Embættismannafornleifarannsóknarferðar- skandallinn 1987

hraunthufa87_1263577.jpg

Í ágúst 1987 hélt hópur íslenskra embættismanna og eiginkvenna þeirra í helgarferð að Hraunþúfuklaustri í Vesturdal í Skagafirði.

Þór Magnússon þjóðminjavörður gaf út rannsóknarleyfi til fornleifafræðings eins með sænskt pungapróf í fornleifafræði, og bauð svo vinum hans og kunningjum í helgarrannsókn norður í land til að grafa nokkrar holur í rústirnar í Vesturdal. Þátttakendur í helgarrannsókninni töldu m.a. sendiherra, fyrrverandi Þjóðleikhússtjóra, deildastjóra og hjúkrunarforstjóra. Þetta glæsilega lið klæddist bláum æfingagöllum líkt og að ferðinni væri heitið á diskótek. Aldrei áður hafði farið fram fornleifarannsókn á Íslandi sem um leið var tískusýning fyrir forljótan útilegufatnað.

Hvorki meira né minna en hálft tonn af hafurtaski blýantsnagaranna var flutt norður að Gilhaga í Skagafirði og þar beið þyrla Landhelgisgæslunnar eins og auðmjúkir þjónar embættismannanna og flutti pjönkur þeirra síðasta spölinn inn að Hraunþúfuklaustri. Hljómsveit Rúnars Gunnarssonar, Geimsteinn, hjálpaði einnig með að flytja pinkla og drykkjarföng ferðalanga í Skagafjörð. Rúnar heitinn var alltaf sami öðlingurinn.

Næstu tvo daganna gróf þetta fína fólk eins og það hefði etið óðs manns skít og árangurinn lét vitaskuld heldur ekki leyna á sér. Í Lesbók Morgunblaðsins birtist árið eftir hin ýtarlegasta ferðalýsing eftir Hrafn Pálsson deildarstjóra í heilbrigðisráðuneytinu. Þar eru góðar myndir að aðförunum og lýsandi mynd þar sem Þór Magnússon er sagður útskýra stein sem búið er að finna - En hvenær fær almenningur og skattborgarinn sem borgaði þyrluflugið útskýringar?

Niðurstöður?

Þetta gerðist allt meðan fornleifar frá rannsókninni á Stóru Borg eyðilögðust á Þjóðminjasafni Íslands vegna vanrækslu og áhugaleysis helgarfornleifafræðingsins Þórs Magnússonar. Annað eyðilagðist einnig (sjá hér).

Hvað kom svo út úr þessu helgarkrukki skrifstofublókanna? Svarið er: EKKERT. Engin skýrsla hefur birst og engin gögn virðast hafa verið skráð frá þessu helgarverkefni í ágústmánuði árið 1987. Engin sýni hafa verið tekin til kolefnisaldursgreininga, þó svo að grafið hafi verið niður á fornt eldstæði.

Reyndar hafði Þór Magnússon farið þarna um áður. Það var í ágúst 1973. Afraksturinn var líka rýr í það skiptið. Til að mynda tók Þór með sér í bæinn nokkra leggi og bein og túlkaði herðablað bein úr kind sem mannabein (sjá hér). Það eru þau greinilega ekki, og hefur sá sem skráði beinin einnig átt erfitt að leyna fyrirlitningu sinni á ruglinu er hann skrifaði þetta í aðfangabók Þjóðminjasafnsins:

Mannabein úr Hraunþúfuklaustri. Minjar sem Þór Magnússon þjóðminjavörður afhenti 29/8 1973 sem fundust  við rannsókn þar. Herðablað og tveir beinhlutar. Fannst í rúst 1, skála. Mér sýnist þetta nú vera herðablað úr stórgrip, líklega nautgrip. Beinið neðst fyrir miðju er fjærendi af lærlegg líklega af kind/geit og beinið lengst til vinstri er líklega fjærendi af sveif úr kind/geit.

Fáeinar ljósmyndir, vitagagnlausar, frá rannsóknum Þórs á Hraunþúfuklaustri árið 1973 eru síðan skráðar á Sarpi. Sannast sagna er mestur fengur af vísu Kristjáns bónda Stefánssonar í Gilhaga um hina grafandi embættismenn.

