Færsluflokkur: Íslenskir nasistar

Si fabula vera est

Nazi Boston

Fyrir ekki allmörgum dögum flutti Vera Illugadóttir ágætan pistil um nasista og nasisma í Bandaríkjunum. Því miður gleymdi Vera í umfjöllun sinni um hinn þýskættaða lassaróna Fritz Kuhn og fylgismenn hans mjög mikilvægu atriði í málflutningi sínum. Hún Vera gleymdi Kaþólsku Kirkjunni og sannarlega einnig öðrum  kirkjudeildum í Bandaríkjunum. Gyðingahatur og nasismi grasseraði einnig meðal þeirra og þá einna helst í hinni merku borg Boston. Írsk og skoskættaðir kaþólikkar í Boston aðhylltust margir öfgafullan nasisma, sem gekk helst út á að ofsækja gyðinga og berja börn gyðinga.

Það er sama hvað þið heyrið öfgaguðfræðinginn Jón Val Jensson halda fram, þá er kristni (næstum því sama hvaða deild sem við tölum um) rót gyðingahaturs í Evrópu - sem að lokum fæddi af sér kynþáttahatur 19. aldar og nasisma og fasisma í kaþólskum löndum (og einnig öðrum) á 20. öld. Það þýðir ekkert að benda á aðra sökudólga, til að mynda múslíma eða fljúgandi furðuhluti. Kirkjan var sökudólgur og það var syndgað!

Skömmu eftir að Vera flutti langan og góðan pistil sinn, þar sem hún gleymdi hatri meintra frænda Íslendinga, Íranna (sú ættfærsla er að mínu mati tölfræðileg skekkja starfsmanna Íslenskrar Erfðagreiningar), birtist á Times of Israel grein um hinn svæsna nasisma í Boston fyrir og eftir Síðari heimsstyrjöld. Gyðingahatrið var mikið í þeirri borg og stóðu kaþólskir prestar og leikmenn, sem báru nöfn eins og Couchlin, Tobin og Moran gjarnan fremstir í flokki.

Lesið greinina í Times of Israel sem viðbót við pistil Veru Illuga, og munið að gyðingahatur hefur aldrei eingöngu verið bundið við nasisma. Verstu gyðingahatarar sem ég hef fyrir hitt voru einmitt sannkristnir, kaþólikkar, múslímar eða vinstrimenn. Ég hef vitaskuld ekki þekkt svo marga nasista.

Icelandic Nazis marching

Fahnen Hoch in Island. Íslenzkir nasistar þramma í skjóli Landakots. Finnið frændur ykkar!

En áður en menn fara á stúfana og brenna presta og nunnur í Landakoti á báli, án sönnunargagna eins og hefur nú brunnið við, langar mig að minna á að flestir íslenskir nasistar voru upphaflega litlir fermingardrengir og líklega flestir í KFUM áður en þeir fóru að þramma fyrir Hitler; T.d. Davíð Ólafsson, uppeldisafi Egils Helgasonar sem laug til um próf í hagfræði sem hann sagðist hafa fengið í Þýskalandi nasismans. Því er enn haldið fram á vef Alþingis. Nasistinn Davíð Ólafsson komst einnig á hið háá þing. Út á lygar sínar um nám hjá Hitler fékk hann embætti Seðlabankastjóra.

Í KFUM var fánahylling að hætti nasista stunduð um langt skeið eftir Síðari heimsstyrjöld. Hin stjarfa hönd í fánastandinu var skýrð með því að þetta væri rómversk kveðja. Því fer nú alls fjarri. Þetta var aðeins nasistakveðja og kristið starf á Íslandi var greinilega smitað af einstaklingum sem þrifust á gyðingahatri og álíka öfgum. Kannski er ágæt ástæða til rannsaka þetta fyrir ungan og efnilega sagnfræðing.

heil_fani.jpg

Heil eða Saluto Romano, sem er seinni alda tilbúningur og á ekkert skylt við Rómverja. Myndin er tekin í Kaldárseli og birtist í Barnablaðinu árið 1987. Hver þekkir sjálfan sig?

Einhvers staðar hef ég heyrt lítinn fugl tísta að Vera Illuga hafi verið nas... kaþólikki á einhverju stigi á unga aldri. Si fabula vera est. Kannski ættu menn að líta í eigin barm, áður en alhæft er á RÚV, sem margir kalla, og það að sönnu, Lygaveitu Ríkisins. Ég held að vandamál RÚV sé fyrst og fremst vankunnátta starfsmannanna, en stundum spila öfgar nútímans verulega inn í.


Krati og gyðingahatari

dagrenning_jonasar_gu_mundssonar_nasistakrata.jpg

Einn argasti gyðingahatari Íslands eftir Síðari Heimsstyrjöld var kratinn, Alþingismaðurinn og embættismaðurinn Jónas Guðmundsson.

Jónas gaf út rit sem voru morandi í gyðingahatri í bland við pýramídafræði Adams Rutherfords og annan okkúltisma.

Á heimasíðu Alþingis er ekki minnst einu orði á þessar einkennilegu kenndir Jónasar. Það er einnig tilfellið með alþingismanninn Davíð Ólafsson í Sjálfstæðisflokknum, sem var nasisti á yngri árum og stundaði nám í Þýskalandi nasismans.

Skrif Jónasar Guðmundssonar og útgáfa hafa vonandi ekki á sínum talist til góðrar latínu á Íslandi? Margir keyptu þó tímarit Jónasar, Dagrenning, sem út kom í 12 ár, og bókasöfn höfðu fjölda eintaka af ritum hans til láns.

Furðulegt má virðast í dag að samflokksfélagar hans hafi ekki reynt að bola honum út úr flokknum með meiri hörku en raunin var. Harðasta gagnrýnin kom frá Vilhjálmi S. Vilhjálmssyni blaðamanni á Alþýðublaðinu (sem skrifaði stundum undir nafninu Hannes á Horninu), en bestu gagnrýnina fékk Jónas Guðmundsson t.d. frá þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Garðari Þorsteinssyni. Er bók Jónasar, Saga og dulspeki kom út árið 1942, skrifað Garðar í Eimreiðinni:

Ég get ímyndað mér, að þær skýringar, sem hér koma fram í forsögu hins germanska og engilsaxneska kynstofns, væru ekki öllum jafn geðfelldar, og yfirleitt finnst mér það ógeðfelld kenning að ætla einn kynflokk útvalinn af æðri máttarvöldum - guðs útvalda þjóð - en annan leika það hlutverk eitt að vera tyftari hinna útvöldu. Mer finnst  að í slíku gæti nokkuð mikils skyldleika við þær kenninga sem mest hafa verið dýrkaðar af þjóðernissinnum Þýskalands, en fordæmdar af flestum öðrum.

jonas_gu_mundsson_nasisti.jpg

 Jónas Guðmundsson, kratinn sem gaf út andgyðingleg rit eftir Heimstyrjöldina síðari.

Ekki má gleyma falsritinu Samsærisáætlunin mikla - Siðareglur Zionsöldunga, sem Jónas gaf út árið 1951. Þetta er falsrit sem nasistar lögðu mikla stund á en sumir höfnuðu því þó sem fölsun, t.d. Oswald Mosley breski fasistaleiðtoginn. En hvað kom til að krati og Alþingismaður var að gefa þetta rit út eftir stríð á Íslandi?

Formálinn á því riti, sem er eftir Jónas, er ævintýraleg steypa, svo mikið bull reyndar að maður efast um geðheilsu mannsins og spyr sjálfan sig hvernig á því stóð að Alþýðuflokksmenn fólu honum svo mörg trúnaðarstörf.

En á endanum fengu Kratar nóg af þessum kynlega kvisti. Jónas skrifaði sjálfur um það í Dagrenningu.

"Loks kom þar að einn þeirra, sem býst við að "erfa ríkið" í Alþýðuflokknum,kom til mín og sagði mér blátt áfram að ef ég hætti að trúa þessum "firrum" með Biblíuna og Pýramídann, yrði ekki hjá því komist að ég yrði að hætt öllu starfi í flokknum. Það mundi meira að segja erfitt að birta greinar eftir mig í Alþýðublaðinu, því það fengi á sig "óorð" af mér og þessum heimskulegum skoðunum,..."

Jónas Guðmundsson taldi sig greinilega fórnarlamb skoðana sinni og sagðist hafa sagt skilið við Alþýðuflokkinn árið 1942 vegna þess að Kratar hefðu ekki hafnað samvinnu við kommúnista. Óregla með áfengi var víst einnig til þess að hann hætti virkni í stjórnmálum, en um 1945 var hann hins vegar eins og þruma úr heiðskýru lofti orðinn einn fremsti bindindisfrömuður landsins.

Honum var heldur ekki bolað meira út úr Alþýðuflokknum en það að árið 1946  var hann skipaður skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu og lengdi því embætti til byrjunar árs 1953. Meðan hann er skrifstofustjóri í Félagsmálaráðuneytinu gefur hann einmitt út ritið Samsærisáætlunin mikla - Siðareglur Zionsöldunga.

Hvað gerist í kollinum á sumum vinstrimönnum og hvað gerist stundum í kollinum á sumum Íslendingum? Bara að maður vissi það. Ofstopi og fordómar sumra þeirra í garð Ísraelsríkis og gyðinga í dag tel ég persónulega vera framhald af sams konar villuráfi og öfgum og Jónas Guðmundsson var haldinn. Íslenskur þjóðernisrembingur blandaður við sósíalisma er hættulegur kokkteill.

Í raun taldi hann eins og margur íslenskur stjórnmálamaðurinn að Íslendingar væru Guðs útvalda þjóð: Í Dagrenning 32 (1951) skrifaði hann t.d.:

Hlutverkið sem Íslandi og íslenzku þjóðinni er alveg sérstaklega ætlað, er það, að þjóðin átti sig á því fyrst allra þjóða, að hún sé "hluti af hinum mikla Ísraelslýð Guðs", og kannist við það opinberlega að svo sé.

Minnir þetta ekki óneitanlega á hjalið um hlutverk Íslands og Íslendinga á meðal þjóðanna - sem enn heyrist?

 

Hlaut heiður og trúnað þrátt fyrir brenglunina

Hvaða störf fól samfélagið svo manni eins og Jónasi Guðmundssyni. Það var ekki svo lítið. Meðan stórmenntaðir gyðingar fengu ekki störf á Íslandi eða var bolað úr þeim var þessi furðufugl hafinn til skýjanna. Í minningarræðu Hannibals Valdimarssonar árið 1973 segir m.a. svo um Jónas Guðmundsson (1898-1973) (sjá frekar hér):

...Haustið 1921 varð hann kennari við barnaskólann á Norðfirði og gegndi því starfi fram á árið 1933. Jafnframt var hann kennari við unglingaskólann á Norðfirði 1923–1933. Hann var síðan framkvæmdastjóri Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar 1932–1937 og Togarafélags Neskaupstaðar 1935–1938. Á árinu 1937 fluttist hann til Reykjavíkur og var framkvæmdastjóri Alþfl. 1938–1939. Eftirlitsmaður sveitarstjórnarmálefna var hann 1939–1953 og skrifstofustjóri í félmrn. 1946–1953. Hann var framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga 1945–1967 og forstjóri Bjargráðasjóðs Íslands 1952–1967.

Auk aðalstarfa þeirra, sem hér hafa verið rakin, voru Jónasi Guðmundssyni falin fjöldamörg trúnaðarstörf á ýmsum sviðum, og verður nokkurra þeirra getið hér. Hann var oddviti hreppsnefndar Neshrepps í Norðfirði 1925–1928 og sat í bæjarstjórn Neskaupstaðar 1929–1937. Landsk. alþm. var hann á árunum 1934–1937, sat á 4 þingum alls. Hann átti sæti í Landsbankanefnd frá 1934–1938 og í bankaráði Landsbankans 1938–1946. Á árunum 1934–1935 átti hann sæti í mþn. um alþýðutryggingar og framfærslumál, og síðan var hann í mörgum stjórnskipuðum nefndum til að rannsaka og undirbúa löggjöf um margvísleg efni á sviði félagsmála. Hann var í stjórn Sölusambands ísl. fiskframleiðenda 1939–1943. Formaður Sambands ísl. sveitarfélaga var hann 1945–1967, í stjórn Bjargráðasj. Íslands 1946–1967 og í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga 1966-1970. Fulltrúi ríkisstj. Íslands á þingum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar var hann 1947–1952. Hann var stofnandi áfengisvarnarfélagsins Bláa bandsins 1955 og formaður þess fram á árið 1973. Jafnframt var hann formaður stjórnar Vistheimilisins í Víðinesi 1963–1973.

 

Þakkir: Magnús A. Sigurðsson sagnfræðingur og Minjavörður Vesturlands (við Minjastofnun Íslands) ritaði merkilega BA ritgerð við Háskóla Íslands árið 1993. Margar upplýsingar hér eru komnar úr þeirri ritgerð, sem ég hefði gefið mjög góða einkunn hefði ég haft Magnús sem stúdent.


Sonur forsetans dæmdi mann til dauða

nazi-bjorn.jpg

Ég sit þessa dagana og næstu mánuðina ásamt öflugum dönskum sagnfræðingi og leita uppi Dani sem gengu í SS-Frikorps Danmark 1942-43, og sem síðar voru þjálfaðir voru í illræmdum fangabúðum og vinnubúðum SS, Waldlager nærri Bobrusik í Hvítarússlandi. Þar voru gyðingar myrtir í þúsundatali og voru morð á gyðingum liður í þjálfun SS-manna frá Danmörku og annars staðar frá. Við vonumst til að finna á lífi einhverja þeirra 800 - 900 Dana sem fengu þjálfun í Bobruisk.

Fjöldi þessarar Freikorpssveitarmanna féll á Austurvígstöðvunum, Króatíu og víðar í þjónustu Þýskalands, en margir komust líka aftur heim. Þeir sem aftur sneru fengu 2-6 ára dóma, þá þyngstu fyrir skítlegt eðli sem þeir sýndu í Danmörku en alls ekki fyrir "störf" sín í Bobruisk. Framferði Danskra Frikorps-manna við gyðingadráp höfðu dönsk yfirvöld engan áhuga á. Flestir danskra Frikorpsmanna sem voru í Bobruisk voru sloppnir aftur út í þjóðfélagið eftir 1-2 ára vist í fangelsi. Tveir þessara manna voru þegar fundnir á lífi áður en rannsókn okkar Larsens fyrir Simon Wiesenthal Center i Jerúsalem hófst, og gengur annar þeirra, Helmuth Leif Rasmussen, frjáls ferða sinna um götur Kaupmannahafnar og hefur aldrei verið sóttur til saka fyrir þátttöku sína í gyðingamorðum í búðunum í Hvíta-Rússlandi. Hann hlær af fórnarlömbunum, m.a. þegar hann heldur því fram að hann hafi mestar áhyggjur af því að "vinir hans sem séu gyðingar snúi við sér bakinu" vegna upplýsinga um veru hans í búðunum í Hvítarússlandi.

Þegar íslenskur nasistaveiðimaður veiðir dönsk illfygli í dönskum skjalasöfnum er alltaf einhver aukaafli, fyrir utan kvótann. Ég hef þegar rekist á upplýsingar um íslenska nasista, þó ekki menn sem tóku þátt í gyðingamorðum í Waldlager við Bobruisk

Sonur forsetans

Þekktastur allra íslenskra nasista er líklega sonur fyrsta forseta lýðveldisins, sonur Sveins Björnssonar, Björn Sv. Björnsson. Um hann hefur verið rituð mikil ógrynni af efni í bókinni Berlínarblús, sem og í æviminningum Björns sem Nanna Rögnvaldsdóttir ritaði og sem út kom árið 1989. Nýlega birtist einnig grein á vefsíðunni Lemúrnum, þar sem birt voru áhugaverð gögn um Björn Sv. Björnsson sem ekki höfðu áður sést. Mesta furðu mína við lestur athugasemda við þá grein vakti það hve rómaður Björn Sv. Björnsson var meðal sumra samferðamanna sinna og nemenda.

Björn sýndi ófína takta á Stöng í Þjórsárdal árið 1986

Ég hef sjálfur mætt þessum manni tvisvar á ævinni. Fyrst sá ég hann ungur að árum þegar hann lék á fiðlu í uppsetningu óperettu í skóla á Seltjarnarnesi, þar sem annar hver söngvara söng rammfalskt. Afi mín og amma drógu mig og systur mínar með á þessa hörmung. Annað skiptið sem ég rakst á Björn var þegar hann kom sem fararstjóri með hóp þýskra ferðamanna að Stöng í Þjórsárdal, þar sem ég stýrði fornleifarannsóknum. Þetta var sumarið 1986.

Ég og 2-3 samstarfsmenn mínir voru önnum kafin við teikningar og ljósmyndun áður en rigning gerði vinnu okkar ófæra. Þegar Björn Sv. Björnsson, sem gekk með staf vegna bæklunar, hefur kjagað upp að Stöng, heimtaði hann með frekju og yfirgangi að ég héldi ræðu um rannsóknirnar fyrir þýsku ferðamennina. Ég segi honum fyrst mjög kurteislega að ég hafi ekki tíma til þess. Þá reiddist Björn, sem greinilega var vanur að fá það sem hann vildi þegar hann skipaði mönnum fyrir. Hafði hann í hótunum við mig um að hafa samband við Þjóðminjasafnið og Þjóðminjavörð og kæra mig. Ég sagði honum þá eftir stundarþögn, því fokið var í mig, að það væri honum velkomið að gera þar sem þessi rannsókn væri alls ekki á vegum Þjóðminjasafnsins, en ég gæti vitaskuld einnig sagt samferðafólki hans öll deili á honum og það á þýsku, sem og að ég teldi hann ekki vera Íslending. Við það lyppaðist karlinn niður og sagði ekki aukatekið orð, vappaði síðan um eins og særður fugl og haltraði niður hólinn. Rútubílstjórinn hans, sem varð vitni að ófyrirleitinni framkomu Björns í minn garð sem og erlendra samstarfsmanna minna, og blöskraði það, tjáði mér frá uppákomum á ferðum sínum með honum og sagði mér sögu af því hvernig Björn Sv. Björnsson hafði fengið hóp af þýskum gamlingjum til að syngja gamla nasistasöngva þegar hópurinn var staddur á Edduhótelinu í Skógum undir Eyjafjöllum.

Framkoma Björns Sv. Björnssonar á Stöng sýndi mér eðli þeirra manna sem heilluðust af nasismanum.

bjorn_og_roosevelt.jpg

Faðir Björns Sv. Björnssonar, Sveinn Björnsson forseti, ræðir við Franklin D. Roosevelt í Hvíta Húsinu árið 1945.

Sonur forsetans dæmdi mann til dauða

Við vinnu mína í Ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn, hef ég þegar rekist á nafn Björns í fjórum mismunandi dómsmálum. Í tveimur málum kemur hann við sögu sem settur útvarpsstjóri SS í danska Ríkisútvarpinu, þar sem hann hafnar vinnuumsókn eins manns. Í öðru máli gegn dönskum SS-manni kemur nafn hans fyrir á lista danska nasistaflokksins yfir Danska SS-liða, sem gengið höfðu i SS í Þýskalandi fyrir árslok 1943.

Það sem vakti þó mesta undran mína, m.a. vegna þess að það hefur ekki komið fram í ævisögu Björns eða öðrum bókum, er að að Björn Sv. Björnsson var skipaður í dómarasæti þann 30. apríl 1945 og dæmdi ásamt 2 öðrum SS-mönnum fyrrverandi danskan SS-mann til dauða fyrir liðhlaup og þjófnað:

"In der Strafsache gegen den dänischen Staatsangehörigen

SS-Rottenführer N.N.
Geb. 31.1.1915 in B...
SS-PZ. Gren. A.u.E. Batl. 11, Graz,

wegen Fahnenflucht u.a.,

hat das am 30. April 1945 in Kopenhagen zusammengetretene Feldgericht, an dem teilgenommen haben
                          als Richter:

SS-Hauptsturmführer und SS-Richter Dr. Espig, als Vorsitzer,
SS-Untersturmführer Björnson
SS Standarte "Kurt Eggers",
SS-Sturmann Dahlmann
SS-Standarte "Kurt Eggers", ...

...
für Recht erkannt:
Der Angeklagte N.N. wird wegen Kriegsverrats, Fahnenflucht im Felde, Preisgabe von Dienstgegenständen in 2 Fällen, Einbruchdiebstahls in 2 Fällen und wegen einfachen Diebstahls
                           zum Tode
Verurteilt, aus der SS ausgestossen und für wehrunwürdig erklärt."

fb4da183f75d.jpg

Björn Sv. Björnsson, dauðadómari og síðar fararstjóri

Dómurinn yfir liðhlauparanum frá Fjóni var staðfestur þann 3. maí 1945, deginum fyrir uppgjöf Þjóðverja, og var dómnum að öllum líkindum þess vegna ekki framfylgt.

Í Berlín var árið 1944 skrifað á eftirfarandi hátt um íslenska SS-manninn Björn Sv. Björnsson:

"Sem yfirmaður Kaupmannahafnardeildar herdeildarinnar [Standarte Kurt Eggers] hefur Björnsson liðsforingi unnið framúrskarandi starf í nýliðun Waffen-SS-sveitanna og aukið ítök í dönskum fjölmiðlum. Reyndist einnig vel í bardaga sem hermaður við innrásina í Sovétríkin. Er sonur núverandi forseta Íslands, sem ber að hafa sérstaklega í huga við mat á frammistöðu og verkum hans".

Nú vitum við, að hinn ólánssami sonur forseta Íslands var einnig reiðubúinn að dæma aðra ólánssama menn til dauða, og fóru létt með það. Það sýnir okkur að seint ber mönnum að treysta sjálfsævisögum og metsölubókum um nasista sem gefnar eru auðtrúa fólki sem jólagjafir.


Pabba kné er klárinn minn, en Hitler hann er foringinn

4558279179_bdd8fc230d_o.jpg

Aldamótaárið 1900 sat fimm ára, prúðbúinn drengur í matrósafötum og á sauðskinnskóm á hné föður síns, Þórðar Guðjohnsens (1844-1926) verslunarstjóra á Húsavík. Drengurinn hét Halldór Jóhannes Guðjohnsen.

Þórður gamli, Halldór sonur hans og tvær systur hans sátu fyrir er Frederick W.W.Howell kom við á einum af ferðum sínum um landið sem hann eilífaði í frábærum ljósmyndum, sem maður þreytist seint á að rýna í. Kannski var tilefni myndatökunnar að Þórður var að hætta kaupmennsku á Húsavík aldamótaárið 1900, og fluttist hann skömmu síðar til Kaupmannahafnar þar sem hann vann lítillega við verslun. Þar óx Halldór sonur hans úr grasi ásamt sumum systkina sinna og lærði samkvæmt íslenskum heimildum (hinni óskeikulu Íslendingabók) búfræði og varð síðar á ævinni titlaður framkvæmdastjóri.

Ljósmynd Howells af Þórði og börnum hans þykir mér meðal bestu mynda Howells frá Íslandi. Þær eru nú varðveittar í Fiske-safninu í bókasafni Cornell háskólans. Ég hafði svo sannarlega ekki búist við að finna neinar frekari tengingar við þessa ágætu ljósmynd, en stundum rekst maður á menn á myndum í mismunandi samhengi.

Síðustu vikurnar og næstu mánuðina sit ég á Ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn og stunda "nasistaveiðar" fyrir Simon Wiesenthal Stofnunina í Jerúsalem, sem Íslendingar bölsótuðust út í þegar stofnunin vildi lögsækja eistneskan morðingja sem hafði verið friðaður af íslenskum stjórnmálamönnum og eistneskum kollegum þeirra.

Þegar íslenskur örn veiðir dönsk illfygli fyrir alþjóðlega stofnun er alltaf einhver aukaafli, fyrir utan kvótann af vondum Dönum sem eru undir smásjánni. Ég hef þegar rekist á upplýsingar um löngu liðna íslenska nasista, sem ekki hafa birst í ritum um íslenska nasista, þ.e. í hinum annars ágætu ritum Berlínarblús eftir Ágúst Guðmundsson eða Íslenskum Nasistum eftir tómstundanasistaveiðarana Hrafn og Illuga Jökulssyni.

Íslenskur liðsmaður HIPO-sveitanna

Halldór Jóhannes Gudjohnsen (1895-1966) var einn af þeim sem heillaðist af nasismanum. Hann fékk 5 ára fangelsisdóm í borgarétti Kaupmannhafnar í lok janúar 1946 fyrir störf sín fyrir HIPO-korpset (Hilfspolizei), ET ("Efterretningstjenesten") sem var deild í HIPO-korpset, sem og fyrir deild C9 sem einnig var var kölluð Lorenzengruppen, og sem var botnlangi löðurmenna í HIPO-sveitunum. HIPO var sveit fúlmenna og lítilmenna sem unnu fyrir Þjóðverja við að herja á og myrða meðlimi dönsku andspyrnuhreyfingarinnar og til að brjóta niður hvaða mótþróa við Þriðja ríkið sem var. Sveitirnar muna menn mest eftir vegna óvenjumikils hrottaskaps þeirra, þegar þeir unnu skítverk fyrir setulið Þjóðverja í Danmörku.

hipo.jpg

Konan njósnaði í sporvögnum

Strax skal tekið fram, að Halldór Jóhannes Gudjohnsen var ekki í framvarðarliði HIPO-sveitarinnar sem barði á fólki. Málin þróuðust þannig að hann fékk vinnu hjá HIPO árið 1944 gegnum tengsl sem kona hans hafði, en hún var dæmd fyrir að vera Sporvognsstikker. Hún var með öðrum orðum launuð kjaftakerling, sem ók um í sporvögnum Kaupmannahafnar og hlustaði á allt það sem farþegar kynnu að segja ljótt um Þjóðverja og kom upplýsingum um það til Gestapo, HIPO eða annarra óþokka.

Halldór var hins vegar ráðinn til að kenna liðsmönnum Hipo leikfimi og Jiu-Jitsu sjálfsvarnarlist. Engar sögur fara af því hvar hann lærði þá list, en vart hefur það verið á Húsavík.

judo1.jpg

Liðsmenn Hipo-sveitarinnar voru hins vegar þekktar fyrir mest annað en sjálfvarnir. Barsmíðar á saklausu fólki og fólskulegar árásir þeirra voru þeirra sérgrein. Eitthvað hefur kennsla íslenskættaða Jiu-Jitsu meistarans hjá HIPO farið fyrir ofan garð og neðan.

Við yfirheyrslur hjá lögreglu eftir stríð, þegar Halldór hafði verið handsamaður, bar hann því við að hann hefði aldrei gert annað en að kenna leikfimi og Jiu-Jitsu. Þegar kom í ljós að mjög fáir sóttu þessa tíma Halldórs, nema skrifstofublækur HIPO, ákvað einn yfirmanna HIPO að Halldór skyldi sinna vaktskyldum á götum Kaupmannahafnar í einkennisbúning E.T., leyniþjónustu HIPO. Halldór þvertók fyrir að hafa gert það og sagðist hafa neitað að gera það með óbeinum líflátshótunum frá yfirmanni sínum fyrir vikið. Nokkur vitna í máli Halldórs höfðu hins vegar með vissu séð hann við þá iðju og í einkennisbúningi E.T. Halldór sagðist hins vegar hafa fengið það hlutverk ásamt rauðhærðum liðsmanni HIPO að svara símum fautanna á skrifstofum þeirra á aðallögreglustöðinni í Kaupmannahöfn. Þar sagðist hann einnig hafa tekið að sér, þegar símarnir voru ekki rauðglóandi af klögumálum nasista, að hreinsa og smyrja byssur Jørgens Lorenzens sem eftir stríð var dæmdur til dauða og síðar til ævilangrar fangelsisvistar. Vitni upplýstu hins vegar að Halldór hefði einnig kennt vopnaburð og meðferð skotvopna hjá HIPO. Önnur vitni töldu einnig öruggt, að Halldór hefði tekið það að sér rétt fyrir stríðslok að brenna og eyða gögnum um HIPO sveitirnar.

154077911-20120223-135053-6.jpg

Danskir HIPO-liðar. Margir þeirra voru dæmdir til dauða.

Ekkert verra sannaðist upp á Halldór Jóhannes Guðjohnsen - fyrir utan að andspyrnumaður einn í úthverfi Kaupmannahafnar, þar sem Halldór bjó ásamt konu sinni og tveimur börnum, upplýsti yfirvöld um að nágrannar Halldórs hefðu sagt sögur af honum og seðlabúntum með 100 krónu seðlum, sem Halldór var sagður veifa framan í fólk til að sýna því hve vel maður gat þénað í þjónustu sinni fyrir nasismann og Þýskaland, sem hann studdi heils hugar samkvæmt yfirheyrsluskýrslum dönsku lögreglunnar. Vel launaður var hann vissulega í þessu óheppilega starfi sínu. Þegar lögreglan ætlaði að hafa hendur í hári mannsins sem stærði sig af seðlum sínum, kom í ljós að hann sat þegar inni, og kona hans einnig. Þegar lögreglan hringdi í heimasíma Gudjohnsens fjölskyldunnar í Rødovre, svaraði dóttir þeirra hjóna og upplýsti að báðir foreldrarnir sætu í steininum.

Líkt og margir minniháttar nasistar í Danmörku var Halldór sýknaður ári eftir að hann var dæmdur til 4-5 ára fangelsisvistar. Fyrir landráðið sat Halldór því ekki meira en rétt rúm 2 ár.

Lýk ég þessum pistli um áður óþekktan, íslenskan nasista með ljósmynd af einum af liðsmönnum HIPO sem er að sparka mann til óbóta. Ólíklegt þykir mér að óþokkinn sá hafi lært brögð af Jiu-Jitsu meistara HIPO, Halldóri Jóhannesi Guðjohnsen. En hvað þykir ykkur góðu landar, kunnið þið Jiu-Jitsu?

1208062.jpg


Rannsökum nasistana í Sjálfstæðisflokknum!

nasistarreykjavik.jpg

"Það hefur verið farið með stjórnmálastarfsemi hinna íslenzku þjóðernisinna sem feimnismál og enginn virðist hafa haft áhuga á því að fara nánar ofan í tengsl manna hér á Íslandi við Þýzkaland á þessum árum."

Svo skrifaði Styrmir Gunnarsson á bloggi sínu í dag. Ekki held ég að þetta sé alls endis rétt hjá Styrmi. Þór Whitehead hafur skrifað býsnin öll og líka um íslenska nasista, en mest hefur hann skrifað sína styrjaldasögu út frá íslenskum, breskum og bandarískum heimildum. Jökulssynirnir, þeir Hrafn og Illugi hafi skrifað góða bók um Íslenska nasista (meðlimi Flokks Þjóðernissinna) án þess þó að geta heimilda, og  Ásgeir Guðmundsson hafi velt fyrir sér íslenskum nasistum í grein og bók sinni Berlínarblús, en einnig með takmarkaðri komu í erlend skjalasöfn.

9a8b3490ed04f8484e3918dc0f291e25.jpg

ec700bccc3e330886e39722353c0b752.jpg

78487821_10157164795676843_8128157480908750848_oHver varð að lokum "móðurflokkur" þessara manna? Draumkennd áadýrkun og ást á brjóstvöðvum 1942. Sólkrossinn á skildinum, sem t.d. norskir nasistar notuðu, sómdi sér nýlega á einkaþotu Björgólfs Thors.

Ekki tel ég þó að þessir aðilar og aðrir sem hafa skrifað hér og þar um íslenska nasista hafi ekki misst af svo miklu í Þýskalandi. Þar er ekki um auðugan garð að gresja þegar kemur að upplýsingar um áhuga þýskra nasista og yfirvalda á Íslandi eftir 1933. Margt eyðilagðist kannski í stríðinu og tengsl íslenskra manna við flokk og foringja í Þýskalandi voru líka takmörkuð. Það er ekki eins og rjómi þjóðarinnar hafi verið meðlimir í Flokki þjóðernissinna á Íslandi. Sumir af þessum körlum voru ótíndir tukthúslimir og innbrotsþjófar. Afi Jón Geralds Sullenbergers, Gunnar Jóelsson, var t.d. einn þessara manna og með honum í slarkinu var Haukur Mortens. Þeir félagar reyndu eitt sinn lukkuna með því að gerast laumufarþegar (sjá hér og hér).

nazi-march-reykjavik-iceland.jpgÞað voru helst menningarlega þenkjandi Þjóðverjar, og margir þeirra nasistar, sem höfðu áhuga á Íslandi. Íslendingum sem tengdust félaginu Germaníu eða sem meiri eða minni nasistar gengu í Nordisches Gesellschaft var boðið til Þýskalands, þættu þeir nógu áhugaverðir. En Þýskaland sem lagði kapp á að byggja upp hernaðaráform sín vörðu takmörkuðu fé í Ísland og settu t.d. lok á fyrirhugaðar rannsóknir á Íslandi á vegum Ahnenerbe-SS sumarið 1939.

Þjóðverjar búsettir á Íslandi voru vitanlega margir hverjir gargandi nasistasvín, en þó ekki í betri samböndum við Das Vaterland en íslensku nasistarnir.

Sem bein tengsl við Þýskaland má nefna ferðir sem ýmsum Íslendingum var boðið í. Gunnar Gunnarsson hitti Hitler. Öðrum sem boðið var var María Markan, Stefán Islandi, Jóns Leifs, Guðmundur Kamban (sjá greinar mínar Kamban er ekki hægt að sýkna og Kamban og Kalkúnninn). Guðmundar frá Miðdal, rektorar HÍ Alexander Jóhannesson rektor og Níels Dungal og fleiri aðdáendur þýskrar menningar. 

Því er haldið fram að þetta fólk hafi ekki verið nasistar, en það hreifs með að mikilli áfergju. Matthías Þórðarson þjóðminjavörður og þingmaður fékk sent mikið magn af alls kyns áróðursefni frá Berlín. Því var vísvitandi eytt af Þór Magnússyni hér um árið þegar tekið var til í skjalasafni Matthíasar (sjá grein mína Þegar Matthíasi var hent á haugana). Mér tókst að bjarga örlitlu broti af nasistableðlunum sem Matthías fékk. Það verður að leita á öskuhaugunum til að finna restina.

Hvað varðar tengsl flokksbundinna íslenskra nasista við móðurflokkinn er ljóst, að hinn kynlegi kvistur Eiður Kvaran fékk einhvern stuðning frá móðurapparatinu í Þýskalandi fyrir "vísindastörf" sín (sjá niðurstöður rannsókna minna á sögu hans og félaga hans í greininni Heil Hitler og Hari Krishna). Einstaka nasisti var einnig betur gefinn en meirihlutinn í flokknum. Nasistinn Davíð Ólafsson er sagður hafa stundað nám í hagfræði í Þýskalandi, en því lauk hann aldrei, þótt því sé haldið fram af vefsíðu hins háa Alþingis (sjá grein mína Próf seðlabankastjóra, alþingismanns og nasista).

davi_lafsson_og_flaskan.jpg

Davíð kyssir bokkur með félögum úr áður en hann hélt til Þýskalands til "náms".

Hann hafði þó aldrei fyrir því að segja okkur um samskipti sín við nasista í Þýskalandi. Þeir gáfu honum ekki einu sinni titil á pappír fyrir heimsóknina.

"Foringinn" og Þýskaland

Gísli Sigurbjörnsson í Ási (einnig kenndur við Grund), einn af foringjum íslenskra nasista, skrifaði örugglega einhver bréf til kollega sinna í fyrirheitna landinu, en hvar þau eru niður komin er engin leið að vita. Sjálfur brenndi hann bréfasafn sitt frá þessu tíma líkt og flestir flokksbræður hans og stuðningsmenn. Þýska utanríkisþjónustan hefur ekkert um hann og heldur ekki Bundesarchiv. Ég hef heldur ekkert fundið sem vísað gæti til skrifa Knúts Arngrímssonar við yfirvöld í Þýskalandi. Ég hef leitað.

litli_ariinn.jpg

Árið 1938 útvegaði Gísli í gegnum sambönd sín við Þýskaland, þjálfara fyrir Knattspyrnulið Víkings.

En er ekki fremur hlægilegt að fyrrverandi ritstjóri blaðs sem birti minningargreinar um Gísla í Ási sé að biðja um rannsókn á tengslum hans við Þriðja ríkið, þegar ekkert kom fram um nasisma Gísla í minningargreinum um hann í Mogganum árið 1994. Afneitunin var algjör. Hvað veldur áhuganum nú? Er Styrmir að reyna að skaffa ríkisstyrk handa einhverjum ættingja til að stunda "rannsóknir" við HÍ?

Guðbrandur "Bralli" Jónsson

bralli.jpgMenn eins prófessor Guðbrandur Jónsson, sem ekki voru flokksbundnir, en heilluðust af Hitler, voru líklegar beintengdari við Þýskaland en pörupiltarnir og slagsbræðurnir í Þjóðernissinnaflokk Íslands sem síðar urðu margir hverjir góðir Sjálfstæðismenn. "Bralli", sem af einhverjum furðulegum ástæðum taldi sig vera krata, var einn þeirra sem dreymdi um að gera þýskan prins og nasista að konungi Íslands.

Var Guðbrandur óspart notaður til Þýskalandstengsla, t.d. þegar vinur hans Hermann Jónasson vildi varpa gyðingum úr landi. Þá þýddi Guðbrandur bréf yfir á þýsku, þar sem dönskum lögregluyfirvöldum var sagt hvað þau ættu að gera við gyðingana ef Danir vildu ekki sjá þá (Sjá bók mína Medaljens Bagside (2005) sem má fá að láni á íslenskum bókasöfnum sunnan og norðan heiða). Guðbrandur hafði fyrr á öldinni starfað fyrir utanríkisþjónustu Þjóðverja. Stærra idjód hefur víst aldrei fengið prófessorsnafnbót á Íslandi fyrir ekkert annað en að vera sonur föður síns. Stórmenntaður gyðingur, Ottó Weg (Ottó Arnaldur Magnússon) fékk hins vegar aldrei vinnu við neina menntastofnun á Íslandi (Sjá grein mín Gyðingar í hverju húsi).

Í skjalsöfnum Danska utanríkisráðuneytisins má sjá hvernig Danir fylgdust grannt með Íslendingum, sem utanríkisþjónustunni þótti hafa of náin sambönd við nasista. Það hef ég skrifað um á bloggum mínum. En í skjalsöfnum í Kaupmannahöfn eru ekki heimildir finna um íslenska flokksbundna nasista nema Gísla í Ási (Grund).

Styrmir telur Ísland nafla alheimsins líkt og margur landinn

Mig grunar að Styrmir Gunnarsson falli í vangaveltum sínum í þann hyl sem margir Íslendingar eiga það til að drukkna í í heimalningshugsunarhætti sínum. Þeir halda að Íslandi hafi veið eins konar nafli alheimsins sem allir höfðu og hafa áhuga á.

Vissulega höfðu Þjóðverjar og sjálfur Hitler áhuga á Íslandi, hernaðarlega séð, en ekki fyrr en mjög seint (sjá hér). Í dönskum skjalasöfnum hef ég fundið upplýsingar um að enginn áhugi hafi verið hjá Þjóðverjum þegar ruglaður Íslendingur í Kaupmannahöfn bauð Þjóðverjum bóxítnámur og hernaðaraðstöðu á Íslandi (sjá hér), en Þjóðverjar töldu manninn snarruglaðan. Danir ákváðu að ákæra Íslendinginn ekki þó hann hefði oft gengið á fund þýsks njósnara sem þeir dæmdu til fangelsisvistar, manns sem ég hef sýnt fram á að hafi viðurkennt það árið 1945 að hafa myrt Karl Liebknecht árið 1919 (sjá neðarlega í þessari grein)

Guðmundur Kamban, sem naut góðs af nasistaapparatinu, þó hann væri ekki skráður í flokkinn svo vitað sé. Hann elskuðu Þjóðverjar vegna þess að hann var menningarfrömuður sem Þjóðverjar elskuðu að sýna sem vini nasismans. Kamban gerðist líka aðalsérfræðingur Flokksins í miðaldakalkúnum (sjá sjá greinar mínar Kamban er ekki hægt að sýkna og Kamban og Kalkúnninn). Reis þar líklegast hæst virðuleiki Íslendinga í Þriðja ríkinu, fyrir utan ferð Gunnars Gunnarsson til Þýskalands og Hitlers árið 1940.

gunnar_hittir_hitler_1a_lille_1172715_1260921.jpg

Þessa mynd og aðrar af Gunnari í ferð sinni fyrir nasistaflokkinn í Þýskalandi vill Gunnarstofa á Skriðuklaustri ekki sýna gestum sínum, og heldur ekki FB síðan Gamlar Ljósmyndir, sem stjórnað er af gömlum harðlínustalínista og mönnum sem komnir eru af karlinum sem seldi Gunnari Skriðu. Allir afneita því að Gunnar hafi verið nasisti. Það er sjúkleg afneitun.

Nasistar eru að kjarna til mjög hlægilegt lið. Ekki ósvipað ISIS og baklandi þeirra morðingja í dag. En hlægilegt fólk getur vissulega líka verið hættulegt, eins og mörg dæma sanna.

En þegar stór hluti Flokks Þjóðernissinna var ósendibréfsfær hópur götustráka með drykkjuvandamál, og einstakra sona velmegandi Dana á Íslandi og íslenskra kvenna þeirra, er líklegast ekki um auðugan garð að gresja fyrir þá sögu sem Styrmir vill sjá og hvetur Illuga Gunnarsson til að veita fé í.

Eins og Illugi sé ekki búinn að gera í nóg í buxurnar með dauðanum í moskunni Feneyjum. Margt gott hefur þegar verið skrifað um íslenska nasista af leikum sem lærðum, og heyri undan mér að á Íslandi sé blaðamaður að skrifa ekki meira né minna en 800 síðna verk um stríðárin. Kannski verður það betra en það sem sagnfræðingar hafa boðið upp á. Hann leitar samt grimmt í smiðju sérfræðinga og heimtar að fá efni hjá þeim lærðu sér að kostnaðarlausu. Ég hef látið hann hafa efni, en sé eftir því, því ugglaust þakkar hann ekki fyrir stafkrók af þeim upplýsingum eða þær myndir sem ég hef látið honum í té.

Nasistar og Sjálfstæðisflokkurinn

En Styrmir gerir á bloggi sínu einfaldlega of mikið úr þessum drulludelum sem þrömmuðu um götur Reykjavíkur á 4. áratugnum, en urðu síðar góðir þegnar í Sjálfstæðisflokkunum.

Nær væri fyrir Sjálfstæðisflokkinn, ef prófessor Hannes Hólmsteinn Gissurarson gerir það ekki af sjálfsdáðum, að flokkurinn veitti eigið fé í að skoða sögu áhrifa nasistanna í Sjálfstæðisflokknum og gera upp við þá fortíð sína, þegar gyðingahatarar, ofstopamenn og jafnvel svikahrappar gengu í flokkinn; Að það verði með rannsóknum skýrt hvernig "fyrrverandi" nasistar gátu orðið að flugmálastjórum, bankastjórum og lögregluyfirvaldi.

Ég man svo heldur ekki betur en að nasistar sjálfir hafi haldið því fram að Gísli Sigurbjörnsson hafi stofnað nasistaflokkinn í bróðurlegu samstarfi við Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins (sjá hér). Ætli til séu heimildir um það í Valhöll? Eða ríkir þar líka afneitunin ein líkt og hjá mörgum íslenskum kommum?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband