Bloggfærslur mánaðarins, júní 2016
Ísland í töfralampanum: 10. hluti
21.6.2016 | 12:19
Jæja ágætu gestir, nú er komið að síðasta hluta skuggamyndasýningar Fornleifs. Síðasta myndin af þeim sem Fornleifur keypti á Cornwall fyrr í ár verður sýnd og reifuð í dag.
Við vitum hvaða dag hún var tekin, hvar hún var tekin og hverjir tóku ljósmyndina - og við vitum sömuleiðis að þeir tóku tvær myndir af sama atburðinum. Þar fyrir utan vitum við hver framleiddi skuggamyndina.
En það er líka mikinn annan fróðleik af finna í þessari mynd. Hún er t.d. merkilegt fyrir mig, sem á að hluta til ættir að rekja í Kjósina og sýnir hvernig fólk, sem ég er ekki kominn af, var sumt vel í álnum í Kjósinni á 19. öldunni, og lék sér þar á eins konar þjóðbúningatískusýningum meðan fátæklingarnir á landinu þurftu að flýja til Reykjavíkur eða Vesturheims. Myndin sýnir vel eina af dellunum sem Íslendingar fengu á þeim öldum sem þeir voru mest hrjáðir. Þeir fóru að hanna sér þjóðbúninga. Skrýtinn veruleikaflótti það. Körlum þykir nú alltaf gott að konan sé sæt og góð, þó svo að illa áraði. Mín tilgáta er sú að konur gefist einnig síður upp en menn í hörmungum og harðæri. En venjulega voru það karlar sem stóðu fyrir hönnun á kvenbúningnum.
Reynivellir í Kjós, 11. júní 1882
Þann 11. júní 1882 var enn Kristni í landinu og því fermt í kirkjunni að Reynivöllum í Kjós. Svo vel vildi til að tveir erlendir ferðalangar voru boðnir til kirkju. Þetta voru þeir Maitland James Burnett og Walter H. Trevelyan, efnamenn sem stunduðu stangaveiðar á Íslandi og ljósmynduðu þess á milli fólk og fyrirbæri (sjá hér ef þið hafið þegar gleymt, eða lesið hina ágætu bók Ponzis frá 1995 Ísland fyrir Aldamót).
Skuggamyndin hér að ofan var líklega tekin þegar fólk kom úr kirkju og stillti sér upp vestan og suðvestan við kirkjuna til að láta útlendingana eilífa sig.
Teknar voru tvær myndir
Þegar skuggamynd númer 38 í syrpu Riley Bræðra í Bradford í Jórvíkurskíri var keypt af forngripasala fyrr á þessu ári, varð fljótlega ljóst að hún hafði verið framleidd af fyrirtækinu fljótlega eftir að hún var tekin árið 1882. Í sölulistum Riley Brothers var hún kölluð Coming from Church. Líklegast er að Burnett og Trevelyan hafa útvegað myndir sínar til þessarar framleiðslu, eða að Sigfús Eymundsson hafi framkallað myndir fyrir þá félaga, en síðan sjálfur séð um að setja mynd þeirra til framleiðslu í skuggamyndaröðunum sem hann lét útbúa með Þorvaldi Ó. Johnson (sjá hér). Enn annar möguleiki er vissulega sá að Sigfús hafi tekið myndirnar fyrir Burnett og Trevelyan að Reynivöllum, en um slíkt samtarf vitum við aftur á móti ekkert.
Við nánari samanburð á mynd Burnetts og Trevelyans frá fermingunni við mynd 38 í syrpu Riley Bræðra kemur í ljós að alls ekki er um sömu mynd að ræða, þó hún sé tekin af sama ljósmyndara og sama dag.
Þetta sést á ýmsu, en greinilegast þegar maður beinir sjónum að konunum fyrir framan kirkjuna við heysátuna fremst í myndinni. Þær eru allar á iði. Þegar myndin, sem birt er í bók Frank Ponzis er tekin stendur ung kona í dyrgættinni á kirkjunni. Á myndinni sem hefur verið notuð í skyggnu númer 38 er hún horfin úr gáttinni. Þess vegna má álykta að teknar hafi verið tvær glerplötur af fólkinu sem kom frá kirkju þann 11. júní 1882.
Tískusýning eftir messu
Konurnar á myndunum frá Reynivöllum eru mesta prýði myndanna. Flestir karlanna sjást ekki á skuggamyndinni, því þeir standa vestar en myndin nær, þar sem hún hefur verið klippt skorin til að passa á glerið í skuggamyndunum sem var 8,2 x 8,2 sm að stærð meðan að glerplöturnar voru ferhyrndar og lengri á einn veginn en hinn eins og gjarnt er um ferhyrninga.
Í frekar svölum júnímánuði árið 1881 sveipuðu konur sig með innfluttum skoskum teppum eða stórum sjölum sem Bretar kalla rugs eða scarves þegar þau voru minni, en Danir kalla þessi teppi plaide eftir mynstrinu sem er áþekkt því sem ofið tartan-vaðmál skotapilsa hefur. Teppi þessi voru kölluð sjöl á Íslandi og seldust mikið á 9. og 10. áratug 19. aldar.
Mjög athyglisvert er að skoða búninga kvennanna sem höfðu verið við guðsþjónustuna. Þær eru flestar klæddar í skautbúninga hannaða af Sigurði Guðmundssyni málara á árunnum 1858-60. Fjórar kvennanna eru hins vegar í 19. aldar faldbúningi með spaðafald og traf. Enn enn aðrar í upphlut eða peysufötum. Ein kvennanna í skautbúningi og ber skikkju eða slá bryddaða með hvítu skinni. Aðrar frúr bera ofin, köflótt teppi yfir herðarnar, líklega innflutt. Það var mjög kalt í veðri árið 1881-1882 samkvæmt heimildum, en ljóst er að konur í sveitum áttu enn ekki almennilegar kápur á þessum tíma líkt og karlar. Tvær konur eru hins vegar með með hekluð sjöl. Ein kvennanna lítur út fyrir að vera í kyrtli við skautið. Kyrtilinn hannaði Sigurður málari um 1870. Konan í kirtlinum er hugsanlega dóttir síra Þorkels Bjarnsonar á Reynivöllum. Hún eða systir hennar er í þessum kirtli á annarri ljósmynd þeirra Burnetts og Trevelyans sem er birt í hinni góðu bók Frank Ponzis Ísland fyrir Aldamót (1995).
Engin kvennanna er sjáanlega með garðahúfu/kjólhúfu (sjá hér). Slík húfa sést á mynd 13 í myndaröð Riley Bræðra frá Ísland. Hins vegar var einnig til mynd af konu í hátíðarbúningi, Woman in Holiday Dress, sem líklegast var skautbúningur. Sú mynd var númer 37 samkvæmt auglýsingum Riley Bræðra. Gæti hugsast að það hafi verið mynd af af prestsfrúnni að Reynivöllum, þar sem hún stóð ein við borð fyrir utan íbúðarhúsið að Reynivöllum (sjá mynd 95 í Ísland fyrir Aldamót).
Prestar og karlar
Karlarnir virðast miklu færri en kvenpeningurinn í kirkju þennan daginn. Kannski hafa þeir ekki haft eins mikla þörf á því að eilífast á ljósmynd og konurnar, og eigi eru þeir nú beint glæsilegir, karlarnir í Kjósinni
Mikið ber á að karlarnir séu með bowlerhatta sem hafa væntanlega komið í kaupstað frá Bretlandseyjum með teppunum sem konurnar keyptu sér sem sjöl. Greinilegt var að bresk eða réttara sagt skosk sveitatíska var að ryðja sér til rúms á Íslandi.
Burnett og Trevelyan komu oft við á Reynivöllum og voru vel kunnugir endurreisnarprestinum og Alþingismanninum Þorkatli Bjarnasyni (1839-1902) sem þar bjó með fjölskyldu sinni. Burnett kom einnig sumarið 1886 að Trevelyan látnum og ljósmyndaði fjölskyldu prestsins í bak of fyrir. Prestsfrúin, Sigríður Þorkelsdóttir (1835-1912), átti þessi forláta sólgleraugu sem gjörsamlega skáka augnbúnaði Fornleifs.
Látum þetta ágæta fólk setja punktinn að sinni og ef menn vilja fræðast meira um Reynivelli á 19. öld, þá er ágætt að horfa á þessa litlu fræðslumynd og stórmerku um Reynivelli i Kjós byggða á ljósmynd Sigfúsar Eymundssonar af bænum. Það er Inga Lára Baldvinsdóttir forstöðumaður myndasafns Þjóðminjasafns Íslands sem segir frá. Síðan ættu menn að lesa bók Frank Ponzis Ísland fyrir Aldamót (1995). Þannig geta þeir fengið sér góða sýnisferð aftur á 19. öld.
Myndin er úr bókinni Ísland fyrir Aldamót eftir Frank heitin Ponzi. Ljósmynd Maitland James Burnett 1886.
Þakkir:
Þakkir færi ég vinum mínum sagnfræðingunum Kristjáni Sveinssyni, mag.art. og Einari Jónssyni úr Skógum, sem einnig er löglærður. Þeir eru báðir fyrrverandi sveitadrengir með annan fótinn á 19. öldinni. Ég þakka þeim viðræður og upplýsingar um myndirnar; Sér í lagi Einari Jónssyni fyrir að greina mér frá myndum Burnetts og Trevelyans frá Reynivöllum í Kjós í hinni góðu bók Frank Ponzis Ísland fyrir Aldamót. Þó að faðir minn hafi útvegað eina mynd í bókina entist honum ekki aldur til að sjá bókina útgefna, en ég náði loks í eintak hjá ágætum fornbókasala á Selfossi sem tók sér ríflega greiðslu fyrir hana, enda bókin orðin afar sjaldséð. Vonandi vill einhver standa í því að gefa hana aftur út.
Ísland í töfralampanum 1. hluti
Ísland í töfralampanum 2. hluti
Ísland í töfralampanum 3. hluti
Ísland í töfralampanum 4. hluti
Ísland í töfralampanum 5. hluti
Ísland í töfralampanum 6. hluti
Ísland í töfralampanum 7. hluti
Ísland í töfralampanum 8. hluti
Ísland í töfralampanum 9. hluti
Þú varst að enda við að lesa Ísland í töfralampanum 10. hluta
Titlar ljósmynda í syrpu Riley Bræðra frá Íslandi. Myndir með bláum bakgrunni hafa fundist, hinar ekki.
Ljósmyndafornleifafræði | Breytt 14.5.2021 kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ísland var fyrirmynd Indónesa, en þeir voru myrtir
17.6.2016 | 11:20
Fyrir tveimur árum síðan rakst ég á ljósmynd sem sýndi svart á hvítu, að indónesískir kommúnistar í Súrabaya (höfuðborg Austur-Jövu) litu vonaraugum til friðsamlegra sambandslita Íslendinga árið 1944 í frelsisbaráttu sinni gegn nýlendustjórn Hollendinga.
Árið 1947 settu þeir upp veggspjald í borginni, þar sem þeir skýrðu á einfaldan hátt fyrir almenningi, hvað hafði gerst á Íslandi og hvernig menn gætu tekið sér það til fyrirmyndar. Árið 1949, eftir blóðuga bardaga við Hollendinga, var lýst yfir sjálfstæði Indónesíu - sem ávallt síðan hefur verið mjög valt og byggir fyrst á fremst á ógnarstjórn hers, heimstrúarbragðanna Íslam og ekki síst 200% spillingu og tvískinnungi valdastéttarinnar.
Það er ekki oft sem menn taka sér Ísland til fyrirmyndar. Manni hlýnar um hjartarætur á sjálfan 17. júní að frétta slíkt, og að kommúnistar hafi talað um Ísland í Indónesíu í stað þess að vitna í blóðuga byltingu eins og bókstafurinn gerir ráð fyrir.
Kommúnistaflokkur Indónesíu (PKI) var eitt sinn þriðji stærsti kommúnistaflokkur í heimi. Indónesískir íslamistar og innfædda valdastéttin í landinu litu PKI illum augum, því völd þeirra voru í hættu ef PKI fékk meiru að ráða. PKI var lengi í samstarfi við þjóðernisflokk Sukarnos. En svo kom að trúarofstækisflokkar náðu völdum í Indónesíu með hjálp rotinna afla í hernum. Árið 1965 hófust útrýmingar á kommúnistum og sósíalistum í Indónesíu undir stjórn einræðisherrans Suhartos, brjálæðings í herbúningi.
Að minnsta kosti 500.000 manna voru myrtar í útrýmingunum og það voru ekki bara kommúnistar sem urðu fyrir barðinu á herjum öfgastjórnarinnar. Fjöldi fólks, sem ekki hafði tilheyrt kommúnistaflokknum, var myrtur. Nóg var sums staðar fyrir fólk að benda á nágranna sinni sem þeim líkaði ekki við til að fá þá drepna.
Aðgerðirnar gegn kommúnistum voru vitaskuld studdar af helsta kommúnistabana heimsins, Bandaríkjunum. En árið 1995 þegar Bandaríkjastjórn var loks ljóst hvað þeir höfðu stutt, lýsti CIA þessu yfir í skýrslu:
"In terms of the numbers killed the anti-PKI massacres in Indonesia rank as one of the worst mass murders of the 20th century...".
Bandaríkin gerðu sér mjög seint grein fyrir því hve hættulegt afl Íslam er í höndum valdastétta í íslömskum löndum. Þess vegna er stórveldið ennþá að elta ólar við Rússa, eins og að þeir séu enn vondir kommúnistar í köldu stríð, en hafa vegna vanþekkingar ættarbjána og fávita sem vinna í State Department (Utanríkisþjónustunni) oft á tíðum aðstoðað þá öfgamenn í íslömskum ríkjum sem eru heimsfriðinum þyngstur fjötur um fót um þessar mundir.
Enn er fólk ofsótt með "kommúnistastimplinum" í Indónesíu, t.d. ef það tekur upp á því að gagnrýna eitt eða annað. Meðan Íslam er hið spillta afl landsins, sem hefur töglin og hagldirnar í herjum þessa stóra ríkis, verður ekki tekið heils hugar á fjöldamorðunum á 7. áratug 20. aldar. Morðin halda áfram. Kristnir eru ofsóttir, og hafa verið hálshöggnir af trylltum lýð sem ræðst á kirkjur og kristna. Íslam viðurkennir ekki mistök sín, þó svo að CIA hafi gert það. Því miður gera ekki allir Indónesar sér grein fyrir því að Íslam er vandinn en ekki CIA, sem því gerði öfgatrúarbrögð að meginafli þessa fjölmenna ríkis.
Eina samkunduhús gyðinga Djakarta sem eftir stóð var eyðilagt árið 2009 og samkunduhúsið í Surabaya var eyðilagt árið 2013. Síðustu gyðingarnir sem ættaðir voru frá Baghdad flýðu daginn eftir og búa nú í Ísrael. Nú, líkt og oft áður, eru kristnir ofsóttir og eins og í kommúnistahreinsununum 1965-68 eru það öfgamúslímar sem ráða ferðinni. ISIS hefur í sínum röðum liðsmenn frá Indónesíu og frekar stóran stuðningshóp í landinu sjálfu. Maðurinn með sveðjuna er Dayaki á þeim hluta Borneó sem tilheyrir Indonesíu. Hann heldur a afhöggnu höfði barns sem líklega er einnig múslími, og tilheyrði þjóðflokki Madúra sem fluttir voru til Borneó frá eyjunni Madúru. Líkt og múslímar berast á banaspjót í Miðausturlöndum eða í Reykjavík er heldur ekki friður meðal þeirra á Borneó.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ísland í töfralampanum: 9. hluti
15.6.2016 | 18:50
Enginn landkynning um Ísland er fullkomin nema að frægasta fjall landsins, Hekla, sé haft með. "Edjafjolladjokel" er kannski orðið frægara í dag, en Hekla var sögufrægt fjall úti í hinum stóra heimi þegar á síðari hluta miðalda, og var með frægari fjöllum hins þekkta heims.
Sumir fræðimenn, t.d. Sigurður Þórarinsson, vildu jafnvel halda því fram að Hekla hefði þegar verið nefnt í kvæðum á fyrsta hluta 12. aldar. Svo var þó ekki. Sigurður hafði ekki fyrir því sjálfur að finna þetta ljóð, sem þá hafði nýlega gosið hvítri gjósku í byrjun 12. aldar (ntt árið 1104). En Hekla er ekki nefnd á nafn i þessum ljóði munks sem hét Benedeit. Askan er sögð svört og fjallið er við ströndina. Samt taldi Sigurður að höfundurinn væri að lýsa Heklu. Höfundurinn hefur þó hugsanlega heyrt um eldsumbrot á Íslandi, en það þarf alls ekki að vera Hekla sem þar kom við sögu. Furðulegt fræðimennska, en tímans tákn þegar Sigurður var upp á sitt besta.
Líklega var það vafasamur heiður fjallsins síðar, þar sem fjallið var kynnt til sögunnar sem inngangur að helvíti, sem hélt Heklu á frægðartindinum meðal fjalla. Djöfullinn var svo mikilvægur fyrir kaþólikka, líkt og múslíma, að stundum var erfitt sjá hvort það var Kristur eða Djöfullinn sem var dýrkaður í þessum fjölmennustu höfuðtrúarbrögðum mannkynsins.
Með þessa djöfullegu tenginu Heklu var ekki komist hjá því að hafa Heklu með í fyrstu landkynningaskuggamyndunum sem sýndu Ísland í jafndjöfullegu apparati og Laterna Magica var. Páfastóll var svo hræddur við töframpan á 17. öld að til tals kom að banna þetta djöflatæki.
Ljósmyndin efst er með í syrpu Riley Bræðra í Bradford sem kom út um miðbik 9. áratugar 19. aldar. Þar er fjallið nefnt til sögunnar sem "Mount Heckla", bæði í auglýsingum og á miðanum sem límdur hefur verið á kant myndarinnar, Myndin er númer 34 í Íslandssyrpu Riley Bræðra. Ljósmyndari myndarinnar er ekki þekktur. Myndin sem er heldur dökk og drungaleg er ekki þekkt meðal mynda Sigfúsar Eymundssonar.
Önnur skuggamynd af Heklu í heilmiklum ævintýraljóma var einnig þekkt í skuggamyndasýningum 19. aldar eins og áður hefur verið greint frá. Þessi ævintýramynd er í raun miklu betri til að lýsa "Heklu" þeirri sem Sigurður Þórarinsson taldi víst að minnst væri á í ljóði Benedeits munks, Navigationes sancti Brendani, sem er frá fyrsta fjórðungi 12. aldar. Hekla er þó hvergi nefnd í ljóðinu. Sigurður taldi einnig að Heklu væri óbeint lýst í Liber Miraculorum eftir Herbert af Clairvaux, sem er frá síðasta fjórðungi 12. aldar, n.t.t. í kafla sem kallast "De inferno Hyslandie", þar sem kemur fram að hraun eldfjallsins hafi runnið í sjó fram. Menn voru enn að vitna í þessi 12. alda rit á 19. öld, þegar þau voru gefin út á prenti í fræðilegum útgáfum.
S. EYMUNDSON MED EINKARJETTI
Fornleifur keypti aðra Heklumynd, sem er úr syrpu E.G. Wood frá því um 1890 eða skömmu síðar. Hún er öllu betri að gæðum en myndin efst úr syrpu Riley Bræðra, þótt sú mynd sé samt mjög áhrifamikil og full af dularfullum drunga.
