Færsluflokkur: Fornleifafræði
Furðufréttavertíðinni bjargað
2.11.2014 | 10:52
Ég var að verða alveg vonlaus eftir furðufréttum úr fornleifafræðinni árið 2014. Sigmundur Davíð hefur víst svelt allar fornleifarannsóknir eftir að hann gerðist yfirfornvörður landsins með hjálp einhverjar framsóknarpíu af Þjóðminjasafninu.
En í haustbyrjun var skemmtanariðnaðinum bjargað. Steinunn Kristjánsdóttir, sem hefur skemmt okkur mikið gegnum árin með "eskimóum" og "fílamönnum" sem hún hélt um tíma fram að hefðu verið sjúklingar á Skriðuklaustri, sagði nýlega frá "hálfgerðum þorpum" við klaustur á Íslandi. Þar hafa líklega búið hálfgerðir þorparar, eins og oft síðar á Íslandi.
Nú bætir Bjarni Einarsson um betur, þegar hann heldur því fram að hann hafni niðurstöðu Margrétar Hermanns-Auðardóttur um að byggð hafi hafist í Vestmannaheyjum á sjöundu öld. Hann er reyndar ekki sá fyrsti sem það gerir.
Bjarni segir. " Áður hafa verið leiddar að því líkur að fólk hafi búið í Vestmannaeyjum á tímabilinu 600-800, meðal annars svokallaðir papar, sem voru írskir og skoskir munkar." Þetta er ekki alveg rétt eftir Margréti Hermanns-Auðardóttur haft.
Bjarni segist hins vegar sjálfur með aðstoð jarðsjár og Ármanns Höskuldssonar eldfjallafræðings geta sagt að byggð hafi hafist örlítið fyrr í Herjólfsdal en um 871.
Það þarf ekki veðurbarinn jarðfræðing með sandpappírsbarka og jarðsjá til að sjá það. Um það hefur þegar verið ritað. Sjá t.d. hér. En gaman er að fleiri rústir hafi fundist umhverfis tætturnar sem Margrét rannsakaði í Herjólfsdal (sjá efst) á sínum tíma. Hún hefði örugglega líka fundið þær hefði hún haft aðgang að jarðsjá og yfirlýsingaglöðum sargbarka úr jarðfræðingastétt.
Afætuháttur íslenskra fornleifafræðinga er orðinn afar leiðgjarn. Geta menn ekki gert neitt frumlegt?
Fornleifafræði | Breytt s.d. kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fornleifafræði í dag (Monty Python)
18.5.2014 | 20:03
Íslensk fornleifafræði er líklega ekki alveg eins ruglingsleg og fornleifafræði félaganna í Monty Python.
Myndin hér fyrir neðan er af dr. Bjarna F. Einarssyni. Hún sýnir ekki fornleifafræðing með stæla. Bjarni er líklega hæsti fornleifafræðingur landsins og víðsýnn eftir því. Hér er hans gáfumannahaus tæpum 7 metrum fyrir óhreyfðum jarðlögum á Stöng í Þjórsárdal, þar sem hann hjálpaði mér dyggilega eitt sumarið. Lengi verður eins góðs grafara og hans leitað. Hjá mér vann þó lögfræðingur og sagnfræðingur sem var betri, en enga stæla nú... Þetta atriði Monty Pythons er líka einstaklega raunsætt.
Fornleifafræði | Breytt s.d. kl. 20:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heil Hitler og Hari Krishna
17.5.2014 | 19:38
Eiður S. Kvaran og Wolf Helmuth Wolf-Rottkay tengjast sögu íslenskrar fornleifafræði óbeint. Árið 1936 námu þeir ólöglega á brott mannabein úr miðaldakirkjugarðinum að Skeljastöðum í Þjórsárdal (sem sést hér á myndinni fyrir ofan sem var tekin er miðaldabærinn á Skeljastöðum var rannsakaður árið 1939). Beinin fóru þeir með af landi brott. Þau átti að nota í rannsóknir á Greifswalder Institut für menschliche Erblehre und Eugenik, stofnun fyrir mannerfðafræði og mannkynbætur við háskólann í Greifswald. Rasísk mannerfðafræði var grundvallargrein í nasismanum og spratt upp fjöldi háskóladeilda um allt Þýskaland, sem starfaði eftir kynþáttastefnu nasistaflokksins.
Kvaran
Árið 1936 kom til sumardvalar á Íslandi Eiður Sigurðsson Kvaran (1909-1939), sem stundað hafði nám í sagnfræði í Þýskalandi og fengið þar doktorsnafnbót í þýskri kynbótamannfræði sem var reyndar ekki meira virði en pappírinn sem örstutt ritgerð hans var prentuð á. Ritgerðin bar hið hjákátlega nafn: Sippengefühl und Sippenpflege im alten Island im Lichte erbbiologischer Betrachtungsweise (sem ef til vill má útleggja sem: Ættartilfinning og frændsemi á Íslandi að fornu í ljósi erfðafræðilegar nálgunar).
Eiður S. Kvaran var heittrúaður nasisti og einnig dyggur liðsmaður í Þjóðernishreyfingu Íslendinga. Það er engum vafa undirorpið um eldmóð Eiðs í nasismanum eða um áhuga hans á nasískri erfðafræði, kynbótastefnu sem og kynþáttastefnu. Hann byrjaði að stunda rasistafræðin eftir dvöl á heilsuhæli í Sviss haustið 1930, en þessi kvistur af Kvaransættinni gekk ekki heill til skógar á þeim árum sem hann dýrkaði nasismann.
Næstu skólaárin dvaldi hann í München og sótti fyrirlestra hjá vafasömum fræðimönnum í mannfræði og kynbótastefnu, eins og þjóðarmorðingjanum Theodor Mollison (sem var lærifaðir Auschwitzlæknisins Josefs Mengele) og Fritz A. Lenz.
Í bréfi til háskólans í Greifswald dags. 11. janúar 1934 upplýsir Eiður Kvaran um stjórnmálastarfsemi sína á Íslandi, m.a. um að hann hafi á fyrri hluta árs 1933 verið ritstjóri málgagns Þjóðernishreyfingar Íslendinga, nasistaritsins Íslenskrar Endurreisnar. Hann upplýsti einnig að borgaralegir flokkar á Íslandi hefðu horft þegjandi og hljóðalaust á uppkomu marxismans á Íslandi og að hann sjái því það sem skyldu sína að berjast gegn honum. Hann upplýsir einnig háskólayfirvöld í Greifswald um, að hann sé með verk í vinnslu um nauðsyn kynbótaráðstafana (rassenhygienischer Maßnahmen) á Íslandi.
Með Eiði til landsins kom eins og fyrr segir annar nasisti, ungur þýskukennari og norrænufræðinemi Wolf Helmuth Wolf-Rottkay frá Greifswald. Eiður Kvaran hafði kennt honum íslensku við háskólann í Greifswald. Þeir héldu í Þjórsárdalinn og rótuðu þar upp beinum í kirkjugarðinum við Skeljastaði. Talið er að Eiður og Wolf-Rottkay hafi tekið með sér um 30-35 beinagrindur til Þýskalands, en líklegast voru það aðeins höfuðkúpur sem þeir fluttu úr landi.
Hvorki Eiður né Wolf Helmuth höfðu nokkrar fræðilegar forsendur til að "rannsaka", eða hvað þá heldur heimild til að ræna jarðneskum leifum fornra Íslendinga. Þeir félagar fóru í Þjórsárdal með því markmiði að fá sér þar beinagrindur/höfuðkúpur til mannfræðirannsókna. Ætlun þeirra var fara með þessi bein á nasíska mannfræðistofnun, Greifswalder Institut für menschliche Erblehre, sem var undir stjórn prófessors Günther Just, sem veitti Eiði doktorsgráðu sína. Just starfaði upphaflega fyrir og síðar í samvinnu við Rassenpolitisches Amt sem var hluti af NSDAP, þýska nasistaflokknum.
Söguna af þessari beinatínslu Eiðs Kvarans, Wolf Hellmut Wolf-Rottkays og nokkurra íslenskra nasista sagði Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur frá í útvarpserindi árið 1964. Síðar kom frásögnin út í ágætri grein í Árbók Hins Íslenzka Fornleifafélags árið 1967 (sjá hér) sem bar heitið Beinagrindur og bókarspennsli.
Áður en Sigurður heitinn Þórarinsson birti grein sína um rannsókn Eiðs og Rottkays, hafði Kristján Eldjárn þjóðminjavörður samband við Rottkay, þar sem hann var kennari í þýsku og germönskum fræðum á Salamanca á Spáni. Rottkay skrifaði Eldjárn:
Mér þykir ákaflega leitt, að ég get varla orðið yður að miklu liði í beinagrindamáli þessu, sem þér nefnið, en sem von er eftir því næst þrjátíu ár stríðs, tjóns og endurreisnar man ég heldur lítið um ferð okkar Eiðs til Skeljastaða. Ég get því ekki einu sinni sagt með fullri vissu, hvort ferðin hafi verið farin til Skeljastaða, eða hvort beinagrindurnar eða heldur mannabein þessi hafi fundizt þar eða á einhverjum öðrum stað í þeirri ferð, eða hve mörg mundi hafa verið. Beinin munu síðan hafa verið flutt til Þýzkalands, helzt til Greifswald, en ekki man ég hvort þau voru á skipinu á ferð okkar frá Íslandi þetta ár eða um örlög þeirra í Greifswald. Væri þó hugsandi, að próf. Just, sem þá var prófessor i mannfræði og erfðafræði í Greifswald, gæti sagt meira um þetta efni. Hann er sagður fyrir nokkrum árum kominn til Tübingen. Spennslið, sem þér skrifið um í bréfinu, hlýtur að hafa verið með eignum Eiðs Kvarans í Greifswald, þegar hann dó. Þær voru geymdar af bæjarstjórninni eftir andlát hans, en eins og þér vitið skall stríðið á fáum vikum eftir dauða hans. Virðist mér efasamt, hvort hlutirnir hafi nokkru sinni komizt til Íslands, þar sem landshornið þetta var hertekið af Rússum 1945". Kristján Eldjárn bætti svo við eftirfarandi athugasemd sem ritstjóri Árbókarinnar: "Eftir þetta svar virðist vonlitið að fá fyllri svör frá Þýzkalandi um Skeljastaðaferðina 1935. Ritstj."
Wolf-Rottkay
Ferill Wolf Helmuth Wolf-Rottkay var afar einkennilegur. Hann var argur nasisti líkt og Eiður Kvaran. Eiður Kvaran sá þó aldrei "bestu ár" helstefnu þeirrar sem hann fylgdi, því hann lést úr berklum í Greifswald árið 1939.
Margar tilkynningar um dauða Eiðs voru birtar í dagblöðum í Greifswald.
Wolf Hellmuth Wolf-Rottkay fæddist í Berlín, sonur leutnants í þýska hernum. Hann ólst að hluta til upp í Oberstgau í Allgäu í SV-Þýskalandi. Þar sem hann fékk einkakennslu eftir barnaskóla, en tók síðar gagnfræðapróf í bænum Kempten. Fjöskyldan flutti síðan til Garmisch-Partenkirchen, þar sem hann hann fékk einnig einkakennslu. Vegna þrálát lungnakrankleika var pilturinn sendur til Davos í Sviss, þar sem hann tók stúdentspróf. 1930-1931 stundaði hann nám í enskum málvísindum við háskólann í Rostock og München. 1931-32 stundaði hann nám og lauk prófi í ensku við túlkadeild verslunarháskólans í Mannheim. Hann vildi samkvæmt upplýsingum sem hann gaf háskólanum í Greifswald halda áfram námi í ensku en einnig í norrænum málvísindum sem og "Rassen- und Vererbungslehre", en vegna fjárskorts settist hann ekki á skólabekk eftir prófið í Mannheim, en hélt til Svíþjóðar, þar sem hann var gestur sænsk vinar síns.
1. janúar 1933 gekk Wolf-Rottkay í Þýska nasistaflokkinn, NSDAP, og varð félagi númer 433014. Þá vænkaði hagur hans í háskólakerfinu. Eftir sumardvöl í Svíþjóð og Danmörku 1933, stundaði hann nám við Háskólann í Frankfurt í enskum og norrænum málvísindum. Á vorönn 1934 sat hann fjórar annir í sömu greinum og þar að auki Vererberungswissenschaft við háskólann í Greifswald. Hann framfleytti sér m.a. við málakennslu og þýðingar. M.a. þýddi hann úr sænsku yfir á þýsku. Árin 1935, 1936 og 1937 dvaldi hann samanlagt 10. mánuði á Íslandi, þar sem hann stundaði m.a heimildasöfnun og eins og fyrr greinir beinasöfnun, eða öllu heldur beinaþjófnað, í Þjórsárdal.
Í byrjun júlí 1938 kvæntist hann vísindateiknaranum Ursulu Wilczek, sem mest vann við að teikna landakort og mála nái í Greifswald, og vann hún lengstum fyrir sér fyrir teikningar sínar af líkum sem birtst hafa í mörgum líffærafræðibókum læknanema um allan heim. Í september 1939 var hann formlega útnefndur sendikennari í þýsku við Háskóla Íslands af Reichsminiser der Auswartiges (utanríkisráðherra, sem þá var Joachim Ribbentrop), og rektor háskóla Íslands, Níels P. Dungal. Wolf-Rottkay kenndi þýsku tvo tíma í viku, en hélt einnig marga opinbera fyrirlestra um þýska tungu, um sögu Þýskalands, hin mörgu héruð landsins en fyrst og fremst hið "nýja Þýskaland", oft með skyggnumyndasýningum (skuggamyndum eins og fjölmiðlar kölluðu það þá).
Morgunblaðið lýsir einum slíkum fyrirlestri með mikilli hrifningu, og urðu margir frá að hverfa, því aðsókn að fyrirlestrinum var mikil. Hann hélt einnig þýskunámskeið í félaginu Germaníu, sem á þeim árum var ekkert annað en nasistasamunda. Ljóst má vera að Rottkay starfað fyrri áróðursöfl í Þýskalandi. Þann 4. apríl 1939 hélt hann "háskólafyrirlestur með ljósmyndum um hina nýju bílvegi í Þýskalandi (Reichsautobahnen")" Hann hélt af landi brott með konu sinnu Ursulu Wolf-Rottkay, sem komið hafði til landsins árið 1938 í lok apríl með Dettifossi.
Á stríðárunum vann W.H. Wolf-Rottkayh um tíma fyrir áróðursstofnun í Þýskalandi, Deutsche Informationsstelle, undir utanríkisráðuneytinu Þýska og gaf út andgyðinglega bók um menntakerfið á Bretlandseyjum [Wolf-Rottkay, Wolf Helmuth: Der Aufstieg der Reichen. Berlin: Dt. Informationsstelle 1940]. Árið 1938 hafði hann gerst meðlimur í SS. Það hefur ugglaust létt fyrirgreiðslu um að hann fékk styrk til kennslunnar frá þýska utanríkiráðuneytinu.
"Prússi" í Salamanca
Eftir stríð kenndi W.H. Wolf-Rottkay um hríð við háskólann í München. Síðar gerðist hann þýskulektor við háskólann í Salamanca á Spáni. Þar þótti nemendum hans hann dularfullur og lýstu "prússnesku göngulagi hans" en hann var samt talinn þokkaleg persóna þrátt fyrir að vera ekki kaþólikki. Í Salamanca vann hann m.a. undir verndarhendi stórfasistans Antonios Tovar Llorente, latínuláka sem hafi verið útvarpsstjóri fasistastjórnarinnar á 4. áratugnum og aðstoðaráróðursráðherra undir Franco í síðari heimsstyrjöld. Meðan Tovar Llorente gegndi þeirri stöðu hafði hann náin samskipti við Paul-Otto Schmidt foringja fjölmiðladeildar þýska Utanríkisráðuneytisins sem var einn helsti túlkur Hitlers. Í ráðherrastöðu sinni hafði Tovar Llorente Tovar Llorente, sem hafði fengið heiðursdoktorsnafnbót gefins frá Franco fyrir lítið, fengið að hitta Hitler árið 1940. Þessi rektor og smánarblettur háskólans í Salamanca (sem þó er farið að dýrka á Spáni á ný) gaf út eitt vinsælusta áróðursrit fasista í síðara stríði á Spáni. El Imperio de Espana, þar sem hann hann lýsti því yfir að framtíðin tilheyrði sterkum þjóðum og að Spánverjar væru þjóð sem ætti þeirri gæfu að fagna að vera valin til að stjórna í náinni framtíð þar sem "all fiction of freedom for the tiny national states are going to dissapear."
Árið 1955 greindi Prófessor Halldór Halldórsson frá ráðstefnu um germönsk fræði í Feneyjum á Ítalíu sem hann sótti: Í viðtalsgrein í Þjóðviljanum sagði hann frá Wolf-Rottkay, sem einnig var staddur á ráðstefnunni með konu sinni Ursulu:
"En einn daginn vék sér að mér maður og ávarpaði mig á lýtalausri íslenzku. Þessi maður er prófessor Wolf-Rottkay í Salamanca á Spáni, en hann var þýzkur sendikennari hér við háskólann um skeið fyrir stríð. Þá dvaldist kona hans hér einnig stuttan tíma, en síðan er hún svo mikill Íslendingur að hún hefur heimþrá til Íslands."
Wolf Helmuth Wolf-Rottkay gaf út ýmis rit og greinar um málfræði og málsifjafræði og meðal annars út bókina Altnordisch-isländisches Lesebuch.
Til Bandaríkjanna og undir annan hakakross
Árið 1966 leggja hjónin Wolf H. Wolf-Rottkay, kona hans Ursula og tvö börn land undir fót og setjast að í Los Angeles í Kaliforníu. Hann virðist ekki hafa haft neina fasta stöðu í nýja landinu en var skráður sem lektor (associate professor) við University of Southern California 1969-70.
Skömmu síðar var hann greinilega aftur kominn á fullt flug í kukli og hindurvitnum. Hann var í byrjun 8. áratugarins orðinn fyglismaður Hari Krishna hreyfingarinnar og á næstu árum er hann í miklum bréfaskrifum við aðalgúrú þess safnaðar .
Gamlir nasistar heilluðust greinilega mjög af Hari Krishna, eða kannski Hari Krishna liðar að nasistum. Hér sést Karlfried barón von Dürckheim (1896-1988) með gúrú Srila Prabhupada (sem er gamli maðurinn með gula pokann) árið 1974. Dürckheim var aðstoðarmaður Ribbentrops og komst til áhrifa í þýska nasistaflokkunum og í embættiskerfinu, en þegar í ljós kom að hann var afkomandi bankaættanna Oppenheim og Rotschild og "blendingur af annarri gráðu" eins og nasistar kölluðu slíka menn, var hann sendur til Japan sem embættismaður, þar sem hann heillaðist af búddisma.
Nasistinn Wolf H. Wolf-Rottkay virðist hafa talið Hari Khrisna-söfnuðinum trú um að hann væri mikill vísindamaður sem flúið hafði frá Þýskalandi nasismans. Hann kemur oft fyrir í ritum þeirra, þar sem hann er sagður hafa verið spurull, aldraður fræðimaður, sem hafði áhuga á hreyfingunni. Að lokum fengu heilaþvegnir fylgismenn í Hari Krishna hreyfingunni þó nóg af Dr. Wolf-Rottkay:
"In the following weeks, we had several heated discussions, and when Dr. Wolf saw that I was not prepared to change Prabhupada´s words just because a description didn´t fit his conception, he began to question Prabhupada´s position. Having fled Nazi Germany, he felt that our vision of Prabhupada´s authority was dangerously similar to the inflated image of Hitler in the 1930s. Finally he stopped coming. But he sent me a letter explaining his stand on the way our books should be presented. He mailed a copy to Prabhupada, who replied to him as follows." (Sjá hér).
Kona hans, Ursula, gerði sér einnig far um að gefa fólki í BNA ranga mynd af uppruna sínum og bakgrunni. Hún var undir það síðasta farin að gefa sig út fyrir að vera gyðingur og tók þátt í listasýningum aldraðra gyðinga í Kaliforníu. Myndir hennar, sem ekki voru af líkum, hafa verið til sýnis á Platt & Borstein listasafninu við The American Jewish University i Los Angeles. Hjónin virðast hafa lifað fátæklega í lítilli íbúð og lifað á anatómískum teikningum hennar.
Samstarfsmaður Rottkays við University of Southern Californa, Robert Kaplan, lýsti honum m.a. þannig í tölvupósti þ. 27.5.2014:
Wolf Helmuth Wolf-Rottkay andaðist í Los Angeles árið 1991, kona hans lést árið 1977.
Enn er beina Þjórsdæla leitað
Eftir grein Sigðurðar Þórarinssonar um beinakrukk Kvarans og Wolf-Rottkays, gleymdu menn þessum beinum. Mér var hins vegar í tengslum við kandídatsritgerð mína í Árósum (1986), og síðar í tengslum við doktorsnám mitt, mikið hugsað til beinanna sem Kvaran og Wolf-Rottkay stálu árið 1936. Ekki var ég eins vondaufur og Kristján Eldjárn.
Fyrst þegar ég hafði samband við mektarmenn í DDR árið 1985, upplýsti prófessor Frau Dr. Zengel við Staatliche Museen zu Berlin Hauptstadt der DDR mér í bréfi dags. 3.10.1985:
Herr Dr. Rottkay dürfte als Informationquelle kaum in Frage Kommen, da er nach Ihrer Aussage nach dem Kriege nicht mehr in der DDR war und daher keine kompetenten Aussagen treffen kann. ... Unsere Sammlung war zwar bis 1958 zur sichere Aufbewahrung in der Sowjetunionen, soweit sie von dem kämfenden Truppe an ihren Auslagerungsorten gerettet wereden konnte, wude aber in ihren gut gepflegtem Zustand und nachdem die größten Kriegszertörungen auf unserer Museumsinsel beseitigt waren, mit genauer Auflistung wieder an die Statlichen Museen zu Berlin / DDR übergeben.
Nú voru beinin frá Skeljastöðum aldrei í Berlín, en mér hafði verið tjáð í Greifswald, að þau gætu verið þar. Eftir að Berlínarmúrinn hrundi hef ég einnig í þrígang haft samband við nýja menn við háskólann í Greifswald, og nú er komið ljós, samkvæmt prófessor Thomas Koppe, yfirmanni safnsins sem nú heyrir und Institut für Anatomie und Zellbiologie, að seðlasafnið yfir beinasafnið í Greifswald týndist í
stríðinu. Hauskúpusafnið við Institut für Anatomie und Zellbiologie, sem nasistar bættu mikið við af beinum fólks sem t.d. var tekið af lífi í nafni kynbótaráðstafana Þriðja ríkisins, er vart hægt að nota til nokkurs, þar sem lítið er vitað um uppruna stærsta hluta safnkostsins. Erfitt virðist fyrir starfsmennina að greina á milli jarðfundinna höfuðkúpa og þeirra sem safnast hafa á annan hátt.
Ég hef beðið forsvarsmenn safnsins við háskólann í Greifswald að hafa augun opin fyrir einstaklingum með torus mandibularis og palatinus, sem voru einkenni sem algeng voru í Þjórsdælum (sjá hér og hér). Ég hef sömuleiðis áform um að fara til Greifswald með dönskum líkamsmannfræðingi, Hans Christian Petersen, sem manna best þekkir bein Þjórsdælinga og hefur mælt þau gaumgæfilega. Við ætlum að reyna að leita að beinunum. Innan um þúsundir hauskúpur safnsins liggja kúpur Þjórsdæla hinna fornu. Spurningin er bara hvar?
Höfundur: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 2014
Þakkir
Þakkir fyrir aðstoð fá:
Dr. Dirk Alvermann, Leiter des Universitätsarchivs, Greifswald.
Robert Kaplan prófessor og fyrrum Director of the English Communications Program for Foreign Students við University/later the American Language Institute of Southern California (USC).
Heimildir
Prentaðar heimildir og skýrslur:
Eberle, Henrik (2015). "Ein wertvolles Instrument": Die Universität Greifswald im Nationalsozialismus. Böhlau Verlag, Köln (bls. 388) sem vitnar í Fornleif (sjá hér). [Þetta er viðbót sett inn 15.12. 2016].
Petersen, Hans Christian (1993). Redegørelse for projektet ISLÆNDINGENES OPRINDELSE på grundlag af undersøgerlser foretaget på Islands Nationalmuseum sommeren 1993. Bordeaux [Skýrsla].
Vilhjálmsson, Vilhjálmur Örn (1986). Þjórsárdalur-bygdens ødelæggelse. 263 sider + bilag. [Kandidatsspeciale Aarhus Universitet; ikke trykt/udgivet].
Vilhjálmsson, Vilhjálmur Örn (1990), Archaeological Retrospect on Physical Anthropology in Iceland. In: Elisabeth Iregren & Rune Liljekvist (eds.) Populations of the Nordic countries Human population biology from the present to the Mesolithic. [Proceedings of the Second Seminar of Nordic Physical Anthropology, Lund 1990]. Report Series from the Archaeological Institute, University of Lund No. 46 (1990), 198-214. Sjá hér.
Vilhjálmsson, Vilhjálmur Örn (2013) Einn á kjammann. Grein á blogginu Fornleifi.
Þórarinsson, Sigurður (1968). Beinagrindur og bókarspennsli. Árbók Hins íslenzka Fornleifafélags 1966, 50-58. (Sjá hér).
Heimildir í skjalasöfnum:
UAG: Akten des Universitätsarchivs Greifswald (Skjalasafn Háskólans í Greifswald):
1) (UAG, PA 1775) Personal-Akten der Wolf Helmuth Wolf-Rottkay.
2) (UAG, Altes Rektorat, R 845) Dánartilkynningar og umfjöllun um Eið S. Kvaran í dagblöðum í Greifswald. [ACTA der Ernst-Moritz-Arndt-Universität Greifswald betreffend Ableben von hierigen Universitäts-Angehörigen (Professoren, Dozenten u. Beamte), Angefangen Nov. 1936. Abgeschlossen: 28. Juli 1941].
3) (UAG Kurator K 633) Registratur des Universitäts-Kuratoriums Greifswald; Besondere Akten betreffend Verb. Isländische Institut; Abteilung C, Nummer 685.
Persónulegar upplýsingar:
Robert B. Kaplan, sem var prófessor í málvísindum við University of Southern California, sem var vann á sömu deild og Wolf Helmuth Wolf-Rottkay í lok 7. áratugar 20. aldar].
P.s.
Árið 1988 mátti í DV og Morgunblaðinu lesa mjög háttstemmdar deilur um Eið S. Kvaran í kjölfarið á að Páll Vilhjálmsson blaðamaður ritaði ritdóm um bók Illuga og Hrafns Jökulssona Íslenskir Nasistar. Sjá hér, hér og hér (neðst). Einn ættingi Eiðs taldi að æru Eiðs S. Kvarans vegið. Ekki ætla ég að setjast í dómarasæti um það, en lesendur mínir geta sjálfir dæmt út frá þeim heimildum sem sumar hafa verið lagðar hér fram í fyrsta sinn. Ég tel hins vegar, að maður sem lærði sömu gervivísindi og Josef Mengele og við sama háskóla og sá þjóðarmorðingi, hafi verið, og verði, vafasamur pappír.
Ég ritaði ekki alls fyrir löngu um glaða konu sem lét ljósmynda sig með beinum í kirkjugarðinum að Skeljastöðum árið 1939 (sjá hér). Fyrir það uppskar ég því miður hótanir og skítast frá einhverri konu "úti í bæ"sem reyndist skyld einum nasistanna íslensku sem fóru með Kvaran og Wolf-Rottkay að ræna mannabeinum og fornleifum í Þjórsárdal sumarið 1936. Af máli konunnar mátti halda að ættingjar íslenskra nasista hefðu mátt þola verri hörmungar en t.d. gyðingar. Nasismi ættingjanna og beinaþjófnaður er því enn vandamál sem sumir Íslendingar takast á við út um borg og bý. Vona ég því að með þessari grein séu öll spil lögð á borðið, svo menn vefjist ekki lengur í vafa um hvers eðlis "rannsóknir" Eiðs Kvarans og Wolfs Helmuths Wolf-Rottkays voru.
Fornleifafræði | Breytt 28.10.2022 kl. 06:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Hvalasaga - 1. hluti
3.2.2014 | 14:46
Einn af merkari fornleifauppgröftrum síðari ára á Íslandi eru rannsóknir dr. Ragnars Edvardssonar á rústum hvalveiðistöðvar frá 17. öld á Ströndum. Ragnar hefur rannsakað rústir hvalveiðiverstöðvar og lýsisbræðslu á Strákatanga í Steingrímsfirði, (sem er að finna í Hveravík í norðanverðum firðinum gegnt Hólmavík). Ragnar hefur sömuleiðis unnið frumrannsókn á rústum hvalveiðistöðva í Strákey og í Kóngsey, sem eru norður af Steingrímsfirði. Rannsóknirnar varpa skíru ljósi á verslunar- og iðnaðarsögu Íslands. Sögu hvalveiða er einnig mikill akkur af rannsóknum Ragnars.
Ég set hér hlekki í rannsóknarskýrslur Ragnars svo menn geti kynnt sér þessar merku rannsóknir hans og félaga hans árin 2007, 2008, 2009, 2010 og 2012.
Lýsisbræðsla á Strákatanga
Á Strákatanga fundust vel vaðveittar rústir lýsisbræðsluofns. Engum vafa er undirorpið að hann er byggður af hollenskum hvalföngurum. Tígulsteinninn í honum er greinilega hollenskur, einnig minni forngripir sem fundust þeim húsarústum sem rannsakaðar voru. Reyndar telur Ragnar að mögulegt sé að Baskar hafi einnig verið þarna á ferðinni. Það þykir mér frekar ólíklegt út frá þeim forngripum sem fundist hafa á Stráka. En ekki ætla ég að útiloka ég það, þar sem baskneskir hvalveiðimenn kenndu Hollendingum hvalveiðar og hollenskar útgerðir höfðu í byrjun 17. aldar oft baskneskar áhafnir eða baskneska sjómenn um borð á skipum sínum. Íslenskir annálar greina hins vegar frá hvalveiðum Baska frá Spáni við Íslandsstrendur upp úr 1610 og frá baskneskum hvalveiðiskipum. Önnur heimild, Íslandskort frá 1706 (í útgáfu á Blefken sem prentuð var í Leyden í Hollandi), upplýsir að Baskar hafi verið við hvalveiðar við Ísland árið 1613. Það hefur verið til umræðu áður á Fornleifi.
Bræðsluofninum á Strákatanga svipar mjög til bræðsluofns sem rannsakaður var á 8. áratug síðustu aldar á Spitzbergen. Í Gautavík í Berufirði hefur einnig verið rannsakaður hollenskur lýsisbræðsluofn. Óvíst er þó hvort hann hefur verið notaður til bræðslu á hvalspiki.
Þessi ofn var rannsakaður af hollenskum fornleifafræðingum á Smeerenburg-tanga á Amsterdameyju á Spitzbergen á 8. og 9. áratug síðustu aldar. Hann er sömu gerðar og ofninn sem rannsakaður var á Strákatanga. Úr gein Louwrens Hacquebords um rústirnar í bókinni Walvisvaart in de Gouden Eeuw (Amsterdam 1988). Hvalveiðistöðin á Strákatanga var lítil miðað við stöðina á Spitzbergen.
Fornleifafræðingarnir hollensku, sem rannsökuðu hvalveiðistöðina í Smeerenburg á Spitzbergen á 8. áratug síðustu aldar, gerðu sér í hugarlund að brennsluofninn sem þeir rannsökuðu við erfiðar aðstæður hefði verið byggður upp á þennan hátt:
Svona ímynda menn sér að ofninn á Smeerenberg hafi verið byggður. Úr grein Louwrens Hacquebords um rústirnar í bókinni Walvisvaart in de Gouden Eeuw (Amsterdam 1988). Eins og sjá má voru þetta stórar hlóðir sem á var sett stór ketill, þar sem spikið bar brætt. Eldsneytinu var ýtt inn um bogamynduð göng, sem mér sýnist vera samanfallin, en annars vel varðveitt á ofninum á Strákatanga.
Einnig er til fjöldi málverka og prentmynda frá 17. og 18. öld sem sýnir spikbræðslu Hollendinga, annars vegar í Hollandi og hins vegar í Norðurhöfum.
Þar að auki eru húsin á Strákatanga sem Ragnar og samstarfsmenn hans hafa rannsakað mjög svipuð húsakynnum Hollendinga á hvalveiðistöðvum þeirra í Norðuríshafinu. Gólf sumra húsanna í hvalverstöðvum Hollendinga voru lögð tígulsteinum.
Leifar eftir baskneskar hvalveiðar hafa enn ekki fundist á Íslandi?
Hugsanlega má vera að bræðsluofn að gerð Baska sé að finna undir hollenska ofninum á Strákatanga. Hann væri þá meira í líkingu við þá ofna sem fundist hafa á Penny Island í Red Bay á Nýfundnalandi, þar sem Baskar höfðu hvalstöðvar þegar á 16 öld. Kanadamenn hafa gert hvalveiðiminjum Baska í Rauðuvík hátt undir höfði og voru minjarnar og staðurinn settar á heimsminjaskrá UNESCOs árið 2013. Hugsanlega gera Íslendingar sögu annarra þjóða við Ísland eins vel, en miðað við þær heimalningslegu áherslur sem Íslendingar hafa lagt áherslu á til útnefningar á Heimsminjaskrá er ólíklegt að hinn merki minjastaður Strákatangi fari á þá skrá í bráð, þó svo að hvalveiðar Baska og Hollendinga hafi verið ein mesta byltingin í veiðum við Strendur Íslands.
Lýsisbræðsluofnar Baska á Penny Island voru miklu minni en ofnar Hollendinga og af annarri gerð. Ef þannig ofnar finnast einhvern tíman á Íslandi, höfum við fornleifar sem styðja ritheimildir um Baska. Enn sem komið er sýna fornleifar ekki þau tengsl. Það er hins vegar aðeins tímaspursmál að slíka minjar finnist.
Svona ímynda menn sér að basknesku ofnarnir á Penny Islands hafa litið út, en miðað við upplýsingar af fundarstað, er þetta oftúlkun.
Til þess að ég sé sæmilega fullviss um að hvalveiðistöð sem grafin er upp á Íslandi hafi verið undir stjórn Baska, verða forngripirnir að vera frá Baskalandi, þ.e. Spáni eða t.d. Frakklandi. Í því forngripameni sem fundist hefur á Strákatanga er ekkert sem bendir til Baksa, hvorki leirker né aðrir gripir. Á Spitzbergen, hafa hins vegar fundist spænskir diskar og krukkur, en það er hins vegar ekki mjög óeðlilegt, því hollendingar fluttu unn leirker frá Spáni.
Þessa færslu er vart hægt að enda nema með tilvitnun í meistaralegt en hvalræðislegt prumpurraggae eftir Ómar Ragnarsson, föðurbróður Ragnars Edvardssonar. Ómar lýsir þar raunum sínum eftir kynni sín af hinum umdeilda bjór Hvalnum, sem mun innihalda vel soðnar iðraleifar. Pempíur og nöldurkerlingar nútímans, sem fárast yfir hvaða bakteríu sem er, ættu þá að vita hvað sett er í ostinn sem þær borða svo ekki sé talað um jógúrtina, sem byggð er upp af bakteríum sem danskt fyrirtæki ræktar eftir að hafa safnað þeim úr bleyjum kornabarna á dönskum spítölum:
Kvalinn eftir Hvalinn
Hvalaiðra beiskan bjór
í bland með skötu kæstri
ákaft bergði og svo fór
með útkomunni glæstri
á klósett eftir þetta þjór
með þarmalúðrablæstri.
Vínþolið, það var að bila, -
veifað gulu spjaldi, -
orðið nærri að aldurtila
og gegn dýru gjaldi,
þarmabjór hann þurfti að skila
í þarmainnihaldi.
(Ómar Ragnarsson, 2014)
Fornleifafræði | Breytt 22.4.2022 kl. 06:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17 sóttu um
15.10.2013 | 07:51
Í ár sótti ég um rannsóknarstöðu í nafni Kristjáns Eldjárns. Það er er í þriðja skipti sem ég geri það. Fyrst sótti ég um árið 1992, síðan árið 2011 og svo nú í ár. Með doktorsgráðu í fornleifafræði, sem og gott verkefni, taldi ég mig líklegan til að geta fengið þessa stöðu.
Nú er ég búinn að gefa upp alla von. Ég fékk heldur ekki stöðuna í þetta sinn (sjá hér), og 15 aðrir urðu að sætta sig við sama hlutskipti, og að sjá starfsmann Þjóðminjasafns Íslands, sem hvorki hefur doktorspróf eða mikil fræðileg afköst af baki fá stöðuna.
En mér leikur forvitni á því að vita, af hverju mat á umsóknunum var unnið í samráði við Háskóla Íslands og hverjir þar unnu að því mati. Þessi afskipti HÍ koma fram í svari Þjóðminjavarðar, Margrétar Hallgrímsdóttur til þeirra sem ekki fengu stöðuna.
Hins vegar var hvorki greint frá því í auglýsingu um stöðuna, né í viðtali sem Þjóðminjavörður átti við mig, að HÍ kæmi að ferlinu varðandi mat á umsækjendum. Ég sendi nýlega fyrirspurn um það til Þjóðminjavarðar, en hún hefur ekki séð þörf á því að svara, svo nú spyr ég opinberlega til að spara Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni vinnu í ráðuneytinu sínu, sem nú sér um málefni Þjóðminjasafns Íslands og allt annað fornt og þjóðlegt.
Hvernig kom HÍ að stöðuveitingu, þar sem gengið var fram hjá fólki með rannsóknarmenntun í rannsóknarstöðu? Vonandi var það ekki neinn í kynjafræði sem veitti mat eða umsögn. Þá á (karl)maður auðvitað ekki sjens.
Fornleifafræði | Breytt 22.2.2022 kl. 07:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hringavitleysingasaga: Um léleg vinnubrögð og fræðilegt misferli í fornleifafræðinni á Íslandi
7.10.2013 | 18:14
Hér skal greint frá þeim mönnum sem halda, og trúa því meira að segja, að hringlaga kirkjugarðar kringum fornar kirkjur sé arfleifð frá Bretlandseyjum. Þeir ganga sumir frekar langt til að telja öðrum trú um það. Einnig skal vikið að þeim, sem án nokkurra haldbærra raka halda því fram að torf- og steinkirkjur Íslendinga séu hefð frá Bretlandseyjum, meðan að timburkirkjur, þ.e. stafkirkjur, sem einnig voru þekktar á Íslandi, séu hefð ættuð úr Skandínavíu.
Í sumar hafði samband við mig lærður maður sem var að skrifa bók á ensku um uppruna íslenskrar kirkju. Leitaði hann eftir leyfi mínu til að birta grunnmynd af kirkjurústinni á Stöng í Þjórsárdal, og tilgátuteikningu sem ég hef teiknað og birt til að sýna hugsýn mína af því, hvernig ég ætla að kirkjan hafi litið út. Hann hafði séð teikningarnar í grein eftir mig í norsku riti (sjá hér).
Þar sem rithöfundurinn upplýsti mig um titilinn á fyrirhugaðri bók sinni á ensku, The Westward Movement of Insular Culture and Christianity in the Middle Ages, gat það bent til þess að hann teldi hugsanlegt að íslenskar torfkirkjubyggingar væri hefð, sem ættuð væri frá Bretlandseyjum, og að Kristnin hefði komið þaðan að mestu. Staldraði ég aðeins við og spurðist fyrir um efnið í bókinni og notkun umbeðinna mynda. Mikið rétt, eins og mér datt í hug var skoðun mannsins sú, að kirkjubyggingar á Íslandi úr torfi og steini væri hefð er borist hefði frá Bretlandseyjum. Ekki var þetta tilgáta mannsins sjálfs, og gat hann vitnað í fornleifafræðinga máli sínu til stuðnings.
Steinunnar þáttur Kristjánsdóttur
Þessi kenning, um að uppruna íslenskra torfkirkna sé að finna á Bretlandseyjum, er að mínu mati afar einkennileg meinloka og þunnur misskilningur sem slæðst hefur inn meðal nokkurra fornleifafræðinga á síðari árum, sérstaklega meðal þeirra sem menntaðir eru við háskóla, þar sem kennsla í fornleifafræði er meira hengd upp á þeóríu frekar en staðreyndir, heimildir og greiningu fornleifanna sem maður finnur. Þeir sem sett hafa þessar skoðanir fram eru ekki menntaðir í miðaldafornleifafræði né í kirkjufornleifafræði, og það sést vel í öllum skrifum þeirra. Fylgismenn þessarar kenningar eiga það einnig sameiginlegt, að álíta og trúa, að Kristnitaka og iðkun Kristindóms á Íslandi hafi hafist fyrr en ritaðar heimildir greina frá og fornleifar staðfesta.
Rithöfundurinn sem vildi fá leyfi til að birta myndir af rúst litlu torfkirkjunni á Stöng, sem ég og aðstoðarfólk mitt rannsökuðum að hluta til í lok síðustu aldar, hafði lesið þann "sannleika", að torfkirkjur á Íslandi væri hefð ættuð frá Bretlandseyjum, meðan að stafkirkjur, sem einnig voru reistar á Íslandi, væru hefð frá Skandinavíu. Þetta hafði hann lesið í doktorsritgerð Steinunnar Kristjánsdóttur frá Gautaborgaháskóla sem hún varði árið 2004 og sem ber titilinn: The Awakening of Christianity in Iceland. Discovery of timber Church and Graveyard at Þórarinsstaðir in Seyðisfjörður.
Steinunn er, eins og kunnugt er, mjög virk í tilgátusmíð, en oft standast ekki blessaðar tilgáturnar og hið frjóa ímyndunarafl hennar, sem hleypur iðulega með hana í gönur. Því miður verða nokkrar þeirra þó að meiru en tilgátum í hennar meðförum og annarra. Fólk heyrir og les ævintýralega fréttir í fjölmiðlum, og svo er orðið altalað að fílamaður, eskimóakonur og annað gott fólk hafi eytt ævikvöldinu í austjarðarvelferðarþjóðfélaginu á Skriðuklaustri. Menn byrja að alhæfa, og loks verður hugdettan að kreddu (dogmu). Þannig fornleifafræði er afar hvimleið. En þessi merkistíðindi að austan hafa öll reynst vera tóm tjara þegar upp var staðið. Síðast fór Steinunn með ólögulegan móbergshnullung frá Seyðisfirðið á sýningu í Paderborn í Þýskalandi og kallar hann kross frá Bremen eða Hamborg. Það eru engin haldbær rök fyrir því að þetta sé yfirleitt kross og hvað þá að hann sé eða sýni einhver tengsl við Bremen eða Hamborg (sjá hér)
Nú er það einu sinni svo, að engar torfkirkjur hafa fundist á Bretlandseyjum. Litlar kirkjur og kapellur hafa reyndar fundist við bæi norrænna manna á Hjaltlandi og á Orkneyjum, sem byggðar voru að hluta til af þurrum steinvegg, ólímdum, sem var gömul byggingarhefð á Bretlandseyjum. Engar slíkar kirkjur hafa verið reistar á Íslandi svo vitað sé.
Christians þáttur Kellers
Norskur fornleifafræðingur, Christian Keller, hefur einnig, án mikillar rökhugsunar eða rökstuðnings, komist að þeirri niðurstöðu, sem hann komst að í doktorsritgerð árið 1989, að elstu kirkjubyggingarnar á Íslandi og á Grænlandi byggðu á hefð frá Bretlandseyjum. Hann notar afar furðuleg hringsnúningarök er hann segir lesendum sínum frá því að 50 órannsakaðar rústir torfkirkna í Noregi gætu vel sýnt sams konar áhrif í Noregi, þ.e. hefð frá Bretlandseyjum. Engin þessara 50 rústa hafa verið rannsakaðar. Hvernig getur lærður maður sett fram slíka bábilju í doktorsritgerð?
En hvers vegna skyldu kirkjur úr torfi og steini í Noregi, þar sem önnur hús voru reist úr því efni, að vera undir áhrifum frá hefðum frá Bretlandseyjum, þegar Norðmenn og aðrir norrænir menn höfðu byggt slík hús í aldaraðir, og sér í lagi þegar engin kirkjurúst rannsökuð á Bretlandseyjum hefur verið reist með veggjum úr torfi og ótilhöggnum steinum? Það er mér algjörlega óskiljanlegt.
Christian Keller, sem og Steinunn Kristjánsdóttir, sem hugsanlega hefur komist að óundirbyggðri skoðun sinni á byggingarhefð á Íslandi með því að lesa tilgátur Kellers, vaða í villu þegar þau telja að það séu aðeins hefðir sem valda byggingarlagi.
Stór þáttur í því hvernig ákveðin bygging lítur úr, er einnig notkun þess byggingarefnis sem fyrir hendi er. Menn byggðu oftast úr því efnið sem þeir höfðu innan handa í nágrenninu. Þó menn væru ættaðir úr trjáríkum héruðum Noregs, neyddust þeir eftir 2. alda ofbeit, uppblástur og vegna trjáleysis til stórra bygginga að reisa flest hús sín á Íslandi úr öðru efni en einvörðungu timbri. Í Noregi, þar sem nægt timbur var að fá, reistu menn einnig hús úr torfi og steini, því þau einangruðu betur en hús úr timbri. Nokkrar kirkjur og önnur hús á Íslandi voru reist úr rekaviði, en þegar mikið var lagt í var timbur í helg hús flutt um langa vegu frá Noregi til Íslands. Minni höfðingjar, eða þeir sem ekki höfðu beinan aðgang að reka, létu sér hins vegar nægja torfkirkjur. Ekki ber að gleyma að innan í skelinni af torfi og steinum var lítil og nett stafkirkja.
Sagan af Steffen Stummann Hansen
Út fyrir allan þjófabálk er meðferð danska forleifafræðingsins Steffens Stummanns Hansens á torfkirkjum í löndum Norðuratlandshafs. Stummann Hansen, sem býr í Færeyjum, hefur einnig fengið þá flugu í höfuðið, ásamt írska fornleifafræðingnum John Sheehan frá Cork University á Írlandi, að kirkjur í Færeyjum væru byggðar eftir hefðum frá Bretlandseyjum. Til að undirbyggja þá skoðun sína skrifar hann m.a., að órannsökuð rúst í Leirvík á Eysturoy sé byggð á þannig hefðum. Í grein eftir Stummann Hansen og John Sheehan í Archaeologia Islandica, sem þeir kalla 'The Leirvik 'Bønhustoftin' and the Early Christianity of the Faroe Islands, and beyond' er vitnað rangt og falslega í grein eftir mig.
Stummann Hansen og Sheehan gera kirkjuna á Stöng í Þjórsárdal að kirkju sem byggir á hefð frá Bretlandseyjum með því að vitna rangt í málsgrein í grein minni. Stummann Hansen, sem ber ábyrgð á þessu, segir mig skrifa um kirkjuna á Stöng: "much indicates that the churchyard had a circular form or a circular enclosure ..." (Sjá s. 36 í greininni).
En ég skrifa ekki aðeins það. Það sem er sýnt með rauðu letri hér fyrir neðan, vinsar Stummann Hansen út og vitnar rangt í, en það sem er með bláu vitnar hann alls ekki í. Þetta er ekkert annað en heimildafölsun og fræðilegur subbuskapur sem John Sheehan, meðhöfundur Stummanns Hansens, ber vitanlega enga ábyrgð á, því hann les ekki dönsku:
"Kirkegården på Stöng er kun delvist udgravet. Vi kender endnu ikke dens størrelse eller form, og der er indtil videre fundet 11 grave. Plateauet, hvorpå kirken har stået, har fysiske afgrænsninger og kirkegården har derfor ikke haft en større diameter end ca. 20 m. Meget kunne tyde på, at den har haft en cirkulær form eller en cirkulær indhegning, lige som så mange kirkegårde i f.eks. Grønland, elle som ved nabokriken på Skeljastaðir i Þjórsárdalur."
Þarna fjarlægir Stummann Hansen vísvitandi úr skýringu minni til að láta lesendur sína trúa því að ég telji að hringlaga kirkjugarður byggður á hefð sé umhverfis kirkjugarðinn á Stöng. Þar að auki greinir Stummann Hansen ekki frá gagnrýni minni í sömu grein frá 1996, á þá fornleifafræðinga sem telja stafkirkjuhefð norræna og torfkirkjur ættaðar frá Bretlandseyjum. Ég færi einnig rök fyrir því í sömu grein, að hringlaga kirkjugarðar séu ekki endilega hefð, heldur oftar lausn vegna landslags kringum kirkjugarðana eða þess byggingarefnis sem til taks er, sem og að lagið sé ekki keltneskt eða írskt, og hvað þá heldur fyrirbæri sem aðeins finnst á Bretlandseyjum og á eyjum í Norður-Atlantshafi. En því gleymir Stummann Hansen að segja lesendum sínum frá. Þessi vinnubrögð eru óheyrð.
Hringlaga garður er líklega kringum meinta kirkjurúst í Leirvík í Færeyjum, ef trúa má Stummann Hansen. En hans túlkun á hring er greinilega ekki sú sama og mín. Ég á afar erfitt við að sjá, hvernig Stummann Hansen sér hringlaga gerði í Leirvík. Enginn veit heldur, hvort bænhúsrústin í Leirvík er rúst kirkju eða bænhúss. Er er gerðið kringum "bænhúsið" í Leirvík yfirleitt hringlaga? Kannski er ég með sjónskekkju, því mér sýnist garðurinn í Leirvík alls ekki vera hringur
Vinnubrögð Stummann Hansens í grein hans í Archaeologia Islandica eru vítaverð og ég verð að lýsa fordæmingu minni á þessari heimildafölsun og tilvitnunarfúski danska fornleifafræðingsins í Færeyjum. Menn vitna einfaldlega ekki rangt í kollega sína til að undirbyggja draumóratilgátur. Það er til ágæt skilgreining á slíku á dönsku: Videnskabelig uredelighed (Fræðilegt misferli).
Ég býst náttúrulega við því að þeir sem gefa út ritröðina Archaeologia Islandica taki afstöðu til slíkra vinnubragða og birti afsökunarbeiðni í næsta hefti.
Fornleifastofnun Íslands gaf vitleysuna út
Hverjir gáfu svo út grein Stummann Hansens og Sheeans í tímaritinu Archaeologia Islandica? Það gerði sjálfseignarstofnunin sem það sem fornleifafræðingar í bisness tóku sér hið ríkislega nafn Fornleifastofnun Íslands. Í stjórn fyrirtækisins, sem gefur út Archaeologia Islandica, situr meðal annars dr. Orri Vésteinsson sagnfræðingur, sem gegnir stöðu prófessors í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Orri hefur sjálfur verið tekinn í svipuðum óvönduðum vinnubrögðum og Steffen Stummann Hansen, (dæmi hér og hér).
Ég verð að lýsa áhyggjum mínum af ritstjórnargetu þeirra sem sjá um fræðiritið Archaeologia Islandica, þegar þeim yfirsést að Steffen Stummann níðist á því sem ég hef ritað. Það er reyndar ekki nýtt vandamál. Orri Vésteinsson fór eitt sem með Steffen Stummann Hansen að grafa í Þjórsárdal. Þeir grófu í rúst í Skallakoti, sem fyrst var rannsökuð árið 1939. Viti menn, eins og ég hafði þegar haldið fram frá 1983, og síðar sannað mörgum til ama, þá fór byggð ekki í eyði í Þjórsárdal fyrr en eftir 1104. Í torfi skálarústarinnar í Skallakoti var að finna gjósku úr Heklugosi frá árinu 1104 (H 1 gjóskuna svokölluðu). Ekki var í rannsóknarskýrslu Stummanns Hanasen og Orra Vésteinssonar vitnað í svo mikið sem í eina grein eða stafkrók eftir mig, þó ég hefði sýnt fram á að aldursgreining endalok byggðar í Þjórsárdal til 1104, setta fram af Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðingi, byggði á misskilningi, misskilningi sem einnig leiðréttist með endurrannsókninni á Skallakoti, sem og nýjum aldursgreiningum sem nýlega hafa verið gerðar á leifum frá Skeljastöðum í Þjórsárdal.
Svona útilokunarvinnubrögð minna á aðferðir sumra fornleifafræðinga í Sovétríkjunum sálugu, sem útrýmdu kollegum sínum úr umræðunni, eftir að þeir höfðu komið þeim sem átti að gleyma í Gúlagið (sjá hér). Slík vinnubrögð eru greinilega ekki framandi í HÍ. Það er dapurlegt.
Meira böl og fleiri klámhögg
í grein sem Steinunn Kristjánsdóttir birti í ráðstefnuriti fyrir 16. Víkingaráðstefnuna, sem haldin var í Reykjavík árið 2009, er heil röð af röngum tilvitnunum: Grein Steinunnar, þar sem hún kemur inn á "klassíkerinn", kirkjurústina á Stöng, kom út árið 2011 og bar titilinn: The Vikings as a Diaspora - Cultural and Religious Identities in Early Medival Iceland: Texti Steinunnar um Stöng fylgir hér, og það sem er með rauðu letri er einfaldlega rangt vitnað í texta eftir mig:
Of course, it is useful to use the church found at the farm Stöng in Þjórsárdalur as a representative example of the turf churches. The church was discovered during an excavation that was performed there in periods in 1986 and 1992-1993. This particular building was first excavated in 1939 and interpreted as a smithy (Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 1996, p. 119-139). The church at Stöng was built of turf and stones, and its interior measured 2.5 meters wide and 5 metres long. A choir was added to the east side of the church, which had an east west orientation (Fig. 2) Several graves were exhumed. A fragmented stone cross of Irish origin was also found during hte excavation of the church. The excavator suggest that the farm at Stöng was established in the 10th century; radiocarbon results date the church to the early 11th century (Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 1996, p. 129f).
Leiðrétti ég hér með:
- Kirkjurústina,sem Kristján Eldjárn og aðrir sveinar danska arkitektsins Aage Roussell komu niður á með hroðvirknislegum rannsóknarskurðum árið 1939 var þá ekki túlkuð sem smiðja. Þetta ættu allir að vita sem lesið hafa Forntida Gårdar i Island (Kaupmannahöfn 1943), þar sem niðurstöðurnar rannsóknanna í Þjórsárdal 1939 voru gefnar út árið 1943. Smiðja fannst hins vegar á Stöng árið 1939 um 20 metra austan við kirkjuna. Beint undir kirkjurústinni á Stöng er aftur á móti eldri smiðja (sem fannst 1993), forveri smiðjunnar sem rannsökuð var 1939.
- Kór var ekki bætt við austurhluta kirkjunnar. Hann var þar frá upphafi er kirkjan var byggð. Þarf að nefna að kirkjan hafi legið í austvestur? Engar grafir voru grafnar upp. Þær voru rannsakaðar og í ljós koma að beinaflutningur í líkingu við það sem Kristinna laga þáttur í Grágas nefnir hefur átt sér stað - bein höfðu verið grafin upp á 12. öld og greftruð við aðra kirkju.
- Skilgreiningin "exhumation of graves", það er fjarlægin líka, er mjög einkennileg, þegar tillit er tekið til þess að Steinunn Kristjánsdóttir hlýtur að vita, ef hún hefur lesið greinina sem hún vitnar í, að grafirnar á Stöng voru tómar. Bein höfðu í flestum tilvikum verið fjarlægð (sjá t.d. hér).
- Brot af steinkrossi af írskum uppruna hefur aldrei fundist á Stöng og stendur ekkert um það í þeirri grein sem sem Steinunn Kristjánsdóttir vitnar í.(Sjá enn fremur hérna).
- Ég hef hvergi ritað eða haldið því fram, að geislakolsaldursgreiningar á kirkjunni sýni aldur til byrjunar 11. aldar. Út frá upplýsingum frá afstöðu jarðlaga og mannvistarlaga, aldri gripa sem fundust í smiðjunni undir kirkjunni sem og út frá vitnisburði gjóskulaga, er ljóst að kirkjan hafi ekki verið reist fyrr en ca árið 1000 e. Kr.
Hvernig það er hægt fyrir kennara í fornleifafræði við HÍ að níðast svo á texta og rannsóknarniðurstöðum annarra, er mér algjörlega fyrirmunað að skilja. Til hvers þarf Steinunn Kristjánsdóttir að birta viðvaningslega skematíska teikningu af rústinni á Stöng, þegar til eru nákvæmar uppmæling á kirkjunni? Verst er þó, að þeir sem ritstýrt hafa ráðstefnuriti 16. Víkingaráðstefnunnar í Reykjavík, á vegum Hins íslenzka Fornleifafélags og Háskóla Íslands, hafa ekki haft til þess nokkra burði.
Réttast væri að kæra þessi viðvaningslegu vinnubrögð til siðanefnda í Háskóla Íslands og ráðuneyta sem bera ábyrgð á þeim stöðum og stofnunum sem Steinunn vinnur við. En ósk mín er að fólk læri þegar þeim er bent á ruglið í sér og vinni ekki á eins hroðvirknislegan hátt í framtíðinni. Mikið af efni Fornleifs eru misjafnlega mjúk gagnrýni á léleg vinnubrögð og fljótfærnisvillur í íslenskir fornleifafræði. En líklegast lesa þeir sem baunað er á ekki gagnrýnina. Þeir eru kannski yfir hana hafnir.
Ef menn geta ekki lesið sér texta til gangs, er háskólaumhverfi kannski ekki rétti staðurinn að eyða kröftum sínum og starfsævi. Afsökunarbeiðni mega þeir sem skömmina bera setja hér í athugasemdirnar, ef menn hafa einhverja æru í skrokknum.
*
Ég gaf auðvitað manninum lærða, sem lesið hafði og trúað skrifum Steinunnar, leyfi til að nota myndir sem ég hef birt úr rannsóknum á Stöng. Rannsóknirnar á Stöng voru styrktar af almannafé, og þó ég hafi unnið mest með efnið á mínum eigin tíma, þá tel ég allar rannsóknarniðurstöður vera almannaeign þegar þær hafa verið birtar, en menn skulu nota þær með virðingu og án þess að skrumskæla það sem niðurstöðurnar sýna í raun eða það sem vísindamaðurinn hefur skrifað. Að vitna rangt í heimild er misnotkun. Meðferð Steffen Stummanns Hansens á texta mínum er skammarleg heimildafölsun og meðferð Steinunnar ætti ekki að sæma akademískum borgara í HÍ. En þegar menn eru komnir út í vafasama kenningasmíð sem mest líkist trúarbrögðum eru rökin, vísindin og fræðimennskan eftir því.
Fornleifafræði | Breytt 27.1.2021 kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Fær Páll engin svör?
6.10.2013 | 18:35
Útvarpsþátturinn Spegilinn hefur fengið til sín í heimsókn Pál Theódórsson eðlisfræðing og Orra Vésteinsson prófessor til að ræða hið endalausa umræðuefni landnámið.
Enn og aftur heldur Páll því fram, að tilgátum sínum um landnám löngu fyrir ca. 870 sé ekki svarað. Þessu er til dæmis haldið fram í kynningu á viðtölunum í Speglinum við Pál og Orra:
"En Páll fær ekki svar. Að minnsta kosti fær hann ekki skrifleg, rökstudd svör."
" Fornleifafræðingar hafa fáu svarað Páli þegar hann hefur bent á viðarkolamælingar sínar..."
Vera má að sumum kollega minna þyki ástæða til að hundsa Páls. En Páll hefur ekki rétt fyrir sér, eða að rangt er eftir Páli haft, er því er haldið fram að Páll hafi engin svör fengið. Ég er fornleifafræðingur með doktorspróf í fornleifafræði en ekki í sagnfræði eins og Orri Vésteinsson, og hef hef svarað Páli opinberlega á þessu bloggi sem og í þessari greinargerð, t.d. um hvað mér finnst um að hann sé vinsa út úr útgáfum manna niðurstöður sem honum þykja henta við tilgátu sína um "landnám fyrir landnámið", en láta annarra niðurstaða úr sömu aldursgreiningaröðum ekki getið. Selektív vinnubrögð sem slík eru ávallt vítaverð og ég hélt satt að segja að slíkt væri ekki stundað í raungreinum.
Páll hefur, svo dæmi séu tekin, notað óeðlilega háar niðurstöður sem komu úr geislakolsaldurgreiningum á beinum í Þjórsárdal til stuðnings tilgátu sinni um búsetu löngu fyrir landnámið sem flestir telja að hafi byrjað að mestu um eða eftir 870 e. Kr. Hinar háu niðurstöðurnar komu frá AMS-kolefnisrannsóknarrannsóknarstofu í Uppsölum. Sýni úr sömu dýra- og mannabeinunum, sem voru greind í Uppsölum, og gáfu aldursgreiningar löngu fyrir landnám á síðara hluta 9. aldar, voru einnig send til kolefnisaldursgreiningarstofunnar á Þjóðminjasafni Dana.
Ég sendi þannig tveimur aldursgreiningarstofum sýni úr sömu einstaklingunum án þess að ég léti stofurnar vita um þessa tvígreiningu. Greiningarnar á sýnunum í Kaupmannahöfn, sem ég hef fyrir löngu birt með greiningunum frá Uppsölum, sýndu á stundum allt annan aldur en sumar greiningar AMS-stofunnar í Uppsölum gerðu. Greiningarnar í Kaupmannahöfn voru í flestum tilvikum í samræmi og samhengi við afstöðu mannvistarlaga og aldur annarra leifa í Þjórsárdal, þar sem engar búsetuleifar hafa fundist undir Landnámslagi. Sumar AMS-greiningarnar í Uppsölum voru hins vegar gersamlega út í hött, en þær virðast henta tilgátum Páls. Aðrar greiningar frá Uppsölum voru í samræmi við greiningar sem gerðar voru í Kaupmannahöfn. Hins vegar voru bein, sem greind voru í Kaupmannahöfn til 11. aldar, greind til 7. aldar í Uppsölum.
Aðrir fornleifafræðingar og sérfræðingar en ég (sjá bls. 7) hafa einnig fengið að senda sýni af mannabeinum úr Skeljastaðakirkjugarði til AMS-greininga og niðurstöður þeirra sýna án nokkurs vafa, að eitthvað gæti hugsanlega hafa verið að í greiningunum á AMS-stofunni í Uppsölum, þegar ég fékk gerðar aldursgreiningar þar sem sýndu niðurstöðu sem ekki stemmdu við niðurstöður greiningar á sömu einstaklingunum sem fóru fram í Kaupmannahöfn. Viti menn, þeir sem nýlega fengu greind mannabeinin úr Skeljastaðakirkjugarði máttu sannreyna það að ég hafði rétt fyrir mér um endalok búsetu í Þjórsárdal, og að Prófessor Sigurður Þórarinsson óð í villu er hann hélt því fram að henni hefði lokið árið 1104. Í fjölda ára lá ég undir svínslegum dylgjum sumra kollega minna og íslenskra jarðfræðinga fyrir að leyfa mér að halda öðru fram en jarðfræðiguðinn Sigurður Þórarinsson.
Hvaða halda menn að sé að? Páll segir að ekkert sé að og tekur háar niðurstöður í Uppsölum fram yfir hefðbundnu geislakolsgreininguna frá Kaupmannahöfn, þó svo að Páll hafi manna mest sjálfur haldið því fram að hefðbundnar kolefnisaldursgreiningar með langan talningartíma séu miklu nákvæmari og áreiðanlegri lausn á aldursgreiningarvandmáli eins og tímasetning elstu búsetu á Íslandi en AMS-greiningar eru.
Hugvísindamenn þora varla að segja að aðferðafræði og tæki raunvísindamanna séu þess leg að bila, eða að það séu menn á bak við tækin og hreinsun sýna, sem geti feilað. Eins og kunnugt er er mannlegt að gera mistök. Það er góð regla fyrir fornleifafræðinga að gera sér grein fyrir því að mælitæki og menn sem vinna við þau séu ekki aðgangurinn að hinum heilaga sanneika.
Jú, Páli hefur svo sem verið svarað. Hann er ekki einn í heiminum, og því ástæðulaust fyrir þáttagerðamenn Spegilsins að ljúga því er þeir segja fornleifafræðinga hafa ekki svarað Páli. Lygar og sannleikshliðranir teljast hins vegar til gamallar hefðar á RÚV og er bæði hægt að mæla það með einföldum tækjum með því að hlusta og horfa á viðtæki sín og um leið að vera nokkurn veginn gagnrýninn.
Páll og gömul veggjarbrot
Páli er einnig tíðrætt um veggjabrot í Kvosinni í Reykjavík og í Húshólma í Krýsuvík, sem hann telur að sýni landnám fyrir landnám. Ég hef áður greint frá túlkunarörðugleikum við aldursgreiningu veggjarbrotsins í Kvosinni. Þar orkar margt tvímælis og engin sönnun liggur fyrir því að þar sé hús frá því fyrir landnám. Það eru heldur engin haldbær rök fyrir því að veggurinn eða garðlagið í Húshólma sé frá því fyrir landnám. Lítum á rökstuðninginn hjá Páli.
Þetta segir Páll um veggjarbrotið í Húshólma:
Ég segi fyrst frá garði í Húshólmum við Krýsuvík til að sýna hversu litla athygli vísbendingar um eldra landnám hafa fengið. Hár aldur garðsins kom í ljós fyrir 23 árum í rannsókn sem sjaldan er rædd og ekki hefur verið fylgt eftir þótt staðurinn liggi nánast við túnfót höfuðstöðva íslenskra fornleifarannsókna. Jarðfræðingarnir Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson (1988) rannsökuðu Ögmundarhraun á Reykjanesi, skammt frá Krýsuvík, sem rann um AD 1170. Þeir grófu þversnið gegnum þennan vel varðveitta torfgarð í Húshólmum (Mynd 1). Landnámsaska var hvorki í né undir torfi garðsins. Neðst í pælunni, þar sem torf var tekið, var hinsvegar dreif af Landnámsösku. Þessi garður, að öllum líkindum túngarður, var augljóslega hlaðinn fyrir AD 870, líklega skömmu fyrr að áliti jarðfræðinganna. Hversu langur tími leið frá því landnámsmaðurinn settist að í Krýsuvík þar til bústofn hans var orðinn það stór að nauðsynlegt var að verja túnið með hlöðnum garði?
Eins og Páll segir, fannst engin landnámsaska í veggjarbrotinu og eða við það. Því er ekki hægt að aldursgreina upphaf veggjarins með fornleifafræðilegum eða jarðfræðilegum aðferðum til tíma sem liggur fyrir aldur landnámsgjóskunnar (sem í dag er aldursgreind til 870). Ljósmynd af þessum mikla sönnunargagni Páls hefði verið lágmarksskilyrði til að sýna þetta betur, og sömuleiðis ljósmynd af einhverri pælu, þar sem torfið hefur verið "tekið" og þar sem sé dreif af landnámsösku. Engin ljósmynd, teikning eða sönnun er fyrir landnámslaginu "pælunni" er því til. Gaman hefði verið að vita úr hvaða efni (hvers konar torfi) þessi ágæti veggur var reistur, því mig grunar að skilningur Páls á byggingu torfveggja sé sá að menn hafi verið með eitthvað sem líktist rúllutorfi með grassvörð eins og þann sem menn setja á fótboltavelli og garða í dag í stað þess að sá grasfræjum. Heldur hann að slíkt torf hafi verið "pælt upp" þar sem hann talar um "pælu". Hefur Páll gert sér grein fyrir því að torfstrengur í veggi var skorinn og helst í mýri, en ekki "tekinn" eða pældur upp.
Það er því engin sönnun fyrir landnámi fyrir "hefðbundið landnám" í þeirri sniðteikningu sem Páll sýnir okkur. Önnur rök hans eru ekki haldbær. Gott væri að fá aðeins betri skýringar á "pælu" Páls áður en athugun jarðfræðinga er notuð sem heimild um byggð á Íslandi fyrir þann tíma sem öðrum heimildum ber saman um. Svör óskast hér á blogginu í rituðu máli. Páll verður að kynna sér aðferðafræði fornleifafræðinga betur, áður en hann krefst þess að við föllum flöt fyrir tilgátum hans sem greinilega byggja nú orðið á óskhyggju og selektívum vinnubrögðum eins og t.d. vali á því sem þykir henta best úr Þjórsárdal. Notkun hans á sýnum sem ég hef fengið gerð á leifum úr Þjórsárdal eru því miður gagnrýnisverð.
Mér er næst að halda, að þetta veggjarbrot í Húshólma sé frá 11. öld miðað við gjóskulagið sem fallið hefur að því. Ef veggurinn hefur verið frá því fyrir 870 er furðulegt að hann hafi ekki verið meira fallinn um 1225.
Mér þykir virðingarvert að Páll sé aldraður að vinna að sínum áhugamálum. Páll er að mínu mati góður vísindamaður og hefur lengi sýnt vandvirkni og gagnrýni og spurningargleði sem margir mættu læra sitthvað af. Hann er virtur meðal kollega sinna erlendis. En í síðustu greinum sínum finnst mér Páll hafa slakað lítillega á og gerst "íslenskur" í vinnubrögðum. Hann er farinn að halda sumu fram sem heilögum sannleika. Satt er að á Íslandi er gamall siður á meðal "menntamanna" að láta rök annarra sem vind um eyru þjóta og jafnvel að þegja menn í hel, og eru sumir íslenskir fornleifafræðingar örugglega ekki betri en aðrir í þeim ljóta sið. Þeir mega taka til sín þá gagnrýni sem svíður undan henni, en ég er búinn að svara Páli.
Fornleifafræði | Breytt 22.2.2022 kl. 06:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Allen die willen naar Island gaan
18.9.2013 | 09:28
Ísland hefur lengi verið hugleikið erlendum mönnum. Fyrr á tímum sóttu þeir í fiskinn og hvalinn kringum landið, og fáir eins mikið og lengi og Hollendingar. Þeir voru oft meiri aufúsugestir en t.d. Englendingar sem gátu verið til vandræða og leiðinda. Hollendingar voru ef til vill nógu líkir Íslendingum til að koma í veg fyrir að verða myrtir eins og Baskarnir sem voru brytjaðir niður af skyldleikaræktuðum stórmennum á Vestfjörðum.
Hollendingar stunduðu mikla verslun við Íslendinga sem kom sér oft vel fyrir Íslendinga, þegar Danir, í sínum endalausu stríðum við Svía, höfðu ekki tíma eða getu til að sinna þeirri einokun sem þeir komu á árið 1602.
Um það bil 30 kg. af leirkerum fundust við frumrannsókn á flaki hollenska kaupfarsins de Melckmeyt (Mjaltastúlkunnar), sem sökk við Hafnarhólma við Flatey á Breiðafirði árið 1659. Breiðafjörður kemur einmitt fyrir í hollenska þjóðkvæðinu Allen die willen naar Island gaan. Hér má sjá brot A hollensks fajansadisk með kínversku mynstri, B franskrar skálar með bylgjuðum börmum frá Nevers eða Rouen í Frakklandi, C portúgalskrar grautaskálar og D hollensks disks með skjaldamerki . Nú eru fyrirhugaðar nýjar rannsóknir á flakinu undir stjórn Ragnars Edvardssonar og Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar. Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.
Hingað sóttu Hollendingar hina verðmætu fálka, sem aðallinn í Evrópu sóttist mjög eftir til veiða.
Íslendingar geta þakkað þessum gestum af ýmsu þjóðerni fyrir að vera ekki afdalafífl, þótt einhverjir hafi nú ekki sloppið undan þeim örlögum, t.d. þeir sem vilja gefa landið og auðlindir hafsins stórsambandi gráðugra, hungraðra og skuldsettra menningaþjóða í suðri. Hér áður fyrr var ekki siður greindra manna að gefa hinum ríku.
Sá guli, sem sungið er um í hinni gömlu niðurlensku þjóðvísu (sem hugsanlega er frá 16. öld), sem þið getið heyrt hér, og annað silfur hafsins er enn í hávegum haft og Evrópuþjóðir nútímans eru tilbúnar að beita smáþjóðir bolabrögðum til að ná í fiskinn.
Hér fylgir lausleg íslensk þýðing á vísunni Allen die willen naar Island gaan og hér eða hér má sjá textann á hollensku og hér nótur með góðri útsetningu. Efst syngja spilamennirnir í hópnum Aija frá í Norður-Hollenska, þau heita Leo, Titia, Herman og Greetje. Neðst syngur frábær kór ungra Flæmingja vísuna.
Allir vilja Íslands til
Í hinn gula þorsk að ná,
og að fiska þar af þrá.
Til Íslands til Íslands,
Íslands til
eftir þrjátíu og þrjár ferðir
erum við enn þá til.
Rennur upp tími sem líkar oss vel,
við dönsum af sálargleði
og setjum ekkert að veði.
En svo kemur, já svo kemur
að því að halda á haf,
þá drjúpum við höfði
áhyggjum af !
Þegar vindur úr norðri þýtur
höldum við á krár
og drekkum þar af kæti.
Við drekkum þar og drekkum þar
í góðra vina böndum,
uns okkar síðasti eyrir
horfinn er úr höndum
Þegar austanvindur blæs af landi
"vindurinn er á okkar bandi"
segir skipper glaður í bragði
"og best er, já best er
jú allrabest er,
að beita fyrir hann þvert
þá á Ermasundi þú ert."
Fram hjá Lizard point og Scilly eyju
og þaðan allt til höfðans Skæra [Claire höfða á Írlandi]
Sá sem ekki þekkir þessa leið skal nú læra,
því hér kemur, já hér kemur hann
stýrimaðurinn okkar
sem gefur okkur stefnu rétta
beint á Ísland setta.
Hjá Rockall eyju við siglum svo
allt til Fuglaskerja [Geirfuglaskers],
eins og hver og einn mun ferja.
Og þaðan, já og þaðan
inn til Breiðafjarðar
þar köstum við netum
á landi grænu Njarðar.
Loks erum við Íslandsálum á
þorskinn til að fanga,
og fiska þar af þrá.
Til Ísalands, Til Ísalands,
já Íslands það,
eftir þrjátíu og þrjár ferðir
erum við ennþá að.
Fornleifafræði | Breytt 22.2.2022 kl. 07:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hart í ári
3.9.2013 | 06:54
Nú er greinilega hart í ári hjá íslenskum fornleifafræðingum. Atvinnuleysi er reyndar ástand sem er þekkt mjög víða í þessu fagi, sem eitt sinn ól af sér forseta lýðveldis (sem tæknilega séð var ekki fullmenntaður fornleifafræðingur).
Ég sá í morgun, að fornleifafræðingur með doktorspróf sótti um framkvæmdastjórastöðu Lánasjóðs Íslenskra Námsmanna (LÍN).
Ég verð sannast sagna að viðurkenna, að ég íhugaði einnig að sækja um þessa stöðu, þar sem ég hef nú í heilt ár engar tekjur haft og fæ engar bætur vegna atvinnuleysis. Ég hugsaði mig um eina kvöldstund og minntist þeirra kvala sem ég og aðrir hafa þurft að þola af höndum LÍN. Þar sem ég hef þar að auki lítið vit á fjármálastjórn, sem ég geri ráð fyrir að framkvæmdastjóri LÍN verði að hafa á þessum síðustu og verstu tímum, þá komst ég að þeirri niðurstöðu að þessi staða væri líklega ekki neitt fyrir mig, þar sem ég get ekki einu sinni greitt af námslánum mínum. Ég fæ nefnilega engar ívilnanir og skuldaaffellingu eins og þeir sem voru á feitum kúlulánum.
Ég óska Margréti Hermanns-Auðardóttur góðs gengis og vona að hún hreppi stöðuna hjá LÍN. Hún hefur lengi verið útilokuð úr sinni starfsgrein og verið fórnarlamb ills umtals og lítilmótlegs áróðurs. Hún er atvinnulaus, meðan að fólk sem ekki eru fornleifafræðingar, sem og aðrir sem ekki kunna að vitna rétt í texta, eru að kenna fornleifafræðinemum á fullum námslánum í HÍ - svo þeir geti fyllt raðir atvinnuleysingjanna.
Fornleifafræði | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Brünhilde hjá Leynifélaginu hitti Adolf
4.6.2013 | 07:53
Þetta hljómar eins og eitthvað plott úr 3. ríkinu, en er samt meinasaklaust og fræðandi. Útvarpskonan Brynhildur, með tilgerðalega rödd sem börn virðast skilja, fer í fornleifaleik við fornleifafræðinginn Adolf, sem reynir af bestu getu að tala til krakkanna. Þetta er Leynifélagið á RÚV. Myndin er af Adolf.
Hlustið á þáttinn og lærið meira um fornleifafræði, um að keyra hjólbörur í rigningu, að leika sér í sandkassa og að finna "alls konar dót" í gröfum. Í þættinum finnur Adolf nagla með ró og finnur fram "stóra dýrið" úr óáföllnu silfri. Afar fróðlegur leikþáttur, en ætli Adolf hafi fengið leyfi til að grafa fyrir Leynifélagið? Brynja Björk verður örugglega ekki hress með þessa skýrslu.
Auf Wiedersehen, krakkar.
Fornleifafræði | Breytt 22.2.2022 kl. 07:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)