Gullið í Gullskipinu er loks komið í leitirnar

a6736767a648731e88bda11197f63635_1276012.jpg

Margir hafa sennilega aldur til þess að muna þá sveit vaskra manna sem hundsuðu alla rökhugsun og heimildir og leituðu ár eftir ár að "Gullskipi" á Skeiðarársandi.

Eftir áratuga leit, á skjön við ráð fróðra manna og t.d. rannsóknarstofnun bandaríska sjóhersins í Maryland, fundu þessir karlar loks árið 1983 skip í sandinum. Ekki var það gullskipið heldur þýski togarinn Friedrich Albert, sem strandaði á sandinum í janúar árið 1903.

Þjóðminjasafnið eitt græddi eitthvað gullkyns á því ævintýri því það fékk nýjan jeppa, hvítan og austur-asískan að uppruna, til að taka þátt í ævintýrinu með gullskipið áður en það varð að martröð með þýskan togara í aðalhlutverki. Áður en það gerðist var Þjóðminjasafnið komið í startholurnar og hafði sent fólk austur á Sanda. Reyndar vildi Menntamálráðuneytið fá jeppann aftur eða láta Þjóðminjasafnið borga fyrir hann að fullu og þátttöku safnsins í vitleysunni, en það tókst ekki. Heilar 50 milljónir fornkrónur gekkst ríkið í ábyrgð fyrir á sandinum. Var jeppagarmurinn lengi kallaður Gullskipið af gárungum í fornleifafræðingastétt.

ventill_alberts_1276025.jpg

Þegar menn fundu ryðgaðan ventil úr Albert togara fór víst allur vindur úr Gullleitarmönnum. Myndin birtist í DV í september 1983.

Þrátt fyrir togarafundinn, héldu ofurhugarnir áfram leit sinni í nokkur ár á sandinum, en nú heyrist orðið lítið af Het Wapen van Amsterdam sem strandaði árið 1667 og meintum dýrindisfarmi skipsins.

Þrátt fyrir að sameiginlegar farmsskrár skipsins og þeirra skipa sem það var í samfloti með væri birt á Íslandi og hún ekki sögð innihalda neitt þess kyns sem stórir strákar í sjóræningjaleik leita að, þá héldu sumir menn að skrárnar innihéldu t.d. upplýsingar um að "49,280 tonn af kylfum eða stöfum". Reyndar skjátlaðist þeim einnig sem birtu farmskrárnar og óðu í sömu villu og leitarmenn. Þeir sem fróðari áttu að vera og hafa vitið fyrir ævintýramönnum, höfðu ekki fyrir því að leita aðstoðar manna sem gátu lesið hollensku. Það sem velviljaðir heimildarýnir menn vildu meina að væru kylfur og stafir, voru 49,28 tonn af múskatblómu, foelie. Einhver spekingur þýddi orðið foelie með kylfum og stöfum (sjá hér), en foelie er gamalt heiti fyrir múskatblóm (muskaatbloem á hollensku), þ.e. trefjarnar rauðu og bragðgóðu utan um múskathnotuna. Trefjarnar missa fljótt litinn og verða gular og fölar og eru seldar malaðar á Íslandi, oft undir enska heitinu mace.

000004_1276016.jpgÞetta kylfustand var föður mínum sem var fæddur í Hollandi mikið undrunarefni man ég, en hann flutti einmitt inn múskatblómu og múskathnetur, og hann reyndi að hafa samband við björgunarmenn gullskipsins, ef ég man rétt sjálfan Kristinn í Björgun, en án mikils árangurs. Þeir vildu ekkert á hann hlusta. Þeir voru líklega farnir að leita að kylfum í sandinum blessaðir mennirnir.

En nú færi ég Gullskipsmönnum lífs eða liðnum þau gleðitíðindi, að gullið í gullskipinu sé svo sannarlega fundið. Það hefur lengi verið vel varðveitt í kirkjum og söfnum síðan það fannst, þótt lítið væri nú reyndar eftir af gullinu.

Gullið eru leifar af gyllingu, stundum gervigyllingu, á spjöldum úr skrautkistu með svörtu lakkverki, sem var meðal þess sem menn hirtu úr flaki skipsins eða af sandinum. Fróðir menn, og þar á ég m.a. við Þórð Tómasson í Skógum hafa lengið talið að spjöldin þrjú úr lakki sem varðveitt eru í Skógarsafni, Þjóðminjasafni og Kálfafellskirkju hafi komið úr Het Wapen van Amsterdam. Þar er ég alveg sammála meistara Þórði, og það eru fremstu sérfræðingar í Hollandi líka. Verkið á lakkspjöldunum kemur heim og saman við að það geti hafa verið úr skipi strandaði árið 1667.

Hins vegar er nýtt vandamál komið upp sem þarf að leysa. Lakkverk, sem á þessum tíma tengdist oftast Japan var framleitt víðar í Asíu en þar. Þegar Het Wapen van Amsterdam lagði upp í sína síðustuu ferð frá Batavíu (síðar Jakarta) í Indónesíu, og það var þann 26.janúar 1667, var skipalest sú sem Skjöldur Amsterdams með fylli að varningi víðs vegar úr Asíu. Hollendingar söfnuðu auðæfum, kryddi, vefnaði og postulíni í gríðarstór pakkhús í Batavíu sem þeir sóttu til fjölmargra hafna sem þeir sigldu á.

batavia_1661.jpg

Kastali Hollendinga í Batavíu árið 1661, stærð sumra pakkhúsanna sem sjást á myndinni var mikil. Njótið verksins, sem málað var af Andries Beeckman árið 1661, með því að stækka myndina. Málverkið hangir á Rijksmuseum í Amsterdam.

Ein þessara hafna var Macau, nýlenda Portúgala, sem þeir lögðu áherslu á, eftir að Japanar höfðu úthýst þeim frá Japan. Portúgalar höfðu smám saman gerst óvinsælir meðal Japana og stunduðu trúboð í Japan. Það líkaði Japönum lítt og voru Portúgalar loks flæmdir í burtu og einnig margir Japanir er tekið höfðu kristna trú. Meðal þeirra Japana sem fóru með Portúgölum voru iðnaðarmenn sem stunduðu lakklistavinnu. Þeir settust að á Macau nærri þeim stað sem síðar hét Hong Kong og héldu áfram að stunda handverk sitt.

Helsti sérfræðingur Hollands og heimsins í lakklist telur nú mjög hugsanlegt að spjöldin á Íslandi sem að öllum líkindum eru komin í "Gullskipinu" fræga, hafi verið gerð af japönskum listamönnum á Macau, þó ekki sé búið að afskrifa að þau séu frá Kyushu eyju í Japan, eða verkstæðum í Nagasaki ellegar Kyoto.

1-1.jpg

Spjald sem talið er vera úr Het Wapen van Amsterdam. Varðveitt í Byggðasafninu í Skógum og var síðast notað sem sálmaspjald í Eyvindarhólakirkju.

Efnasamsetning lakksins, sem á japönsku kallast urushi, verður nú vonandi rannsökuð ef leyfi fæst og er hægt með efnagreiningum að segja til um hvort að það var framleitt í Japan, Macau, Síam eða annars staðar. Vísindunum fleygir fram.

Fleiri tíðindi munu berast af því síðar á Fornleifi, sem alltaf er fyrstur með fréttirnar - af því gamla.

Vona ég að þessi gullfundur gleðji gullleitarmenn á Sandinum, ef þeir eru þá nokkrir eftir ofan sanda til að gleðjast með okkur - líklega allir farnir með gullvagninum aftur heim í skýjaborgirnar.


Skildir Íslands og Grænlands á miðöldum

le_roi_dillande_grande.jpgÁrið 1971 birtist í Árbók hin íslenska fornleifafélags grein á dönsku eftir danskan embættismann, Paul Victor Warming að nafni. Hann kynnti fyrir Íslendingum þá vitneskju að í frönsku handriti, nánar tiltekið skjaldamerkjabók, sem talin er hafa verið rituð á tímabilinu 1265-1275 og sem kennd er við hollenskan eiganda hennar á 19. öld, Wijnbergen, mætti finna skjaldamerki "konungs Íslands" á miðöldum (sjá mynd af merkinu úr handritinu hér til vinstri).

Í Wijnbergen-bókinni er skildinum lýst sem skildi le Roi dIllande. Þrátt fyrir að norskur sérfræðingur, Hallvard Trætteberg, hefði lagt lítinn trúnað á að þessi skjöldur hefði verið til í raun og veru, var grein Warmings á dönsku í íslensku riti hugsuð sem svargrein til Trætteberg. Greinin varð hins vegar að frekar krampakenndri tilraun Warmings, sem ekki fékk greinina birta annars staðar en í Árbókinni, til að sannfæra menn um að skjöldur þessi hefði ekki verið uppspuni einn líkt og Trætteberg hafði haldið fram.gissur_jarl_1275658.jpg

Grein Warmings í Árbók Fornleifafélagsins er öll full af fremur langsóttum skýringum, en þó hann fari út og suður í röksemdafærslum sínum þá hvet ég menn til að lesa greinina, ef danskan leggst vel í þá.

Warming taldi enn fremur víst að skjöldur sá sem Gissuri Þorvaldssyni var afhentur í Noregi árið 1258 með jarlstign sinni, líkt og greint er frá í Sturlunga sögu, hafi verið eins og skjöldurinn hér til hægri. Það eru 12 þverbjálkar, sex bláir og sex silfraði til skiptis. Warming taldi að skjöldur Gissurar hefði orðið að hluta skjaldamerkis Noregskonungs á Íslandi eins og því merki er lýst í Wijnbergen bókinni.

Í Sturlungu er grein þannig frá jarlstign Gissurar:

Ok þat sumar, er nú var frá sagt (þ. e. 1258), gaf Hákon konungr Gizuri jarls nafn ok skipaði honum allan Sunnlendingafjórðung ok Norðlendingafjórðung ok allan Borgarfjörð. Hákon konungr gaf Gizuri jarli stórgjafir, áðr hann fór út um sumarit. Hákon konungr fekk Gizuri jarli merki ok lúðr ok setti hann í hásætihjá sér ok lét skutilsveina sína skenkja honum sem sjálfum sér. Gizurr jarl var mjök heitbundinn við Hákon konung, at skattr skyldi við gangast á Íslandi. Í Björgyn var Gizuri jarlsjafn gefit á fyrsta ári ins fimmta tigar konungdóms Hákonar. Þá skorti Gizur jarl vetr á fimmtugan. En þá skorti hann vetr á fertugan, er hann gekk suðr, vetr á þrítugan, er Örlygsstaðafundr var, vetr á tvítugan, er hann gerðist skutilsveinn.

Enginn getur verið viss um, hvort að þessi skjöldur konungs Íslands hafi nokkurn tíma verið notaður á Íslandi, og þaðan að síður verið þekktur þar fyrr en Paul Warming skrifaði um hann á dönsku og gerði fróða menn á Íslandi viðvart um handritið sem skjöldinn er að finna í.

Í dag er ekki lengur hlaupið að því að fá upplýsingar um, hvar Weijnberger-bókin er niður komin. Koninklijk Nederlandsch Genootschap voor Geslacht - en Wapenkunde (Hið konunglega hollensk félag fyrir ætt- og skjaldamerkjafræði), þar sem handritið var í geymslu um tíma á 20. öld, hefur þurft að skila bókinni til eigandans, sem ekki vilja lengur sýna bókina nokkrum manni og leyfir ekki að nafn eiganda sé upp gefið fremur en heimilisfang. Slík sérviska er afar furðuleg á okkar upplýstu tímum. Mig grunar að eigandinn hafi annað hvort hellt kaffi eða rauðvíni á bókina, og sennilega skammast sín svo ærlega að hann hefur látið sig hverfa með bókina. En vart gefur aðgangur að handritinu, sem hefur verið lýst nokkuð vel af fræðimönnum áður en það var falið, frekari upplýsingar um skjöld Íslands, sem í henni er að finna.

Var skjöldur Íslands tilbúningur?

Persónulega hallast ég að skýringum Hallvards Trættebergs og tel ég afar ósennilegt, en þó ekki alveg óhugsandi að Noregskonungur hafi átt Íslandsskjöld, og enn síður að Íslendingar hafi þekkt þann skjöld sem teiknaður er í frönsku skjaldamerkjabókinni sem kennd er við Wijnbergen. Sennilegt þykir mér að einhver spjátrungur og merkikerti í Frakklandi sem sá um skjaldamerkjamál hirðar einhvers konungsins þar í landi hafi hugsað með sér: "Hvernig ætli skjaldamerki Íslands líti út?". Hann hefur ugglaust haft óljóslegar spurnir af einhverju Íslandi (Illande) og þekkt skjöld norska konungsins. Síðan hefur hann skáldað er hann teiknaði skjöld fyrir konungsríkið Illande (eða Islande, sem er sennilegra að standi í handritinu) eins og honum hefur þótt hann ætti að vera. 

Ef slíkur skjöldur hefði í raun verið til og verið notaður hér af erindrekum konungs eða skósveinum hans íslenskum og skutilsveinum, tel ég nokkuð öruggt að við þekktum hann úr íslenskum heimildum eða úr fjölda annarra svipaðra skjalamerkjaverka sem varðveist hafa frá miðöldum. Skjöldur Íslandskonungs í Wijnbergenbókinni er hins vegar einstakur í sinni röð og því ólíklegt að skjöldurinn sé annað en tilbúningur.

Við megum þó ekki útiloka, að einhvern daginn finni einhverjar fornleifafræðingaómyndir mynd "íslenska konungsskjaldarins", skjöld Gissurar og allra helst vel fægðan lúður hans undir stórum steini. Þangað til er víst best að slá alla varnagla frekar fast.

Skjaldarmerki "Grænlandskonungs"

Líkt vandamál og með íslenska skjaldamerkið gæti verið upp á teningnum með skjöld "Grænlandskonungs", sem teiknaður var í tvö skjaldmerkjahandrit á Englandi. Þau sýna hvítabjörn og þrjá hvíta fálka á grænum fleti.

Ef menn þekktu til Grænlands á annað borð, vissu menn ugglaust að þar væru birnir hvítir. Höfðu konungar á Bretlandseyjum fengið hvítabirni að gjöf frá norskum starfsbræðrum sínum (sjá hér og hér). Í miðaldaheimildum var iðulega minnst á hvítabirni í tengslum við Grænland. Veiðifálkar voru sérlega eftirsóknarverðið meðal konunga og greifa og bar hinn hvíti Grænlandsfálki þar af. Hvað var því meira upplagt en að setja þessi dýr á grænan skjöld? Landið hét þrátt fyrir allt Grænland.

En voru þessi skyldir til í raun og veru til og t.d. uppi við í kirkjum eða híbýlum Grænlendinga. Eða voru þeir einungis hugsmíð á bókfelli á Englandi og í Danmörku?

Nýlega nefndi Guðmundur Magnússon sagnfræðingur, blaðamaður og um tíma settur þjóðminjavörður með meiru, þetta grænlenska skjaldamerki. Guðmundur hefur um margra ára skeið verið mikill áhugamaður um hugsanlegt skjaldamerki Íslands sem finna má í Wijnbergen-bókinni. Á fasbók sinni nefndi Guðmundur handrit í Lundúnum sem sýna m.a. skjaldamerki Grænlandskonungs "Roy de Groyenlande", og vitnaði hann í málgagn sauðkindarinnar og basl- og biðraðaflokksins, Tímans sáluga, í grein sem birtist árið 1977 (sjá hér).

Handritin ensku eru tvö að tölu. Í greininni í Tímanum var sagt frá athugunum fyrrnefnds Paul Victor Warmings, sem þá gegndi stöðu skjaldamerkjaráðs dönsku drottningarinnar. Áður hafði Warming unnið sem dómarafulltrúi og síðar sem ritari, fulltrúi og deildarstjóri í ráðuneytinu fyrir opinberar framkvæmdir (Ministeriet for offentlige arbejder) sem lagt var niður árið 1987 og þá lagt undir samgönguráðuneytið.

Í grein Warmings, sem var endursögn úr grein sem áður hafði birst í danska dagblaðinu Berlingske Tidende, voru hins vegar margar villur og meinlokur. Ekki voru þó neinar þýðingavillur eða misskilningur á ferðinni hjá starfsmönnum Tímans. Warming var hins vegar eins og margir hirðmenn konunga fyrr og síðar, enginn sérstakur bógur í sinni þjónustugrein fyrir sinn höfðingja. Betra væri að skilgreina hann sem dugmikinn amatör. Furðulegustu menn og uppskafningar hafa sumir hafa tekið sér að kostnaðarlausu, helst til þess að geta talist til hirðarinnar og til að fá orður og nafnbætur. Slefandi snobbið þrífst við hirðir nútímans, líkt og svo oft áður. T.d. var einn af silfurgæslumönnum hirðarinnar á stríðsárunum lítilmótlegur nasisti, Dall að nafni, en löngu síðar tók við því starfi kennari nokkur sem engar forsendur hafði til þess annað en löngun til að vera í sambandi við "háaðalsborið og konunglegt" fólk.

Í greininni í Berlingske Tidende upplýsti Paul Warming, að hann teldi að til hefði verið skjaldamerki konungs Grænlands allt að tveimur öldum áður en elsta þekkta skjaldamerki Grænlands (hvítabjörn á bláum fleti) þekkist í Danmörku, annað hvort höggvið í stein eða málað. 

Ég hafði samband við British Library og Society of Atniquaries of London á síðasta ári til að ganga úr skugga um aldur þeirra handrita sem bera skjöld "Grænlandskonungs" og til að útvega mynd af skyldi þeim sem ekki var birt mynd af í Tímanum árið 1979. Hér skal sagt það sem rétt er um þessa tvo skildi og þau handrit sem þau er að finna í:

greenland_london_roll_1470.jpg

London Roll

Skjöld "Grænlandskonungs" sem sjá hér að ofan má finna í svo kallaðri London Roll. London Roll er ekkert annað en tæknilegt heiti á seinni tíma viðbót við rullu (roll) sem kallst The Third Calais Roll. Ritunartími The Third Calais Roll er tímasettur nokkuð nákvæmlega til ársins 1354. Handritið er varðveitt á British Museum í London. London Roll er  hins vegar safn fremur illa teiknaðra skjaldmerkja aftan á The Third Calais Roll og hefur þessi viðbót verið færð inn (rituð og skreytt) um 1470 eða nokkru síðar. Teikningin af hvítabirninum og fálkunum þremur í þessi handriti er því í mesta lagi 160-170 árum eldra en elsta þekkta birtingarmynd grænlenska ísbjarnarins á bláum fleti í Danmörku.

roskilde_dom_innen_orgel_2.jpgWarming taldi að elsta þekkta gerð skjaldamerkis Grænlands í Danmörku væri að að finna á skreyti, þ.e. útskornum skjöldum á elsta orgeli Hróarskeldudómkirkju. Skreytingin er tímasett til 1654, en kjarni orgelsins, er svokallað Raphaëlisorgel frá 1554-55, byggt af hollendingnum Herman Raphaëlis Rodensteen. Hugsast getur að hlutar af skreytinu, t.d. skildirnir, séu eldri en breytingin á orgelinu sem gerð var árið 1654. Því getur skjöldurinn á orgelinu í Hróarskeldu, sem sýnir skjöld Grænlandskonungs með hvítabirni á bláum fleti, fræðilega séð verið mun eldri en frá 1654, þótt áletrun á orgelinu upplýsi að það sé frá 1654.

Það var Paul Warming sem fyrstur manna uppgötvaði skjaldamerki Grænlands á orgelinu í Hróarskeldukirkju, en áður en hann gerði það töldu menn að elsta skjaldamerki Grænlands væri að finna á gullspesíu frá 1666, sem Kristján 4. lét slá með mynd af sjálfum sér og skjaldamerki ríkis síns á bakhliðinni (sjá mynd X). Svo virðist sem uppgötvun Warmings hafi ekki slegið í gegn eða komist til skila í fræðin, því enn eru menn að vitna í spesíu Friðriks 3. frá 1666 (sumir segja hvítabjarnarskjöldurinn hafi þegar verið á spesíudal Friðriks árið 1665 sjá hér) sem elstu heimild um hvítabjarnarskjöld Grænlands.

christian_1666.jpg

Ekki vissi Warming allt, því reyndar þekkist hvítabjörn á grænum fleti einnig af einu stórfenglegu safnskjaldamerki danska konungsríkisins frá 1654. Það var að finna á gafla skrautskips Kristjáns 4. Sophíu Amalie, en smíði þess lauk árið 1650. Til allrar hamingju eru til tvö samtímalíkön af skipinu - eitt í Kaupmannahöfn og hitt í Osló og sést þar ísbjarnarskjöldur með grænum bakgrunni undir skjaldamerki Íslands, tveimur skreiðum krýndum á rauðum fleti) og yfir færeyska lambinu á bláum fleti.

Til upplýsingar þeim sem stundað hafa opinbera skjaldmerkjafræði á Íslandi og skrifað um þær af miklum vanefnum á heimasíðu Forsætisráðuneytisins, er því hér með komið á fram að tvær krýndar skreiðar voru einnig notaðar sem skreyti á skildi Íslands á 17. öld. 

sophia_amalia_islandgr_nlandfaer_erne.jpg

sophia_amalia_traedaekker.jpg.

Sir William Neve´s Book

soc_ant_order_36.jpg

Þennan grænlenska skjöld Le Roy de Grenelond, dálítið frábrugðinn þeim sem er teiknaður í London Roll, er að finna í svokallaðri Sir William Neve´s Book (SAL MS 665/5), sem varðveitt er í Society of Atniquaries of London í Burlington House, Piccadilly í Lundúnum. Í Catalogue of English mediaeval Rolls of Arms (1950) eftir Anthony Wagner, sem var einn fremsti sérfræðingur Breta um skjaldamerkjafræði á 20. öld, er upplýst að þessi rulla sé 156 blaðsíður úr bók sem ekki er lengur til sem og að á blöðum þessum sé að finna lýsingar á 936 skjöldum. Taldi Anthony Wagner að bróðurpartur  bókarinnar hafi verið frá því um 1500, en bætir því við í lýsingu að handritið væri frá 16. öld, en að eldra efni hafi verið bætt inn í það. Því er hægt að fullyrða að margt sé enn á huldu um aldur þessa handrits.

Í Sir William Neve´s Book er hvítabjörninn teiknaður standandi (eða gangandi eins og það heitir á máli skjaldamerkjafræðinga). Eigandi þessara bókaleifa var Sir William le Neve af Clarenceux, sem mun hafa eignast bókina um 1640. William le Neve var uppi 1600-1661 og var skjaldamerkjaráð, safnari og greinilega hinn mesti furðufugl. Hann missti nafnbót sína árið 1646 og var síðar lýst sem "lunatic" árið 1658 og sem "insane" árið 1661. Ekki fór því vel fyrir þeim skjaldaverði.

hugoderoselbyleneve.jpgSir William le Neve í einhvers konar fornmannabúningi sem hann hannaði sjálfur og gekk í þegar hann tjúllaðist. Kannski var hann bara á undan sinni tíð, eins konar einhvers konar Sigurður málari þeirra Englendinga eða nafni hans Vigfússon.

Það voru því víst ýkjur hjá Paul Warming, að halda því fram að skildir "Grænlands- konungs" í enskum handritum væri allt að tveimur öldum eldri en hvítibjörninn á bláum fleti sem þekktur er í Danmörku á 17. öld. Eins og fyrr segir, var einnig til skjöldur með grænlenskum hvítabirni á grænum fleti á viðhafnarskipi Kristjáns 4. sem var fullsmíðað árið 1650. En hvort hvítabjörninn sem þekkist í enskum handritum hafi nokkru sinni verið notaður á Grænlandi af norrænum mönnum er hins vegar útilokað að segja neitt um út frá þeim brotakenndu heimildum sem til eru.

Silfurskjöldurinn frá rúst V 54 í Niaqussat

skjold_fra_hikuin_1980_lille.jpg

Það er ekki svo með sagt að ég telji að norrænir menn á Grænlandi hafi verið algjörlega menningarsnauðir og allslausir í hinni miklu einangrun sinni eða með minni aðgang að stórmenningu en t.d. frændur þeirra Íslendingar.

Vel getur verið áhugi á skjaldamerkjum hafi verið mikill á Grænlandi. Það virðist sem að einhverjir hafi jafnvel gengið með litla ættarskildi úr silfri á klæðum sínum á Grænlandi. Í kotlegri rúst í Vestribyggð á hjara veraldar fannst við fornleifarannsókn á 8. áratug 20. aldar örlítill skjöldur úr silfri. Hann er aðeins 1,8 sm. að lengd og 1, 2 sm. að breidd, eða eins og þumalsnögl að stærð. Ekki nóg með það: Í rústinni í Niaquassat í Vestribyggð, sem ber heitið V 54, hafa einnig verið höggnir út skildir án skjaldarmyndar í tálgusteinsgrýtur. Mögulega hafa íbúar á V 54-stöðum í Niaqussatfirði verið af fínum ættum og því þótt bráðnauðsynlegt að skreyta sig með skjaldamerkjum ættarinnar sem náð hafði lengra til vesturs en aðrir Evrópumenn.

Skjaldamerkjafræðingur einn danskur, sem tjáði sig um skjöldinn á V 54-stöðum er hann fannst, hefur með mjög hæpnum rökum talið silfurskjöldinn í V 54 vera frá 13. öld og bent á að hann eigi sér engar hliðstæður á Norðurlöndum. Sömuleiðis benti hann á að skjöldur skosku Campbell-ættarinnar bæri svipað merki og skjöldurinn sem fannst í V 54. Athyglisvert er þetta ef satt væri. Bjuggu kannski Skotar, fjarskyldir frændur Campbell-klansins, á Grænlandi á 13. öld? Skoðum málið aðeins betur:

Ef rýnt er í fornleifarnar sem fundust við rannsókn á V 54, undir stjórn danska fornleifafræðingsins Claus Andreasen, kemur fljótt í ljós að það kann sjaldan góðri lukku að stýra, að fornleifafræðingur sem lagt hefur stund á forsögulega fornleifafræði fer að fást við miðaldafræði á Grænlandi  - eða annars staðar. Claus Andreasen (sjá grein Andreasen hér) velur að fylgja hefðbundinni, og frekar kreddukenndri aldursgreiningu á endalokum byggðar í Vestribyggð, sem menn hafa ályktað að hafi orðið um miðbik 14. öld. Aðrar fornleifar frá V 54, svo sem gott safn horn- og beinkamba og kirkjubjöllubrot, sem einnig hafa fundist hafa annars staðar í Niaqussatfirði, benda til þess að búseta hafi að minnsta kosti haldist fram undir 1400.

Mjög góðar hefðbundnar kolefnisgreiningar á efni frá V 54 voru gerðar í Kaupmannahöfn, og gefa þær einnig til kynna að búseta á V 54 bænum hafi geta haldist allt fram á 15. öld og ef til vill lengur. En Andreasen vísaði kolefnisaldursgreiningum hins vegar alfarið frá í grein sinni. Hann upplýsti lesendur sína að þar sem ein hefðbundin aldursgreining endaloka byggðar í Vestribyggð hafi verið tímasett til 1350 þá hlyti kolefnisaldursgreiningin að vera röng, því samkvæmt rökum Andreasen:

"Denne officielle dato vil jeg holde mig til her, da der ikke er 100% sikkerhed for, hvad der egentlig er dateret med sidstnævnte datering."

Síðan Andreasen skrifaði þetta hafa menn breytt skoðun sinni og talað er um endalok byggðar á seinni hluta 14. aldar.

Ég leyfði mér sömuleiðis að rannsaka, hvers kyns sýnið var sem greint var og hafði samband við Þjóðminjasafn Dana sem sendi mér strax niðurstöður kolefnisaldursgreininganna sem Claus Andreasen birti ekki sem skyldi á sínum tíma (sjá hér). Þá kom í ljós, að Andreasen hefur ekki aðeins hafnað niðurstöðum fyrir gamla og forstokkaða kreddu sína, heldur einnig ruglað kolefnisgreiningunum sem gerðar voru á efniviði frá V 54 saman innbyrðis. Sýnið K-3060 sem Andreasen segir sýna of ungan aldur til að hann geti notað það gerir það alls ekki. Hins vegar sýndu sýnin K-3061 og K-3062 yngri aldur en hefðbundna lokaaldursgreiningu byggðar í Vestribyggð. En ber að hafna þeim niðurstöðum vegna þess að menn eru óöruggir með sýnið? Ekkert bendir til þess.

Meiri nákvæmni fornleifafræðingsins hefði verið óskandi fremur en frekar þóttafull höfnun hans á niðurstöðum. Þetta voru sannast sagna afar léleg vinnubrögð fornleifafræðings. Claus Andreasen hafðu, mér sjáanlega, enga haldbæra ástæðu til að hafna kolefnisaldursgreiningum á sýnunum. Niðurstöðurnar gætu einnig vel stutt þann möguleika að búseta hafi haldist lengur í Vestribyggð en menn telja almennt, án annars en gamalla tímasetninga byggða á eintómum alhæfingum. Ég endurreiknaði niðurstöður aldursgreininganna frá V 54, sem má sjá hér.

k-3062_kalibreret.jpg

c-14_dateringer_n_54_vesterbygden.jpg

Þar fyrir utan má vera ljóst, að ættaskjöldur Campbell-ættarinnar á Skotlandi er frábrugðinn silfurskildinum sem fannst í rústunum af "V 54 stöðum" á Grænlandi. Þríhyrningarnir í mynstri skjaldar Gampbell-ættarinnar snúq ekki eins og þríhyrningar skjaldarins sem fannst á Grænlandi.

Portúgalar á Grænlandi?

Ef til vill ber einnig að nefna, að skjöldurinn frá V54stöðum í Vestribyggð sver sig frekar í ætt við merki/fána Lissabonborgar. Portúgalar létu töluvert til sín taka í Norður-Atlantshafi á 15. öld.

Menn telja sig vita að konungur dansk-norska sambandsríkisins, Kristján 1., hafi leyft Alfons 5. (Alonso V) konungi Portúgals að senda leiðangra til Grænlands til að finna norðurleiðina til Indlands. Heimildir um það eru hins vegar af mjög skornum skammti og í raun ekki eldri en frá seinni hluta 16. aldar. Tengjast þær ferðasögur óljósum sögum af ferðum Diðriks Pínings og Jóhannesar Pothorsts til Grænlands og jafnvel til Vesturálfu, sem einnig reyndar er afar lítið vitað um.

Portúgalar eru taldir hafa fundið Nýfundnaland á tímum Alfons V, og á kortum kölluðu þeir eyju sem ekki er til í raun og veru Terra do Bacalhau (Þorskaland), og vilja margir menn meina að það hafi verið það nafn sem Portúgalar gáfu Nýfundnalandi. Vel er því hugsanlegt að Portúgalar hafi hafi einnig siglt á Grænland eða komið þar við. Tilgátur hafa einnig verið settar fram um að Portúgalar hafi sótt sér norræna menn á Grænlandi á seinni hluta 15. aldar og notað þá sem vinnuafl/þræla á Kanaríeyjum og Madeira. Ekki hefur þótt mikill fótur fyrir þeim tilgátum, en silfurskjöldur sem er með sama merki og gamall fáni Lissabonborgar, sem finnst í rúst bæjar á afskekktum stað á Grænlandi, þar sem byggð gæti hafa farið síðar í eyði en menn hafa talið, gæti frekar rennt undir það stoðum en hitt.

Ef til vill verðum við að vera aðeins meira opin fyrir öðrum hugmyndum en að skjöldurinn í rúst V 54 hafi týnst af klæðum Skota að nafni Campbell. Við þekkjum ekkert til ferða þeirrar ættar til Grænlands á 15. öld. Hins vegar er góðum líkum hægt að leiða að áhuga Portúgala á Grænlandi. 

Skjöldur Hákons unga, en hvorki Íslands né Portúgals

warming_portugaler.jpgÞví má við bæta í lok þessarar frekar löngu enn "merki"legu greinar, að lýsing skjaldamerkis Grænlandskonungs í handriti í eigu Sir William le Neve, handriti sem talið er vera frá því um 1470 eða síðar, er að finna fyrir neðan skjaldamerki Noregskonungs og meints merki konungs Portúgals (Le Roy De Portyngale), sem í bók Sir Williams eru þrír bátar, ofan á hverjum öðrum. Þetta merki þekkist hins vegar ekki í Portúgal, og gæti því verið enn einn uppspuninn og óskhyggjan í skjaldamerkjafræðunum af því tagi sem áður segir frá.

Það að merkin eru sýnd saman í bókinni þarf ekki að sýna tengsl á milli Noregs, Íslands og Portúgals líkt og Paul Warming lét sér detta í hug árið 1977 (sjá hér). Warming taldi hugsanlegt að vegna þess að skjöldur konungs Portúgals væri hafður með skjöldum Noregskonungs og Grænlands í handritinu, þá gæfi það til kynna að menn á Bretlandseyjum hafi verið kunnugur áhugi Portúgala á Grænlandi á 15. öld. Það verður nú að teljast frekar langsótt skýring áhugmannsins við dönsku hirðina.

Þrjú skip ofan á hverju öðru á rauðum fleti var nefnilega um tíma skjaldamerki Noregskonungs. Skjöldur með þremur bátum á rauðum fleti er þekktur á 13. öld í enskum handritum og þá nefndur í einu handritanna sem skjöldur Hákons unga (1232-1257), sonar Hákons gamla Hákonarsonar (hins fimmta) Noregskonungs (1204-1263), sem ríkti á tímabilinu 1217-1263. Hann var fyrsti konungur yfir Íslandi. Hákon yngri var eins konar hjálparkonungur frá barnæsku um 1240 og fram til 1257 er hann andaðist.

Skjöld Hákons unga er að finna í tveimur miðaldahandritum,sem eru samtímaheimildir. Annars vegar Historia Anglorum (Saga Englendinga) sem nær yfir tímabilið 1070-1253, og sem er hluti af safnritinu Chronica Majora (British Library; Royal MS 14 C VII (sjá hér). Bæði handritin eru eftir munkinn Matthew Paris (d. 1259). Historia Anglorum er öll skrifuð af honum sjálfum á tímabilinu 1250-1255. Í Historia Anglorum stendur í skýringu við merkið með þremur skipum:

“Scutum regis Norwagiae nuper coronati qui dicitur rex insularum” sem þýða má: Merki Noregskonungs sem nýlega var krýndur og kallaður er konungur eyjanna"

canvas.png

Sumir vafasamir skjaldamerkjafræðingar á veraldarvefnum (og nóg er greinilega til af þeim) hafa vegna vöntunar á lágmarkskunnáttu á latínu þýtt textann með "krýndur konungur eyjunnar" og bent á að "eyjan" væri Ísland. En nú stendur einu sinni rex insularum en ekki rex insulae. Þannig að sú kenning, sem er því miður farin á flug meðal rugludalla, er algjör fjarstæða. Annað er ekki hægt að staðfesta með nokkrum hætti, enda var Ísland ekki komið undir norskan konung þegar Hákon inn ungi dó árið 1257.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, í janúar 2016.


Furðuleg frétt um 417 ljósmyndir

860276_1275630.jpg

Það er víst séríslenskt fyrirbæri að segja frá fjögurhundruð og seytján áður óþekktum ljósmyndum á þann hátt sem þessi frétt gerir. Aðeins er nefnt að myndirnar hefi verið teknar í Íslandsferð fimm ungra Svía sumarið 1919. Þeir eru þó ekki nefndir á nafn og heldur ekki seljandinn. Merkilegt þykir hins vegar að þeir hafi tekið mynd af Matthíasi Jochumssyni og dóttur hans ári áður en að skáldið andaðist.

Þetta er svo dæmigerð birtingarmynd afstöðu Íslendinga til umheimsins. Allt fjallar um Íslendinga, en umheimurinn er algjört aukaatriði.

Mér til mikillar furðu fann ég ekkert um þessar 417 myndir, sem  Þjóðminjasafnið hefur fest kaup á fyrir þjóðina, á forsíðu vefsvæðis safnsins. Vonandi verður ráðin bót á því hið fyrsta, því þjóðin á rétt á því að vita hverjir hinir fimm sænsku ferðalangar voru og að sjá myndir þeirra allar sem eina, sem nú eru sameiginleg eign landsmanna sem varðveitt er í Þjóðminjasafninu. Það eru til nógar myndir af Matthíasi t.d. kvikmynd (sjá hér), en náttúrulega er skemmtilegt að fá nýjar myndir þar sem hann er að skvetta úr slöngu í blómagarði sínum.


mbl.is Eignast yfir 400 ljósmyndir frá 1919
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heiðursnasistar í Morgunblaðinu

445848_1_l_1275604.jpgGrein Morgunblaðsins um Dietrich von Sauchen og Heinz Guderian er ófyrirleitin smekkleysa og blaðamanninum til mikils vansa.

Þó að "hetjan" Diedrich von Sauchen herhöfðingi hafi slegið í borðið hjá Hitler vegna þess að honum þótti vegið að æru sinni sem herhöfðingja þegar Hitler ætlaði að skipa honum að fara eftir tilskipunum ómerkilegs umdæmis- stjóra (Gauleiter) nasistaflokksins, sem var ótíndur glæpamaður, þá var von Sauchen engin hetja. Allir vita, að brjálaði eineistlingurinn Hitler snobbaði fyrir gamla heraðlinum í Þýskalandi og Hitler aðhafðist heldur ekkert gangvart von Sauchen fyrir að berja í borðið og taka ekki einglyrnið af.

Heinz Guderian, sem blaðamaður Morgunblaðsins telur einnig til "hetja" var svæsinn gyðinghatari og í lok stríðsins áður en Berlín féll lét hann  þau orð falla að hann «hefði sjálfur barist í Sovétríkjunum, en aldrei séð neina djöflaofna, gasklefa eða þvíumlíka framleiðslu sjúkrar ímyndunar.». Þetta sagði hann 6. mars 1945 fyrir framan þýska og erlenda blaðamenn er hann gerði  athugasemdir um fréttir af útrýmingarbúðum nasista. Þó stríðið væri tapað var hann enn til í að verja ósómann.

Bæði von Sauchen og Guderian börðust fyrir nasismann og fyrir það óeðli sem hann var. Þeir tóku hvorugur þátt í áformum um að setja Hitler af eða drepa hann. Þeir iðruðust aldri gerða sinna og þegar Guderian var leystur úr haldi bandamanna árið 1948 gerðist hann meðlimur Bruderschaft, samtökum gamalla nasista undir stjórn Karl Kaufmanns fyrrv. umdæmisstjóra i Hamborg. Árið 1941 stakk Kaufmann fyrstur umdæmisstjóra nasistaflokksins upp á því við Hitler at senda gyðinga frá Hamborg austur á bóginn, svo hægt væri að nota hús þeirra og íbúðir til að hýsa Þjóðverja sem misst höfðu heimili sín í loftárásum á borgina. 

Skömm sé Morgunblaðinu að mæra nasista og glæpamenn - ENN EINA FERÐINA. Ef blaðamaðurinn sem skrifaði þessa meinloku er ósammála mér, má hann gjarna stíga fram opinberlega og verja skrif sín hér fyrir neðan í athugasemdakerfinu.

guderian_og_himmler_1944.jpg

Guderian stendur hér lengst til vinstri og hlustar af andagt á hinn mikla "leiðtoga" og þjóðarmorðingja Heinrich Himmler


mbl.is Hellti sér yfir Hitler
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dummheit ist: Glauben, genug zu wissen

anita_und_jonas.jpg

Þegar útlendingar voru fáir á Íslandi, sáu sumir Íslendingar gyðinga í hverju horni. Þó gyðingar væru löngum ekki velkomnir á Íslandi, frekar en flóttafólk í dag, töldu margir Íslendingar sig snemma vita hverjir væri gyðingur og hverjir ekki. Íslendingar vissu þannig allt um alla, jafnvel þó þeir töluðu ekki við útlendingana - og það hefur greinileg ekkert breyst að því er ég best fæ séð.

"Gyðingurinn" Tierney

Þannig kom t.d. til landsins á seinni hluta 19. aldar kaupmaður frá Leith á Skotlandi sem Tierney hét sem seldi Íslendingum gamla garma. Tierney þessi var baptisti, en á hann var strax settur gyðingastimpill. Menn töldu víst að engir aðrir en gyðingar seldu fátæklingum "gömul pestarföt" frá Evrópu. Ég sagði frá þessum manni á bloggi árið 2013 og öðrum sem fengu gyðingastimpilinn á Íslandi, og hef nú frétt að hinn mikli maður Thor Jensen hafi verið bölvanlega við "gyðinginn" Tierney og að Tierney sé afgreiddur sem gyðingur í sögu Borgarness. Fróðari menn hafa einnig sett gyðingastimpilinn á Thor Jensen, þótt albróðir hans Alfred Jensen Raavad í Danmörku (sjá hér og hér) hafi verið gyðingahatari og afkomendur systkina hans hafi barist fyrir Danmörku í SS. Alfred Jensen hefði einnig verið liðtækur í hirð núverandi forsætisráðherra Íslands í að teikna hús í gömlum stíl til að friðþægja þjóðernisminnimáttarkenndina í sumum Íslendingum.

Hriflu-Jónas hittir Anítu sumarið 1934

bla_amannaheimsokn.jpgEinn helsti forsvarsmaður hreinnar, íslenskrar menningar var Jónas frá Hriflu. Hann vildi líkt og Hermann Jónasson, flokksbróðir hans, helst hafa hér hreint og skyldleikaræktað blóð. Líklega hefur hann heldur ekkert skinbragð borið á "óvininn" þótt hann stæði við hliðina á honum. Reyndar veit ég þó ekki til þess að Jónas hafi látið út úr sér óyrði um gyðinga, líkt og ýmsir aðrir menn á Íslandi gerðu á 4. áratug síðustu aldar - og síðar.

Á myndinni hér fyrir ofan, (sem má stækka til muna ef menn kunna það), má sjá Jónas með föngulegri konu, sem heimsótti Ísland árið 1934. Kona þessi var fædd í Rúmeníu árið 1902 og hét Anita Joachim (síðar Anita Joachim-Daniel).

Anita var gyðingur. Hún vann sem blaðamaður í Þýskalandi fyrir stríð og var á ferð á Íslandi fyrir Associated Press ásamt hinum heimsfræga hollenska blaðaljósmyndara Wim van de Poll sem tók frábærar myndir á Íslandi sem nú má sjá á vef Þjóðskalasafns Hollands í den Haag.

Mogginn eys af eitri sínu haustið 1934

Líklega hefur Hriflu-Jónasi þótt unga konan æði fönguleg og ekkert haft á móti því að vera eilífaður með henni fyrir framan Héraðskólann að Laugarvatni. Nokkrum mánuðum síðar þótti hins vegar ritstjóra Morgunblaðsins það við hæfi að líkja Framsóknarmönnum við gyðinga og ritaði þessi leiðindi í leiðara blaðsins þann 25. október: "

"Oftast er málið sett þannig fram, að þeir, sem orðið hafa fyrir ,,grimdaræði nazistanna" sjeu dýrðlingar einir, sem ekkert hafi til saka unnið annað en það að vera af öðrum þjóðflokki en nazista-,,böðlarnir". Nú er það vitað að þýska þjóðin stendur í fremstu röð um mentun og alla menningu. Þess vegna verður Gyðingahatur þeirra mönnum algerlega óskiljanlegt, ef því er trúað að hinir ofsóttu hafi ekkert til saka unnið. Hjer er ekki tilætlunin að bera blak af þýskum stjórnvöldum hvorki fyrir meðferðina á Gyðingum nje á pólítískum andstæðingum sínum. En hafa þá Gyðingarnir í Þýskalandi ekkert unnið til saka? Jú, þeir væru öflug hagsmunaklíka í landinu, ríki í ríkinu, ,,aðskotadýr, nokkurskonar ,,setulið", sem hafði lag á að ota sínum tota altaf og alstaðar þar sem feitt var á stykkinu … Hatrið á þjóðflokknum stafar af því, að einstakir menn af Gyðingaætt höfðu misbeitt á ýmsan hátt þeirri aðstöðu, sem þjóðfélagið veitti þeim. Það er í rauninni hatrið á klíkuskapnum, sem hjer er orðið að þjóðhatri."