Myndin í syrpu E.G. Wood var tekin af Sigfúsi Eymundssyni. Maður er ekki í vafa um það, því hann merkir hana sér með þessari áletrun:
Mynd þessi er til á Þjóðminjasafni Íslands á skyggnu og var hún þar til nýlega eignuð Árna G. Eylands og sögð vera frá 1920-30 (sjá hér)- sem er vitaskuld stórfurðuleg þegar Sigfús upplýsti menn að hann hefði tekið hana og var meira að segja fyrstur manna til að sýna einkaréttsyfirlýsingu á Íslandi á ljósmynd. Villan hefur nú verið leiðrétt af Þjóðminjasafni Íslands. Myndin var einnig notuð til að sýna eldgos í Heklu árið 1847 á póstkorti. Kortið var prentð á fyrri hluta 20. aldar. Á þessu póstorti er nú einum of langt gengið í fölsun á upphafsrétti Sigfúsar Eymundarsonar og myndefninu sjálfu. Gosstrókur var tildæmis málaður inn á mynd Sigfúsar.
En hver hefur einkarétt á Heklu, nema hún sjálf? Hún gýs þegar hún þarf, en vissulega helst þegar helvíti þarf að ná sér í kaþólikka og aðra djöflatrúarmenn. Svo af nógu er að taka. Það er því ljóst að Hekla mun lengi enn hafa nægan brennivið.
Ísland í töfralampanum 1. hluti
Ísland í töfralampanum 2. hluti
Ísland í töfralampanum 3. hluti
Ísland í töfralampanum 4. hluti
Ísland í töfralampanum 5. hluti
Ísland í töfralampanum 6. hluti
Ísland í töfralampanum 7. hluti
Ísland í töfralampanum 8. hluti
Ljósmyndafornleifafræði | Breytt 14.5.2021 kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ný skilti morðingjum og Íslandi til heiðurs
13.6.2016 | 12:00
Síðla veturs 2016 gerðu Litháar vel við sinn mann á Íslandi, Jón Baldvin Hannibalsson. Þeir klíndu á hann heiðursdoktorsnafnbót. Jón er örugglega vel að titlinum kominn og ég er þegar farinn að kalla hann dr. Jón þegar á hann er minnst og leiðrétti alla þá sem bara kalla hann Jón Baldvin.
Jón fékk hins vegar ekki götu í Vilníus, höfuðstað Litháens, með nafni sínu í þetta sinn, en á það örugglega eftir. Honum hlotnast ugglaust sá heiður fyrir dyggan stuðning við stjórnir lands sem hyllir Litháa sem þjóðhetjur þó þeir hafi stundað gyðingamorð, jafnvel áður en Þjóðverjar hertóku landið.
Jóns gata Hannibalssonar gæti þó hæglega verið í bígerð vegna mikils stuðning Dr. Jóns við ungar menntastúlkur á "gáfumannapöbbum" Eystrasaltslandanna (sjá meira hér). Fyrir slíka þróunaraðstoð væri ugglaust við hæfi að setja Dr. Jónsgötu við eitthvað strætið þar sem stóískar ballettdansmær meðal ungra menntakvenna Lithaugalands sýna kunnáttu sína og aðrar kokhraustar málvísindakonur stunda rannsóknir sínar á rugluðum körlum norðan úr ballarhafi, sem eru svo vanskapaðir að þeir telja sig vera geithafra fyrir neðan mitti.
Lengi er reyndar síðan Íslandi var veittur sá heiður að gata væri kennd við landið í höfuðborg Litháens. Heitir hún Islandijos gatve, eða Íslandsgata. Hugmynd Jóns Vals Jenssonar um stuðning við Eystrasaltslönd, sem dr. Jón stal, en fullkomnaði í Eystrasaltslöndunum, er þökkuð með nafnbreytingum á götum höfuðborgar Litháen. En í vetur vildu Litháir gera betur við sinn mann. Nú skyldi sett upp sérstakt heiðursskilti við Íslandsgötu á íslensku. Var skiltið sömuleiðis skreytt með galdrastaf.
Þegar upp rann dagurinn þar sem afhjúpa átti skiltið var dr. Jón mættur með Bryndísi konu sinni á götuhorni í Vilnius. En greinilega runnu tvær grímur á nýdoktorinn íslenska þegar hann afhjúpaði skiltið með borgarstjóra Vilnius. Íslenskt eignarfall er augljóslega ekki þekkt í Litháen. Einhver snillingur hefur sett Islanijos gatve í Google translate og fengið útkomuna Ísland stræti. Vissulega átti þarna að standa Íslandsgata.
Ætli stúdínur dr. Jóns á menntamannbörum Vilníusar hafi verið viðstaddar þakkarvottinn sem honum var sýndur með skiltinu fyrr í ár? Kannski ekki, en þarna voru þó stórglæsilegar menntakonur, nokkuð austrænar sumar hverjar og dýrslega klæddar, t.d. þessi með svartar neglur og í kápu úr skinnum nýfæddra lamba. Bryndís, skógardís og músa dr. Jóns, var einnig í eins konar gæru af unglömbum, en á röngunni. Heyrt hefur maður að slík fell æsi dýrlegar kenndir manna sem eru girtir að neðan eins og fé af fjöllum. Hér stendur Dísa með eiginmanni sínum, borgarstjóranum og ræðismanni Íslands í Vilníus, sem einnig er dyggur stuðningsmaður við ákveðin öfl í Úkraínu.
Víða eru siðlausir borgastjórar
Endurnýjun götuskilta virðist vera vinsælt tómstundagaman manna í Litháen. Ný götunöfn og skilti eru einnig góð aðferð við fölsun sögu sinnar.Þau hjálpa fólki að gleyma sannleikanum.
Borgarstjóri borgarinnar Vilnius, Remigijus Simasius, sem áður hefur verið dómsmálaráðherra Litháens, er einn af þeim Litháum sem erfitt á með að sjá sögu þjóðar sinnar í réttu ljósi. Árið 2009 neitaði hann því opinberlega að mikill fjöldi landsmanna hans hafi tekið þátt í glæpum gegn mannkyni í síðari heimsstyrjöld. Síðan 2015, er hann var kosinn borgarstjóri, leggur Simasius ævinlega blessun sína yfir götunöfn þar sem götur og stræti Vilnius eru endurskírð, og er oft á tíðum gefin nöfn fjöldamorðingja sem voru samreiðarmenn nasista. Þá telja Litháar einnig þjóðhetjur, því "þjóðhetjurnar" börðust einnig gegn Rússum, þegar þær voru ekki að slátra gyðingum. Er nema von að slíkur maður geti ekki valdið eignarfallsessi á íslensku. Það myndast stundum "ss" þegar orð er sett saman við annað orð sem byrjar á s, og það skapar hugsanlega vissar minningar hjá þjóðum sem öllu vilja gleyma og ekki horfast í augu við mistök sín.
Galdrastaf þennan má sjá á skiltinu til heiðurs Íslandi í Vilníus. Tákn þetta kallast Ægishjálmur. Ægishjálmurinn er öflugur varnarstafur, bæði gegn öllu illu og einnig örugg vörn gegn reiði og yfirgangi höfðingja.
Pravda:
Til að fræðast frekar um dýrafræði dr. Jóns, má líta hér og hér upp á eigin ábyrgð. Ungar stúlkur ættu aðeins að opna í fylgd foreldra sinna.
Sagnfræði | Breytt s.d. kl. 12:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bitlaust sverð
12.6.2016 | 10:34
Fornleifur brosti illkvittnislega í kampinn þegar fyrirlestrar heiðursmannanna Sverris Jakobssonar og Gunnars Karlssonar, haldnir 15. október 2015, voru opinberlega auglýstir sem hluti fyrirlestrarraðar Miðaldastofu Háskóla Íslands.
Úti fyrir ósköp vísum nefjum Sverris og Gunnars sveif sverð, eða réttara sagt eineggja sax. En auglýsingin var greinilega tvíeggjað sverð. Þetta frétta menn þó ekki fyrr en nú. Melius tarde quam nunquam.
Fyrirlestrar Sverris og Gunnars fjölluðu um Sturlungaöld (1220-1262). Halda mætti að sverð það sem auglýst var með, sem fannst árið 1863 á "sléttum mel á víðavangi" nálægt meintum rústum eyðibýlis sem kallað var Bergálfsstaðir í Eystrihreppi (Þjórsárdal), hafi átt að lýsa skálmöld Sturlungaaldar á myndrænan hátt - því friðsemdarsvipurinn á Sverri og Gunnari lýsa aðeins fræðimennsku, og í henni er aldrei tekist á.
Það eru til afar fá vopn frá Sturlungaöld á Íslandi. Þau enduðu ekki sem kumlfé eins og vopn sögualdar. Þegar menn létu af vopnaskaki Sturlungaaldar, hafa friðsamari afkomendur vígahöfðingja og skósveina þeirra nýtt málminn í vopnum sínum til annarra verkfæra. Erlent járn var gott efni.
Sverðið á auglýsingunni fyrir vísum þönkum Sverris og Gunnars um Sturlungaöld (1220-1262), og tvö önnur álíka sem einnig hafa fundist á Íslandi eru ekki frá Sturlungaöld, heldur frá síðari hluta miðalda, nánar tiltekið frá 15. öld (sbr. t.d. Seitz, Heribert: Blankwaffen I, Geschichte und Typenentwichlung in europäischen Kulturbereich. Von der prähistorischen Zeit bis zum Ende des 16. Jahrhunderts. Braunschweig, 1965, bls. 194; mynd 124). Þjóðverjar kalla eineggja sverð af þessari gerð veiðisverð (Jagdschwert), og þau voru framleidd fram á 16. öld.
Þar sem íslenskir fornleifafræðingar við Háskóla Íslands eru ekki of vel að sér í efnislegum menningarheimi miðalda (eins og þessi námsritgerð við háskólann sýnir - og sýnir enn frem að kennarar í fornleifafræði við HÍ hafa alls ekki næga þekkingu í miðaldafornleifafræði til að leiðbeina námsmönnum), þá er nú ekki nema von að þetta sverð hafi verið sett til höfuðs Sverri og Gunnari. Enginn vissi betur og ekki er hægt að ætlast til þess að Sverrir og Gunnar viti neitt, því þeir eru "bara" sagnfræðingar sem lesa margt fróðlegt um sverð á Sturlungaöld en hafa ekki hugmynd um hvernig þau litu út. En vopn eru nú reyndar með í handritalýsingum. Þær hefðu geta hjálpað til að finna rétt sverð til að kynna fyrirlestrana. Þjóðminjasafn Íslands hefur ekki mikið til málanna að leggja um aldur sverðsins og tveggja annarra af sömu gerð, nema ágiskanir manna á 19. öld. Þar stendur nú hnífurinn í kúnni. Menn vita ekki hvað þeir eiga.
En trúið mér góðir hálsar, er ég upplýsi að sax eins og það sem Sverrir og Gunnar fengu sér til höfuðs af Miðaldastofu Háskóla Íslands, voru eigi notuð til að höggva menn í herðar niður fyrr en á 15. öld. Vafalaust hefur þó reynst erfitt að höggva menn almennilega með þessum langhnífum.
Haec est situs universitatis Islandiae
Jagdschwert, einnig kallaður Messer (hnífur/sax), frá því um 1500 sömu gerðar og sverðið frá Bergálfsstöðum í Þjórsárdal.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Birtingarmynd spillingarinnar
8.6.2016 | 06:02
Nýlega skrifaði Fornleifur um undarlega hluti sem gerast á efstu hæðum Þjóðminjasafnsins og hjá spilltum öflum í Háskóla Íslands, sjá hér, hér, hér. Ein af hetjunum í þeim frásögnum sést hér koma í afmæli velunnara síns.
Var þetta allt skrifað löngu áður en forsætisráðherrann á myndinni hér fyrir ofan sagði af sér. Það var nú alveg nóg ástæða fyrir ráðherra að gera það í kjölfar greina Fornleifs, frekar en að bíða hópfýluferðarinnar til Panama og að lenda í svaðinu hjá Süddeutsche Zeitung og víðar.
Myndin var tekin af ljósmyndara Morgunblaðsins í afmælisveislu fyrrverandi forsætis-ráðherra. Hún segir mikið, ef ekki allt. Hvað ætli hafi verið í rammanum sem þjóðminjavörður afhenti Sigmundi Davíð?
Konan sem varð á milli aðalleikendanna getur líklegast ekkert gert að því. C'est la vie!
Þjóðminjasafn Íslands | Breytt s.d. kl. 06:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þetta er ekki negri
7.6.2016 | 09:36
Í anda óhemjulegrar yfirborðsmennsku og hraðsoðinnar fáfræði nútímans, þar sem fólk með sérleyfi á frelsi og einkarétt á réttar skoðanir vill láta banna öðrum skoðanir og hugsanir, eru það vitaskuld ekki mikil tíðindi þegar Ríkislitasafn Dana, Statens Museum for Kunst (SMK), í Kaupmannahöfn breytir titlum á verkum í listasafni dönsku þjóðarinnar.
Öll verk sem sýna blökkumenn og negra, sem mjög lengi hafa á dönsku verið kallaðir negre (neger í eintölu) fá nafnabreytingu. Neger er orð sem líkt og negri á íslensku er vitaskuld upphaflega leitt af lýsingaorðinu niger á latínu sem þýðir einfaldlega svartur). Héðan í frá verða negrar kallaðir Afríkumenn á Statens Museum for Kunst (sjá hér).
Nú er þessi gullfallega smámynd af negrastúlku eftir hollenska meistarann Karel van Mander hinn þriðja, sem varðveitt er á SMK, ekki lengur af negra og bannað er að notast við upphaflegan titil verksins Negerhoved. Nú verða menn að kalla verkið "Et afrikansk hoved". Á að kalla svart fólk sem kannski er fætt og uppalið í Danmörku eða á Íslandi fyrir Afríkumenn? Hvar endar vitleysan?
Á Norðurlöndum urðu Norðmenn fyrstir til að hoppa á þessa bandarísku yfirborðsmennsku og banna negraorð og hottintotta í barnabókum. Vart er nokkur negri sjáanlegur lengur á prenti í Svíþjóð. Tvískinnunginn þrífst í Skandinavíu ekki síður en í BNA. Negrar sjálfir mega t.d. kalla sig nigga, en við bleika fólkið verðum að kalla þá Afríkumenn. Jafnvel þótt að Afríkumennirnir sé ekki fæddir í Afríku.
Vitaskuld eru margir Danir sem efast um þetta tiltæki Statens Museum for Kunst, enda er þetta ekkert annað en dómadagsrugl. Afríkumenn geta verið að mjög mismunandi uppruna. Í Afríku bjuggu negrar, en einnig fólk af ýmsum öðrum uppruna, svo sem Berbar, Arabar og gyðingar. Við eigum sameiginlega formóður og föður meðal þeirra sem nú á að kalla Afríkumenn. Öll erum við, misjafnlega sapiens, upphaflega komin frá Afríku, en höfum lýsts og aflitast á leiðinni norður. Eða þangað til að sumir, eins og Íslendingar, eru orðnir svo litlausir að þeir hætta rökhugsun þegar þeim er skipað það af fólki í löndum þar sem rökhugsun og skynsemi virðast vera bannorð.
Málverkið hér fyrir neðan er af manni, ljósum yfirlitum með rauðar kinnar, sem fæddist í Marokkó, en bjó í Lundúnum á 19. öld. Hann var gyðingur - sem fæddist í ...., jú .. Afríku. Forfeður hans þurftu að flýja frá Spáni eða Portúgal vegna þess að þeir voru gyðingar, og það var líklega einnig ástæðan fyrir því að ætt hans leitaði til Niðurlanda, Bretlandseyja og Marokkó. Sjálfur skilgreindi hann sig sem gyðing, en hann bar líklega spænskt eða portúgalskt nafn og ef til vill hollenskt, ef ekki nafn fyrir öll tækifæri, svona til vonar og vara ef ofsóknir hæfust aftur á morgun - en hann var samt sem áður Afríkumaður. Hann fæddist í Afríku. Fólk sem ekki vissi betur gæti álitið að hann væri Skoti, og ef myndin héngi á Statens Museum for Kunst, yrði víst að breyta titlinum á myndinni af gyðingnum sem hangir á safni í New York í Afríkumann til að fylgja jafnréttisreglu.
Hottintottar
Því má bæta við, að eitt myndverk á Statens Museum for Kunst innihélt hið "óheppilega" orð Hottentot (ísl. hottintotti). Það orð var búið til af Hollendingum og fyrst og fremst notað yfir fólk sem bjó á svæðum í Suður-Afríku og Namibíu nútímans, þar sem Hollendingar voru nýlenduherrar. Vísaði heitið til "klikk-" eða "smell-hljóða" sem heyrast í tungumáli sumra þjóða á þessu svæði, t.d. í zulu, xhosa, siswati, hjuthi, ndebele, sesotho, fanakalo, yeyi, mbukushu, kwangli og diriku. Hollendingum þótti hin smellandi hljóð hljóma eins og og hot og tot, sem gæti leitt líkum að því að Hollendingar fyrrum hafi verið með of mikinn eyrnamerg í eyrunum. Síðar var heitið hottintotti notað á niðrandi hátt um fólk sem stamaði og um fólk sem álitið var ómenntað og frumstætt.
En á þeim tíma sem orðið hottintotti var notað, var litið niður á annað fólk vegna uppruna, litarháttar og trúarbragða. Ef við fáum ekki að vita það og upplýsingar um fordóma í gömlum titlum á listaverkum eru fjarlægðir, vegna pólitískrar rétthugsunar, er á vissan hátt verið að falsa söguna.
Forn titill á verki á listasafni er ekki rasismi. En skoðanalögreglutilburðir sums "nútímafólks" geta hins vegar hæglega verið það. Þannig fjarlægir UNESCO á seinni árum menningartengsl þjóða við ákveðna staði sem er helgir þjóðum og sögu þeirra. Þetta er hins vegar gert undan þrýstingi og yfirgangi annarra þjóða sem vart þekkja annað úr menningu sinni en einræði og mannréttindabrot og sem eiga sér trúarbrögð sem opinskátt ala á fordómum gegn öðrum trúarbrögðum og kynþáttum og hvetja til heilags stríðs gegn þeim og jafnvel til útrýmingar. UNESCO hefur þannig fjarlægt tengsl gyðinga við Musterishæð og Grátmúrinn og gefið Grátmúrnum nýtt nafn sem friðþægir þá sem útrýma vilja gyðingum í Miðausturlöndum. Fólk sem getur ekki sagt negri, er oft sama fólkið sem í andlegri blindni styður hryðjuverkasamtök og mannréttindabrot, svo ekki sé talað um kúgun kvenna þar sem hún er verst. Sjálfsánægjan yfir því að telja sig besta og réttlátasta byrgir oft bestu mönnum sýn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ísland í töfralampanum: 8. hluti
3.6.2016 | 17:45
Hverjar eru þetta með leyfi? Jú, Gugga, Vigga og Maddí gátu greinilega ekki setið á sér lengur og urðu að fara í bíó hjá Fornleifi. Þær voru í óþreyju og eftirvæntingu sinni farnar að bryðja bolsíurnar sínar blessaðar stúlkurnar, og jafnvel Gunna sem enn er ekki búin að fá sér nýjar tennur. Þær biðu á fortóinu í allan dag og keyptu meira að segja biletin fyrir viku síðan svo þær gætu setið á fremsta bekk. Svona er þessar sýningar hjá Fornleifi nú vinsælar, og ætti landsbyggðin einnig að fara að átta sig á því.
Hvað er meira spennandi og yndisaukandi fyrir stúlkur á viðkvæmum aldri en myndir af vatni og gusum - þar með talið Geysi og Gullfossi. Þær hafa hvort eð er ekki kattarvit á því hvort er betri sem forseti Íslands, falleraður seðlabankastjóri eða fráfallinn kaþólikki. Það er svo leiðinlegt og þær velta ekki svo heimsspekilegum þönkum fyrir sér. Þær vilja í bíó og hafa fjör.
Geysir var ávallt vinsælasti túristatrekkjari Íslendinga, eða allt þar til að hann gerðist skindauður vegna of mikils grænsápuáts.
Engin ferðalýsing af Íslandi með virðingu fyrir sjálfri sér frá því á 17 öld fram á þá 20. var fullkomin nema að mynd væri með af Geysi í Haukadal. Fljótlega varð goshverinn vinsæll á skuggamyndum 19. aldar í syrpum um jarðfræði eða undur alheims. Útlendingar komu gagngert til Íslands til að berja þessa himnamigu íslensku þjóðarinnar augum.
England to Iceland 28, Riley Brothers. Þetta er sama mynd og mynd 31 (sjá neðar) en í stað litar á 31 hefur þessi mynd fengið handmálað tjald og karl vestan við það.
Þess vegna getur það engan undrað að heilar fjórar myndir hafi verið af Geysissvæðinu í Haukadal í myndasyrpu Riley Bræðra England to Iceland. Allir öfunduðu íslensku þjóðina af sjálfvirkum gosbrunnum.
Myndirnar af Geysi og Geysissvæðinu í syrpunni eru þessar:
28 Tourists' Tents at Geyser (framleidd af Riley Brothers í Bradford).
29 Great Geyser (framleidd af Reiley Brothers í Bradford).
30 Strokr in Sulks.
31 Strokr in Action (framleidd af E.G. Woods á 74 Cheapside í Lundúnum)
England to Iceland 29, Riley Brothers
Því miður tilkynnist hér með að mynd 30 var ekki til á Cornwall þegar Fornleifur keypti þar myndir úr syrpunni England to Iceland fyrir skömmu. En sem bragarbót fá áhorfendur myndina af Strokki að gjósa (31) í lit og í "action". Njótið, því enn eru ekki þekktar aðrar skuggamyndir úr þessari frægu syrpu frá Íslandi. Þær gætu leynst uppi á einhverju lofti verður maður þó að vona, svo að allar myndirnar komi í ljós.
Þess ber að geta, að mynd númer 29 er til á pappír á Þjóðminjasafninu og er eignuð Sigfúsi Eymundssyni. Fornleifur leyfir sér einnig að benda á að á mynd 28 sést tjald , sem hafa verið handmáluð á glerið ásamt manninum til hliðar við það.
Mynd 28 er í raun sama mynd og mynd númer 31. Tjaldið er af sömu gerð og tjald Rowleys veiðifélaga Burnetts (sjá fyrri kafla og Frank Ponzi 1995. Ísland fyrir aldamót, Brennholt; Bls. 143). Tjaldið er svo kallað "Kabúl-tjald". Fornleif grunar, að myndirnar frá Geysi hafi verið teknar af Burnett eða að Sigfús Eymundsson hafi verið honum innan handar við myndatökur í Haukadal. Myndirnar í syrpu Riley Bræðra virðast greinilega vera blanda af myndum Burnetts og Tevelyans og hins vegar Sigfúsar Eymundssonar.
Gullfoss
Í dag verður vegna skyndilegrar ofhitnunar aukasýning hjá Fornleifi, áhorfendum að kostnaðarlausu. Töfralampinn hefur náð að kólna aðeins.
Fyrst er mynd af Gullfoss úr syrpunni England to Iceland. Hún var tölusett sem mynd 32 og titilinn Gullfoss--upper. Einnig var önnur mynd í syrpunni af Gullfoss og bar hún vitaskuld titilinn Gullfoss -- lower og var númer 33. Þetta var greinilega allt mjög skipulegt. Því miður var Gullfoss--lower ekki lengur til þegar Fornleifur keypti skuggamyndirnar á Cornwall. Mynd 32 var framleidd í syrpunni England to Iceland af Riley Bræðrum frá Bradford og er myndin samkvæmt Þjóðminjasafninu tekin af Sigfúsi Eymundssyni og mun það örugglega rétt því safnið á þurrnegatífu með nákvæmlega sömu mynd.
Brúará viðbót
Brúará, mynd eftir Sigfús Eymundsson framleidd af E.G. Wood rétt fyrir aldamótin 1900.
Um daginn voru tvær skuggamyndir af Brúarfossum sýndar á Fornleifi (sjá hér). Fornleifur keypti reyndar þrjár myndir af Brúarárfossum á Cornwall. Sú mynd af Brúará sem ekki var sýnd um daginn verður sýnd hér í dag. Hún var úr syrpu þeirri sem E.G. Wood framleiddi og sem hann kallaði A travel to Iceland. Sú syrpa innihélt sama myndefni- og sömu númer og syrpa Riley Bræðra, enda keypti E.G. Wood útgáfuréttinn af Reiley Bræðrum.
Þar sem skuggmyndafyrirtækið E.G. Wood notaðist við sama myndefni og númeraröð á myndefninu á Brúará, er rökrétt að álykta að þessi mynd hafi hjá E.G. Wood komið í stað myndarinnar nr. 27, sem Riley Bræður kölluðu Bruera and Bridge. Þessi mynd E.G. Wood er miklu betri en yfirretúsheruð mynd Riley Bræðra. Alltaf má gera betur.
Hitt er þó ef til vill áhugaverðara að á myndinni stendur: S. EYMUNDSSON MED EINKARJETTI. Það þarf því ekki að fara í grafgötur með það hver myndasmiðurinn var.
Fyrri kaflar
Ísland í töfralampanum 1. hluti
Ísland í töfralampanum 2. hluti
Ísland í töfralampanum 3. hluti
Ísland í töfralampanum 4. hluti
Ísland í töfralampanum 5. hluti
Ísland í töfralampanum 6. hluti
Ísland í töfralampanum 7. hluti
Ljósmyndafornleifafræði | Breytt 14.5.2021 kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er skutlur flugu í þyrlu
2.6.2016 | 11:00
Líkt og sumir karlmenn leita ólmir að náttúrumyndum í sveittum og lösnum tölvum sínum, leitar Fornleifur starfsmaður minn uppi myndir af gömlum dísum sem komust í úrslit fegurðarsamkeppna um það leyti sem hann var sjálfur upp á sitt besta. Það góða við þetta hobbý hans er að sjaldan fylgir vírus svo gömlum snótum. Langt er á milli góðra funda, en nýskeð rakst hann á eina slíka mynd í Hollandi.
Þar sem Fornleifur fermdist í tvíhnepptum jakka, er mat hans á kvenlíkamanum mjög gamaldags, en þó afar klassískt. Hann leggur meiri áherslu á gott andlit en t.d. afturendann. Snyrtilegur klæðaburður og t.d. heiðgular maxíkápur telur Fornleifur meðal þess fremsta sem konur geta skartað. En allt klæðir rós, eins og Danir segja og allar konur eru fallegar á sinn hátt (svo vil ég ekki að einhverjir helv. femínistar fari að nöldra hér um gripasýningar og karlrembu).
Hátt klof er Fornleifi ekki að fyrirstöðu. Brjóstmálið skal ekki vera í stærra lagi enda karlinn sjálfur með innfallin brjóstkassa og heilinn skal vera fallegri á konum og betur stilltur en hoppandi ORA-baunin sem Fornleifur og aðrir menn eru oftast með í heila stað.
Myndin sem m.a. birtist í hollenska (frísneska) blaðinu Friese Koerier og víðar, og jafnvel allt vestur á Hollensku Antillaeyjum, í blaðinu Amigoe di Curacau, sýnir nokkrar yngismeyjar sem voru að spóka sig á haustmánuðum árið 1957. Þær voru að sýna föt á tískusýningu sem fimm fyrirtæki í Hollandi stóðu fyrir í Zandvoort, margrómuðum strandbæ vestur af Amsterdam.
Ungfrú Rúna
Vitað er að lengst til vinstri stendur ungfrú Rúna Brynjólfsdóttir frá Íslandi sem lenti í öðru sæti í einni af Íslandskeppnunum sem haldnar voru árið 1957. Við hlið hennar er mademoiselle Monique Lambert frá Frakklandi sem hafði orðið 2. í Miss France fyrr á árinu 1957 og önnur á Miss Europe í Helsinki árið 1955. Næst kemur engin önnur en Miss World '56, Petra Schurmann frá Þýskalandi (sem andaðist 2010 eftir glæsilegan feril). Þvínæst kemur Corine Rottschäfer frá Hollandi, með klórlitað hárið, sem varð Miss Evrópa (og síðar Miss World árið 1959). Og loks lengst til hægri Ungfrú Belgía '56, Madeleine Hotelet. Yngismeyjarnar voru þarna á þyrluflugvelli í Rotterdam. Þær eru sumar að bíða eftir því að komast í fyrsta þyrluflug ævi sinnar. Miss Belgía virðist vera eitthvað lasin, en kannski var hún bara flughrædd?
Hér er merk kvikmynd frá Miss World keppninni í Lundúnum árið árið 1957, sem Fornleifur fann á FB Heiðars Jónssonar snyrtis. Hvar annars staðar? Heiðar er örugglega álíka slakur í fornleifafræði og Fornleifur er í make-uppinu, en báðir kunna þeir hins vegar að meta góðan og skarpan prófíl. Á fréttaskotinu frá Lyceum árið 1957 sést þokkadísin Rúna Brynjólfs frá Íslandi þar sem hún gengur læðugang í Lundúnum. Sumir þurftu að setja upp kíkinn til að fatta fegurð íslenskra kvenna, nema að það hefi verið til að sjá smáatriðin. Rúna upplýsti að áhugamál hennar væru "to travel farther and to speak more languages". Það var nú meira en en Miss Finnland gerði, en hún vann Miss World titilinn árið 1957. Hún talaði aðeins finnsku, rúmmennsku og slatta í reykmerkjamállýskum, en var einnig sæmilega góð í gufu.
Rúna hafði gott göngulag
Hvar ætli Rúna Brynjólfsdóttir sé niður komin í dag? Fornleifur gróf hana upp eins og allt annað. Hún býr í úthverfi í Columbus, Ohio, og heitir Runa B. Cobey. Í gamla góða Vísir upplýsti hún lesendur árið 1965 að hún hefði gifst manni, Herbert Todd Cobey að nafni. Hann var hvorki meira né minna en með háskólapróf í sögu frá Yale og Harvard og gæti því hæglega hafa orðið forseti. Hann var líka leikritahöfundur og gaf út vikublað, sem er vona álíka merkilegt og að vera með blogg í dag.
Í stað þess að skrifa leiðinlega doðranta um Civil War hafði hann ofan af fyrir fegurðardísinni sinni frá Íslandi með því að reka vélafyrirtæki, sem sérhæfði sig í alls konar vélum og farartækjum sem aðrir framleiddu ekki. Árið 1965 bjuggu þau hjón í Georgestown í Norðvesturhluta Washington D.C. Þótt Bertie sé nú löngu látinn er glæsileg kona eins og Rúna vart á lausu, svo jafnaldrar Fornleifs, og þeir sem eldri eru, eru vinsamlegast beðnir um að sitja á strák sínum og láta hana í friði. Dóttir Rúnu getur hins vegar hjálpað ykkur. Hún er sérfræðingur í slíku.
Rúna í Rotterdam
Gamlar myndir | Breytt s.d. kl. 11:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ísland í töfralampanum: 7. hluti
1.6.2016 | 18:40
Brúarárfossar voru líkt og í dag mjög vinsælt myndefni fyrir fyrstu ljósmyndarana á Íslandi. Útlendingar heilluðust einnig snemma af fossunum, einnig fyrir öld ljósmyndarinnar. Þeir voru því tilvaldir í landkynningarefni eins og skuggamyndir. Svo mikið hefur mönnum þótt koma til fegurðar fossanna, að tvær myndir af þeim, annars vegar af fossunum og hins vegar af brúnni, eru með í syrpu Riley Bræðra England to Iceland, sem Fornleifur keypti nýlega nokkrar myndir úr á Cornwall.
Vafalaust er, að Sigfús Eymundsson er höfundur efri myndarinnar sem bar númer 26 í syrpu Riley Bræðra og kallast á ensku Bruera Rapids. Myndin er til í tveimur þurrnegatífu á Þjóðminjasafni Íslands (sjá hér og hér). Hin myndin sem er númer 27 og ber heitið Bruera and Bridge er mjög líklega einnig eftir hann.
Brúarárfossum voru þegar árið 1834 gerð skil af Frederik Theodor Kloss (sjá hér). Mynd Kloss kom seinna út prentuð sem litógrafía. Einnig er vel þekkt koparstunga Auguste Meyers frá 1838 í stórverki Gaimards: Voyage en Islande et au Groënland.
Meira er víst ekki hægt að teygja lopann um fossana og brýr á Brúará.
Mynd Auguste Meyers af Brúarárfossum.
Fyrri kaflar í sögunni um fyrstu skuggamyndirnar frá Íslandi:
Ísland í töfralampanum 1. hluti
Ísland í töfralampanum 2. hluti
Ísland í töfralampanum 3. hluti
Ísland í töfralampanum 4. hluti
Ísland í töfralampanum 5. hluti
Ísland í töfralampanum 6. hluti
Ljósmyndafornleifafræði | Breytt 14.5.2021 kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)