Fornar götur gengið, riðið

geyst er stefnt í hlað.

Þannig herjar Henson-liðið

helgan klausturstað.

hraunthufa87b.jpg

Sigurður Þórarinsson hafði einnig grafið holur í rústir á Hraunþúfuklaustri árið 1972. Holur jarðfræðinga gefa hins vegar mjög takmarkaðar upplýsingar um jarðlagaafstöðu sem fornleifafræðingar sækjast eftir, en Sigurður greindi þó frá því að hann í botni einni holunnar hafi fundið ljósa gjóskulagið úr Heklugosi árið 1104 yfir gólflagi. Fyrst var greint frá því í Morgunblaðinu árið 1972 (sjá hér).

Kristján Eldjárn ritaði síðan ágætt yfirlit, Punktar um Hraunþúfuklaustur, í Árbók fornleifafélagsins árið 1973, þar sem hann fer yfir rannsóknarsögu rústa og tilgátur um eðli rústanna að Hraunþúfuklaustri í Vesturdal.

Embættismannahelgarsportgröfturinn árið 1987 bætti engu við þá sögu, nema því að embættismenn gátu farið í helgarfornleifarannsókn í Henson-göllum í boði þjóðminjavarðar til að raska rústum engum til gagns og ánægju nema sér sjálfum.

Quo vadis?

Nú er öldin önnur. Jarðsjá, radarar og jafnvel vinsældalistar fréttastofa eru notaðir til að finna klaustur nú á dögum, og þau voru greinilega stærri á Íslandi en víðast hvar á Ítalíu, ef trúa má nýjustu niðurstöðum frá Þykkvabæjarklaustri. Ef rétt verður haldið á spöðum og skeiðum finnst líklega embættismaður í bláum Henson-galla á Hraunþúfuklaustri, sem er vel á við "fílamann" og tvær eskimóakonur að Skriðuklaustri, þó þau hafi blessunin reynst vera frekar þunnur þrettándi þegar upp úr holunni var staðið.

En ef aldursgreining Sigurðar Þórarinssonar sumarið 1972 voru réttar hefur nú vart verið klaustur í Vesturdal og líklegast hafa rústirnar dregið nafn sitt af þeim lokaða (Lat. claustrum) dal sem bæjarstæðið er í.

hraunthufa87c.jpg

Auxiliator archaeologorum


Sagan endurtekur sig - Evrópsk hámenning

446px-nuremberg_chronicles_-_suns_and_book_burning_xciiv.jpg

Árið er 1242: Loðvík IX konungur þvingaði gyðingasamfélög Frakklands til að afhenda eintök þeirra af Talmud og lét brenna 24 vagnhlöss af bókum gyðinga á torginu fyrir framan Louvre í París.

Árið er 1933: Bókabrennur í Þýskalandi. Bækur gyðinga voru brenndar á torginu fyrir framan Háskólann í Berlín. Svipaðir brennur fóru fram víða í Þýskalandi.

books.jpg

Árið er 2015: Sjálfstæðisflokkurinn, flokkurinn sem tók við meginþorra íslenskra nasista sem studdu gyðingaofsóknir og bókabrennur, setur fram tillögu um að afnema skuli lög gegn guðlasti. Stungið er upp á því til eflingar tjáningarfrelsisins. Vinstri menn hrósa Sjálfstæðisflokknum.

burning-religious-texts-and-antiques-during-the-cultural-revolution-.jpg

Kínverska Menningarbyltingin

Árið er 2015: Laugardaginn 4. júlí ætla breskir nýnasistar að þramma gegnum hverfi gyðinga í London á hvíldardegi gyðinga og hafa boðað að þeir muni brenna eintak af Talmud, skýringum á lögmálsbók gyðinga Torah. Á Bretlandseyjum varðar guðlast gegn Kristni við lög, en ekki guðlast gegn öðrum trúarbrögðum. Í nafni tjáningarfrelsisins er í lagi að brenna trúarrit gyðinga og fyrir nasista að þramma í hverfum þar sem gyðingar búa. Það er greinilega ekki nóg að gyðingar verði árlega fyrir fjölda hryðjuverka í menningarálfunni Evrópu.

Mótmælið hér

book-burning-web.jpg

Árið er 2015: Eru menn kallaðir öfgamenn og "trúarnött" þegar þeir verja rétt trúarbragða og vilja varna því að skríll, rumpulýður og t.d. ISIS ráðist gegn ofsóttum minnihlutahópum og vanvirði menningu annarra manna.

book-burning-christian.jpg

Talmud og Torah voru eitt sinn guðlast samkvæmt kristnum guðfræðingum. Ritin voru brennd og "guðlastararnir" líka. Í dag vil menn leyfa guðlast svo hægt sé að brenna trúarrit og vanvirða trú og trúaða og menningu annarra. Gallinn er greinilega í manninum, ekki í trúnni.


Hús íslenskra fræða?

bensin_1262989.png

Það er áhugavert að sjá, hvernig handritin sjást gegnum gluggann og að embættisbíll Nordals sé ekki af stærri gerðinni. Einkennisbúningar handritafræðinganna með belti og þessu flotta kaskeiti koma í stað eðlilegrar launahækkunar. Nú verður fræðunum dælt í fólkið, t.d. úr Laxdælu...


Hvalveiðimenn á Seyðisfirði

sey_isfjor_ur.jpg

Myndin efst er brot úr frábærri ljósmynd Frederick W.W. Howells frá Seyðisfirði (sjá myndina í heild sinni neðst). Myndin er líklega tekin aldamótaárið 1900. Tveir strákar standa í fjörunni og saltfisksverkunarkonur sitja og hvílast í bakgrunninum. Allt umhverfis strákana liggja skjannahvítir hryggjaliðir úr stórhveli.

Spurningin til lesenda: Getur einhver fyrir austan sagt mér hvar myndin er tekin?

Eftir miðja 19. öld voru bandarískir hval- og selveiðimenn með stöð á Seyðisfirði. Um skeið ráku Bandaríkjamennirnir Thomas Welcome Roys (1816-1877) og Gustavus A. Lilliendahl stöð á Seyðisfirði. Þeir fóru illa út úr selveiðivertíð árið 1867 er skip þeirra brotnaði, en einnig kom hækkun olíuverðs og borgarastríðið í Bandaríkjunum í veg fyrir frekari ævintýr þeirra við Íslandsstrendur. Þá tók við stöð þeirra danskur maður O.C. Hammer að nafni, en hann stundaði víst aldrei neinar hvalveiðar að ráði.

bottemanne_2.jpg

Til Íslands kom einnig Hollendingurinn Caspar Josephus Bottemanne (1829-1872).

Hann landaði á Seyðisfirði og vann með Roys og Lilliendahl. Bottmanne er lítt nefndur í samtímaheimildum íslenskum, nema einu sinni í Þjóðólfi árið 1871, þegar greint er frá því að ekki hafi verið hægt að færa honum tvö bréf er hann sigldi á skipi sínu Noordkaper, sem landspósturinn les sem "Norðkoper".

Bottemanne þessi hafði afgerandi áhrif á hvalveiðisöguna með þróun ákveðinnar gerðar af skutli sem Welcome Roys og Lilliendahl fá þó oftast heiðurinn fyrir. Prófessor Joost Schokkenbroek við Vrije Universiteit í Amsterdam og rannsóknarstjóri Scheepvartmuseums (Siglingasögusafns Hollands) í Amsterdam hefur skrifað mjög merkilega doktorsritgerð um hvalveiðar Hollendinga á árunum 1815-1885. Þar kemur fram hin rétta saga flugeldaskutuls Bottemannes og athafna hans á Íslandi.     

Hvort beinin í fjörunni á mynd Howells eru leifar eftir athafnasemi Roys, Lilliendahls ellegar Bottemannes hins hollenska er erfitt að fullyrða, en það er vel hugsanlegt.

Samkvæmt sumum heimildum var hvalveiðistöð Roys og Lilliendahls á Vestdalseyri sem Howell ljósmyndaði einnig, en tengist staðurinn á efstu myndinni á einhvern hátt Vestdalseyri? Hvaða fjall sést í bakgrunninum?

vestdalseyri_1262912.jpg

Vestdalseyri

1923_4_14.jpg

fjall_1.jpg

Ef þetta er tindurinn á myndinni (myndin er tekin um hádegi), þá eru drengirnir á syðri strönd fjarðarins víðs fjarri Vestdalseyri. Getur þetta verið Hákarlshaus eða Sandhólatindur?

Heimildir:

Schokkenbroek, Joost C.A. 2008. Trying-out: An Anatomy of Dutch Whaling and Sealing in the Nineteenth Century, 1815-1885. Aksant Academic Publishers, Amsterdam.


Minningar úr felti

stora_borg_1984.jpg

Eigi biðst ég afsökunar á þessari mynd, þó hún sé í lélegum gæðum. Ég setti hana til hliðar fyrir mörgum árum. Ég fékk mig á þeim árum aldrei til að henda misheppnuðum myndum. Skyggnan var ekki sett í ramma, sem skýrir rykið. Mig minnir að myndina hafi ég sett til hliðar því mér þótti hún hjákátleg. Nú sýni ég hana í fúlustu alvöru. Hún er ágætis heimild.

Myndin sýnir vinnu við eina erfiðustu fornleifarannsókn á Íslandi: Rannsóknina á Stóru-Borg undir Eyjafjöllum. Ég hef ekki lengur ártalið þegar ég var þarna í heimsókn, því ég gaf rannsókninni flestar aðrar ljósmyndirnar sem ég tók á Stóru Borg, þegar ég vann þar sumrin 1981 og 1982, Það var m.a. nokkuð safn 6x6 sm. litaskskyggna. Líklegast var ég þarna í heimsókn sumarið 1984.

stora_borg_1984_2.jpg

Lítið hefur því miður komið út um rannsóknirnar á Stóru-Borg. Þjóðminjasafnið lét mikið af því gífurlega mikilvæga efni sem þar fannst eyðileggjast. Það er alfarið sök Þórs Magnússonar og þeirrar óstjórnar sem fylgdi honum á Þjóðminjasafni Íslands til fjölda ára.

Á myndinni sést Mjöll Snæsdóttir fil. kand. (t.v.) sem í dag er einn af forstjórum Fornleifastofnunar Íslands, einkafyrirtækis sem býður í fornleifarannsóknir og skráningar og sækir í fé það sem yfirvöld veita til rannsókna. Með Mjöll mælir Dr. Orri Vésteinsson sagnfræðingur, sem löngu síðar var gerður að prófessor í fornleifafræði . Þegar myndin var tekin var hann víst í menntskóla. Orri fékk sína fyrstu þjálfun við hinar erfiðu aðstæður á Stóru-Borg. Það herti menn.

Vona ég að hæðamælingatækið sem notað var þetta sumar hafi verið í lagi, því árin sem ég vann á Stóru Borg var það ónýtt. Hæðarmælingar á rúst sem var yngri en undir-liggjandi rúst, gat hæglega fengið hæðarmælingar sem lágu undir rústinni sem var eldri. Þjóðminjasafnið sá ekki til þess að rannsóknin fengi boðleg rannsóknartæki. Ég öfundaði aldrei Mjöll Snæsdóttir af því hlutskipti að stýra þessari rannsókn.

Út úr öxl Orra og maga hans virðist vaxa föngulegur maður. Þetta er Einar vinur minn Jónsson frá Skógum, sagn- og lögfræðingur, sem oft vann með mér á Stöng í Þjórsárdal . Einar var, meðan hann gróf, meðal vandvirkustu grafara og teiknara sem ég hef haft í vinnu. Ef ég hefði tök á því að halda áfram að grafa á Íslandi, í því hafi af fornleifafræðingum sem Orri hefur menntað og mótað, myndi ég reyna að fá Einar í vinnu, gæðanna vegna - hann kann sitt fag. Ég tæki líka Orra í vinnu, því  hann sagði mér ungur er hann kom í heimsókn á Stöng í Þjórsárdal, að hann hefði vinnubrögðin mín að fyrirmynd og lofaði mig mjög á fyrirlestri í Árósum fyrir fáeinum árum, svo ég fór alveg hjá mér fyrir framan gamla samnemendur mína í Árósum. Það eru alltaf einhverjir sem kunna að meta mann.

Lýk ég nú þessu skjalli með myndum frá annarri rannsókn sem ég kom hvergi nálægt. Hér hefur Kristján Eldjárn boðið fjölda manns með í rannsókn á kumli við Úlfljótsvatn sumarið 1948. Þessa tísku verður víst aldrei hægt að fá aftur í fornleifafræðina á Íslandi, þar sem meirihluti fornleifafræðinga eru víst konur á okkar tímum. Við ræðum ekki aðferðirnar.

_slensk_fornleifafrae_i.jpg

kristjan_eldjarn_1948_2.jpg


Handbók fyrir Gamla Ford

ford_haandbog_1922_lille.jpg

Nýlega kom ég fyrir tilviljun í forgamla verslun á Friðriksbergi i Kaupmannahöfn. Ég sá í glugga að þeir voru með olíutrektar í öllum stærðum á 5 krónur stykkið. Mig hefur einmitt vantað slíkar trektar sem kosta auðveldlega 10 sinnum meira í öðrum verslunum. Á jarðhæð á Allégade í virðulegu hornhúsi var gamall maður að selja leifar lagersins í fyrirtæki sem fjölskylda hans hefur rekið í fjórar kynslóðir. Hann selur mest bílahluti, en hann er einnig með skransölu í einu herbergi. Þar fann ég sjaldgæfan lúterskan katekismus frá 1864 á aðeins 10 krónur danskar, sem ekki er til á Konunglega bókasafninu.

ford_t_gir_lille.jpg

Gírshjólin í Ford T

Ég rakst á þessa merku handbók á dönsku fyrir Ford T frá ágúst 1922 á dönsku, sem sá gamli vildi selja fyrir mjög sanngjarnt verð og ég sló til. Ég er þegar búin að fá gylliboð í bæklinginn. Mikið er til af sams konar handbókum á ensku, en það er venjulega í endurprentuðum útgáfum.

Þessi handbók er upphaflega útgáfan frá 1922 á dönsku. Langafi seljandans mun hafa keypt Ford T í hárri elli og þetta er bæklingurinn sem fylgdi þeim bíl nýjum. Vel hefur verið passað upp á hann.

Ef einhver er með Ford T sem þeir eiga í vandræðum með, er þetta örugglegasti hinn besti pési, en hann kostar.

Menn voru greinilega mjög snemma farnir að hafa áhyggjur að eftirgerðum að varahlutum. Undir upphafsorðum bókarinnar er varað við eftirlíkingum.

ford_t_af_vigtighed.jpg


Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá

hur_arhringur.jpg

Á okkar tímum, þegar öllu er hent eftir nokkurra ára notkun er ærið áhugavert að líta aftur á aldir á nýtni Íslendinga. Ruslalýður sá sem nú ræður ríkjum, og sem æpir og vælir út af minnsta skorti og jafnvel mest þegar launin eru hæst og tekjurnar eru bestar, ættu ekki að lesa um gripinn hér fyrir ofan. Þeir fá fyrir hjartað og þykir þetta örugglega ómerkilegt pjátur sem beri að henda. Eins tel ég víst að Þjóðminjasafnið frábiðji sig þær upplýsingar sem hér birtast, því þeim nægir greinilega það sem ritað var um gripinn árið 1886 eins og fram kemur á Sarpi þar sem gripurinn er sagður vera "málmsteypa" sem á hugsanleg við um hringinn, sem virðist tiltölulega nýlegur, en á alls ekki við um skjöldinn.

Árið 1886 kom þessi dyrahringur með skildi á Fornminjasafnið í Reykjavík. Líklega er hann af kirkjuhurð að Hvammi í Dölum. En eins og Sigurður Vigfússon safnvörður gerði sér strax grein fyrir, þá var gripurinn samsettur úr tveimur hlutum frá mismunandi tímum. Hann taldi hringinn vart vera eldri en frá 18. öld en skjöldinn kominn úr skírnarfati frá 15. öld.

Í þjóðsögum Jóns Árnasyni er því hins vegar getið að hringur þessi hafi upphaflega verið á hofi einu á Akri ekki allfjarri Hvammi, en er þjóðsagan var skráð var hringurinn á hurðinni að Hvammskirkju. Þetta er vitaskuld hugarburður og bábilja eins og flestar þjóðsögur, en Sigurður forni Vigfússon gullsmiður hitti naglann á höfuðið, þó hann gæti ekki bent á samanburðarefni máli sínu til stuðnings.

Ekki get ég dæmt um aldur hringsins sjálfs, en skjöldurinn er líklegast þýskt verk og líklegast þykir að hann hafi verið drifinn og hamraður á koparverkstæði í Nürnberg eða í Belgíu.eschols_rugur.jpg

Holland og Þýskaland

Árið 1941 keypti Rijksmuseum í Amsterdam fallegt fat úr messing (sem er gul málmblanda, blanda zinks og kopars). Seljandinn var forngripasali í Amsterdam, C.A.M. Drieman. Kannski hefur fatið verið skírnarfat, en ekki er hægt að útiloka að það hafi verið seder-fat, fat sem gyðingar röðuðu táknrænum réttum á til að minnast harðræðisins í Egyptaland og brottfararinnar þaðan. Það gera gyðingar á Pesach hátíð sinni (Páskum). Myndmálið á fatinu bendir til þess að þetta gæti hafa verið seder-fat.

Ef vel er að gáð, er augljóst að fatið og skjöldurinn frá Hvammi hafa verið hamraðir, og drifnir á sama móti, en fatið í Hollandi eru hamraðir borðar með skreyti.

Árið 1989 hélt ég svokallaðan Capita Selecta fyrirlestur við Háskólann í Amsterdam um landnámið á Íslandi. Þá eins og áður og oft síðan brá ég mér á Rijksmuseum og keypti áhugaverðan sýningarskrá frá 1986 upp á 381 blaðsíðu sem ber þann góða titil Koper & Brons. Þar á blaðsíðu 171 má lesa upplýsingar um fatið á Rijksmuseum. Þar upplýsist að að eins fat sé að finna í Germanisches Nationalmuseum í Nürnberg. Í þýskri bók frá 1927 er upplýst að fatið sé frá Nürnberg og sé frá ca. 1500. Hollendingar fara varlegar í sakirnar þegar þeir telja fatið vera frá 16. öld. Ég myndi velja fyrri hluta þeirrar aldar.

England

Viti menn á V&A (Victoria & Albert safninu í Lundúnum) er annað messingfat af sömu gerð, sem gefið var safninu árið 1937 af Dr. Walter Leo Hildburgh (1876-1955) bandarískum listsafnara og listskautadansara sem uppnefndur var "Eggið" . Hann gaf V&A um ævina 5000 gripi (sjá hér og mynd fyrir neðan). Eins og sjá má, er mynstrið á börmum fatsins í London öðruvísi en það sem er á fatinu í Amsterdam.

2008bt3087_jpg_l_2.jpg

Greinilegt er að skjöldurinn frá Hvammi hefur verið hamraður út á sama móti og fötin í Hollandi, Þýskalandi og London. En hann er hins vegar úr bronsi (blöndu kopars og tins) en þau úr messing. Ef til vill hefur hann verið klipptur úr aflóga skírnarfati Hvammskirkju og á hann settur hringurinn, sem mér sýnist vera rör en ekki heilsteyptur hringur.

Myndmálið á þessum þremur gripum sem gerðir voru á sama stað, eða á sama móti, má svo finna í 4. Mósebók, 13. kafla sem og Jósúabók 2. kafla vers 1-22 . Í Mósebók segir:

21Síðan fóru þeir upp eftir og könnuðu landið frá Síneyðimörk til Rehób við Lebó Hamat. 22Þeir fóru um Suðurlandið til Hebron. Þar bjuggu Ahíman, Sesaí og Talmaí, niðjar Anaks. Hebron hafði verið reist sjö árum áður en Sóan í Egyptalandi. 23Þeir komu inn í Eskóldal og skáru þar af vínviðargrein með einum vínberjaklasa og þurfti tvo menn til að bera hana á burðarstöng. Einnig tóku þeir með sér nokkuð af granateplum og fíkjum. 24Þessi staður var nefndur Eskóldalur eftir vínberjaklasanum sem Ísraelsmenn skáru þar af.

V.Ö.V. 2015

Ítarefni

ter Kuile, Onno 1986. Koper & Brons. (Catalogi van de versameling kunstnijverheid van het Rijksmuseum te Amsterdam, Deel 1, red. A.L. den Blauuwen). Staatsuitgeverij,´S-Gravenhage.

Tiedemann, Klaus 2015: Nürnberger Beckenschlägerschüsseln: Nuremberg Alms Dishes. J. H. Röll Verlag.

Walcher-Molthein, Alfred. 1927. Geschlagene Messingbecken. Altes Kunsthandwerk. Hefte über Kunst und Kultur der Vergangenheit. 1 Band 1927 / 1.Heft (mynd 13).

http://collections.vam.ac.uk/item/O88064/dish-unknown/

eschols_rugur_2.jpg


Gleðilega hátíð

falkafani.jpg

Eins og kunnugt er áttu Jón Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir páfagauk mjög skrafgjarnan og áhugasaman um pólitík. Hann var kallaður Poppedreng, sem var mjög algengt nafn á páfagauka í Danmörku, og er enn. Í einu af kvæðum Øhlenschlägers bregður Poppedrengen fyrir (sjá hér). Annars var Poppe komið úr þýsku og var gælunafn fyrir þá sem voru svo ólánsamir að heita Jakob. Hefði Jón því með réttu átt að kalla gauk sinn Kobba.

nonni_og_imba_1262287.jpgHvort Poppedrengen hafi verið á hægri eða vinstri vængnum, er ekki vitað, en hann skipti sér iðulega af stjórnmála- viðræðum á heimili Jóns og Ingibjargar. Þegar of miklar öfgar voru komnar í fuglinn og hann var farinn að kalla andstæðinga sína ljótum nöfnum, var í snarheitum breitt klæði yfir búrið sem hann bjó í til að róa kvikindið niður. Kem ég hér með þeirri aðferð til skila til háttvirts forseta Alþingis.

Ekki er til ljósmynd af Poppedrengen svo vitað sé, en Fornleifur óskar í staðinn lesendum sínum gleðilegrar hátíðar á afmæli Jóns með silkibút ísaumuðum með hinum konunglega íslenska fálka. Svona smádúk gátu heppnir reykingamenn í Belgíu og Hollandi átt það til að finna í sígarettupökkum fyrir rúmum 100 árum síðan. Það hefur væntanlega glatt margan krabbameinssjúklinginn.

Ef til vill hefur Sigurður Guðmundsson ætlað sér að hanna páfagauksmerki til heiðurs Jóni, en þá tekist það svo illa að úr varð fálki. Það er að minnsta kosti vinnutillaga dagsins.

picasion_com_4914de44e726a26def307bced518ae66_1262296.gif


Fitjakaleikur - inngangur

kaleikur_fyrir_blogg.jpg

Hér hefst röð hæfilegra langra greina um hina heilögu kaleika með rómönsku lagi, sem eitt sinn var að finna í mörgum íslenskum kirkjum. Þeir eru nú varðveittir á söfnum bæði á Íslandi og erlendis. Margir hinna elstu íslensku kaleika eru meistarasmíð og jafnast á við það besta sem þekkist frá 12. og 13. öld í Evrópu. Því hefur ósjaldan verið haldið fram að sumir þeirra séu íslensk smíð og jafnvel spænsk, en hvortveggja tel ég vera rangt, og sömuleiðis að þeir séu norskir.

Þann 17. júní árið 2011 var mér boðið að halda fyrirlestur um merkan kaleik að Fitjum í Skorradal. Hulda Guðmundsdóttir bóndi og guðfræðingur m.m. að Fitjum stóð fyrir hátíð í tengslum við vígslu nýs kaleiks fyrir Fitjakirkju. Hún og fjölskylda hennar höfðu haft veg og vanda af gerð hans. Ívar Þ. Björnsson leturgrafari og smiður góður skóp hinn nýja kaleik með upphaflegan kaleik kirkjunnar sem fyrirmynd. Hinn nýi kaleikur er mjög vel unnið verk og meistarasmíð. Að því verður vikið síðar. Gladdist fjölmenni og kirkjufólk sem kom að Fitjum þann 17. júní 2011 mjög yfir hinum nýja kaleik sem vonandi á eftir að fylgja kirkjunni um ókomin ár.

fitjakirkja.jpgMeð mjög stuttum fyrirvara var ég beðinn um að halda fyrirlestur um kaleikinn forna frá Fitjum. Ýmsir aðrir höfðu verið beðnir um það sama en gátu ekki eða skorti þekkingu til þess. Ég hélt langan fyrirlestur með fjölda mynda og má skoða skyggnur frá fyrirlestri mínum hér (skjalið er frekar stórt, hafið vinsamlegast biðlund).

Nú er kominn tími til að greina betur og opinberlega frá afrakstri athugana og íhugana minna um rómanska kaleika á Íslandi.

Munu greinar undir heitinu Fitjakaleikur I-? smám saman birtast hér á Fornleifi, en hann er líka mikill áhugamaður um hinn gangandi greiða (gradalis) og önnur dularfull, kirkjuleg vínveitingaáhöld, sem sumir telja að sé jafnvel að finna í klettaskorum á hálendi Íslands.

Til að byrja með verður greint almennt frá kaleiknum frá Fitjum og öðrum kaleikum frá sama tíma, en í síðari greinum verður farið nánar í uppruna kaleiksins, stílsögu og myndmál (táknmál), sem er mjög merkilegt.

Áframhald á næstunni - Perfer et orate!


Plastöldin í Þjórsárdal

_aki_a_jo_veldisbaenum.jpg

Öruggt tel ég að flestir íslenskir fornleifafræðingar fari ekki ofan af þeirri skoðun, að Þjóðveldisbær Harðar Ágústssonar við Búrfell í Þjórsárdal sé eitt besta dæmi sem til er um minnimáttarkennd íslensks þjóðernisrembings. Hún er vitleysa í alla staði. Þetta væri kannski hægt að segja á diplómatískari hátt, en ég sé enga ástæðu til þess.

Ég get manna best tjáð mig þjóðveldisbæinn. Ég hef rannsakað minjar á Stöng í Þjórsárdal, sem á að vera fyrirmynd Þjóðveldisbæjarins. Kirkjan við þjóðveldisbæinn er jafnvel enn meira rugl en skálinn og hef ég ritað um það áður á bloggum mínum (hér og t.d. hér). Mestur hluti yngsta skálans á Stöng var niðurgrafinn. Líkt og skálinn á Hrísbrú í Mosfellsdal voru húsakynni á Stöng eins konar risavaxin jarðhýsi.

Þó svo að Þjóðminjasafnið og aðrar kreddukonur séu ekki búnar að meðtaka sannleikann, þá fór Stöng ekki í eyði í Heklugosi árið 1104, heldur að minnsta kosti 125 árum síðar.

Plastmottur í þekju

Plastmotta var heldur aldrei undir torfi í þakinu á Stöng fyrr en á 20 öld. En þá var nú heldur betur tekið til höndunum við að plastvæða dalinn.

Efst sést Kristján Eldjárn heilsa Stefáni Friðrikssyni hleðslumanni. Kristján sagði mér sína tæpitungulausu skoðun á Þjóðveldisbænum. Hann var meira að segja enn minna diplómatískur en ég, þegar að Þjóðveldisbænum kom. Honum þótti lítið til hans koma, en hefur líklega ekki getað sett út á verkið í því embætti sem hann var þá í. Vonandi hafa Stefán og Kristján ekki rætt um ágæti plastsins.

Vorið 1980 fór ég í ferð sagnfræðinema við HÍ, þar sem ég stundaði nám eina önn. Meðal annars var var haldið í Þjórsárdal. Með í för voru prófessorarnir Björn Þorsteinsson og Sveinbjörn Rafnsson. Sveinbjörn hafði ekki komið þangað eftir að byggingu skálans var lokið. Þegar inn í skálann var komið sagði undirleitur og hógvær Sveinbjörn mjög diplómatískt, og roðnaði jafnvel þegar hann leit upp yfir þverbita: "assgoti er þetta hátt". Eigi vissi hann af plastinu í þekju.

plaststong.jpg

Hinn jarpi, bandaríski gæðingur þjóðminjavarðar er hér riðinn alveg heim í hlað og Þór Magnússon tekur myndir (skv. Sarpi og myndasafni Þjóðminjsafnsins) af piltum sem eru að fela öll ummerki um plastið í Þjóðveldisbænum - Ljósm. Þór Magnússon, þó svo að Þór sjáist þarna standa og draga djöfulinn á eftir sér á mynd sem hann er sagður hafa tekið.

steinsteypan_kaer.jpg

Fæstir vita sennilega, að það þótti öruggara að reisa steinsteypuveggi í Þjóðveldisbænum og hlaða torfið utan á þá. Potemkintjöld íslenskrar þjóðminjavörslu eru mörg og ljót.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband