Færsluflokkur: Menning og listir
Listin að ljúga að ferðamönnum
18.8.2015 | 16:10
Fornleifar og fornleifarannsóknir á Íslandi eru á síðari árum orðið eitt aðalefnið á gúrkutíð fjölmiðlanna. Það er auðvitað gott að fræðigrein og fræðsla sé almenningi ánægja og jafnvel skemmtun, en þegar skemmtunin er orðið að hálfgerðum sirkus og fræðin eru virt að vettugi, þá verða menn að staldra við og segja skoðun sína.
Stundum rekst maður á svo mikið rugl um fornleifar á Íslandi í fjölmiðlum, að mann vantar orð til að lýsa því. Við höfum séð þetta vel sumarið 2015, þegar rúst skála sem rannsökuð hefur verið í Lækjargötu er síendurtekið sögð vera frá landnámi, þótt fornleifafræðingurinn sem rannsakar rústina segi af mikilli varúð, að hún telji hana vera "frá fyrstu öldum byggðar á Íslandi". Á þessu er mikill munur, en greinilega geta blaðamenn og fréttasnápar gúrkuvertíðarinnar ekki gert greinarmun á því.
Nýlega sá ég grein eftir írskan mann, Neil McMahon, sem hefur búið á Íslandi í tæp 40 ár og m.a. starfað sem kennari, leiðsögumaður og nú sem enskufréttamaður. Hann ritar um fornleifar á Íslandi í ókeypis-blaðinu Iceland Magazine sem dreift er til útlendinga á Íslandi og er það einnig aðgengilegt á netinu.
McMahon lýsir m.a. Þjóðveldisbæjarskömminni í Þjórsárdal á þennan hátt:
Stöng Commonwealth Farm in South Iceland
Here at Stöng is a fine reconstruction of one of over 20 houses in this once-fertile valley, destroyed in a massive eruption of the volcano Hekla in 1104. Several houses were excavated by a team of Nordic archaeologists in 1939 and the reconstruction of the best-preserved one in 1974 was part of the nations celebration of eleven hundred years of settlement. To commemorate Icelands adoption of Christianity in 1000 AD, a turf-clad stave church was erected nearby in the year 2000.(Sjá hér)
Ljósmynd Gernot Keller. Aldrei hefur verið hringlaga kirkjugarðsgerði kringum kirkjuna á Stöng.
Hér eru lesendur leiddir í þann vafasama sannleika, að Þjóðveldisbærinn sé á sama stað og Stöng og að eyðing Þjórsárdals hafi átt sér stað í Heklugosi árið 1104. En er það nema von, að frásagnaglaður Íri komist ekki að því sanna eftir hartnær 40 ár á Íslandi, þegar þeir sem standa að þjóðveldisbænum hella eintómum lygum út í upplýsingaefni á netinu.
Á vefsíðu Þjóðveldisbæjarins er upplýst að:
"The Commonwealth farm in Þjórsárdalur is one of Iceland's best kept secrets. The farmhouse, built on the site of one of the manor farms of the Age of Settlement, is constructed as experts thought it would have been." (Sjá hér).
Hér er ekki upplýst að Þjóðveldisbærinn sé byggður nærri þeim stað þar sem rústir Skeljastaða voru. Fólk heldur því auðveldlega að endurgerðin hafi verið reist ofan á rúst Stangar. Þar að auki er því haldið fram að Þjóðveldisbærinn, sem aldrei verður neitt annað en hugarfóstur eins þjóðernisrómantísks myndlistakennara, Harðar heitins Ágústssonar, sé afrakstur vinnu margra sérfræðinga.
Frá rannsókn á kirkjurúst og smiðjurúst undir henni. Myndin efst er frá rannsókn kirkjurústarinnar á Stöng. Ljósmyndir Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.
Af hverju allar þessar rangfærslur og veruleikafirring?
Ef nokkuð er, þá er alls ekki hlustað á sérfræðinga. Það er ekki verið að segja fólki að inni í veggjum Þjóðveldisbæjarins sé steinsteyptir veggir og að í allt of háreystri þekjunni sé nælondúkur sem var vinsæll á 8. áratugnum. Þjóðveldisbærinn er því miður ekkert annað en hugarfóstur sjúklegrar menningarminnimáttarkenndar sumra Íslendinga, sem endar í því að menn fara að byggja "fornleifar" til að eiga eitthvað "fínt" eins og "hinar þjóðirnar".
Mynd þessa tók höfundur árið 1992 þegar verið var að gera við austurgafl þjóðveldisbæjarins. Hænsnanet og gólflagningarefni höfðu menn ekki á Þjóðveldisöld. En á þennan hátt var nú leyst vandamál ævintýrasýnar Harðar Ágústssonar listmálara, sem fékk að stjórna byggingu fornhúss á 1100 ára afmæli búsetu í landinu. Á 8. áratug 20. aldar hófst auglýsingastofuþjóðernisstefna Íslendinga, og ef eitthvað er hefur hún enn aukist eftir Hrunadansinn árið 2008.
Þór Magnússon horfir eins og Plastgaukur á "forn" vinnubrögð við gerð Þjóðveldisbæjarins.
Sumir menn sem standa í slíku braski eru að mínu mati jafnvel að reyna að reisa minnisvarða um sjálfa sig. Menn eru greinilega enn að. Reistur var hryllingur sá í Skálholti sem kallaður er Þorláksbúð og menn dreymir um miðaldadómkirkjur og leikmyndar-Selfoss. Íslendingar sakna greinilega Disneylandsins. Þeir gleyma hins vegar að spyrja sig, hvort þetta sé það sem ferðamennirnir hafi áhuga á að sjá. Kannski eru ferðamenn einmitt að flýja heim plasts og yfirborðsmennsku í heimabyggð sinni og vonast eftir einfaldleika hreinleikans á Íslandi.
Kirkjan sem reist var við þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal, á ekkert skylt við kirkjurúst þá sem ég rannsakaði ásamt samstarfsfólki mínu að Stöng. Ekkert samstarf var haft við mig, fornleifafræðinginn sem fann og rannsakaði kirkjurústina, varðandi endurreisn og gerð kirkjunnar. Stjórn Þjóðveldisbæjarins hefur aldrei viljað leiðrétta rangfærslu þær sem þeir flytja í upplýsingaefni og það er enn verið að vega að heiðri mínum sem sérfræðings um fornleifar á Stöng og í Þjórsárdal, með því að nefna ekki niðurstöður rannsókna minna - að þegja þær i hel. Það er gömul íslensk aðferð, sem oft tekst, en ekki til lengdar. Svik komast upp um síðir.
Hvað varðar Stöng, þá ætti ekki að vera vandamál fyrir þá sem sjá um ferðamannaiðnaðinn í Þjóðveldisbænum að sækja sér réttar niðurstöður um fornleifarannsóknir í Þjórsárdal. Nóg er að finna hér á Fornleifi.
Ferðamönnum í Þjóðveldisbænum er ekki sagt frá þessu.
Þessi "eftirlíking" úr plasti og steinsteypu, sem falin er undir skinni síðbúinnar þjóðernisrómantíkur og menningarminnimáttarkenndar, er rekin í samvinnu við Þjóðminjasafnið. Og er því líklegast er ekki við aumingja fólkið í ferðamannaiðnaðinum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi að sakast.
Þjóðminjasafnið, samstarfsaðili um rekstur Þjóðveldisbæjarins, getur heldur ekki greint rétt frá endalokum byggðar í Þjórsárdal. Rangar upplýsingar eru um eyðingu byggðar í Þjórsárdal í sýningum safnsins, sem og á Sarpi, þegar lýst er forngripum úr Þjórsárdal. Er það nema von, að einhverjir asnist til að ljúga að ferðamönnum, þegar logið er að þeim af einni helstu menningarstofnun íslenska ríkisins?
Sjá einnig: Plastöldin í Þjórsárdal.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vel grafið og dróni Guðnýjar Zoega
14.8.2015 | 14:53
Ég hef áður dáðst að verkefnum Guðnýjar Zoega og félaga í Skagafirði, t.d. að Seylu, þótt samverkamenn hennar hafi reynt að breyta myntsláttusögu Dana á heldur ógagnrýninn hátt með því að halda því fram að Danir hafi slegið koparmynt á tíma sem þeir slógu aðeins silfurmynt (sjá hér og hér). Það var heldur ekki mynt sem þeir fundu.
Rannsókn kirkjurústar í Keflavík í Hegranesi er afar áhugaverður hluti af Skagfirsku kirkjurannsókninni sem staðið hefur yfir síðan 2007, mestmegnis fyrir styrktarfé frá Bandaríkjunum. Ekki fyrir það að þar hafi fundist kirkja og grafir. Það heyrir vart til tíðinda lengur. Hins vegar hafa fornleifafræðingarnir grafið varlega niður að H-1 laginu úr Heklugosinu árið 1104. Svo hefur Guðný tekið í notkun nýtt leikfang, sem verður ómissandi í íslenskum fornleifarannsóknum framtíðarinnar, nú þegar geimverur eru hættar að taka loftmyndir.
Drónamynd Guðnýjar er sko ekki dónaleg. Hún sýnir okkur, hvernig H-1 hefur lagst eins og næturhrím á hringlaga, skagfirska kirkjugarðinn. Sjá má að nokkrar grafir hafa verið grafnar eftir 1104. En þar sem 1104 lagið er yfir, eru líklegast óhreyfðar grafir undir (nema ef gjóskan hafi fokið til).
Vissulega er H-1 askan ekki eins þykk og í t.d. Þjórsárdal, þar sem ég þekki hana best. Kirkjan í Keflavík er hreint út sagt álíka falleg og kirkjan á Stöng. Skagfirðingar létu ekki þessa gjósku á sig fá frekar en Þjórsdælir og hélst búseta áfram á báðum stöðum.
Gaman væri að fá að sjá grunnmynd af Keflavíkurkirkju í Hegranesi.
Hér er mynd frá rannsókn á kirkjugarði í Keldudal, en þá var ekki kominn dróni. Minnir mig af myndum, að John Steinberg hafi haft með sér dreka, sem lét illa af stjórn í skagfirsku rokinu. Tæki eru misgóð. Drónar eru framtíðin.
Pöntun
Nú væri gaman að fá eins og 2-3 kolefnisaldursgreiningar á ungum einstaklingum (börnum) sem voru greftruð áður en H-1 gjóskan féll, og síðan 2-3 aldursgreiningar á börnum sem voru greftruð síðar. Í raun hafa menn aðeins tekið það sem gefið, að H-1 askan sé úr gosinu árið 1104 - og er það vitaskuld líklegast - en alls ekki fullsannað. Fyrst töldu menn gjóskuna úr gosi árið 1300 og um tíma var talað um 1158 sem gosárið. Með slíkum kolefnisaldursgreiningum af ungum einstaklingum sem létust fyrir og eftir gos, gætum við endanlega gengið úr skugga um aldur H-1.
Heimildir: https://www.facebook.com/icelandscass
Sjáið hér hvernig fornleifafræðingarnir í Skagafirði eru farnir að nota IPad í rannsókninni. Fyrst börn eru farin að nota slíkt á forskólastigi er eins gott fyrir fornleifafræðinga að kunna á þetta amboð, sem þó er enn ekki hægt að grafa með.
Menning og listir | Breytt 15.8.2015 kl. 05:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hundur má hann heita
11.8.2015 | 16:54
Sænskir fornleifafræðingar og kafarar telja sig hafa fundið leifar flaks danska konungsskipsins Griffen eða Grib(p)shunden sem sökk árið 1495 við strönd Blekinge, rétt úti fyrir bænum Ronneby, þar sem flakið liggur nú á um 10 metra dýpi. Hér er að öllum líkindum kominn upp hluti af skipi sem sigldi á sama tíma og Kólumbus fann Ameríku á skipum byggðum á sama hátt og skipið sem nú er fundið úti fyrir strönd Suður-Svíþjóðar.
Talið er að Griffen hafi verið konungsskip Dana, þ.e. helsta skip flota Hans (Jóhnnesar) Danakonungs. Skipið sökk þegar eldur braust út um borð á ferð þess til Kalmars, þar sem Hans konungur ætlaði sér að ræða við menn um vandmál Kalmarsambandsins, þegar Svíar reyndu að draga sig út úr því. Margir um borð létu lífið áður en mönnum tókst að komast frá borði rétt áður en skipið sökk.
Telja fornleifafræðingarnir sig hafa fundið stafnmynd skipsins sem lyft var af hafsbotni fyrr dag, en rannsóknir fóru fyrst fram á flakinu árið 2001-2.
Áhugavert er að sjá að stafnmyndin (Gallíónsfígúran) er ekki sérlega stór og svo er þetta ekki "grif" (gryphus eða gryphon) heldur vargur eða einhvers konar dreki. Grífon voru skepnur með bakhluta ljóns en arnar og arnarfætur sem framlappir og svo voru þeir vængjaðir.
Venjulega voru stafnmyndirnar tilvísun í nafn skipsins. Má því vel vera að trjóna sem fannst sé af griff eða gribshundi,en á þessum tíma gerðu menn sér þó vel grein fyrir því hvernig sagndýrið gryphus átti að líta út. Skipasmiðurinn sem skar út trjónuna hefur kannski ekki verið með það á hreinu. En stafnmyndin sem nú er komin upp á yfirborðið gæti vel vísað til þess að menn hafi séð dýrið sem skipið er kennt við sem einhvers konar hundsskepnu. Þetta skýrir danski fornleifafræðingurinn Rolf Warming lauslega en ekki nógu fyllilega hér. Ef hann hefur ekki rétt fyrir sér, er hundurinn hugsanlega úr líklega úr öðru skipi - hver veit?
Í dag kom í ljós að "vargurinn" var með annað dýr í kjaftinum, á milli tannanna. Gaman verður að heyra hvaða dýr það er. Er þarna kannski kominn sjálfur Jónas í hvalnum? Það var algengt nafn á skipum fyrr á öldum.
Nú verður trjónan lögð í bað með alls kyns vökvum og síðar þurrfryst. Þannig vonast menn til að geta varðveitt hana um ókominn tíma.
Trjónan komin upp og er með eitthvað í kjaftinum
Saga af sverði - Hrafnkelsdalssverðið
4.8.2015 | 08:00
Árið 1897 fann ungur maður fornt sverð í Hrafnkelsdal. Löngu síðar leiddi dr. Jón Hnefill Aðalseinsson mjög góðar líkur að því hver finnandinn hefði verið. Hann hét Benedikt Ísaksson og var vinnumaður hjá Elíasi Jónssyni bónda á Vaðbrekku og síðar í Aðalbóli. Af frásögnum eldri manna sem þekkt höfðu Benedikt, og sem Jón Hnefill hafði tímanlega tal af, er hægt að álykta að sverðið hafi fundist í Skænudal sem er lítill dalur sem gengur vestur og suðvestur inn á múlann sem er á milli Hrafnkelsdals og Jökuldals.
Þótt Jóni Hnefli hafi þótt mikilvægt og áhugavert að velta fyrir sér hver finnandi sverðsins var og hvar það fannst, þá er eigendasaga þess engu síður áhugaverð, sem og gerð sverðsins. Það tvennt mun aðallega verða rætt hér, því sú saga hefur enn ekki verið sögð að fullu, þótt oft hafi verið skrifað um sverðið og það án vitundar um allar heimildir sem því tengjast.
Nýjar heimildir um um sverðið frá aldamótaárinu 1900 verða hér settar fram í fyrsta sinn. Þær hafa varðveist á því sem forðum var kallað 2. deild Þjóðminjasafns Dana (Nationalmuseets 2. Afdeling) í Kaupmannahöfn.
Ef rétt er að Benedikt Ísaksson hafi fundið sverðið, þá hefur hann eða bóndinn sem hann vann fyrir selt H.I. Ernst apótekara á Seyðisfirði sverðið fyrir 12 krónur. Sverðið endaði síðan á Statens Historiska Museum í Stokkhólmi. Lýsir Kristján Eldjárn því í doktorsritgerð sinni í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands, Kumli og Haugfé (1956). Því miður hafði Eldjárn ekki aðgang að öllum skjölum og yfirsást gögn sem ég fann löngu síðar í Kaupmannahöfn á 9. tug síðustu aldar. Hér skal bætt inn í eyðurnar og nýjar heimildar taldar til.
Kaup og sölur
Eigandasöguna gætum við byrjað með skrifum Þorsteins Erlingssonar skálds í blaðinu Bjarka árið 1900. Þorsteinn fór fremur háðskum orðum um að H.I. Ernst hefði haft sverðið af finnandanum án þess að finnandinn fengi nóg fyrir snúð sinn:
Maður fann hjer gull- og silfurbúið sverð, uppi í Hrafnkelsdal nú nýlega og er sagt að hann hafi verið svo sorglega fávís að selja Ernst apótekara það fyrir 12 kr. Eftir því sem af sverðinu er sagt hefði forngripasafnið íslenska gefið manninum að minsta kosti 100 kr. fyrir það og ný er auk þess líklega loku skotið fyrir að það komist þangað og er það illa. (Þorsteinn Erlingsson í Bjarka 5. árg. 1900. 25. tbl. 25.06.1909).
Þessi skoðun Þorsteins fór fyrir brjóstið á apótekaranum sem svaraði nokkrum dögum síðar í öðru blaði, Austra:
Bjarki og hið forna sverð
Í tilefni af því, að föðurlandsvininn, ritstjóra Bjarka tekur það svo ákaflega sárt að vita til þess að forngripasafnið í Reykjavík skuli missa af sverði því er fannst um vorið 1897 í Hrafnkelsdal, - er mér sönn ánægja að því, að hugga ritstjórann með eptirfarandi tilboði: Í 24 klukkustundir frá birtingu þessa tilboðs míns í Austra stendur herra Þorsteini Erlingssyni þetta forna sverð til boða fyrir 112 krónur, hvar af 100 kr. skulu skiptast milli þess sem seldi mér sverðið, og stofnana til almennings heilla hér í kaupstaðnum, eptir opinberlega auglýstri skýrslu. Að sjálfsögðu verður herra Þorsteinn Erlingsson skriflega að ábyrgjast mér, að forngripasafnið í Reykjavík verði njóti sverðsins, þó það kynnu að verða mjög deildar meining milli safnsins og herra Þorsteins Erlingssonar um verðmæti sverðsins. ....
Seyðisfirði, þann 29. júní 1900. H. I. Ernst lyfsali , p.t. eigandi hins forna sverðs. (H.I.Ernst í Austra, 22. tbl. 29.06.1900).
Síðar sama ár skrifaði Ernst apótekari Þjóðminjasafni Dana. Það bréf fann ég í einni af mörgum heimsóknum mínum á Þjóðminjasafnið í Kaupmannahöfn á árunum 1981 til 1986. Líklegast árið 1981. Bréfin sýna, að Ernst hafði ekki aðeins áhuga á að koma sverðinu í verð. Hann leitaði upplýsinga um gerð sverðsins og aldur þess.
1. Nóvember 1900 skrifar Ernst til Arthurs Williams Mollerup sem var yfirmaður 2. deildar Þjóðminjasafns Dana.
H.I. Ernst Seydisfjord, den 1ste Novbr. 1900.
Privilg. Apotheker
Generalagentur for Livsforskikringsselskabet SKANDIA STOCKHOLM
Til Direktören for Nationalmuseets 2d Afdeling, Höjvelbaarne Hr Dr. phil. Mollerup R. af Dbrg. Kjöbenhavn.
Efter Anmodning fra Justitsraad Hansen i Hobro tillader jeg mig herved at fremsende et Fotografi af det i Hrafnkelsdal her paa Island fundne Sværd. Som det vil sees af Fotografiet er Sværdet, der maaler 35 ½ Tommer, en nöjagtig Copi af det i Fabricius Danmarkshistorie Side 38 afbildede Sværd fra Jærnalderen. Tillige findes Sölv og Guld indlagt paa Sværdknappen (synligt på Billedet) og nede ved Haandgrebet. Jeg skal tillige oplyse om, at Rektoren ved Reykjavik Latinskole Dr. phil. Björn Olsen, der har set Sværdet hos mig, formener, at der under Haandgrebet findes Runer, der imidlertid for mit Øje synes at være utydeligere. Som ovenform bemærket, er Sværdet fundet i Hrafnkelsdal, hvor Hrafnkel Freysgode ligger begravet; men yderligere undersøgelser af Stedet gav intet foröget Resultat. - Saafremt Museet paa Basis af de modtagne Oplysninger kan bestemme Sværdets Alder vilde jeg være særdeles taknemmelig for en Meddelelse herom.
Med særdeles Höjagtelse
Ærbödigst
H.I.Ernst
Apotheker og Vicekonsul.
Upplýsingar í þessu bréfi Ernsts apótekara veita okkur vitneskju um að fundarstaður sverðsins var rannsakaður eitthvað frekar eftir fund þess.
Annar maður, Frederik Opffer að nafni, sem var blaðamaður í Køge, á Kjøge Avis, skrifaði sömuleiðis eins konar rógsbréf til Þjóðminjasafns Dana. Hvar hann hefur snapað upp fréttir af kaupum Ernst apótekara á íslensku sverði, er ekki gott að segja.
Kjøge, d. 24. September 1900
Hr. Museumsinspektør Mollerup!
Apotheker H. J. Ernst på Seydisfjord har for nogen Tiden siden af en islandsk bonde kjøbt et ældgammelt Høvdingesværd for 12 kroner. Efter Beskrivelsen skulle det være meget smukt og interessant . Det forlyder, at det er indlagt og bærer Navnetræk, således at man ved, fra hvem ddet stammer. Efter hvad jeg fra sikker Kilde har bragt i Erfaring, agter Apotheker Ernst at sælge Sværdet til en engelsk Samling. Da dette formentlig strider imod Bestemmelserne angående Danefæ, og da det jo var kjedeligt, hvis en antikvarisk Sjældenhed skulde gå ud af Landet for personlig Vindings Skyld, tillader jeg mig at henlede Deres ærede Opmærksomhed på Sagen. Apotheker Ernst´s Fader, fungerende Toldkontrøller Ernst, Vesterbrogade 115(?) vil sikkert kunne give goder Oplysninger derom.
Med særdeles Agtelse Frederik Opffer
I uppkasti af bréfi sem Arthur William Mollerup hefur ritað Ernst apótekara þann 12.desember 1900 skrifar hann meðal annars:
... Gennem Justitsraad Jensen har jeg erfaret, at De foreløbigt ikke agter at afstaa sværdet. Paa Grund af den antikvariske Værdi vil jeg dog være Dem forbudnen for en Meddelelse naar De eventuelt skulde faa i Sinde at skille Dem ved det.
Ernst upplýsti greinilega, að hann væri ekki á þeim buxunum að selja sverðið.
Ekkert af þessum síðastnefndu upplýsingum úr Þjóðminjasafni Dana, koma fram í Kumli og Haugfé Kristjáns Eldjárns og þaðan að síður í endurútgáfu á ritgerðinni frá 2000, enda fann ég fyrstur manna þessi bréf og greini fyrstur frá þeim nú. Ég sé nú, þegar ég tek þau fram eftir að þau höfðu safnað hjá mér ryki í möppum, að enginn hefur nýtt sér þau þegar um sverðið í Hrafnkelsdal hefur verið ritað á síðari árum. Aðstandendur endurútgáfu ritgerðar Eldjárns gerðu sér ekki í þessu efni frekar en í öðrum mjög mikið far um að bæta við upplýsingum.
Ernst apótekari lét síðan sverðið. Hvort hann seldi eða gaf það vitum við ekki í dag. En það endaði í Svíþjóð, en Ernst var umboðsmaður SKANDIA líftryggingafélagsins, sem gæti skýrt ferð sverðsins til Svíðjóðar. Samkvæmt sænskum heimildum gaf N. Petersen jústítsráð í Kaupmannahöfn formlega sverðið Óskari 2. Svíakonungi, sem lét það síðan árið 1903 á Statens Historiska Museum i Stokkhólmi. Fékk sverðið safnnúmerið SHM-11537.
Sverðið afhentu Svíar svo Íslendingum árið 1971 eins og t.d. má lesa um hér á forsíðu Þjóðviljans hinn 15. september 1971, ellegar í grein Þórs Magnússonar í Árbók Fornleifafélagsins 1971. Ekki gat það talist til gjafar sænskum lögum samkvæmt, en það er nú á Íslandi til ævarandi varðveislu (ständig deposition). Þann 14. september 1971 fékk Þór Magnússon sverðið í hendur, og hefur það síðan verið varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands og er enn skráð með sænsku safnnúmeri með öðrum upplýsingum (í Sarpi) sem er hins vegar mjög ábótavant.
Dæmigerð VLFBERHT áritun,er þó ekki á íslensku sverði.
+VLFBERHT+ sverð
Sverðið sem kennt er við Hrafnkelsdal, þótt það hafi fremur fundist í Skænudal, er með svo kallaðan VLFBERHT brand - að því er talið er. Það telur dr. Kristín Sigurðardóttir forvörður, núverandi forstjóri Minjastofnunar Íslands. Kristín telur sig einnig hafa fundið VLFBERHT-áletrun á hinu fagra sverði (Þjms. 557) sem fannst árið 1868 í kumli að Hafurbjarnarstöðum, sem er nærri Sandgerði. Sömuleiðis telur Kristín sig hafa fundið VLFBERHT-áletrun á brandi sverðs sem fannst í Baldursheimi í Mývatnssveit (Þjms. 2), en mér vitandi hefur Kristín ekki birt neitt því til stuðnings.
Kristín Sigurðardóttir forvörður hefur birt þessa meintu VLFBERHT áletrun á sverðinu frá Hafurbjarnarstöðum, eða réttara sagt leifar hennar, því greinilega er ekki mikið eftir af henni. Líkast til er þetta áletrun á lélegri eftirgerð af VLFBERHT brandi.
Sverðið frá Hafurbjarnarstöðum. Ljósm. Þjóðminjasafn Íslands.
Sverðið frá Baldursheimi er mjög illa farið og með ólíkindum að inngreipt VLFEBRHT-"tauschering" á yfirborði brandsins hafi varðveist. Sönnun fyrir því væri vel þegin! Skuggar á lélegri röntgenmynd frá 1979 eru ekki nóg. Teikningin var gerð af A. Gíslasyni.
VLFBERHT eða ULFBERHT sverð voru upphaflega hágæðasverð sem framleidd voru úr hágæðajárni sem flutt var til Evrópu frá Íran eða jafnvel alla leið frá Indlandi. Gæði járnsins voru meiri en þess járn sem unnið var í Evrópu, þar sem í Asíu kunnu menn að hita málminn með viðbættum kolefni í 1300-1400 gráður í lokuðum deiglum í lengri tíma. Við það styrktist járnið til muna og getur talist til stáls. Egg branda úr slíku járni voru harðari, og þar sem sverðin voru í notkun voru VLFBERHT-brandar taldir bera af öðrum sverðum. Sverðin þekkjast m.a. á því að merki með nafninu VLFBERHT hefur verið grafið og greipt með mýkri málmi (danska tauscheret, enska incrusted, sjá meira um tæknina hér) efst blóðrefilinn nærri tanga brandsins. Hinum megnin var skreyti með með XX- og II-laga táknum (sjá mynd neðar).
Fyrir nokkrum árum birti breskur vísindamaður Alan Williams að nafni, sem starfar við The Wallace Collection i London, niðurstöður sínar á rannsóknum á járninu í Ulfberht-sverðum (sjá hér). Williams uppgötvaði að norrænir menn eða aðrir fóru fljótt að falsa VLFBERHT branda. Að sögn William má oft sjá það á áletruninni, jafnt sem efnagreiningunni á járninu. Eftirgerðir voru með ranga stafsetningu á "brandinum" og minna innihald kolefnis í járninu. Að svipaðri niðurstöðu hefur fornleifafræðingurinn Anne Stalsberg komist, án málmrannsókna, en hún hefur aftur á móti sýnt fram á breytingar og úrkynjun á áletrunum, sem virðast haldast í hönd við verri gæði brandanna þegar fram líða tímar og fölsuð merkjavara kemst á kreik.
Voru hin þrjú íslensku "VLFBERHT-sverð" merkjavara eða evrópsk soraframleiðsla?
Hvort gæði sverðanna frá Hrafnkelsdal og Hafurbjarnarstöðum hafi verið góð eða léleg, eða hvort inngreipt áletrunin sé úrkynjuð eður ei, veit ég ekki nógu gjörla til að geta sagt frá því. Áletrunin á brandinum frá Hafurbjarnarstöðum gæti þó bent til þess að sverðið hafi verið úr deigara járni en "ekta" VLFBERHT-merkjavara, sé gengið út frá niðurstöðum Alan Williams og Önnu Stalsberg.
Árið 1979 lét Kristín Sigurðardóttir röntgenljósmynda sverðin og þá komu mjög ógreinilegar áletranir í ljós. Hugsanlega hefur hún skrifað meira um þær löngu síðar í doktorsritgerð sinni, en ekki greinir hún þó frá því í frásögnum sínum af Hrafnkelsdalssverðinu sem birst hefur eftir að hún var rituð, t.d. í þessu riti, sem því miður inniheldur fjölda missagna og rangfærslna.
Greinilegt er að menn á Norðurlöndum, eða víkingarnir, (ef menn vilja halda í það kjánalaga safnheiti), hafa greinilega verið sólgnir í merkjavöru eins og helbeitt VLFBERHT-sverðin. Þeir hafa fljótlega séð sér færi á að falsa slíka hágæðavöru. Hér að lokum birti ég skopmynd sem einn snjall blaðteiknara Berlingske Tidende í Danmörku teiknaði er fréttin af niðurstöðum Alan Williams birtist í því blaði hér um árið.
Merkjavöruprinsinn Valiant og Hrafnkell Freysgoði með linan VLFBERHT sinn í Skænudal?
Heimildir
Jón Hnefill Aðalsteinsson 1981. Sverðið úr Hrafnkelsdal. Árbók hin íslenzka Fornleifafélags 1981, bls. 40-47.
Kristján Eldjárn 1956. Kuml og Haugfé í heiðnum sið á Íslandi. Akureyri 1956. (Bókin endurútgefin árið 2000 með mjög takmörkuðum viðbótum og litmyndum).
Þór Magnússon 1971. Endurheimt Fornaldarsverð. Árbók hins íslenzka Fornleifafélags 1971, bls. 86-90.
Kristín Sigurðardóttir 1981. Tvö ný Ulfbert sverð? Ljóri 2. árg. 1. tbl. Nóv. 1981, bls. 7.
Kristín Sigurðardóttir 1994. Sverð frá Hafurbjarnarstöðum. Gersemar og þarfaþing. Þjóðminjasafn Íslands og Hið Íslenska Bókmenntafélag 1994, bls. 22-23.
Williams, Alan R. 2007, Crucible Steel in medieval swords, Metals and Mines: Studies in Archaeometallurgy (London, 2007), pp. 233-241.
Skjalasafn Nationalmuseeet Kaupmannahöfn 2. Afdeling (Nú Afd. for Middelalder og Renaissance): Mál 317/00 [1900] merkt: Island; Sværd fra Vikinge-tiden.
Annar fróðleikur:
Hér er því haldið fram, að járnið í Ulfberht sverðum séu alls ekki úr Austurvegi, heldur hágæðastál ættað úr Taunus fjöllum í Þýskalandi. Sjá enn fremur hér. Samkvæmt Robert Lehmann er mikið arsenik í járni Ulfberht sverða. Það telur hann útiloka austrænan uppruna stálsins. Mér sýnist það ekki fara efnafræðingnum vel úr hendi að leika fornleifafræðing.
Áhugaverð fræðslumynd um VLFBERHT sverð, sem Jón Steinar Ragnarsson benti mér á á FB. Fræðslumyndin birtir niðurstöður Önnu Stalsberg án þess að nefna hana á nafn, en annars er þetta ágæt fræðsla og skemmtun:
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 2015 © Varist falsanir og eftiröpun.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Að varðveita eða ekki að varðveita
27.7.2015 | 06:08
Eitthvað virðast boðskiptin milli verktakafyrirtækisins með mikil- mennskubrjálaða nafnið "Fornleifastofnun Íslands" og hins duglitla ríkisbákns Minjastofnunar vera slök. Það vita þó allir í fornleifageir- anum, að dr. Adolf Friðriksson hjá FÍ og Kristín Sigurðardóttir hjá MÍ hafa lengi eldað grátt silfur, öllum í stéttinni og ráðuneytunum til ama og leiðinda. Þetta er líklega bara ný senna í gamalli og leiðinlegri sögu sem þau hjúin hafa mest sett mark sitt á.
Finnst Fornleifi einnig skondið, að umsjónamaður rannsóknarinnar í upphafi, Lísabet Guðmundsdóttir, sé hvergi nefnd á nafn í fréttum síðustu vikna. Má hún ekki tjá sig við fjölmiðla lengur?
En eins og fornleifafræðingum er enn ljóst, þá er ekkert öruggt með aldur skálans sem nú er fundinn. Skrítið finnst mér, að talað sé um landnámsrúst, þegar ekki liggja fyrir nákvæmar aldursgreiningar. Að aldursgreina út frá bogadregnum veggjum er ekki góð aðferð og ekki nákvæm, því bogadregnir veggir eru notaðir í svo langan tíma. Enn síðri til tímasetninga eru snældusnúðar (eins og fyrr var rakið).
Það er um að gera að flytja gamla Iðnskólann upp á Árbæ. Undir honum og gengt honum á bílastæðinu eru ugglaust frábærar minjar sem ég tek að mér að rannsaka ef menn vilja. Þar stóð miklu síðar hús sem brann árið 1967 meðan að Flosi Ólafsson bjó í húsinu. Ekki svo að skilja að það hafi verið Flosi sem stóð fyrir brennunni. Hann var í Þjóðleikhúsinu. Svo verður hægt að hafa kaffistofu, ráðstefnusal og sýningu í forna Iðnaðarbankanum, sem hvað byggingarlist varðar er eitt besta dæmi um hreinræktaðan kúbisma sem við höfum á Íslandi. Arkitektinn hafði sykurmola á Hressingarskálanum sem fyrirmynd.
Svo er ugglaust komin upp erfið staða fyrir Kristínu Sigurðardóttir hjá Minjastofnun, þótt hún hafi alltaf verið þjónkunargjörn undir fólk sem á kapítalið og sem stjórnar ferðamannaiðnaðinum. Kapítalið er nefnilega einnig farið að tala um gríðarstóra landnámssýningu á einhverju sem kannski er frá landnámsöld og kannski síðar. Við verðum bara að hafa í huga, að ferðamenn sem skoða Landnámssýninguna + Lækjargötuskálana munu stefna íslenskum yfirvöldum fyrir formalínseitrun eftir dvöl á íslandi. Ég hef heyrt um fólk sem fær ofnæmiseinkenni á húð eftir að hafa heimsótt Landnámssýninguna.
Það er vandasamt verk að varðveita skálarústir. Það kostar allt að 700.000.000 krónum á rúst, ef ekki meira. Það verðlag var ákveðið af sjálfri Kristínu Sigurðardóttir hér um árið og hefur örugglega hækkað. Sel það ekki dýrara en ég keypti það í grein sem kallast 700.000.000 króna rúst sem og í þessari grein.
Minni ég hér með Kristínu Sigurðardóttur á, hve dýr eru Drottins verk, ekki síður en mannanna.
Ákvörðun um minjar ekki verið tekin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 10:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mótmæli fyrr og síðar
13.7.2015 | 08:37
Bandaríski herinn er löngu farinn og þeir sem hötuðu BNA og NATO hafa heils hugar snúið hatri sín að Ísrael í hjáverkum við stuðning sinn við skátasamtökin Hamas á Gaza sem halda heilli þjóð í gíslingu trúarofstopa og ofbeldishyggju.
En heimurinn hefur breyst. Þó ekki meira en svo, að sum mótmælaskiltin sem notuð voru þegar BNA og NATO voru fjandinn væri enn hægt að nota í dag, væru þau enn til. En líklega væri ekki sama fólkið sem bæri þessi skilti í dag og sem gerði það þá, með nokkrum undantekningum þó.
Skemmtilegt þykir mér að skoða gamlar ljósmyndir frá íslenskum mótmælum gegn "heimsvaldastefnu NATO". Í Þjóðminjasafni er varðveitt töluvert safn ljósmynda Vilborgar Harðardóttur, sem börn hennar (þ.m.t. Mörður Árnason) gáfu safninu að henni látinni. Þótt skiltin og borðarnir hafi verið brennd á báli gleymskunnar, eru prýðisgóðar ljósmyndir Vilborgar heitinnar ágætur vitnisburður um þann tíma sem hún ljósmyndaði. Þar á meðal eru áhugaverðar myndir frá mótmælum vinstrimanna og herstöðvarandstæðinga á NATO-fundi í Reykjavík 24.6. 1968.
Eins og sjá má efst, var Grikkland mönnum hugleikið á þeim árum, þegar landið var í hers höndum. Fánanum væri einhver tilbúinn að veifa í dag í vanda Grikklands undir ESB-fasismanum. Meðal fyrrverandi sósíalista sem nú dýrka margir hverjir ESB væri þó líklega erfitt að finna marga sem telja prýði af þessum fána í ESB-glansklisjunni sem fests hefur á nethimnu þeirra.
Fólk, sem til var í að færa ESB Ísland á silfurfati sem eins konar tryggingu í Icesave málinu, á víst mjög erfitt með að sýna Grikklandi stuðning í dag. Hefur þetta fólk svikið málstaðinn? Ja, sumt að því var reyndar ekki fætt, eða á bleyjualdrinum þegar þessi mynd var tekin. Hún sýnir göngumenn á leið til Hótel Sögu, þar sem NATO-fundurinn var haldinn.
Ísland fyrir Íslendinga. Þarna þekkjast ýmsir, m.a. Gísli Gunnarsson og Auðun H. Einarsson smíðakennari (sjá hér). Með þekkingu mína á þeim heiðursmönnum tel ég víst að þeir hafa meint annað með því en fólk gerir í dag enda Gísli kominn af fólki sem aðstoðaði gyðinga í nauð.
Skoðið skiltin: "ÍSLAND fyrir ÍSLENDINGA". Ekki þætti slíkt slagorð kórrétt í dag meðal þeirra sem mótmæltu NATO í júní 1968. Í dag myndu kannski framsóknarmenn bera slík skilti. Maður getur líklega leyft sér að spyrja. Er tvískinnungur að leysa vinstrisinnaða Íslendinga upp? Mér sýnist það.
Gísli Gunnarsson prófessor emeritus, er einn helsti og heitasti stuðningsmaður byltingar Palestínumanna gegn Ísrael, þjóðríki gyðinga, og notar hann mestan tíma sinn nú orðið til að deila við og fræða menn um skoðanir sínar á því á fasbók sinni. Gísli hafði sig mikið í frammi í mótmælunum gegn "Heimsvaldastefnu Bandaríkjanna", sem færðust frá Hótel Sögu til Háskóla Íslands, þar sem lögreglulið borgarinnar lét til skarar skríða gegn mótmælendum. Löggurnar tóku "þennan lýð" ekki neinum vettlingatökum eins og sjá má og, aumingja Gísli var færður í fangarútu með kverkartaki.
Komdu hérna væni. Gísli Gunnarsson sagnfræðingur og byltingarsinni fær að kenna á hrottaskap laganna varða.
Sjáið svo þessa mynd. Hún er frá mótmælum gegn NATO og tveimur skipum herafla bandalagsins í Sundahöfn árið 1979. Þar var fólk líka tekið með kverkartaki af sömu löggunum og höfðu sig frammi árið 1968,og fært í rútu löggunnar.
Fornleifur gamli telur sig þekkja vandræðagemlinginn á myndinni hér til hliðar, sem gerði sig líklegan til að kasta grjóti í herafla Atlantshafsbandalagsins tveimur mánuðum fyrir stúdentspróf sitt árið 1979. Útsendari CIA hjá Mogganum tók mynd af honum við söfnun steinanna. Þessi frumstæði ungi maður, sem var þó svo útsjónasamur að sleppa við að fara í rútuferð með löggunni, tilheyrði auðvitað rumpulýðnum í MH, þar sem hann eyddi tíma sínum þegar hann var ekki að plotta byltingar. Í Sundahöfn bar hann plastpoka með latínuglósum úr ræðum Ciceros í einni hendi og stein í hinni. Hann var upp frá þessum degi kallaður "Borgarskæruliðinn" (sjá frekar hér)
Menn telja að hann geymi enn vopn í skápum eða uppi á háalofti og sé brennuvargur í skrautgarði broddborgaranna. Menn spáðu því á sínum tíma, að hann gerðist meðlimur í Brigade Rossa. En sjá, allt tekur enda. Þessi hrokkinhærði æringi er nú hinn argasti stuðningsmaður Ísraelsríkis (sem hann var reyndar líka árið 1979 og fyrr) og skilur ekki þá sem kasta steinum gegn ofurafli en um leið styður hann vitaskuld ekki uppruna síns vegna hina skítlega möntru þjóðernissinna og sósíalista :"Ísland fyrir Íslendinga". Hann telur að öll mótmæli séu holl. Þeir sem völdin hafa, hvar sem það er í þjóðfélaginu, verðskulda þau ekki alltaf. Ef ekki er hægt að bylta þeim, er þeim dauðilla við að það sé minnst á skítlegar aðferðir þeirra til að ná völdum eða komast í stöður. Slíkt verður að skrá og birta og leita réttar síns, en ekki bara berja á potta og pönnur, gaula og garga eins og menn tóku upp þegar brann við í bönkunum.
Fornleifur hefur ekkert á móti skoðunum þessa unga, villta manns, bara ef hann blandar sér ekki í fornleifamálin. Þar er nógu mörgum steinum safnað og kastað fyrir, svo ekki sé talað um tvískinnunginn, valdabaráttuna og keppnina um að komast í sjónvarpsfréttirnar með eins fjarstæðukenndar yfirlýsingar og mögulegt er.
Bendi ég áhugamönnum um fornleifafræði, byltingu og steina að bíða spennta eftir næstu færslu, sem fjallar um steina og fornleifafræði og verður greinin vitaskuld steinhörð og byltingarkennd ádeila.
Að lokum birti ég hér mynd af skælbrosandi andbyltingarmanni (lengst til hægri), sem mótmælti gegn þeim sem mótmæltu NATO árið 1968. Vilborg náði einnig mynd af honum. Þessi grallaralegi maður hefur svo um munar reynst vera áhugamaður um steina eins og fyrrnefndur menntskælingur í Sundahöfn, og tekið þátt í að búa til nýlegar fornleifar eins og frægt er orðið. Svo við ljúkum Alfa í sömu fánalitunum og Omega, þá er hann næstum því eins grískur og fáninn á efstu mynd. Kanelás hét hann, en kallar sig dags daglega Johnsen. Það vekur hins vegar meiri athygli mína, að mótmælin gegn NATO eru kölluð mótmæli í skrá Þjóðminjasafns sem birtist á Sarpi, en mótmæli Heimdellinga gegn mótmælum NATO deginum áður eru kölluð óeirðir og ólæti. Svona er nú margt skrítið í sarpinum.
Við lifum í pólitískum heimi
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Sómi yrði af garðinum
9.7.2015 | 06:12
Það er engum vafa undirorpið að þetta mannverki eru meðal heillegustu fornleifa sem varðveist hafa í Reykjavík. Hann yrði mikil bæjarprýði og ugglaust áhugaverður staður að skoða fyrir ferðamenn sem og bankastjóra Seðlabankans, frekar en hallir úr gleri, járni og steypu.
Mikil skömm og synd væri að varðveita garðinn aðeins að hluta til. Þessi garður sem forfeður sumra Reykvíkinga tóku þátt í að byggja er meðal mestu mannvirkja 20. aldarinnar á Íslandi.
Vonandi er, að græðgiskallar eyðileggi ekki þessar minjar með bílakjöllurum og Babelsturnum.
Nú verður Minjastofnun líka að standa sig, ekki síst Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður. Hún má ekki gefa eftir pólitískum þvingunum eins og hún hefur gert svo oft áður. Hér um árið þegar 1-2 einstaklingar áttu að sjá um minjavörslu þá sem 15-20 sjá um nú, þurfti Össur Skarphéðinsson ekki annað en að hringja sem ráðherra í settan Þjóðminjavörð og þusa, til að fara í kringum þjóðminjalögin. Kristín var fengin til að skrifa annað álit en ég hafði skrifað á staðsetningu sumarbústaðs apótekara, samflokksmanns Össurar og fuglaskoðara. Sumarhúsið var reist of nærri fornleifum og jafnvel ofan a þeim, sem og í trássi við náttúruverndarlög, og á einum fegursta stað landsins (sjá frekar hér).
Þó að faðir Stínu, Siggi Halldórs í ÁTVR, og frændur hafi aðeins leikið sér að bolta fyrir framan námuna þar sem mulið var grjót í hafnargerðina, verðum við að vona að hún valdi og afkasti einni almennilegri verndum fornminja í stöðu þeirri sem hún gegnir sem forstöðumaður Minjastofnunar Íslands.
Fyrir tíma garðs. Ljósmynd tekin á 19. öld.
Hafnargarðurinn verði varðveittur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Í minningu Moussaieffs
1.7.2015 | 05:21
Shlomo Moussaieff (1925-2015) er allur. Faðir Dorritar forsetafrúr lést í fyrradag og var borinn til grafar í gær. Tengdasonur hans á Íslandi, Ólafur Ragnar Grímsson, hélt ræðu honum til heiðurs í Jerúsalem.
Shlomo var forngripasafnari af Guðs náð. Fornleifafræðingar eru aldir upp í að líta niður á forngripasafnara, en ég hef ekkert á móti forngripasöfnurum, ef þeir miðla þeirri þekkingu sem einkasöfn þeirra geta veitt almenningi. Sum söfn geta það ekki einu sinni. Eins er til fyrirmyndar ef forngripasafnarar gefa eða selja söfnum mikilvæga gripi sem þeir hafa náð í.
Líklega hefur Ólafur Ragnar Grímsson nefnt áhuga tengdaföður síns á fornleifum í ræðu sinni. Ólafur er mikill áhugamaður um fornleifarannsóknir. Það hefur hann einu sinni sagt mér er hann heimsótti mig síðla kvölds í holu einni á Seltjarnarnesi, þar sem ég var að teikna jarðlög.
Á Íslandi gerðu menn hann að smyglara
Áhugi hatursmanna Ólafs á Íslandi var líka mikill á fornleifasöfnun tengdaföðurs hans og var reynt að gera lítið úr henni í blogggreinum og fréttum á Íslandi. Vitnað var í þessa klausu:
5.4 Recent confirmation of Dayans involvement in smuggling of antiquities is found in an interview held with Shlomo Moussaieff (on Moussaeiff see Shanks 1996:2731). Moussaieff, a famous millionaire who divides his time between London and Israel, admitted that in the 1950s he himself smuggled gold and antiquities from Jordan to Israel
but says it is hard for me to depart from my antiquities, so I am not an antiquity-trader but a collector. Until he left for London in 1963, Moussaieff, through dealing with antiquities became acquainted with Moshe Dayan
I used his tender [vehicle] to transport antiquities. In return, I gave him antiquities. Sometimes we used to go to dig together (Liebowitz-Dar 2001:26). (Sjá hér og hér)
Var vitnað í grein eftir ísraelskan fornleifafræðing, afar norrænan í fasi, sem heitir Raz Kletter, og sem bjó síðast þegar ég vissi í Tallinn í Eistlandi. Kletter er ágætur fornleifafræðingur á mínum aldri sem ber virðingu fyrir fyrri kynslóðum af "trúuðum" biblíufornleifafræðingum. Það er ekki í tísku í Ísrael í dag, og kannski ein af ástæðum þess að Kletter hefur ekki fengið embætti í heimalandi sínu.
Grein Kletters um Fornleifaáhuga Moussaieffs er áhugaverð og sýnir áhuga gyðinga í nýju ríki sínu á uppruna sínum. Vegna eftirfarandi klausu í grein Kletters var tengdaföður Ólafs Ragnars stillt upp sem smyglara í íslenskum fjölmiðlum. Það fannst mér afar ómaklegt. Ég tel hann hafa verið merkan karl.
Glerdiskur eftir glerlistamanninn Ennion, sem bjó í Sídon og síðar á Ítalíu á fyrstu öld eftir Krists burð. Í glerminjasafni Shlomo Moussaieffs.
Mikilvægur safnari
Shlomo Moussaieff var safnari upp á gamla mátann, eins og margir gyðingar eru ef þeir eiga eitthvað fé á milli handanna, en þar að auki var Shlomo stórfróður um trú, menningu og sögu þjóðar sinnar, sem sæmir mönnum sem eru tengdafeður forseta á Íslandi. Shlomo hefur alltaf miðlað upplýsingum um gripi sína, sem sumir álíta að hafi verið um 60.000 að tölu. Hann hefur gefið sérfræðingum aðgang að safni sínu. Hann miðlaði einnig af þekkingu sinni til fyrir dómstólum, í málum gegn ósiðvöndum forngripafölsurum, sem hann hjálpaði yfirvöldum að koma upp um.
Shlomo var líklegast þekktastur fyrir safn sitt af innsiglum frá landinu helga. Bækur eins og Shlomo: Studies in epigraphy, iconography, history, and archaeology in honor of Shlomo Moussaieff, eftir Robert Deutch og Biblical Period Personal Seals in the Shlomo Moussaieff Collection eftir Robert Deutsch og Andre Lemaire eru eins konar biblíur í þeim fræðum.
Miðað við gott ævistarf Moussaieffs fyrirgefst honum að hafa þeyst um Jórdaníu á jeppa Moshe Dayans til að finna merka gripi um sögu Gyðinga. Það er víst ekki það versta sem gerst getur í þeim heimshluta, þar sem nú fer m.a. fram skipulögð eyðing fornminja og annað sem er mun verra.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Embættismannafornleifarannsóknarferðar- skandallinn 1987
28.6.2015 | 11:13
Í ágúst 1987 hélt hópur íslenskra embættismanna og eiginkvenna þeirra í helgarferð að Hraunþúfuklaustri í Vesturdal í Skagafirði.
Þór Magnússon þjóðminjavörður gaf út rannsóknarleyfi til fornleifafræðings eins með sænskt pungapróf í fornleifafræði, og bauð svo vinum hans og kunningjum í helgarrannsókn norður í land til að grafa nokkrar holur í rústirnar í Vesturdal. Þátttakendur í helgarrannsókninni töldu m.a. sendiherra, fyrrverandi Þjóðleikhússtjóra, deildastjóra og hjúkrunarforstjóra. Þetta glæsilega lið klæddist bláum æfingagöllum líkt og að ferðinni væri heitið á diskótek. Aldrei áður hafði farið fram fornleifarannsókn á Íslandi sem um leið var tískusýning fyrir forljótan útilegufatnað.
Hvorki meira né minna en hálft tonn af hafurtaski blýantsnagaranna var flutt norður að Gilhaga í Skagafirði og þar beið þyrla Landhelgisgæslunnar eins og auðmjúkir þjónar embættismannanna og flutti pjönkur þeirra síðasta spölinn inn að Hraunþúfuklaustri. Hljómsveit Rúnars Gunnarssonar, Geimsteinn, hjálpaði einnig með að flytja pinkla og drykkjarföng ferðalanga í Skagafjörð. Rúnar heitinn var alltaf sami öðlingurinn.
Næstu tvo daganna gróf þetta fína fólk eins og það hefði etið óðs manns skít og árangurinn lét vitaskuld heldur ekki leyna á sér. Í Lesbók Morgunblaðsins birtist árið eftir hin ýtarlegasta ferðalýsing eftir Hrafn Pálsson deildarstjóra í heilbrigðisráðuneytinu. Þar eru góðar myndir að aðförunum og lýsandi mynd þar sem Þór Magnússon er sagður útskýra stein sem búið er að finna - En hvenær fær almenningur og skattborgarinn sem borgaði þyrluflugið útskýringar?
Niðurstöður?
Þetta gerðist allt meðan fornleifar frá rannsókninni á Stóru Borg eyðilögðust á Þjóðminjasafni Íslands vegna vanrækslu og áhugaleysis helgarfornleifafræðingsins Þórs Magnússonar. Annað eyðilagðist einnig (sjá hér).
Hvað kom svo út úr þessu helgarkrukki skrifstofublókanna? Svarið er: EKKERT. Engin skýrsla hefur birst og engin gögn virðast hafa verið skráð frá þessu helgarverkefni í ágústmánuði árið 1987. Engin sýni hafa verið tekin til kolefnisaldursgreininga, þó svo að grafið hafi verið niður á fornt eldstæði.
Reyndar hafði Þór Magnússon farið þarna um áður. Það var í ágúst 1973. Afraksturinn var líka rýr í það skiptið. Til að mynda tók Þór með sér í bæinn nokkra leggi og bein og túlkaði herðablað bein úr kind sem mannabein (sjá hér). Það eru þau greinilega ekki, og hefur sá sem skráði beinin einnig átt erfitt að leyna fyrirlitningu sinni á ruglinu er hann skrifaði þetta í aðfangabók Þjóðminjasafnsins:
Mannabein úr Hraunþúfuklaustri. Minjar sem Þór Magnússon þjóðminjavörður afhenti 29/8 1973 sem fundust við rannsókn þar. Herðablað og tveir beinhlutar. Fannst í rúst 1, skála. Mér sýnist þetta nú vera herðablað úr stórgrip, líklega nautgrip. Beinið neðst fyrir miðju er fjærendi af lærlegg líklega af kind/geit og beinið lengst til vinstri er líklega fjærendi af sveif úr kind/geit.
Fáeinar ljósmyndir, vitagagnlausar, frá rannsóknum Þórs á Hraunþúfuklaustri árið 1973 eru síðan skráðar á Sarpi. Sannast sagna er mestur fengur af vísu Kristjáns bónda Stefánssonar í Gilhaga um hina grafandi embættismenn.
Fornar götur gengið, riðið
geyst er stefnt í hlað.
Þannig herjar Henson-liðið
helgan klausturstað.
Sigurður Þórarinsson hafði einnig grafið holur í rústir á Hraunþúfuklaustri árið 1972. Holur jarðfræðinga gefa hins vegar mjög takmarkaðar upplýsingar um jarðlagaafstöðu sem fornleifafræðingar sækjast eftir, en Sigurður greindi þó frá því að hann í botni einni holunnar hafi fundið ljósa gjóskulagið úr Heklugosi árið 1104 yfir gólflagi. Fyrst var greint frá því í Morgunblaðinu árið 1972 (sjá hér).
Kristján Eldjárn ritaði síðan ágætt yfirlit, Punktar um Hraunþúfuklaustur, í Árbók fornleifafélagsins árið 1973, þar sem hann fer yfir rannsóknarsögu rústa og tilgátur um eðli rústanna að Hraunþúfuklaustri í Vesturdal.
Embættismannahelgarsportgröfturinn árið 1987 bætti engu við þá sögu, nema því að embættismenn gátu farið í helgarfornleifarannsókn í Henson-göllum í boði þjóðminjavarðar til að raska rústum engum til gagns og ánægju nema sér sjálfum.
Quo vadis?
Nú er öldin önnur. Jarðsjá, radarar og jafnvel vinsældalistar fréttastofa eru notaðir til að finna klaustur nú á dögum, og þau voru greinilega stærri á Íslandi en víðast hvar á Ítalíu, ef trúa má nýjustu niðurstöðum frá Þykkvabæjarklaustri. Ef rétt verður haldið á spöðum og skeiðum finnst líklega embættismaður í bláum Henson-galla á Hraunþúfuklaustri, sem er vel á við "fílamann" og tvær eskimóakonur að Skriðuklaustri, þó þau hafi blessunin reynst vera frekar þunnur þrettándi þegar upp úr holunni var staðið.
En ef aldursgreining Sigurðar Þórarinssonar sumarið 1972 voru réttar hefur nú vart verið klaustur í Vesturdal og líklegast hafa rústirnar dregið nafn sitt af þeim lokaða (Lat. claustrum) dal sem bæjarstæðið er í.
Auxiliator archaeologorum
Menning og listir | Breytt 1.7.2015 kl. 12:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sagan endurtekur sig - Evrópsk hámenning
25.6.2015 | 04:48
Árið er 1242: Loðvík IX konungur þvingaði gyðingasamfélög Frakklands til að afhenda eintök þeirra af Talmud og lét brenna 24 vagnhlöss af bókum gyðinga á torginu fyrir framan Louvre í París.
Árið er 1933: Bókabrennur í Þýskalandi. Bækur gyðinga voru brenndar á torginu fyrir framan Háskólann í Berlín. Svipaðir brennur fóru fram víða í Þýskalandi.
Árið er 2015: Sjálfstæðisflokkurinn, flokkurinn sem tók við meginþorra íslenskra nasista sem studdu gyðingaofsóknir og bókabrennur, setur fram tillögu um að afnema skuli lög gegn guðlasti. Stungið er upp á því til eflingar tjáningarfrelsisins. Vinstri menn hrósa Sjálfstæðisflokknum.
Kínverska Menningarbyltingin
Árið er 2015: Laugardaginn 4. júlí ætla breskir nýnasistar að þramma gegnum hverfi gyðinga í London á hvíldardegi gyðinga og hafa boðað að þeir muni brenna eintak af Talmud, skýringum á lögmálsbók gyðinga Torah. Á Bretlandseyjum varðar guðlast gegn Kristni við lög, en ekki guðlast gegn öðrum trúarbrögðum. Í nafni tjáningarfrelsisins er í lagi að brenna trúarrit gyðinga og fyrir nasista að þramma í hverfum þar sem gyðingar búa. Það er greinilega ekki nóg að gyðingar verði árlega fyrir fjölda hryðjuverka í menningarálfunni Evrópu.
Mótmælið hér
Árið er 2015: Eru menn kallaðir öfgamenn og "trúarnött" þegar þeir verja rétt trúarbragða og vilja varna því að skríll, rumpulýður og t.d. ISIS ráðist gegn ofsóttum minnihlutahópum og vanvirði menningu annarra manna.
Talmud og Torah voru eitt sinn guðlast samkvæmt kristnum guðfræðingum. Ritin voru brennd og "guðlastararnir" líka. Í dag vil menn leyfa guðlast svo hægt sé að brenna trúarrit og vanvirða trú og trúaða og menningu annarra. Gallinn er greinilega í manninum, ekki í trúnni.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)