Af félagslegu lýðræði meðal íslenskra fornleifafræðinga

Archaeo
 

Í síðustu færslu gerði ég athugasemd við drög að nýjum reglum sem Þjóðminjasafnið vinnur að um afhendingu gripa til safnsins. Mig hafði ekki órað fyrir því að saklausar athugasemdir mínar skyldu hafa í för með sér hótanir um limlestingar og heimsóknir leigumorðingja.

Þar sem ég fékk þessi drög til umsagnar frá félagi sem ég er meðlimur í, Fornleifafræðingafélagi Íslands, þá sendi ég athugasemd mína til félagsins og reyndar til allra félagsmanna. Þar fyrir utan birti ég athugasemdir mínar á Fornleifi í gær.

Mér var sagt af formanni félagsins, að athugasemdum mínum yrði bætt inn í athugasemdir félagsins. Fundurinn var svo haldinn í gær á Fornleifafræðistofunni á Ægisgötu í Reykjavík, sem dr. Bjarni Einarsson rekur. Í bítið í morgun fékk ég svo athugasemd félagsins, en sá hvergi það sem ég hafði til málanna að leggja. Ég innti formann félagsins eftir því í dag og hann greindi mér frá því að hann "hefði ekki alræðisvald" og að meirihlutinn hefði verið á móti því að bæta athugasemdum mínum við.

Ekki nóg með það, „reyndir félagar" í Fornleifafræðingafélaginu, svo notuð séu orð formannsins, félagskap sem ég hef verið félagi í mjög lengi, töldu sig fullvissa um að ég væri ekki félagsmaður, að ég hefði gengið úr félaginu, og að ég hefði ekki greitt félagsgjöld árið 2012 og 2013. Mér hefur ekki nýlega verið tilkynnt að ég væri ekki félagi og hef fengið tölvupósta frá félaginu, sem setur hlekk í bloggið Fornleif á heimasíðu sinni.

Skoðun mín á drögum Þjóðminjasafnsins að nýjum vinnureglum, sem mér þykja á flestan hátt ágætar, féll svo mikið fyrir brjóstið á einum fornleifafræðingi, að rétt fyrir fundinn skrifaði hann mér m.a. eftirfarandi svödu vegna þess pósts með athugasemdum sem beðið var um, og sem ég leyfði mér að senda til allra félagsmanna svo þeir fengju þær tímanlega fyrir fundinn:

Þú gerir þér grein fyrir því að þessar endalausu tölvupóstsendingar þínar fara að jaðra við ofsóknir og þú gætir mögulega átt von á kæru frá mér vegna þessa.  Því leyfi ég mér að segja að ég þekki fólk í Danmörku sem getur vel tekið að sér það verkefni að heimsækja þig - sofðu með annað augað opið!  

Í SÍÐASTA SINN VILTU DJÖFLAST TIL AÐ TAKA MIG ÚT AF ÖLLUM JÁ ÖLLUM TÖLVUPÓSTUM SEM ÞÚ SENDIR OG BIDDU FYRIR ÞVÍ AÐ ÞÚ EIGIR EKKI LEIÐ TIL ÍSLANDS ÞAÐ SEM EFTIR ER ÞVÍ AÐ OKKAR FUNDIR VERÐA EKKI FAGRIR!!

Þetta var nú heldur hressilega til orða tekið og sýnir að mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Kristján Eldjárn var fornleifafræðingur. En mig langar strax að taka fram, að ég sendi hvorki endalausa tölvupósta til félagsmanna í Fornleifafræðingfélaginu, né öðrum. Ég er ekki "spammari" og sendi mjög fáa pósta daglega. En hunsun „reyndra félaga" og þeirra sem mættu á fundinn í félaginu í Reykjavík í gær, sem ég gat ekki mætt á þar sem ég bý erlendis, sýnir nú heldur betur nauðsyn þess að ég sendi umbeðnar skoðanir mínar til allra félagsmanna í Fornleifafræðingafélaginu. Einn fór hamförum og hinir fóru að gera því skóna að ég væri ekki félagi. Mér fundust svalir Moskvuvindar fjúka mér í móti. Það er komin Kremlfýla af þessu félagi sem ég er í.

Þegar ég var búinn að fá vitneskju um að "reyndir félagar" í Fornleifafræðingafélaginu hefðu lokað fyrir skoðanir mínar á opinberu skjali, sem opinber stofnun hafði beðið um álit á, leyfði ég mér einnig í dag að senda þessa skoðun til formanns Fornleifafræðingafélagsins:

Sæll Ármann,

þegar ummæli, sem beðið er um hjá félagsmönnum í félagi, eru ekki nýtt í umsögn sem félagið sendir frá sér, vegna þess að reyndir félagar telja sig vita "hitt og þetta" um félagsmanninn sem kemur með athugasemdina, þá kalla ég það ekki beint "persónulegan tilgang" að nýta sér netföng félagsmanna og senda skoðun sína til þeirra allra, sér  í lagi ef félagið vill ekki miðla minnihlutaáliti.

Þótt allir hinir í félaginu séu hugsanlega á þeirri skoðun, að fornt silfur geti fundist óáfallið í jörðu á Íslandi og það sé í fínasta lagi fyrir Þjóðminjasafnið að týna sýnum sem safnið hefur látið taka, þá tel ég það félagslegan rétt minn að segja öllum í félaginu, að ég hafi aðra skoðun á því máli. Varðveisla gripa og sýna, fyrr og nú, tengist auðvitað ósk Þjóðminjasafnsins um að ráða því hvernig gengið er frá sýnum og forngripum á Íslandi áður en þau eru afhent á Þjóðminjasafnið. Hvað á að gera við silfur sem finnst óáfallið í jörðu? Það kemur einfaldlega ekki fram í drögunum sem Þjóðminjasafnið sendi út fyrir áramót. En slíkt silfur hefur reyndar fundist.

Ef Þjóðminjasafnið vill að varðveislumál séu í lagi, er líkast til ekkert sjálfsagðara en að Þjóðminjasafnið skýri, hvað varð um sýni sem tekin voru fyrir safnið árið 1994, eða t.d. hvaða gripir týndust hér um árið, en komu svo sumir að sögn aftur í leitirnar eftir að blásaklaust fólk utan safnsins hafði verið þjófkennt. Það lýsir ekki sérstaklega traustu ástandi í 150 ára sögu safnsins, og það verður að vera öruggt að slíkt ástand sé ekki enn við lýði og endurtaki sig. Mér er mikið til sama hvað öðrum félögum í félaginu finnst um að gripir sem ég afhenti til forvörslu á Þjóðminjasafni hafi verið látnir grotna niður.  Það var einfaldlega eyðilegging á rannsókn minni, framin af einum af reyndustu félagsmönnunum í okkar félagi. Það var einnig brot á Þjóðminjalögum, og eftir þeim eigum við að starfa.

Ég get alls ekki tekið undir þá skoðun meirihlutans og háttvirtra "reyndra félaga" félagsins, sem í gær söfnuðust saman á Fornleifafræðistofunni, að varðveislumál og frágangur fornminja sem finnast við rannsóknir eigi að vera á könnu Minjastofnunar Íslands. Þá verður að breyta Þjóðminjalögunum, því þau segja okkur að fara með það sem við finnum á Þjóðminjasafnið. Þjóðminjasafnið á auðvitað að taka við því í góðu ásigkomulagi.

Mér sýnist ekki betur en að meðan meirihlutinn og "reyndir félagar" í pólítbyrói félagsins vilja ekki hlusta á rök mín, þá gangi þeir kinnroðalaust erinda nýstofnaðrar Minjastofnunar Íslands, sem einn félagsmaður okkar er forstöðumaður fyrir.

Þjóðminjasafnið hefur einnig skuldbindingar samkvæmt lögum. Það er alls ekki nógu gott að á stofnun, sem á að taka á móti jarðfundnum menningararfi samkvæmt lögum, geti ekki gert grein fyrir því sem þar hefur komið inn af sýnum og forngripum, eða horfið. Ég geri vissulega ráð fyrir því að mest af þessum hvörfum og týnslum sé fortíðarvandi, sem hvarf fyrir fullt og allt með núverandi þjóðminjaverði. En hún neitar þó staðfastlega að svara fyrirspurnum um slík hvörf og lætur það líðast að starfsmenn sem bera ábyrgð á hvarfi menningararfsins á sínum tíma svari ekki spurningum frá sérfræðingum utan safnsins.

bestu kveðjur,

Dr. Vilhjálmur  Örn Vilhjálmsson

 

Afsakið það er einhver að banka

tumblr_m7k5zvbcxW1r5ijn2o1_500

... Þá er einum dönskum leigumorðingja færra Smile


Nýir tímar, breyttir siðir

Artifacts-From-The-Silver-007
 

Nýverið bárust mér drög að Leiðbeiningum um umhirðu forngripa. Skjal þetta er upprunnið á Þjóðminjasafni Íslands. Það lýsir óskum safnsins, á 150 ára afmæli sínu, um hvað gera skal við jarðfundna forngripi úr fornleifarannsóknum, sem allir eiga að varðveitast á Þjóðminjasafni Íslands, nema ef annað sé tilgreint og ákveðið.

Ég fékk þessa umsögn frá félagi sem ég er meðlimur í, Forleifafræðingafélagi Íslands, sem er eitt af tveimur félögum fornleifafræðinga á Íslandi. Ég fékk skjalið harla seint, finnst mér, því það á að ræða um það á morgun (29.1.2013), og félagið á að skila áliti til Þjóðminjasafns þann 1. febrúar nk.

Í fljótu bragði sýnast mér drögin vera ágæt, þótt vanda mætti íslenskuna og varast endurtekningar. Nú á 21. öld verðum við að lúta fremstu kröfum um frágang á fornleifum og syndir forfeðranna má ekki endurtaka.

Mér er óneitanlega hugsað til frágangsins á ýmsu því sem ég sá koma til Þjóðminjasafnsins þegar ég vann þar frá 1993 til 1996. Ég uppfyllti langt frá þær reglur sem nú er ætlunin að setja, þegar ég afhenti fornleifar úr rannsóknum sem ég stýrði, en ég gerði það eftir bestu getu og vitund. Það gerði líka Mjöll Snæsdóttir, er hún afhenti þjóðminjasafni Íslands merka forngripi sem fundist höfðu við fornleifarannsóknir á Stóru-Borg sem fóru fram í fjölda ára undir hennar stjórn og á vegum Þjóðminjafans Íslands. Því miður hefur mikið magn forngripa þaðan eyðilagst á Þjóðminjasafninu,  eftir að þeir voru afhentir þangað. Þar var um tíma enginn forvörður og þegar þeir hófu loks störf var skaðinn skeður. Það var menningarsögulegt stórslys.

Ég afhenti kassa af járngripum til forvörslu á Þjóðminjasafni íslands árið 1984, í þar til gerðum fundakössum sem ég hafði fengið afhenta af forvörðum Þjóðminjasafns Íslands, þar sem mér hafði verið lofuð forvarsla á gripunum. Þegar ég hóf þar störf árið 1993, kom í ljós að járngripirnir sem fundust á Stöng árið 1984 lágu allir undir skemmdum. Ekkert hafði verið gert síðan 1984. Árið 1984 var einn forvarða Þjóðminjasafnsins Kristín Sigurðardóttir, nýútnefndur forstöðumaður Minjaverndar Ríkisins.

Gripir sem finnast sýningarhæfir 

Stundum er maður bara svo heppinn, að forngripir finnast svo að segja forvarðir.  Það gerðist t.d. á Miðhúsum árið 1980. Silfrið, sem fannst þar, var óáfallið og forverðir þurftu aðeins að bursta óhreinindi af gripunum. Kristján Eldjárn var mjög undrandi yfir þessari ótrúlegu varðveislu og spurðu finnendur í þaula út í það. Þór Magnússon Þjóðminjavörður hefði örugglega fallið á prófinu ef hann hefði afhent silfursjóðinn á Þjóðminjasafnið í dag, ef hann hefði gert það eins og hann gerði þá. Samkvæmt ströngustu reglu Þjóðminjasafnsins nú, hefði hann alls ekki mátt setja sjóðinn í plastpoka ofan í stresstösku sína eins og hann gerði samkvæmt því sem hann upplýsti. En hvað á maður að halda þegar maður finnur óáfallið silfur. Hvað á maður yfirleitt að gera þegar maður finnur óáfallið silfur í jörðu á Íslandi? Hingað til hefur það þótt við hæfi að stinga höfðinu í sandinn í stað þess að spyrja spurninga.

Skýringar á því hvað gjöra skal ef maður finnur ááfallið silfur í jörðu vantar tilfinnanlega í nýjar leiðbeiningar Þjóðminjasafns Íslands. Er ekki ósköp eðlilegt að hafa allan varann á, ef það sem gerðist árið 1980 á Miðhúsum gerðist aftur. Ég hef því beðið félag mitt að beina þeim breytingartillögum til Þjóðminjasafns, að upplýst verði hvað gera skuli finni maður óáfallið silfur í jörðu.

Eyðublöð fyrir afhenta gripi og sýni 

Hvað varðar eyðublað yfir afhenta gripi og sýni sem Þjóðminjaafnið sendi einnig fagfélögum fornleifafræðinga í nóvember sl., þykir mér það vera til sóma. En ég hafði samt búist við einhverju öðru en einfaldri Excellskrá. Í því sambandi leyfi ég mér vinsamlegast að benda á, að jarðvegssýni sem þjóðminjasafnið lét taka af jarðvegi á Miðhúsum árið 1994 eru nú týnd - ekki til - og ekki skráð inn í safnið. Excell var reyndar til á þeim tíma er sýnin voru tekin og er því engin afsökun fyrir því að sýni sem Þjóðminjasafnið lét taka séu horfin. Týndu jarðvegssýnin, sem voru frá Miðhúsum í Eiðaþinghá, höfðu aldrei verið rannsökuð. Grunur leikur á því, að það hafi verið notað sem pottamold á Þjóðminjasafni Íslands, en ekkert finnst heldur um það á skrá eða skjölum. Einn fremsti sérfræðingur safnsins um silfur, þjóðfræðingurinn Lilja Árnadóttir vill þó ekki enn tjá sig um málið.

Vitandi af slíku hvarfi, getum við fornleifafræðingar nokkuð fullvissað okkur um, að Þjóðminjasafnið varðveiti það sem afhent er til safnsins? Getur safnið yfirleitt kastað því á glæ sem það safnar, án þess að stafkrókur sé til um það á safninu? Samkvæmt nýjustu yfirlýsingum þjóðminjavarðar á 150 ára afmæli safnsins er það hægt, án nokkurra frekari skýringa.

Safn verður aldrei betra en það fólk sem vinnur þar.

Dæmi um nýlega og nokkuð athyglisverða forvörslu 

Á síðasta ári greindi ég frá fundi silfurbaugs í svonefndum Alþingisreit í Reykjavík. Á vefsíðu Þjóðminjasafns er einnig greint frá þessum fundi . Í myndasögu Þjóðminjasafni er fyrst sýnd mynd af því er ungur fornleifafræðingur er að grafa fram gripinn í felti.

Forleifauppgroftur-a-Althingisreit

Tekin hefur verið ákvörðun um að halda áfram uppgreftri á forvörsluverkstæði Þjóðminjasafns Íslands, og þess vegna hefur gripurinn verið tekinn upp með undirliggjandi mold, svo hægt væri að halda áfram nákvæmri rannsókn á honum. Svo sýnir Þjóðminjasafnið tvær myndir af moldarkögglinum sem starfsmenn safnsins tóku með sér í hús og bætir við þessari upplýsingu:

"Myndir sem sýna annars vegar moldarkökkinn og svo hins vegar þegar búið er að hreinsa lausa mold ofan af honum, áður en armbaugurinn var losaður úr honum. (Ljósm: Sandra Sif Einarsdóttir)."
armbaugur-2armbaugur-3

Takið hins vegar eftir því hvernig gripurinn leit út áður en hann var tekinn upp sem "preparat". Var mikill jarðvegur ofan á honum þá? Nei, ekki samkvæmt þeim ljósmyndum sem hafa birst í fjölmiðlum.

Einnig má glögglega sjá á báðum myndunum, að köggullinn hefur brotnað eftir að hann var tekinn upp og færður á Þjóðminjasafnið, og er það greinilega vegna þess að preparatið hefur ekki verið styrkt með gifsi, eins og tíðkast t.d. hér í Danmörku og á flestum öðrum stöðum í heiminum - nema á Þjóðminjasafni Íslands.

Röntgenmynd af kögglinum sýnir að gripurinn hefur greinileg brotnað þar sem köggullinn hefur brotnað.

Armbaugur Alþingi
Efst í þessari færslu má sjá armbauga af sömu tegund og sá hringur sem fannst í Reykjavík. Þeir fundust á Bretlandseyjum og eru frá því um 900 e.Kr.
Hér gleymdi forvörður Þjóðminjasafnsins að steypa sýnið í gifs. Líklegast brotnaði hann þess vegna, en gripurinn er í dag límdur saman.  Sjáið hér varðveisluna á silfri í Reykjavík. Hún er greinilega allt öðruvísi en fyrir Austan þar sem silfur finnst óáfallið.

Illugi ritskoðar sögu Sovétríkjanna

Serov

Illugi Jökulsson blaðamaður hefur í áraraðir verið ötull við að gera heimssöguna áhugaverða og aðgengilega venjulegu fólki. Á hann mikið lof skilið fyrir það, þótt oft sé sagan hjá honum í hraðsoðnu skyndibitaformi. Sagnfræðileg nákvæmni er kannski ekki í öllum tilvikum sterkasta hlið Illuga. Þótt efnið sem hann skrifar um sé fyrir almenning og það sé yfirborðskennt, er þó engin ástæða til að hliðra til sannleikanum eða slaka á heimildarýni og nákvæmni. Sérstaklega ekki þegar saga Sovétsins sáluga er sögð. Sovétríkin teljast nú til fornleifa, en sárin, sem stjórnkerfið þar olli, gróa seint.

Um þessar mundir skrifar Illugi á Pressunni röð stuttra greina undir samnefninu Illugi í útlöndum. Í gær birti hann samansuðu, sem maður hefur svo sem ansi oft lesið og séð í meðförum margra annarra, en greinin fjallaði um myndafölsun í Sovétinu og endurritun og ritskoðun sögunnar. Íkonografía Sovétríkjanna er á margan hátt álíka áhugavert rannsóknarefni og helgimyndalærdómur rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar.

Í grein sinni verður Illuga illilega á í messunni og gerir sig sekan um álíka athæfi og Stalín og kumpánar viðhöfðu, þegar þeir strokuðu menn út af myndum og máluðu yfir atburði á málverkum, og fjarlægðu þá úr sögunni eða rægðu þá í svaðið. Hver kannast ekki við það andbyltingalega athæfi að setja glerbrot í smjör alþýðunnar. Menn voru meira að segja ásakaðir um slíkt á Íslandi.

Illugi sýnir okkur mynd eftir stórmálarann Vladimir Serov frá 1947 (sjá efst), sem sýnir, að sögn Illuga, Lenín lýsa yfir stofnun Sovétríkjanna. Fyrir aftan hann standa Stalín, Felix Dzerzhinsky (sem Illugi kallar Drzinzinsky) og Yakov Sverdlov. Illugi greinir síðan frá því, að listamaðurinn Serov hafi síðar málað aftur sama myndefnið, eftir að Stalín féll frá árið 1953, og sett nokkra velútitekna verkamenn í stað samverkamanna Leníns. Illugi ritar: En 1953 dó Stalín og nokkrum árum seinna var skorin upp herör gegn arfleifð hans og persónudýrkuninni sem hafði fylgt honum. Þá málaði Vladimir Serov mynd sína upp á nýtt og tók nú út Stalín, Drzinsinsky og Sverdlov og setti þrjá almenna verkamenn í staðinn.

serov62 

Rauðliðar og verkamenn í stað Stalíns, gyðings og pólverja. Vladimir Serov 1962

Illugi gleymir hins vegar að segja okkur, að endurskoðun Serovs, sem hann sýnir okkur sem dæmi um pólitískar hreinsanir í list, er ekki máluð fyrr en 1962, og að áður en hann málaði hana málaði hann áfram eftir fall Stalíns (1955) sama mótíf, þar sem sem Sverdlov og Dzerzhinsky standa bak við Lenín. Á verkinu frá 1955 er Stalín reyndar horfinn. Illugi fer því með staðlausa stafi.

Serov 1955

Mynd eftir Vladimir Serov 1955. Þarna standa Sverdlov og Dzerzhinsky enn.

Nikita Khrushchev var eins og gamalt fólk veit við völd frá 1955 til 1964. Í hans tíð byrjaði Stalín smám saman að hverfa úr helgimyndalist kommanna og smátt og smátt hurfu líka gyðingar eins og Yakov Sverdlov og "Pólverjar" eins og Dzerzhinsky af hinum sósíalrellístísku íkonunum. Gyðingahatrið á tímum Khruchchevs var ekki minna en á tímum keisarans, Leníns eða Stalíns. "Fagrar" hugsýnir eins og kommúnismi Sovétríkjanna breytti engu í þeim efnum. Í dag er jafnvel talið að Yakov  Sverdlov, sem upphaflega hét Jeshua-Solomon Moishevich Sverdlov, hafi verið barinn til bana af verkamönnum í Oryol árið 1919 eingöngu vegna þess að hann var gyðingur. Til að koma í veg fyrir frekari andgyðinglega múgæsingu laug flokksforystan um afdrif hans og sagt að hann hafi dáið í flensu árið 1918.  En finnst Illuga þá ekki skrítið að Sverdlov sé á málverki frá 1947, sem á að sýna stofnun Sovétríkjanna? Sovétríkin voru, síðast þegar ég vissi, stofnuð árið 1922.

jakov_sverdlov_avi_image3 

Sverdlov leggur á ráðin. Hann var barinn til bana árið 1919 og fjarlægður af helgimyndum Sovétríkjanna árið 1962

 

iron_felix

 Felix Dzerzhinsky

Hinn blóði drifni böðull Felix Dzerzhinsky, sem einnig var fjarlægður af málverkum Serovs, var af pólskum aðalsættum. Hann féll ekki opinberlega í ónáð fyrr en 1991 (enda ekki gyðingur), þegar risstór stytta af honum úr járni árið 1958, sem kölluð var Járn Felix, var rifinn niður þar sem hún stóð fyrir framan höfuðstöðvar KGB. Dzerzhinzky var einn stofnanda og yfirmaður Cheka, sem var illræmd deild í kommúnistaflokkunum sem barðist gegn andbyltingaröflum og skemmdarverkum.

Checka samsvaraði Gestapo nasista. Síðar varð þessi illræmda stofnum kölluð GPU (Ríkislögreglan) sem var deild í NKVD, sem var forveri KGB. Felix Dzerzhinsky dó úr hjartaáfalli árið 1926 og Stalín hóf hann þá upp til skýjanna. Árið 1991 réðst frelsishungrandi alþýðan á hina risastóru styttu af Felix fyrir framan KGB höfuðstöðvarnar í Moskvu og þar á meðal  fólk sem taldi að „Járn Felix" hefði verið gyðingur. Gyðingum var alltaf kennt um allt í Sovétríkjunum eins og menn muna kannski, og er svo oft enn í Rússlandi Pútíns. Í fyrra (2012) tilkynntu yfirvöld í Moskvu, að gert verði við laskaða styttuna af Járn Felix, en enn er ekki komin tilkynning um hvort og hvar á að reisa minnisvarðann um þennan forvera Pútíns í rússneska byltingarmorðæðinu.

pomnik

Felix Dzerzhinsky féll loks árið 1991 sem persónugerfingur illsku og útrýminga sem áttu sér mestmegnis stað eftir að hann var allur


Mittismjó brúður eða Venus frá Utrecht

Topless Dutch Woman

Sjötta getraun Fornleifs reyndist greinilega fornfálegu fólki á Íslandi um megn. Sumir voru að brjóta heilann í hálfan annan sólahring og langt fram á síðustu nótt. Aðrir voru enn að snemma í morgunsárið, eftir að þessi raun hafði tekið af þeim allan svefn og sálarró aðra nóttina í röð. Ég verð nú að létta á spenningnum og lýsa því yfir að getrauninni sé formlega lokið. Sumir gerðust heitir en flestir stóðu á gati. Bergur Ísleifsson komst næst sannleikanum allra þátttakenda.

Það sem spurt var um, og mynd var sýnd af, var aðeins brot af grip. Það er að segja neðri hlutinn af lítilli styttu, sem sýnir hefðarfrú í fínum plíseruðum kjól. Gripurinn, sem er 8,6 sm. á hæð, er tæplega 300 ára gamall, eða frá fyrri hluta 18. aldar. Hann fannst í Amsterdam, nánar tiltekið í Vlooienburg-hverfinu (einnig ritað Vlooyenburg), sem upphaflega var manngerða eyja. Þar stendur nú síðan 1983 nýtt óperuhús Amsterdamborgar, almennt kallað Stopera. Áður, á 17. öld og alveg fram undir 1940, var þarna hluti af hverfi gyðinga. Á 17. og 18. öldu bjuggu á Vlooienburg margir portúgalskir gyðingar. 

Gripurinn er úr brenndum leir, svokölluðum pípuleir, sem er blágrár en verður hvítur við brennslu á ákveðinn hátt. Gripurinn var framleiddur í Hollandi, hugsanlega í borgum eins og Delft eða Utrecht, þar sem við vitum að slík framleiðsla fór fram. Brot af sams konar eða líkum styttum  hafa fundist í miklum mæli í jörðu í Hollandi. Hollendingar kalla brenndann pípuleir, pijpaarde (sem er borið fram peipaarde).

Á miðöldum var heilmikil framleiðsla á pípuleirsmyndum í Hollandi, m.a. í borginni Utrecht. Mynd af heilagri Barböru sem Kristján Eldjárn fann í kapellunni í Kapelluhrauni, var einmitt gerð í borginni Utrecht eins og ég ritaði um í grein í Árbók Fornleifafélagsins um árið og síðar hér á blogginu. Stytta, sem virðist vera úr sama mótinu og brotið af Barböru sem fannst í Kapelluhrauni, var einmitt frá Utrecht. Þá styttu má nú sjá á sýningu í Utrecht fram í febrúar. Á Skriðuklaustri hefur líklega staðið  altari úr nokkuð stærri pípuleirsstyttum frá Hollandi, m.a heilagri Barböru frá því um 1500.

Topless Dutch women 

Undarlegt má virðast, að allar styttur, eins og sú sem spurt var um, finnast aðeins brotnar. Það er einvörðungu neðri hlutinn sem finnst. Sama hvort þessar myndir finnast í Hollandi, Danmörku eða annars staðar,  þá eru það aðeins neðri hlutinn, pilsið, sem finnst. Ég hef reynt að leita uppi efri hlutann á þessum hefðarfrúm, en hef enn ekkert fundið. Greinilegt er, að þessi mittismjóa hefðarfrú hafi haft veikan punkt um mittið. Hér sjást myndir frá ýmsum álíka styttum:

Alkmaar Hekelstraat

Two birds from Alkmaar

Rotterdam

Bakhlutinn á mittismjórri meyju frá Rotterdam

pijpaarde3-DSCN5439-30  

Nokkrir hollenskir pilsfaldar. Efri hlutann vantar, en vitanlega minnir þetta sumt á digur og stutt reður eins og einhver stakk upp á meðan á getrauninni stóð

L58_pijpaarde_beeldje_011_15_crop

Þessi brotnaði einnig um mittið, enda þvengmjó, og svo nokkrar úr Kaupmannahöfn hér fyrir neðan:

brotnar um miðju

Brotakonur frá Kaupmannahöfn. Stytturnar hafa margar verið málaðar/litaðar. Mynd úr Nationalmuseets Arbejdsmark 2012, sem Þjóðminjasafn Dana gefur út.

Gripur sá sem getraunin gekk út á er í einkasafni Fornleifs. Mér var gefinn gripurinn af frægum hollenskum safnara, Edwin van Drecht , sem á unga aldri tíndi lausafundi upp úr byggingagrunnum víðs vegar í Amsterdam. Þá voru fornminjalög í Hollandi ekki eins og þau eru í dag og áhugasafnarar gátu farið og safnað sér fornminjum þegar hús voru byggð.  Edwin fann mikið af heilum diskum og gripum úr fajansa, rauðleir og postulíni í leit sinni og ánafnaði það síðan virðulegum söfnum í Hollandi, sem gefið hafa út virðulegar útgáfur til að heiðra Edwin van Drecht. Sýningar á fundum hans hafa verið víða um heim, t.d. í Japan.

Eftir síðari heimsstyrjöld voru mjög fá heilleg hús eftir í Vlooyenburg hverfinu í miðborg Amsterdam. Þjóðverjar höfðu sprengt húsin þar sem gyðingar höfðu búið. Það var þó ekki fyrr en á 8. og 9. áratug 20 aldar að bæjaryfirvöld ákváðu að byggja aftur á svæðinu, og þá var m.a. tekin sú ákvörðun að reisa nýa óperuhöll Amsterdamborgar við Waterlooplein. Faðir minn bjó við Waterlooplein fyrsta ár ævi sinnar, áður en hann fluttist með foreldrum sínum til Norður-Amsterdam. Síðar á 4. áratugnum fluttust þau til den Haag. Þess má geta að í grennd við Vlooyenburg í Joodenbreestraat (Gyðingabreiðgötu) bjó Rembrandt Harmenszoon van Rijn á 17. öld.

Vlooienburg,_1688

Vlooienburg er innan bláa ferhyrningsins, hús Rembrandts innar þess rauða og portúgalska samkunduhúsið, Snooga (Esnoga) er merkt með stjörnu

waterlooplein_1934

Vlooienburg árið 1934

Þess má í lokin geta, að þessi brotna hefðarfrú frá Vlooienburg og álíka styttubrot leiða hugann að einu af frægustu verkum Rembrandts sem gengur undir heitinu Gyðinglega brúðurin (Het joodse bruidje). Það verk er frá því um 1667, og því nokkuð eldra en styttan mín. Takið eftir því hvernig maðurinn á myndinni heldur um brúði sína og hún leggur hönd í skaut sér. Stytturnar mittismjóu úr Hollandi eru einnig til í öðru afbrigði, þar sem maður stendur við hlið konunnar og hún leggur hönd í skaut sér, eins og brúðurin á mynd Rembrandts.

Rembrandt_-_The_Jewish_Bride_-_WGA19158
Gyðinglega brúðurin, Rijksmuseum, Amsterdam
 
25_details_theredlist
StoreKongensgadeNM
Brúðhjón eða kærustupar sem fundust höfuðlaus í Trøjborg kastala á Suður-Jótlandi. Ljósm. NM Kaupmannahöfn. Eftir Mynd úr Nationalmuseets Arbejdsmark 2012, sem Þjóðminjasafn Dana gefur út.
 
 
Middelburg 2012
Par frá Middelburg

Ég leyfi mér að halda því fram, að þessi mittismjóa snót úr Amsterdam hafi verið barbídúkka síns tíma eða stytta af brúður, kannski stytta sem sett var á hlaðin borð í brúkaupsveislum líkt og kransakökumyndir af hjónum úr plasti eru settar á brúðhlaupskökur í dag. En hugsanlega var þetta bara stytta eins og Venus frá Míló, þessi sem vantar handleggi. Þessar hollensku vantar hins vegar tilfinnanlega búk og haus, og lýsi ég hér með eftir þeim.

IMGP3685

Neðan á dömunni minni frá Amsterdam hefur sá sem steypti þessa mynd skilið eftir sig fingra- og naglaför sín.


6. getraun Fornleifs

Getraun1
Nú er kominn tími til þess að reyna fornvit lesenda Fornleifs og þeirra sem taka vilja þátt í leiknum.
Því spyr ég:
1) Hvaða gripur er á ferðinni hér á myndinni?
2) Hvað er hann gamall?
3) Hvar fannst hann?
4) Til hvers var hann notaður?
5) Úr hvaða efni er hluturinn?

Nú hefur fílsminni mitt og nef verið útskýrt

MicroRNA-graphic 

Hér skal ég ekki gera mig klókan um það efnin sem ég greini frá, og þetta verður því í styttra lagi í dag;  því sú fornlíffræði sem ég segi frá er vel handan þess tíma sem ég skil. Fílsminni mitt segir mér hins vegar, að þessi fræði hafi verið til umræðu á einhverjum bloggum og meðal íslenskra fræðimanna/vísindamanna. En þar sem þetta er eins konar fornlíffræði, þá læt ég það flakka. 

Í grein í Nature, sem birtist í fyrra, var greint frá vinnu dr. Kevins Peterson við Dartmouth College í New Hampshire, sem á síðustu árum hefur verið að endurrita þróunarferli spendýra út frá rannsóknum sínum á míkró-RNAi. Míkró-RNA eru litlir bútar af erfðaefni, sem skipta miklu máli við skipulagningu á genum og hvernig gen raðast saman. Þar fyrir utan hefur Míkró-RNA þann áhugaverða eiginleika, að það breyttist lítið ef nokkuð í milljónir ára, alveg öfugt við annað erfðaefni. Gerð þess er mjög óbreytt í lengri tíma, ólíkt öðru erfðaefni og hefur erfst óbreytt meðal margra tegunda dýra. Þetta hefur Peterson nýtt sér og hefur nú eftir margra ára rannsóknir ræktað allt annað þróunartré fyrir spendýr, en hingað til hefur verið viðurkennt (sjá hér að ofan). Þetta myndar auðvitað gárur í sullupolli "viðurkenndra" fræðinga.

Samkvæmt rannsóknum Petersons erum við nú miklu frekar skyld fílum en t.d. nagdýrum. Þetta hefur mig lengi grunað.

Nú verða menn að gera upp við sig, hvort þeir trúi eður ei. En athyglisverð eru viðkvæði og neikvæðni sumra vísindamanna við niðurstöðum Petersons, sjá hér

Án þess að taka neina afstöðu með eða á móti, þykir mér þetta mjög áhugavert, og hefi lúmskan grun um að Peterson hafi mikið til máls síns að leggja.

Ítarefni:

Videnskab.dk: Mikro-RNA: Skal evolutionen tænkes helt om?

Elie Dolgin (2011) Phylogeny: Rewriting evolution; Tiny molecules called microRNAs are tearing apart traditional ideas about the animal family tree. á WWW.Nature.com/news. Sjá hér


Egilio saga

Egilio saga
 

Ég hef áður sagt lesendum mínum frá góðri vinkonu minni í Vilnius. Það er hinn mikli eldhugi Svetlana Steponaviciené, sem er mörgum Íslendingum kunn. Svetlana er nýbúin að gefa út nýja útgáfu af Eglu í Litháen, Egilio sögu. Þetta er frábært átak og Svetlana á mikil hrós skilið. Gaman væri nú ef einhver gerði bókmenntum Litháa eins hátt undir höfði á Íslandi eins og hún gerir okkar fornsögum.

Svetlana sendi mér nýútkomna útgáfu sína af Egils sögu um daginn, eftir að ég hafði samband við hana með sorgleg tíðindi. Ég sendi henni tilkynningu af mbl.is um fráfall hins mæta manns Arnórs Hannibalssonar, sem Svetlana hafði  þekkt í mannsaldur og meðal annar unnið með í Sovétríkjunum forðum. Arnór var einnig konsúll Litháens á Íslandi. Hann hafði mikið hjálpað Svetlönu við þessa nýju útgáfu hennar og höfðu þau síðast verið í sambandi á Þorláksmessu.

Þetta er ekki ritdómur. Egils saga er eins og Egils saga er, en í þessari bók heitir Egill bara Egilis, Skalla-Grímur heitir Grimas Plikagalvis og Kveldúlfur Kveldulvas og var vitanlega Bjalvio sunus. Ég les því miður ekki litháísku en bókin mun fá heiðurssess í hyllum mínum - og jafnvel gæti ég lært litháísku með því að bera Egils sögu á íslensku saman við þýðinguna á litháísku. Ég verð því að gefa Egils sögu á litháísku 6 grafskeiðar.  

6 grafskeiðar  

Bókartitill:  Steponaviciené, Svetlana 20112. Egilio Saga; Is senosios islandu kalbos verte Svetlanda Steponaviciené [Vilnious universiteto Skandinavistikos centras] Aidai, Vilnius. 

(Bókin er meðal annar gefin út með styrk frá Bókmenntasjóði).


Voru landnámsmenn hasshausar?

Sosteli
 

Þótt mikilvæg jarðvegssýni hverfi á Þjóðminjasafni Íslands, eins og greint var frá í síðustu færslu, er gömlum jarðvegssýnum greinilega ekki fargað á Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn. Þar hafa t.d. varðveist sýni frá sameiginlegum rannsóknum norskra og danskra fornleifafræðinga í Noregi á 5. og 6. áratug síðustu aldar.

Sýnin, sem tekin voru á Sosteli á Austur-Ögðum í Noregi (sjá mynd efst), hafa nú loks verið rannsökuð og sýna m.a. að í S-Noregi hafa menn haft frekar stórfelda ræktun á hampplöntum, cannabis sativa. Í jarðvegssýnunum hafa menn nú bæði fundið mikið magn af frjókornum hampplöntunnar. Ræktunin í Sosteli mun hafa verið einna mest á ákveðnu tímabili á 7. - 8. öld.   

Hampræktun

Var þannig umhorfs í Sosteli á Járnöld?

Hampplöntuna er, eins og menn vita, hægt að nýta á ýmsa vegu. Norskir fornleifafræðingar hafa þó ekki ímyndunarafl til annars en að álykta að kannabisplantan hafi verið ræktuð í Noregi en til framleiðslu á þráðum til vefnaðar líkt og línplantan (hör). En ekkert útilokar þó að  það að seyði af  plöntunum sem innihaldið hefur eitthvað af tetrahydrocannabinóli, sem gefur vímuástandið, hafi verið nýtt. Spurningin er bara hvað mikið plönturnar í Noregi inniheldur af efninu. Þess má geta í gröf drottningarinnar á Osebergskipinu frá fannst kannabisefni, og fræ hampplantna. Einnig hafa til dæmis fundist kannabisefni og fræ hampplöntunnar í meni sem fannst í gröf "víkings" eins í Póllandi (sjá hér).

Sosteli
Fundarstaðurinn í Sosteli á Austr-Ögðum í Noregi
polish-warrior-grave-amulet-container_45863_600x450
Í þessari amúlettu (kingu?: pólsk: kaptorga) fannst kannabisefni og kannabisfræ, sem "víkingur" nokkur í Póllandi fékk hugsanlega með í sína hinstu för.

Á Íslandi höfum í tungu okkar orð sem greinilega sýna í hvað hampurinn var notaður. Hempa, það er hempur presta og munka og yfirhafnir kvenna, hafa líklega verið úr fínlega ofnum hampi. Ef menn þekkja ekta póstoka, þá voru þeir lengi vel ofnir úr hampi (canvas). Um uppruna orðsins tel ég best að læra af dönsku orðabókinni.

Því meira sem ég hugsa út í efnið, því meira trúi ég því að landnámsmenn hljóta hafa verið stangarstífir af hassi við komuna til Íslands. Af hverju taka menn annars upp á því að sigla út í óvissuna til einhverrar fjarlægrar eyju út í Ballarhafi. Íturvaxnar hempukladdar pusher-drottningar eins og drottningin í Oseberg, sem talin er hafa verið af innflytjendaættum úr Austurlöndum, skaffaði væntanlega efnið. Þessi sérhæfða norska búgrein hefur síðan lagst af, væntanlegra vegna lélegra skilyrða til ræktunar á Íslandi. Eða allt þar til menn uppgötvuðu að hægt var að stunda stórfellda rækt á kannabis á fjórðu hæð í blokk. En kannski væri samt ástæða til að athuga hvort hampplantan hafi skilið eftir sig frjókorn á Íslandi fyrr á öldum.

Cannabis and humulus
Erfitt er að greina nokkurn mun á frjókornum hamps og humals
cannibis_sativa_2_icon
Kannabis-frjókorn, mynd tekin með rafeindarsmásjá
 

Einu langar mig þó að bæta við, þó það geti verið til umræðu í nýútkominni grein um fund frjókornanna sem út er komin í norska tímaritinu Viking, sem ég er ekki búinn að sjá og hef enn ekki náð í.

Þegar ég athugaði hvernig frjókorn hampplöntunar líta út, sá ég að þau var nær alveg eins og frjókorn humals (humulus) og þetta hefur verið bent á áður (sjá hér). Ég er því ekki alveg viss um hvort ég trúi því lengur, að það sé frekar kannabis en humall sem ræktaður hefur verið fyrir 1300 árum í Sosteli í Noregi. Ekki fundust kannabis-fræ í Sosteli. Það verður að teljast með ólíkindum, þar sem fornleifafræðingarnir norsku álykta að frjókornin séu svo mörg á þessum stað vegna þess að plöntunum hafi verið varpað í mýri til að leysa plönturnar upp, svo hægt væri að brjóta niður trefjarnar í hampinum til framleiðslu þráðs.

Fræin finnast sem sagt ekki, en frjókornin er mörg.  Catharine Jessen jarðfræðingur á Þjóðminjasafni Dana, sem greindi frjóin frá Sosteli, sagði mér, að magn frjókornanna, sem var óvenjumikið, bendir til þess að það hafi frekar verið kannabis en humall sem menn ræktuðu í Sosteli. Hið mikla magn frjókorna er aðeins hægt að skýra með því að plöntunum hafi verið kastað í mýrina til að verka hana. Humall er ekki verkaður á sama hátt og hampur og engar trefjar unnar úr honum. Jessen mun leita fræja cannabisplantnanna við áframhaldandi rannsóknir sínar á jarðvegssýnunum.

Nú er best að hampa þessu efni ekki meira en nauðsyn krefur. Kveikið í pípunni og komið með hugmyndir.

Ítarefni:

Michael P. Fleming1and Robert C. Clarke2 Physical evidence for the antiquity of Cannabis sativa L. http://www.druglibrary.org/olsen/hemp/iha/jiha5208.html

http://videnskab.dk/kultur-samfund/vikinger-dyrkede-hamp-i-norge

http://sciencenordic.com/norwegian-vikings-grew-hemp


Moldin milda frá Miðhúsum er horfin

Mid 2

Rétt fyrri áramótin greindi ég frá einstökum varðveisluskilyrðum Miðhúsasilfursins. Margir höfðu undrast þau á undan mér og árið 1994 var fornleifafræðingur einn sérstaklega og leynilega beðinn um að taka sýni af jarðveginum á Miðhúsum til rannsókna. Menn grunaði náttúrulega, að hin einstaka varðveisla silfursins gæti tengst moldinni sem silfrið fannst í.

Eins og ég greindi frá í desember, voru þau sýni aldrei rannsökuð og nýlega bað ég um að fá upplýst, hvar þau væru niður komin. Eins og ég hef áður greint frá, hafa gripir oft annað hvort horfið og týnst á Þjóðminjasafni Íslands. Moldin frá Miðhúsum er nú einnig glötuð og hefur reyndar aldrei verið skráð inn í bækur Þjóðminjasafns Íslands að því er þjóðminjavörður upplýsir (sjá hér; Ég ítrekaði fyrirspurn mína um moldarsýnin þann 13.12. 2012 við Lilju Árnadóttur safnvörð í erindi til hennar þann 3. janúar 2013 um moldina, en Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður svaraði fyrir Lilju, sem nú er víst hætt að geta svarað).

Hvar er moldin? 

Ég ætla ekki að fara að skapa neitt moldvirði vegna þess uppblásturs sem átt hefur sér stað á sjálfu Þjóðminjasafninu. Hugsið ykkur ef geimfarar NASA kæmu með nokkur kíló af ryki frá tunglinu, og að það týndist. Moldin frá Miðhúsum er kannski ekki eins einstök og mánaryk, en í henni varðveitist silfur eins og það hefði verið pússað í gær. Er mér barst svar þjóðminjavarðar um að Miðhúsamoldin væri ekki lengur tiltæk á Þjóðminjasafninu, datt mér eitt andartak í hug, að Lilja Árnadóttir hefði kannski notað þessa forláta mold fyrir pottaplöntu á skrifstofu sinni.

Í sama bréfi og þjóðminjavörður svarar fyrir starfsmann sinn Lilju Áradóttur, sem kemur ekki lengur upp orðum, vill þjóðminjavörður, Margrét Hallgrímsdóttir selja mér ljósmyndir af gripum sem eitt sinn voru týndir á Þjóðminjasafni Íslands. Fyrirspurn mín um myndirnar af týndum gripum er reyndar alls endis óskyld moldarsýnum frá Miðhúsum, en ég ritaði tilfallandi til þjóðminjavarðar um það sama dag og ég sendi fyrrgreint erindi til Lilju Árnadóttur um moldina frá Miðhúsum.

Ég greindi einnig nýlega frá sumu því sem horfið hefur og týnst á Þjóðminjasafninu (sjá hér og hér). Vandamálið er bara, að ég var alveg sérstaklega tekinn fyrir og spurður út í hvarf nokkurra innsiglishringa á Þjóðminjasafninu árið 1989. Ég vissi ekkert um þessa gripi og af hverju þeir höfðu týnst. Síðast kom í ljós að hringar þessi höfðu færst til í skáp og að menn höfðu ekki leitað nógu vel í skápnum áður en þeir höfðu samband við mig þar sem ég var í doktorsnámi á Englandi. Ekki var hóað í mig vegna hæfileika minna til að finna hluti og sjá, heldur vegna þess að verið var að þjófkenna mig.

Nú eru svo upplýsingar um endurfund týndu hringana glataðir og í ofanálag er moldin frá Miðhúsum horfin. Ég á að borga fullt verð fyrir ljósmyndir af gripum sem menn hafa greinilega glatað upplýsingum um á Þjóðminjasafni Íslands? Ég ætlaði að birta þær myndir hér á blogginu til að gera almenningi, sem borgar fyrir fornleifarannsóknir, innsýn í starfshætti Þjóðminjasafns Íslands hér áður fyrr.

Ætli séu yfirleitt til myndir af moldinni frá Miðhúsum? Maður þorir vart að spyrja, því í ljós gæti komið að þær væru líka týndar.

Hvarf gagna sem safnað er við fornleifarannsóknir varðar vitanlega við Þjóðminjalög og á því verður að taka. Ef rannsóknarefni ef vísvitandi kastað á glæ er um sakhæft atferli að ræða.

Axlar núverandi þjóðminjavörður virkilega ábyrgð á gerðum forvera sinna í starfi?

Núverandi þjóðminjavöður axlar í bréfi sínu til mín (sjá hér) ábyrgð á gerðum og orðum forvera sinna í starfi, sem og undirmanna sinna. Við það sýnist mér, að hugsanlega sé núverandi þjóðminjavörður líka farinn að týna sér. Vona ég að svo sé þó ekki, því hún ber enga ábyrgð á skussahætti fyrri tíma á Þjóðminjasafninu.

Án marktækra niðurstaðna á rannsóknum á silfursjóðnum frá Miðhúsum, og í ljósi þess að mikilvæg sýni eru horfin, er ljóst að enginn fótur er fyrir því sem ég var rekinn frá Þjóðminjasafninu fyrir hafa skoðun á og tjá mig um opinberlega. Ég vona að forsvarsmenn Þjóðminjasafns Íslands og þeir sem bera ábyrgð á því ævarandi atvinnubanni sem atvinnuskussinn Þór Magnússon setti mig í árið 1996, geri sér grein fyrir því að þið hafið framið glæp gangvart einstaklingi.

Myndin efst sýnir Kristján Eldjárn, Þór Magnússon (bograndi) og heimafólk á Miðhúsum á moldinni góðu. Myndin er úr frétt Sjónvarps frá 1980, af VHS spólu sem ég keypti af RÚV á sínum tíma, sem ég afhenti Menntamálaráðuneyti meðan rannsóknir fóru fram á silfursjóðnum á Miðhúsum 1994-95. Menntamálaráðuneytið getur núna ekki fundið spóluna. Vona ég að ráðuneytið gangi í það skjótt að fréttin verði send mér í nútímahorfi á DVD, fyrst gögn týnast líka í ráðuneytinu eins og á Þjóðminjasafninu. Hver veit kannski er fréttin nú líka týnd á RÚV?


Tvær frásagnir af finnskum fornleifafræðingi

Voionmaa 2

Jouko Voionmaa (1912-1991)

Fyrri sagan af Jouko Voionmaa

Einn þátttakenda leiðangurs fornleifafræðinganna frá Norðurlöndunum í Þjórsárdal og í Borgarfirði sumarið 1939 var ungur, finnskur fornleifafræðingur, Jouko Voionmaa að nafni. Það kom í hlut Voionmaas að rannsaka fornleifar á Lundi Lundareykjadal og þar sem heitir Stórhólshlíð í Þjórsárdal. 

Voionmaa var af fræðimannakyni kominn, sonur Väinö Voionmaa (1869-1947) sagnfræðiprófessors við háskólann í Helsinki, sem um tíma sat í ríkisstjórnum Finnlands fyrir sósíaldemókrata. Hann var í tvígang utanríkisráðherra Finnlands 1926-7 og í skamman tíma árið 1938. Móðir hans var Ilma Voionmaa.

Jouko Voionmaa tók árið 1937 þátt í norrænu fornleifafræðingaþingi í Danmörku, þar sem rannsóknirnar á Íslandi byrjuðu á gerjast. Þegar þær rannsóknir voru skipulagðar var ákveðið að hann tæki þátt í rannsóknunum fyrir hönd Finnlands. Þetta bréf ritaði hann Matthíasi Þórðarsyni þjóðminjaverði þann 6. júní 1939 og í lok ágústmánaðar sama ár þakkaði hann fyrir sig með nokkrum línum sem hann sendi frá Hótel Borg.

Að mínu mati var Jouko Voionmaa líklegast fyrsti fornleifafræðingurinn sem starfaði á Íslandi sem beitti nákvæmnisvinnubrögðum við fornleifarannsóknir. Voionmaa hélt dagbók yfir rannsóknir sínar á Íslandi árið 1939 eins og allir hinir stjórnendur uppgraftanna. Dagbók hans, sem hann merkti með finnska fánanum, og sem i dag er varðveitt í Helsinki, geymir ýmsar upplýsingar um að það gat verið örlítið lævi blandið andrúmsloft milli norrænu fornleifafræðinganna, að minnsta kosti í dagbókum þeirra.

Í bók Steffen Stummanns-Hansen um sögu fornleifarannsókanna í Þjórsárdal árið 1939, Islands Pompeji (2005), reynir höfundur í fremur langlokulegum köflum, að gefa mynd af því hvað hinir ýmsu þátttakendur hugsuðu. Þetta hefur ekki tekist sem skyldi, eins og margt annað í bók Stummann-Hansen. Höfundurinn hefur greinilega ekki skoðað eða haft aðgang að öllum tiltækum heimildum. Í bókinni er t.d. ekki getið dagbókar Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar, sem reyndar til er á Þjóðminjasafni Íslands (og sem ég á til í ljósriti). Hana hefur Stummann-Hansen að einhverjum ástæðum ekki fengið aðgang að er hann var að afla heimilda á Íslandi fyrir hálfmisheppnaða bók sína.

Dagbók Voionmaas

Dagbók Voionmaas frá rannsóknum hans á Íslandi.

Margir þátttakendanna í rannsóknunum árið 1939 voru vegna einhvers þjóðernisrembings - eða  minnimáttakenndar - með horn í síðu hvers annars, og sumir í garð Voionmaas, þar sem þeim þótti hann ekki kunna að grafa. Ef til vill var eitthvað baktjaldamakk í gangi. Voionmaa gróf hins vegar nákvæmlega eins og flestir fornleifafræðingar myndu gera í dag. Þeir sem voru af gamla skólanum, t.d. arkitektinn Aage Roussell, sem var frábær að mæla upp rústir/byggingar, sem var og eina áhugamál hans, eða Aage Stenberger frá Svíþjóð, létu aftur móti hjálpardrengi sína moka fjálglega upp úr tóftum þeim sem þeir stjórnuðu rannsóknum á.Matthías Þórðarson hafði lítið yfirlit yfir það sem hann var yfirleitt að gera og rannsókn hans var ekki vísindaleg. 

Það kom einnig fljótt í ljós að Aage Roussell hafði valið sér vænstu rústina, það er að segja rústina að Stöng. Aðrir en Roussell höfðu fúlsað við staðnum í upphafi. Ákveðin öfund kom í ljós hjá hinum þátttakendunum yfir „heppni" Roussells.

Dómharður Dani

Aage Roussell var ýkja dómharður um menn í bréfum sínum til vina sinna sem varðveist hafa. Hann sendi eftirfarandi baktal til kollega síns og mentors, Poul Nørlunds:

Þórðarson er forfærdelig flink, men ganske uninteresseret i saavel udgravningerne som vore personer, men der er intet samarbejde. Han ved det hele i forvejen, for han kan læse det i sagaerne. Han interresser sig heller ikke for at deltage i vore aftensamtaler, som særlig Stenberger elsker. Sidstnævnte herre virker meget nervøs og deprimeret og lader is slaa ned af den mindste modgang. Voionmaa er en flink gut, men gangske uden kendskab til bygningsarkæologi, hans opmaaling er et mareridt. Han er stenaldermand. Jeg er glad for den lille Eldjárn, som Stenberger misunder mig inderligt. ...".

Dagbók Matthíasar Þórðarsonar er að sama skapi upplýsandi, en einhvers konar minnimáttarkennd hans leiddi til einangrunar hans í verkefninu. Hann hafði áður verið orðinn tengiliður fyrir verkefni nasískra „fræðimanna" í Þýskalandi sem vildu rannsaka fornleifar á Íslandi, en sem ekkert varð úr.

Voionmaa, hins vegar, var maður að mínu skapi og beitti sömu aðferðum og ég hef notað í Þjórsárdal við rannsóknir mínar þar. Hann fann greinilega fyrir hnýtingum gömlu karlanna í sig, og skrifaði: 

„Satan, jeg gjorde fel den förste dagen. I. hade grävt fandens [finsk: perkele]mycket mera än jag. T. återvände redan klockan fem efter at ha funnit ett hus med fem rum. Min egen grävningsteknik have väckt uppmärksamhed bland turisterna och de bereättade att I. och jag använde olika metoder. Utan att säg ett ordgick I2 till sen egen plats och återkom därifrån tigande. Att jag själv åstadkommit såpass litet berodde också på att två män röjde bort björkbuskaget varför enast 2´grävde. Det är derfor klart at jeg i viss mån ger efter, emedan skiktgrävning är onödig i lager just från tiden före det sista utborttet. Det stämmer nog att man lika bra kan iakttage de olika skikgten i profilen, men det är tots det interessant att följa de olika skikten i plan, ty då kan man se hur huset har förandrat då väggarna strörtat umkull och taken brakat samman.  Man kunne skriva en hel artikel om S., så underlig och umöjlig är han. Kippelgren [orðaleikur Voionmaa og á hann við fyrrverandi þjóðminjavörð Finna, Hjalmar Appelgren-Kivalo] hade mere rätt i då han i Helsingfors talade om honom. En fullständig rövaslickare .. Min egen metod visade sig vara rigtig, ty genast under yttertorven fanns skiktet med Heklas utbrott 1793 og under det den hela väggen. ..."

Það er erfitt að átta sig á þessum árekstrum milli manna, og vita við hvern er átt þegar Voionmaa kallar t.d. einn af þátttakendunum landshöfðingjann og annan sósíalíska félagsmálaráðherrann. Þann síðastnefnda telur höfundur bókarinnar Islands Pompeji vera Kristján Eldjárn.

Það er þó ljóst að hinn ungi finnski fornleifafræðingur var enginn steinaldamaður. Hann gróf með tækni og aðferðum sem nútímafornleifafræðingar myndu flestir samþykkja. Líklegast átti Roussell við að Voionmaa græfi eins og fornleifafræðingar á hans tíma grófu upp steinaldaleifar. 

En þessi rembukeppni á milli fornleifafræðinganna á Íslandi árið 1939 hefur maður svo sem séð hjá síðari tíma fornleifafræðingum. Sumir fornleifafræðingar gera víst ekkert annað í frítíma sínum.

Lundur 3 litil

Voionmaa og samstarfsmenn hans rannsökuðu m.a. þessa rúst að Lundi í Lundareykjadal árið 1939.

Voionmaa fann líklega, þrátt fyrir aðferðafræðina sem fór í taugarnar á grófgerðari mönnum, besta fund sumarsins í Þjórsárdal. Í dalinn kom ung finnsk kona Liisa (Alice) Tanner, sem hélt upp á lokapróf sitt við háskólann í Helsinki með því að ferðast með vinkonu sinni alla leiðina til Íslands. Tveimur árum síðar kvæntist Jouko henni og þau eignuðu síðar saman sjö börn. En kannski varð það bara Liisa sem fann Jouko sinn - hver veit? Börn þeirra eignuðust fornleifafræðinga sem guðforeldra. Því er haldið fram í bókinni Islands Pompeji, að íslenskt fornleifafræðingapar hafi verið guðforeldrar barna Joukos og Liisu Voionmaa. Það hlýtur að byggja á einhverjum misskilningi, því á þessum tíma höfðu engir íslenskir fornleifafræðingar látið pússa sig saman. Eitthvað held ég að það sé orðum aukið eins og svo margt í bókinni Islands Pompeij.

Eftir síðara stríð var Voionmaa einn fremsti myntsérfræðingur Finna og vann sem yfirmaður myntsafna Þjóðminjasafns Finna og Háskólans í Helsinki. Hann skrifaði nokkrar mikilvægar bækur á því sviði. 

 

Síðari sagan af Jouko Voionmaa

Annar kafli í ævisögu þessa merka finnska fornleifafræðings, er sótti Ísland heim árið 1939, er minna þekktur en sá fyrri. Þekkja fróðir menn sem ég hef hitt og sem unnu með Voionmaa á Þjóðminjasafni Finna ekki einu sinni þá sögu. Það er saga Voionmaas í Síðari heimsstyrjöldinni, eða í Framhaldsstríðinu 1941-44, eins og Finnar kalla stríðið, því þeir háðu skömmu áður Vetrarstríðið við Sovétríkin eins og kunnugt er.

Þegar Jouko Voionmaa sneri aftur til Finnlands haustið 1939, var styrjöld skollin á í Evrópu og hann fór eins og flestir Finna ekki varkosta af því. Finnar þurftu að þola miklar hörmungar í Vetrarstríðinu svokallaða 1939-40. Voionmaa var kallaður í finnska flotann árið 1941. Þetta kemur meðal annars fram í þeim bréfaskrifum sem hann átti við Mårten Stenberger sem hafði fengið það hlutverk að smala saman niðurstöðunum úr rannsóknunum á Íslandi sumarið 1939. Niðurstöðurnar komu að lokum komu út í bókinni Forntida Gårdar i Island, (Munksgård; København 1943/ bókin var hins prentuð í Uppsölum í Svíþjóð).

Forntida Gårdar I Island 2

Forntida Gårdar i Island.

Heimildir sem Steffen Stummann-Hansen hefur birt í bók sinni Islands Pompeji sýna, að Voionmaa átti í erfiðleikum með að skila af sér og lesa próförk fyrir bókina um Íslandsverkefnið fyrr en um miðbik 1943, en þá fyrst lauk herþjónustu hans. Ekki er þó greint nánar frá þessari herþjónustu í bók Stummann-Hansens.

  OmakaitseTartu1941

Eistar flykktust undir fána Omakaitse-sveitanna, illræmdra vopnabræðra Þjóðverja, árið 1941. Myndin er tekin í Tartu.

EstonianNavyjoyningOmakaitseTartu1941

Myndin sýnir við nánari athugun, að undirforingjar í eistneska flotanum gengu í raðir Omakaitse-sveita, heimavarnarliðsins, sem einnig hjálpaði dyggilega til við að framfylgja Helförinni í Eistlandi.

Starf Juoko Voionmaas í finnska flotanum, Merivoimat, sem útsendur undirforingi, var að vera sendifulltrúi Finnska flotans hjá Þýska flotanum í Tallinn, Marinebefehlshaber Ostland.

Hann skrifar ekki mikið um starf sitt í bréfi til Mårten Stenbergers dags.12 maí 1943:

„Ett halvt år var jag som förbindelsesofficer vid den tyska staben i Reval, blev tillbakakommenderad efter nögonslags gräl me tyskarna på grund af deras inbillade anklagelser för politisk arbete. I själve verket vill tyskarna att så få människor som möjligt se deras regim i Estland, som annos står oss nära. Allt hvad Finland angår: finsk historia och kultur ända till små saker. Mannerheims bilder o.s.v., äro där forbjudna, efter varje finne går SS-män, våra samtal och sällskap åhöras. Undan totala mobilisationen fly hundratals ester över viken till Finland, alla vilja kämpa mot bol^vismn [sic í Islands Pompeij] men ej för Tyskland. Estland som gått igenom bol^svistisk [sic í bókinni Islands Pompeij] terror väntar och får ej någonting bättre av tyskarna. ... Och nu är jag "under damm" och sammlar historik över krigshändelser i våra Sjöstridskrafter." ....(Bréfið er að finna á Antikvariks-Topografiska Arkivet väd Riksantikvarieämbetet í Stokkhólmi og er hér ritað af eftir rithætti í bókinni Islands Pompeji).

Varð Voionmaa vitni að Helförinni?

Í október 1947, frammi fyrir rannsóknarnefnd, sem stofnuð var til að rannsaka mál landráðamanna og samverkamanna nasista í Finnlandi eftir stríð, sagði gyðingurinn og þingmaðurinn Santeri (Alexander) Jakobsson frá því, að faðir Jouko Voinomaas, Väinö, sem lést árið 1947, hefði greint sér frá því að Voinmaa hefði með Gestapomönnum og finnskum lögregluforingjum séð fjöldagrafir gyðinga í Eistlandi. Sjá nánar hér í bók Hannu Rautkallios (1988) um það sem Jakobsson hafði eftir Väinö Voionmaa.

Juoko Voionmaa var kallaður fyrir rannsóknarnefnd þann 20. október 1947, og neitaði alfarið frásögn Jakobsson og sagði hana byggja á misskilningi. Jouko Vioonmaa sagðist hins vegar hefði verið í boðinu í foringjaklúbbnum á Domberg í Tallinn sem Jakobsson hafði sagt frá, en að hann hefði ekki farið með hinum í yfirmannaboðinu, þ.e. Arno Anthoni yfirmanni finnsku Ríkislögreglunnar, VALPO, og SS Standartenführer og yfimanni Einsatzkommando 1a of Einsatzgruppe Martin Sandberger til að sjá gyðingagrafir. Móðir Juokos, Ilma, var þá einnig kölluð fyrir rannsóknarnefndina árið 1948 (22. október), og var tekin gild frásögn hennar um að maður hennar, prófessor Väinö Voionmaas, hefði jafnan sagt sér allt að létt úr starfi sínu en að hann hefði aldrei sagt sér það sem Santeri Jakbosson hafði greint frá og talið sig heyra Jouko segja frá upplifelsi sínu í Eistlandi.

Santeri Jakobsson var ekki kallaður frekar til yfirheyrslna og þar við sat. Það forðaði Jouko honum örugglega frá frá vandræðum því málið var hið óþægilegasta fyrir sósíaldemókrata. Hvaða nálægð og samvinna sem einhver maður hafði haft við við Þjóðverja í stríðinu var slæmt mál fyrir hann, sér í lagi rétt eftir stríðið, þegar VALPO hafði fengið nýja stjórnendur sem ekki voru lengur samverkamenn nasistaböðla heldur trúir hinum ysta vinstri væng stjórnmálanna.

Ekki dreg ég frásögn Jouko Voionmaas fyrir rannsóknarnefndinni í efa, enda engar heimildir til sem geta leyft mér það, en furðulegt þykir mér þó samt misminni Jakobssons og sú aðferð rannsóknarnefndarinnar finnsku að spyrja ekkju Vainö Voinmaa, Ilmu, um sannleiksgildi lýsinga Jakobssons, sem Jakobsson hafði að sögn eftir Vainö Voionmaa.

Þær nafngreindu persónur, þýskar sem eistneskar, sem Jouko þurfti á einn eða annan hátt að umgangast í embætti sínu í Eistlandi, báru hins vegar sannanlega ábyrgð á fjöldamorðum og útrýmingu gyðinga í Eistlandi og Finnlandi. Þeir fengu aldrei þau maklegu málagjöld sem menn höfðu vænst. Ættingi eins fórnarlamba lögregluforingjans Arno Anthonis vildi ekki mæla með dauðadómi yfir Anthoni, og dauðadómur yfir Martin Sandberger var felldur úr gildi í Vestur-Þýskalandi og hann dó sem vel efnaður öldungur á lúxuselliheimili í Stuttgart árið 2010. Hann hló að fórnarlömbum sínum alla leið í gröfina. Hér má lesa frásögn af viðtali sem tekið var við hann árið 2010.

sandberger og anthoni

Arno Anthoni (annar frá vinstri í fremstu röð) og Martin Sandberger (þriðji frá vinstri) voru menn sem fornleifafræðingurinn Voinmaa neyddist til að umgangast er hann gegndi þjónustu fyrir land sitt í Finnska flotanum.

Enginn vildi hafa verið í sporum Voionmaas í Eistlandi, en mikið hefði verið gott fyrir síðari tíma og skilning manna á stríðinu hefði hann sagt umheiminum aðeins meira frá störfum sínum í Eistlandi þessi örlagaríku ár 1941-43 og frá því hvernig hann umgekkst fjöldamorðingja.

Helförin i Finnlandi 

Í Finnlandi fóru rannsóknir þegar í gang á því í hve miklum mæli finnska Ríkislögreglan VALPO hafði samvinnu við að koma gyðingum og öðrum frá Finnlandi fyrir kattarnef með samvinnu við útrýmingarsveitir (Einsatzgruppen) Þjóðverja í Baltnesku löndunum. Til Finnlands höfðu 500 gyðingar flúið fyrir stríð. Mörgum tókst að flýja áfram í einhvers konar frelsi en aðrir hrökkluðust aftur til landa þar sem þeir voru í hættu. Fjjöldi gyðinga faldi sig einnig í skógum Lapplands. Nýlega hefur finnski sagnfræðingurinn Oula Silvennoinen sýnt fram á, að þýskar Einsatzgruppen hafi einnig starfað í Finnlandi til að leita uppi kommúnista og gyðinga.

Fljótlega eftir stríð var sýnt fram á að yfirmaður ríkislögreglunnar/VALPO, Arno Antoni, hafði mikið og náið samband við morðapparat Þjóðverja og eistneskra aðstoðarmenn þeirra. Hann hafði sýnt einbeittan vilja til að aðstoða Þjóðverja við að útrýma gyðingum í Finnlandi.

Átta flóttamenn af gyðingaættum höfðu meðal annarra verið sendir þangað frá Finnlandi af finnsku lögreglunni og síðar til Auschwitz. Til samanburðar má nefna, að ég uppgötvaði að líkt ástand hafði ríkt í samstarfi ríkislögreglunnar og annarra yfirvalda í Danmörku við þýska innrásarliðið og greindi ég frá samstarfinu í bók minni Medaljens Bagside (2005). Danskir embættismenn í tveimur ráðuneytum og í ríkislögreglunni báru ábirgð á morðunum á ríkisfangslausum gyðingum, sem Danir vildu ólmir senda til Þýskalands eða Póllands. En Danir héldu því leyndu, meðan Finnar tóku strax á málunum. 

Meðal þeirra gyðinga sem Danir vísuðu úr landi fyrir stríð og áður en Danmörk var hersetin af Þjóðverjum var Hans Eduard Szybilski, þýskur gyðingur, kventískufatasölumaður, sem reynt hafði að setjast að í Svíþjóð árið 1936. Honum var vísað úr landi í Svíþjóð árið 1938 og sama ár frá Danmörku. sem síðar var sendur til Eistlands af finnskum yfirvöldum. Þar var hann dæmdur til dauða og ásamt hinum gyðingunum sem fangaðir voru af VALPO sendur til Auschwitz-Birkenau, þar sem hann var skotinn til bana við flóttatilraun (ég ritaði lítillega um Szybilski í bók minni).

Finnska lögreglan hitti Evald Mikson 

Finnskur lögreglumaður, Olavi Vieherluoto, sem vitnaði gegn yfirboðurum sínum árið 1945, lýsti m.a. fundi sínum með eistneska lögreglumanninum Evald Mikson í október 1941, sem greindi frá því hvernig Mikson hafði myrt gyðinga. Viherlouto upplýsti:

"Because I did not see a single Jew in Tallinn, I asked the gentlemen of the Sicherheitspolizei, where all the Jews had vanished from Tallinn. They told me, that the Jews are allowed to sojourn only in the inland, 15 kilometers from the coast. When I had heard from my Estonian guide, that the Jews had been placed in concentration camps, I asked the matter also from a couple of officials of the political police, a.o. from Mikson. They explained that there were practically no Jews in Estonia any more. Only a group of younger Jewish women and children is closed in a concentration camp situated in Arkna. All the male Jews have been shot. After the conquest of Tartu 2600 Jews and communists were shot. In Tartu a great number of even very small Jewish children starved to death.

A couple of days before my return to Finland Mikson told me that the next day they would bring several tens of elderly Jewish women to the central prison on Tallinn and another official who was there, said that they will be given "sweet food". Both of them explained that such Jewish old women had nothing to do in the world any more. They did not tell me more precisely what they meant by "sweed food", but I think that those Jews were shot a couple of days later. Mikson namely told me that on the same morning when I last time visited the central prison, they had taken 80 Jews on trucks to the woods, made them to kneal on the edge of a pit and shot them from back." (Sjá m.a. Silvennoinen 2010).

Mikson þekkja Íslendingar vitaskuld best sem Eðvald Hinriksson (1911-1993), nuddarann sem lést á Íslandi eftir að íslensk yfirvöld höfðu, í dágóðri samvinnu við eistnesk yfirvöldum, dregið að rannsaka ásakanir á hendur honum um stríðsglæpi. Hann fór eins og margir aðrir böðlar í baltnesku löndunum hlæjandi að fórnarlömbum sínum yfir móðuna miklu.

KGB vildi vita meira 

Þess má geta, að sonur Joukos, Kaarlo Voionmaa, sem starfar sem málvísindamaður við háskólann í Gautaborg, hefur upplýst mig, að er faðir sinn hafi eitt sinn verið staddur í Sovétríkjunum sálugu á 7. áratug síðustu aldar, líklegast á einhverri ráðstefnu, þá mun KGB hafa tekið hann afsíðis og yfirheyrt hann um þann tíma sem hann þjónaði í finnska flotanum í Eistlandi. Kaarlo Voionmaa og systkini hans vita því miður ekki meira um þá yfirheyrslu, eða hvað faðir þeirra upplifði meðan hann dvaldi sem flotafulltrúi í Tallinn á stríðsárunum. Sum þeirra vilja reyndar ekki ræða málið. Nýlega minntust börn Joukos Voionmaas100 ára árstíðar hans. Sjá hér.

Gaman hefði verið að fá aðgang að gögnum KGB um Voionmaa ef einhver eru. Það yrði líklega það sem menn kalla Mission impossible, því þrotabú Sovétríkjanna er svo spillt, að maður þarf að vera milljónamæringur til að fá að ganga að slíkum gögnum, það er að segja ef leiðtoginn í Kreml leyfir slíkt, en Pútin sleit eins og allir vita ballettskónum í KGB. Líklegt er þó að Voionmaa hafi sýnt Rússum þegjandi þögnina og að "mappan" hans sé tóm. En kannski...

Þakkir

færi ég Kaarlo Voionmaa málvísindamanni í Göteborg, sem er áhugaverður bloggari og persónuleiki, og sonur Jouko Voionmaas, sem og til Oula Silvoinainens prófessors í Helsinki fyrir veittar upplýsingar og hjálp.

Ítarefni:

Rautkallio, Hannu 1988. Finland and the Holocaust: The Rescue of Finland's Jews. (Holocaust Library, New York. 

Silvennoinen, Oula 2010. Geheime Waffenbruderschaft: Die sicherheitspolizeiliche Zusammenarbeit zwischen Finnland und Deutschland 1933-1944. Wissenschaftliche Buchgesellschaft, Darmstadt.

Stummann Hansen, Steffen 2005. Islands Pompeji; Den Fællesskandinaviske Arkæologiske Ekspedition til Þjórsárdalur i 1939, [PNM Publication from the National Museum, Studies in Archaeology & History Vol. 11,] Copenhagen. 

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 2005. Medaljens Bagside; Jødiske Flygtningeskæbner i Danmark 1933-1945. Vandkunsten 2005. (Finnið hana á Gegni).

Weiss-Wendt, Anton 2009. Murder without Hatred; Estonians and the Holocaust. Syracuse University Press.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband