Færsluflokkur: Fornleifafræði

Ó, þvílík ósköp !!

BBB

Brynja Björk Birgisdóttir (BBB) sveiflaði heldur betur fléttunni gær í viðtali í Kastljósi. Það var stundum erfitt að sjá hvort hún væri í þættinum í pólitísku sjálfspoti eða sem fornleifafræðingur. Brynja var níundi maður á lista €vru-flokksins Bjartrar Framtíðar í Reykjavík Norður í nýafstöðnum Alþingiskosningum. 

Í Kastljósi sagði BBB, sem aðallega hefur stundað skrifborðsfornleifafræði í Noregi, frá skýrslu sem hún hefur unnið fyrir Menntamálaráðuneytið um fornleifarannsóknir á Íslandi. Skýrslan, Athugasemdir við skýrslu menntamálaráðuneytis um stjórnsýslu fornleifarannsókna og fornleifaverndar, er sem betur fer ekki plagg sem Menntamálaráðuneytið segist ábyrgjast, enda kannski orðið aðeins of seint nú, þegar fornleifa- og minjamálin hafa verið færð yfir á borð Sigmundar Davíðs. Aumingja Sigmundur.

Líkast til væri best fyrir forsætisráðuneytið að sniðganga þetta plagg sem greinilega hefur verið gert eftir pöntun. Það er stútfullt af skilningsleysi, rangfærslum, aðdróttunum og jafnvel ærumeiðingum og slúðri. Þó sumt (en fátt) sé ágætt er í skýrslunni stendur, hefur BBB einfaldlega ekki valdið því verki að skrifa þessa skýrslu.

Ég, sem annars er frekar gagnrýninn á versta ruglið í íslenskri fornleifafræði, tel þessa skýrslu BBB öfgakennda gangrýni og of mikla problematíseringu. Fyrr má nú ofgera. Mér sýnist þetta enn ein tilraunin til að gera fornleifafræðina að vandræðaunglingi og milljónirnar sem farið hafa í rannsóknir að töpuðu fé. Því fer hins vegar fjarri að fé hafi tapast í fornleifarannsóknir, þrátt fyrir lélega fornleifafræði á köflum.

Ásökun um óráðsíu á almannafé

Eftir inngang Kastljóss, mátti jafnvel halda að stjórnendur þáttarins hefði skilið skýrslu BBB sem ákæru á hendur ákveðnum fornleifafræðingum og rannsóknum þeirra.  Var rannsóknin að Hólum sérstaklega tekin í karphúsið. Fékk ég þá tilfinningu að gefið væri í skyn að sá ágæti, vandaði og duglegi fornleifafræðingur Ragnheiður Traustadóttir (sem er með álíka menntun og BBB), sem stjórnað hefir rannsóknum á Hólum, hafi stundað sukk, bruðl og lítið sem ekkert gert fyrir allar tugmilljónirnar sem runnu í verkefnið. BBB dró reyndar í land í viðtalinu, en orð hennar hljómuðu sem innantómt fals, eftir það sem á undan hafði verið básúnað í fréttaskýringunni.

Ráðist á vísindamennsku

Mörgu er ábótavant í skýrslu BBB og á stundum er einfaldlega ekki sagt rétt eða nógu fyllilega frá, þótt í orðagjálfrið sé eytt yfir 100 blaðsíðum af afnorskri stofnanaíslensku.  Palladómar eru allt of margir til að hægt sé að taka skýrsluna alvarlega.

BBB mælir með því að opinberu fé verði framvegis mest megnis varið í þjónusturannsóknir og björgunaruppgreftri, og gerir hún lítið úr rannsóknaruppgröftrum. Rök þau sem hún telur til því til stuðning eru tilviljanakennd og ósanngjörn, því rannsóknarfornleifafræði á Íslandi hefur í raun skilað mun meira til fræðanna og þekkingar en tilfallandi björgunar- og þjónustugreftir. 

Hins vegar er það svo, að pláss verður að vera fyrir alla þessa þætti og sömuleiðis fjármagn, ef Íslendingar ætla að teljast til siðmenntaðra þjóða.

Maður fær það óneitanlega fljótt á tilfinninguna að skýrslan einkennist af "faglegri öfundsýki" og hnýtingum í fólk sem halda mætti að BBB væri illa við (fyrir hönd annarra).  Mikið er í skýrslunni af þeim leiða norska sið sem kallast flisepikkeri,  sem Danir kalla svo fallega pindehuggeri eða flueknepperi, og á ensku er þekkt sem nit-picking. Sparðatíningur og smámunasemi, sem þessi leiðindi heita á mínu heimili, er aldrei góð latína í gagnrýni, sér í lagi þegar lélegar, ef nokkrar, lausnir eru gefnar. 

T.d. fárast BBB yfir tveimur kumlum í tengslum við rannsóknir á Böskum (bls. 31 ). Ef kuml eru á þeim stað sem minjar um Baska (og fyrst og fremst Hollendinga) er að finna, er það fornleifafræðilegur ávinningur að hægt sé að rannsaka kuml í leiðinni. En, nei, nei, nei, BBB telur að það sé af og frá að slá tvær flugur í einu höggi, því það gera menn ekki í Noregi þar sem hún þekkir til.

Ég man sannast sagna ekki eftir neinu sem bætir verulega við söguna og þekkingu okkar úr björgunaruppgröftrum. En dr. Ragnar Edvardsson, sem ómaklega fær að kenna á svipu BBB, stundar nú rannsóknir með öðrum á uppruna fiskistofna við Íslands, þar sem forleifafræði, erfðarannsóknir og ýmis konar vísindi sameinast í einum áhugaverðustu rannsóknum síðari ára sem mun varpa nýju ljósi á Íslandssöguna. Slíkt kallar á vísindalegar rannsóknir og kemur ekki úr tilfallandi raski við vegagerð. Geri þeir sem grófu upp á skrifstofu í Noregi betur.

Endalaus samanburður  við Noreg, sem er það eina sem BBB þekkir til, er út í hött og vonandi á ekki að fara að drepa íslenska fornleifafræði í dróma vegna þess að einhver kona,  sem sérmenntuð í norsku suði og Bjartri framtíð, nema fyrir fornleifafræði, sé svo svartsýn í Kastljósi.

imagesCARVFK41

Norska aðferðin. Verður hún tekin upp í Forsætisráðuneytinu?

Menntun fornleifafræðinga

Íslensk fornleifafræði er vissulega afar misjöfn að gæðum, eins og fólkið sem hana hefur stundað (en það verður að vera pláss fyrir alla - án slysa). En ég efast stórlega um að menn hafi verið að leika sér að almannafé og séu þess vegna ekki búnir að skila forngripum á Þjóðminjasafni.

Ég er ekki viss um að norsk stofnanaskriffinnska BBB henti ýkja vel við íslenskar aðstæður og mér heyrðist og sýnist líka að BBB sé afar illa að sér um fyrirkomulag við fornleifarannsóknir á Norðurlöndum, sem hún hélt fram að hefðu ávallt verið stjórnað af þrælmenntuðum einstaklingum, nema á Íslandi. Það er einfaldlega haugalygi. Fornleifafræðinemar hafa að mestu stjórnað fornleifarannsóknum í Danmörku síðustu 70 árin, og margir hafa gert það með ágætum.

Rétt er hins vegar, að enn er fátt um doktorana á Þjóðminjasafni Íslands og ekki var BBB á meðal þeirra, er hún vann þar, en það er auðvitað ekki nefnt í skýrslunni, enda á margt í henni uppruna sinn á þeirri stofnun.

Eins og BBB sagði réttilega í viðtalinu í Kastljósi gengu um menn sem kölluðu sig fornleifafræðinga en voru það ekki. Í skýrslunni segir hún frá fornleifafræðingum án nægilegrar menntunar sem á síðari árum hafa verið að grafa.  Guðmundur Ólafsson á Þjóðminjasafni Íslands, sem lengi vel kallaði sig State Archaeologist í bréfaviðskiptum við erlenda menn var lengi ekki með lokapróf í fornleifafræði; heldur ekki hinn ágæti fornleifafræðingur Mjöll Snæsdóttir, eða hvað þá heldur Þór Magnússon. Ekki einu sinni Kristján Eldjárn, sem var samt ekki verri fornleifafræðingur en margur ofurmenntaður sérfræðingurinn í fornleifafræði á sínum tíma. En BBB greinir einnig í þeim kafla illa og rangt frá.

Hún gleymir því að klíkuskapur, skyldleikarækt og furðulegur afdalaháttur varð til þess að ráðinn var sagnfræðidoktor, Orri Vésteinsson, til að vera prófessor í fornleifafræði við HÍ.  Mannorð dr. Bjarna F. Einarssonar var hins vegar dregið í svaðið af dómnefnd í HÍ, sem braut stjórnsýslulög og allar almennu siðlegar reglur þegar honum var hafnað í stöðu sem hann sótti um. Það mál fór fyrir dómstóla og ættu menn ekki að gleyma niðurstöðunni.

Hins vegar hafa menn án doktorsnafnbótar, sem sótt hafa Svarta Skóla í París, viljað eiga það til að haga sér eins og kóngar og vaðið uppi með alls kyns frekju og siðleysi gangvart landsins lögum og kollegum sínum, sbr. þetta sem BBB skrifar: Þá eru einnig dæmi um að grafið hafi verið í fornleifar án þess að tilskilið leyfi hafi legið fyrir. Í framvinduskýrslu Adolfs Friðrikssonar um kumlarannsóknir sem birt var árið 2004 er greint frá rannsókn á meintu kumli við Hrísheima í landi Baldursheims í Mývatnssveit.48 Skýrsla um uppgröftinn kom út árið 2011, 9 árum eftir vettvangsrannsóknina.49 Ekki verður séð af fyrirliggjandi gögnum að Fornleifavernd ríkisins hafi gefið út leyfi til rannsóknarinnar.

Margir íslenskir fornleifafræðingar hafa tekið þátt í útilokunum og ofsóknum í garð kollega sinna, og neiti því þeir er þora. Dr. Margrét Hermanns-Auðardóttir, var lengi vel úthýst á Þjóðminjasafni Íslands, þar sem neðanmálslið (menntunarlega séð) vann í því leynt og ljóst að eyðileggja mannorð hennar. Árið 2009 sótti Margrét um stöðu minjavarðar Suðurlands. Hún fékk ekki stöðuna þótt hún væri með meiri menntun og starfsreynslu en sá ungi maður sem fékk stöðuna. Það var ekki aðeins skandall fyrir fornleifafræðina heldur einnig fyrir það auma fyrirbæri sem kallast Jafnréttisráð, sem gaf út þennan úrskurð er Margrét kærði stöðuveitinguna. Víðar er pottur brotinn í íslenskri stjórnsýslu en í fornleifamálum og minjavernd.

Nú er hinn norskmenntaði fornleifafræðingur BBB reyndar starfandi á Þjóðskalasafni Íslands, þar sem hún var nýlega ráðin fyrir hinn venjulega klíkuskap í íslensku þjóðfélagi. Þar var hún tekin fram fyrir miklu betur menntaða menn með doktorspróf og sérmenntun á því sviði sem auglýsti var eftir. Áður vann BBB á Þjóðminjasafni og fór þar mikinn þegar hún kom heim frá Noregi.  Hún hefur greinilega lært mikla norska stjórnsýslu og skriffinnsku, sem er góð að mörgu leiti. En við fljótum ekki á hyldjúpum olíupolli eins og frændur okkar og getum ekki leyft okkur þann vandlætingarhátt sem BBB hefur í frammi.

Gott er til þess að vita að BBB sé komin á önnur mið, og sökkvi sér nú niður í skjalbunka og hætti með tíð og tíma að velta vöngum yfir þeim mörgu afburðalélegu kollegum sem haldið hafa fyrir henni vöku meðan hún skrifaði "norsku" skýrsluna sína.

NORSK FORNLEIFAFRÆÐI

Hver er lausnin?

Hluti lausnarinnar er vitaskuld meiri úrvinnsla eins og BBB bendir á. En það á ekki að gerast á kostnað vísinda og fræða. Menn verða að muna, að úrvinnsla kostar meira en rannsóknirnar sjálfar og er mjög tímafrek. Það skýrir m.a. lélegar heimtur úr rannsóknum þar sem þúsundir forngripa hafa fundist, og þar sem stjórnendur vilja ekki rugla í fjölmiðla um grænlenskar konur og fílamenn.

Afhending forngripa til Þjóðminjasafns Íslands er ekki nauðsynlega besti kosturinn. Ég gaf lesendum mínum dæmi um það nýlega, þegar ég sagði frá því hvernig Þjóðminjasafn Íslands olli eyðileggingu forngripa sem ég og samstarfsmenn mínir við rannsóknirnar á Stöng í Þjórsárdal fundum árið 1984. Safnið skuldblindaði sig þá til að forverja gripina, en það gerðist aldrei. Þeir sem það áttu að gera sitja nú sem yfirmaður Minjastofnun Íslands og hinn nefndarmaður í nefnd undir Minjastofnun. Gaman væri t.d. að vita hve mikið slys hefur orðið á fornminjum úr rannsóknunum á Stóru-Borg. Mikið magn þeirra eyðilagðist fyrir ýmsar sakir á Þjóðminjasafni Íslands. Engar upplýsingar eru um það í skýrslu BBB. Skýrslan er því sögufölsun.

Óskir um að senda alla gripi á Þjóðminjasafnið eru eins mikið út í hött eins og aðgengi almennings og vísindamanna er nú að upplýsingum um fornminjaarfinn. Ekki er enn hægt að fá aðgengi að Sarpi, gagnagrunni þjóðminjavörslunnar, sem reyndar er fullur af villum. Er mönnum stætt á því að heimta þegar þeir geta ekki veitt? 

Nú eru fornleifamálin ekki lengur undir menntamálaráðuneyti og er það kannski vel. Óskandi væri að forsætisráðuneytið gefi þann möguleika að fornleifar og varðveisla rannsóknargagna geti farið fram í héraði. Afrit væri svo hægt að hýsa á einum stað.

Besta lausnin væri svo, að yfir- og fjárveitingarvaldið gerði sér grein fyrir þeim baktjaldaerjum sem yfirmenn Minjastofnunar Íslands (áður Fornleifaverndar Ríkisins) og Þjóðminjasafnsins (sem á greinilega ítök í skýrslu BBB) hafa átt í í áraraðir, sín á milli og við aðra. Kattarslagur þeirra er ekki neinum til gagns, og því fyrr sem nýir aðilar yrðu settir í þau embætti, því betra.

Sú miðstýring og kontrólmanía, sem BBB mælir með í skýrslu sinni, leiðir lítið gott af sér fyrir fornleifafræðina sem fræðigrein. Þannig mun hún verða mun dýrari í rekstri en fornleifafræðin er í dag. Á endanum fáum við samkvæmt þessu hjali BBB, sem þykist dómbært á vinnu annarra, að á Íslandi munu berast á banaspjót fígúrur eins og almáttugur yfirfornleifafræðingur Egyptalands, Zahi Hawass, sem ekki leyfir neinar rannsóknir nema að hann fái að vera með í öllu og koma fram í öllum sjónvarpsþáttunum og lýsa andstyggð sinni á gyðingum í leiðinni.

zahi1

Landnámsvertíðin er hafin

Celtic argument

Hinn íturvaxni yfirpapi, Egill Helgason, þjófstartaði um daginn sumarteiti íslenskra fornleifafræðinga. Það gerði hann í Kiljunni, eins og keltneskur loftbelgur, þegar hann ræddi við Pál Theodórsson eðlisfræðing í 871±2 rústunum, sem er illa lyktandi túristagildra í Reykjavík.

Venjulega eru íslenskir fornleifafræðingar fullfærir og margir hverjir langsjúkir á vorin í að koma sér í fjölmiðlana með misgóðar sögur af grænlenskum sjúklingum eða fílamönnum sem dóu í Skriðuklaustri, þangað til annað, sannara og eðlilegara kemur í ljós. 

En nú duttu fornleifafræðingar sem sagt í lukkupottinn og fengu ókeypis auglýsingu, og það ekki af ómerkilegra taginu. Hún kom í hinum merka bókmenntaþætti Egils Helgasonar, Kiljunni. Egill telur víst að Páll Theodórsson eðlisfræðingur sé að segja satt um þrjósku, vantrú og villu íslenskra fornleifafræðinga hvað varðar "Landnámið fyrir Landnámið", sem er heitasta óskhyggja svo kallaðra íslenskra keltómaíaka. Keltómaníakar (eins og t.d. þessi), eru þeir kallaðir sem eru í keltafári og trúa á byggð "kelta" og papa fyrir landnám "Norsara", mest vegna þjóðernisrembings en einnig vegna oftúlkunar á fyllingartexta hjá Ara fróða, sem var aðeins að minnast á papa vegna þess að þeir voru minni úr helgra manna sögum, írskum, sem hann kannaðist við, en þar eiga allir almenniglegir heilagir menn bækur, bagla og bjöllur (sjá hér).  

fucking_papi_or_a_saint
Írskur dýrlingur á broti af hákrossi frá 10. eða 11. öld í Old Kilcullen, County Kildare á Írlandi. Eins og papar átti þessi helgi maður bækur, bagla og bjöllur, helstu tákn írskra einsetumanna, sem Ari Fróði hefur líklega lesið um og blandað saman við vitneskju úr Siglingum heilags Brendans og frásögur Dicuils, sem voru ævintýri.

Egill inn alvitri skrifar líka um tilgátur Páls Theodórssonar á Silfrinu og Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur, fjölmiðlamaður, sjálfstæður penni og fyrrverandi Þjóðminjavörður hefur bersýnilega líka bæst í átrúendahóp Páls Theodórsson, en hann hefur þó allan varann á. Nýlega spurði Guðmundur mig um aldursgreiningar fornar, svo áhuginn er greinilega mikill á Landnáminu. Er það nokkur óeðlilegt áhugamál hjá þjóð sem enn er ekki búin að finna sjálfa sig eftir sjáflstæði og hrun?  Margir eru tilbúnir að trúa á hið snemmbæra Landnám, en þekking þeirra á efninu, heimildum og umræðunni hingað til er sísona. Keltafár er mikið á Íslandi og menn rugla öllu oft saman og tala um papa og kelta á Íslandi sem fjölguðu sér hér með bjölluleik, baglaslag og bókasafnsfræði áður en ólæsir, ljóshærðir fábjánar komu frá Noregi og eyðulögðu keltneska drauminn og lugu æ síðan um það sem í raun gerðist.

En hverju eiga menn eiginlega að trúa, þegar það virðist fyrir neðan virðingu starfandi kollega minna að svara Páli Theódórssyni, og hvað þá síður hafa samstarf við hann, eða hlusta á aðra sem vilja svo innilega að forfeðurnir hafi komið dálítið fyrr en heimilt er að trúa og halda?

Á Silfurbloggi sínu um Pál segir Egill Helgason frá ritlingi Páls sem út kom árið 2011. Ég hef sem svar við honum skrifað þetta blogg, en einnig í fljótheitum nú um helgina útbúið litla skýrslu með dæmum af kolefnisaldursgreiningum á sýnum frá Skeljastöðum og Stöng í Þjórsárdal, til að sýna að vandamálin við geislakolsaldurgreiningar á sýnum frá Íslandi, og notkun þeirra, eru nú fleir og fjölþættari en Páll tínir til í ritlingi sínum.d

Þar sem ég telst til þessarar hræðilega vitlausu og þrjósku stéttar fornleifafræðinga, sem helst trúir ekki neinu nýju, og þaðan að síður tölum sem spýtast úr vélum, ef trúa skal því sem Páll skrifar, tel ég mér skylt að leggja orð í belg um tilraunir Páls Theódórssonar til að færa sönnur á landnám fyrir þetta hefðbundna, ca. 870. Ég hef dálitla þekkingu á efninu sem Páll hefur oft vitnað í, og sem má lesa í frekar gömlum greinum eftir mig sem hægt er að finna á ritaskrá minni hér, en einnig t.d. hér. Eins hefur Páll notað niðurstöður úr rannsóknum mínum, kolefnisaldursgreiningar sem ég hef fegnið gerðar, sem mér finnst hann hafa notað heldu ógagnrýnið

Ritlingur Páls Theódórssonar (2011)

Í tilefni af viðtalinu við Pál Teodórsson birtir Egill Helgason tengingu í rúmlega eins árs gamlan ritling, Upphaf Landnáms á Íslandi, á Silfurbloggi sínu. Páll samdi ritið árið 2011 en Raunvísindastofnun HÍ gaf hann út. Í ritlingi slær Páll því slegið föstu að landnám hafi hafist löngu fyrir hefðbundið landnám um 870, eða 871 ár e. Kr., ef maður notar löggilda aldursgreiningu á Landnámslaginu. Sú aldursgreining er svo til orðin naglföst, þótt að hún byggi á mjög veikum grunni. Áður en Landnámslagið fékk þessa aldursgreiningu, sem er sögð absolút (afgerandi/óháð/óhlutlæg), þó hún sé það ekki, hafa um 6-7 mismunandi aldursgreiningar verið gefnar þessu lagi, og sumar af sama manninum, Sigurði Þórarinssyni.

Þess ber að geta að danskir vísindamenn vara nú við oftúlkun á ískjarnatímatalinu og eru nú farnir að tala um "Settlement~AD 870s" eins og lesa má í þessari grein. Þeir skrifa: Our results emphasize the variable spatial and temporal distributions of volcanic products in Greenland ice that call for a more cautious approach in the attribution of acid signals to specific eruptive events. Hafa menn ekki heyrt um 871±2? Jú vissulega, en kannski var sú aldursgreining þegar hún kom fram frekar bjartsýn?

Landnámslagið sést hér óhreyft undir torfvegg (C) skálarústar á Stöng í Þjórsárdal. Það er ekki skálinn sem í dag er til sýnis á Stöng, heldur skáli sem liggur undir smiðju, sem liggur undir kirkju og kirkjugarði. A: Eldahola. B: Grafarfyllingar frá kristni, C:Torfveggur skála frá 10. öld. Gráa lagið á fletinum kringum 1.metra mælistikuna er efri hluti Landnámslagsins. Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Prófíll

Hluti af þversniði jarð- og mannvistarlaga á Stöng í Þjórsárdal, sem sýnir hvernig eldahola og kristin gröf hafa verið grafnar niður í gegnum Landnámslagið og veggur var reistur ofan á því ekki mjög löngu eftir ca. 900 e.Kr. Teikning Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.
.

Páll Theódórsson hefur áður skrifað ágætar greinar um vandamál varðandi aldursgreiningu landnáms í Skírni og annars staðar, en bæklingurinn Upphaf Landnáms á Íslandi er því miður ekki til þess gerður að auka trú á skoðanir Páls. Páll byrjar bæklinginn á tilvitnun í bók Fornleifastofnunar Íslands, Upp á yfirborðið (2010) sem vissulega er mjög þunnur og sjálfshátíðlegur þrettándi eins og tíundað hefur verið hér. Það er alltaf furðulegt að sjá fornleifafræðinga á miðjum aldri slá því föstu að þeir hafi höndlað sannleikann og uppgötvað hann einir. Þeir eru þá farnir að líkjast íslensum eðlisfræðingum og jarðfræðingum. Setning eins og þesser makalaust vitlaus og dæmir sig sjálf: 

»Við erum nú viss um að landnám Íslands hafi átt sér stað á seinni hluta 9. aldar og það séu engir gallar á tímasetningaraðferðum okkar «

En þrátt fyrir þessa skoðun mína á galgopahætti Fornleifastofnunnar Íslands, sem er alls ekki opinber stofnun þrátt fyrir þetta mikilmennskubrjálaða nafn, verð ég að lýsa mig ósammála Páli þegar kemur að skoðunum hans um landnám löngu fyrir ca. 870. Ég hef alltaf verið "large" og sætt mig við 3 áratuga búsetu fyrir 870, en Páll notar ekki aðferðir sem ég er sáttur við.

Í ritlingnum notar Páll heldur fjálglega niðurstöður úr mismunandi fornleifarannsóknum, þar sem fengist hafa háar aldursgreiningar. En hann gleymir að segja okkur frá því hvað hefur verið aldursgreint. Í mörgum tilfellum hafa viðarsýni ekki verið viðargreind og sums staðar er hinn "óvænti" hái aldur fenginn því kolin hafa verið úr rekaviði, viði sem ekki vex á Íslandi. Þetta á t.d. við um sum sýni frá Heimaey.

Kenninguna um notkun á gömlum, dauðum trjá úr skógum eignar hann Guðmundi Ólafssyni, sem lengi vel kallaði sig fornleifafræðing og meira að segja "State Archaeologist", þó hann væri þá ekki með lokapróf í þeirri grein. Það er háber della að eigna honum svo góða tilgátu, því Kristján Eldjárn minntist fyrst á þennan möguleika í rituðu máli og ég skrifaði hér um árið einnig um notkukun gamals viðs í grein í Acta Archaeologica 62 (1991) (það tekur tíma að hlaða greinina niður; Sjá einnig greinar mínar um efnið frá því fyrir 1995 á ritaskrá minni hér, en margar greinarnar er hægt að hlaða niður sem pdf-skrá).

Til stuðnings visku sinnar um notkun birkis sem eldsneytis á Íslandi á Landnámsöld, vitnar Páll hins vegar í ónafngreindan vin sin sem lengi bjó í Noregi, um að það sé af og frá að gamalt birki sé brúklegt til eldsneytis. Það er ekki beint vísindaleg aðferð. Noregur er langt land og siðir þar eru misjafnir hvað varðar nýtingu spreks og gamals viðar. Birki gat líka rekið til Íslands annars staðar frá eins og Lúðvík heitinn Kristjánsson hefur bent á. Bendi ég hér með áhugasamari lesendum mínum og Páli, að lesa bók F. E. Wielgolaskis Nordic mountain birch ecosystems sem út kom árið 2001.

Veggjarstúfurinn í Kvosinni

Í ritlingi sínum er Páli Theodórssyni tíðrætt um veggjabrot sem rannsökuð hafa verið af nokkrum fornleifafræðingum í Kvosinni í Reykjavík. Röksemdafærsla Páls á bls. 8 í ritlingi hans er út í hött. Þar gerir hann Þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal að samlíkingarefni við forleifar frá Landnámsöld í Reykjavík. Menn verða að hafa í huga að sú skrumskæling, sem kölluð er Þjóðveldisbærinn, er byggð með steinsteypu í veggjum, plastdúk í þaki, plastklæðningu bak við veggi, steypustyrktarjárn í  veggjum og torfi sem er sótt í Ölfussið. Þjóðveldisbæinn er ekki hægt að nota til vísindalegra vangavelta um landnámsrúst í Reykjavík, þar sem enginn vísindi eru í honum, önnur en þjóðernisrembingur Harðar Ágústssonar, myndlistakennarans sem fékk að ráða ferðinni þegar þetta þjóðveldis-monstrum var reist.

Kvosin2

Þverskurðarmyndin sem Páli er svo tíðrætt um, er að mínu mati gölluð heimild. Skýringar á teikningunni eru ónógar og viðvaningslegar og sýna að tölvuvinnsla hreinteikninga gefur ekki alltaf æskilega eða rétta niðurstöður til birtingar. Hér með er lýst er eftir ljósmynd af þessu sniði. Veggurinn sem veggjarbrotið tilheyrir gæti vel hugsast að hafa verið niðurgrafinn að hluta til, eins og við þekkjum með veggi frá Stöng eða úr þeim stóra skála sem Jesse Byock fann með hjálp fornleifafræðinga þegar hann var að leita að Agli Skallagrímssyni á Hrísbrú í Kjós. Það skýrir að mínu mati að Landnámslagið, sem fróðir menn erlendis láta sér nægja að kalla "Settlement~AD 870s", sé að finna beggja vegna veggjarins og t.d. ekki ofan á honum.

Niðurstöður teknar úr samhengi

Annað sem mér finnst frekar ámælisvert í bæklingi Páls frá 2011, er að hann birtir ekki fulla niðurstöður kolefnisgreininga eins og samþykkt hefur verið alþjóðlega. Menn eiga að minnsta kosti að birta talningaraldur sýna (BP-aldur fyrir 1950) og leiðréttan aldur við 2 staðalfrávik. Því gleyma fornleifafræðingar oft, og birta stundum eitthvað tölfræðilega óhaldbært meðaltal, en þannig fá þeir niðurstöðurnar oft frá lélegum rannsóknarstofum eins og t.d. BETA Laboratories.

Niðurstöður 14C aldurgreininga eru háðar tölfræði og umreikningum sem byggja á leiðréttingum út frá skipulögðum mælingum á geislakoli í trjáhringum fornra trjáa. 14C var í mjög mismunandi mæli í andrúmslofti á mismunandi tímum. Þess vegna getur dæmigerð há aldursgreining eins og sú sem Páli er starsýnt á á Íslandi, með talningaraldur sýnis sem t.d. er 1230±50 (sjá XX-grafið hér fyrir neðan) gefið sömu aldursgreiningu og talningaldur sýnis sem t.d. er 1240-60 (YY-grafið hér fyrir neðan). Fyrri talningin (XX) gæfi umreiknaða og leiðrétta aldursgreiningu sem er 669- 934 e.Kr., en hin (YY) gæfi aldursgreiningu sem væri svo að segja sú sama, 660-940 e.Kr, þó svo að talningin hafði munað 10 árum og óvissan 10 árum í báðar áttir. 

xx
yy

Margir óvissu- og áhættuþættir eru einnig tengdir mælingum og meðferð sýna, og þekkir Páll þær manna best. Mengun sýna og mistök á rannsóknarsfofu er aldei hægt að útiloka. En aðstandeur rannsóknastofa eiga mjög erfitt með að viðurkenna neitt slíkt. Í bæklingi sínum einfaldar Páll hlutina einum of mikið þegar hann notar aldursgreiningar sem ekki eru teknar úr góðum samhengjum, eða einfaldlega eins og honum hentar. Páll er það sem á alþjóðlegu fræðimáli kallast of "selektívur" eða sértækur eins og það hefur víst verið þýtt yfir á Íslensku þá er menn uppgötvuðu að þeir gætu vísinda- og fræðimenn á Íslandi líka verið.  Í stað þess að líta til allra tiltækra heimilda og vitnisburðar, er Páll að plokka þær aldursgreiningar úr ritum sem hentar tilgátu hans best, en gleymir því miður að segja að fullu frá samhengi þeirra niðurstaðna sem hann ræðir um.

Þegar Páll blandar umræðunni um gamalt landnám í Færeyjum við  umræðuna á Íslandi, fer hann líka heldur geyst. Hann hefði kannski átt að segja lesendum sínum frá því að sú frétt sem barst af mjög háum mælingarniðurstöðum úr Færeyjum var framreidd af fréttamanni RÚV, sem lært hafði fornleifafræðim sem eitt sinn taldi sig hafa fundið munkbyggð frá því fyrir landnám einfaldlega vegna þess að hann misskildi kolefnisaldurgreiningar sem hann fékk gerðar í Þrándheimi(sjá hér). Sýnin af koluðum fræjum sem gefa mjög háan aldur í Færeyjum eru tekin úr skeljasandi og eru mjög líklega menguð af honum. Mengun sýna er mjög mikið vandamál sem aftrar kolefnisaldursgreiningum við nákvæmnisspursmál eins og upphaf búsetu manna á ákveðnu svæði. (Sjá hér um það sem Fornleifur hefur ritað um "landnám fyrir landnámið" í Færeyjum).

Ég hafði sannast sagna beðið eftir og búist við mælingarniðurstöðum og aldursgreiningum Páls sjálfs, því ég veit að hann og aðstoðarmenn hans hafa verið að reyna að þróa nákvæmnis-geislakolsgreiningar, og hafa haft aðstöðu neðst í Hvalfjarðargöngunum fyrir mælingar. Ég veit að illa hefur gengið fyrir Pál að fá samstarf við íslenska fornleifafræðinga. Ekki er laust við að áróður í garð tilrauna hans við að stofna aldursgreiningastofu á Íslandi hafi komið frá þeim íslensku vísindamönnum sem hafa verið í samvinnu við AMS-14C aldursgreiningarstofuna við Árósarhóskóla í Danmörku.

Á Stöng hófst búseta ofan á óhreyfðu Landnámslagi 

Mér til mikillar furðu var í viðtalinu við Pál á Kiljunni sýndur myndstubbur tekinn á rigningardegi sumarið 1992 af rannsóknarsvæði sem ég stóð fyrir á Stöng í Þjórsárdal. Myndskeiðið, sem ég hef aldrei áður séð, hefur verið tekið þegar við sem unnum að rannsókninni vorum í helgarfríi eða í mat. Ég frétti aldrei af neinum fréttamönnum eða kvikmyndatökumönnum frá RÚV. Þetta kom dálítið á óvart, og að verið væri að blanda Stöng og Þjórsárdal inn í þetta "Fyrirburalandnám" í bókmenntaþætti á RÚV.

Stöng 1992 í Kiljunni

Á Stöng hófst búseta ofan á óhreyfðu Landnámslagi. Á Stöng er landnámslagið, sem ég geng enn út frá að sé frá 871±2, óhreyft, og allt sem þar er byggt er yngra en það.

Á Stöng fór árin 1983, 1984, 1986, 1992, 1993 og 1995-6 fram mjög nákvæm skráning á gjóskulögum, í, yfir og undir mannvistarleifum. Fjöldi 14C aldursgreininga á sýnum frá Stöng og öðrum stöðum í Þjorsárdal var gerður í Kaupmannahöfn og Uppsölum, sem sýna að Stöng fór í eyði á 13. öld, en ekki 1104. Niðurstöður mikils meirihluta geislakolsgreininganna staðfestir vitnisburð gjóskulaga og forngripa um að búseta hafi haldist í Þjórsárdal fram á fyrsta fjórðung 13. aldar. Þetta hafa aðrar rannsóknir (sjá einnig hér) staðfest síðar, og jafnvel að búseta hafi haldið fram undir aldamótin 1300.  

Tvær greiningar á sýnum frá Stöng orka hins vegar tvímælis. Birkikol fundin í fyllingarlagi á milli smiðju og kirkjurústarinnar á Stöng (sýnin tekin á Stöng árið 1986), sem greind voru í Uppsala árið 1991, sýndu aldursgreiningu (Ua-1428) á kolunum sem bent gæti til þess að fyllingarlagið á milli rústanna sé frá því löngu fyrir hefðbundið landnám. Vandamálið er að Landnámslagið fynnst óhreyft undir skálarúst sem er undir smiðjurústinni, sem aftur er undir kirkjurústinni. Hár aldur greiningarinnar passar á engan hátt við afstöðu (stratigrafíu) gjóskulaga og Landnámslagið eins og það finnst á Stöng í Þjórsárdal. Ef núverandi aldurgreining þess er rétt, (871±2 e.Kr.), þá er aldursgreiningin frá Uppsölum á kolunum alvarlega gölluð. Líklegasta skýringin er, að kolin (birkið) hafi verið úr gömlum viði sem óx fyrir Landnám, sem hafi verið brenndur í landnámsskálunum, en hafi síðar borist í fyllingarlagið yfir smiðjunni ofan á skálanum, Þegar við fornleifafræðingarnir á Stöng gerðum okkur grein fyrir því árið 1993, að minnsta kosti þrjú byggingarskeið væru austan við skálann frá 12.-13. öld, sem í dag er yfirbyggður og til sýnis á Stöng, sáum við fyrst að sýni það sem sent hafði verið var kannski ekki það hentugasta til geislakolsaldursgreininga. Alls ekki var hægt að útiloka að sýnið hafi komið úr eldri lögum en því sem það var tekið úr. Hér sést niðurstaða greiningarinnar á sýninu (Ua-1428) sem greint var i Uppsölum. Slíkt sýni er ekki hægt að nota til að sýna fram á búsetu fólks fyrir viðtekna Landnámið um 870 e.Kr.

Ua-1428

Viðarkol, viðarkol frá fyllingarlagi milli kirkju og smiðju sem rannsakaðar voru að hluta til árin 1886 og 1992-93 á Stöng í Þjórsárdal.                    

                      Talningaraldur:

                      14C ár fyrir 1950 BP                                                   1205±50

                      Leiðréttur aldur e.Kr. :

                      við 2 staðalfrávik,  (2σ / 95,4% líkur), cal AD               684-962

Sama beinið - tvær niðurstöður 

Kýrbein eitt frá Stöng var aldursgreint í Kaupmannahöfn og í Uppsölum, þar sem AMS 14C aldursgreiningarstofan fékk ekki að vita, að ég leitaðist eftir samanburði á niðurstöðum kolefnisaldursgreininga frá mismunandi rannsóknarsforum. Í Kaupmannahöfn fékk kýrbeinið (K-5366) aldursgreiningu sem leiðrétt við 2 staðalfrávik hljómar 1054-1287 e. Kr.  Sama beinið fékk  allt aðra aldursgreiningu í Uppsölum (Ua-1420), eða 889-1022 e.Kr. 

Kindabein sem fannst í yngsta skálanum á Stöng var einnig greint í Uppsölun (Ua-1421) og reyndist fá enn hærri aldursgreiningu en sýni Ua-1420, eða 690-946 e. Kr. Mig dreymir þó ekki um að halda að þessar greiningar frá Uppsölum sé réttar, miðað við allar hinar einkennulegu aldursgreiningarnar þaðan (sjá hér). Dýrabeinin sem notðuð voru í sýnum Ua- 1420 og Ua-1421 fundust árið 1939 í rúst þar sem einnig fundust kambar frá seinni hluta 12. aldar og leirkersbroti frá byrjun þeirrar 13. Hvað haldið þið, lesendur góðir?  

Kambar af sömu gerð og aldri og kambarnir frá Stöng fundust á 8. áratug síðusta aldar að Sámsstöðum í Þjórsárdal. Brot úr þeim voru greind í Uppsöllum og fengu aldursgreininguna 776-1016 e. Kr. við 2 staðalfrávik í meðförum AMS 14C rannsóknarstofunnar í Uppsölum

Með aðferðarfræði Páls, þ.e. er að finna það elsta með mjög sértæku (selektívu) vali á upplýsingum, ætti ég auðvitað að nota aldursgreiningarnar afbrigðilegu frá Uppsölum. Samhengi aldurgreininganiðurstaðna á sýnum frá Stöng sem greind hafa verið í Kaupmannahöfn er eðlilegt, en það er alls ekki hægt að segja um niðurstöðurnar sem fengust í Uppsölum.

Grimston framhlið cca 1:1

kambur_stong_3
AMS sýni 1991 Ua-1420 b

Myndir af forngripup frá Stöng í Þjórsárda: a) leirkersbroti frá Grimston á Englandi (byrjun 13. aldar) sem fannst á Stöng árið 1939, b) kambi af gerð sem aldursgreind er með vissu til seinni hluta 12. aldar, c) kýrbein sem rannsóknarstofa í Uppsölum aldursgreindi til 10-11. aldar en sem í Kaupmannahöfn var aldursgreint til  1054-1287 e. Kr.  Allt fannst þetta í sömu rústinni og kýrbeinið var matur íbúanna í því. Ljósmyndir Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.

Kambar Sámsstaðir 3

 

Kambar frá Sámsstöðum í Þjórsárdal, sem almennt er talið að séu frá síðari hluta 12. aldar. Ein aldursgreining frá AMS 14C greiningarstofunni í Uppsölum upplýsir/gefur miklu hærri aldur. Sá hái aldur fær ekki staðist miðað við aðra vitneskju um kamba þessa og gerð þeirra á Norðurlöndunum sem og á Bretlandseyjum. Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.

Páll Theódórsson hefur því miður notað niðurstöður á geislakolsmælingum, sem ég hef fengið gerðar á efnivið úr Þjórsárdal, mjög ógagnrýnið. Sér í lagi niðurstöður á mannabeinum frá kirkjugarðinum að Skeljastöðum. Hann nefnir rannsóknir mínar ekki á nafn í ritlingi sínum nú, líkt og hann hefur gert í greinum í t.d. Skírni, en menn geta menn lesið frekar um greiningarnar frá Þjórsárdal og skoðað línurit í sérskýrslu Fornleifs um efnið sem má finna hér

unnið á öllum hæðum 2
Fornleifarannsókn á Stöng í Þjórsárdal árið 1992

Lokaorð 

Að lokum langar mig að taka fram, að ég ber mjög mikla virðingu fyrir hinum dagfarsprúða og virðulega Páli Theodórssyni sem vísindamanni og persónu. Við þekkjumst, þótt sambandið hafi verið frekar lítið á síðustu árum. Við reyndum einu sinni að koma á laggirnar samnorrænu verkefni um kolefnisaldursgreiningar og spurninguna um hvort landnám hefði hafist fyrr en flestir telja og mestur samhljómur er um. Það verkefni rann út í sandinn áður en það byrjaði, vegna samvinnuörðugleika eins þátttakandans, dr. Margrétar Hermanns-Auðardóttur, sem var sá íslenskur fornleifafræðingur sem fyrstur taldi sig hafa uppgötvað  Landnám fyrir Landnámið. En persónulegar skoðanir hennar áttu víst að gilda hæst í verkefninu og hún byrjaði að reka fólk úr verkefninu áður en það hófst, sem útilokaði vitaskuld frekara samstarf.

Páll hefur mikið kvartað yfir því við mig, hve lítinn áhuga íslenskir fornleifafræðingar hafa sýnt vinnu hans. Það er miður, en ég tel að það komi m.a. til af einu. Flestir þeirra vita afar lítið um kolefnisaldursgreiningar, ef dæma má út frá því hvernig þeir birta þær, og velja að trúa á ákveðnar mælingarniðurstöður, en bara ekki þær háu mælingarniðurstöður sem Páll Theódórsson veltir fyrir sér. Almennt áhugaleysi íslenskra fornleifafræðinga, nema þá helst á endalausum uppgröftum og að komast í sjónvarpsfréttir með veika Ínúíta og fílamenn, sé ég t.d. í að engir þeirra hafa viljað taka þátt í umræðum á fornleifabloggi mínu, þótt nokkrir séu þó farnir að vitna í bloggið.

Páll Theodórsson
Páll Theódórsson ca 3 m. yfir sjávarmáli að tukta íslenska fornleifafræðinga til í Kiljunni

Annað vandamálið með umræðuna um Landnámið fyrir Landnámið er, að mínu mati, að Páll Theodórsson hefur ekki alltaf sett sig nægilega vel inn í það sem fornleifafræðin hefur upp á að bjóða, og stundum er það vegna lélegrar framsetningar fornleifafræðinganna. Það ber dálítið á lítilsvirðingu meðal sumra íslenskra sagnfræðinga á fornleifsafræðinni, svo ekki sé talað um jarðfræðinga. Fornleifræðingarnir og jarðfræðingarnir virða aftur á móti margir Pál að vettugi, meðal annars vegna þess að þeir leggja trúnað á fólk við Háskóla Íslands, sem ekki hefur líkað það sem Páll var að gera á sviði aldurgreiningamála. Það er alltaf svo mikil skálmöld og skítasamkeppni í raunvísindunum á Íslandi, líklega vegna hins eilífa fjárskorts.

Við sem höfum áhuga á Landnáminu og á því að svar ósvöruðum spurningum í tengslum við það, verðum að halda þing um þetta endalausa "Landnámsvandamál", og setja niður vinnuhóp til að leysa spurninguna um Landnámstímann eitt skipti fyrir öll, og það þótt Fornleifastofnun Íslands telji sig hafa höndlað sannleikann. Ég býð mig hér með fram og vona að Páll vilji vera með. Heyri ég einnig gjarnan frá áhugasömum fornleifafræðingum. Svo er ekki til setunnar boðið með að hefja rannsóknarverkefni til að fara í saumana á því sem hefur verið að gerjast í Landnámsfræðunum. Það hljóta að fást peningar í slíkt verkefni. 

Menn verða svo að muna, að geislakolsaldursgreining eu hlutlæg (realtív) aðferð, engu síður en hefðbundnar aldurgreiningar í fornleifafræðinni. Hún er aðferð sem með tímanum hefur sýnt sig að vera ekki eins örugg og menn töldu í upphafi. Það á einnig við um gjóskulagafræðina, sem er hlutlægasta aldursgreiningaraðferð sem sögur fara af, þótt sumir íslenski jarðfræðingar hafi kallað hana "alsólúta" aldursgreiningaraðferð. Ískjarnatímatalið er einnig hlutlæg aðferð og danskir sérfræðingar kalla nú einnig á varúð við (of)túlkun þeirra.

Menn eru í öllum aldursgreiningaraðferðum að miða hlutina við aðra vitneskju, sem stundum er fengin með enn aðra viðmiðun sem menn gleyma að athuga niður í kjölinn. Á stundum fara menn í hring í röksemdafærslunni og fara því að trúa öllu eins og heilögum sannleika. Menn eiga einnig að varast, að trúa öllu því sem úr tækjum kemur. Því eru einstaka aldursgreiningar einskir verðar, ef þær eru ekki hluti af röð geislakolsgreininga sem eru gerðar á sýnum sem eru úr innbyrðis tengdum mannvistar- eða jarðlögum.

Ítarefni: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 2013. Innlegg í umræðuna um "Landámið fyrir Landnámið". Rit Fornleifs (Stærstur hluti þessarar færslu er texti úr þeirri skýrslu, með smávægilegum viðbótum).

Rosmhvalsþankar

Wallie Dürer
 

Á góðri, fróðlegri og skemmtilegri bloggsíðu Haralds Sigurðssonar jarðfræðings, hefur á síðustu dögum spunnist svolítil umræða um færslu hans um rostungstennur. Margar góðar athugasemdir hafa verið skrifaðar um tönn og rengi (þ.e. reipi úr húðum þeirra) þessa merkilega dýrs sem eitt sinn var ekki óalgengt við strendur Íslands.

Samar, voru líka forfeður Íslendinga

Það voru Samar (Lappar/Finnar/Hálftröll) sem fyrstir veiddu þá rostunga og seldu rostungstönn þá sem norskir kaupmenn sigldu með suður í lönd, þar sem menn sóttust eftir þessu smíðaefni í stað hins dýra fílabeins sem var dýr vara af mjög skornum skammti allt fram á 14. öld.

Ég hef sjálfur bent á í fræðigrein, að ég telji, eins og aðrir á undan mér, að landnámsmenn hafi að þó nokkrum hluta komið frá nyrstu héröðum Noregs, og að sumir þeirra hafi verið af samískum uppruna (Lappar), sjá hér. Hans Christian Petersen líffræðingur og mannfræðingur við Syddansk Universitet, sem eitt sinn mældi elstu mannabein á Íslandi í samvinnu við mig, hefur einnig komist að þeirri niðurstöðu, að meðal fyrstu Íslendinganna hafi verið álíka margir einstaklingar frá norðurhluta Noregs, af samísku bergi brotnir, og þeir einstaklingar sem mælanlegir eru sem einstaklingar frá Bretlandseyjum, en sem ekki voru Norskir (norrænir) að ætterni og líkamlegu atgervi. 

Óttar inn háleygski

Norður af Hálogalandi og Þrumu (Troms) og þar austur af hafði verið mikið rosmhvalaveiði fyrir tíma landnáms á Íslandi. Þekkt er sagan af Háleygingnum Óttari frá Lófóti, sem kom á fund Alfreðs Konungs Engil-Saxa í Wessex á Englandi um 890 og færði honum rostungstennur. Á einhverju stigi hefur rostungsveiðin þar Nyrðra orðið óvænleg og hafa menn þá hugsanlega snúið sér til Íslands. Óttar kannaðist þó, að því er virðist, enn ekki við Ísland er hann greindi Alfreð mikla af Wessex, Englandskonungi frá ferðum sínum, löndum í norðri og rostungum.

Í frásögn á engilsaxnesku, sem að hluta til byggir á landafræði Paulusar Osoriusar frá 5. öld, að viðbættum upplýsingum frá valdatíma Alfreðs, er sagt að Óttar (Othere) sé sá Norðmaður sem byggi nyrst í sínu landi. Svo segir m.a. um Óttar og ferðir hans norður í Ballarhaf, norður í Varangri og austar á slóðir Finna (Sama) og Bjarma:

Bjarmarnir sögðu honum margar sögur, bæði af þeirra eigin landi og af löndum sem umhverfis lágu, en hann vissi eigi hvað mikið af því var satt, þar sem hann hafði ekki séð það með eigin augum. Svo var sem Finnarnir og Bjarmarnir töluðu nærri því sömu tungu. Megin ástæða hans fyrir ferð sinni þangað, fyrir utan að kanna landið, var vegna rostungsins [horshwæl], þar sem þeir hafa mjög gott fílstönn í vígtönnum sínum - þeir höfðu með sér nokkrar af þessum tönnum til konungs - og húð þeirra er mjög góð til skips reipa. Þessi hvalur [þ.e. rostungurinn] er miklu minni en aðrir hvalir; hann er ekki lengri en sjö álnir að lengd. Bestu hvalveiðar stunda menn í hans eigin landi; þeir eru fjörtíu og átta álna langir, þeir stærstu fimmtíu álna langir; og af þeim [hér á Óttar líklegast við rostunginn] segir hann, að hann, við sjötta mann, hafi drepið sextíu á tveimur dögum. Hann var mjög ríkur maður af þeim eignum sem ríkidómur þeirra mælist í, það er í villtum hjörtum. Hann hafði enn, þegar hann vitjaði konungs, sex hundruð óselda tamda hirti. Þessir hirtir eru kallaðir hreindýr [hranas á fornensku]. Þau eru mikils virði fyrir Finna því þeir nota þau til að fanga hin villtu hreindýr. Hann var á meðal höfðingja í þessu landi, en hann átti ekki meira en tvo tugi nautgripa, tuttugu sauði og tuttugu svín, og það litla sem hann plægði, plægði hann með hrossum [Þæt lytle þæt he erede erede he mid horsan]. (Þýðing Fornleifs).

Já, hvaðan skyldu fyrstu Íslendingarnir hafa komið, ef þeir hafa stundað veiði á rosmhval við Íslandsstrendur? Hverjir kunnu fagið? Svarið liggur í augum uppi. Það var fólk af Lappakyni. 

Sami

Í Króka-Refs sögu er skemmtileg lýsing á konungsgjöf sem Grænlendingar færðu Haraldi Harðráða til að mæra hann og til að freista liðveislu hans við að koma Ref fyrir kattarnef :

Eftir um sumarið bjó Bárður skip sitt til Noregs og gefur Gunnar honum gjafir. Gunnar sendir Haraldi konungi þrjá gripi. Það var hvítabjörn fulltíði og vandur ágæta vel. Annar gripur var tanntafl og gert með miklum hagleik. Þriðji gripur var rostungshaus með öllum tönnum sínum. Hann var grafinn allur og víða rennt í gulli. Tennurnar voru fastar í hausinum. Var það allt hin mesta gersemi.  

Refur, sem sest hafði að á Grænlandi, átti sér óvini, þar sem hann stóð í óvinsælum vatnsveituframkvæmdum (en minjar um slíkt sjást reyndar í landslaginu á Grænlandi í dag). Ekki tókust áform öfundismanna og andstæðinga Króka-Refs á Grænlandi um að drepa hann. En hann flýði frá Grænlandi. Hann steig síðar til metorða í Danmörku og fékk nafnið Sigtryggur af Sveini tjúguskeggi Danakonungi. Sagan upplýsir svo að Sigtryggur hafi dáið úr sótt á Suðurgöngu og sé greftraður í ríku munkaklaustri út í Frakklandi. Afkomandi Steins Refssonar er í Króka-Refs sögu sagður hafa verið Absalon biskup, sá er stofnaði Kaupmannahöfn. Já, trúi hver sem vill. Íslendingar voru auðvitað á bak við allt, og einhvern daginn finna Fransarar bein Refs í einhverju klaustrinu og allt verður sannað með DNA, gerð verður heimildamynd í fjórum þáttum og  mynd eftir hauskúpunni sem lítur þannig út:

Króka Refur
Króka-Refur kemur að ríku klaustri út í Frakklandi

 

_rvaroddur_fundinn_i_reykjavik
Örvaroddur úr Reykjavík

Hvað upplýsa fornleifarnar

Gamanmáll til hliðar. Ef við lítum svo á fornleifarnar, sem eru áþreifanlegri en Íslendingasögur og aðrar dægurbókmenntir fyrri tíma , þá  hefur við rannsóknir í Reykjavík meðal annars fundist örvaroddurinn hér fyrir ofan, sem er tilvalinn til að skjóta með og drepa stór dýr eins og rostung. Hið klofna blað skar yfir fleir æðar en ef menn voru að stinga dýrið með spjótum úr návígi, sem gat verið mjög hættuleg aðferð. Ég hef bent á, að örvaroddurinn sé af gerð sem þekkt er meðal Bjarma, Kvena og Samójeða í Asíu, en t.d. ekki í Skandinavíu. Meðal veiðimanna sem sumir telja að hafi sest að í Reykjavík, hafa því mjög líklega verið hálftröll (Samar/Lappar), fólk sem var stutt til hnésins úr nyrstu héruðum Noregs. Menn verða einnig að átta sig á því að þessir frumbyggjar Skandínavíu bjuggu og athöfnuðu sig miklu sunnar en þeir gera nú, allt suður í Herjedalen, og áttu í miklu meiri samskiptum við Norðmenn en þeir áttu síðar.

Buen Addja 1920 Saminn Buen Addja árið 1920

Vandamálið við tilgátur manna um veiðar á rostungi við Íslandsstrendur og bækistöðvar þeirra í og við Reykjavík er bara að ekki hefur fundist mikið af af rostungsbeinum í t.d. Reykjavík eða til að mynda við rannsóknir Bjarna Einarssonar suður í Vogi í Höfnum, þar sem hann telur sig hafa rannsakað skála veiðimanna (sjá um það hér). Vogur er ekki fjarri Rosmhvalanesi, sem nú heitir Miðnes og sem hefur gefið Miðnesheiðinni nafn sitt. Við vitum því sama og ekkert um þessar meintu veiðar á rostungi við Ísland, sem sumir halda að hafi verið stundaðar við landnám Íslands.

Lok rostungsveiða á Grænlandi

Nýlega hefur því verið haldið fram, að er framboð á fílabeini varð meira í Evrópu á 14 öld hafi efnahagur þeirra hrunið og þeir hafi í kjölfarið, vegna þess að þeir gátu ekki aðlagað sig eins og skyldi, farið frá Grænlandi. Þessi kenning er reyndar ekki ný og var sett fram af Else Roesdahl fyrrv. prófessor í Miðaldafornleifafræði við Háskólann í Árósi, en hún gaf út lítið hefti árið 1995, sem hún kallaði Hvalrostand, elfenben og norboerne i Grønland, þar sem hún kemur inn á þetta. Ég hafði þegar er ég var stúdent rætt þetta við hana og sagt henni frá íslenskum heimildum.

Ein þeirra segir frá strandi skips Grænlandsiskups við Ísland árið 1266, nánar tiltekið við Hítarnes á Mýrum. Sikip var drekkhlaðið rostungstönn. Rostungstennur merktar rauðum rúnum, líklegast búmerkjum veiðimanna eða bæja á Grænlandi, voru í nokkur hundruð ár að finnast á ströndinni. Við vitum að þessi tannaskip frá Grænlandi sigldu með varning sinn til Niðaróss og erkibiskup seldi tönnina áfram í Björgvin til flæmskra kaupmanna. Í heimildum var upplýst um verðið: Fyrir 802 kg eða 520 tennur fengust eitt sinn 12 pund og 6 solidi og í öðru tilviki fékkst 6 solidi turonen.argenti, en þá er líklega átt við þá myntir sem kallaðar voru gros tounois, fyrir 668 kg, eða um 373 tennur. Sextíu árum síðar var hins vegar orðið nóg framboð á fílstönn, og þá hefur markaðurinn fyrir grænlenska rostungstönnina væntanlega hrunið. Skömmu síðar yfirgáfu menn Vestribyggð, en í Eystribyggð tórðu þeir fram á 15. öld.

Rostungar og Íslendingar árið 1521 

Það var því ekki aðeins í Finnmörku, við Rosmhvalsnes eða í Norðursetu að menn gátu fundið fyrir þetta merka dýr. Meistari Albrecht Dürer teiknaði rostungshausinn efst í Niðurlandaför sinni árið 1521. Hann gerði sér sérstaka ferð til Zeelands, því þar var dautt dýr sem fangað hafði verið í Hollandshafi (Norðursjó). Þetta sama ár teiknaði hann einnig furðulegar en ríkar kerlingar frá Íslandi, sjá hér, sem gátu þakkað auð sínum verslun með fisk. En það var verslun sem Grænlendingar gátu aldrei almennilega tekið þátt í því þeir misstu skip sín og gerðust fátækir mjög eftir hrunið á tannamarkaðinum á 14. öld.  

Dürer reit á mynd sína: "Das dosig thyr von dem Ich do das haubt contrefett hab, ist gefange worden in die niderländischen See und mas XII ellen lang brabendisch mit für füssen." Álnamálið var þá ekki það sama og á Englandi á tímum Alfreðs mikla.


Possible, but not positive

Richard the guy in the parking lot
 

Nú telja menn að víst sé, að það hafi verið beinagrind Ríkharðs þriðja Englandskonungs, sem menn fundu undið bílastæði í Leicester i fyrra. Fornleifur greindi frá þeim fundi í september í fyrra. Breskir fjölmiðlar og heimsfjölmiðlar eru í dag með fréttir um krypplinginn og orkar þar margt tvímælis að mínu mati. Best þykir mér ein athugasemdin á the Guardian um að það kosti  £18.50 á sólahring, að hafa bílinn sinn í stæði í miðborg Leicester. Ef þetta er Ríkharður 3., þá hefur hann legið þarna í 192.649 daga og það gera hvorki meira né minna en 3.564.006 sterlingspunda. Kannski er afsláttur fyrir krypplinga og líklegast hefur Ríkharður verið með bláa skiltið, fyrir utan bláa blóðið? Það síðastnefnda hleypir fólki oft ókeypis inn.

En best er nú að fara á heimasíðu háskólans í Leicester og lesa um niðurstöðurnar þar. Niðurstöður kolefnisgreininganna eru ekki eins einfaldar og fjölmiðlar segja frá og vísindamenn háskólans, sem hafa látið greina beinin á tveimur mismundandi stöðum, greina ekki rétt frá niðurstöðunni eins og á að gera. Talningaraldurinn er t.d. ekki birtur en aðeins umreiknaður, leiðréttur aldur. Það get ég sem fornleifafræðingur ekki notað til neins, og verð því að draga aldursgreininguna í efa þangað til að betri fréttir fást. Á heimasíðu háskólans er reyndar skrifað: This does not, of course, prove that the bones are those of Richard III. What it does is remove one possibility which could have proved that these are not Richard's remains, en þessa setningu fundu blaðamenn auðvitað ekki eða birtu, því þeir þurfa að selja blöð og sensasjónin blindar þá alltaf. Kolefnisaldursgreiningin segir sem sagt akkúrat ekki neitt neitt sem sannar að það sé Ríkharður III sem sé fundinn undir bílastæðinu í Leicester.

dnaresults of whomever ever you want
 

Furðuleg birting DNA-rannsóknar

Þar að auki er sagt í fjölmiðlum, að DNA rannsóknin staðfesti skyldleika beinanna við meinta afkomendur ættingja Ríkharðs III sem sýni voru tekin úr, eins og lýst er hér.  Satt best að segja þykir mér greinagerðin fyrir niðurstöðunum nú afar þunnur þrettándi. Maður myndi ætla, að þúsundir Breta væru með sams konar mítókondríal genamengi og beinin í gröfinni og bein hugsanlegra ættingja.

Þetta er afar lélega framreidd niðurstaða. Maður vonar bara að DNA-niðurstöðurnar séu ekki mengaðar af Dr. Turi King sem framkvæmdi hluta þeirra. Þá væri það allt annar "konungur" sem menn eru að skoða. Slíkar varúðarráðstafanir hafa svo sem gerst áður í öðrum rannsóknarstofum, og þess vegna væri við hæfi að Dr. King birti líka niðurstöður DNA rannsókna á þeim sem framkvæmdu rannsóknina. Þann sið tóku danskir vísindamenn t.d. upp fyrir skömmu til að útiloka allan grun um mengun sýna.

Í því sem birt er á heimasíðu háskólans í Leicester, sé ég engin haldbær rök fyrir því að maðurinn í gröfinni hafi verið með hræðilega hryggskekkju. Hér eru nærmyndir af breytingum í hryggjarliðum, en er þetta nóg til að sýna fram á að einstaklingurinn sem fannst hafi verið krypplingur?

The-skeleton-of-Richard-I-013

Voru landnámsmenn hasshausar?

Sosteli
 

Þótt mikilvæg jarðvegssýni hverfi á Þjóðminjasafni Íslands, eins og greint var frá í síðustu færslu, er gömlum jarðvegssýnum greinilega ekki fargað á Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn. Þar hafa t.d. varðveist sýni frá sameiginlegum rannsóknum norskra og danskra fornleifafræðinga í Noregi á 5. og 6. áratug síðustu aldar.

Sýnin, sem tekin voru á Sosteli á Austur-Ögðum í Noregi (sjá mynd efst), hafa nú loks verið rannsökuð og sýna m.a. að í S-Noregi hafa menn haft frekar stórfelda ræktun á hampplöntum, cannabis sativa. Í jarðvegssýnunum hafa menn nú bæði fundið mikið magn af frjókornum hampplöntunnar. Ræktunin í Sosteli mun hafa verið einna mest á ákveðnu tímabili á 7. - 8. öld.   

Hampræktun

Var þannig umhorfs í Sosteli á Járnöld?

Hampplöntuna er, eins og menn vita, hægt að nýta á ýmsa vegu. Norskir fornleifafræðingar hafa þó ekki ímyndunarafl til annars en að álykta að kannabisplantan hafi verið ræktuð í Noregi en til framleiðslu á þráðum til vefnaðar líkt og línplantan (hör). En ekkert útilokar þó að  það að seyði af  plöntunum sem innihaldið hefur eitthvað af tetrahydrocannabinóli, sem gefur vímuástandið, hafi verið nýtt. Spurningin er bara hvað mikið plönturnar í Noregi inniheldur af efninu. Þess má geta í gröf drottningarinnar á Osebergskipinu frá fannst kannabisefni, og fræ hampplantna. Einnig hafa til dæmis fundist kannabisefni og fræ hampplöntunnar í meni sem fannst í gröf "víkings" eins í Póllandi (sjá hér).

Sosteli
Fundarstaðurinn í Sosteli á Austr-Ögðum í Noregi
polish-warrior-grave-amulet-container_45863_600x450
Í þessari amúlettu (kingu?: pólsk: kaptorga) fannst kannabisefni og kannabisfræ, sem "víkingur" nokkur í Póllandi fékk hugsanlega með í sína hinstu för.

Á Íslandi höfum í tungu okkar orð sem greinilega sýna í hvað hampurinn var notaður. Hempa, það er hempur presta og munka og yfirhafnir kvenna, hafa líklega verið úr fínlega ofnum hampi. Ef menn þekkja ekta póstoka, þá voru þeir lengi vel ofnir úr hampi (canvas). Um uppruna orðsins tel ég best að læra af dönsku orðabókinni.

Því meira sem ég hugsa út í efnið, því meira trúi ég því að landnámsmenn hljóta hafa verið stangarstífir af hassi við komuna til Íslands. Af hverju taka menn annars upp á því að sigla út í óvissuna til einhverrar fjarlægrar eyju út í Ballarhafi. Íturvaxnar hempukladdar pusher-drottningar eins og drottningin í Oseberg, sem talin er hafa verið af innflytjendaættum úr Austurlöndum, skaffaði væntanlega efnið. Þessi sérhæfða norska búgrein hefur síðan lagst af, væntanlegra vegna lélegra skilyrða til ræktunar á Íslandi. Eða allt þar til menn uppgötvuðu að hægt var að stunda stórfellda rækt á kannabis á fjórðu hæð í blokk. En kannski væri samt ástæða til að athuga hvort hampplantan hafi skilið eftir sig frjókorn á Íslandi fyrr á öldum.

Cannabis and humulus
Erfitt er að greina nokkurn mun á frjókornum hamps og humals
cannibis_sativa_2_icon
Kannabis-frjókorn, mynd tekin með rafeindarsmásjá
 

Einu langar mig þó að bæta við, þó það geti verið til umræðu í nýútkominni grein um fund frjókornanna sem út er komin í norska tímaritinu Viking, sem ég er ekki búinn að sjá og hef enn ekki náð í.

Þegar ég athugaði hvernig frjókorn hampplöntunar líta út, sá ég að þau var nær alveg eins og frjókorn humals (humulus) og þetta hefur verið bent á áður (sjá hér). Ég er því ekki alveg viss um hvort ég trúi því lengur, að það sé frekar kannabis en humall sem ræktaður hefur verið fyrir 1300 árum í Sosteli í Noregi. Ekki fundust kannabis-fræ í Sosteli. Það verður að teljast með ólíkindum, þar sem fornleifafræðingarnir norsku álykta að frjókornin séu svo mörg á þessum stað vegna þess að plöntunum hafi verið varpað í mýri til að leysa plönturnar upp, svo hægt væri að brjóta niður trefjarnar í hampinum til framleiðslu þráðs.

Fræin finnast sem sagt ekki, en frjókornin er mörg.  Catharine Jessen jarðfræðingur á Þjóðminjasafni Dana, sem greindi frjóin frá Sosteli, sagði mér, að magn frjókornanna, sem var óvenjumikið, bendir til þess að það hafi frekar verið kannabis en humall sem menn ræktuðu í Sosteli. Hið mikla magn frjókorna er aðeins hægt að skýra með því að plöntunum hafi verið kastað í mýrina til að verka hana. Humall er ekki verkaður á sama hátt og hampur og engar trefjar unnar úr honum. Jessen mun leita fræja cannabisplantnanna við áframhaldandi rannsóknir sínar á jarðvegssýnunum.

Nú er best að hampa þessu efni ekki meira en nauðsyn krefur. Kveikið í pípunni og komið með hugmyndir.

Ítarefni:

Michael P. Fleming1and Robert C. Clarke2 Physical evidence for the antiquity of Cannabis sativa L. http://www.druglibrary.org/olsen/hemp/iha/jiha5208.html

http://videnskab.dk/kultur-samfund/vikinger-dyrkede-hamp-i-norge

http://sciencenordic.com/norwegian-vikings-grew-hemp


Dýrðlegur er Eldjárn - Ritdómur

Vínlandsdagbók

Út er komin hjá Forlaginu Vínlandsdagbók Kristjáns Eldjárns, sem er dagbók frá þátttöku hans í fornleifarannsókninni á L'Anse aux Meadows á Nýfundnalandi árið 1962.

Ég kynntist Kristjáni lítillega áður en hann dó, en hann bauð mér fornleifafræðistúdentnum þrisvar sinnum heim til sín í sunnudagsmorgunkaffi, þótt ég væri hálfblautur á bak við eyrun og vart farinn að drekka kaffi. Það var mikið upplifun og ég skalf í buxunum alla leiðina niður á Sóleyjargötu. Kristján vildi vita allt af mínum högum og meira að segja það sem var að gerast í fornleifafræðinni í Danmörku. Hann fylgdist mjög vel með og gat sagt mér ýmislegt, en sýndi fyrst og fremst, að hann hafði verið fornleifafræðingur allan tímann meðan hann var forseti íslenska lýðveldisins. Þá þurftu forsetar heldur ekki leika önnur hlutverk en forsetahlutverkið, eða standa í því að mæra merði himnahaugfjár eða tala endalaust um íslenska tungu.

Ein af þeim rannsóknum sem Eldjárn spurði mig um álit á, var rannsóknin sem hann tók þátt í á Nýfundnalandi, og um bókina sem Anne Stine Ingstad hafði gefið út um rannsóknir sínar árið 1977: The Discovery of a Norse Settlement in America. Excavatons at L'Anse aux Meadows, Newfoundland 1961-1968. Hann greindi mér frá vafa sínum um ýmsar niðurstöður þar og stirðum samskiptum við Ingstadshjónin, Helge og Anne Stine. Hann hafði einmitt orð á því að hann ætti erfitt með að skrifa um það. Ég greindi honum frá þeirri skoðun minni, að ég gæti alls ekki fallist á þá niðurstöðu Anne Stine, að rústirnar á L'Anse aux Meadows væru skyldar húsagerð þeirri sem á Íslandi kallast Stangargerðin eða jafnvel Þjóðveldisbærinn, enda var ég þá þegar viss um að aldursgreiningin 1104 e. Kr. fyrir eyðingu byggðar í Þjórsárdal stæðist ekki, eins og síðar átti eftir að koma í ljós við rannsóknir mínar.

Skemmtileg bók 

En nú er dagbókin frá Vínlandi loks komin út og engum er Eldjárn líkur. Þetta er skemmtileg frásögn og en engu er líkara að maður tali við Eldjárn sjálfan aftur þegar maður les textann. Sérstaklega er gaman af lýsingum Kristjáns á heimafólki vestur á Nýfundnalandi. Um landeigandann George Decker skrifaði hann: Hann er gamall maður, svartur í augum, og gæti ég hugsað mér að Gunnar Jónsson (lingur) á Dalvík gæti verið líkur honum sem gamall maður. Eins og ekta Íslendingum sæmir báru Kristján Eldjárn og félagar hans allt saman við eitthvað heima á Íslandi, helst fyrir Norðan. En ekki voru karlarnir þrír frá Íslandi algjörir heimalningar, því Kristján greinir frá því að hann hafi þann 9. ágúst í Raleigh frétt að kyntáknið  "Marilyn Monroe hefði drepið sig á svefnlyfjum" og hörmuðu þeir félagar örlög hennar.

Bókin er fljótlesin og örugglega tilvalin jólagjöf fyrir eldra fólkið og þá sem þykir gaman af fornum fræðum og þjóðlegum eins og það er kallað. Í bókinni er fjöldi mynda, litaskyggna, sem flestar hafa verið teknar af samstarfsmanni Kristjáns um árabil, Gísla Gestsyni, sem á einhverju stigi ílentist á Þjóðminjasafninu sem safnvörður, þótt hann væri ekki menntaður fræðimaður eða fornleifafræðingur. En Gísli kunni svo sannarlega að taka ljósmyndir.

Kristján Eldjárn Nýfundnalandi

Hver er þetta með augað í pung, sem dregur djöfulinn á eftir sér, eða sixpensara? Fornleifafræðingur eða bóndi norðan úr Svarfaðardal? Mynd úr bókinni.

Lengi er síðan ég komst í eins skemmtilega dagbók og verk um fornleifafræði í felti (uppgreftri) á íslensku. Ja, líklegast eru engar aðrar til nema úr Þjórsárdalnum, þótt danskur fornleifafræðingur sem tók upp á þvi að gera þeim skil hafi ekki fundið þær allar.

Því verður ekki neitað, að það er á vissan hátt gaman að lesa um nuddið og spennuna á milli Íslendinganna, Gísla, Kristjáns og Þórhalls annars vegar og Helge Ingstads hins vegar, sem fór fyrir rannsókninni sumarið 1962, er kona hans fornleifafræðingurinn Inge Lise varð að snúa heim vegna veikinda.

Uppgreftrir geta oft verið mikil þolraun og opinberað verstu sálarhliðar annars dagfarsprúðs fólks, ef því kemur ekki vel saman og „kemían" er ekki góð frá byrjun. Ég hef unnið hjá fornleifafræðingi sem öðru hvoru tók upp á því í vanmætti sínu að reka mann og annan út af smáatriðum, því hún var ekki með próf í greininni, og hélt því að allir sem voru það héldu sig betri en hana. Kannski var það minnimáttarkennd? En þessi frásögn frá Vínlandi hljómar nú æði mikið eins og frásagnir sem maður heyrir úr sumum rannsóknum, þar sem allt fer í bál og brand vegna þess að fólki kemur einfaldlega ekki vel saman. Kollegar mínir þekkja þetta örugglega flestir.

Hver á dagbókina?

Maður heggur eftir mörgum ©-merkjunum á baki titilsíðu. Ég var jafnvel í vafa um hvort ég gæti leyfti mér að skrifa ritdóm. Þar er upplýst að erfingjar dr. Kristjáns Eldjárns eigi "copyrætið". Ekki er það mikið mál sem ég ætla að draga í efa, en var dr. Kristjáni Eldjárn ekki boðið til „Vínlands" sem þjóðminjaverði Íslands? Þetta er dagbók fræðimanns í embættisgjörðum og er því eign Þjóðminjasafns Íslands, ef allt væri eðlilegt. En þetta var þó heldur ekki nein venjuleg dagbók úr felti, heldur dulítil perla sem ekki var ætlað að koma út fyrr en hugsanlega árið 2012, því það er góð regla fyrir venjulegar fornleifauppgraftardagbækur, að menn séu ekki að skrifa eitthvað persónulegt og ljótt um samverkamenn sína, þótt að þeir séu hin verstu fól, besservisserar eða bara bölvaðir nöldrarar. En nú er bókin svo komin út og allir geta lesið hvað Eldjárn hugsaði á Nýfundnalandi.

Um nöldursama efasemdamenn

Í ágætum eftirmála Adolfs Friðrikssonar sem er skrifaður á eins konar menntaskólamáli er svo greint frá leiðindum milli fræðinganna á L'Anse aux Meadows (bls. 153-54):

Kristján var ekki sá eini sem hélt dagbók í uppgreftrinum sumarið 1962. Helge Ingstad gerði það nefnilega líka og hafa brot úr henni verið gerð aðgengileg.88  Frásögn Ingstads staðfestir svo ekki verðu um villst að samskipti þeirra Kristjáns voru flókin. Anne Stine fannst Kristján vera með stæla. Helge fannst hann kurteis en skorta gleðina og eldmóðinn. Kristjáni fannst Helge ekki beint glaðsinna. Íslendingarnir eyðilögðu stemninguna fyrir Helge. Honum fannst þeir fúlir og leiðinlegir en gaf sér þann mögulega að svona væri bara þess þjóð, ytra byrðið. En í hvert sinn sem hann benti á eitthvað spennandi eða ögrandi brugðust Íslendingarnir við með leiðinlegum sparðatíningi. Þeir unnu þegjandi, höfðu efasemdir um allt og tóku helst aldrei afstöðu til neins. Kristjáni fannst Helgi yfirgengilega yfirlýsingaglaður. Helge fannst vera dönsk slagsíða á orðum og gerðum Íslendinganna. Það væri nú annað með hann Whitaker, þeir tveir voru nefnilega á sömu bylgjulengd. Íslendingarnir vildu helst engu trúa fyrr en þeir fyndu skegg Leifs Eiríkssonar og helst nafnspjaldið líka. Loks kveður Eldjárn upp úr um að fundin væri smiðja en það vissum „við" reyndar allan tímann".

Sjá einnig dagbókarbrot Helge Ingstads um komu Íslendinganna hér, þar sem má lesa það sem Adolf ritskoðaði heldur til mikið:

Eldjarn er høflig og slikt, men for en mangel på glød og begeistring! Han har gropen med slagg å arbeide i. Han virker nærmest litt trøtt og sa fordi han ennå ikke har full forklaring at det hele så "trøstesløst" ut. Har aldrig hørt på maken. Klager støtt over myggen end det ikke er stort. Professoren [Þórhallur Vilmundarson] gnir sin rygg hele tiden, vi andre synes alt er vel. Gisli er mer av en mand. Hadde virkelig ventet mer av folk fra sagaøya.

+++ 

Gaman væri nú að vita, hvað Eldjárn hefur fært í dagbækur sínar um mig er ég hitti hann í byrjun 9. áratugar síðustu aldar. Ekki fannst mér hann vera nöldurgjarn maður eða efasemdagjarn og ekki leyfði ég mér að deila við hann. Maður sem gat talað í 4 klukkustundir við ungstúdent á sunnudagsmorgni var ekki beint lokaður kreddukarl.

Kristján Eldjárn var mjög opinn fyrir skoðun minni á því að Þjórsárdalur hefði ekki farið í eyði árið 1104, sem þá var orðinn viðtekinn „sannleikur", sem hann hafði sett fingraför sín á. Hlustaði hann á rök mín og hvatti mig að tala við Sigurð Þórarinsson, sem bar ábyrgð á nýju aldursgreiningunni, og sömuleiðis að sækja um fé til rannsóknanna. Það gerði ég, eftir að Kristján var látinn, og komst aldrei á fund með Sigurði Þórarinssyni sem dó helgina áður en ég átti að eiga fund með honum á þriðjudegi, fund sem ritari hans, Guðrún frá Prestbakka, hafði staðfest.

Hins vegar kynntist ég nöldri og sparðatíningshugsunarhætti Gísla Gestssonar, sem tók mig eitt sinn á tal úti í horni við stigaganginn á miðhæðinni á Þjóðminjasafni, er hann hafði frétt að ég ætlaði mér í rannsóknir á Stöng og vildi með mjög alvarlegri rödd tilkynna mér að ég væri að vaða í algjöra villu. Hann sagði mér nærri því reiður, að á Stöng væri ekkert að finna nema bera klöppina undir rústunum sem rannsakaðar voru. Annað kom nú í ljós. Þar var eldri skáli, kirkja, smiðja undir kirkjunni, grafir og byggingarleifar allt niður á óhreyft Landnámslag, sem hefur fallið nokkrum áratugum áður en búseta hófst á Stöng. Reyndar er engin klöpp undir Stangarrústum, nema kannski dýpra en 7 metra undir yfirborði. Elsa Guðjónsson var líka fengin til þess að gera hið sama, þ.e. tala við mig einslega, og hún taldi að ég ætti ekkert erindi í Þjórsárdalinn og ætti heldur að helga mig rannsóknum á Hollendingum á Íslandi. Ég spurði hana, hvort hún hefði helgað sig rannsóknum á Dönum á Íslandi, sem var rökrétt spurning.

En nöldrið og vantrúin varð verri. Eysteinn Jónsson formaður Þjóðhátíðarsjóðs, sem árið 1983 veitti mér 300.000 króna styrk til að rannsaka fornleifar á Stöng, upplýsti afa minn sem var kunnugur Eysteini, að stjórn sjóðsins hefði látið mig hafa styrkinn, því að þjóðminjavörður og Gísli Gestsson höfðu leitað svo mikið til sín til að láta sig vita, að ekki væri nokkur vitglóra í því að gefa mér styrk. Eysteini þótti í meira lagi einkennilegt, að Þór Magnússon, sem reyndar hafði gefið mér meðmæli, hefði síðan verið að hallmæla fyrirhuguðum áætlunum mínum.

Góðir lesendur, ég held að ég skilji vel afstöðu Helga Ingstads til „fúlla" Íslendinga með „stæla". Sumt fólk á það til að jarma „heldurðuþaaað?", þegar þá skortir þekkingu, ímyndunarafl og innsæi, eða „það held ég ekki", þegar það er heltekið af einhverri kreddu.

Það er að mínu mati ekki rétt sem sonur Eldjárns sagði nýlega í útvarpsviðtali, að Ingstad hafi uppgötvað hið rétta á röngum forsendum. Ingstad leyfði sér að hafa það sem á erlendu máli kallast intuition, sem vantar mikið í íslenska þjóðarsál. Innsæi er kannski ekki nógu góð þýðing á orðinu intuition. Bjartsýnin og fantastismi er hins vegar rík í Íslendingnum og birtingarmynd þess voru útrásarvíkingarnir okkar, og til að mynda rugl eins Þorláksbúð í Skálholti, vitleysa og sögufölsun sem hægt er að hrinda í framkvæmt þótt allt mæli gegn því. Innsæi er sjaldgæfari eiginleiki og er oft ágæt í bland við fagmennsku.

Kolefnisaldursgreiningar

Kristján hvatti Helge Ingstad til þess að halda til haga eins miklu af kolum fyrir geislakolsaldursgreiningar. Athyglisvert er, að þær aldursgreiningar sem gerðar hafa verið, og sýna einnig að Ingstad hjónin höfðu á réttu að standa, eru ekki ræddar náið í eftirmála bókarinnar eftir Adolf Friðriksson fornleifafræðing, sem annars er ágætt yfirlit yfir rannsóknirnar og áhuga manna á norrænum fornleifum í Vesturheimi.

Aldurgreiningarnar voru gerðar af Reidar Nydal á geislakolsaldursgreiningarstofunni í Niðarósi (Trondhjem). Hann gaf út gagnrýna endurskoðun á aldursgreiningum stofu sinnar í tímaritinu Radiocarbon árið 1989 (sjá hér). Meðaltalsniðurstaða á aldursgreiningum á viðarkoli í mannvistarleifum sem teljast norrænar, er 1090 +/- 22 ár (fyrir nútíma, þ.e. 1950), sem hann hefur reiknað út,  lítur svona út á grafi miðað við þær leiðréttingar sem við þekkjum í dag. Niðurstaðan sýnir með ágætum, að viður sem vaxið hefur á 10. öld hefur verið brenndur í eldstæðum og smiðjum á L'Anse aux Meadows á Nýfundnalandi. 

Average of 13 charcoal samples from LAnse aux Meadows according to Nydal 1989
Klappið á myndina með músinni til að sjá grafið stærra.

 

Fjöldi geislakolsaldursgreininga hafa verið gerðar á efniviði frá L'Anse aux Meadows síðan Reidar Nydal greindi fyrstur sýni þaðan. Niðurstöður þeirra sýna, svo ekki er um að villast, að byggð norrænna manna, og jafnframt helsta búsetan á staðnum, var á 11. öld., en ekki á 10. og 11. öld eins og Adolf skrifar. Viðurinn, sem greindur hefur verið, er kannski frá 10. öld, en hann hefur vitaskuld einhvern eiginaldur þegar hann er felldur og notaður til að elda með og til kolagerðar við járnsmíðar.  

Eins hafa þau A.M. Davis, J.H., McAndrews og Birgitta Wallace gefið út athyglisverða skýrslu í tímaritinu Geoarchaeologogy (1988), þar sem einnig er komið inn á geislakolsaldursgreiningar sem gerðar voru í Noregi og annars staðar á sýnum frá L'Anse aux Meadows (sjá hér) .

Ein athyglisverðasta greiningin sem ég hef séð gerða á efniviði frá rannsóknunum á L'Anse aux Meadows eru á jaspissteinum frá Grænlandi og Íslandi og sem Kevin P. Smith hefur greint. Kevin, sem hefur rannsakað fornleifar á Íslandi, þótt að bandarískir kollegar hans hafi hatrammlega reynt að komast í veg fyrir það á sínum tíma (meira um þá skálmöld síðar hér á Fornleifi), hefur sýnt okkur að norrænir búsetar á Nýfundnalandi um 1000 e. kr. hafi vissulega verið frá Íslandi og Grænlandi. Þeir tóku með sér jaspissteina frá heimahögunum (sjá hér) til að nota líkt og tinnu til að slá eld á eldjárn (eldstál). Mikið hefði nú verið gaman ef Kristján hefði lifað lengur og hefði heyrt það. Það hefi örugglega slegið "efasemdamanninn".

*

Að lokum verður maður einfaldlega að hrósa Önnu Leplar fyrir fallega hönnun á bókinni eins og ég gerði þegar ég skrifaði ritdóm um bókina Mannvist, en þar bar hún einnig ábyrgð á útlitinu á þeirri bók.

--- ---  

Titill: Kristján Eldjárn 2012. Vínlandsdagbók. [Bókin er gefin út í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands og Fornleifastofnun Íslands]. Forlagið. Reykjavík. 

6 grafskeiðar 

Einkunn6 grafskeiðar, þrátt fyrir nuddið og kvartanir í íslenskum þátttakendum með heimþrá á L'Anse aux Meadows sumarið 1962. 6 grafskeiðar, danskar, verður hæsta einkunn sem héðan í frá verður gefin fyrir ný rit sem Fornleifur les eða fær send - eða nennir að skrifa um.


Vendi eg mínu kvæði í kross

ebe797bc95
 

Á eyjunni ríku Borgundarhólmi (Bornholm) í Eystrasalti, sem enn tilheyrir Danmörku, finnast oft merkir fjársjóðir og forngripir. Ekki alls fyrir löngu fannst þar til dæmis merkur silfursjóður með 152 arabískum peningum, svo kölluðum dihrem myntum. Ekki er langt högganna á milli á Borgundarhólmi, því 18. september síðastliðinn komst málmleitaráhugamaðurinn Kim Lund-Hansen í feitt er hann fann þennan forláta silfurkross sem myndin hér að ofan sýnir.

Kim Lund-Hansen gerði, eins og vera ber, forngripasafninu á Bornholm viðvart um sjóðinn og krossinn. Krossinn, sem hugsanlega inniheldur helgan dóm (reliquium), fer brátt til Þjóðminjasafns Dana í Kaupmannahöfn til frekara rannsókna og síðan á væntanlega Víkingasýningu árið 2013 sem fer til nokkurra landa. Hver veit, innan í honum gæti hugsanlega fundist flís úr krossi Krists eða þyrnir úr krónu hans?

Undur og stórmerki

Kim Lund-Hansen er annað hvort mjög heppinn maður eða hér er kannski um undur og stórmerki að ræða. Því um daginn, þann 15. október fann hann leifar af nýjum krossi (efri hluta), kross sem einnig hefur geymt helgan dóm. Þessi kross fannst aðeins 8 metra frá þeim stað sem hann fann fyrri krossinn (sjá hér).

Maður veit ekki alveg hvernig maður á að taka á slíku, nema að gleðjast því. Líklega hefur plógur dregið hluta sama sjóðsins frá upphaflegum greftrunarstað hans, og nær öruggt má telja að nýfundni krossinn, sem er mjög laskaður, sé einmitt úr sama sjóði og fannst fyrir um mánuði síðan. Myndirnar og skreyti á síðari krossi Kims sýnir að mínu mati einkenni fyrri hluta 12. aldar og andlitin eru mjög svipuð andlitum á Flatatungufjölunum, einum merkasta menningararfi Íslendinga.

Kim Lund-Hansen fann sjóðinn með tæki sínu sem ber tegundarheitið Minelab X-TERRA 705. Framleiðendur þess apparats hafa þegar auglýst sig á kostnað þessa merka fundar á Borgrundarhólmi. Það má undra, þar sem fundurinn er ekki einu sinni enn kominn á Þjóðminjasafnið í Kaupmannahöfn til ítarlegra rannsókna hjá sérfræðingum þess. Þar sem ég er lika bölvað apparat leyfi ég mér að velta fyrir mér krossunum hér, þó svo að fremstu sérfræðingar Dana sé ekki enn búnir að handfjatla þessa helgu dóma og fella sinn dóm. En þeir lesa vitaskuld ekki íslensku og vita ekki hverju þeir missa af að lesa ekki Fornleif.

Málmleitartæki eru ,andstætt því sem gerist á Íslandi, leyfð til fornleifaleitar í Danmörku og þurfa ekki alltaf að vera verkfæri andskotans. Á Íslandi kæmi yfirmaður Fornleifaverndar Ríkisins með lögguna á eftir hverjum þeim sem leyði sér að nota slík tæki við fjársjóðaleit. Þau eru einfaldlega bönnuð til slíks brúks á Íslandi.

Í Danmörku finnast nú orðið áhugaverðustu málmgripirnir af fjársjóðaleitarmönnum og áhugamönnum, en ekki af fornleifafræðingum við hefðbundnar rannsóknir. Ef gagnkvæmt traust ríkir á milli málmleitarmanna og safna, nýtur fornleifafræðin og -varslan góðs af, en fornleifafræðingar eru eins og kunnugt er ekki í fjársjóðaleit og nota sjaldan slík tæki. Menn sem finna forna málmgripi með tækjum sínum fá sæmilega greitt fyrir sinn snúð og fornir málmar sem finnast í jörðu í Danmörku eru samkvæmt gömlum lögum eign konungs og ríkis, svo kallað Danefæ. Líklega væri enginn betur settur ef þessi tæki yrðu bönnuð í Danmörku, því þar eru rústir og mannvistarleifar oftast nær svo raskaðar eða hreyfðar vegna akuryrkju og annarra síðari tíma framkvæmda, að mestur hluti fundinna gripa er hvort sem er komin úr sínu upphaflega samhengi. Þannig er því ekki farið á Íslandi, og þar eru fornminjar fáar miðað við í Danmörku. Þess vegna vona ég að menn séu ekki að fá sér svona tæki á Íslandi.

efd2c183c6

Ljósm. Rene Laursen, sem og myndin efst.

+ Kross I frá Østermarie

Krossinn er samkvæmt fyrstu tiltæku heimildum 12,6 sm langur lt og 240 grömm að þyngd. Í námunda við hann fundust einnig heillegar leifar af keðjunni sem fylgdi krossinum, brotasilfur, og myntir, í allt um 1 kg silfur, og þar að auki önnur keðja. Myntirnar sem fundust á sama stað eru frá miðbiki og síðari hluta 12. aldar. Krossinn gæti þó hæglega verið eitthvað eldri en myntirnar, enda er hann nokkuð slitinn og myndfletirnir máðir.

Myndmál krossins er mjög einfalt og stíliserað. Krossinn og skreytið á honum er í býsnatískum stíl (eða undir áhrifum býsantísks stíls) fyrir utan drekann efst og fléttuna neðst. Framhlið krossins, sem er í tveimur hlutum, sýnir mjög stífan, rómanskan Jesús með langt lendarklæði og stórann haus. Á endum armanna eru hringlaga myndfletir. Líklega er það Jóhannes skírari sem er í hringnum á hægri hönd Jesús og María Mey á vinstri hönd hans. Neðst er Guðs lamb. Erfitt að sjá hvað er í hringfletinum efst, en líklega er það Guðs hönd sem blessar með tveimur fingrum. Hún er nú orðin nokkuð máð.

Bakhliðin á krossinum sýnir líklega Jesús þar sem hann stendur og blessar þann sem á horfir og í hringlaga flötum á endum armanna eru mjög stílfærðir postular eða guðspjallamenn sem blessa hver á sinn máta. Erfitt er þó að segja neitt um hverjir það eru.

Krossinn hefur líklega geymt, eða geymir enn, helgan dóm. Þetta er eiginlega, ef svo má segja, krosslaga dós sem leikur neðst á hjöruliðið og lokast efst með drekanum káta. Ef ekki verður hægt að opna krossinn má ef til vill  sjá „helgan dóm" innan í krossinum með háþróaðri röntgentækni.

Efst er hengi og á því leikur mjög haglega gerður silfurdreki, mikill flækjufótur, sem mjög greinilega er ekki smíð þess sem krossinn gerði. Drekinn veltur sér í kollhnís, er eins og kúla, og bítur í tvíhöfða snák ofan á krossinum. Hann er í einhvers konar Úrnesstíl og er mjög líklega norræn smíð, meðan líklegt má teljast að krossinn sjálfur sé gerður í löndum Austrómversku  kirkjunnar. Neðst á krossinn hefur einnig verið lóðuð smá flétta í sama stíl og drekinn ofan á krossinum. Án drekans efst og fléttunnar neðst er krossinn sjálfur 9 sm langur.

Leifar keðju fundust með krossinum og á endum hennar, þar sem hún tengdist drekanum efst á krossinum, voru aflangir drekahausar í mjög norrænum stíl sem meira ættar til drekans ofan á krossinum en krossins sjálfs. Hugsanlega er krossinn innfluttur en en drekinn, fléttan og keðjan viðbót sem gerð hefur verið í Danmörku.

 b7226940a4 

Drekahaus af keðjunni. Ljósm. Rene Laursen.

833ebde1e6
 

++ Kross II frá Østermarie

Annar krossinn sem Kim Lund-Hansen fann eru aumar leifar kross í rómönskum stíl með skreyti sem að mörgu leyti gæti bent til gotnesks stíls (Jesús er hefur lippast aðeins niður og fætur hans eru komnir í gotneska stellingu), og til þess að þessi kross sé yngri en sá fyrri. Telja menn að krossinn hafi eyðilagst og undist svo illa er plógur hefur rifið hann úr upphaflegu samhengi sínu. Tvær keðjur fundust þar sem fyrri krossinn fannst og hefur önnuð þeirra líklega tilheyrt þessum krossi. Krossinn er með öðru lagi en sá fyrri, en form hans var einnig mjög algengt á býsantískum brjóstkrossum.

Mikið meira er ekki hægt að skrifa um þennan síðari kross, þar sem lítið hefur verið greint frá honum síðan hann fannst fyrir nokkrum dögum síðan og hafa sérfræðingar í Kaupmannahöfn hvorugan krossinn séð enn.

0858524087

kors2b

Kross II settur saman úr mismundandi ljósmyndum. Ljósm. Bornholm Museum, Rønne.

Tímasetning og uppruni

Því er haldið fram í grein um fund Kim Lund-Hansens á heimasíðu þess fyrirtækis sem framleiðir málmleitartæki hans, að 5 svipaðir krossar séu til í heiminum. Sú staðhæfing og grein um fundinn á heimasíðu málmleitartækjaframleiðandans kom safnverðinum Poul Grinder-Hansen á Þjóðminjasafni Dana nokkuð á óvart þegar ég talaði við hann í gær og á heimasíðu Þjóðminjasafns Dana er ekkert upplýst um slíkt.

Ljóst er að krossarnir virðast vera frá 12 öld. Sá heillegri er líklegast frá fyrri hluta aldarinnar, þótt myntirnar í silfursjóðnum sem fannst nærri Østermarie á Borgundarhólmi séu frá síðari hluta 12. aldar. Síðari krossin bendir frekar til að hann sé frá síðari hluta 12. aldar. Í skreytinu gætir gotneskra áhrifa.

Krossinn sem fyrst fannst er skyldur krossum sem finnast í SV-Evrópu og laskaði krossinn er einnig undir mjög sterkum stíláhrifum þaðan, en ekki verður lokum fyrir það skotið að krossarnir gætu einnig hafa verið gerðir á Norðurlöndum eða t.d. á Borgundarhólmi.

Um leið og ég óska Borgundarhólmsbúum til hamingju með þennan merka fund, í von um að fundurinn verði varðveittur í framtíðinni á Borgundarhólmi, set ég hér nokkrar myndir af krossum í sama stíl og frá sama tíma og fyrri krossinn sem fannst nýlega nærri Østermarie. Neðst er mynd af gullkrossi frá Orø sem er í sama stíl og síðari krossinn sem Kim Lund-Hansen fann.

Sjá hér um annan merkan kross, krossinn frá Fossi í Hrunamannahreppi og hliðstæðu hans frá Huse i Rommedal í Noregi. Ég hef velt því fyrir mér hvort krosslaga opið í þeim miðjum hafi upphafleg geymt helga dóma sem haldið var með biki eða einhverju öðru efni..

AN00026142_001_l a

1 a+b) Kross sem fannst í Thwaite í  Suffolk á Englandi og seldur var til British Museum árið 2000. Skandínavísk gerð með býsantínskum áhrifum  (11. öld).

AN00026143_001_l b

AN00145188_001_l

2) Kross á British Museum (12. öld).

big_thumb_04d87a0e8248817dc1507b2bf0ee850c

3) Kross fundinn í Beograd. Um hann upplýsir borgarminjassafn Beograds: "This type of reliquary, particularly popular in Russia, was made in the Kiev workshops until the invasion of the Tatars in 1240. Their frequent occurrence in the territory of Belgrade should be probably attributed to the Russians who, led by Prince Rostislav Mihailovich of Chernygorsk, the first governor of Slavonia and Mačva, settled in these territories in the middle of the 13th century". (Síðari hluti 12. aldar eða byrjun þeirrar 13.).

hb_1998_542

4) Kross á Metropolitan Museum of Art New York (1000-1400 e. Kr.).

dagmarkors

5) Dagmar krossinn, Þjóðminjasafn Danmerkur.

d1946598x Christies 1

d1946598x Christies 2

6) Kross seldur á uppboði hjá uppboðshúsinu Christies (12. öld).

360px-Byzantine_-_Pectoral_Cross_with_the_Crucifixion_and_the_Virgin_-_Walters_542629

7) Kross á Walters Museum í Baltimore (11. öld).

ORKORS~1

8) Gullkross fundinn á Orø í Danmörku (11. öld).

 


Mannvist - ritdómur

Mannvist

Falleg og mikil bók um fornleifar og fornleifafræði kom út í lok síðasta árs. Þetta er hin 470 blaðsíðna bók Mannvist, sem forlagið Opna gaf út. Birna Lárusdóttir hefur ritstýrt. Þetta er eiguleg bók, en mjög dýr. Kostaði hún heilar 8.590 krónur hjá ódýrustu bóksölunni á Íslandi í febrúar í ár þegar ég festi kaup á henni.

Bókin er mjög fallega unnin, fjölmargar ljósmyndir eru í henni, misgóðar þó, en hönnunarvinnan er til sóma. Bókaútgáfan Opna og Anna C. Leplar, sem sá um hönnun bókarinnar, eiga skilið hrós fyrir.

Flagð er undir fögru skinni  

Eins fögrum orðum get ég ómöguleg farið um vinnu sumra þeirra höfunda sem skrifað hafa í þessi 1,985 kílógrömm af pappír, sem hefði verið betur nýttur hefðu menn setið aðeins lengur yfir því sem þeir skrifuðu, eða látið sér fróðari sérfræðinga líta á textann áður en hann var birtur.

Ekki ætla ég að elta ólar við stafsetningarvillur og málfar, enda ekki rétti maðurinn til þess. Nei, bókin er nógu full af því sem kallast má vöntun á grundvallarþekkingu, fornleifafræðilegum rangfærslum, vangavelturugli og tilvitnanafúski. Skoðum nokkur dæmi:

Mannvist1 

Bls. 63

Perla úr kumli á Vestdalsheiði ofan við Seyðisfjörð sem fannst sumarið 2004. Í kumlinu fundust yfir 500 perlur. Á myndinni í Mannvist má sjá sexstrenda, af langa perlu úr (neðst). Það furðar þó, að þegar menn finna 500 perlur í kumli, að ekki sé enn búið að greina efnið í þeim og uppruna þeirra. Í myndtexta er upplýst, að „sú eldrauða og dumbrauða [sem er perlan sum um er að ræða], eru úr glerhalli og gæti efniviðurinn verið kominn alla leið frá Asíu."  Dumbrauða perlan ber öll einkenni karneóls, sem ekki er glerhallur í skilgreiningu íslenska orðsins, sem á við um hvíta steina. Það sem kallað hefur verið glerhallur (draugasteinn, holtaþór), nefnist öðru nafni kalsedón (Enska: Chalcedony).Kalsedón er dulkornótt afbrigði af kvarsi (SiO2) og er þétt sambreiskja örsmárra kristalla. Glerhallur á Íslandi, sem t.d. finnst í Glerhallavík í Skagafirði er hvítur. Karneól, (kjötsteinn), er vissulega ættaður úr Asíu, nánar tiltekið frá Indlandi, Íran eða Arabíu. Karneól er hins vegar rautt afbrigði af kalsedóni. Þetta kjötrauða kalsedón er ekki rétt að kalla glerhall á íslensku.

Vitnað er í munnlega heimild við myndatextann í Mannvist. Auðveldara hefði verið að tala við steinafræðing eða gullsmið sem hefur lært eðalsteinafræði (gemmologíu) til að fá upplýst hið rétta um karneólperluna. Einnig eru til fornleifafræðingar sem hafa leitað sér sérþekkingar um perlur. Vissuð þið t.d. að fleiri perlur finnast í heiðnum kumlum karla á Íslandi en í kumlum frá sama tíma á hinum Norðurlöndunum eða á Bretlandseyjum? Perlur úr Karneóli hafa áður fundist í kumlum á Íslandi.

Mannvist 2
 

Bls.169

Skeri af arði, sem fannst á Stöng Þjórsárdal. Í myndatexta er ranglega sagt að annar "hnífurinn" sé frá uppgreftri í Þjórsárdal. Þar er rangt. Skerinn til vinstri á myndinni, sem búið er að setja ofan á teikningu af hlutfallslega allt of litlum arði fannst ekki við fornleifarannsóknir. Ferðamaður sá árið 1949 titt standa upp úr gólfinu meðfram þröskuldi inn í skála yngstu rústarinnar á Stöng. Togaði hann í járnið sem hann hélt að væri eitthvað járnarusl, en dró þá upp plógskerinn úr gólfinu . Greint hefur verið frá arði þessum í greinum eftir þann sem þennan ritdóm skrifar, sem einnig mun hafa verið sá sem fyrstur benti á að leifar af plógum/örðum hefðu fundist á Íslandi. Það gerði ég fyrst á bls. 170-71 í kandídatsritgerð minni sem ég afhenti í desember 1985.

Einnig má lesa um skerinn og sjá mynd af honum í  alþjóðlegri sýningaskrá farandsýningarinnar From Vikning to Crusader (1992-393). Þar er hann í sýningarskrá sem gripur 591 a, bls. 384. Ekkert er minnst á það, engan er vitnað í. Þvílík og önnur eins vinnubrögð! En svona vinnubrögð eru ekki nýtt fyrirbæri  í útgáfum Fornleifastofnunar Íslands, sjá hér .

Mannvist 3
 

Bls. 335

Varða. Það slær út í fyrir fornleifafræðingunum á Fornleifastofnun Íslands er þeir greina frá vörðu sem þeir telja sig hafa fundið í landi Hamra í Reykjadal í Suður Þingeyjarsýslu.; Vörðurúst undir garðlaginu, afgerandi grjóthrúga, „og var hægt að aldursgreina hana, enda var garðlagið greinilega eldra en gjóskulag frá 1158 og varðan því áreiðanlega eldri en það. Þetta er elsta varða sem vitað er um á Íslandi.."

Á ljósmynd með þessari yfirmáta glannalegu yfirlýsingu má sjá 9 steina, sem ekki er hægt að sjá stærðina á, því enginn mælikvarði er á myndinni. En út frá gróðri sést, að steinarnir eru ekki sérstaklega stórir og ekki neinn efniviður í vörður eins og við þekkjum þær annars frá síðari öldum. Mikið væri vel þegið, ef fornleifafræðingarnir sem fundu „vörðuna", gefi alþjóð skýringar á því hvernig menn geta vitað að 9 steinar í hröngli undir garðlagi úr úr streng sé varða. Yfir viskutunnuna flýtur, þegar vörðuspekingar FSÍ skrifa"Hugsanlega hefur þessi tiltekna varða verið hlaðin sem viðmið áður en garðurinn var reistur, en hún gæti lík verið leifar af eldra kerfi kennileita sem garðarnir leystu af hólmi". En hvar er þessi hleðsla sem menn sjá. 9 steinar á dreif eru ekki hleðsla! Ekkert vantar á hugmundaflugið. Kannski er það kennt sem hjálpagrein í fornleifafræði við HÍ?

1 lille

Brot af diski úr hollenskum fajansa úr flaki Het Melckmeyt í Flateyjarhöfn. Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 

Bls. 393

Alvarlegasta villan í bókinni er sett fram af gestahöfundi, fornleifafræðingi sem hvorki vinnur eða hefur unnið hjá Fornleifastofnun Íslands, sem stendur á bak við bókina. Dr. Bjarni Einarsson, sem rekur sína eigin fornleifastofnun, skrifar um skipsflök. Hann rannsakaði fyrir löngu undir stjórn minni (ég hafði rannsóknarleyfið), og með ágætum, leifar hollenska kaupfarsins Het Melckmeyt(Mjaltastúlkan) í höfninni í Flatey á Breiðafirði. Skipið sökk þar árið 1659. Þar sem ég hef í áraraðir reynt að fá fjármagn til að rannsaka nokkuð mikið magn af leirmunum sem fundust í flaki Het Melckmeyt, hef ég mikla þekkingu á leirkerum þeim sem fundust í flakinu. Það hefur greinilega farið framhjá Bjarna. Bjarni skrifar:

„Við rannsóknina í Höfninni fundust um 300 keramikbrot í Mjaltastúlkunni og er það stærsta samtímasafn leirkera frá 17. öld frá einum stað á Íslandi. Aðeins er um eina tegund leirtaus að ræða í flakinu, svokallaðan tingleraðan jarðleir, en honum má skipta í maiolica leirtau og faiance leirtau. Báðar gerðirnar voru til staðar, en einkum maiolica leirtau með fallegum bláum skreytingum af ýmsu tagi, svo sem dýra og blómamyndum. Nær mikilvægi safnsins út fyrir Íslands vegna þess að nokkrum árum eftir að Mjaltastúlkan sökk var komið á laggirnar leirkeraverksmiðju í Þýskalandi sem framleiddi því sem næst eins leirtau og í Mjaltastúlkunni, en það var hollenskt. Fundurinn frá Flataey gæti verið lykilfundur til að aðskilja og aldursgreina þessi leirker í framtíðinni en ekki er algengt að finna safn leirkera sem er jafn samstætt og vel afmarkað í tíma". 

Vitnar höfundur með þessum upplýsingum sínum, sem eru meira eða minna rangar, í bók dr. Guðrúnar Sveinbjarnardóttur, Leirker á Íslandi,  frá 1996,  bls. 32. Á blaðsíðu 32 í bók Guðrúnar Sveinbjarnardóttur stendu ekkert að (né annars staðar í bókinni). Í bók Guðrúnar er reyndar einnig greint rangt frá leirkerunum sem fundust í flaki Het Melckmeyt í Flateyjarhöfn.

Nú er það svo, að leirkerin í Melkmeyt eru öll svokölluð faiance leirker, eða það sem Bretar og Bandaríkjamenn kalla Delft-ware. Faiance eða fajansi, sem er ágætt íslenskt heiti, dregur nafn sitt af leirkeraframleiðslu í Faenca á Ítalíu og Maiolcia fær nafn sitt frá Spáni. Sérfræðingar í dag kalla venjulega hvít og blá afbrigði Faienca, og skálar, ker og önnur ílát með marglitri skreytingu (polychrome) skilgreina menn sem tegundina Maiolicu.

Þ.e.a.s. blátt og hvítt (eða alveg hvítt/pípuleir og tinglerungur) í skreyti er fajansi, en hvítt, blátt og aðrir litir skilgreinist sem maiolica eða majolica. 

Hollendingar sem fluttu til Frankfurt am Main hófu framleiðslu á fajansa árið 1660 og næstu árin þar á eftir. Ein gerð leirskála sem fundust í flaki Het Melckmeytvar lengi talin hafa orðið til eftir 1660 í Frankfurðu. Þar sem þessi tegund finnst í  flaki hollensks skips sem sökk árið 1659 er afar ólíklegt að gerðin hafi orðið til í Þýskalandi. Hún er hollensk. Bjarni hefði betur haft það rétt eftir mér og spurt mig í stað þess að skila frá sér svona rugli. 

31 b (2)

Fajansi sem fannst í Het Melckmeyt og sem ættaður er frá Frakklandi. Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 

Til upplýsingar má bæta við, að óskreyttar skálar, hvítar með bylgjuðum kanti/ börðum, sem ég fór með prufur af til Hollands á 10. áratug síðasta aldar, eru ekki ítalskar eins og fornleifafræðingar þá héldu fram. Ungur hollenskur sérfræðingur hefur nú sýnt fram á að fornleifafræðingur sá sem ég hafi samband við í Amsterdam „gaf sér" einfaldlega að þessi gerð skála sem finnst í miklum mæli í Niðurlöndum hafi verið framleiddar á Ítalíu. Sá gamli, Jan Baart, sem var yfirfornleifafræðingur Amsterdamborgar rannsakaði það hins vegar aldrei. Þegar farið var að gæta að því hvað var til af sams konar diskum kom í ljós, að á Ítalíu könnuðust menn ekkert við þessa gerð diska. Þeir eru hins vegar frá Norður-Frakklandi, frá borgunum Nevers og Rouen við Leirubakka (Loire) og nánasta nágrenni. Hávísindalegar rannsóknir hafa nú sýnt fram á það.

Þetta voru aðeins fáein dæmi um frekar lélega fræðimennsku í annars fallegri bók, en oft er flagð undir fögru skinni eins og skrifað stendur.

En margt er einnig gott í bókinni, sérstaklega ljósmyndir frá einstaklega fallegum uppgröftum Bjarna Einarssonar. T.d. myndin frá Þjótanda við Þjórsá á bls. 110, eða fjárborgin í Hagaey í Þjórsá á bls. 156, sem bera vott um falleg og vönduð vinnubrögð Bjarna.


Lea var myrt i Sobibor

de la Penha
 

Lea Judith de la Penha frá Amsterdam í Hollandi varð aðeins 6 ára. Líf hennar var tekið af henni á hrottalegan hátt vegna haturs sem gýs öðru hvoru upp í Evrópu. Hún var myrt ásamt 165.000 öðrum trúsystkinum sínum í útrýmingarbúðunum í Sobibor í Suður-Póllandi. Talið er að um 200.000-250.000 manns, flest gyðingar, hafi verið myrtar í Sobibor á árunum 1942-43.

Nú hefur hópur fornleifafræðinga undir stjórn ísraelska fornleifafræðingsins Yoram Haimis rannsakað leifar helfararinnar í útrýmingarbúðunum í Sobibor. Þeir hafa meðal annars fundið lítið ferhyrnt merki úr áli, sem á hefur verið slegið nafn Leu Judith de la Penha. Lea litla hefur líklega borið þetta merki, eða taska hennar, er hún var flutt til Sobibor með foreldrum sínum.

Lea Judith de la Penha fæddist þann 11. maí árið 1937 í Amsterdam. Foreldrar hennar voru Judith de la Penha-Rodriques Parreira og David de la Penha. Þau voru flutt nauðug í gripavögnum frá Hollandi árið 1943 til Sobibor útrýmingarbúðanna í Suður-Póllandi. Þar voru Lea litla og foreldrar hennar myrt þann 9. júlí 1943.

De la Penha fjöskyldan var stór fölskylda í Hollandi fyrir 1940, en meirihluti meðlima hennar var myrtur í Helförinni. Eins og nafnið bendir til átti fjölskyldan ættir sínar að rekja til Portúgals og Spánar. Frá Portúgal flýðu gyðingar undan trúarofsóknum kaþólsku kirkjunnar og annarra yfirvalda á 16. og 17. öld, m.a. til Niðurlanda.

De la Penha 

De la Penha fjölskyldan í heimsókn hjá kristnum vinum/ættingjum. Lea er fremst á myndinni.

Lea de la Penha endaði ævi sína í gasklefa í Sobibor eins og flestir aðrir gyðingar þar. Hún var ein 4300 gyðinga af portúgölskum uppruna í Hollandi sem myrtir voru í helförinni. 90% allra sefardískra gyðinga í Hollandi voru myrtar í Helförinni og 75% allra gyðinga Hollands, um 101.000 gyðingar frá Hollandi voru sendir til fanga- og útrýmingarbúða, 96.000 þeirra voru myrtir. 34,313 gyðingar frá Hollandi voru myrtir í Sobibor.

Á 17. Og 18. öld voru og urðu sumar af portúgölsku flóttafjölskyldunum meðal ríkustu fjölskyldna Hollands. Á 20. öld var de la Penha fjölskyldan ekki lengur meðal auðugra portúgalskra gyðingaætta Hollands og höfðu því meðlimir hennar gifst út fyrir hópinn, annað hvort gyðingum af þýskum og pólskum uppruna, eða kristnum hollendingum. Einn forfaðir flestra meðlima de la Penha ættarinnar var þó mjög ríkur á fé, en það var Josef de la Penha kaupmaður í Rotterdam, sem eignaðist Labrador. Vilhjálmur 3. af Óraníu, sem gerðist konungur Englands gaf Josef de la Penha Labrador árið 1697 fyrir veitta aðstoð. Gjafabréfið er enn til. Ýmsir afkomendur Josefs de la Penha hafa reynt að endurheimta Labrador, en án árangurs.

Sobibor sh 2001 2
Minnismerki í Sobibor. Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 2001

Sobibor 2001

Ég kom til Sobibor árið 2001 með hópi fræðimanna frá Dansk Center for Holocaust og Folkedrabsstudier (DCHF) í Kaupmannahöfn ásamt framhaldsskólakennurum. Við vorum á ferð um Pólland til að skoða útrýmingarbúðir og aðra staði sem tengjast sögu helfararinnar í Póllandi. Á DCFH vann ég í tvö ár og voru rannsóknir mínar á örlögum gyðinga í Danmörku m.a. til þess að DCHF var stofnað árið 2000.

Hópurinn, sem heimsótti Sobibor haustið 2001, sá hvernig pólskir fornleifafræðingar höfðu grafið á ýmsum stöðum í Sobibor, en nú er svæðið að mestu hulið furuskógi. Rannsókn, eða réttara sagt frágangur pólska fornleifafræðingsins Andrzej Kola við háskólann í Torun var að mínu mati vægast sagt ekki til mikils sóma og lítið hefur birst af niðurstöðum. Hann fann þó hluta fjöldagrafar sem var svo djúp að ekki var hægt að grafa dýpra niður í vegna grunnvatns. Talið er að gröfin hafi verið allt að 5 metra að djúp. Lík voru einnig brennd í Sobibor og í lok stríðsins voru lík grafin upp til að brenna þau. Vegna vangetu Kolas til að gefa út niðurstöður sínar hafa rannsóknri hans verið skotspónn sjúkra sála sem telja og vilja hald að helförin sé ein stór lygi og samsæri. Þess vegna er gott að heyra um þær mörgu niðurstöður sem rannsóknir undir stjórn Yoram Haimis hafa leitt í ljós. Hér er hægt að lesa grein eftir hann, þar sem hlutar fyrri niðurstaðna af rannsóknum í Sobibor eru lagðar fram.

Hola Kola SOBIBOR 2001 2

Hola um 3,5 metra djúp, sem hefur innihaldið mikið magn af brunaleifum. Þarna rannsakaði fornleifafræðingurinn Andrzej Kola árið 2001. Samkvæmt einni grein eftir hann frá 2001 var þarna hús.  Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 2001.

A.Kola plan

Bláa pílan sýnir gryfju þá sem ég ljósmyndaði árið 2001. Hún er kölluð "Building B", en þarna hefur varla verið nokkur bygging en mikið var af ösku, kolum  og rusli sem hefur verið kastað í þessa gryfju.

Hópinum sem ég fylgdi til Sobibor árið 2001 var tjáð, að rannsóknunum Andrzej Kolas væri lokið, en ýmsir fundir höfðu verið skildir eftir á glámbekk, og ekki fyllt upp í nokkrar holur suður af þeim fjöldagröfum sem hann fann. Einn menntaskólakennari sem var í för með okkur hafði tekið brot úr öskju úr bakelíti, sem líklega er hollensk sem lá með öðrum fundum á kanti mikillar gryfju. Hann lét mig hafa brotið og ég geymi það enn. Ég reyndi lengi að hafa samband við pólska fornleifafræðinginn Kola sem stjórnaði rannsóknunum í Sobibor, en fékk aldrei svar. Nú mun ég hafa samband við Yoram Haimi til að koma gripnum í réttar hendur.

Bagelite Sobibor
Brot úr loki úr bakelíti sem lá á glámbekk eftir fornleifarannsóknir í Sobibor árið 2001. Ef einhver hefur hugmynd um hvað WB stendur fyrir væri ég fekinn að fá upplýsingar. Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 2012.

 

DSCN6524 [1600x1200]
Mynd frá ranssóknum Yoram Haimis í Sobibor.
 

Svo talað sé um fórnarlömb

Þess má geta, að sá sem þetta ritar varð í Sobibor "fórnarlamb" mannýgra moskítóflugna, sem réðust á ökkla mína. Dóttir mín, Lea, hafði gefið mér í afmælisgjöf sokka með mynd af Andrési Önd á skaftinu, sem hún hafði fundið með móður sinni í Netto-verslun í Kaupmannahöfn. Ég var einmitt í þessum sokkum sem Lea gaf mér í Sobibor. Flugan sótti í Andrés Önd og stakk hann í sífellu og saug, en það var náhvítur ökklinn á mér sem varð fyrir barðinu á varginum en ekki öndin. Ég bólgnaði mjög illa upp um kvöldið og varð daginn eftir að leita mér læknis í Lublin, með fætur sem meira líktust fótum fíls en manns. Meðan ferðafélagar mínir fóru m.a. til Majdanek. Læknir nokkur á slysadeild spítala, sem var skammt frá Hóteli okkar. Hann sprautaði mig og gaf mér lyfseðil. Lyfin hjálpuðu strax og eftir tvo daga gat ég aftur gegnið í skóm. Eftir það kallaði ég lækni þennan sem hjálpaði mér Töframanninn frá Lublin.


Finnur Magnússon (1781-1847), fyrstur íslenskra fornleifafræðinga

Finn Magnusen 2

Fyrsti íslenski fornleifafræðingurinn var óefað Finnur Magnússon (Finn Magnusen) prófessor í Kaupmannahöfn. Finnur var kannski ekki með próf í fornleifafræði, því hún var einfaldlega ekki kennd þegar hann var í námi. Hann gróf, svo vitað sé, heldur aldrei. Hann var líka dálítill draumóramaður og skýjaglópur eins og margir íslenskir fornleifafræðingar. Hér er ég auðvitað að hætti fornleifafræðinga kominn í hrópandi mótsögn við það sem ég sagði í færslunni hér á undan, þar sem ég hélt því fram að maður án prófs og uppgraftar gæti ekki verið fornleifafræðingur. Ég tek það hér með aftur.

nordisk Archaeologie 2
Titilsíða Nordisk Archæologie eftir Finn Magnússon (1820). Karl faðir minn gaf mér bókina er ég fékk pungapróf (Ph.D.) í fornleifafræðinni við háskólann í Árósum árið 1992

 

Finnur var fyrsti Íslendingurinn sem ritaði um norræna fornleifafræði og hélt hann marga fyrirlestra um hana við Hafnarháskóla. Árið 1820 gaf hann út litla bók, Bidrag til nordisk Archæolgie meddeelte i Forelæsninger.

Finnur var reyndar uppgjafarlögfræðistúdent sem gerðist fornleifafræðingur. Árið 1833 fór hann með tveimur öðrum fræðimönnum til Runamo í Blekingehéraði í Svíþjóð, þar sem er að finna mikla ristur. Finnur réði upplýsingar þeirra og innihald á nokkrum klukkustundum. Dellu-Íslendingurinn kom upp í honum og ári síðar gaf hann út ekki meira né minna en 750 blaðsíðna verk um hvað risturnar geyma af upplýsingum þegar maður les þær aftur á bak, þ.e.a.s. frá hægri til vinstri. 

Lögfræðinám og ævintýri í Reykjavík

Hvernig hefur slíkurr fornaldarsnillingur ævi sína. Jú, Finnur sem fæddist í Skálholti, fékk stein í hausinn þegar hann var tveggja ára. Það gerðist í miklum jarðhræringum sem hann og fjölskylda hans komust lífs úr. Nokkru síðar fékk hann hlaupabólu og var vart hugað líf. Bólan skaðaði sjónina í Finni og var hann að eigin sögn ávallt mjög nærsýnn eftir það, þótt ekki sjáist gleraugu á myndum af honum. Ég hef oft heyrt um höfuðáverka sem aðrir fornleifafræðingar fengu í æsku, og sem menn telja rótina að fræðilegum heiðri sínum. Aðrir snillingar hafa t.d. dottið á hausinn.

Auðsýnt þótti á 19. öld, að menn sem fengu stein í hausinn, voru af góðum ættum og með lélega sjón væri til einskis annars nýtir en að sigla til Hafnar og leggja stund á guðfræði eða lélegt handverk. Finnur valdi handverkið og sigldi til Hafnar til að lesa lög, en tíminn fór mest í verklega þætti hennar, drykkju, dufl, spil og hraðskreiðar konur, sem eru lestir sem við þekkjum enn meðal lagastúdenta á okkar tímum.

Slippur og snauður og án gráðu sigldi Finnur aftur heim til Íslands árið 1806 fyrir síðustu skildingana sem hann hafði kríað út hjá veðlánaranum. Lífið næstu árin á Íslandi var ekki minna óreglulegt en Hafnarárin, en hann hélt þó stöðu sem ritari sem hann fékk fyrir góð tengsl og klíku sem alltaf hefur verið mikilvægt afl á Íslandi og hefur bjargað mörgum aumingjum frá glötun.

Talið er að Finnur hljóti að hafa veri  „hirðmaður" Jörundar Hundadagakonungar, þótt hann hafi eins og flestir hirðmenn Jürgensens svarið það af sér. En Jörundur greiddi honum morðfé fyrri einhverja ómerkilega bók sem Finnur útvegaði honum áður en konungstíð Jörunds lauk.

Önnur tilraun 

Er Finnur eða Finn Magnusen, sem hann kallaði sig lengstum, var rúmlega þrítugur, gerði hann aðra og heiðvirðari tilraun til náms í Kaupmannahöfn, enda karlinn búinn að hlaupa af sér hornin. Hann lagði nú stund á fornnorrænar bókmenntir og á mettíma var hann orðinn prófessor við Hafnarháskóla árið 1815.

Árið 1918 var honum falið að halda fyrirlestra um fornnorrænar bókmenntir og goðafræði og er bók hans um fornleifafræði frá 1820 m.a. afraksturinn af því. Árið 1823 hlotnaðist honum staða sem Gehejmarkivar, þ.e. einkaskjalavörður hins konungslega skjalasafns og 1829 var hann orðinn forstöðumaður safnsins. Í skjalavarðarstöðunni, sem ekki gaf mikið í aðra hönd, gat hann unnið að rannsóknum og 1836 var honum veittur doktorstitill við Hafnarháskóla. Finnur var sömuleiðis einn af stofnendum Hins Íslenzka Bókmenntafélags, og gaf út Íslenzk sagnarblöð, sem voru fyrsti vísirinn að Skírni. Með öðrum stofnaði hann Det Kongelige Nordiske Oldskriftselskab árið 1825 og hann þýddi Eddu hina eldri og helsta verk hans var líklegast Eddalæren og dens Oprindelse sem út kom 1824. Það rit var fullt af bulli og fræðilegum þvættingi og álíka spekúlasjónum og íslenskir bókmenntafræðingar hafa verið með allar götur síðan.

Eina verk Finns fyrir íslenska fornleifafræði var að senda spurningalista Oldsagskommissionarinnar, Den kongelige Commission til Oldsagers Opbevaring, sem stofnuð var árið 1807, til Íslendinga. Fornleifanefndin var stofnuð árið 1807 til að safna upplýsingum um fornleifar í danska konungsríkinu. Árið 1817 var röðin komin að Íslandi. Fyrstu listarnir voru sendir prestum á Íslandi er Finnur gerðist nefndarmaður. Í spurningalistanum voru menn beðnir um að upplýsa um fornleifar, jarðfastar og lausar, sem þeir þekktu í nágrenni sínu. Afraksturinn var merkilegur en hann kom ekki út á Íslandi fyrr en árið 1983, þegar prófessor Sveinbjörn Rafnsson og Guðrún Ása Grímsdóttir gáfu hann út í tveimur bindum: Frásögur um fornaldarminjar 1817-1823,  I-II. (Stofnun Árna Magnússonar, Rit 24) Útgáfan er stórvirki fyrir sögu fornleifafræðinnar á Íslandi.

Sveinbjörn Rafnsson skrifaði einnig fyrir fáeinum árum ágæta grein um Finn Magnússon í Aarbøger for Nordisk Oldkyndighed og Historie, forna ritröð danska, sem Finnur gaf upphaflega út með öðrum. Það er grein sem allir áhugamenn um íslenska fornleifafræði verða að þekkja og lesa. Það furðar mig þó, þrátt fyrir góða grein, að Sveinbjörn minnist hvergi á að Finnur Magnússon hafi skrifað bókina Nordisk Archæologie, og að hann hafi haldið fyrirlestra um fornleifafræði. Bókin er trúlega ekki til á Landsbókasafninu? Páll Valsson hefur einnig sýnt Finni áhuga og skrifað áhugaverða grein: "En runologs uppgång och fall" í Scripta Islandica: Isländska Sällskabets årsbok 48 for 1997.

Misheppnaður rúnafræðingur 

Rúnafræði Magnússonar, sem fyrr var nefnd, orkaði tvímælis er hann var enn uppi. Menn vildu ekki alveg meðtaka túlkun hann ristunum í Runamo í Blekinge, sem hann las reiprennandi afturábak og afrám. Árið 1844 gaf 21 ára upprennandi fornleifafræðingur, Jens Jacob Asmussen Worsaae að nafni, út bækling þar sem hann sýndi fram á að risturnar í Runamo væru náttúrfyrirbæri. Margar aðrar rúnaskýringar Finns á manngerðum rúnum hafa síðar reynst vera rangar eða dellukenndar. Finnur var einn um að bera skömmina vegna uppgötvunar J.J.A. Worsaae, sem síðar varð einn að fremstu fornleifafræðingum Dana. Aðrir sem höfðu verið samsinnis Finni um "rúnirnar" í Runamo voru ekki áreittir vegna þessarar fræðilegu skammar.

Worsaae's Runamo
Teikning af náttúrufyrirbærunum í Runamo í bók Worsaaes

Finnur hafði slegið um sig með illa ígrunduðum skýringum, líkt og sumir íslenskir fornleifafræðingar gera enn í dag á sumarverðtíðinni. Þrátt fyrir Runamo-ævintýri Finns verður ekki af honum skafið, að hann var afkastamikill og merkur fræðimaður - síns tíma. Við getum ekki dæmt hann í dag eins og samtíminn gerði, við getum í mesta lagi brosað dálítið í kampinn yfir því að einhver hafið gefið út 750 blaðsíðna bók um sænskt náttúrufyrirbæri. Bækur Finns um fornleifafræði og rúnirnar í Runamo, bera öll einkenni þess að Finnur hafi nú verið hálfgerður skýjaglópur með mikinn sannfæringarkraft. Hann verður því örugglega að teljast til fornleifafræðinga, annars hefði hann ekki fengið stein í hausinn, svo tekin sé snúin skýringatækni hans sjálfs að láni.

Síðustu árin 

Síðustu ár ævinnar barðist Finnur í bökkum fjárhagslega. Konan var farin frá honum, eins og hendir marga góða menn sem ekki eru öðrum sinnandi vegna fræðimennsku og peningaleysis. Runamo- rúnirnar voru orðnar af Guðs rúnum og karlinn orðinn hálfgert aðhlátursefni í Kaupmannahöfn. Finnur leysti þá sín verstu fjárhagsvandamál með því að selja íslensk miðaldahandrit á ýmis erlend bókasöfn, þar sem þau varðveittust líkast til betur en í saggalegri íbúð hans í Kaupmannahöfn.

Þegar Finnur Magnússon andaðist árið 1847 í Klampenborg, var hann greftraður á Assistens-kirkjugarðinum í Kaupmannahöfn. Hvorki var reistur bautastinn eða ristar rúnir yfir leiði hans og líklega var það sökum þess að engir peningar voru lengur til í skuldabúi fræðimannsins. Steinn var þó settur yfir Finn 34 árum eftir andlát hans. Sá steinn hvarf um 100 árum síðar þegar breytingar voru gerðar á kirkjugarðinum. Árið 2006 sá áhugafornleifafræðingurinn Rud Kjems um að setja nýjan legstein yfir yfir jarðneskar leifar fyrsta íslenska fornleifafræðingsins með þátttöku Det Kongelige Nordiske Oldskriftselskabs. Nokkru síðar gaf Rud Kjems út skemmtilega skáldsögu um Finn, sem hann kallar Runamo  og hægt er að lesa þanka Kjems um Finn Magnússon hér, hér og hér 

Runamo Kjems

Þeir sem vilja votta Finni Magnússyni virðingu, næst þegar þeir eru staddir í Kaupmannahöfn, finna jarðneskar leifar hans undir nýjum legsteini í Assistents kirkjugarði, Deild C, gröf 181.

Blessuð sé minning Finns fornleifafræðings

Assistents gravskænderi

Nýlega var mikið rask í Assistent kirkjugarði, því neðanjarðarlestarstöð á að rísa í einu horni hans. Jarðneskar leifar þeirra sem lágu á svæðinu þar sem grafarfriðurinn var rofinn voru rannsakaðar af fornleifafræðinemum frá ýmsum löndum. Að mati ýmissa manna var ekkert því til fyrirstöðu að hafa stöðina handan við götuna þar sem hús hafa hvort sem er verið rifin nýlega. Þetta var afar umdeild framkvæmd.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband