengur viðriðinn rannsóknirnar í Mosfellsdal), þar sem Byock uppfyllti ekki skilyrðin til að stjórna rannsókninni. Ég ákvað að sitja hjá við leyfisveitinguna. Í greinargerð minni frá 1995 sýnist mér, í fljótu bragði, að ég hafi reynst nokkuð sannspár.

Margrét telur Byock og starfsfélögum hans það til lasts, að þeir hafi ekki einu sinni vitnað í rannsóknir mínar á Stöng í Þjórsárdal. Það er líka rétt hjá Margréti. Það er ekkert nýtt eða neitt sem ég kippi mér upp við. Ég er harla vanur fræðilegri sniðgöngu eða að aðrir geri mínar uppgötvanir að sínum (mun ég skrifa um það síðar). Þegar Byock og aðstoðarmenn hans sóttu um leyfi til rannsóknanna árið 1995, var þó lögð áhersla á mikilvægi rannsókna í Mosfellsdal í ljósi niðurstaðna rannsókna minna á Stöng. Síðan þá hafa þær ekki verið nefndar á nafn af Mosfellsmönnum. Kirkjurústin á Stöng, sem ég hef ekki getað stundað rannsóknir á síðan 1995, er líklega frá svipuðum tíma og kirkjan á Hrísbrú sem Byock og félagar hafa rannsakað. Úr kirkjugarðinum á Stöng hafa bein verið flutt í annan kirkjugarð eftir ákvæðum Grágásar. Sjá Lesbókargrein um rannsóknina. [Sjá einnig hér]

Ef menn hefðu tekið tillit til greinargerðar minnar frá 1995, þar sem ég fjalla t.d. um tilurð sögunnar um haug Egils í Tjaldanesi, hefðu þeir ekki fyrir nokkrum árum asnast til að grafa í náttúrumyndun, þar sem ekkert fannst nema ísaldaruðningur. Hvers kyns "haugurinn" í Tjaldanesi er, kom einnig fram við fornleifaskráningu Þjóðminjasafnsins á svæðinu árið 1980. Árið 1817 könnuðust lærðir menn ekkert við þennan haug, þegar Commissionen for Oldsagers Opbevaring var að safna upplýsingum um fornleifar, fastar sem lausar, á Íslandi. Haugurinn er því rómantískt hugarfóstur frá 19. eða 20. öld, eins og svo margt annað í tengslum við The Mosfell Archaeological Project. Verkefnið teygir vissulega rómantíkina í fræðimennsku fram á 21. öld.

II

Pagets1D_CR 

 

"The skull gradually fills in with densitites, as shown here, and the skull thickens and softens"

Þessa skýringu á framskriðnum Paget's sjúkdómi er að finna á síðu Stanfords háskóla um sjúkdóminn.  Ekki urðu meint bein Egils "soft", smkv. Egils sögu og Byock, eða hvað?

Leit Jesse L. Byocks að beinum Egils eru náttúrulega tálbeita. Byock notar álíka aðferð til að fá fjármagn til rannsókna sinna og þegar Kári í DeCode dáleiðir menn með "ættfræðirannsóknum", sem sýna eiga ættir manna aftur til sagnapersóna í miðaldabókmenntunum. Það hjálpar greinilega fjársterkum aðilum að létta á pyngjunni. Góð saga selur alltaf vel.

En Byock hefur farið óþarflega fram yfir það sem sæmilegt er í þessari sölumennsku í fræðunum. Að minnsta kosti yfir það sem leyfilegt er í fornleifafræði. En fornleifafræðin fjallar um allt annað nú á dögum en það að leita uppi ákveðnar persónur. Það virðast íslenskufræðingar enn vera að gera, líkt og þegar þeir eru að leita uppi höfunda Njálu og annarra fornrita.

Osteitis_Deformans-1 

Þannig gæti Egill Skallagrímsson hafa litið út í ellinnni, hefði hann í raun og veru verið með Paget's disease eða þá yfirleitt verið til.

Til þess að gera Mosfells-verkefnið kræsilegra telur Byock mönnum trú um að Egils saga lýsi Agli með sjúkdómseinkenni Paget's disease. Hann trúir því greinilega einnig á söguna sem sagnfræðilega heimild. Hann hefur vinsað það úr af einkennum sjúkdómsins, sem honum hentuðu í greinum sínum um efnið í Viator (Vol 24, 1993) og Scientific American (1995).  Menn geta svo, þegar þeir hafa lesið greinar hans, farið inn á vef Liðagigtarsamtaka Kanada (The Arthritis Society), eða á þessa síðu, til að fá aðeins betri yfirsýn yfir sjúkdómseinkenni hjá þeim sem hrjáðir eru af þessum ólæknandi sjúkdómi. Þau einkenni eru langtum fleiri en þau sem Byock tínir til og flóknari en hausverkurinn og höfuðskelin á Agli. Byock hefur ekki sagt lesendum sínum alla sjúkdómssöguna; til dæmis að þeir sem eru hrjáðir af sjúkdóminum geti einnig liðið af sífelldum beinbrotum og verði allir skakkir og skelgdir fyrir neðan mitti. Hryggurinn vex saman og mjaðmagrindin afmyndast.  Byock heldur því fram að Agli hafi verið kalt í ellinni vegna þessa sjúkdóms. Annað segja nú sérfræðingarnir: "The bone affected by Paget's disease also tends to have more blood vessels than normal. This causes an increase in the blood supply to the area, and as a result the area may feel warmer than usual".Læknisfræði er greinilega ekki sterkasta hlið Byocks og óskandi er að hann stundi ekki lækningar í aukavinnu, líkt og þegar hann gengur fyrir að vera fornleifafræðingur á Íslandi.

Í greinum þeim um verkefnið, sem birtar hafa verið opinberlega, er heldur ekki verið að skýra hlutina til hlítar. Eins og til dæmis að tæmda gröfin að Hrísbrú sé undir vegg kirkjunnar sem þar fannst. Það þýðir að gröfin eða gryfjan er eldri en kirkjan sem samkvæmt kolefnisaldursgreiningu er frá því um 960. Kannski er erfitt fyrir bókmenntafræðing eins og Byock at skilja svona flókna hluti. Hann átti líka erfitt með að skilja grundvallaratriði í fornleifafræði árið 1995 og þurfti að hafa íslenskan fulltrúa sér innan handar. Mér skilst að þetta sé nú mest orðið norsk-bandarísk rannsókn og gerir Margrét Hermannsdóttir skiljanlega nokkuð veður úr því í grein sinni í Lesbók Morgunblaðsins. 5.5.2007.  Þegar sótt var um rannsóknarleyfi og fjárveitingar árið 1996 var greint frá því að samvinna yrði höfð við fáeina Íslendinga "for ethical reasons" .

Hvað varðar fjármögnun rannsóknarinnar, var alveg ljóst frá byrjun, að Byock hafði báðar hendur niður í íslenska ríkiskassann. Hann greindi mér hróðugur frá því, er hann reyndi að fá mig með í rannsóknina, að Björn Bjarnason væri "verndari" rannsóknarinnar og hefði lofað stuðningi, tækjum, fæði og þar eftir götunum. Björn bóndi hefur greinilega ekki brugðist  Byock og hafa eftirmenn hans á stóli menntamála verið álíka gjafmildir. Að Björn Bjarnason er meiri aufúsugestur á Hrísbrú en ég og kollegar mínir, sést á þessari og annarri færslu í dagbókum dómsmálaráðherrans.

Þegar íslenskir fornleifafræðingar með doktorsgráðu geta ekki starfað við grein sína sökum fjárskorts og aðstöðuleysis, vantar mig orð yfir þá fyrirgreiðslu sem prófessor Byock hefur fengið á Íslandi til að leita beina persónu úr Íslendingasögunum. Eins og ég skrifaði í greinargerð minni árið 1995 um leit hans af Agli: "Það er í sjálfu sér sams konar verkefni og leitin af beinum Jesús Krists og gröf hans eða leitin að hinum heilaga kaleik (The Holy Grail)".

En riddari nútímans leitar ekki að gylltum kaleik eða brandinum Excalibur, heldur Agli Skallagrímssyni. Riddarinn heitir Byock og atgeir hans heitir "Spin and PR". Riddarinn er reyndar búinn að afneita sér þeim óþægindum sem það virðist vera að vera Bandaríkjamaður í brynju. Hann fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 2004 (væntanlega á eðlilegri hátt en tengdadóttir ráðherra umhverfismála um daginn). Hver veit, kannski er Byock líka orðinn tengdasonur eftir langa búsetu á íslandi. Hann er að minnsta kosti orðinn "fornleifafræðingur", en það geta víst nær allir kallað sig á Íslandi sem kaupa sér skóflu.

Gárungarnir segja mér, að næsta verkefni Byocks sé að leita uppi Loðinn Lepp. Nafnið eitt bendir eindregið til þess að þessi norski erindreki á 13. öld hafi verið með sjúkdóm, sem lýsir sér í óhemju hárvexti, ekki ósvipað og á þessum kappa:

Loðinn leppur

"Miklu betri en Silvo"

SILVO

 

Sagði eitt vinur minn, þegar ég greindi honum frá því að hinn merki silfursjóður sem fannst á Miðhúsum við Egilsstaði árið 1980, hefði fundist óáfallinn og skínandi fagur í jörðu. Hann átti þar við gæði jarðvegsins, sem hlaut að valda þessum frábæru varðveisluskilyrðum. Þessi færsla fjallar um jarðvegssýni sem tekin voru á Miðhúsum, en sem voru aldrei rannsökuð.

Það er reyndar með einsdæmum að silfur finnist varðveitt á þann hátt sem silfrið á Miðhúsum gerði. Dr. Kristján Eldjárn velti varðveislunni mikið fyrir sér í viðtali sem hann átti við finnanda árið 1980 og tók upp á segulband. Hann spyr finnendur margoft um varðveislu silfursins. Þór Magnússon minntist einnig á þann mikla gljáa sem sjóðurinn hafði, í vettvangsskýrslu sinni frá 1980 (sjá hér) og síðar. Þeir ákváðu þó ekki að athuga það neitt nánar.

Snemma árs 1994 hafði ég fyrir hönd Þjóðminjasafnsins samband við hjónin á Miðhúsum og bað þau um að senda mér jarðvegssýni frá fundarstaðnum. Þau fékk ég aldrei. Hins vegar sendu þau dýrabein sem þau fundu einnig árið 1980, en sem þau höfðu ekki látið Eldjárn eða Þór Magnússon vita um. Í meðfylgjandi bréfi létu þau í té alls kyns upplýsingar, en fæstar af þeim hafði ég beðið um.

Ritari Þjóðminjaráðs greindi rangt frá

Ég bað margsinnis um að jarðvegssýni yrðu tekin í tengslum við fyrirskipaða rannsókn menntamálaráðuneytis á sjóðnum 199-95. Síðast í bréfi til þjóðminjaráðs dagsettu 14. apríl 1995. En í kjölfar þess var mér tjáð að ráðið ætlaði að fresta umfjöllun um það efni þangað til niðurstöður höfðu borist úr efnagreiningu á silfrinu í Kaupmannahöfn. Lilja Árnadóttir ritari nefndarinnar undirritaði bréfið sem ég fékk frá nefndinni.

Þessi upplýsing frá Þjóðminjaráði var reyndar haugalygi. Annað hvort vissu ráðsmeðlimir betur, eða Lilja hefur ekki greint þeim réttilega frá því sem gerst hafði.

Lilja Árnadóttir hafði nefnilega þegar þann 15.11. 1994 beðið Guðrúnu Kristinsdóttur safvörð á Egilsstöðum, um að taka sýni af jarðvegi. Safnvörðurinn gerði það í tveggja stiga frosti sama dag. Guðrún Kristinsdóttir á Safnastofnun Austurlands tók jarðvegssýni og sendi þau og skýrslu dags. 15. nóvember 1994 til Reykjavíkur (sjá hér) til Helga Þorlákssonar sagnfræðings og Lilju Árnadóttur starfsmanns Þjóðminjasafns og Þjóðminjaráðs sem sjá áttu um að rannsaka silfursjóðinn.

Afar furðulegt rannsóknarferli

Þótt fyrirskipað hefði verið að allir þættir varðandi fund silfursjóðsins yrðu rannsakaðir og birtir, er nú ljóst að aðeins var það birt sem henta þurfti.

Farið hafði fram taka jarðvegssýna á Miðhúsum þann 15. nóvember 1994, þótt ekki mætti greina mér frá því í apríl 1995. Sú jarðvegstaka var fyrirskipuð af Helga Þorlákssyni og Lilju Árnadóttur, sem í hlutverki ritara Þjóðminjaráðs laug því að mér, að ráðið hefði ekki tekið afstöðu til slíkrar rannsóknar.

Þau tvö ákváðu að jarðvegssýnin skyldu tekin og rituðu það á minnisblaði merkt Trúnaðarmál dags. 18. nóvember 1994. Lilja hafði kannski ekki sagt Þjóðminjaráði frá þeirri "rannsókn" sem hún fékk gerða 15. nóvember, og að hún og prófessor Helgi Þorláksson fyrirskipuðu að slíka sýnatöku ætti að framkvæma, í skjali sem er dagsett þremur dögum eftir að sýnatakan átti sér í raun stað. Stórfurðulegt!

Í lokaskýrslu Helga og Lilju dagsettri í júní 1994, er hins vegar greint frá því að  Lilja Árnadóttir hafi farið með jarðvegssýni frá Miðhúsum til Kaupmannahafnar og því haldið fram, að Lars Jørgensen fornleifafræðingur, sem hélt um rannsóknir í Kaupmannahöfn, hafi ekki talið ástæðu til að láta rannsaka jarðveginn. Sú staðhæfing er í meira lagi athyglisvert í ljósi þess, að ekkert er minnst á þessi jarðvegssýni í skýrslu danska Þjóðminjasafnsins eða í gögnum um sendingu gripa til Kaupmannahafnar. Þegar ég hef spurt Lars Jørgensen um málið man hann ekki eftir þeim jarðvegssýnum sem Lilja segist hafa tekið með sér til Kaupmannahafnar.

Lilja upplýstir síðar (1995), þá sem ritari Þjóðminjaráðs, að ekki væri búið að taka ákvörðun um sýnatöku á jarðvegi, sem eru náttúrulega enn meiri ósannindi ef hún hefur farið með þau til Kaupmannahafnar.  Enn síðar upplýsti hún og Helgi Þorláksson að jarðvegssýni hafi verið boðin Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn. Það kemur ekkert fram um jarðvegssýni í bréfi Lilja og Helga til Olaf Olsens fyrrverandi prófessors m.m. dags. 17. október. Heldur ekki í svari Lars Jørgensens dags. 10. nóvember 1994, né í bréfi hans frá 17.11. 1994; heldur ekki í fréttatilkynningu frá Þjóðminjasafni dags. 28. nóvember 1994, né í fylgibréfi Þórs Magnússonar með sérstöku innsigli Þjóðminjasafnsins dags. 1. desember 1994 (sjá þessi bréf hér). Ekkert kemur fram í yfirlýsingu Lars Jørgensens frá 17.11. 1994, um að hann hyggi á jarðvegsrannsóknir, enda höfðu þær ekki verið nefndar í bréfum til hans eða Þjóðminjasafns Íslands.

Hvernig má þetta vera? Svona er reyndar allt ferlið við rannsóknina á silfursjóðnum hjá þeim sem ekki sættu sig við niðurstöðu breska sérfræðings James Graham-Campbells, sem dró uppruna sjóðsins í vafa.

Vart er neinum steinum um það að velta að Lilja Árnadóttir var algerlega óhæf til að sinna þessum rannsóknum. Mörg þau skjöl sem hér birtast í fyrsta sinna, sýna það svo ekki er um neitt að villast.

helgi-thorlaks Lilja Árna

Helgi og Lilja

Hvað kom Hriflungum eiginlega sýnatakan við?

Þann 15. nóvember 1994 hringdi Lilja í GK [Guðrúnu Kristinsdóttur] v/sýnatöku + Sigurð St. 1Kg. Sama dag átti hún samtal /v Eddu húsfreyju á Miðhúsum og skrifar Lilja gott á eftir upplýsingu um það í minnispunktum sínum sem ég hef undir höndum (sjá hér). Minnispunktar þessir hafa ekki verið birtir þótt slíkt gæti talist eðlilegt miðað við yfirlýsingar þess ráðs sem Lilja var ritari hjá.

Sigurður St. mun vera enginn annar en Sigurður Steinþórsson jarðfræðingur, barnabarn Jónasar frá Hriflu.

SSt
Fékk Sigurður Steinþórsson prófessor í bergfræði 1 kg. af mold?

Ekki er mér ljóst, af hverju Sigurður Steinþórsson er nefndur í sambandi við 1 kg. af jarðvegi frá Miðhúsum, og ekki er vitað hvort hann hafi greint þann jarðveg. Aðkoma hans að sýnatökunni er því algjörlega á huldu og út í hött, því Þjóðminjaráð bað ekki um hana. Ekkert kemur heldur fram í opinberum skýrslum um þátt hans í rannsóknum á jarðvegi frá Miðhúsum. En greinilega fékk hann 1 kg. af þessu undraefni eða var sérlegur ráðgjafi Lilju Árnadóttur.

Sama Lilja og skrifaði minnispunkta sína 15.11. 1994 og ákvað með Helga Þorlákssyni þann 18. nóvember 1994, að sýni skyldu tekin (í framtíð), vildi ekki tjá sig um jarðvegssýnin sem ritari þjóðminjaráðs, þegar ég spurði hvort hægt væri að fá þau tekin í fyrirspurn í apríl 1995. Verður það að sæta furðu. Hvaða tiltæki var það hjá Lilju, og ef til vill þjóðminjaráði, að ljúga að mér. Kannski getur heiðursmaðurinn Sturla Böðvarsson kastað ljósi á það, en hann var formaður Þjóðminjaráðs.

Ef það hefði ekki verið vegna þess að starfsmaður Þjóðminjasafnsins hefði skilið gögn um töku sýna á jarðvegi á Miðhúsum eftir á glámbekk, þá hefðum við líklega aldrei fengið að vita, að þann 18.11. 1994 hafi Lilja Árnadóttir á fundi með Helga Þorlákssyni á Neshaganum talið honum trú um að eitthvað ætti að gera, sem þegar hafði verið gert.

Ljóst er að Helgi Þorláksson og sér í lagi Lilja Árnadóttir sátu á gögnum og upplýsingum um rannsóknir sínar á silfursjóðnum. Þau fóru ekki að óskum Menntamálaráðuneytis og Þjóðminjaráðs.

Mid 4
Nýfundið Miðhúsasilfur borið saman við myndir bók í eigu finnenda sjóðsins

 

Nú er minnsta mál að efnagreina jarðveginn og aldrei meiri ástæða

Þjóðminjasafni ber nú at taka fram sýnin sem tekin voru af jarðvegi á Miðhúsum til að ganga úr skugga um hvort eitthvað sé í þessum jarðvegi sem getur skilað silfri skínandi hreinu og glansandi í hendur finnanda og fornleifafræðinga 1000 árum eftir að það hefur verið grafið í jörðu. Það gleymdist árið 1994-95.

Ég er búinn að hafa samband við Þjóðminjasafnið til að fá upplýst hvernig sýnin eru varðveitt og hvernig þau eru skráð. Enn hafa ekki borist svör. Ef veigrað verður við svörum verður málið sent il Menntamálaráðuneytis. Sigurður Steinsþórsson er hugsanlega einnig með sýni, sem hann getur vonandi gert grein fyrir hið fyrsta. Eða kannski var hann bara hulduráðgjafi.

Einnig væri vit í því að fá gerða kolefnisaldursgreiningu á þeim beinum sem Miðhúsahjónin sendu allt í einu á Þjóðminjasafnið árið 1994 í stað þess að láta Kristján Eldjárn og Þór Magnússon hafa þau árið 1980. Þau fundust í sömu lögum og silfrið.

Miðhúsajarðveg og bein verður að rannsaka. Annað væri siðlaust, sérstaklega í ljósi þess að fremsti sérfræðingur Breta í efnagreiningu á fornu silfri hefur látið í ljós vafaum skýrslu Þjóðminjasafns Dana, en einnig vegna þess að umsjónamaður dönsku rannsóknarinnar lét í ljósi þá fyrifrakgefnu skoðun, að: Iøvrigt mener vi, at projektet er spændende - selvom årsagen er yderst beklagelig og Det vil som sagt være yderst beklageligt for skandinavisk arkæologi, hvis Prof. Graham-Campbel antagelser er korrekte"; En kemst að lokum að þeirri niðurstöðu, að einn gripanna hafi verið frá því eftir iðnbyltingu og skrifaði þá: Dette sidste forhold bevirker desværre, at der sandsynligvis er indblandet en tidsmæssigt yngre håndværksteknologi i skattefundet. Det må anses for sandsynligt at den nuvaerende sammensætning af skattefundet ikke er den oprindelige, svo notuð séu orð Lars Jørgensens, sem greinilega þótti allt þetta mál mjög miður fyrir Þjóðminjasafn Íslands.

Jú, þessi síðustu orð danska "sérfræðingsins" gefa jafnvel ástæðu til að silfrið hafi verið baðað í SILVO-fægilegi - eða kannski var það Goddard? Hvernig skýra menn annars gljáann og varðveisluna - nema þá með efnagreiningu á jarðveginum?

Ég hef áður greint frá því hvernig Helgi og Lilja greindu rangt frá rannsóknarferlinu í skýrslu sinni sem var gerð opinber í júni 1995 (sjá hér).

Meira um Silfurmálið síðar, því er ekki lokið.


Mannvist - ritdómur

Mannvist

Falleg og mikil bók um fornleifar og fornleifafræði kom út í lok síðasta árs. Þetta er hin 470 blaðsíðna bók Mannvist, sem forlagið Opna gaf út. Birna Lárusdóttir hefur ritstýrt. Þetta er eiguleg bók, en mjög dýr. Kostaði hún heilar 8.590 krónur hjá ódýrustu bóksölunni á Íslandi í febrúar í ár þegar ég festi kaup á henni.

Bókin er mjög fallega unnin, fjölmargar ljósmyndir eru í henni, misgóðar þó, en hönnunarvinnan er til sóma. Bókaútgáfan Opna og Anna C. Leplar, sem sá um hönnun bókarinnar, eiga skilið hrós fyrir.

Flagð er undir fögru skinni  

Eins fögrum orðum get ég ómöguleg farið um vinnu sumra þeirra höfunda sem skrifað hafa í þessi 1,985 kílógrömm af pappír, sem hefði verið betur nýttur hefðu menn setið aðeins lengur yfir því sem þeir skrifuðu, eða látið sér fróðari sérfræðinga líta á textann áður en hann var birtur.

Ekki ætla ég að elta ólar við stafsetningarvillur og málfar, enda ekki rétti maðurinn til þess. Nei, bókin er nógu full af því sem kallast má vöntun á grundvallarþekkingu, fornleifafræðilegum rangfærslum, vangavelturugli og tilvitnanafúski. Skoðum nokkur dæmi:

Mannvist1 

Bls. 63

Perla úr kumli á Vestdalsheiði ofan við Seyðisfjörð sem fannst sumarið 2004. Í kumlinu fundust yfir 500 perlur. Á myndinni í Mannvist má sjá sexstrenda, af langa perlu úr (neðst). Það furðar þó, að þegar menn finna 500 perlur í kumli, að ekki sé enn búið að greina efnið í þeim og uppruna þeirra. Í myndtexta er upplýst, að „sú eldrauða og dumbrauða [sem er perlan sum um er að ræða], eru úr glerhalli og gæti efniviðurinn verið kominn alla leið frá Asíu."  Dumbrauða perlan ber öll einkenni karneóls, sem ekki er glerhallur í skilgreiningu íslenska orðsins, sem á við um hvíta steina. Það sem kallað hefur verið glerhallur (draugasteinn, holtaþór), nefnist öðru nafni kalsedón (Enska: Chalcedony).Kalsedón er dulkornótt afbrigði af kvarsi (SiO2) og er þétt sambreiskja örsmárra kristalla. Glerhallur á Íslandi, sem t.d. finnst í Glerhallavík í Skagafirði er hvítur. Karneól, (kjötsteinn), er vissulega ættaður úr Asíu, nánar tiltekið frá Indlandi, Íran eða Arabíu. Karneól er hins vegar rautt afbrigði af kalsedóni. Þetta kjötrauða kalsedón er ekki rétt að kalla glerhall á íslensku.

Vitnað er í munnlega heimild við myndatextann í Mannvist. Auðveldara hefði verið að tala við steinafræðing eða gullsmið sem hefur lært eðalsteinafræði (gemmologíu) til að fá upplýst hið rétta um karneólperluna. Einnig eru til fornleifafræðingar sem hafa leitað sér sérþekkingar um perlur. Vissuð þið t.d. að fleiri perlur finnast í heiðnum kumlum karla á Íslandi en í kumlum frá sama tíma á hinum Norðurlöndunum eða á Bretlandseyjum? Perlur úr Karneóli hafa áður fundist í kumlum á Íslandi.

Mannvist 2
 

Bls.169

Skeri af arði, sem fannst á Stöng Þjórsárdal. Í myndatexta er ranglega sagt að annar "hnífurinn" sé frá uppgreftri í Þjórsárdal. Þar er rangt. Skerinn til vinstri á myndinni, sem búið er að setja ofan á teikningu af hlutfallslega allt of litlum arði fannst ekki við fornleifarannsóknir. Ferðamaður sá árið 1949 titt standa upp úr gólfinu meðfram þröskuldi inn í skála yngstu rústarinnar á Stöng. Togaði hann í járnið sem hann hélt að væri eitthvað járnarusl, en dró þá upp plógskerinn úr gólfinu . Greint hefur verið frá arði þessum í greinum eftir þann sem þennan ritdóm skrifar, sem einnig mun hafa verið sá sem fyrstur benti á að leifar af plógum/örðum hefðu fundist á Íslandi. Það gerði ég fyrst á bls. 170-71 í kandídatsritgerð minni sem ég afhenti í desember 1985.

Einnig má lesa um skerinn og sjá mynd af honum í  alþjóðlegri sýningaskrá farandsýningarinnar From Vikning to Crusader (1992-393). Þar er hann í sýningarskrá sem gripur 591 a, bls. 384. Ekkert er minnst á það, engan er vitnað í. Þvílík og önnur eins vinnubrögð! En svona vinnubrögð eru ekki nýtt fyrirbæri  í útgáfum Fornleifastofnunar Íslands, sjá hér .

Mannvist 3
 

Bls. 335

Varða. Það slær út í fyrir fornleifafræðingunum á Fornleifastofnun Íslands er þeir greina frá vörðu sem þeir telja sig hafa fundið í landi Hamra í Reykjadal í Suður Þingeyjarsýslu.; Vörðurúst undir garðlaginu, afgerandi grjóthrúga, „og var hægt að aldursgreina hana, enda var garðlagið greinilega eldra en gjóskulag frá 1158 og varðan því áreiðanlega eldri en það. Þetta er elsta varða sem vitað er um á Íslandi.."

Á ljósmynd með þessari yfirmáta glannalegu yfirlýsingu má sjá 9 steina, sem ekki er hægt að sjá stærðina á, því enginn mælikvarði er á myndinni. En út frá gróðri sést, að steinarnir eru ekki sérstaklega stórir og ekki neinn efniviður í vörður eins og við þekkjum þær annars frá síðari öldum. Mikið væri vel þegið, ef fornleifafræðingarnir sem fundu „vörðuna", gefi alþjóð skýringar á því hvernig menn geta vitað að 9 steinar í hröngli undir garðlagi úr úr streng sé varða. Yfir viskutunnuna flýtur, þegar vörðuspekingar FSÍ skrifa"Hugsanlega hefur þessi tiltekna varða verið hlaðin sem viðmið áður en garðurinn var reistur, en hún gæti lík verið leifar af eldra kerfi kennileita sem garðarnir leystu af hólmi". En hvar er þessi hleðsla sem menn sjá. 9 steinar á dreif eru ekki hleðsla! Ekkert vantar á hugmundaflugið. Kannski er það kennt sem hjálpagrein í fornleifafræði við HÍ?

1 lille

Brot af diski úr hollenskum fajansa úr flaki Het Melckmeyt í Flateyjarhöfn. Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 

Bls. 393

Alvarlegasta villan í bókinni er sett fram af gestahöfundi, fornleifafræðingi sem hvorki vinnur eða hefur unnið hjá Fornleifastofnun Íslands, sem stendur á bak við bókina. Dr. Bjarni Einarsson, sem rekur sína eigin fornleifastofnun, skrifar um skipsflök. Hann rannsakaði fyrir löngu undir stjórn minni (ég hafði rannsóknarleyfið), og með ágætum, leifar hollenska kaupfarsins Het Melckmeyt(Mjaltastúlkan) í höfninni í Flatey á Breiðafirði. Skipið sökk þar árið 1659. Þar sem ég hef í áraraðir reynt að fá fjármagn til að rannsaka nokkuð mikið magn af leirmunum sem fundust í flaki Het Melckmeyt, hef ég mikla þekkingu á leirkerum þeim sem fundust í flakinu. Það hefur greinilega farið framhjá Bjarna. Bjarni skrifar:

„Við rannsóknina í Höfninni fundust um 300 keramikbrot í Mjaltastúlkunni og er það stærsta samtímasafn leirkera frá 17. öld frá einum stað á Íslandi. Aðeins er um eina tegund leirtaus að ræða í flakinu, svokallaðan tingleraðan jarðleir, en honum má skipta í maiolica leirtau og faiance leirtau. Báðar gerðirnar voru til staðar, en einkum maiolica leirtau með fallegum bláum skreytingum af ýmsu tagi, svo sem dýra og blómamyndum. Nær mikilvægi safnsins út fyrir Íslands vegna þess að nokkrum árum eftir að Mjaltastúlkan sökk var komið á laggirnar leirkeraverksmiðju í Þýskalandi sem framleiddi því sem næst eins leirtau og í Mjaltastúlkunni, en það var hollenskt. Fundurinn frá Flataey gæti verið lykilfundur til að aðskilja og aldursgreina þessi leirker í framtíðinni en ekki er algengt að finna safn leirkera sem er jafn samstætt og vel afmarkað í tíma". 

Vitnar höfundur með þessum upplýsingum sínum, sem eru meira eða minna rangar, í bók dr. Guðrúnar Sveinbjarnardóttur, Leirker á Íslandi,  frá 1996,  bls. 32. Á blaðsíðu 32 í bók Guðrúnar Sveinbjarnardóttur stendu ekkert að (né annars staðar í bókinni). Í bók Guðrúnar er reyndar einnig greint rangt frá leirkerunum sem fundust í flaki Het Melckmeyt í Flateyjarhöfn.

Nú er það svo, að leirkerin í Melkmeyt eru öll svokölluð faiance leirker, eða það sem Bretar og Bandaríkjamenn kalla Delft-ware. Faiance eða fajansi, sem er ágætt íslenskt heiti, dregur nafn sitt af leirkeraframleiðslu í Faenca á Ítalíu og Maiolcia fær nafn sitt frá Spáni. Sérfræðingar í dag kalla venjulega hvít og blá afbrigði Faienca, og skálar, ker og önnur ílát með marglitri skreytingu (polychrome) skilgreina menn sem tegundina Maiolicu.

Þ.e.a.s. blátt og hvítt (eða alveg hvítt/pípuleir og tinglerungur) í skreyti er fajansi, en hvítt, blátt og aðrir litir skilgreinist sem maiolica eða majolica. 

Hollendingar sem fluttu til Frankfurt am Main hófu framleiðslu á fajansa árið 1660 og næstu árin þar á eftir. Ein gerð leirskála sem fundust í flaki Het Melckmeytvar lengi talin hafa orðið til eftir 1660 í Frankfurðu. Þar sem þessi tegund finnst í  flaki hollensks skips sem sökk árið 1659 er afar ólíklegt að gerðin hafi orðið til í Þýskalandi. Hún er hollensk. Bjarni hefði betur haft það rétt eftir mér og spurt mig í stað þess að skila frá sér svona rugli. 

31 b (2)

Fajansi sem fannst í Het Melckmeyt og sem ættaður er frá Frakklandi. Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 

Til upplýsingar má bæta við, að óskreyttar skálar, hvítar með bylgjuðum kanti/ börðum, sem ég fór með prufur af til Hollands á 10. áratug síðasta aldar, eru ekki ítalskar eins og fornleifafræðingar þá héldu fram. Ungur hollenskur sérfræðingur hefur nú sýnt fram á að fornleifafræðingur sá sem ég hafi samband við í Amsterdam „gaf sér" einfaldlega að þessi gerð skála sem finnst í miklum mæli í Niðurlöndum hafi verið framleiddar á Ítalíu. Sá gamli, Jan Baart, sem var yfirfornleifafræðingur Amsterdamborgar rannsakaði það hins vegar aldrei. Þegar farið var að gæta að því hvað var til af sams konar diskum kom í ljós, að á Ítalíu könnuðust menn ekkert við þessa gerð diska. Þeir eru hins vegar frá Norður-Frakklandi, frá borgunum Nevers og Rouen við Leirubakka (Loire) og nánasta nágrenni. Hávísindalegar rannsóknir hafa nú sýnt fram á það.

Þetta voru aðeins fáein dæmi um frekar lélega fræðimennsku í annars fallegri bók, en oft er flagð undir fögru skinni eins og skrifað stendur.

En margt er einnig gott í bókinni, sérstaklega ljósmyndir frá einstaklega fallegum uppgröftum Bjarna Einarssonar. T.d. myndin frá Þjótanda við Þjórsá á bls. 110, eða fjárborgin í Hagaey í Þjórsá á bls. 156, sem bera vott um falleg og vönduð vinnubrögð Bjarna.


Fornminjarnar í Elliðaárdalnum?

Steinn Daníels

Ungur maður, Daníel Alexandersson að nafni, sem örugglega er upprennandi stjarna í fornleifafræðinni, greindi í gær í kvöldfréttum Sjónvarpsins frá fundi sínum á afar furðulegum steini með skreyti. Daníel rakst á steininn er hann var nýverið að vaða í Elliðaánum (sjá hér).

Steinninn fundinn
Daníel og faðir hans með steininn góða

 

Daníel lætur sig dreyma um víkinga og telur skreytið minna á list víkingaaldar. Ekkert er þó í þessu mynstri og þeirri aðferð sem notuð hefur verið til að klappa steininn, sem bendir til víkinga eða norrænna manna frá fyrstu byggð á Íslandi. Mynstrið á steininum gæti reyndar minnt á völundarhúsafléttur, labyrinþoi (Gr. λαβiρινθοi), sem klappaðar voru á stein t.d. á Bretlandseyjum og víðar. Á Írlandi eru völundahúsafléttur þekktar í steinlist frá steinöld (3500 ára gamlar ristur) fram á miðaldir. En skreytið á steininum sem Daníel rakst á er ekki höggvið með aðferðum sem notaðar voru á Írlandi fyrr en á síðari hluta miðalda. Sömuleiðis bendir margt til þess steinhellan sé söguð til.

Tilgáta völundarhús
Hugdetta Fornleifs um hvernig allt skreytið kynna að hafa litið út í byrjun.

 

Af myndum við sjónvarpsfréttina er ljóst að listaverkið er nokkuð haglega unnið. Í fljótu bragði sýndist mér steinninn sé íslenskur, og ef þetta er grágrýti, hefur steinninn nærri örugglega verið sagaður til eða unninn með nútímaverkfærum.

Eini tilhöggni íslenski steinninn frá fyrri öldum, sem er unninn með svipaðri tækni og steinninn sem Daníel Alexandersson fann, eru leifar grafsteins Odds Biskups Einarssonar í Skálholti (1559-1630). Hann var unninn í íslenskan stein, og með allt annarri tækni en áður hafði sést á Íslandi. Þótt ekki sé ég að að gera því skóna að steinninn sem Daníel Alexandersson fann eigi eitthvað skylt við grafstein Odds biskups, þá hefur mig lengi grunað að sá sem bæri ábyrgð á gerð grafsteins yfir Oddi hafi verið Daníel nokkur Salómon, fátækur pólskur gyðingur, sem breytti nafni sínu í Jóhannes Salómon, þegar hann tók skírn í Frúarkirkju í Kaupmannahöfn árið 1620. Árið 1625 hélt hann til Íslands með með ferðastyrk upp á 6 ríkisdali og fara engar sögur af honum síðan. Grafsteinns Odds Einarsson svipar ekkert til grafsteina samtímamanna hans á Íslandi eða á Norðurlöndunum en minnir um margt á grafsteina gyðinga, sunnar og austar í Evrópu.

Oddur Einarsson 3
Hluti af grafsteini Odds biskups Einarssonar

 

Að loknum þessum vífilengjum og vangaveltum, þykir Fornleifi líklegast að einhverjir hafi verið að leika sér að höggva völundarhús á sagaða og eða slípaða steinhellu. Eins og kunnugt er, hefur þarna í nágrenninu við fundarstaðinn farið fram ýmis konar gjörningur. Í Elliðaárdalnum hafa menn "lengi" lagt stund á indíánalist. Gæti hugsast að einhverjir hafi verið að höggva völundarhús í einhverjum indíánaleik og að brot af þeirri vinnu hafi fyrir órannsakanlegar leiðir lent í ánni?  Indíánar krotuðu reyndar ekkert síður en Írar völundarhúsaskreyti á steinklappir.

Best er að útiloka ekkert, og gaman væri að fá að vita úr hvaða efni steinhellan er og hvort sjáist för eftir steinsög. Ef steinninn hefur verið sagaður útilokar það vitaskuld háan aldur og er þá ekki um fornleifar að ræða.


5. getraun Fornleifs

Getraun

Fornleifur spyr eins og sauður að fornum sið: Hvaeretta á myndinni?

Veit hann það vel sjálfur, enda er leikurinn til þess gerður, að allir nema fornleifafræðingar svari. Fornleifafræðingar geta bara etið það sem úti frýs.

Vissuð þið, að hvergi í heiminum eru hlutfallslega til eins margir fornleifafræðingar eins og á Íslandi? Sú spurning er ekki hluti af getrauninni, en frekar spurning um raunalegt ástand, sem veldur því nú að þessi miklu fjöldi ágætu fornleifafræðinga mótmælir nýjum og illa hugsuðum Þjóðminjalögum sem greinilega voru ekki skrifuð af fornleifafræðingum. En var nú viturlegt að stofna fornleifafræðideild við Háskóla Íslands til að ala á heimalningshætti, skyldleikarækt og atvinnuleysi í greininni, þar sem fræðimennska er enn af skornum skammti, en stórtæk garðyrkja, óhemjuleg skurðagerð með tilheyrandi yfirlýsingagleði því mun algengari? Ef þið hafði skoðanir á því, lát heyra. En hér skal venjulegu fólki með áhuga á miklum aldri fyrst og fremst svara eftirfarandi spurningum

  • A) Hvað er það sem á myndinni sést?
  • B) Hvar fannst það?
  • C) Í hverju fannst það?
  • D) Hvað var hlutverk þess?

Stúlkan frá Egtved

Stundum skilur maður einfaldlega ekki baun í tilganginum með sumum rannsóknum á fornleifum. Síðast fékk ég þá tilfinningu er ég heyrði í fréttum hér í Danaveldi um verkefni líffræðings nokkurs við Kaupmannahafnarháskóla. Hann DNA-greinir hár úr fólki frá bronsöld, sem fundist hafa í mýrum í Evrópu.

Líffræðingurinn, Morten Allentoft að nafni, safnar nú hárlokkum af mýrarlíkum, þ.e. fólki sem fórnað hefur verið, eða grafið, í mýrum í Þýskalandi, Póllandi. Oftast eru bein þessa einstaklinga alls ekki varðveitt, en húð og hár eru meira eða minna varðveitt og sömuleiðis fatnaður. Nú síðast fékk Allentoft lokk úr hári Egtved stúlkunnar, sem fannst í Egtved á Jótlandi árið 1921.

Egtved Nazi Version
Egtved Nazi style

Stúlkan frá Egtved er talin einn merkasti fornleifafundur í Danmörku, þó svo að hún hafi ekki verið nema um 16-18 ára að því er fróðustu menn telja. Hún gaf upp öndina, blessunin, um 1357 f.Kr. Þá var hún sveipuð kýrfeldi og lögð í kistu sem var gerð úr eikarbol.

Egtved Bing og Grøndal
Kongelig Egtved

Tilgangurinn með DNA-rannsókninni á hárinu á bronsaldarfólki er sagður vera til þess að sjá, hvort einhver skyldleiki sé með þeim sem teknir hafa verið af lífi eða grafnir úti í mýri á bronsöld.

Egtved girl
Back to the ´60s

Þegar ég las um þetta verkefni Allentofts og heyrði, var mér spurn: Telur maðurinn virkilega að hann gæti séð náinn skyldleika manna á milli, þótt þeir hvíli lúin bein eða hafi endað daga sína í mýri einhvers staðar í Evrópu?  Ég leitaði því betri upplýsinga en fjölmiðlar gáfu. Blaðamenn skilja ekki alltaf allt samhengið, þótt þeir vilji komast á þing og verða forsetar.

Egtvedpigen
Gry Egtved

Kom þá ýmislegt í ljós, sem skýrði fyrir mér rannsóknina - og kannski ekki. Kristian Kristiansen, prófessor í fornleifafræði við háskólann í Göteborg ber ábyrgð á verkefninu. Hann langar að endurrita sögu bronsaldar - ekki meira né minna. Hann telur skoðun þá um bronsaldarsamfélagið í Norður-Evrópu, sem hingað til hefur verið við lýði, úrelda. Kristiansen sættir sig ekki lengur við þá túlkun kollega sinna, að bronsöld í Norðurevrópu hafi verið tími lítilla fólksflutninga og ferðalaga. Krisiansen, sem er Dani, telur þessu öðruvísi farið og telur að ýmsir fundir á síðustu árum sýni að mikil hreyfing hafi verið á fólki. Þetta telur  hann m.a. sig sjá í forngripunum.

Egtved academic
Lone, akademikerpigen fra Egtved

 

Hann telur að DNA muni gefa svarið. Ég held ekki. Ég held að það sé þegar hægt að sýna fram á hve lítið skylt og blandað fólk í Danmörku, Svíþjóð, Pólandi og Þýskalandi var á bronsöld, með beinamælingum einum saman. Mikill staðbundinn munur í er keramík, en glæsigripir, sem gætu hafa borist um langa vegu sem verslunarvara, þurfa ekki endilega að sýna uppruna þess fólks sem þeir finnast hjá. Gripur frá Búlgaríu í Danmörku sýnir ekki endilega að einhverjir frá Búlgaríu hafi verið í Danmörku.

Kristiansen telur konuna geta hafa verið langförula, því að það er talið að konur hafi oft verið sóttar langt í burtu til að giftast, t.d. til þess að styrkja bönd milli stríðandi hópa. Því telur Kristiansen að DNA úr stúlkunni frá Egtved geti sýnt að hún hafi komið annars staðar frá á Jótlandi eða t.d.  frá Sjálandi. En á móti má spyrja, var mikill munur á erfðamengi fólks í austur og vestur Danmörku á þessum tíma? Til þess þarf auðvitað enn frekari DNA rannsóknir, en þær hafa ekki farið fram. Varðveitt bein eru líka af skornum skammti og beinamælingar (osteometria) er því erfið.

imagesCA5RGD2P
Av,er hun ikke fra Boring?

Því er oft þannig farið, að þótt gripur sem finnst á Norðurlöndunum, sem er greinilega kominn langt að, þá þýðir það ekki að fólkið sem átti hann hafi verið aðkomufólk úr fjarlægum löndum.

Nú er bara vonandi, að ekki komi í ljós að Egtved stúlkan var söngelskur drengur sem hafði gaman af blómum og að setja hár. En það þætti þeim í kynjafræðinni líklega afar kræsilegt.

Mavedans Egtved
Oldtidsfund, men skide sensuel, ikke? Lige efter Prof. Kristiansens hoved.

Ég er hins vegar viss um, að ef ég fengi lokk úr hári konu minnar, og sendi hann til Allentofts, þá myndi koma í ljós að þær væru nátengdar, enda er konan mín komin af svipuðum slóðum og Egtved stúlkan, og hefur sama fólkið búið þar lengi og talað einkennilegt tungumál.

Efst má sjá Flemming Kaul fornleifafræðing við Þjóðminjasafn Dana (tvífara Kristjáns IV) segja frá stúlkunni frá Egtved á makalausri densku (Danglish).


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband