Kirkjugarðspistill

Dómkirkjan Mackenzie

Svo allur dagurinn í dag fari ekki í fótboltamikilmennskukjaftæði og kosningageðklofa langar mig að benda mönnum á að lesa góða fréttaskýringu eftir Guðmund Magnússon fyrrv. settan þjóðminjavörð í Morgunblaðinu (bls. 15). Þar greinir Guðmundur frá þeim athugasemdum sem bárust við deiliskipulag vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar í Víkurgarði hinum forna.

Besta röksemdin fyrir því, að ekki sé mögulegt að byggja hótel á því svæði sem hinn forni kirkjugarður var á, er bann ríkistjórnar Íslands árið 1966 við að stækka hús og raska garðinum. Það bann var sett árið 1966. Það fylgir þó ekki sögunni, hvort ríkisstjórnin hafi þá vitað hve stór reiturinn var. En það skiptir sennilega engu máli. Það bann er enn í gildi nema að finnist skjal sem sýni að ákvörðunin hafi verið dregin til baka.

Allir heilvita menn þurfa ekki að heyra frekari rök. Ekkert hótel getur risið á þessum stað, ef farið er að landsins lögum. En það er nú farið að verða æ sjaldgæfara - líkt og þegar siðareglur á Íslandi virðast ekki gilda fyrir þá sem þær búa til.

Í fréttadálk við hliðina á skýringu Guðmundar Magnússonar er haft eftir síra Þóri Stephensen, að "kirkjugarðar séu bænastaðir" og að "helgi grafreita sé alþekkt í flestum trúarbrögðum og á öllum tímum." Vafalust er það rétt, nema það sem menn bera lík út á stikur og bíða þess að illfygli kroppi í sig leifarnar sem ekki fara til guðs/-a. Hrægammarnir sjá víst líka um að fljúga með sálina til guðanna. Það er því ekki bara á Íslandi að hrægammar eru taldir gera gagn.

IMG_8433

Ónákvæm rista af fyrstu dómkirkjunni í Reykjavík. Kirkjan var vígð var árið 1796. Teikningin birtist hugsanlega fyrst í dagblaðinu Daily Mirror í Lundúnum, en þessi rista er gerð eftir henni og birtist í hollenskri bók sem kom út árið 1848 og sem  langalangafi minn átti. Kirkja þessi, sem var mjög illa byggð, var rifin þegar núverandi dómkirkja var byggð árið 1848. Áður en þessi kirkja var reist var lítil kirkja í miðjum Víkurkirkjugarði. Hún var rifin árið 1789. Þessi mynd  er líklega gerð með hliðsjón af eldri ristu, líklega þeirri sem fremst er í þessari grein. Hún birtist í bók Georges Steuarts Mckenzies, Travels in the Island of Iceland, in the Year of 1810, sem út kom árið 1814.

Lítið fer nú fyrir þeirri helgi nú orðið t.d. í lútherskum löndum, t.d. Norðurlöndunum, þar sem heilu kirkjugarðarnir eru ruddir í burtu og leiði afhelguð og nýtt fyrir nýja "kúnna" þegar þeir deyja Drottni sínum.

"Character indelebilis" sem á Íslensku þýðir "óafmáanlegt kennileiti" er nú fyrst og frem kaþólska, sem meira segja kaþólikkar fylgja ekki að fullu. Því meðal kaþólikka ríkir tvískinnungurinn um grafarhelgi einnig. Meðal eingyðismanna framfylgja gyðingar einir helgi grafreita 100% með örfáum undantekningum. Þeir líta á grafreiti sína sem Beit Chaim, hús lífsins, að eilífu. Fólk sem tilheyrir öðrum trúarbrögðum í Evrópu hefur hins vegar verið iðið við að eyðileggja grafreiti gyðinga. Í Litáen vilja yfirvöld byggja mikla Evrópu-ráðstefnuhöll ofan á helsta grafreit gyðinga í Vilníus og brjóta þannig helgan grafarrétt gyðinga. En þeir keyptu sér afnot af á grafreitnum til eilífðarnóns. Litáar, sem margir eru kaþólikkar, vita greinilega ekki hvað character indelebilis er.

Reykjavík 1801Reykjavík sýnd á korti Ohlsens og Aanums. Dómkirkjan fyrri er lituð rauð efst á myndinni og merkt með sem númer 1. Víkurgarð sjá menn í sinni stærð árið 1801 á ljósgræna reitnum sem ber númerið 26. Þó hann virðist ekki stór þarna miðað við stærð frekar lítillar 1. dómkirkju er ekki útilokað að hann hafi verið stærri á fyrra stigi.

Character indelebilis var á Miðöldum fyrst og fremst kaþólska í reynd, og getur því vissulega átt við marga þá einstaklinga sem grafnir eru í Víkurgarði sem greftraðir voru fyrir siðbót. Samt finnst mér að íslenska þjóðkirkjan eða prestar hennar ættu nú síst að vera að gera sig að siðapostulum hvað varðar kirkjugarða og grafarhelgi, meðan þeir hafa til fjölda ára staðið í því að slétta kirkjugarða, þannig að íslenskir garða minna einna mest á kirkjgarða við bænahús ofsatrúarmanna á sléttum Bandaríkjanna. Með þeirri sléttunarherferð sem farið hefur fram með blessun fjölda biskupa og annarra innvígðra klíkukalla og kvenna á Ísland er í raun verið að trufla hinn heilaga grafarfrið. Character indelebilis er því ekki við lýði á Íslandi eins og sr. Þórir Stephensen álítur.

Þótt fornleifafræðingar hafi grafið í kirkjugarðinn og fjarlægt þaðan  bein, er ekkert því til fyrirstöðu  að þau verði grafin þar aftur að lokinni ítarlegri rannsókn á beinunum , sem yfirvöld verða að framfylgja hið fyrsta með tilheyrandi kostnaði. Þess var t.d. krafist í York á Englandi þar sem fannst grafreitur gyðinga frá miðöldum. Gyðingar mótmæltu strax rannsókninnir og truflun grafarfriðarins. Því var ekki sinnt og olli það miklu fjaðrafoki. Að lokum var beinunum komið aftur fyrir í gröfunum, en þau voru rannsökuð mjög ítarlega en ekki tókst að fá leyfi fyrir DNA-rannsóknum. Að kvöldi þess dags sem beinin voru aftur lög til hinstu legu, undir bílastæðahúsi sem þar átti að rísa, varð eldsvoði í Dómkirkjunni í Jórvík sem olli þó nokkrum skemmdum. Hafði breski fornleifafræðingur Philip Ratz það á orði að "þar hefðu sumir talið að hefnd gyðinganna í garðinu vegnar röskunar á friði þeirra hafi brotist út í ljósum logum ".

Sömuleiðis er frekar fyndið að sjá að á meðal andmælanda hótelbyggingarinnar er einn af helstu framleiðendum gervihúsa í "gömlum stíl", Hjörleifur Stefánsson. Í túristaklondæk miðborgar Reykjavíkur, þar sem annað hvert hús er hótel, eru til mörg slys eftir hann. Það eru húsaskrípi sem minna á endurgerðir húsa í DDR eftri Síðara stríð. Þjóðverjar endurreistu gjarna mjög groddalega það sem þeir áttu fyrir stríð. Íslendingar hafa nú byggt svo mörg gervifortíðarhús að halda mætti að hér hefði nýlega geisað borgarstyrjöld.

Sama hvað örlögum Reykjavíkur líður og nauðgun miðbæjarins. Þá er ekki hægt að fara fram hjá ákvörðun Ríkisstjórnarinnar frá 1966 sem bannar frekari byggingar í Víkurgarðsreit.

Þar fyrir utan verður að teljast eðlilegt að íslenskir arkitektar fari að nú að læra listræna sýn, æstetik, og fá auga fyrir sjónsköðum sem margar byggingar þeirra valda. Þessi hótelfjandi  sem sumir vilja troða niður við Austurvöll eins og of stórum Legó-kubbi sem ekki kemst fyrir, svo og aðrir hótelkassar sem er verið að reisa út um allan bæ, eru úr ALGJÖRU samhengi við það sem fyrir er.  Gervihús endurreisnar-Hjörleifs falla að minnsta kosti oft að heildarmynd bæjarins, en  glerhallirnar eru aðskotahlutir, sem er mjög sárt að sjá eyðileggja sál hins litla miðbæjar Reykjavíkur og jafnvel skyggja á útsýnið til Esju.

Svo er það Grágás

Að lokum langar ritstjórn Fornleifs að benda mönnum sem takast á um Víkurgarð, á þá staðreynd að Grágásarákvæði um flutning beina eiga víst einnig enn við að vissu marki þó smalar séu nú í ráðhúsi Reykjavíkur en ekki að grafa upp mannabein til flutnings, enda voru ekki til hótel eða japanskir ferðamenn þegar Kristinna Laga þáttur Grágásar var tekinn saman:

Þar er maður vill bein færa, og skal landeigandi kveðja til búa níu og húskarla þeirra, svo sem til skipsdráttar, að færa bein. Þeir skulu hafa með sér pála og rekur. Hann skal sjálfur fá húðir til að bera bein í, og eyki til að færa. Þá búa skal kveðja er næstir eru þeim stað er bein skal upp grafa, og hafa kvatt sjö nóttum fyrr enn til þarf að koma, eða meira mæli. Þeir skulu koma til í miðjan morgun. Búandi á að fara og húskarlar hans þeir er heilindi hafa til, allir nema smalamaður. Þeir skulu hefja gröft upp í kirkjugarði utanverðum, og leita svo beina sem þeir mundu fjár ef von væri í garðinum. Prestur er skyldur að fara til að vígja vatn og syngja yfir beinum, sá er bændur er til. Til þeirrar kirkju skal bein færa sem biskup lofar gröft að. Það er rétt hvort vill að gera eina gröf að beinum eða fleiri...(Byggt á Grágásarútgáfu Vilhjálms Finsens 1852). (sjá meira hér).

Deginum ljósara er, að gleymst hefur að stenkja vígðu vatni á beinin sem flutt voru úr Víkurgarði af fornleifafræðingum. - Hver skrambinn? Vonandi verður sá tæknilegi galli ekki til þess að hótelspekúlantar misnoti Grágás í röksemdafærslum sínum við borgaryfirvöld.

Nei, ætli það?? Peningarnir hafa þegar talað og Dagur Draumur er löngu orðinn að nátttrölli peningaaflanna eins og aðrir íslenskir vinstrismenn? Ég hugsa oft til græðginnar í þeim arkitektum sem teikna hús í gömlum stíl á þremur hæðum með tvöföldu gleri. Í höfði þeirra er listin að græða hærri öllum kúnstum. Ást þeirra á þeim dauðu er þó athyglisverð þegar haft er í huga að flestir eru þessir pótentátar algjörlega gvöðlausir svona dags daglega.


Fornleifur og frægasta fólkið á Ægisíðu 96

Fræga fólkið

Kona ein í Reykjavík fór fyrr í ár til tannlæknis. Á biðstofunni reif hún þessa frétt hér að ofan út úr kjaftableðlinum Heyrt og Séð eða Séð og Heyrt - eða hvað sem það nú heitir. Konan vissi nefnilega, að í þessu fræga húsi á Ægisíðu 96 hefði búið annað fólk og miklu betra en það sem er nefnt til sögunnar í litríka slúðurblaðinu sem kom út einhvern tíma fyrr í ár (2017).

Enn frægara fólk og andríkara bjó þarna í húsinu á árum áður. Meðal annarra ritstjóri Fornleifs, sem ól manninn þarna fyrstu ár ævi sinnar. Það var í kjallaraíbúðinni og hann horfði oft suður á Bessastaði úr eldhúsinu. Foreldrar Fornleifs keyptu íbúðina af Sigurþóri Jónssyni úrsmiði (í Aðalstræti 9) sem lét byggja húsið. Þótti þetta frá upphafi mjög veglegt hús.

Meðan að foreldrar mínir áttu íbúð í húsinu, og áður en við fluttum austar í bæinn árið 1963, bjó í þessu húsi venjulegt fólk og sumt nokkuð frægt. Á fyrstu hæð bjó leigubílstjóri sem hét Jón Vilhjálmsson. Á annari hæð bjó Magnús Kristinsson sem átti fatahreinsunina Björg, sem fyrst var til húsa á Sólvallagötu og síðar í Hlíðunum, en Björg er betur þekkt í dag við Háaleitisbraut og í Mjódd. Hver hefur ekki fengið óþægilega bletti fjarlægða hjá Björg? Þegar ég var var eins árs kynntist ég Magnúsi í Björg og þótti mikið til hans koma enda var Magnús alltaf með hatt og vitanlega mjög hreinlegur. Kallaði ég hann Masús. Eldra fólk sem man fyrir Fornleif telur að Masús hafi verið eitt af fyrstu orðunum sem ég sagði. Enda var Masús frægur og frægð hans tandurhrein og ekki stráð blettum eins og hjá þeim sem bjuggu þarna löngu síðar.

Í risinu á Ægisíðu bjó einnig á 6. áratugnum einhleyp kona sem vann í einhverju ráðuneyti. Kann ég engin deili á henni.  Síðar frétti ég að íslenskur maður kvæntur franskri konu, sem áttu að því mig minnir tvær dætur, hefði eftir tíð foreldra minna við Ægisíðuna, búið í hinni frægu kjallaraíbúð á Ægisíðu 96.

Greinilega var þetta allt merkara, ríkara og frægara fólk í þessu húsi en það lið sem skammtímaþekking blaðasnápanna á slaðurblaðinu rekur minni til. Enda eru þeir allir fæddir í gær og hver öðrum vitlausari eins og kunnugt er. Það sést bezt við lestur þessara bleðla.

Fiskabur 1957b

Fjarskyldar frænkur að dást af fiskabúrinu árið 1957. Dóttir einnar þeirra er nokkuð fræg líka.

Frægustu íbúar á Ægisíðu 96 voru 100 gullfiskar

Í kjallaraíbúðinni á Ægisíðu 96 var um tíma stærsta gullfiskabúr landsins í einkaeigu. Það lét faðir minn smíða og kom fyrir við innskot á vegg í stofunni. Gengt var aftan við gullfiskaaltari föður míns og bambusveggur eða rammi utan um það og útvarpsviðtæki fyrir neðan. Bak við Bambusvegginn gat faðir minn svo hreinsað búrið sem stóð á járngrind mikilli. 

Margir komu til að sjá þetta merka fiskeldi. Meðal annars kettir nágrannanna, einhverra Thorsara, sem bjuggu þarna nærri. Kötturinn fékk nafnið Ólafur Thors. Hann horfði hugfanginn á gullfiskana og lét sig dreyma Kveldúlfsdrauma. Hér fyrir neðan er mynd af búrinu og Ólafi Thors. Örlög fiksabúrsins, sem var smíðað fyrir föður minn í Landssmiðjunni, urðu svo þau að það flutti með föður mínum í nýtt hús foreldra minna og var pabbi síðast með tvö pör af bardagafiskum í því. Blá og grá hjón mjög skapstygg, sem settu sér ósýnileg landamæri, sem þau fóru ekki yfir nema að hin hjónin réðust á þau. Síðan gaf pabbi skátafélagi í Hafnarfirði búrið og var ég með í för þegar það var flutt þangað. Þar vann maður sem síðar var með Sædýrasafnið sáluga, og sá faðir minn síðast búrið sitt þar, löngu áður en að óður shimphansi reif þar fingur af dreng og sporðrenndi eins og frægt er orðið.

Fiskabúrið á Ægisíðu skákar öllum hvæsandi og kynæsandi kaffivélunum hans Sveins Andra svo ekki sé minnst á nuddrúm Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í risinu. Kettirnir við Ægisíðuna mjálma enn um hina 100 girnilegu gullfiska í kjallaranum á Ægisíðu 96. Þeir halda sumir að það sé bölvað breimavæl, en gullfiskarnir voru nú þarna og horfðu á frægu kettina í um áratug.

Olafur Thors Ægisíðu 96 b

Ólafur Thors situr á Arne Jacobsens-kolli (mublurnar hafa nú aldrei verið dónalegar á Ægisíðu 96) að hlusta á fréttir og hugsa um útgerð í lauginni á bak við bambussefið.

Frægt er nú orðið að á Ægisíðu 96 bjó ritstjóri Fornleifs, og með honum miklu "ríkara" og hamingjusamara fólk heldur en fyrrverandi innanríkisráðherra eða netpimparinn Steini Frikk hjá Vanilla Plain, ellegar hinn hraðskreiði lögfræðingur, sem nú teljast vera "ríka og fræga fólkið" á Íslandi. Frægt af endemum og "ríkt". Það getur ekki einu sinni fundið sér maka nema í gegnum tölvu. Ætli Icehot1 sé orðinn kúnni hjá Vanillu-Steina?

Ég lýk þessari frásögu um fræga fólkið á númer 96 við Ægisíðuna með ambögu sem bróðir ömmu minnar, Helgi sálögi Þórðarsson ritaði í gestabók foreldra minna á Ægisíðunni er hann kom þar í heimsókn í janúarbyrjun árið 1956. Þrátt fyrir þessa vísu verður að geta þess að Helgi var ágætt skáld þegar vel viðraði, þótt lesblindur væri. Vona ég að einhver ættingja hans hafi erft vísurnar hans, sem hann krotaði stundum í litar vasabækur en ætlaði sér ekki til útgáfu:

Aegisida 96

 

Brúðkaupsdagsins röðull rís

meigi blessast ykkar tíð

á 96 Ægisíð

 

 

Ljósmyndirnar þrjár sem fylgja blogginu voru teknar af Erlu Vilhelmsdóttur.


Zweig og tveir íslenskir skallar

120827_r22467_g2048

Um síðustu helgi dreif ég mig í tvöbíó á Grand Teater í Kaupmannahöfn til að horfa á kvikmyndina Farewell to Europe. Myndin er afar litrík og heimildatrú innsýn í síðustu ár rithöfundarins Stefans Zweigs. Grand Teater er líka ágætt bíó. Þar má t.d. ekki éta pop corn.

Bíóið er hins vegar jafnan stútfullt af gömlum hommum, sem og ekkjum og ekklum í leit að síðbúnum tangó - eða sjálfum sér. En einhvers staðar verða vondir að vera. Ég var nú bara í bíó með konunni minni og er enn ekki kominn með Alzheimer. Leið eins og unglingi á mynd bannaðri börnum.

Síðan ég tók alla mögulega og ómögulega áfanga í þýsku í MH, á síðustu öld, hef ég átt auðvelt með að lesa þýsku, jafnvel flókna lagatexta. Ég hef setið á skjalasöfnum í Berlín, mér til mikillar ánægju. En þrátt fyrir "afburðarskilning" minn á þýsku, hefur mér alltaf þótt erfitt að líta á Zweig sem þá hetju og mikilmenni sem aðrir sjá í honum. Líka þegar ég les Veröld sem var á íslensku. Þeir sem álíta að Zweig hafi verið "Europeanisti" og "Internationalisti" leggja líka allt annan skilning í þau orð en Zweig gerði sjálfur, ef hann hefur yfirleitt velt þeim fyrir sér. Ég leyfir mér að þýða þessi orðskrípi ekki yfir á íslensku til að valda ekki ónauðsynlegum misskilningi.

Mér fannst kvikmyndin Evrópa kvödd (staðfesta þessa skoðun mína, sem er þó líklega aðeins staðfesting á því að ég hafi aldrei skilið þennan mikla rithöfund eins vel og allir aðrir. Konan mín sem líklega hefur lesið meira en ég eftir Zweig, en á dönsku, þekkti ekki endalok hans fyrr en hún sá kvikmyndina en taldi myndina sýna einlægan, lítillátan og fórnfúsan mann í Zweig. Ég nenni ekki lengur að rífast um slíkt, enda kona mín miklu betur og meira lesinn en ég í heimsbókmenntunum.

Myndirnar efst af Zweig segja heldur ekki allt, en ég valdi þær til að leggja áherslu á mína skoðun á Zweig sem veikgeðja súperegóista, sem var þóknunargjarn við ríkjandi stefnur. Það kemur svo vel fram í kvikmyndinni, þar sem hann segir þátttakendum á PEN-ráðstefnunni í Buenos Aires að hann telji ekki hlutverk sitt að gagnrýna Þýskaland nasismans.

En, ég hef aldrei talið fólk sem fremur sjálfsmorð þegar ekki er brýn nauðsyn til þess, lítillátt. Rannsóknir sýna að fólk sem hafur gaman að því að taka sjálfsmyndir og selfies sé hneigðara til sjálfsmorða en aðrir sem minna gera að slíku. Ég trúi því nú mátulega, en yfirgengileg naflaskoðun er aldrei holl.

Markviss Tómas

Íslenskir skallar smástjörnur í góðri kvikmynd

Mér þykir eins og góðum Íslendingum sæmir merkilegra að tveir íslenskir skallaleikarar eru með hlutverk í kvikmyndinni, þeir Benedikt Erlingsson og Tómas Lemarquis. Tómas hinn Markvissi er skilgreindur meðal aðalstjarna myndarinnar, enda fyrir löngu orðinn heimsþekktur kvikmyndaskúrkur. Hann leikur franskan blaðamann, Lefevre, sem ekki skílur orrrd í týsku, og fer létt með það. Tómas er sannfærandi þrátt fyrir íslensk höfuðlag sitt og augu. Hárgreiðslan er óaðfinnanleg að vanda.

Benedikt leikur örlítið hlutverk, líkast til afguð okkar Íslendinga, sjálfastan Laxness. Hann er náttúrulega í tweedfötum á PEN ráðstefnunni í Buenos Aires árið 1936, og rýkur fyrstur upp til að samþykkja tillögur ráðstefnunnar til stuðnings heimilislausu fólki eins og Stefan Zweig.

Íslenskir leikarar eru eins og svartir sandar sunnan jökla. Þeir taka allt í einu upp á því að blómstra og verða áður en varir orðnir að miklu skóglendi, sem skagar upp í Svartaskóg og Skíraskóg. Þó þeir séu kollóttir.

Benedikt Erlingsson

Benedikt Erlingsson lengst til vinstri með Laxness-tilburði, stendur upp fyrstur til að sýna stuðning sinn þeim sem hafa verið neyddir í útlegð. En studdi Laxness ofsótt fólk? Hvað með Veru Hertzsch og Sólveigu Erlu dóttur hennar? Stóð hann upp fyrir gyðingum og öðrum ofsóttum á Ólympíuleikunum í Berlín 1936? (sjá hér). Ekki er ég nú viss um það.

Hvað er svo hægt að læra?

Benedikt og Tómas fá gullpálma Fornleifs og sköllóttu Berlínarbolluna fyrir leik sinn í Evrópa kvödd sem er hin ágætasta mynd sem fær örugglega fólk til að hugsa.

Kvikmyndin sem þeir leika í sannfærir mig um um að maður megi ekki gefa helstu málefni sín og hugsjónir upp á bátinn, eða segja sem minnst líkt og Zweig gerði, til að móðga ekki elítuna í pólitískum skrípaleik Evrópu á 4. áratug síðustu aldar. Þess vegna kýs ég ekki Katrínu Jakobsdóttur (sem ég kaus síðast og það ætti að vera nóg) því hún hefur opinberlega stutt öfl sem myrðir sama fólkið og Hitler ætlaði sér að útrýma um leið og hún útnefnir sjálfa sig sem sérleyfishafa á réttar skoðanir og hreinar. 

Er hún nokkuð betri en allir hinir, t.d. þeir sem eiga pabba sem vilja hjálpa fólki sem hefur orðið á í lífinu? Kannski kýs ég ekki neitt, leggst í rúmið og drep mig. Æi nei, til þess er ég of sjálfselskur og svo er svo lítið í húfi. Allir íslenskir pólitíkusar eru eins, fullir af lygi og yfirborðsmennsku. Engin ástæða er fyrir einn eða neinn að óttast. Ísland slefast áfram eins og áður og þrátt fyrir allt. Ég hef engar áhyggjur af Íslendingum. Þeir er líkir þeim sem þeir kjósa yfir sig.


Let it slide

23 small Fornleifur ©

Hann er seigur, skyggnumyndabirgir Fornleifs á Englandi. Nú er hann búinn að finna enn eina mynd úr röð Riley bræðra og E.G. Wood. Að þessu sinni er það skyggna númer 23. Myndin er handlituðuð og framleidd af o merkt fyrirtækinu E.G. Wood. (Sjá lista yfir myndir skyggnufyrirlestranna um Íslands sem Riley-bræður seldu fyrst, og síðar E.G. Wood).

Á kant skyggnunnar er límdur lítill miði sem á stendur 32403 Plain of Thingvellir og með penna hefur verið skrifar OXARA. Skyggnan er merkt með hringlaga miða sem á stendur talan 23, en sá miðið er á milli glerferninganna lík og miði sem sýnir að skyggnan er úr röðinni England to Iceland og neðst í vinstra horni skyggnunnar er merki E.G. Wood fyrirtækisins sem var til húsa við 1-2 Queen Street við Cheapside í Lundúnum.

Myndin er tekin ofan frá Almannagjá og yfir Þingvallabæinn. Í baksýn má sjá Ármannsfellið og það grillir í Lágafell. Ljósmyndarinn hefur  staðið upp á vesturbakka Almannagjár.

Eymundsson original

Myndin var tekin af Sigfúsi Eymundssyni og var ein þeirra mynda sem er að finna í varðveittu albúmi sem fyrrum lá frammi á ljósmyndastofu Sigfúsar. Í því gátu gestir á stofunni skoðað Íslandsmyndir og pantað kópíur til minningar um Íslandsdvöl. Svarthvít pósitífa er til af myndinni á Þjóðminjasafni Íslands (Lpr-1152-11).

Framleiðandi skyggnunnar, E.G. Wood, hefur vegna þess að glerskyggnurnar voru réttur ferningur, í þessu tilfelli 8,2 x 8,2 sm. að stærð ekki getað birt myndir Sigfúsar í heild og hafa því valið að notast við hluta myndarinnar

Ljóst er nú orðið og fullvíst, að Þorlákur Johnson og Sigfús Eymundsson, sem um tíma var með Þorláki í skyggnumyndasýningunum (sjá hér og hér) hafa notast við þessar myndir Sigfúsar þegar Íslandslýsing Riley bræðra og E.G. Wood voru framleiddar.

23 England to Iceland FORNLEIFUR COPYRIGHT

Myndin af skyggnunni efst sýnir einna helst það sem fólk sá við sýningar á henni á 19. öld, en þessi mynd er tekin með ljósi úr báðum áttum og sýnir ekki þann lit sem myndin hafði uppi á vegg.

Þessi skyggna ásamt mynd nr. 24 (sjá hér) eru elstu "litljósmyndirnar" frá Þingvöllum. Reyndar handmálaðar. Furðu sætir hve vel konurnar sem störfuðu við að mála skyggnur hjá þessum fyrirtækjum hafa náð litunum á Þingvöllum. Tvennt gæti komið til greina. Þingvellir eru fullir af síbreytilegum, jarðrænum litum og því auðvelt að geta sér til um þá án þess að hafa verið á staðnum. En hugsanlega gæti hafa verið send handlitið kópía með frá Íslandi til að leiðbeina þeim sem unnu við litun ljósmyndanna. En um þetta vitum við ekkert enn sem komið er, en hugsast getur að það finnist ritaðar heimildir sem geti gefið frekari upplýsingar.

Til eru aðrar handlitaðar litskyggnur á Þjóðminjasafni frá 1898, sem eru þó nokkuð yngri  en myndirnar frá E.G. Wood í London.  Þær voru teknar af enskum ljósmyndara T. Throup og hafa verið gefnar Þjóðminjasafni af T. Nokkrum Throup. Hvort ljósmyndarinn er sami maður og gefandinn gefur Þjóðminjasafnið ekki upp. Þeim ljósmyndum fylgir handrit/skýringar í stílahefti (Sjá hér og hérna) en takmarkaðar upplýsingar eru veittar um myndirnar af Þjóðminjasafn. Ein mynda Throup er sýn frá Almannagjá að Þingvallabænum og er myndin tekin nokkru norðar en mynd Sigfúsar Eymundssonar.

Hér verður enn undirstrikað að Íslandsskyggnur Riley bræðra og E.G.Wood eru í dag afar sjaldgæfar. Enn sem komið er eru myndirnar í forngripasafni Fornleifs þær einu sem þekktar eru og hjá LUCERNA sem eru samtök háskóla, safna og sérfræðinga sem rannsaka og safna laterna magica skyggnum, hafa menn enn ekki enn komist yfir myndir úr þessum röðum sem hægt var að kaupa til sýninga í samkomuhúsum fyrirlestrum í lok 19. aldar og byrjun þeirra 20.

Með komu kvikmyndanna hvarf áhugi á skyggnumyndasýningum mjög skyndilega og skyggnumyndirnar lentu svo að segja í glatkistunni. Það er fyrst á síðustu 20 árum að menn hafa sýnt því áhuga að safna slíkum myndum og rannsaka sögu framleiðslu þeirra og sýninga á þeim.


Ró á Austurvelli

Wood nr. 15 Fornleifur copyright

Númer 15 er fundin! Laterna magica skyggnumyndina hér að ofan, sem er handlituð, fann skyggnubirgir minn á Englandi nýlega í ruslakistu sinni. Sú kista reynist honum drjúg tekjulind, enda situr hann á miklum fjársjóð sá góði maður.

Myndin er úr röðinni góðu sem sem Riley Brothters og E.G.Wood framleiddu í samráði við menn á Íslandi og Skotlandi, og sem ég skrifaði um á Fornleifi fyrra í 10 köflum.

Myndin er af virðulegu þinghúsi okkar þar sem allt er nú í uppnámi nú vegna alls konar óra í sjóræningjum og æringjum. Einnig má sjá dómkirkju höfuðstaðarins. Þessi mynd var tekin af Sigfúsi Eymundssyni og er t.d. þekkt á Þjóðminjasafni í tveimur gerðum (sjá hér ; Lpr-380 í lélegu ástandi.  Hina (Lpr-1152-9) er að finna í ljósmyndabók af ljósmyndastofu Sigfúsar Eymundssonar. Bókin lá frammi á stofunni og gátu viðskiptavinir pantað myndir úr henni. Margar myndir úr þessari ágætu bók sendi Sigfús líklega til þeirra sem framleiddu laterna magica skyggnur. Ljósmyndin er af Þjóðminjasafni sögð vera tekin 1882-1883.

Austurvöllur Sigfús

Nokkuð merkilegt er að ná í þetta og ég bíð eftir tveimur myndum til viðbótar, sem sagt verður frá við tækifæri á Fornleifi.

Drengurinn sem hallar sér upp að girðingunni við Austurvöll er Daníel Benedikt Daníelsson (1866-1933), sem var ættaður  norðan  úr Húnavatnssýslu. Hann var skráður sem smali á Þóroddstöðum í Staðarsókn um 1880. Miklu síðar gerðist hann bóndi í Brautarholti í Kjós. Starfaði einnig sem ljósmyndari, kaupmaður og veitingamaður á Selfossi og að lokum sem dyravörður í Stjórnarráðinu. Frægar eru Kleppsvísur í Speglinum sem fjalla um þegar hann reið sem sendill Hriflu-Jónasar með uppsagnarbréf handa Helga Tómassyni lækni á Kleppi (sjá hér).  Ef myndin hefur verið tekin 1882-83 hefur Daníel ekki verið eldri en 17-18 ára gamall.

Daniel Ben Danielsson

Myndin á skyggnunni hefur verið skorin aðeins þannig að ekki sést t.d. í styttuna af Bertel Thorvaldsen sem þá stóð á Austurvelli.

Mér þykir sjálfum afar gaman að sjá þessa mynd af Alþingishúsinu nýbyggðu. Langalangafi minn Sigurður Bjarnason sem fluttist úr Skagafirði vegna fátæktar (hann var það sem í dag er kallað flóttamaður) og sonur hans Þórður (sem unglingur) unnu báðir við byggingu Alþingishússins.

Alþingishúsið 1883 b

Þegar Sigfús tók þessa mynd stóð hann ekki langt frá hinum mjög svo umtalaða Víkurgarði sem allir vildu bjargað hafa. Þar telja fornleifafræðingar sig hugsanlega hafa fundið heiðnar grafir undir þeim kristnu. Ég leyfi mér að efast um það þar til ég sé sannfærandi sönnunargögn því til stuðnings.

Ég tel persónulega að með eins mikla byggð og nú hefur verið sýnt fram á í kvosinni á víkingaöld, hafi kuml landnámsmanna og afkomenda þeirra, sem ekki voru kristnir, verið ekki mjög langt undan. Ég leyfi mér að benda á mjög merka ljósmynd í fórum Ljósmyndasafns Þjóðminjasafnsins OKKAR, sem tekin var  árið 1868 og einnig af Sigfúsi Eymundssyni. Tel ég myndina sýna staðinn þar sem Ingólfur og hinir íbúarnir í Víkinni voru heygðir. Þarna á þúfunum (kumlunum) er löngu búið að byggja hús. En hver veit – í garði rússneska sendiráðsins eða aðeins sunnan við hann gæti verið að kuml fyrstu "víkinga" Víkur séu enn að finna undir reynitrjánum.

Reykjavík 1868

Þegar Hótel Kirkjugarði verður plantað niður í Víkurgarð - því menningarlegu peningavöldin, sem stjórna boginni nú, eru afhuguð menningu - ætla ég nú rétt að vona að hótelhaldarar verði þjóðlegir og hafi myndir í römmum af beinum úr garðinum og nærmyndir af holdsveikum í morgunverðarsalnum. Það er áhugavert fyrir ferðamenn að stúdera slíkt þegar þeir borða árbítinn, innifalinn eða óinnifalinn. Ég er til í að láta hóteleigendum í té litmynd af Austurvelli frá 1889! til að hafa yfir kaffivélinni, en það mun vitaskuld kosta þá dýrt.

Menning kostar nefnilega, en það er svo billegt að eyða henni.


Illugi Jökulsson veitir njósnara og landráðamanni uppreist æru

Jens Björgvin Pálsson

Ég hafði vart lokið færslunni hér á undan um sagnfræðilega ónákvæmni Veru Illugadóttur í útvarpsþætti, en að ég þurfti aftur að ”stinga niður penna” til að rita um óvenju grófa ónákvæmni föður hennar, hins landsþekkta meiningarmanns um allt milli himins og jarðar, Illuga Jökulsson.

Illugi var síðla kvölds hins 3. september sl. með þáttinn Frjálsar Hendur og valdi hann að segja sögu dæmds íslensks landráðamanns, Jens Pálssonar, njósnarans á frystiskipinu Arctic. Fornleifur hefur gert því skipi skil áður (sjá hér).

Það sem Illugi las upp var sagan eins og Jens Pálsson óskaði að hún yrði sögð. Nóg hefur nú heyrst af rugli um ferðir Arctic, en Illugi lék vægast sagt af fingrum fram sem miðill Jens Pálssonar það kvöldið. Hlustið á söguna hér.

Sá galli er á gjöf Njarðar, að saga Jens Björgvins Pálssonar í þeirri útgáfu sem útvarpshlustendur heyrðu, stangast verulega á við þá sögur sem hann sagði Bretum árið 1942 og undirritaði til staðfestingar. Jens viðurkenndi glæp sinn en hafði einnig verið margsaga hjá Bretum, líkt og menn sem margsaga eru dæmdir þyngri dómum í sakamálum á Íslandi í dag.

Gögn um Jens Pálsson eru til á skjalasöfnum erlendis og hann gerði sér greinilega ekki grein fyrir því að þau yrðu aðgengileg þegar byrjað yrði að miðla af endursagðri sögu hans af segulbandi að honum látnum, en Jens lést árið 2000. Illugi Jökulsson hefur ekki gert sér far far um að rannsaka þá sögu sem önnur gögn en íslensk segja. Illugi skrifar stundar einvörðungu það sem Danir kalla andedamshistorie sem útleggst gæti sem heimalningasagnfræði. Þar líta menn sjaldan á heimildir nema í heimalandi sínu. En við erum nú öll hluti af stærra heimi.

Í yfirheyrslugögnum um Jens má ljóst vera, að hann tók að sér njósnir fyrir nasista og var í sambandi við íslenska nasista þegar heim var komið frá Spáni og veðurskeyti höfðu verið send frá skipinu á tækum sem þýskir njósnarar höfðu komið fyrir í skipinu og sem Jens vann við. Jens koma á kreik sögum um barsmíðar á sér á Íslandi og á Englandi, þar sem hann var hafður í haldi til ágústmánaðar 1945. Engar af þeim sögum er hægt að staðfesta. Jens fékk af öllu að dæma góða meðferð hjá Bretum, og fékk meira að segja að svara spurningum með því að skrifa svörin.

Jens var illa þokkaður af öðrum skipverjum Arctic

Samferðamönnum hans á Arctic var langt frá því að vera hlýtt til Jens Pálssonar. Íslenskur sagnfræðingur hefur þetta eftir mönnum sem unnu með Guðna Thorlacius á skipinu Hermóði og lýstu því þegar Jens Pálsson reyndi að fara um borð í Hermóð þar sem skipstjóri var enginn annar en Guðni Thorlacius, afi forseta Íslands, en Guðni skipstjóri hafði einnig verið í áhöfn Arctic (sjá hér):

Kannski áleit hann sig tilneyddan, kannski var honum ekkert á móti skapi að aðstoða nasistana. Hvað veit maður. En ég held að ég hafi skrifað þér sögu Sigurjóns Hannessonar heitins (hann lést í sumar) af því þegar Jens hugðist ganga um borð í Hermóð á Austfjörðum þar sem hans gamli stýrimaður af Arctic, Guðni Thorlacius, réð ríkjum. Guðni lét hindra að Jens kæmist um borð og hafði um hann ill orð, sagði Sigurjón, en slíkur talsmáti mun annars hafa verið sjaldheyrður hjá honum. Það sögðu mér kallar sem ég var með á Árvakri og höfðu verið hjá Guðna. Og þá var nafni hans bara grunnskólapiltur og áratugir í að hann yrði forseti þannig að ekki var verið að smjaðra fyrir honum né neinum öðrum. Kannski var Guðni fyrst og fremst reiður Jens fyrir að hafa logið að honum og öðrum í áhöfn Arctic og komið þeim í vandræði. Ekki veit ég, en aldrei heyrði ég um Guðna talað öðruvísi en af virðingu. Og það átti ekki við um alla skipherra Landhelgisgæslunnar að þeir fengju slíkt umtal af skipsmönnum.

Þegar lesnar eru skýrslur af áhafnarmeðlimum á Arctic, sér maður reginmun á þeim sem teknar voru af saklausum mönnum og þeim seku.

Þetta getur Illugi kynnt sér í stað þess að lýsa svaðilförum úr síðari heimsstyrjöld beint út úr höfði Jens Pálssonar. Sumir menn álíta greinilega síðari heimsstyrjöld hafi verið eins konar fótboltaleikur, þar sem ljótt var að spila af hörku. Athæfi Jens og hugsanlega skipstjórans, sem ekki var drepinn um borð á herskipi líkt og Jens lét ávallt í veðri vaka við viðmælendur á Íslandi, heldur andaðist á sjúkrahúsi í London  úr krabbameini ári eftir að hann var fluttur til Englands, gat hafa leitt til dauða saklausra sjómanna.

Smekkleysa Illuga

Í ótrúlegum auðtrúnaði gefur gefur Illugi í skyn að Sigurjón Jónsson hafi dáið skyndilega eftir að hann var sendur til Englands 1942, og jafnvel að krabbameinið sem dró hann til dauða hafi orsakast af illri meðferð hjá Bretum. Reyndar er það rétt að Sigurjón dó, en ári síðar en Illugi heldur, eða 1943.

Illugi lét eftirfarandi orð falla í þættinum Frjálsar Hendur í framhaldi af frásögn um flutning fjögurra áhafnarmeðlima Arctic til Bretlandseyja:

Hinn 13. júlí brá svo við að Sigurjón Jónsson andaðist á sjúkrahúsi - í London. Banamein hans var krabbamein. Það sögðu Bretar – að minnsta kosti. Víst hafði Sigurjón verið veikur. Það hafði víst ekki farið milli mála. En hafði ömurlegur aðbúnaður hans í fangavistinni haft áhrif  á skyndilegan dauðdaga hans.  Ekki sögðu Bretar.  En þeir voru líka einir til frásagnar.

Illugi gleymir bara að segja hlustendum sínum og lesendum komandi hasarbókar sinnar, sem væntanlega á að setja undir tréð um jólin, að Sigurjón andaðist ekki árið 1942 á sjúkrahúsinu í London, heldur sumarið 1943.  Fjöldi gagna er til um sjúkdóm hans og sjúkralegu. Dauðdaginn var ekki eins skyndilegur líkt Illugi vill láta í verðri vaka.

Sigurjón Jónsson bSigurjón Jónsson skipstjóri. Myndin efst er af Jens Pálssyni.

Um Jens Pálsson 2

Upplýsingar um heilsu Sigurjóns í byrjun júní 1943 (efst) og í júlí sama ár (neðar). Vill Illugi trúa landráðamanni eða þessum skjölum?

SJ 4

SJ 5

Þessi aulasagnfræði Illuga er forkastanleg og dæmir Illuga úr leik. Honum ber að stöðva bók sína, þar sem þetta lítilfjörlega efni verður útlistað, áður en þessi vitleysa hjá honum kemst á prent. En kannski vilja Íslendingar einmitt helst lesa lognar sögur og fá annan endi á mál heldur en þau sem t.d. dómstólar komust að?

Ef hörku var beitt af Bretum við yfirheyrslu á áhöfn Arctic, er það alls ekki óskiljanlegt. Ef til vill orsakaðist barningur bandarískra hermanna og breskra yfirmanna á t.d. Guðna Thorlacius af lygaframburði Jens Pálssonar. En furðulegt er að ekki má ekki sjá marblett á andliti nokkurs í áhöfn Arctic sem Bretar mynduðu í Reykjavík áður en þeir voru sendir utan. Bretum varð fljótt ljóst hverjir voru þeir seku um borð á Arctic voru, og útilokuðu t.d. nær strax Guðna Thorlacius sem var fljótt farinn að túlka fyrir þá, því hann var heiðursmaður og betri í ensku en margir hinna.

Arctic á Skotlandi 1942

Arctic við strendur Skotlands

Gyðingar með demanta dregnir inn í sögu Jens

Frásögn sú sem Illugi las fyrir Jens Pálsson látinn í útvarpi um daginn var á allan hátt afar ógeðfelld. Sagan um gyðinga hlaðna demöntum sem Illugi las fyrst, sem áttu að vera að skemmta sér á hóteli í Vigo, á Spáni er ósómi af verstu gerð. Ætti Illugi eingöngu út frá henni að gera sér grein fyrir því að maðurinn sem segir söguna var enn nasisti þegar hann las sögu sína inn á band. Illugi gerir sér grein fyrir því að óhróðurinn sem Jens setur í munn Sigurjóns skipstjóra um demanta gyðinganna frá Berlín, sé furðuleg saga, en fer svo í staðinn að fabúlera um franska gyðinga og réttlætir söguna að lokum.

Franskir gyðingar komust aldrei frá Vigo til Bandaríkjanna en í einstaka tilfellum árið 1942 komust þýskir gyðingar til St. Louis en ekki með hjálp demanta heldur á síðustu eignum sínum.  Örfáir gyðingar frá Þýskalandi fóru með spænskum skipum frá Vigo til New Orleans árið 1942.

Þjóðverjar höfðu rænt flestum eigum af því flóttafólki sem náðu til Spánar og Portúgals. Reyndar segir Jens Pálsson frá gyðinga sem urðu á vegi hans á hóteli í hafnarborginni Vigo. Hann sagðist við yfirheyrslur á íslensku sem þýddar voru yfir á ensku hafa hitt mann, líklega gyðing, Felix Zevi að nafni sem sagðist vera frá Zurich í Sviss. Zevi var um borð í skipi sem hafði verið kyrrsett, og var það eina skipið sem vitað er að hafi flutt gyðinga frá Vigo til Bandaríkjanna, samkvæmt upplýsingum sem ég hef grafið upp. Skjöl um þetta hefði almennilegur sagnfræðingur átt að geta fundið. En Illugi er nú einu sinni ekki sagnfræðingur. Hann er að selja bók sína í útvarpsþætti sem greiddur er fyrir afnotagjöld íslensku þjóðarinnar.

Svo lýkur Jens frásögn sinni af flóttafólki með safaríkri sögu er hann brá sér í land um áramótin 1941-42 i eina af sínu mörgu heimsóknum á hórukassa Vigo. Þessi greinargerð hans árið 1942, sem var þýdd yfir á ensku úr íslensku, var á allan hátt mjög frábrugðin því sem Illugi Jökulsson hafði eftir Jens í þættinum Frjálsar hendur hér um daginn.

Jens Pálsson og hóran

Úr afriti af skýrslu undirritaðri af Jens Pálssyni

Jens Pálsson var enn haldinn fordómum nasista rétt fyrir andlát sitt. Með tilbúningi og óhróðri um gyðinga og demanta þeirra setur hann eftirfarandi orð um gyðinga á hóteli í Vigo í munn látins mann, Eyjólfs Jónssonar Hafstein (d. 1959) sem var annar stýrimaður á Arctic. Takið efir því að Jens reyndi ávallt að koma skoðunum sínum og gerðum á aðra menn: 

... og ég man að Eyjólfur sagði í glensi að í þessum sal væri nú að minnsta kosti hálf smálest af demöntum. Er ég nú ekki að fjöryrða um það. Þetta fólk var að halda eitthvað hátíðlegt sem ekki var okkar, svo við yfirgáfum hótelið og átum pínusíli og soðin egg á pínubar. Næsta dag voru skemmtiferðaskipin farin til New York.

Þegar farið er að segja endurunna frásögn Jens Pálssonar, dæmds landráðamanns, 75 árum eftir að Jens Pálsson loftskeytamaður á Arctic var til í að njósna fyrir nasista, með endursögn sem stangast á við það sem hann sagði við yfirheyrslur, er sagnfræðin orðið heldur lítils virði. Enginn almennilegur sagnfræðingur myndi láta frásögn Jens standa eina.

Það sem gyldir er Sagan Öll, Illugi, og ekkert annað en sagan öll, en ekki skekkt og skrumskæld útgáfa hennar. Ef þörf er á að koma neikvæðum tilfinningum sínum í garð Breta og Bandaríkjamanna til skila, er hægt að gera það á annan hátt en með samanburði í sögu íslenskra njósnapésa.

Fólk sem tekur málstað hryðjuverkamanna sem teknir hafa verið af Bretum og Bandaríkjamönnum á síðustu árum og fárast yfir aðferðum þeirra við yfirheyrslur á glæpamönnum, í stað þess að hugsa út í þær hörmungar sem hryðjuverkamennirnir hefðu geta valdið, mun ef til vill aldrei nokkurn tímann skilja að hryðjuverkamenn og njósnarar fyrir erlend öfl eru ómerkilegar raggeitur sem oftast nær hugsa ekkert um aðra en sjálfa sig – og er skítsama um líf saklauss fólks.

Við höfum séð mikinn fjölda sjálfskipaðra dómara á Íslandi á síðari árum, sem telja sig megnuga þess að sýkna menn af morðdómum um leið og þeir fara hamförum þegar kynferðisglæpamenn fá æruuppreisn. Þessi mjög hlutlæga tilraun Illuga til að hreinsa mannorð Jens Björgvins Pálssonar svipar til þessa furðulegu strauma á Íslandi, enda hefur Illugi ekki ósjaldan verið í hæstaréttardómarasæti götunnar. En þetta er ekki sagnfræði og þaðan að síður góð lögfræði.  Illugi er að selja bók á ríkisfjölmiðli, og honum er greinilega slétt sama um hvort hún sé full af rangfærslum.

Læknaðist Jens af staminu?

Að lokum langar mig að nefna, að gott er heyra og lesa, að Jens Björgvin Pálsson læknaðist af staminu sem hrjáði hann er hann var fangi Breta 1942-45.

Hann gat hins vegar hiklaust tjáð sig um þá sögu sem Illugi Jökulsson leyfir okkur að heyra. Enn kannski fengum við einmitt ekki að heyra upptökuna með Jens, vegna þess að Illugi telur ekki við hæfi að láta menn stama í útvarpið. En hér að neðan geta menn svo séð, skjalfest, hvernig greint var frá þessari fötlun mannsins árið 1945.

Jens stamaði hins vegar ekki hið minnsta í lýsingum sínum af nánum samtölum sínum við þýska nasista á Spáni og meinta gyðinga á hótelum í Vigo. Sumir menn geta bara ekki stamað á þýsku.

Um Jens Pálsson


Si fabula vera est

Nazi Boston

Fyrir ekki allmörgum dögum flutti Vera Illugadóttir ágætan pistil um nasista og nasisma í Bandaríkjunum. Því miður gleymdi Vera í umfjöllun sinni um hinn þýskættaða lassaróna Fritz Kuhn og fylgismenn hans mjög mikilvægu atriði í málflutningi sínum. Hún Vera gleymdi Kaþólsku Kirkjunni og sannarlega einnig öðrum  kirkjudeildum í Bandaríkjunum. Gyðingahatur og nasismi grasseraði einnig meðal þeirra og þá einna helst í hinni merku borg Boston. Írsk og skoskættaðir kaþólikkar í Boston aðhylltust margir öfgafullan nasisma, sem gekk helst út á að ofsækja gyðinga og berja börn gyðinga.

Það er sama hvað þið heyrið öfgaguðfræðinginn Jón Val Jensson halda fram, þá er kristni (næstum því sama hvaða deild sem við tölum um) rót gyðingahaturs í Evrópu - sem að lokum fæddi af sér kynþáttahatur 19. aldar og nasisma og fasisma í kaþólskum löndum (og einnig öðrum) á 20. öld. Það þýðir ekkert að benda á aðra sökudólga, til að mynda múslíma eða fljúgandi furðuhluti. Kirkjan var sökudólgur og það var syndgað!

Skömmu eftir að Vera flutti langan og góðan pistil sinn, þar sem hún gleymdi hatri meintra frænda Íslendinga, Íranna (sú ættfærsla er að mínu mati tölfræðileg skekkja starfsmanna Íslenskrar Erfðagreiningar), birtist á Times of Israel grein um hinn svæsna nasisma í Boston fyrir og eftir Síðari heimsstyrjöld. Gyðingahatrið var mikið í þeirri borg og stóðu kaþólskir prestar og leikmenn, sem báru nöfn eins og Couchlin, Tobin og Moran gjarnan fremstir í flokki.

Lesið greinina í Times of Israel sem viðbót við pistil Veru Illuga, og munið að gyðingahatur hefur aldrei eingöngu verið bundið við nasisma. Verstu gyðingahatarar sem ég hef fyrir hitt voru einmitt sannkristnir, kaþólikkar, múslímar eða vinstrimenn. Ég hef vitaskuld ekki þekkt svo marga nasista.

Icelandic Nazis marching

Fahnen Hoch in Island. Íslenzkir nasistar þramma í skjóli Landakots. Finnið frændur ykkar!

En áður en menn fara á stúfana og brenna presta og nunnur í Landakoti á báli, án sönnunargagna eins og hefur nú brunnið við, langar mig að minna á að flestir íslenskir nasistar voru upphaflega litlir fermingardrengir og líklega flestir í KFUM áður en þeir fóru að þramma fyrir Hitler; T.d. Davíð Ólafsson, uppeldisafi Egils Helgasonar sem laug til um próf í hagfræði sem hann sagðist hafa fengið í Þýskalandi nasismans. Því er enn haldið fram á vef Alþingis. Nasistinn Davíð Ólafsson komst einnig á hið háá þing. Út á lygar sínar um nám hjá Hitler fékk hann embætti Seðlabankastjóra.

Í KFUM var fánahylling að hætti nasista stunduð um langt skeið eftir Síðari heimsstyrjöld. Hin stjarfa hönd í fánastandinu var skýrð með því að þetta væri rómversk kveðja. Því fer nú alls fjarri. Þetta var aðeins nasistakveðja og kristið starf á Íslandi var greinilega smitað af einstaklingum sem þrifust á gyðingahatri og álíka öfgum. Kannski er ágæt ástæða til rannsaka þetta fyrir ungan og efnilega sagnfræðing.

heil_fani.jpg

Heil eða Saluto Romano, sem er seinni alda tilbúningur og á ekkert skylt við Rómverja. Myndin er tekin í Kaldárseli og birtist í Barnablaðinu árið 1987. Hver þekkir sjálfan sig?

Einhvers staðar hef ég heyrt lítinn fugl tísta að Vera Illuga hafi verið nas... kaþólikki á einhverju stigi á unga aldri. Si fabula vera est. Kannski ættu menn að líta í eigin barm, áður en alhæft er á RÚV, sem margir kalla, og það að sönnu, Lygaveitu Ríkisins. Ég held að vandamál RÚV sé fyrst og fremst vankunnátta starfsmannanna, en stundum spila öfgar nútímans verulega inn í.


Umslagahirðar fortíðarinnar

Umslag Ólafs Ragnarssonar

Það virðist sem mér hafi skjátlast ærlega varðandi nýtni og endurvinnsluhæfileika hjá hinu opinbera á Íslandi hér á árum áður. Ég hélt í algjöru sakleysi mínu að öllu hefði verið hent á haugana, þegar þar var orðið nokkurra ára gamalt og smá slit var farið á sjást.

Nei, svo var nú aldeilis ekki. Hérna áður fyrr endurnýttu menn allt í ráðuneytum og hjá háum embættum og stofnunum sem ekki höfðu mikið á milli handanna. Grisjur af sárum holdsveikra, syffilista og berklasjúkra voru dauðþvegnar og endurnotaðar; Súr rjómi í matstofu Útvarpsins á Skúlagötunni var til að mynda notaður í pönnukökur, sem gerðu pönnsurnar nú bara betri fyrir bragðið, og Ráðuneyti voru þekkt fyrir að hafa á launalista sínum menn sem losuðu af frímerki sem ekki höfðu verið stimpluð. Merkin voru svo endurnotuð. Mikill sparnaður varð vitaskuld af slíkri nýtni og mættu menn læra sitthvað af slíku í eyðsluæði nútímans, þar sem oft er eytt milljón til að spara hálfa, meðan að götur eru málaðar.

En alltaf finnast veilur í svona vel virkandi þjóðfélögum, þar sem endurvinnslukerfið smellvirkar. Fjallar þessi færsla, sem er ekki sönn nema að ákveðnu marki, um einn slíkan brest.

Fiktsjónin í færslunni er um umslagahirða kjörstjórna sem sáu um brúnu umslögin sem innihéldu utankjörstaðakjörseðla. Þeir embættismenn áttu að sjá um að lítil brún umslög, sem voru utan um utankjörstaðakjörseðla, væri komið fyrir kattarnef. Á ákveðnu stigi á 20. öld var farið að leyfa Íslendingum sem bjuggu erlendis að hafa áhrif á kosningar í eigin landi. Þeir gátu kosið í sendiráðum lands síns á erlendri grundu eða hjá kjörræðismönnum. Útbúin voru sérstök umslög sem Íslendingar erlendis gátu lagt kjörseðil sinn í og sent hann til Íslands. Á umslagi þessu bar manni að skrifa nafn sitt, heimilisfang á Íslandi áður en maður flutti eða ferðaðist til útlanda, og einnig nafnnúmer/kennitölu, þegar þau voru tekin upp.

Þetta brúna umslag varð maður svo að sjá um að fara með á pósthús sjálfur og senda heim til Fróns - þar sem það var opnað, listastafurinn lesinn og skráður og umslaginu hent - eða það héldu menn að minnsta kosti.

En hjá kjörstjórninni Reykjavík vann starfsmaður, sem við getum kallað "Garðar". Hann tók endurvinnslu og nýtni mjög alvarlega. Það hafði hann alist upp við á uppvaxtarárum sínum í kreppunni í Skuggahverfinu. Þó svo að hann fargaði kjörseðlunum í stórum miðstöðvarofni eftir ákveðinn tíma, þ.e. þegar menn voru öryggir um að enginn rausaði um að talning hefði verið röng og ólögmæt, taldi hann ekki við hæfi að farga ágætisumslögum með fallegum frímerkjum frá framandi löndum. „Garðar“ hafði lesið það í Æskunni sem ungur, að maður gæti orðið stórríkur, jafnvel milljónamæringur, á því að safna frímerkjum. Þessi stafsmaður kjörstjórnarinnar vissi mætavel að á þessum umslögum voru persónuupplýsingar um fólk, sem engum kom við, en samt ákvað hann að geyma þessi umslög til eigin vinnings.

Garðar varð þó aldrei ríkur maður, enda kennari svona dags daglega. Hann lést nokkrum árum eftir að vera kominn á eftirlaun og frímerkja- og umslagasafn hans uppfylltu aldrei drauma þessa manns um að verða milljónamæringur. Ættingjar, tóku til í íbúð Garðars sem var piparsveinn, og fundu 20 hillumetra af frímerkjasöfnum og umslögum og þar að auki nokkur kassafylli af ósorteruðu. Þau komu þessu í verð á einu bretti. Fjölskyldan fékk töluvert fyrir nokkur mjög fágæt frímerki sem frændi þeirra átti og allir gátu vel við unað. Frímerki mannsins fóru svo kaupum og sölum og bárust til útlanda, þar sem Íslendingar voru alfarið búnir að gefast upp á að verða ríkir á frímerkjum. Þeir höfðu fundið mun betri aðferð. Þeir stofnuðu banka og töldu fólki trú um að þeir gætu gefið betri lánakjör og vexti en bankar í eyðimerkum Arabíu.

Umslögin, sem þessi uppdiktaði starfsmaður Kjörstjórnarinnar í Reykjavík hafði stungið í tösku sína og farið með heim til sín, seljast nú grimmt á frímerkjasölum erlendis. Ekki er laust við að þessi umslög séu orðin álíka mikils virði og þegar þau voru send fyrir rúmum 25 árum síðan og fyrr. Nú geta menn í útöndum keypt sér umslög með nöfnum Íslendinga, kennitölum þeirra og hvaðeina.

Óli RagnarssÞað gerði ég einmitt, og ég hringdi í einn af þeim sem sent höfðu slíkt umslag til Borgarfógeta árið 1991. Það var hinn ágæti Ólafur Ragnarsson stýrimaður og skipstjóri (f. 1938) sem nú er búsettur í Vestmannaeyjum, vel þekktur sem bloggari, einnig hér á moggablogginu og hann skrifar einnig í Heima er best og Sjómannablaðið. Hann hefur helgað sig vinnu við að skrá sögu farskipa og unnið ómetanlegt starf. Hér t.v. fáið þið mynd af Ólafi frá sokkabandsárum hans, eða þar um bil, ekki ósvipaður breskum leikara. En nú situr hann í Vestmannaeyjum og undrast arfavitleysuna á meginlandinu. Svo á hann líka afmæli í dag, eins og menn geta séð á umslaginu. Til hamingju Ólafur!

Ólafur var árið 1991 kominn í þjónustu dansks skipafélags sem  hét H. Folmer og Co, sem enn siglir um höfin sjö, og væntanlega oft með eitthvað grunsamlegt og vafasamt. Ólafur var staddur í Piræus hafnarborg Aþenu, þegar hann fór þar á fund ræðismannsins í Aþenu, sem þá var frú Emelía Kristín Kofoed-Hansen Lyberopoulos, dóttir lögreglustjórans sem menn höfðu svo miklar mætur á í Berlín á tímum Hitlers. Kosningar voru í nánd á Íslandi og menn verða að gera skyldu sína, þó svo að þeir séu í suðlægum löndum. Ólafur ætlaði nú ekki að láta helvítis ... komast til valda.

Aftan á umslagi Ólafs hefur einhver skrifað bókstafinn D með blýanti. Hvað það þýðir, væri gaman að fá upplýsingar um. Kannski þýddi það bara að í umslaginu hefði legið kosningarseðill íhaldsmanns?? Ólafur, er þetta rétt athugað?

Umslag Ólafs Ragnarssonar bakhlið

Ólafur varð vitaskuld afar undrandi á að heyra umslagið utan um kjörseðil hans frá 1991 hefði verið til sölu, og sagði:

„jah maður, er maður nú til sölu á netinu?“.

Ég jánkaði því, og sagði honum að ég hefði keypt hann og borgað 60 krónur danskar (þ.e. 1015,oo/- freðnar ískrónur) fyrir umslagið - og nafnnúmerið hans í kaupbæti. 

„Hver assgotinn“, sagði Ólafur og þótti þetta nokkuð fyndin frétt að fá og minntist þess um leið að skipverjar á Írafossi hefðu einnig verið í Piræus um svipað leyti og hann árið 1991.

„Eru til einhver umslög með nöfnum þeirra?“, spurði Ólafur. Mestar áhyggjur hafði hann af því, hvort kjörseðill hans hefði lent í réttum höndum. Þar varð mér svara vant, en upp í huga mér kom upp annar möguleiki á plottinu í eftirfarandi frásögn Fornleifs:

Hún er um póststarfsmanninn (póstinn/póstmanninn) sem hirti umslög kjósenda sem hann taldi öruggt að kysu ekki rétt.

Eins og vitum öll voru eintómir kommar og óferjandi óþjóðalýður í námi erlendis, en þessi póstur var eins og allir vita enginn allaballi og tíður gestur í Valhöll. Kannski misminnir mig. Hét hann kannski "Þorgeir" og var argasti steinsteypustalínisti sem sögur fara af; Fór á jólaskemmtanir MÍR og taldi Alþýðubandalagið vera svikara? Það geta allir sem þekktu Geira Póst vitnað um. Í frístundum sínum var hann einnig mikill umslagasafnari og sömuleiðis esperantisti. Hann flautaði Nallann falskt þegar hann skoðaði ekki takka á frímerkjum sínum með stækkunargleri, og á sölufundum hjá Frímerkjasafnarafélaginu tautaði hann klæmna brandara á esperantó og hló dátt af því sjálfur. Hann átti eitt besta safn rússneskra frímerkja vestan járntjalds, jafnvel fyrstadagsumslög sem send höfðu verið úr Gúlagi.  ... En eins og alla Íslendinga, þá dreymdi hann einnig um að verða milljarðamæringur á frímerkja- og umslagasöfnun. Hann gerði mér kleyft að kaupa persónugögn um Íslendinga á frímerkjasölum í útlöndum. 

Þökk sé „Þorleifi“ og „Garðari“ fyrir söfnunargleðina.

Umslag Matthildar Steinsdóttur 1991

Hér er umslag utan um kjörseðli starfsmanns Eftirlitsstofnunar EFTA í Brussell til margra ára. Enginn sem ekki setti kosningarumslagið í annað umslag áður en þeir sendu það borgar- og bæjarófétum var óhultur fyrir umslagahirði kosningarstjórnarinnar í Reykjavík.

Aðrir möguleikar gætu einnig verið á „plottum“ í sögu þessari:

A) Umslögunum unan af utankjörstaðaseðlum úr kosningum 1991 hefur hugsanlega verið hent á haugana, þar sem einhver máfur hefur fundið þau og síðan selt, eða til vara...

B) að póststarfsmaður erlendis hafi gerst fingralangur. En það sem mælir gegn síðasta "kostinum" er að einnig var nýlega selt umslag undan af kjörseðli sem einn starfsmaður Ríkisútavarpsins hafði útfyllt í Kaupmannahöfn og sent til Bæjarfógetans í Kópavogi. Það var í maí 1970, eða 21 ári áður en að umslag Ólafs Ragnarssonar fór í endurvinnsluferlið.

Umslag Gönnvöru Braga 1970

Gunnvör Braga, sem ég sendist stundum fyrir þegar ég var sendill hjá RÚV á Skúlagötunni, sendi kosningarseðil sinn ekki bara í ábyrgð, heldur einnig EXPRES. Svo sendi hún einn fyrsta ESB áróður sem barst að Íslands ströndum á frímerkjum. Var þessu umslagi stolið af íhaldspósti?

Þurfa yfirvöld ekki að skýra betur út fyrir lesendum Fornleifs og ritstjóra bloggsins, hvernig í pottinn er búið. Hvernig í ósköpunum var hægt að koma kosningagögnum, umslögum með kennitölu (nafnnúmeri) manna í verð og það erlendis? Svör óskast, og helst ekki þessi loðnu. Allt á borðið!

Ítarefni um frímerki og því sem var hent á haugana:

Flogið hátt

Þegar Matthíasi var hent á haugana; Þegar Þjóðminjasafnið kastaði safngripum á haugana.


Bullið vellur endalaust úr Trumpóníu

Groucho460x276Harvey Mann: Do not look at me, I am not a Harvard man.

Það virðast stundum engin takmörk fyrir þvælu og ruglingi í sumum háskólaumhverfum Vestanhafs. Þar á ég nú fyrst og fremst við Bandaríkin.

Fyrr í þessum mánuði var forngripum rænt á fornminjasafni háskólans í Bergen eins og m.a. hefur verið greint frá hér á Fornleifi. Á FB-síðu, sem sett hefur verið á laggirnar í Bergen til að freista þess að finna þannig aftur forngripina sem voru um 400 að tölu, ritaði einn af góðkunningjum Þjóðminjasafns Íslands, sem fengið hefur að valsa í íslenskum forngripum (sjá hér) á þessa leið: "It seems like a lot of the items taken were Insular from Ireland or the British Isles. Could this shed some light on the thieves and their choices? " Ég les þetta einvörðungu á þann hátt að gefið sé í skyn að ránið í Björgvin hafi verið framið til að metta markað manna sem hafa áhuga á forngripum frá víkingaöld sem ættaðir eru (stolnir voru) frá Bretlandseyjum. Nema að sá sem setti athugasemdina telji fólk frá Bretlandseyjum vera þá fingralöngu. Ég hélt nú ég hefði gert grín að slíkum vangaveltum um daginn, þegar ég henti gaman að því að nú væri búið að ræna þýfi foreldra íslenskra landnámsmanna.

Harvard Shit

Græni liturinn sem er skvett á Ísland táknar: Viking settlements in Scandinavia in 7th and 8th c. Rauðu línuna milli skýringarinnar og Íslands hefur ritstjórn Fornleifs sett inn til skýringar.

"The Digital Atlas of Roman and Medival Civilizations"

Í morgun sá ég á vef FB hóps sem hefur áhuga á Miðaldafornleifafræði. Þar var kynnt til sögunnar ný kortagrunnur, The Digital Atlas of Roman and Medieval Civilizations, sem fræða á um tíma Rómverja og miðaldir, þar með talið norrænar miðaldir. Það er hvorki meira né minna en Harvard Háskóli sem léð hefur þessum vef nafn sitt.

Ég athugaði í fljótu bragði, hvað mætti finna fróðlegt um Ísland á þessum söguatlas Harvards: Það var akkúrat ekkert að viti og sönnuðust þar aftur orð prófessors Sveinbjarnar Rafnssonar sem eitt sinn sagði að menn sem ekki væru læsir á menningu Íslendinga, ættu ekkert að vera að leika sér að henni. Þetta á við um fleiri lönd, þjóðir og menningar sem lent hafa á þessu korti Harvard-háskóla.

Til dæmis var hægt að sjá á kortinu, hvar búseta á Víkingaöld hafi verið á "7. og 8. öld" á Íslandi. Þar að auki er því haldið fram að Ísland sé í Skandinavíu. Ljóminn er víst farinn af þessu Harvard-fyrirbæri. Víkingaöld hefur aldrei verið tímasett fyrr en til loka 8. aldar. En menningarsnauðir kjánar í Harvard, sem setja þetta rugl út á netið, segja tímasetningu Víkingaaldar vera 7. til 10. öld. BNA er greinilega fullt af illa læsu fólki eða jafnvel treggáfuðu og Trump er aðeins einn þeirra - og ég er ekki kommi.


Pavlova hittir Vilhjálm á Grand

Pavlova stolen of course

Pavlova er nafn á miklum eftirrétt sem Fornleifur fékk í fyrsta sinn á ævi sinni fyrir um tveimur árum síðan hjá íslensku vinafólki sem ég heimsótti í sumarhúsi hér í Danmörku.

Oft hafði ég áður heyrt um þennan desert og séð í breskum matreiðsluþáttum. Ég taldi víst að þetta væri gríðar gómsætur réttur, hlaðinn umframorku. Það reyndist rétt vera. Slíkir réttir henta eiginlega ekki ballettdönsurum, miklu frekar sjómönnum. Eftirrétturinn ber reyndar nafn frægra ballettdansmeyjar, Önnu Pavlovu (1881-1931), en ef ballettmær borða slíkan mat er dansferlinum væntanleg rústað eftir fyrstu skál. Þessi frægi desert samanstendur mest af sykri, eggjahvítu og rjóma. Það einasta sem hollusta er í eru berin, og þá helst jarðaber, sem stráð er ójafnri og ónískri hönd efst á pavlóvuna.

Margt er á huldu um þennan eftirrétt. Ástralir og Nýsjálendingar, sem áður fyrr þóttu afar óábyggilegar heimildir hafa rifist um það í áratugi, hver þjóðanna hafi fundið þennan rétt upp fyrstar. Báðar þjóðir vilja nefnilega eigna sér eftirrétt þennan sem hefur fengið mikla heimsútbreiðslu.

Báðum ber saman um að hann hafi verið búinn til til heiðurs Önnu Pavlóvu ballettdansmeyju, þegar hún heimsótti löndin tvö árið 1926. Og nú er desertinn væntanlega orðinn frægari en Pavlova sjálf. En í meðförum fornmatgæðinga vandast nú málin, því engar uppskriftir eða heimildir geta sannað tilurð þessa réttar árið 1926 og dagbækur dansarans svipta ekki hulunni af neinu, því þar er hann hvergi nefndur. Fyrstu uppskriftirnar að réttinum eru frá 4. áratugnum og voru prentaðar bæði á Nýja Sjálandi og í Ástralíu.

Chaplin et PavlovaHér verður ekki séð hver er eftirrétturinn eða forrétturinn. Bæði þekktu hins vegar lítið til föður síns.

Árið 1926 var reyndar gefin út í Ástralíu uppskrift að ávaxtahlaupi, fjarri ólíku þeirri Pavlóvu sem flestir tengja nafni ballettdansmeyjunnar. Svo halda aðrir því fram að þessi blessaði réttur sé bara kominn með innflytjendum frá Þýskalandi til landanna tveggja í neðra. Ekki ætla ég að skera úr um upprunann, því laktósaóþol mitt sem uppgötvaðist er ég var fimmtugur, sem og menningarvömbin fína, valdar því að ég verð að halda mig frá slíku lostæti nema í hófi. En góð er hún hún Pavlóva.

Jafn dularfullur og uppruni pavlóvukökunnar er, var uppruni Önnu Pavlovu dansstjörnu það einnig. Hún var dóttir fátækrar þvottakonu í Sankti Pétursborg sem ekki gat eða vildi gefa upp nafn föður barnsins. Dóttirin Anna fékk síðar nafn manns sem móðir hennar giftist og hét Pavlov að eftirnafni. Anna Pavlova andaðist úr lungabólgu í den Haag í Hollandi árið 1931, aðeins fimmtug að aldri (svo dans er kannski ekki eins hollur fyrir líkamann og oft er haldið fram). Minning hennar lifir enn í hinni girnilegu köku (sem menn geta brennt smá fitu við sjálfir að leita uppskriftinni fyrir). Þó er ég hræddur um að svitinn leki ekki af ykkur við leitina. Pavlóvurétturinn er nefnilega orðinn þekktari en dansmærin. En munið aðeins í hófi, annars verðið þið ekki deginum eldri en Anna Pavlova varð sjálf.

Anna Pavlov kemur til den Haag í Hollandi

Þess verður að geta að einn Íslendingur fékk tækifæri til að hitta Önnu Pavlóvu. Það var enginn annar en Vilhjálmur Finsen, einn af feðrum Morgunblaðsins. Eftir Morgunblaðsárin starfaði hann löngum sem blaðamaður í Noregi, þar sem hann stofnaði fjölskyldu. Árið 1927 kom Anna Pavlova til Oslóar og leyfi ég mér hér að birta frásögn Finsens sem út kom í fyrri ævisögu hans Alltaf á heimleið (1953).

Anna Pavlova

Í maímánuði 1927 kom ballettdansmærin Anna Pavlova til Oslóar í fylgd með 36 konum og körlum, það féll í minn hlut að taka á móti henni á járnbrautarstöðinni og eiga tal við hana fyrir „Oslo Aftenavis“.

Önnu Pavlovu hefur verið líkt við flamingó, sem líður eða svífur áfram fremur en gengur, og þessi lýsing áttir mjög vel við hana, því að hún var svo létt og yndisleg í hreyfingum, er hún leið fyrir slitinn stöðvarpallinn, grönn og mjóslegin, með dásamleg djúp svört augu í fölu andliti, að maður varð hálfhræddur um að hún mundi fljúga burt.

Á brautarstöðinni vildu hún ekkert segja við okkur blaðamennina, en hún bað okkur koma með sér upp á Grandhótelið, og þar átti ég viðtal við hana, á meðan teiknarinn teiknaði hana. 

„Hvernig hugsið þér til þess að sýna list yðar hér? Skandínavar eru sagðir svo kaldlyndir,“ sagði ég.

„Fólki, sem kemur fram á leiksviði,“ sagði frúin, „hættir til að halda, að það hafi ekki komizt í ákjósanlegt samband við áhorfendur, ef þeir láta ekki hrifningu sína óspart í ljós. Ég fyrir mitt leyti kann vel við þess konar áhorfendur, því að ég þekki ótt manna við að láta tilfinningar sínar í ljós. Það eru hinar þöglu bylgjur frá hjarta til hjarta, sem allt veltur á.“

Anna Pavlova2b

Teiknari Aftenavisen i Osló náði Pavlovu vel. Hún er með sama hattinn og í den Haag. Myndin birtist í bók Vilhjálms Finsens Alltaf á Heimleið, sem út kom árið 1953.

Ég spurði hana um álit hennar á nýtízkudansi.

„Mér er í rauninni vel við allt nýtt, en við verðum að virða hið gamla, siðvenjurnar. En nýtízkudansar, „black bottom“ og hinir, eru hræðilegir. Fólk lítur út ein og það væri vitskert, meðan það er að dansa. Dansinn virðist óheflaður, klunnalegur og trylltur.“

Orðum Pavlovu fylgdu hrífandi hreyfingar handa og axla, og svipur hinna djúpu augna og andlitsdrættirnir voru síbreytilegir. Hin eldsnöggu og leiftrandi hugbrigði hennar og hrífandi framkoma voru ógleymanleg. Ofurlítil handahreyfing varð svo mikilvæg og áhrifarík, að það var eins og hún svifi ein í rúminu. Það var ekki að ástæðulausu, að Pavlova var kölluð „geðþekkasta kona heimsins“.

Kvöldið eftir naut ég þeirrar ánægju að sjá hana dansa, og er það eitt fegursta, sem ég hef séð á ævinni.“

Vihjálmur Finsen, sem bráðnaði eins og klaki í Kenýa undan sjarma Önnu Pavlovu, greinir ekki frá neinum eftirrétti sem bar nafn hennar, enda hefur hann vart verið búinn að ná útbreiðslu alla leið til Noregs ári eftir að hann á að hafa orðið til. Í Noregi nútímans er hann hann hins vegar í hávegum hafður, löngu eftir að hann naut sem mestra hylli á Bretlandseyjum og í Danmörku á 8. Og 9. áratug 20. aldar.

Að minnsta kosti 667 uppskriftir munu vera til af Pavlóvu. Prófessor Helen Leach við háskólann í Otago á Nýja Sjálandi hefur safnað þeim saman úr 300 heimildum, og ber bókin heitið The Pavlova Story: A Slice of New Zealand‘s Culinary History. Helen Leach telur öruggt að pavlova eins og hún er best þekkt í dag sé fyrst lýst í riti á Nýja Sjálandi árið 1929, en að Ástralar hafi ekki skrifað neitt að viti um eftirréttinn fyrr en 1935.  

Núvitiðiþað. Ef þið fitnið getið þið dansað black bottom, Svartrass, dansinn sem Pavlovu var hugleikinn í Osló árið 1927.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband