Grímuleikur
6.10.2020 | 11:21
Fornleifur breytir nafni sínu hér á forsíðunni. Fornleifur verður í einhvern tíma Forngrímur. Þetta er þó aðeins tímabundin útlitsbreyting meðan pestin er í hámarki. Skráningarnafn bloggsins verður sem fyrr Fornleifur, enda er það gegnumveirvarið nafn.
Þetta er stálbundin járngríma sem Leifur hefur fengið sér til að koma á móts við óskir sóttvarnarlæknis. Þessi vörn kom því miður aðeins of seint, því doktor Þorgrímur Smit þurfti að sjá hvort ástandið á lesendum Fornleifs hefði batnað. Svo var heldur betur ekki. Fleiri og fleiri smitast af Fornleifi. Helsti áhættuhópurinn eru fróðleiksfíklar og þeir vilja einatt fróðleikinn beint í æð, óþynntan.
Gríman forna er mun öruggari veiruvörn en þær sem almennt eru í boði. Menn mega ekki halda að linkind leggist í Fornleif við breytinguna. Þetta er engin múlbinding, Leifur verður jafn beittur sem áður. Hér er nefnilega engin tilslökun gagnvart sýktu fólki. Gríman er með ábyggð og gagnrýn gleraugu og innbyggðar eyrnasíur. Fornleifur sér því allt, nú sem fyrr, og heyrir það sem hann vill.
Hornin á hjálminum eru bráðnauðsynleg fyrir blogg með allt á hornum sér. Fornleifur var jafnvel að hugsa um að fara í bíltúr og veifa til smitaðra áhangenda sinna með grímuna á hausnum. Ritstjórinn tók sem betur fór af honum lyklavöldin. Það er alveg óþarfi að snýta þessari öruggu grímu framan í þá sem maður hefur um langt skeið haft hreðjatak á.
Skemmtun fyrir þá útvöldu sem náðu að lesa hingað er getraun dagsins: Hvaða gríma er þetta í raun og veru? Verðlaun fyrir rétt svör: Einangrun í 7 daga og skemmtiferð fyrir tvo í hreinsunareldinn í neðra.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fjölskyldur í felum
23.9.2020 | 16:23
Fæstir Íslendinga vita, hvað það er að vera í felum undan samtökum sem vilja myrða mann.
Fornleifur sér allt í sögulegu samhengi, einnig mál Kehdr fjölskyldunnar sem er komin af menningarþjóð sem byggði pýramída, um það leyti sem erfðaefnið í Íslendingum var enn á flakki hér og þar um Evrasíu og forfeðurnir að brjóta bein til mergjar í hellisskútum í Svartaskógi eða á enn myrkari stöðum.
Þegar Íslendingar vísuðu Rottberger fjölskyldunni úr landi árið 1937 var ástæðan sú að fjölskyldan voru gyðingar. Sumum Íslendingum, jafnvel vel stæðum, stóð stuggur af þessum fátæku gyðingahjónum og börnum þeirra. Þeir töldu hjónin vera hættulega samkeppnisaðila. En gyðingahatrið var líka til á Íslandi og því miður faldi enginn Rottberger fjölskylduna. Lesið um sögu gyðingahatursins á Íslandi hér í bókinni Antisemitism in the North. (hér er beinn tengill í greinina/Sænska rannsóknarráðið gerði ykkur mögulegt að lesa)
Vísað úr landi: Robert Kempner (1914-1975). Myndin er úr bók minni Medaljens Bagside (2005). Efst má sjá Felix Rottberger, fyrsta gyðingur sem fæddist á Íslandi, þar sem hann bregður á leik við son minn Ruben á heimili okkar.
Felix Rottberger, sem þið sjáið á efstu myndinni, í eitt þeirra skipta sem hann hefur heimsótt mig, var fyrsti gyðingurinn sem fæddist á Íslandi - í landi sem í dag fer á hausinn ef ekki koma nógu margir útlendingar til landsins. Ekki var hægt að umskera drenginn, því enginn kunni það á Íslandi. Læknar við Landspítalan voru meira uppteknir við að að koma lækni af gyðingaættum úr landi.
Íslendingar vísuðu einnig Robert Kempner úr landi. Hann naut heldur ekki náungakærleika Íslendinga, sem hann leitaði ásjár hjá. Enginn þeirra gyðinga sem vísað var úr landi á Íslandi var öfgamaður, sem hafði fengið þá flugu í hausinn að þeir hefðu heilagan rétt frá Guði almáttugum til að útrýma nágrannaþjóð sinni.
Öfgamennirnir voru nefnilega Íslendingar og margir þeirra kölluðu sig Framsóknarmenn.
Örlögin, tilviljanir og gott fólk leiddi svo sem betur fer til þess að þessir einstaklingar voru ekki sendir af Dönum til Þýskalands, þó svo að til væru Danir sem höfðu sama hugsunarhátt og og margir íslenskir stjórnmálamenn sem hræddust efnahagsleg örlög þjóðarinnar. En á Íslandi hræddust menn einnig örlög íslenska "kynstofnsins", og meint hreinleika hans, vegna örfárra fjölskyldna sem flýðu ógnarveldi nasismans.
Hér er mynd af ungum hollenskum gyðingi á leið í felur. Hann var svo óheppinn að vera stöðvaður af Þjóðverjum á Damrak í Amsterdam, en svo heppinn að vera ljós yfirlitum, með fölsuð skilríki og vera falinn af þremur fjölskyldum á Fríslandi fram í stríðslok. Bara eitt dæmi um að náungakærleikurinn er mikilvægasta veganesti mannsins.
Enn er til fólk á Íslandi sem vafalaust, sumt hvert, saknar "hreinleika nasismans" og enn annað segist vera svo kristið að það vilji ekki heiðingja í kringum sig.
Lítið fer þó fyrir náungakærleikanum hjá hinum sannkristnu sem vilja losna við egypsku fjölskylduna Khedr sem fyrst.
Nú reynir á gamla góða náungakærleikann
Hjón með þrjú börn eru í felum undan íslenskum yfirvöldum, sem vilja senda þau til Egyptalands.
Þó svo að fjölskyldufaðirinn tilheyri ógnarsamtökum, sem hvatt hafa til morða á sama fólkinu og Íslendingar vildu losa sig við á 40. áratug 20. aldar, er um að gera að sýna sama góðviljann og t.d. marghrjáðir Palestínumenn verða aðnjótandi á Íslandi, einir þjóða. En þó að nú séu til alþjóðasáttmálar sem eru hagstæðir þeim sem vilja:
A) halda Íslandi hreinu
B) koma í veg fyrir efnahagshrun vegna flóttafólks
C) fylgja lögum þó líf geti verið í hættu
þá er eru til lög sem eru ofar þessum þremur tálmum í vegi einhvers hluta íslensku þjóðarinnar. Það er hinn mannlegi þáttur; kærleikurinn við þá sem minna mega sín og eiga um sárt að binda. Maður sparkar ekki í þá sem liggja.
Sumt af því fólki sem vinnur fyrir Kehdr hjónin frá Egyptalandi, án vafa af manngæsku einni saman, hefur falið fjölskylduna undan lögum og hinu gamla óþoli við útlendinga á Íslandi. Sumt af þessu velviljaða fólki tel ég að geti einnig bætt sjálf sig. Það fer fremst í flokki kona sem fyrir áratug síðan líkti Ísraelsmönnum (gyðingum) við SS-sveitir Þjóðverja. Hún er nú að hjálpa manni sem er á flótta vegna þess að hann vill drepa fólk á sama hátt og SS útrýmdi fólki. Sama kona hélt því fram að það væri lýðræði á Tyrklandi.
Ég vona, vegna þess að ég var nýlega kallaður "blettur á sögu Skandinavíu" af einhverjum frumstæðum, dönskum nasista, sem gerði athugasemd við stutta grein mína frá hjartanu um hinn mikla forhúðaróróa sem nú geisar í Danmörku (sjá hér), að Khedr fjölskyldunni verði veitt hæli á Íslandi. Annað væri slys og álitshnekkir fyrir Íslendinga.
Til eru Íslendingar sem eru miklu verr ferjandi en þessi egypska fjölskylda og við sitjum uppi með fangelsin full af þeim og jafnvel nokkra á hinum háa Alþingi. Ísland fer ekki á hausinn út af 5 manna fjölskyldu.
Það er miklu líklegra að alíslenskur bankastjóri grandi þjóðinni en egypsk fjölskylda.
Við getum í ofanálag vonað að fjölskyldufaðirinn verði við það að fá landvist að betri manni sem ekki hyggur á útrýmingar á nágrannaþjóð Egyptalands.
Ég hvet lögreglumenn á Íslandi að neita að aðstoða við brottvísun fimm manna fjölskyldu frá Íslandi sem ekkert hefur gert af sér sem varðar við íslensk lög. Ég bið presta, imama og rabbínan góða, sem landið getur nú státað af, að taka höndum saman og krefjast griða fyrir Kehdr fjölskylduna.
Ég bið heiðvirtan forsætisráðherra landsins að stöðva brottvísunina - ja, annars kýs ég helv... Samfylkinguna í næstu kosningum og við vitum hvað slíkt óðagot getur haft í för með sér.
Mannréttindi | Breytt 24.9.2020 kl. 04:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Nesti, te og nýir skór
19.9.2020 | 09:12
Ljósmyndafornleifarannsóknir eru örugglega meðal hreinlegri fornleifarannsókna sem þekkjast. Hér skal sagt frá nýjustu uppgötvun Fornleifssafns í þeirri grein.
Í safnauka Fornleifssafns á pestarárinu 2020 er þessi ljósmynd frá 1883 (eða 1886). Forstöðumaður ljósmyndadeildar safnsins þiggur allar haldgóðar upplýsingar um hvar mennirnir sitja og snæða nestið sitt. Það verður víst aðeins ráðið af fjallinu í bakgrunninum.
Myndin var tekin í einum af veiðiferðum Maitland James Burnetts (1844-1918) og Walter H. Trevelyans (1840-1884) til Ísland. Líklegast má telja að myndin sé tekin í leiðangri austur fyrir fjall sem hófst 31. júlí 1883.
Íslandsferðum Burnetts og Trevelyans hafa verið gerð góð skil í frábærri bók Frank heitins Ponzis, Ísland fyrir aldamótin (1993) Ponzi var mikill grúskari og safnaði ýmsu. Árið 1987 komst hann yfir óvenju merkilegt myndaalbúm á fornbókasölu í London. Hann leitaði svo uppi dagbók Burnetts í einkasafni og byggði bók sína á ljósmyndunum og dagbókinni. Og úr varð sagnfræðileg perla Bandaríkjamanns sem settist að á Íslandi - því glöggt er gests augað eins og allir vita nema heimalingarnir sem vita allt.
Fimm gerðir af höttum
Fornleifur á aðrar myndir sem tengjast leiðöngrum Burnetts og Trevelyans, sem bent gætu til þess að sumar myndanna í albúminu sem Frank Ponzi hafði upp á hafi verið teknar af Sigfúsi Eymundssyni. Hægt er að lesa um það hér í fyrstu úttekt Fornleifs á Laterna Magica skyggnum sínum sem sýna Ísland.
Nú, skemmst er frá því að segja að ljósmyndin hér efst er ekki með í bók Ponzis. Það útilokar þó ekki að hún sé ekki með í albúminu sem hann fann. Ég er búinn að senda skilaboð til Tómasar Ponzi tómataplantekrueiganda, geirlauksbónda og kaffilistamanns m.m. í Mosfellsbæ, en er ekki búinn að fá svar. Líklegt þykir mér þó að ljósmyndin í Fornleifssafni sé ekki í albúmi Brúarmanna á Tómatabúgarðinum í Mosfellsbæ.
Á pappagrunn sem mynd Fornleifssafns er límd á hefur verið ritað Our Encampment for Lunch. Iceland. Það er ekki rithönd Burnetts sem við þekkjum úr dagbókinni sem Frank Ponzi hafði upp á. Sá sem skrifar var hins vegar örugglega með á myndinni, sem Burnett tók.
Út frá rannsóknum Frank heitins Ponzi, getum við upplýst lesendur örlítið um kallpeninginn á myndinni. Íslenskir lóðsar útlendinganna sitja alveg sér til vinstri. Það eru þeir Þórður og Einar Zoëga og einnig maður sem nefndur er til sögunnar í bók Ponzis sem Jóhannes. Þeir eru allir frekar óskýrir á mynd Burnetts og hafa líklega allir verið á iði vegna ljósmyndatökunnar.
Skotarnir og Bretarnir sitja hins vegar í andakt kringum tinkassa sem á stendur RAMMAYAN TEA MANCHESTER. Þessi forláta tekassi leiðangursmanna sést einnig á mynd 37 í albúminu sem Ponzi fann (sjá hér að neðan), þar sem veiðimennirnir eru líka að fá sér í gogginn. Allt eru þetta sömu mennirnir í sömu fötunum. Ponzi taldi hugsanlegt að skeggjaði maðurinn sem horfir undan við myndatökuna gæti hafa verið William Gilbert Spence Paterson (1854-1898) breski ræðismaðurinn á Íslandi. Sami maður horfir niður í tebollann eða samloku sína á mynd Fornleifssafns, svo ekki verða þær ráðgátur, hvor þetta sé hann eða að myndin sé frá 1883 eða 1886, leystar í þessu sinni, að því er forstöðumaður ljósmynddeildar Fornleifssafns telur.
Tea for three, and some milk for the Icelanders, please!
Þar sem fyrrgreind mynd, númer 37 (sjá hér fyrir neðan), er sögð tekin á fyrsta áningarstað hópsins á leið hans frá Reykjavík til Þingvalla, er mynd Fornleifssafns sennilega úr einhverjum síðari hádegisverð nær Þingvöllum. Það gæti hjálpað staðkunnugum við að staðsetja myndina fyrir Ljósmyndadeild Fornleifssafns - með fyrirfram þökkum.
Ljósmyndafornleifafræði | Breytt s.d. kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jesús Jósefsson ... og brjóstin í lífi hans
8.9.2020 | 08:28
Það vekur furðu Fornleifs, að fólk kippi sér upp við það að Jesús hafi verið með brjóst. Það verður að skoðast í sögulegu samhengi.
Mörgum íslenskum mektarmanninum hefur vaxið álitleg brjóst á ákveðnum aldri og sýnast þeir þá um leið fremur óléttir. Jesús var ávallt mikill brjóstakarl allt frá fornu fari. Móðir hans er sýnd rekandi tútturnar framan í hann í kirkjulistinni, og stundum heldur harkalega. Og var ekki einu sinni sungið Mjólk er góð á Íslandi?
Fornleif, sem man allt aftur fyrir Krists burð, langar að benda mönnum á að Jesús Jósefsson rak einhverskonar klúbb karlmanna, svo kallaðra lærisveina, og einu konurnar sem fengu að koma á fundi í þeim félagsskap voru útskúfaðar úr þjóðfélaginu. Bara það eitt hljómar eins og fornt LGBT-félag.
Er ekki alveg sama HVAÐ karlinn var, fyrst ekki er hægt að sanna HVER hann var? Það skiptir líklegast mestu máli að á hann sé trúað. Birtingarmyndir hans hafa verið margar í listaverkum síðustu 1800 árin, enda ekki bannað að sýna hann opinberlega eins og aðrar helgar verur.
Hinn brjóstagóði Jesús sem á að lokka börn í sunnudagaskóla er í takt við tímann. Munið, að fyrir 40 árum síðan var hann Maóisti með hliðatösku og sænskt passíuhár. Ekki var það miklu betra. Þjónar hans hafa líka tekið töluverðum hamskiptum á síðustu áratugum. Biskup einn var helgimynd utan á úlfi og yfirpreláti í Reykjavík nauðgaði börnum á yngri árum. Kirkjan er auðvitað í sjálfsmyndarkrísu.
Ef ég væri kristinn, þá myndi ég líka sýna Jesús allsberan og til að sanna að hann hann hafi verið rækilega umskorinn á 8. degi lífs síns. En þar sem sumir af hinum nýfrelsuðu með brjóstafíkn eru fordómafyllri en flestir og hatrammir í afstöðu sinni gegn umskurði, hefur víst ekki tekist að ota typpinu á Kristi að börnunum í þetta sinn.
Og þökk sé föður hans fyrir það.
Nú, benda má svo sem á í lokin, að Búddistar hafa ekkert á móti bobbingum á sínum meistara sem og að múslímar velta þessum brjóstum Jesús fyrir sér líka af miklum áhuga, sjá hér.
Hafa menn ekkert annað að gera?
AMEN
Trúmál | Breytt s.d. kl. 08:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Villatal
2.9.2020 | 19:52
Vegna viðloðandi gróusagna utan ritstjórnargangsins á Fornleifi um að Vilhjálmarnir í fjölskyldu sendisveins Fornleifssafns séu úr Árnessýslu, skal slíkt slúður hér með kveðið niður fyrir fullt og allt. Menn verða að fara aðeins lengra með ættfærsluna en austur fyrir fjall.
Ekki má skilja þetta þannig, að sendisveininn hafi eitthvað á móti því að vera úr Árnessýslu. Nei, svei mér þá, nei, en hann langar þó ekki til að menn haldi að hann sé skyldleikaræktaður eins og ritstjórinn.
Hér verða kynntir til sögunnar nokkur aðeins föngulegri menn en konungur sá sem greint var frá í færslunni hér á Fornleifi um daginn. Reyndar bera allir karlarnir sem sagt verður frá hér há-konunglegt og keisaralegt nafn. Vilhjálmur heiti ég og faðir minn hét það líka, þó hann hafi upphaflega heitið Willem. Afar mínir voru báðir að fyrsta nafni Willem og Vilhelm á Íslandi (sem ég hef skrifað um hér, hér og hér) og langafi minn var einnig Willem. Ég telst því vera Vilhjálmur 4. í minni fjölskyldu og geri aðrir betur. Fáar fjölskyldur eiga eins marga Villimenn.
Willem I
Fyrstur Vilhjálmanna var langafi minn í Hollandi. Þegar faðir hans fæddist var Willem Frederick 1 Hollandskonungur (1772-1843) við völd. Hann var krýndur konungur Niðurlanda árið 1815 (þmt Belgíu fram til 1830) og stórhertogi af Lúxemborg). Áður, eða frá 1813 til 1815 hafði hann stjórnað því sem skilgreint var sem Furstadæmið Hollandi (sem varaði í aðeins tvö ár eftir Bonapartekonungana tvo). Bar hann þá nafnið Willem VI Frederick.
Fjölskylda mín var svo þakklát borgararéttindum, sem Willem I veitti þeim, að nú skyldu allir heita Willem eða Frederick, að minnsta kosti sem annað nafn. Eitt af því fáa sem ég veit um Willem Izäk er að amma hans var frá Livorno á Ítalíu og var hann því mjög rómantískur, dramatískur og skapstór. Hann rak trésmíðaverkstæði sem sérhæfði sig í dyrabúnaði, hurðum og þiljum, m.a. í opinberar byggingar í Amsterdam. Hann var með verkstæði sín í Amsterdam, en aðallega í Dordrecht, þar sem vinnuaflið var ódýrt. Ekki held ég að hann hafi sjálfur verið trésmiður, en hurðir þær sem verksmiðja hans framleiddi voru sumar mjög veglegar og á stundum útskornar af listamönnum og síðan þykkt lakkaðar. Þær má enn sjá í gamla ráðhúsinu í Amsterdam og í hráefniskauphöllinni Beurs van Berlage (sem ber nafn arkitektsins H.P. Berlage). Ég veit afar lítið um karlinn, annað en að amma mín var lítt hrifinn af honum og kallaði hann dachshundinn (langhundinn) þótt lágur væri hann í loftinu - hún átti víst við andlitsdrættina.
Faðir minn man eftir afa sínum er fjölskyldan kom saman og bar Vilhjálmur fyrsti þá alltaf háan hatt um hátíðir. Pabbi sagði að skeggið á honum hafði stungið eins og kaktus þegar hann kyssti hann á kinnina. Svo ekki hefur karlinn verið allvondur ef hann var góður við börn. Ég skoðaði stoltur nokkrar hurðir hans hér um árið, þegar mér var boðið að flytja svokallaðan Capita Selecta fyrirlestur við Fornleifadeild Háskólans í Amsterdam, sem þá var til húsa við Singel.
Willem II
Sonur hans og nafni fór aðrar brautir og skráði sig í hollenska herinn, þó faðir hans vildi að hann héldi áfram hurðaframleiðslunni. Hann var í verkfræðisveit hersins. Efst er mynd af honum (með háa hattinn) með liði sínu rétt eftir fyrri heimsstyrjöld. Það var stíll yfir karli.
Faðir minn og hann voru harla ólíkar týpur. Hermaðurinn var fyrir aga og nákvæmni og faðir minn greindi mér frá því að hann hefði vikulega tekið alla skó og gljápússað þá og raðað þeim meðfram veggnum í forstofunni. Síðar varð hann starfsmaður í landvinningadeild innanríkisráðuneytis Hollands í den Haag, fram til 1941/42. Hann var landmælingamaður að mennt og verksvið hans í ráðuneytinu var umsjón með landuppbyggingu í IJsslemeer (nánar tiltekið því svæði sem heitir Nordoostpolder). Hann var einnig mjög gefinn fyrir fleiri kvenmannshendur en þær tvær sem venjulega eru í boði fyrir góða menn; Hann lét sér víst ekki nægja konu þá sem hann kvæntist. Þannig var það einnig með einn bróður hans, sem að sögn átti konur í þremur heimsálfum, m.a. í Indónesíu. Ég þarf víst að fara að finna frændur mína í austurálfu.
Afi minn í garði sínum í den Haag árið 1940.
Þriðji Vilhjálmurinnn, faðir minn, bjó fyrstu æviár sín alveg á horninu við Waterlooplein, þar sem nú er óperuhús Amsterdam en þar sem áður var Holdsveikradíki (Leprosengracht). Þegar nýja óperan (Stopera) var byggð hafði pabbi á orði að hann hefði fæðst á sviðinu í óperunni. Skömm var því að því að hann söng aldrei og var vitalaglaus.
Faðir minn þótti ekki neinn fyrirtaksnemandi í skóla og frekar dreyminn og listrænn að því er sagt var. Vilhjálmur embættismaður átti það til að vera mættur utan við skóla föður míns til að skoða einkunnabók sonar síns. Sú árátta, að hafa gífurlega "ambisjón" fyrir hönd barna sinna er mjög óholl hegðun gagnvart börnum. Faðir minn hjólaði í hraði frá skólanum og umhverfis alla borgina til að koma í veg fyrir að hitta á föður sinn og einkunnarbókarkontroll hans. Það segir sig því sjálft að faðir minn burstaði sjaldan skóna sína og hafði ekki hina ströngu sýn á lífsformunum og faðir hans hafði haft. Það var líkast til ein af skýringunum á því að engin bönd, heldur ekki axlabönd, heldu honum þegar hann komst í stríðsterturnar og allan góða matinn á Íslandi. Hér eru nokkrar myndir af pabba 4 ára (fyrir ofan), 14 ára fyrir stríð, og um tvítugt eftir stríð.
Vilhjálmur IV
Að lokum eru tvær myndir af síbreytilegum ásjónum ástsæls yfirsendisveins og ritstjóra Fornleifs, Vilhjálms bastarðs IV, einræðisherra málgagnsins Fornleifs. Hann þótti afar ljúfur drengur í æsku - en það varaði nú ekki lengi og versnar enn.
Hér er hann svo áratug síðar, orðinn kommúnisti og greinilega að sleppa sér í skopstælingu á borgaralegum Travolta-glímuskjálfta án þess að vera á nokkru sterku nema kannski Prins Póló og Þjóðviljanum. Eins og sjá má, fyrir meira en fjórum áratugum síðan, fór þetta allt á verri veginn. Ekki er vert að ræða framhaldið.
Takið eftir blendingsþróttinum í þessum sauð
Ég tók mér hlé á þessu hugmyndaleysi fjölskyldunnar þar sem kónganöfunum er klínt á drengi sem þökk fyrir eitthvað sem sjálfsagt má þykja. Sonur minn er því ekki neinn Villi, þótt William, Vilhelm og álíka pjátursnöfn séu mjög í tísku í Danaveldi um þessar mundir. Ruben, en það heitir hann, þakkar sínu sæla fyrir það. En það kom nýr Villi (Vilhelm) í fjölskylduna fyrir 10 árum síðan, No 5, og ég treysti víkingunum Villa eða Valla bróður hans til að halda þessari konunglegu hefð í heiðri eða einfaldlega að láta strákana sína heita í höfuðið á sendisveini Fornleifs í stað einhvers díkjakonungs.
Kannski skrifa ég um konur fjölskyldunnar seinna. Þær voru, og eru, í raun miklu merkilegri en karlpeningurinn, en það er svo erfitt að segja frá slíku og viðurkenna það.
Købmagergade árið 1894
27.8.2020 | 19:07
Safnstjóri Fornleifssafns taldi ástæðu til að gleðja Kaupmannahafnarbúa sem elska borgina sína, þó hún sé sóðaleg og aðeins falleg á köflum. Hann efast um að hún hafi verið mikið betri árið 1894. En það ár var myndin hér fyrir ofan tekin. Þetta er handlituð laterna magica skyggna.
Svo vildi til að maður nokkur sem er meðlimur á FB-síðu sem kallast Gamle København, birti gamla mynd frá Købmagergade, sem hann hafði fundið einhvers staðar á vefnum. Taldi hann að myndin væri frá því um aldamótin 1900 (sjá neðst). Ljósmyndadeild Fornleifssafns vissi betur, en deildin á ljósmynd sem tekin vara af sama ljósmyndara og á sama stað og myndin hér fyrir neðan. Þið sjáið mynd Fornleifssafns efst.
Á myndinni sést fjörugt mannlíf á einni helstu verslunargötu Kaupmannahafnar. Sérstakan áhuga hafa Hafnarbúar, sem elska borgina sína, sýnt hinu vígalegu pólitíi fremst í myndinni, enda bera Danir mikla virðingu fyrir slíkum embættismönnum - eins og vera ber. Áður en langt um líður verður áhugasamur skarinn á FB-Gamle København búinn að hafa upp á því hver hann var. Brennandi áhuginn gefur oftast bestu athuganirnar.
Ljósmyndafornleifafræði | Breytt s.d. kl. 19:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kontrafaktísk sumarkveðja Fornleifs
24.8.2020 | 11:56
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ásjóna konungs
22.8.2020 | 17:33
Það verður víst aldrei hægt að halda því fram að ásjóna Kristjáns 6. Danakonungs hafi verið ígurfögur. Blessaður maðurinn var svo óheppinn að eiga föður, Friðrik 4. (sjá hér í tímaritinu Skalk;6, 2015) sem einnig var óvenju ófríður.
Friðrik 4. var afsprengi mjög svo skyldleikaræktaðrar fjölskyldu, Aldinborgaranna (Hustet Oldenburg). Kona Friðriks, var þýsk aðalskona, Louise af Mecklenburg-Güstrow, var einnig sæmilega heimaræktuð. Það varð því að fara eins og það fór með Kristján sjötta, sem sat á konungsstóli frá 1730 til 1746.
Ekki var drottning Kristjáns, Sophie Magdalene af Brandenburg-Kulmbach minna spes. Dönsku hallirnar voru þannig í hans stjórnartíð fullar af blúndum og háhæluðum skóm og fólki sem tiplaði um langa gangana og talaði bjagaða þýsku, ef það rak ekki úrkynjuð nef sín niður í kaffibollann - og það ekki fyrir slysni.
Kóngur hélt sig mest heima, í og við hallir sínar, og sást sárasjaldan meðal fólsins. Þó er vitað að hann brá sér í skemmtiferð til Noregs. Hann fór í "fjallgöngu" líkt og tveir forfeður hans. Kona hans og tengdamóðir voru bornar í burðarstól upp á fjallið á Mannseidet. Á málverkinu neðst við þessa fræðslu má líklega sjá norskt landslag - en það getur líka í tilefni dagsins verið íslenskt, þó konungur hafi aldrei til Íslands komið - en það gæti málarinn hugsanlega hafa gert.
Ekki jók konungur á frægð sína er hann innleiddi vistarbandið í Danmörku árið 1733 eftir þrýsting frá síðgráðugum landaðlinum
Ljósmyndina efst tók ritstjóri Fornleifs í sumar í Frederiksborgarhöll í Hillerød Sjálandi, sem í dag hýsir Nationalhistorisk Museum. Þetta er vaxmynd sem geymd er þar í glerkassa. Mun hún hafa sýnt konunginn á mjög sanngjarnan hátt. Hann var með svokallaðan Habsborgara-kjálka, reyndar vægt tilfelli af honum. Habsborgarakjammi, lýsir sér miklu undirbiti og er hann ein af afleiðingum skyldleikaræktar meðal kóngafólks og aðals í Evrópu og víðar, sem ekki gat hugsað sér að kvænast niður fyrir sig og valdi í staðinn að leggjast á ungar frænkur sínar - ef frændurnir urðu ekki fyrir barðinu.
Já hann var það sem danir kalla arveligt belastet. Kristján 6. var einnig með furðulegt nef, langt mjótt og bogið, sem neðst endaði í eins konar goggi. Slík nef eru einnig afleiðing þeirrar eðalseðlunnar sem tíðkaðist í hærri lögum þjóðfélaganna fyrr á öldum.
Kristjáni 6. er lýst sem hlédrægum manni, jafnvel feimnum á stundum og óframfærnum. Hann var því ekkert líkur föður sínum hvað það varðar. Stundum er talað um hann sem þunglyndan og innhverfan. Hann var þó vel meðvitaður um vald sitt og efldi það með ýmsum ráðum. Hvað Ísland varðar var hann hjálendunni ekki allt of mikið til ama. Hann var hreintrúarstefnumaður (píetisti) en píetisminn haslaði sér völl í lútherismanum á þeim tíma sem Kristján var uppi.
Á Íslandi hafði hreintrúarstefnan m.a. í för með sér lögfestingu ferminga. Þær urðu frá og með 1736 skylda. En píetisminn í hans tíð varð einnig til þess að gleðin hvarf úr ríki konungs. Kristján lét banna allar skemmtanir á sunnudögum og árið 1735 gaf hann út helgidagtilskipun þar sem kirkjusókn varð skylda. Gapastokkur beið þeirra sem brutu öll þessi helgilög.
Hallarbyggingar og önnur óþarfa eyðsla til lystisemda konungs tæmdi danska ríkiskassann (sem kóngsi stjórnaði að vild). Kristján konungur lagði því mikið kapp á að krefja tolla af öllum þeim sem sigldu um Eyrarsund, en þar fyrir utan stofnaði hann seðlabanka, Kurantbankann sem var forveri Nationalbanken (danska Seðlabankans). Framleiðsla á pappírspeningum hófst, og jókst mjög líkt og stundum gerist þegar verðbólga skapast og menn leika sér með núllin. Það má Íslendingum vera kunnugt.
Nær öll áðurgreind hegðun og afbrigðilegheit, nema fjallgöngur, gerir kónga óvinsæla eins og við vitum úr ævintýrum. Kristján barðist þó ekki við skrímsli á Fjöllum, svo vægi fjallgöngu hans var lítið. Ugglaust var hann með svima alla leiðina upp.
Trúræknin rak hann vafalaust til þess að halda þræla.
Einhverja bónuspunkta fær Kristján með skúffukjammann þó hér í lokin fyrir að vera fyrsti danski einvaldurinn um langt skeið, sem ekki stóð í endalausum stríðsrekstri. Hann ætlaði sér reyndar í stríð við Svía árið 1743, en sá að sér er Rússar blönduðu sér í erfðamál sænsku krúnunnar.
Munið þó, að flagð er oft undir fögru skinni. En sjá, var hann ekki líka þrælahaldari, bölvaður? Niður með hann og brennum ásjónu hans að fyrirmynd band-arískrar hámenningar ...
Bloggar | Breytt 23.8.2020 kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Vegir liggja til allra átta
18.8.2020 | 16:18
Vissuð þið lesendur góðir, að tveir bandarískir hermenn á Keflavíkurflugvelli lentu í miklu basli vegna þess að þeir léku í kvikmyndinni 79 af stöðinni árið 1962? Líf hermannanna var að ákveðnu marki lagt í rúst. -
Nei, auðvitað vitið þið ekkert um það; Og hvernig ættuð þið svo sem að vita það? Nöfn þeirra eru meira að segja enn rituð rangt á öllum listum yfir leikara myndarinnar, þótt einn þeirra hafi sannast sagna verið mun betri leikari en Gunnar Eyjólfsson.
Hér verður borin fram stór og mikil kvikmyndfornleifafræði-langloka. Fyrir þá sem eru fyrir litlar og lummulega samlokur með miklu gumsi og stóryrðasalati, þá gæti þetta orðið erfið lesning. Það verður farið vítt og breitt og til allra átta.
Þessi lestur er því ekki fyrir óþolinmótt fólk sem ekki getur lesið nema eina málsgrein án þess að leggjast í rúmið af kvölum. Reynt hefur verið að létta lesturinn með mörgum myndum og tónlist.
Sagan byrjar í Árósum
Sagan byrjar fyrir minna en mánuði síðan, í lok júlímánaðar 2020 í Árósum, næststærstu borg Danmerkur.
Árósar voru þá ekki búnir að hljóta hina vafasömu útnefningu Smittens By í stað gamla gælunafnsins Smilets By sem bærinn gengur jafnan undir, án þess að nokkur viti af hverju.
Ég og litla fjölskyldan mín vorum í heimsókn í Árósum hjá mágkonu minni, sem býr í gömlu húsi í miðbæ Árósa, rétt norðan við árósinn (sem er reyndar aðeins einn), sem bærinn hefur hlotið nafn sitt af.
Snemma morguns læddist ég og kona mín út til að ná í morgunbrauð í góðu bakaríi á horni Badstuegade og Rosengade, þar sem á okkar skólaárum var ágætt missjónskaffihús, þar sem áfengi var úthýst og jafnvel heiðingjum líka.
Þegar ég sit á dyrapallinum og er að fara í skó, heyri ég einhvern opna hurðina á hæðinni fyrir ofan og ganga niður. Ég vík vel fyrir eldri manni á tröppunni til að halda allar COVID-19 siðareglur. Maðurinn var að fara út eins og við og líklega til að kaupa inn eða ná sér í dagblað.
Ég virði manninn aðeins fyrir mér og heilsa honum fyrir kurteisi sakir. Þegar konan og ég erum líka komin út, hef ég strax á orði að maðurinn komu kunnuglega fyrir sjónir. Ég taldi mig muna andlit hans frá Árósaárum mínum (1980-1993). Frú Irene fussaði og tók þessu fálega eins og einhverju karlagorti.
Þegar við snúum aftur úr verslunarferðinni er mér litið á nafnskiltið á jarðhæðinni. Þar sé ég, að á hæðinni fyrir ofan systur konu minnar, býr maður maður sem heitir Arne Abrahamsen. Það kveikir strax á perunni, því hann hef ég hitt og vissi hver hann var.
Abrahamsen kom við á Stöng í Þjórsárdal í ágúst 1984, þegar ég og aðstoðarmaður minn Einar Jónsson, vorum að grafa nokkur snið í skálarústirnar þar. Hann kom í fjögurra manna hópi sem var að gera sjónvarpsmynd fyrir DR (Danmarks Radio) sem er systurstofnun RÚV í Danmörku.
Einar Jónsson við teikningu um það leyti sem Arne Abrahamsen kom í heimssókn á Stöng. Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.
Titill myndarinnar, sem var sýnd um haustið árið 1984, var En rejse til Island i Martin A. Hansen og Sven Havsteen-Mikkelsens Hjulspor. RÚV hafði útvegað danska liðinu stóran Land-Rover jeppa gegn því að myndin yrði síðar send að kostnaðarlausu í íslenska sjónvarpinu.
Ég sá aðeins lítið brot af þættinum haustið 1984 í litlu svart-hvítu sjónvarpi sem ég átti á þeim tíma, er ég bjó í lítilli einstaklingsíbúð á stúdentagarði í úthverfi Árósa.
Þegar kona Arne Abrahamsens hafði verið mikið veik á sjúkrahúsi í vetur, færði mágkona mín honum mat, og fyrir það var hann henni mjög þakklátur. Þegar við vorum komin heim eftir Árósaför setti Birgitte mágkona mín mig strax í samband við Abrahamsen.
Arne varð ekki lítið glaður yfir því að ég hefði þekkt hann eftir 35 ár eða tengt hlutina svona hratt saman. Hann skrifaði mér strax þegar hann hafði heyrt söguna frá Birgitte, og minningarnar voru margar.
Hann sendi mér handrit að tillögu að þættinum sem hópurinn hafði notað árið 1984 og ég er búinn að lofa að sækja hann heim næst þegar ég kem til Árósa, til að sjá með honum þáttinn, sem hann á diski.
Arne og 79 af Stöðinni
Fyrir utan ferðalög danska þáttargerðafólksins á Íslandi árið 1984, langaði Abrahamsen greinilega að segja mér frá frægðarför sinni til Íslands á yngri árum sínum.
Ég varð aðeins á undan, þar sem ég var búinn að njósna um hann á Google. Þar hafði ég þegar séð að hann hafði einnig verið 2. ljósmyndari við kvikmyndatökur á 79 af Stöðinni, skáldsögu Indriða G. Þorsteinssonar, sem var kvikmynduð eftir handriti Guðlaugs Rósinkranz, sem var í forsvari fyrir íslenska kvikmyndafélaginu Saga-Film. Myndinni var leikstýrt af Erik Balling, sem síðar var meðal fremstu kvikmyndaleikstjóra Dana.
Ljósmynd sem Arne Abrahamsen sendi mér og sem sýnir hluta af teyminu sem vann við tökur á 79 af Stöðinni. Abrahamsen situr í neðstu röð lengst til hægri.
Gamla manninum líka gott að sjá, að hann væri ekki alveg gleymdur í tengslum við 79 á stöðinni. Erik Abrahamsen var vinnan í tengslum við myndina á Íslandi greinilega mjög minnisstæð og nefndi hann í því samhengi í tölvupósti sínum að í myndinni hefðu leikið tveir Bandaríkjamenn af Vellinum, sem hefðu verið látnir fjúka úr flotanum fyrir að hafa tekið þátt í gerð myndarinnar. Það voru fréttir fyrir mig. Nú kviknaði áhugi yfirritstjóra Fornleifs, sem aldrei þótti mikið til 79 af stöðinni eða Indriða G. Þorsteinsson koma. Ég man þegar ég sá myndina fyrst í Sjónvarpinu árið 1970. Mér þótti hún leiðinleg og langdregin.
Pigen Gogo var kanamella
Fyrst verður að minna á að Gógó Faxen, sem Kritbjörg Kjeld lék, var ekki beint nein óspjölluð jómfrú, heldur vel þroskuð kona sem samkvæmt íslenskum lýð hafði framið einn versta glæp sem sögur fóru af á Íslandi, áður en Íslendingar uppgötvuðuð barnaníðinga, rotna útrásavíkinga og fóru að sýkna morðingja í löngum bunum í hreinum leiðindum sínum.
Kvikmyndin 79 af stöðinni var fyrsta alvöru kvikmyndin sem alfarið var kvikmynduð á Ísland, fyrir íslenskt fé, var eins og áður segir framleidd í Danmörku af danska leikstjóranum Erik Balling. Félagið Saga-Film var stofnað til að halda utan um myndina og til að kría fé út úr íslenskum fjárfestum. Fyrir því félagi fór Gunnlaugur Rósinkranz.
Greint var frá myndinni í dönskum vikublöðum sumarið 1962. Myndin er vinsamlegast send mér af Arne Abrahamsen
Indriði G. Þorsteinsson var höfundur bókarinnar sem verkið byggði á, en hann lét að Gunnlaug Rósinkrans um að útbúa leikbúning þess. Hinn nýlátni tónlistastjóri Bent Fabricius-Bjerre, sem þekktastur mun vera fyrir titillagið í Olsen Banden myndunum, stjórnaði hljómsveitinni dönsku sem lék tónlist Jóns Sigurðssonar og Sigfúss Halldórsson með glæsibrag. Þetta var á Íslandi talin vera "alíslensk" klassamynd fullsett fyrirtaks dönsku kvikmyndafólki sem eftir var að gera það gott í Danmörku og DDR. Á dönsku fékk myndin heitið Pigen Gogo. Hún var sýnd í Danmörku, en aldrei fyrir fullum sölum þar frekar en í Svíþjóð þar sem hún var einnig á prógramminu.
Ég man helst hve leiðinlegur eltihrellir Gunnar Eyjólfs (Ragnar á leigubílnum) var; Og svo man ég að Ómar Ragnarsson var statisti í myndinni eins og Dr. Gunni hefur svo smekklega bent á í einni af doktorsritgerðum sínum:
Þetta er annars nokkuð fyndin mynd, þá aðallega því það er svo gaman að sjá allt í gamla daga. Flosi og Bessi Bjarnason eru þarna ungir og hressir í leigubíl og Ómar Ragnarsson sést snarvitlaus í nokkrar sekúndur káfa á brjóstunum á einhverri dömu á leigubílastöðinni.
Að sögn Ómars sjálfs tók um tvo tíma að taka leik hans upp, en mestmegnið af því var klippt í burtu. Súrt sjóv það
Tvö af tíu andlitum Ómars, sem hann sýndi þjóðinni í Fálkanum árið 1962. Hann var hins vegar eins og hvutti í 79 á stöðinni.
Ég verð líklega einnig að láta Dr. Gunna lífga upp á minni mitt og neytenda langloku Fornleifs, hvað innihald myndarinnar varðar - þó svo að Dr. Gunni sé merkilegt nokk mér miklu yngri maður. Hann gerir það alveg listavel og nú man ég allt um 79 af Stöðinni og meira til.
Dunhagi 19 nú á tímum - og sumarið 1962. Arne Abrahamsen sendi mér neðri myndina sem birtist í B.T.
Svo segir Dr. Gunni: Horfði aftur á 79 af stöðinni til að endurnýja kynnin við fræga nágrannahurð mína hér á Dunhaganum [Viðb. Fornleifur: umræddar dyr voru á íbúð Gunnlaugs Þórðarsonar og frú Herdísar Þorvaldsdóttur]. Þetta er sögulega mikilvæg hurð því Ragnar á leigubílastöðinni hangir á henni lon og don til að komast inn til Gógó Faxen sem býr fyrir innan.
Gógó er í ástandinu og þegar Ragnar kemst að því verður hann brjálaður sem von er og ekur til mömmu sinnar í sveitinni (því þar er lífið, ekki í solli borgarinnar, skv. gildum myndarinnar og Indriða). Það endar ekki betur en svo að hann keyrir út af og deyr. Sem betur fer hafði Ragnari tekist að njóta ástarmaka við Gógó nokkrum sinnum áður. Kynlífsatriðin hafa eflaust valdið umtali 1963, en virka í dag ísköld og máttlaus, enda liggur Gunnar Eyjólfsson hreyfingarlaus ofan á Kristbjörgu Kjeld eins og hraðfrystur nautaskrokkur.
Yndislegt. Dr. Gunni má eiga það, að hann getur peppað upp óáhugaverðugustu söguþræði, en hann gerir sér þó ekki grein fyrir því að "ástandið" var aðeins í gangi á stríðsárunum. Áður en menn gera allar konur að "Kanamellum" í ástandi, er vert að muna að eftir stríð völdu margar íslenskar konur Bandaríkjamenn fram yfir Íslendinga. Af hverju voru þær afgreiddar sem billegar dræsur af Íslendingum? Hrokakarlar telja sig eiga konur og eru því alltaf hræddir við útlendinga.
Um Kanamellur
En samúð Fornleifs er hins vegar öll hjá dátum og meintum "Kanamellum", en ekki hjá herforingjum, vængbrotnum íslenskum sveitarasistum og heimalningum, eða þeim Íslendingum sem fengið höfðu þá flugu í hausinn að Bandaríkjamenn væru á Íslandi til frambúðar fyrir Íslendinga - þeim sem fengu áfall hér um árið þegar Verndarinn fór bara!
Ég kenni þó alltaf dálítið til með Ómari R, sem notaði svo mikinn tíma í upptökur á 79 af Stöðinni við að gramsa á brjóstum kvenna suður á Velli.
En það er að "Kanamellur" hafa verið krossfestar af skyldleikaræktuðum lýð, sem ekki gerðu sér grein fyrir að konur sem "fóru í Kanann" voru ósjálfrátt að reyna að flikka upp á illa slitið genamengi Íslendinga.
Mannaval á Íslandi leiddi meðal annars til "ástands".
Kanarnir í 79 á Stöðinni og hefnd Sáms frænda
Á lista yfir leikara kvikmyndarinnar kemur fram að í henni hafi leikið tveir Bandaríkjamenn, John Tasie og Lawrence Schnepf.
Við vinnslu myndarinnar í Kaupmannahöfn, eða jafnvel fyrr, hefur einhverjum orðið á í messunni. Eftir þó nokkra leit mína að þessum mönnum og örlögum þeirra í BNA kom í ljós að þeir hétu í raun John D. Tacy (1926-1984) frá Lawrence í Massachussets og Lawrence (Larry) Win Schneph frá bænum le Mars i Iowa.
John Tacy lék byttuna Bob með miklum tilþrifum í 79 af Stöðinni. Svo góður þótti leikur Tacys, sem ranglega var kallaður Tasie, að tekið var við hann hann viðtal í gamla Vísi í águst 1962, sjá hér.
John Tacy
Myndin sem hafði fengið metaðsókn á Íslandi, spilaði sig inn á nokkrum vikum á Íslandi, þar sem þúsundir manna sáu hana í Háskólabíó og Austurbæjarbíói. Í Danmörku gekk hún ekki eins vel.
En mesta athygli hlaut myndin væntanlega í Bandaríkjunum. Það var greint frá efni hennar í tímaritinu Variety. Endursögn á innihaldi greinarinnar var t.d. í Daily News í New York 26. apríl 1963:
Umsögn Variety, og jafnvel kvikmyndin sjálf, hleyptu illu blóði þingmann fulltrúardeildar bandaríska þingsins, Frank J. Becker frá New York, sem var harðkristinn repúblíkani af þýskum ættum. Eftir síðara stríð létu slíkir menn góð bandarísk gildi og ameríska þjóðerniskennd mjög til sín taka. Greinin í dagblaðinu Daily News í New York þann 26. apríl 1963, lýsir vel hvernig Becker og skoðanabræður hans á hægri vængnum í BNA litu á myndina, þó þeir hefðu örugglega aldrei séð hana. Becker hunsaði líka upplýsingar flotans sem komu frá manni sem varð heimsfrægur sem talsmaður hers BNA í Víetnam:
The Variety review said the movie was lousy anyhow but that the appearance of the American officers had made the front pages in the Swedish Press. The Navy reexamination of the affair followed receipt of Becker´s letter.
Assistant Defense Secretary Arthur Sylvester said that he did not have the name of the information officer who asked for, but never received a copy of the script. But Sylvester said Lt. (j.g) Lawrence W. Schnepf, then an ensign, and Electricians Mate 1 Cl. John Tracy had obtained permission and appeared as actors in the film.
Schnepf, a reservist, will complete his active duty tour in June, Sylvester said, while Tacy is a career enlisted man. Sylveser said the information officer had been assured there was nothing derogatory in the script.
Becker, sem eins og margir kanar ruglaðist á Svíþjóð og Danmörku, taldi hins vegar myndina koma ljótu orði á Bandaríska herinn og að hermennirnir væru eins konar föðurlandssvikarar þar sem þeir hefðu leikið erindreka lands síns í einskennisbúningi sem fyllibyttur (Tacy) og kvennaflagara sem eltust við íslenskar stúlkur og jafnvel eiginkonur (Larry).
Becker þessi var maður sem var vanur að taka til sinna ráða. Hann kom því til leiðar að bandarísku hermennirnir sem léku með í 79 af Stöðinni (Gogo the girl) var úthýst úr bandaríska hernum. Gaman væri að fá frekari upplýsingar um það. Sjá frekar um málið hér.
Danska blaði BT og sænsk blöð greindu frá þessum snörpu viðbrögðum í Bandaríkjunum, sem ritað var þó nokkuð um í BNA. Í kjölfarið voru Morgunblaðið og Alþýðublaðið með fréttir af málinu.
Viðbrögð Indriða G. Þorsteinssonar
Miðað við þá þekkingu sem maður hefur á framsóknarmanninum Indriða, sem fæddur var árið 1926 og sem síðar á ævinni var mjög utarlega til hægri í skoðunum, þá sýnist mér að Indriði hafi samt, líkt og margir Íslendingar haft frekar loðnar kenndir til erlends hers á Íslandi. Þó voru viðbrögð Indriða nokkuð sérstök. Í nýrri blokkíbúð sinni norðarlega í Stóragerði í Reykjavík tók hann sig til og ritaði Frank J. Becker þingmanni. Það kom fram í Mbl. 27. apríl 1963.
Þessu skrif Indriða til repúblikanans Becker lýsa hugsanlega manngerð Indriða, sem var blanda af rithöfundi, ritstjóra, leigubílstjóra, sveitapilti sem varð að götustrák sem vildi áfram í heiminum, til að verða milljón dala ríkur og frægur - eins og Björk varð síðar, og Arnaldur sonur hans enn síðar.
Ekki aðeins Bandaríkjamenn gerðu ráðstafanir
Íslensk yfirvöld (eða ákveðinn flokkur) töldu að 79 á Stöðinni væri einfaldlega of djörf fyrir landsbyggðina. Þau eintök sem sýnd voru utan Reykjavíkur höfðu verið ritskoðuð. Einum þóttu bólferðir Gunnars Eyjólfs og Kristbjargar Kjeld vera hættulegar landbyggðarfólki. Ímyndið ykkur hve hátt hefði verið hlegið ef menn hefðu séð hve líflaust kynlífið var fyrir Sunnan.
Örlög vegna kvikmyndar
Ég hafði samband við góðvini mína hjá CIA og FBI (sem Indriði G. sá í hverju horni á Keflavíkurflugvelli og var oft tíðrætt um er hann var við skál eða þurfti að láta á sér bera á Hressó).
Ég fékk upplýst að Tacy hafi lengst af búið í N-Karólínu og Virginíu, þar sem hann andaðist 2. maí 1984 - aðeins 58 ára að aldri.
Tacy var samkynhneigður (jamm, allt er FBI með nefið í), og hafði hann haldið áfram að starfa a fjölum leikhúsanna. Hann vann/lék um tíma með leikhópi sem var undir stjórn þekktra og hálfþekktra leikara frá New York, m.a. Donald Renshaw, sem lék í einhverjum kvikmyndum áður en hann leikstýrði í London og Þýskalandi. Þessi leikhópur ferðaðist um Virginíu og víðar. Tacy hafði einnig greint frá því árið 1962 í viðtali sínu við Vísi að hann hefði starfað við leikhús í Memphis í Tennessee.
Vonandi hafa endaloks hans sem sjónvarpsmanns, og eins og frumkvöðlum Kanasjónvarpsins á Keflavíkurflugvelli, ekki haft of slæm áhrif á líf hans. Hann andaðist í borginni Alexandríu í Virginíu.
Íslendingar mærðu sjálfa sig meðan að Tacy og Schneph gleymdust
Hvorugum leikaranna af Vellinum var boðið í frumsýningarveislu Saga-film árið 1962. Larry var um það leyti að fara aftur til síns heima og John hafði verið settur í "sóttkví" uppi á velli, þar sem hann vann nokkra mánuði, enn sem þulur á Channel 8, Kanasjónvarpinu.
Við börnin á Reykvískum menningarheimilum, þar sem ekki var alið á sjúklegu Kanahatri og fordómum um börn sem "fæðast dökk með snúinn fót" suður á Velli, horfðu á Roy Rogers, Trigger og týnda kjötfarsið á þeirri stöð, nærri því frá blautu barnsbeini. Afi minn, Vilhelm Kristinsson, sem var Reykvískur heiðurskrati, fékk sér sjónvarp til að horfa á Kanana árið 1963 og ári síðar foreldrar mínir. Á Kanasjónvarpið var mikið horft þangað til mild ásjóna Vilhjálms Þ. Gíslasonar birtist á alíslenskum skjá. Ríkisjónvarpið kom þó aldrei í veg fyrir að amerísk menning flæddi áfram út í Reykvískar stofur á sjónvarpslausum fimmtudögum, og heldur ekki teiknimyndirnar sem sýndar voru alla laugardagsmorgna. Teiknimyndirnar urðu örugglega til þess að maður talar síður enskuna með íslenskum fjárhúsahreim.
Þess ber að lokum að geta, að fyrir utan starf sitt við sjónvarpsstöðina á Keflavíkurflugvelli var John Lacy mikið partýljón og með í country-western hljómsveitinni Eagle Westerners sem tróð upp á Keflavíkurstöðinni.
Þið sjáið gripinn hér fyrir neðan á ljósri treyju, þar sem hann virðist klípa í rassinn á Lovísu Bílddal (síðar Reusch) söngkonu frá Siglufirði, sem andaðist í Orlando í Florida árið 2003 eftir að hafa búið lengst af búið í Illinois (Chicago-svæðinu). Til vinstri við hana sést gríðarlega kanalegur gæi. Það var þó enginn annar en bassaleikarinn Erlingur Jónsson, síðar þekktur sem myndhöggvari. Hann var að Vestan og var faðir Ásgeirs Erlingssonar sem las latínu í MH með ritstjóra Fornleifs. Ásgeir, sem kallaði sig löngum Rossó Greifa, lék einnig listavel á bassa. Þó ekki sveitarokk.
Heimurinn er lítill - og margir verða útundan - en allir skipta þó máli. Einnig útlendingarnir sem Íslendingar fyrirlitu, nema einna síst ef þeir voru Þjóðverjar eða gyðingamorðingjar á flótta, og viðurkennið það nú - Íslendingar eru ekkert betri en aðrar þjóðir. Og þegar vantar einhverja til að hatast út í á Íslandi, t.d. dauða útlenska presta, er hatur lagt á þjóðir við botn Miðjarðarhafs.
Ég er nokkuð viss um að Indriði G. Þorsteinsson, og margir íslenskir karlmenn á hans aldri, hafi séð sjálfa sig í sveitamanninum sem gerðist leigubílstjóri og dó vegna (fjall)konu sem hafði "fallið". Indriði sýndi okkur birtingarmynd fordóma í garð kvenna og útlendinga. Persónulega tel ég að bréf hans til Frank J. Beckers þingmanns í Bandaríkjunum hafi verið hreinn og beinn tvískinnungur.
Kvikmyndafornleifafræði | Breytt 20.8.2020 kl. 07:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Frændi minn með hundakerruna
15.8.2020 | 08:36
Faðir minn sagði mér nokkru sinnum af frænda sínum einum, sem hét Roiter (Royter) að eftirnafni og var úr móðuætt ömmu minnar sálugrar í Hollandi. Þessi frændi var fæddur á 19. öldinni en faðir minn hafði þó séð hann. Karl þessi var ekki alveg eins og fólk er flest, og því ef til vill miklu betri fyrir bragðið. Hann hafði ofan af fyrir sér af sölumennsku hvers konar, og fór um sveitir Hollands, norðarlega og seldi alls kyns varning sem hann ók með um þjóðvegina í hundakerru. Þess konar kerrur kalla Hollendingar Hondenkar.
Svo vel gekk þessi sölumennska að karlinn varð nokkuð auðugur en lifði sparlega. Hann fékk á einhverju stigi stóra medalíu, eða það sem á Íslandi var kallað ærulaunamedalía (á dönsku: Fortjenstmedalje), frá konungsvaldinu. Karlinn átti enga afkomendur og ég á því þessa medalíu í dag. Ég geymi hana vel til að minna mig auðmjúkan á hvaða kotungsliði ég er kominn af, þegar ég er ekki að monta mig af þeim sveitaómögum sem eru forfeður mínir á Íslandi fyrir utan kynóða munka, fáeinum prestsskratta og vergjarnar prófastsmaddömur, sem ég ræði sem minnst.
Þegar ég sá þessa mynd, laterna magica-glerskyggnu frá 10. áratug 19. aldar, til sölu um daginn á Kornvöllum á Englandi, hjá herra White sem selur mér laterna magica skyggnur, gat ég ekki á mér setið og gaf mér myndina í sextugs-afmælisgjöf. Maður verður aðeins sextugur einu sinni á ævinni.
Myndin sem er framleidd á England, er mjög vandlega lituð og sýnir ungan sölumann með kerru sem dregin var áfram af hundum. Sláninn sem rak þetta eyki seldi grænmeti í den Haag í Hollandi. Ekki get ég staðsett myndina nákvæmlega út frá bakgrunninum. Fólkið umhverfis grænmetisnjólann sýnist mér geta verið af gyðingaættum, enda var það ekki óalgengt að gyðingar í den Haag seldu grænmeti. Mér finnst pilturinn furðulíkur föður mínum á yngri árum. Það er því við hæfi að sýna ásjónu hans á svipuðum aldri á skólabekk í den Haag árið 1941, skömmu áður en hann var sendur til Fríslands. Til den Haag hafði fjölskyldan flust um 1935 frá Amsterdam.
Grænmetissláninn á myndinni sem ég keypti virðist nú ekki hafa hugann mikið við salatið eða blómkálið. Hann heldur á blekpenna (lindarpenna), sem hann virðist afar stoltur af.
Því verður við að bæta að hundakerrur voru ekki sjaldséðar í Hollandi og Belgíu, sér í lagi á Flandri og víðar - á 19. öld og langt fram á þá 20.
Líkast til eiga margir Hollendingar frændur og frænkur sem höfðu viðurværi af því að selja varning sem dreginn var um stræti og vegi af hundum. Það var ekki fyrr en 1963 að hundakerrur voru bannaðar með lögum í Hollandi, vegna krafna um dýravernd frá bónuðum gólfum ESB. Dráttarhundar urðu að leita sér að annarri vinnu.
Hundar draga mjólk á Flandri. Laterna magica skyggna frá 1890-1900.
Mér þykir hundakerra nokkuð rómantískt fyrirbæri. Hver veit nema að maður fái sér slíka kerru og teymi fyrir henni tvo veglega hvutta og falbjóði íslenska menningu og skreið fyrir utan ESB hallirnar í Brussellu.
Þór Óðins-Jarðarson á að undirbúa för með Tanna 1 og Tanna 2 fyrir framan höll sína Bilskirni? Eða er þetta aðalsdrengur á Englandi?
Hér í lokin læt ég svo flakka ýmsar myndir af netinu af fólki sem áttu kerrur og vagna sem dregnir voru af hundum og geitum. Átti Öku-Þór ekki slíkan vagn sem hann ferðaðist í með hjálp geithafranna Tanngnjósturs og Tanngrisnirs? Kannski hefur Þór verið hollensk hugmynd eins og svo margt annað.
Á eyjunni Walcheren við landamæri Belgíu.
Belgískur hermaður með kanónuhunda; Líklega í smáskotaliðinu.
Mjólkurvagninn í Belgíu um 1885.
Í Frakklandi voru menn alltaf með önnur kerfi. Þess ber að geta að þessi reiðmennska hefur enn ekki verið bönnuð í ESB.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)