Fyndið, þegar maður hugsar út í eðli Sjálfstæðisflokksins. Ritstjóri Morgunblaðsins árið 1934 lauk þessari frumstæðu haturstölu sinni með þessum orðum:

,,Þýska Gyðingahatrið er sprottið af því, að einstaki menn þess þjóðflokks, þóttu hafa rangt við í leiknum. - Það er erfitt að fyrirbyggja það, að andúðin snúist til öfga, ef því fer fram að ranglátir menn og óþjóðhollir vaða uppi í þjóðfjelögunum. Og í því efni skiftir það engu máli, hvort þeir eru ættaðir frá Jerúsalem eða Hriflu." (Sjá hér).

Skyldi það vera svo að íslenska íhaldið hafi alltaf verið verstu gyðingahatararnir á Íslandi?

nl-hana_2_24_14_02_0_190-0483.jpg

Heimskonan Anita borðar afdaladesertinn skyr. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá Anitu með Guðmundi Finnbogasyni og Jóni Leifs á Þjóðminjasafninu í Safnahúsinu við Hverfisgötu (nú Þjóðmenningarhúsinu). Vart hefur maður séð glæsilegri mynd úr gamla Safnahúsinu.

nl-hana_2_24_14_02_0_190-0354.jpg

Dummheit ist: Glauben, genug zu wissen

Anita blessunin flýði tímanlega til Bandaríkjanna, því líkt og vitgrannir vinstri menn og öfgamúslímar gera gyðingum lífið leitt í dag, þá hamaðist Hitler í þeim á þeim árum. Í Bandaríkjunum hélt hún áfram ritstörfum þar til hún andaðist í því stóra landi möguleikanna árið 1978 - Hún ritaði og gaf út fjölda ferðabóka í ritröðinni "I am going to" sem komu út á ensku og sumar á þýsku í Basel í Sviss. Á seinni árum hefur hún, þökk sé veraldarvefnum, orðið þekkt fyrir þessa fleygu setningu, mottói sem ég hef lengi fylgt: "Dummheit ist nicht: wenig wissen. Auch nicht: wenig wissen wollen. Dummheit ist: glauben, genug zu wissen."

Þegar greint var frá myndum Wim van de Poll á hinni ágætu vefsíðu Lemúrnum og einnig Reykjavík.com árið 2012 hefðu blaðmennirnir nú mátt fylgja ofangreindu mottói Anítu. Myndir hollensk listaljósmyndara heilla Íslendinga því þeir sjá Íslendinga, en þeim er djöfuls sama um útlendingana sem á mörgum myndanna voru. Þannig hefur "What do you think about Iceland-afstaða Íslendinga alltaf verið. Ekkert bitastætt var því skrifað um Anitu Joachim eða Wim de Poll þegar fólk komst fyrst í myndirnar frá frá heimssókn þeirra á Íslandi árið 2012.

nl-hana_2_24_14_02_0_190-0456_1275124.jpgTil dæmis er þessi mynd af stúlku lýst svona á Reykjavik.com af breskri konu sem lítur á málið úr sínum sínum þrönga menningarkassa: "I wonder what this young lady pictured below was listening to; perhaps it was the golden age classic “My Baby Just Cares for Me” by Ted Weems and his Orchestra. We may never know, but it does make for a cracking soundtrack to go with these fabulous photos!"

Stúlkan á myndinni kallaði sjálfa sig Daisy og var ekki hætishót íslensk og gæti alveg eins hafa verið að hlusta á þýska eða danska slagara á ferðagrammófóninum frekar en eittvað engilsaxneskt raul.

Fyrst þegar þýskur rithöfundur, Anne Siegel, las um ferðir de Polls og Anitu Joachim til Íslands, var farið aðeins dýpra í efnið en pennar Lemúrsins, en Siegel er hins vegar fyrirmunað að greina frá uppruna Anitu Joachims líkt og hún í athyglisverðri skáldsögu sinni um þýskar konur á Íslandi eftir stríð fer kringum það eins og köttur um heitan grautinn af hverju þær þýsku komu yfirleitt til Íslands. Mætti halda að þær hafi allar verið að leita að afdalarómantík. Það er enn óskrifuð saga og fer í gröfina með þeim flestum ef fjölskyldur þeirra kunna ekki því betri deili á forsögu þýsku mæðranna og ættingja þeirra í gamla landinu sem rústaði Evrópu. Íslendingar hafa líklegast miklu frekar áhuga á því hvað þeim fannst um Ísland, frekar en að vilja vita einhver deili á þeim.

Ach so, þar sannast aftur gæði orða Anitu: Dummheit ist: Glauben, genug zu wissen.

Blessuð sé minning Anitu Joachim-Daniels! Hún vissi sko sínu viti.

anita_joachim_and_wim_van_de_pol_1275126.jpgAnita Joachim og Willem van de Poll á Íslandi.

willem_van_de_poll.jpg

Meistari Willem van de Poll (1895-1970) var að taka mynd af þér, án þess að þú vissir af því. Hún verður birt hér að neðan í athugasemdum, nema að þú hafir verið að lesa bloggið mitt nakin/nakinn.


Konungleg jól í fátæku landi

stjani_number_four_1274539.jpg

Ef Íslendingar hefðu haldið tryggð við danska konunga, værum við þessa dagana líkast til að rífa demanta og eðalsteina af sjóreknum náum sýrlensks flóttafólks að ósk Bjálka höfuðmanns á Bessastöðum eða Pinds jústítsráðs í Kaupmannahöfn.

Andi jólanna virðist mér hafa gleymst í Danaveldi og flestir virðast sjálfum sér næstir um þessar mundir. Slíkt gerist reyndar stundum þegar gjafmildin hefur farið úr böndunum og menn eiga ekki í raun fyrir henni - eða þegar ölmusumóttakandinn er farinn að vera með uppivöðslusemi og frekju og lýsa lítilsvirðingu sinni á hinum vestræna heim sem hann leitaði upphaflega ásjár hjá. Íslendingar hafa hvorugt reynt og myndu líklegast segja eitthvað ef þeir fréttu í ofanálag, að nokkur hundruð Íslendinga hefðu ekki aðgang að eigin salerni. Þannig er því nefnilega farið í Danmörku samkvæmt síðustu fréttum af náðhúsaeign þeirra. En þannig var það einnig árið 1999, og segið svo ekki að sagan endurtaki sig ekki. "Danskerne er på røven." 30.000 Danir geta ekki skitið í eigin skál. Við slíkt ástand er ekki nema von að drýgja verði tekjurnar með "auðæfum" þeirra sem minnst mega sín. Menn eru vissulega gjafmildari öðlingar við förufólk í löndum eins og Íslandi, þar sem að minnsta kosti má finna eitt vatnsklósett fyrir sérhvern rass og nokkur að auki fyrir bágstadda botna sem bjargað hafa sér frá sveðjum og steinkasti í Barbaríunum sem heiðra hann Allann.

Svo minnst sé á steina. Mér hlýnaði um daginn um hjartarætur er ég hádegisverðarhléi mínu brá mér inn á steinmyndasafnið, Lapidariet, sem nú hefur verið komið fyrir í Kongens Bryghus. Starfsmenn safnsins höfðu fært fyrrum einveldiskonunga í jólabúninginn. Þegar ég sá Kristján 4 með jólasveinahúfuna sigaði ég gemsanum mínum áann og hugsaði með mér, að verstu einokunarkonungar fyrri alda hefðu varla sýnt eins mikinn náriðilshátt og núverandi yfirvöld í Danmörku sýna alheimi öllum. En kannski er þetta bara nátthúfa danskrar menningar, sem kóngsi er með á steinrunnum kollinum. Hver veit? Jafnvel er þetta hulinshúfa til að þurfa ekki að vera bendlaður við nútímann. Stjáni IV var sjálfur góður við minnihluta og bauð gyðingum að búa í Glückstadt, því hann taldi víst að þeir gætu útvegað honum gull og geimsteina. Hallgrímur Pétursson sem frægur varð af því að giftast konu sem kennd var við Tyrki, bjó einnig í Glückstadt, en Grímur var greinilega ekki eins hrifinn af innflytjendum eins og konungurinn í Kaupmannahöfn ef dæma skal út frá Passíusálmunum (sjá hér og hér).

Eitt veit ég þó, að oft tala margir Íslendingar af mjög lítilli þekkingu um danskt þjóðfélag og sjá ekki í fljótu bragði fátækt þess og ömurleika, fyrir tívolíum, Magasínum og d'Angleterre. Danskir Dagar og Jól geta verið mjög óhuggulegir.


Wir sind wieder da! Ómenningarleg dönsk jól 2015.

20151216_120959.jpg

"Danir eru Þjóðverjar sem tala skrítna þýsku" hefur maður svo sem heyrt Þjóðverja segja um Dani. Það þykir Dönum vitaskuld ekki gott að heyra nágranna sína segja, enda er þetta ekki alls endis satt.

Um það bil 85% Dana eru hins vegar eins konar Þjóðverjar á heljarþröm sem tala forna gerð þýsku og margir bera einnig þýsk ættarnöfn eins og Maack, Schram, Cortes og Bernhöft svo eitthvað vel þekkt sé nefnt. Vart er um að villast.

20151216_121040.jpg

Þetta er mjög greinilegt fyrir þessi jól í Kaupmannahöfn, sem líklega eru þau ómenningalegustu sem ég man eftir. Nú er aftur hafin þýsk innrás sem kemur upp um þýskt eðli og uppruna Dana, og hvað þeir eru auðhlýðnir undir þýskan herradóm og frekju.

Heilu Hollí-rassa-hía-hó þorpin hafa risið á þekktustu torgum Kaupmannahafnar, t.d. Kultorvet, Højbro-Plads og Kongens Nytorv. Íbúar þar eru allir frá Þýskalandi og híbýlin í þýskum stíl, og eru álíka kræsileg og blanda af heiðarkofanum frá Schwartzwald og þýskum útrýmingarbragga í Auschwitz. Kofarnir í Kaupmannahöfn eru allir með opna búð á einni hliðinni og þar selur fátækt fólk frá Austur-Evrópu alls kyns þýskt jólasukk og svínarí, og það þrisvar sinnum dýrara en í Þýskalandi.

Það hefur svo sem lengi verið vitað, að Danmörk liggur spennt innan þýska Polka-beltisins og þessi smekkleysa sniðugra sölumanna höfðar greinilega til margra Dana, sem þykir þetta bara "hyggeligt". Genin segja greinilega til sín.

20151216_130655b_1274488.jpg

En "Hver sin smag" eins" og Danir segja, og apa eftir Þjóðverjum. Og svo rennur Herr  Stockhausen í hlað beint undir verndara Kaupmannahafnar, Absalon biskup, sem getur ekki lengur öxi sína hreyft. Stockhausen kemur með birgðirnar í Þýskubúðir í Kaupmannahöfn og hlær síðan alla leiðina í bankann. Danir eru enn og aftur snuðaðir af frændum sínum í suðri. Þeir kaupa "jólagleðina" frá Stórevrópu á þreföldu því verði sem Þjóðverjar borga fyrir hana. Það er ekki bara Fräulein Merkel sem er mara á henni Evrópu um þessar mundir. En nú skil ég af hverju danska ríkisstjórnin vill hirða alla demantana af flóttafólki frá Sýrlandi. "Julen varer længe, koster mange penge", eins og gamall danskur jólasöngur upplýsir.


Skálkaskjól

skalk2_1273707.jpg

Margir þekkja Skalk, danskt tímarit um sögu og fornleifafræði í litlu broti, sem ég og kollega minn Kristján heitinn Eldjárn höfum einir Íslendinga skrifað í (sjá hér og hér). Þetta er það tímarit í Danmörku sem hefur flesta áskrifendur, líklegast síðan að Eldjárn fækkaði fötunum og gerðist "side 9 dreng" í blaðinu hér forðum daga.

Skalk kemur út 6 sinnum á ári og í nýjasta heftinu er stærsta greinin (króníkan) í þetta skipti eftir mig. Fjallar greinin um ferð hins kvenholla konungs Friðriks IV til Ítalíu árið 1708-9, og sérstaklega um innkaupaferð hans til hafnarborgarinnar og fríhafnarinnar Livorno, sem á sumum tungmalum er kölluð Leghorn. Um þá ferð uppgötvaði ég nýja áður óþekkta hluti og tengi þá við lýsingu síra Ólafs Egilssonar sem kom við í Livorno árið 1628 er hann var frelsaður úr Barbaríinu (sjá meira um það hér).

Í grein minni er einnig greint frá því hvernig Vivaldi smjaðraði við Friðrik konung í Feneyjum og samdi nokkrar sónötur honum til heiðurs. Lesendur Skalks geta ekki hlustað á þær, en Fornleifur er alltaf skrefi framar og bíður hér upp á eitt af verkum Vivaldis til heiðurs Friðriki, Skálki og grein minni.

 

Nú er ekkert annað fyrir ykkur að gera en að gerast áskrifendur að Skálki - svo hann skaði ykkur ekki - eða bíða og bíða eftir því að Fornleifur birti greinina. Þið vitið hvernig Fornleifur er. Hann vill alltaf fá eitthvað fyrir sinn snúð.

til_aere.jpg

Forsíðumynd greinar minnar


Olaf Olsen - In Memoriam

olaf_1273064.jpg

Látinn er í sæmilega hárri elli prófessor einn í Danmörku, Olaf Heymann Olsen að nafni, sem einnig var fyrrverandi njósnari fyrir Rússa, sagnfræðingur, fornleifafræðingur og þjóðminjavörður Dana svo fáeitt sé nefnt. Olsen var 87 ára að aldri er hann lést.

Hvorki myndi ég nú syrgja hann, né skrifa minningarorð í anda íslenskrar hefða, ef þessi merki maður hefði ekki verið prófessor minn fyrsta árið sem ég stundaði nám í fornaleifafræði í Árósum í Danmörku. Hann var síðar eftir að hafa áhrif á líf mitt. Þannig menn neyðist maður að skrifa nokkur orð um, þó þeir muni með vissu aldrei lesa grafskriftina - enda er sjaldan neitt satt í íslenskum minningargreinum, sem oftast lofa menn og prísa í hástert og það mest að ástæðulausu. Líf Olsens var þó þannig, að úr báðum flokkum, lofi og skömm, var nóg að taka og því set ég þessa grein á Fornleif en ekki í aðsendar minningargreinar í Morgunblaðinu, þar sem ekkert ljótt má um liðna menn segja, þó það sé allt deginum sannara.

Síðla sumars 1980 birtist ungur maður frá Íslandi á Afdeling for Middelalder-Arkæologi við Árósarháskóla. Var þessi náungi hrokkinhærður og bjúgnefjaður, svo notuð sé lýsing Nóbelskáldsins íslenska á fólki með nef eins og ég fæddist með. Olaf Olsen var stofnandi þessarar deildar, og var hann einnig með myndalegt nef. Þetta haust vantaði bráðlega stúdent í studienævnet á deildinni. Heyrst hafði í hornum, að þessi íslenski stúdent væri hávaxinn piltur, ljóshærður og gengi í lopapeysu í síðsumarshitanum og töluðu menn um að sá íslenski væri mjög vel talandi á dönsku. Þarna voru eldri stúdentar reyndar að rugla saman Íslendingnum bjúgnefjaða og dönskum eilífðarstúdent frá Álaborg, Ole að nafni, sem var fyllibytta en hinn besti drengur, sem aldrei lauk námi og hætti eftir tvö ár í fornleifafræðinni. Að íslenska stúdentinum forspurðum, mæltu stúdentar með honum í þessa nefnd, haldandi að Ole fyllibytta væri íslenski stúdentinn. Þannig háttaði það sig nú að ég komst algjörlega grænn á bak við eyrun í studienævnet fyrir miðaldafornleifafræði. Íslenska steríótýpan í Danmörku var greinilega fyllibytta með ljóst passíuhár í lopapeysu - (sem reyndar var norsk) - og sem keðjureykti pípu. Í þessari nefnd kynntist ég fyrst Olaf heitnum Olsen. Það var stíll yfir prófessornum.

Ég sat í tvö ár í nefndinni, var engum til óþæginda og sagði lítið annað en og ammen eftir efninu, enda sá ég fljótt að Olaf Olsen sat sem páfi á stól sínum og orð hans voru óskrifuð lög. Annars var Olaf skemmtilegur karl, sem barðist með bál og brandi fyrir sínu. Hann sagði meiningu sína óþvegna, og það þótti mér það besta í hans fari. Hann var vinnuþjarkur og svaf oft eftir langan vinnudag á Moesgaard, en svo heitir herragarðurinn sunnan við Árós, þar sem fornleifafræði og mannfræði voru kenndar. Fyndinn var hann, en hló gjarnan áður en hann sagði brandara sína. Vinsæll var hann meðal nemanda, og sérstaklega ef maður þoldi reykingar hans í fyrirlestrum. Tímar hans voru fjölsóttir en ég átti nokkuð erfitt með að skilja hann fyrst árið þar sem hann tuggði pípuna í einu munnvikinu meðan að hann talaði. Flestir reyktu í fyrirlestrum á Moesgaard á þessum árum en hinir fengu reykeitrun eða slæman astma.

5353292-spion.jpg

Olsen var reyndar ekki fornleifafræðingur. Hann var sagnfræðingur sem snúist hafði til fornleifafræði og skrifað doktorsritgerðina Hørg, Hov og Kirke (1966), sem að miklum hluti fjallar um íslenskar fornminjar. Kom hann til Íslands í tvö skipti. Í fyrsta sinn kom hann þegar hann vann að doktorsritgerð sinni og fór þá m.a. norður í land að Hofstöðum, þar sem Daniel Bruun hafði grafið mikla rúst í fljótheitum. Olaf gróf ekki mikið á Hofstöðum og er flest af því sem hann hélt fram löngu afsannað og mótmælt af sagnfræðingnum Orra og fornleifafræðingnum Adolf, sem hafa stundað merkar rannsóknir á Hofstöðum. Olaf sagði mér eitt sinn að hann hefði fengið senda grein frá þessum piltum, en hefði ekki lesið hana. Spurði hann mig hvort eitthvað væri að viti í henni? Því vildi ég sem minnstu svara, enda hafði ég ekki lesið grein þeirra.

Olsen sagði mér síðar að Íslandsdvöl hans hefði ekki verið honum mikil ánægja, frekar en íslenska skyrið sem móðir hans hafði reynt að troða í hann og bræður hans á unga aldri þeim til mikillar angistar. Olaf þótti Kristján Eldjárn áhugalítill um það sem hann vildi gera á Íslandi og naut Olaf mest aðstoðar Gísla Gestssonar altmúligmanns á Þjóðminjasafninu, sem minntist hans sem "Óla litla" þegar við töluðum um hann síðar. Svo illa vildi til að Olsen fótbrotnaði líka á Íslandi, og ekki bætti það úr skák. Hann flaug á brott með lítinn söknuð í huga og kom ekki aftur til Íslands fyrr en hann var orðinn þjóðminjavörður Dana, og reynda fyrst í lok embættistíma síns.

Olsen hafði þó fyrr á ævinni þekkt verri mótbyr en beinbrot, þannig að óvinaleg ásjóna Íslands kom ekki að sök. Árið 1943 þurfti Olaf Olsen að flýja með foreldrum sínum og bræðrum til Svíþjóðar. Samkvæmt kynþáttalögum nasista og lögmáli gyðinga, sem er tvennt mjög ólíkt, var Olaf gyðingur. Móðir hans, Agnete Bing, var gyðingur af gamalli ætt bankamanna og kauphallahéðna í Kaupmannahöfn, en faðir hans var kristinn Dani, Alfred Olsen, sem var merkur sagnfræðingur sem m.a. hafði verið dósent í Árósum og prófessor fyrir stríð. Í Lundi stundaði Olsen nám í menntaskóla.

Þótt Olsen væri í sænskum skjölum og pappírum danskra andspyrnumanna skilgreindur sem flóttamaður af gyðingaættum, gerði hinn ungi Olsen sér far um að sýna mönnum að hann væri sannur Dani, enda var hann ekki alinn upp á neinn hátt sem gyðingur, hvorki trúarlega séð né menningarlega.

Olsen sagði eitt sinn frá því í sjónvarpsviðtali að hann hefði ávallt gengið niður á eitthvað torg í Lundi eftir skólann og sporðrennt "korv" (pylsur) með öðrum menntskælingum. Líklegast sýndi hann með þessu svínakjötsáti að hann væri ekki gyðingur. Sumir danskir samnemenda Olsens í menntaskólanum í Lundi voru gyðingar, t.d. Herbert Pundik, sem síðar varð þekktur sem ritstjóri danska dagblaðsins Politiken, en einnig sem gyðingurinn og síonistinn Pundik sem barðist í frelsisstríðinu 1948 í Palestínu. Þangað fór Olaf aldrei. Olaf fékk að ganga í den Danske Brigade, hersveit Dana í Svíþjóð, þar sem mjög fáum gyðingum var leyft að vera með. Það ríktu miklir frodómar. Olaf slapp í gegnum nálaraugað enda var hann ljóshærður og arískari í útliti en t.d. flestir danskir meðlimir Waffen-SS á stríðsárunum. Heim kominn gekk hann í DKP, Danmarks Kommunistiske Parti.

Sjálfur hafði Olsen flúið til Svíþjóðar vegna slíkrar hóphyggju smámenna, sem flokkast saman undir einhverja vafasama foringjum og skammstöfun á flokki í nafni "allra" og einhverrar byltingar sem er aðeins annað nafn á blóðbaði. Slíkir hópar finna sér fljótt einhverja einstaklinga eða hópa til að hatast út í, loka inni og drepa, því lausn þeirra á vandamálum er alltaf að kenna öðrum um það sem miður fer og úthella blóði þeirra. Því kom það mörgum á óvart árið 2012, er það var afhjúpað í Danmörku, að Olaf Olsen hefði verið heimagangur í rússneska sendiráðinu í Kaupmannahöfn á árunum eftir síðari heimsstyrjöld. Þar hafði hann þann starfa að útbúa spjaldskrá með nöfnum Dana í menningar og lærdómsheiminum, sem búast mátti við að samsinntu ekki hugsjónum þeim sem Sovétríkin voru rekin eftir. Listinn óx og óx og taldi að lokum um 500 einstaklinga. Ekki nóg með það, Olaf skrifaði ævikafla og ítarupplýsingar um 75 af þessum Dönum á lista sínum, svo Rússar hefðu nægar upplýsingar um mögulega andstæðinga, ef þeir skyldu nú birtast einn góðan veðurdag á Strikinu, líkt og Þjóðverjar höfðu gert árið 1940.

Olaf framdi landráð með því að stefna lífi samlanda sinna í hættu, ef vera skyldi að Rússarnir kæmu og tækju Danmörku. Það gerðu Rússarnir reyndar aldrei, nema í draumaheimi sumra manna. Þótt dönsk yfirvöld uppgötvuðu árið 1945 glæpsamlega ídeólógíska tómstundavinnu hálfgyðinglega stúdentsins með aldanska nafnið Olsen í rússneska sendiráðinu, þá komst Olaf hjá því að vera lögsóttur og dæmdur fyrir landráð, því hann átti líklega góða að og var ekki lögráða er hann framdi glæpinn. Á þessum árum urðu menn ekki lögráða fyrr en þeir urðu 21 árs.

Sjálfur bar Olaf Olsen því við árið 2012, að hann sæi eftir gerðum sínum, en hann hefði á þeim tíma verið " en ung, glad og naiv kommunist". Þetta sagði hann fyrst þegar fjölmiðlar greindu frá athöfnum hans og hann leysti frá skjóðunni í viðtalsgrein í Jyllands-Posten (sjá hér), og sagði nánar frá athöfnum sem upphaflega var lýst ónafngreindum í mikilli skýrslu um Kalda Stríðið og leyniþjónustur Dana (PET-rapporten) sem út kom í fjölda binda árið 2009. Það voru reyndar svo margir aðrir, án þess þó að starfa fyrir erlend ríki, sem talið var að gætu stefnt öryggi Danmerkur í hættu. Olaf þurfti greinilega, einhverra hluta vegna, að sanna trúnað sinn við "málstaðinn" betur en aðrir. Hugsanlega hefur ætterni hans þar átt einhvern hlut að máli.

olsen-olaf.jpgÞess ber að geta, að Olaf hélt áfram að sporðrenna pylsum eins og hann gerði í Lundi til að falla inn í hópinn. Árið 1949, skömmu eftir að hann skráði samlanda sína fyrir sovéska leyniþjónustu og meðan að gyðingaofsóknir Stalíns voru sem ákafastar, ritaði Olaf Olsen grein í tímaritið Sovjet i Dag. Grein þessi bar titilinn 'Er der jødeforfølgelser i Sovjetunionen?'. Þegar GPU (fyrirrennari KGB) myrti listamanninn Solomon Michoels, þegar ríkisleikhúsi gyðinga í Moskvu var lokað, þegar gyðingum voru settar skorður til náms við háskóla og þúsundir gyðinga voru fangelsaðar og sendar í fangabúðir, þá skrifaði Olaf Olsen, að yfirlýsingar um þessa erfiðleika fyrir gyðingana væru aðeins "illkvittið og fjarstæðukennt slúður" ... "því vitaskuld væru ekki gyðingaofsóknir í Sovétríkjunum. Sérhver, sem hefði aðeins grundvallarþekkingu á kommúnistískri kenningu og sovét-rússneskri þjóðernispólitík, mætti skilja, að hvers konar kynþáttafordómar væru algjörlega óhugsanlegir í Sovétríkjunum", og enn fremur skrifaði hann að sovéskir gyðingar væru "frjálsari en gyðingar í nokkru öðru landi". (Sovjet i Dag, juli-august 1947).

Við sem höfðum Olsen sem lærimeistara fórum ekki varkosta af því að hann taldi sig vera mikinn "kommúnista". Sagði hann gjarnan frá langvinnri baráttu sinni við dönsk skattayfirvöld, sem ekki vildu gefa honum og öðrum húmanistum skattaafslátt á bókakaup sem tengdust fræðunum, en slíkan frádrátt gátu danskir læknar löngum skrifað á skattaframtalið og fengið góðan frádrátt. Lengi lifi byltingin!

5354300-dansk-historiker-udleverede-navne-til-sovjet-olaf-olsen.jpg

Fyrir kommúnista var Olaf sæmilega sáttur við hirðir og kóngafólk. Hér er hann nýkominn af fundi og orðuveitingu hjá Danadrottningu.

Hina blindu sýn á Sovétinu virðist Olsen hafa varðveitt vel þegar hann var ekki í baráttu við skattayfirvöldin, því um miðbik 9. áratugarins var hann og miðaldafornleifadeildin við Árósarháskóla, sem þá var undir stjórn Else Roesdal cand.art. í miklu samstarfi við háskólann í Leníngrad og við frekar frumstætt "menntafólk" við háskólann þar í borg, sem m.a. höfðu sent samstarfsmann sinn, gyðinginn Leo S. Klein í Gúlag fyrir þær sakir að hann væri hommi.

Mér var m.a. boðið að fara til Nowgorod til að grafa í verkefni í  þessu samstarfi. Ég afþakkaði strax gott boð, enda var ég upptekinn við eigin rannsóknir á Íslandi og þurfti því ekki að skýra afstöðu mína til Sovétríkjanna eða að ég á menntaskólaárum mínum hefði gengið með jakkamerki sem á stóð "Let my people go". Leo Klein, sem ég hef skrifað um áður (sjá hér), lifði af vist sína í gúlaginu. Þegar Klein kom í síðari fyrirlestraferð sína til Kaupmannahafnar í lok 10. áratugarins, bjó ég á Vandkunsten 6, beint á móti húsinu þar sem fornleifadeild háskólans í Kaupmannahöfn var lengi vel til húsa. Ég fór til að hitta aftur þennan merka mann og fékk blaðamann á Berlingske Tidende til að ræða við hann og skrifa grein um hann. Mjög fáir mættu á fyrirlestur hans. Þessi auma mæting varð til þess að Olaf Olsen, sem reyndar var ekki sjálfur viðstaddur fyrirlesturinn, skammaðist út í stúdenta í stúdentablaði Hafnarháskóla. Hann kallaði það skandal að svo fáir hefðu komið til að hlýða á hinn merka mann. Þá var mér nú hugsað til þess samstarfs sem Olsen hafði haft við háskólann í Leníngrad, meðan Leo Klein sat í Gúlaginu, þangað sem samstarfsmenn Olsens og Else Roesdahls lektors á Afdeling for Middelalder-Arkæologi í Árósum höfðu sent hann.

Eftir 006 vodka-class ár Olsens í þjónustu Sovétríkjanna, þegar hann var "ungur og einfaldur", hófst glæsilegur ferill í fræðimennskunni. Sumir hafa þó sagt við mig að Olsen hafi verið meiri "pólitíkus" en fræðimaður. Ekki legg ég neitt mat á það. Olsen skrifaði merka kandídatsritgerð um tukthús og barnavinnuhús Kristjáns konungs 4. Síðan kom doktorsritgerðin og 1971 var hann settur prófessor nýrrar deildar fyrir miðaldafornleifafræði við Árósarháskóla. Átti hann allan heiðurinn að stofnun þeirrar deildar. Þekktastur var Olsen fyrir rannsóknir sínar á Skulderlev-skipunum sem grafin voru upp í kví í Hróarskeldufirði á 7. áratug síðustu aldar. Sömuleiðis varð hann þekktur fyrir rannsóknir sínar á Víkinavirkinu Fyrkat nærri Hobro á Jótlandi, þar sem hann uppgötvaði m.a. að stoðirnar fyrir ytri stoðarholur skálanna á Fyrkat og Trelleborg á Sjálandi hefðu verið hallandi. Þetta breytti algjörlega þeirri hugmynd sem menn höfðu áður haft um útlit húsanna. Nákvæmar rannsóknir á stoðarholunum fékk Olaf til að skrifa grein, sem var skyldulesning og bar hún heitið Rabies Archeologorum. Þar predikaði Olsen að fornleifafræðingar ættu að skilja ákveðinn hluta fornleifa eftir í jörðu til að fornleifafræðingar framtíðarinnar gætu farið í saumana á því sem aðrir gerðu með betri aðferðum og meiri þekkingu.

Olaf Olsen var ekki þessi klisjukennda gerð af Indiana Jones-fornleifafræðingum, sveittum og skítugum í mismunandi ævintýralegum rannsóknarleiðöngrum. Olsen var hvítflibbafornleifafræðingur, sem oft er einkenni sagnfræðinga sem gerast fornleifafræðingar - eða fornleifafræðinga sem gerast sagnfræðingar. Olsen stjórnaði m.a. rannsóknum á Øm kloster á Austur-Jótlandi. Eitt sumarið, áður en ég hóf nám í Árósum, starfaði þar við rannsóknina bandarískur stúdent John Kudlik að nafni. Kudlik fékk nóg af snyrtimennsku Olsens, sem gekk í hvítum buxum og hvítum strigaskóm, sem aldrei virtust óhreinkast. Einn votviðradag þegar menn sátu og átu nesti sitt tók Kudlik sig til og hnoðaði drullukúlu á milli handanna og settist við fætur prófessors Olsens og gerði sér lítið fyrir og smurði hvíta strigaskó Olsens með forinni og sagði sísona: "I really hate how you can keep you shoes so fuc... clean". Olaf Olsen svaraði stutt og laggott: "Well".

Árið 1981 fékk Olsen stöðu Þjóðminjavarðar Dana og gegndi hann þeirri stöðu með glæsibrag fram til ársins 1995. Ekki voru þó allir ánægðir með Olsen, sem varð samnefnari mikils pólítísks niðurskurðar á Þjóðminjasafni Dana, þar sem safnið losaði safnið við vesalinga og hálfdrættinga í fræðunum sem bara höfðu setið þar árum saman og þegið laun og aldrei áorkað nokkru í fræðunum sem um var talandi. Gekk Olaf á þessum árum meðal sumra hatursmanna sinna undir nafninu 0-Olsen (Núll Olsen). Kom þetta nú aðallega af því að hann undirritaði bréf O.Olsen.

Síðari ferð Olafs Olsens til Íslands lagði hann í árið 1994. Þá var haldinn fundur Þjóðminjavarða Norðurlandanna í Borgarnesi, og sá ég og annar starfsmaður Þjóðminjasafns Íslands um undirbúning stefnunnar. Ráðstefnunni í Borgarnesi lauk með skemmtiför um Snæfellsnes, sem var Olsen mjög eftirminnileg. Daginn eftir var haldin veisla Þórs Magnússonar þjóðminjavarðar á Hótel Holti, sem sló út allt í mat og drykk sem áður hafði sést á ráðstefnum þjóðminjavarðanna. Villigæs var í matinn og hélt finnski þjóðminjavörðurinn mikla lofræðu um veisluna í eftir-eftirrétt. Við sem um undirbúning fundarins höfðum séð, prísuðum okkur sæla fyrir að hafa haldið öllu innan fjárveitingarinnar til fundarins. Þeirri ánægju stútaði Þór svo fyrir okkur með því að panta dýrasta koníakið á Íslandi og vindla á línuna í koníakstofu Hótel Holts. Hann leit ekki einu sinni á verðið i verðlistanum sem þjónninn afhenti honum. Sjaldan hef ég fengið svo gott koníak en naut þess ekki sem skyldi.

h_ndtryk.jpg

Árið 2014 tók Olsen við verðlaunum afhentum af Danadrottningu. Bernskubrekin, þegar hann setti t.d. Niels Bohr á lista fyrir Rússana, komu ekki að sök.

Meðan Guðmundur Magnússon var settur þjóðminjavörður, þegar menntamálaráðuneytið íhugaði hvað gera skyldi við Þór Magnússon sem hafði verið vikið frá um tíma af brýnni nauðsyn, fór ég nokkrum sinnum á fundi þjóðminjavarða Norðurlanda sem staðgengill Guðmundar. Ég var eitt sinn staddur í Kaupmannahöfn og hafði tilkynnt fjarvistir mínar úr einum af hádegisverðunum á Þjóðminjasafni Dana á milli fundahalda. Ég þurfti að hitta góðan vin minn, sagnfræðinginn og blaðamanninn Bent Blüdnikow, á kaffihúsi rétt hjá safninu. Olsen, sem líklegast var enn ekki búinn að gleyma því að ég var ekki lengur nemandi hans á fyrsta ári sem byrtist bjúgnefnaður á fyrsta fund ársins í studienævnet, spurði mig af hverju ég kæmi ekki með í mat, og sagði ég honum frá því. Varð hann þá mjög önugur og gat ekki setið á sér og kallaði vin minn Bent frekar ljótum nafni (den Bandit).

Vissi ég vel, að Olsen var ekki hlýtt til Blüdnikows sem ítrekað hafði gagnrýnt Olsen opinberlega í greinum í Weekendavisen, fyrir stjórn útgáfu danska alfræðiritsins. Gagnrýnin var mestmegnis fyrir að ekki væri skrifað rétt, eða yfirleitt nokkuð af viti um samband danskra kommúnista við við herrana í Moskvu á tímum kalda stríðsins. Olaf Olsen hafi oft orðið fyrir orrahríð Blüdnikows um menn sem ekki höfðu gert upp við blakka fortíð sína sem skósveinar herranna í Moskvuborg. Kom þessi fundur minn með Blüdnikow aftur til tals á einum fínasta veitingastað Kaupmannahafnar, Restaurant Els, þegar kona Olafs, Agnete Olsen, spyr mig um tengsl mín við Bent Blüdnikow. Skýrði ég hreinskilningslega frá því, enda getur maður vel verið vinur tveggja manna, þó svo að þeir séu óvinir - nema að maður sé illa haldið og sært hópdýr sem lifir eftir mottóinu "óvinir vina minna eru óvini mínir".

Eitt af síðustu verkum Olafs Olsens sem þjóðminjavarðar tengdust einnig Íslandi. Olaf gaf góðfúslega leyfi sitt, sem þjóðminjavörður Dana, til að silfursjóður sem fannst að sögn að Miðhúsum austur á landi yrði rannsakaður á vegum Þjóðminjasafns Dana eftir að breskur sérfræðingur í silfri víkingaaldar hélt því fram að eitthvað væri bogið við sjóðinn (og heldur hann því enn fram, nú síðast í skýrslu frá einum af alþjóðlegu Víkingafundunum). Sú rannsókn Þjóðminjasafns Dana er samkvæmt öðrum breskum sérfræðingum einskis virði (sjá hér). Niðurstöður rannsóknarinnar á Nationalmuseet i Kaupmannahöfn voru settar fram í fjölmiðlum af sérsveit Þórs Magnússonar, á þann hátt, að halda mætti að danska rannsóknin staðfesti að sjóðurinn væri allur frá söguöld. Svo er nú ekki og fölsuðu þrír íslenskir einstaklingar í raun niðurstöður danska þjóðminjasafnsins. Nokkru árum síðar þegar ég var búsettur í Kaupmannahöfn, greindi ég Olsen frá afleiðingum sem þessi mistúlkun íslenskra embættismanna, sem hvorki voru læsir á dönsku né almenna siðsemi. Var hann mjög leiður yfir útkomunni og sagðist aldrei hafa veitt leyfið ef hann hefði vitað hvernig niðurstaða rannsóknarinnar var misnotuð. Meira gerði hann nú ekki og þótt mér það miður.

348218.jpg

Nokkru síðar var ég aftur í síma- og bréfasambandi við Olsen, sem ég hitti reyndar endrum og ein á gangi í Kaupmannahöfn, þar sem hann og kona hans voru lengi með íbúð ekki langt frá þar sem ég bjó um tíma á Vandkunsten númer 6, 4. hæð til hægri. Oft keypti hann blóm hjá blómasala sem á þeim árum var á Vandkunsten, í húsinu við hliðina á húsinu sem ég bjó í. Við rannsóknir mínar á afdrifum gyðinga sem sendir höfðu verið úr landi og í dauðann af dönskum yfirvöldum á stríðsárunum (sem að hluta til voru gefnar út í bókinni Medaljens Bagside, 2005, sem má finna á góðum íslenskum bókasöfnum), rakst ég á upplýsingar um gyðinginn Dr.jur. Wilhelm Lewinski (f. 1903), sósíalista og jafnvel marxista, sem m.a. reyndi að komast til Íslands eða Færeyja. Kom í ljós í skjölum dönsku ríkislögreglunnar, að faðir Olsens og móðir höfðu tekið Lewinski upp á arma sér, og bjó hann m.a. hjá þeim um tíma áður en honum tókst að komast til Suður-Ameríku, n.t. Kólombíu. Foreldrar Olafs hýstu reyndar nokkra pólitíska flóttamenn, bæði gyðinga og aðra á heimili sínu í Árósum. Olaf skrifaði mér 17. júní árið 1997 og sagði að Wilhelm Lewinski hefði komið sem ferðamaður 10 árum fyrr og heimsótt móður Olafs, Agnete Bing Olsen. Þá hefði Lewinski íhugað að flytja til Kaliforníu, þar sem dóttir hans bjó. Reyndar bjó Lewinski þá í Chicago og andaðist árið 1989.

ok_-_olaf_olsen_29551154_2012-07-15t22_20_42.jpg

Síðast hitti ég Olsen árið 2011 um haustið, þegar haldið var upp á 40 ára afmæli Miðaldadeildarinnar í Árósum. Hann hafði tíma til að ræða lítillega við mig og spurði mig hvernig gengi. Ekki óraði mig þá fyrir því að hann myndi komast í sviðsljósið ári síðar sem eini danski njósnarinn á kaldstríðsárunum sem hengdur var út í fjölmiðlum eftir rannsóknir á þeim kafla í ljótri sögu Danmörku á 20. öld.

Ekki minnkaði hróður hans í öðrum þjóðfélagsstigum, þrátt fyrir bernskubrekin, því hann var verðlaunaður af sjálfri Danadrottningu árið 2013. Síðustu tvö árin gáfu fæturnir sig og hann var bundinn við hjólastól og hefur örugglega þótt það bölvanlegt þekki ég hann rétt. Höfuðið var víst alveg i orden að sögn frænda hans eins og sumra vina hans sem ég hef talað við. Leiðinlegt hefur honum öruggleg þótt, hvernig deildin hans gamla við Árósarháskóla var soðin saman við aðrar deildir, þannig að nafn hennar er eiginlega ekki lengur til, og kennsla og kennarar í miðaldafornleifafræði í Árósum eru ekki af sömu gæðum og fyrr. Af er það sem áður var, en lengi mátti sjá hvert stefndi. Hlutirnir visna þegar engin er næringin og ég bið engan eftirmanna Olsens á deildinni afsökunar á þeirri skoðun minni, og segi hana alveg kinnroðalaust.

Eftir þessa Sögu Ólafs flugumanns hins Austræna, og sama hvað mönnum þykir nú um Olaf Olsen, þá er það mín skoðun að þetta hafi á margan hátt verið mjög merkilegur karl, og ekkert verri þótt honum hefði orðið á í messunni fyrr á lífsleiðinni. Humanum errare est, auðvitað mismikið þó.

Olaf Olsen verður borinn til grafar við kirkjuna á Alrø nærri Horsens nk fimmtudag. Á eyjunni bjó hann lengi ásamt annari konu sinni, sagnfræðingnum Agnete Olsen, sem lifir mann sinn.

fyrkat_m_llegaard_plaque_olaf_olsen_ajb.jpg


Les boys are here again

kam_1272527.jpgkam.jpg

Politiken og andre danske dagblade har påtaget sig rollen som groupie-blade for "rockstjernen" Søren Kam. Kam skriver nu, mærkeligt nok, om sit landsforræderi, helt frisk fra graven men godt hjulpet af to danske historikere; Udgiveren er forlaget Lindhardt & Ringhof, som så udmærket ved at tusindvis af skøre, midaldrende danske mænd elsker og dyrker sine nazister. Nazi-svin sælger altid godt i Danmark, specielt op til jul. Nazibogen i år hedder Et liv uden fædreland, som er en ganske fejlagtig titel, for Søren Kam valgte med sine handlinger et andet fædreland end Danmark.

Politikens medarbejdere forstår tilsyneladende ikke, at Søren Kam og hans åndsfæller er pendanten til nutidens ISIS-soldater og Hizbut Tharir-medlemmer. Der er ikke, og bliver aldrig, noget rockstjerneagtigt over denne kriminelle dansker, som aldrig fik den straf som han fortjente.

Den danske stat, sammen med den tyske, hjalp charlatanen Søren Kam til en fredelig tilværelse i alderdommen. At udgive Kams "memoirer", er en skændsel mod hans ofre og forherligelse af den ideologi som han fulgte hele sit liv.

Når to historikere udgiver en bog af Kam, hvori der intet nævnes om den kamp som Simon Wiesenthal Center og andre har kæmpet, for at få nazisten og morderen Søren Kam retsforfulgt, så er de to historikere Kams forlængede og rejste arm. Sådan en indholdsfriseret bog er af ringe betydning for forskningen når den næste ikke henviser til eksisterende forskning og udgivne bøger om Kam, f.eks. journalisten Erik Høgh Sørensens bøger. Politikens og andre avisers opblæste reklame for Søren Kams dødsbiografi, hvorfra billedet her foroven stammer (det findes i en usminket tilstand i bogen, og det er forsangeren Kam i midten) er fuldstændig ude af proportioner og kan slet ikke forstås i forhold til Politikens ellers så fine moral og påståede eneret på alt som er rigtigt og korrekt.

Kam glemte sine møder med Werner Best i 1943

Når historikerne der udgiver værket ikke har opdaget en af Kams værste udeladelser, så bliver man nødt til at stille spørgsmålet, hvorfor man i det hele taget udgiver den slags nazi-litteratur? Historikerne, hvoraf den ene er intet mindre end "eksperten" i Werner Bests levned i Danmark, har overset, at Kam lige inden mordet på redaktør Carl Henrik Clemmensen i 1943 havde et møde med Rigsbefuldmægtigede Werner Best. Dette fremgår af Bests tjenestekalender (originalen befinder sig stadig i en privatejers samling!). Oplysningerne om møderne er heldigvis udgivet i to af Erik Høgh Sørensens seneste bøger om Søren Kam. Men Kam selv beretter intet om de seks møder som han i 1943, som relativt lavt rangeret SS-mand (Unterscharführer), havde med Nazistyrets øverste leder i Danmark. Den sluger læseren så som det rå rødkål til anden fra dammen, fordi eksperterne har vist det sløvsind ikke at korrigere denne væsentlige mangel/vildledning i Kams memoirer.

Søren Kam griner ad os fra graven i Tyskland, sit hjemland efter 1941. Tidspunktet for udgivelsen af hans løgne er perfekt, nu når halvdelen af danske besættelsestidshistorikere er af den mening, at den danske kollaboration med besættelsesmagten var en himmelsk velsignelse. Det var ikke blot nazistiske miljøer som feterede Søren Kam som en slags "rockstjerne". Nutidens historikere er også ivrige groupies og nyttige idioter.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband