Birtingarmynd spillingarinnar
8.6.2016 | 06:02
Nýlega skrifaði Fornleifur um undarlega hluti sem gerast á efstu hæðum Þjóðminjasafnsins og hjá spilltum öflum í Háskóla Íslands, sjá hér, hér, hér. Ein af hetjunum í þeim frásögnum sést hér koma í afmæli velunnara síns.
Var þetta allt skrifað löngu áður en forsætisráðherrann á myndinni hér fyrir ofan sagði af sér. Það var nú alveg nóg ástæða fyrir ráðherra að gera það í kjölfar greina Fornleifs, frekar en að bíða hópfýluferðarinnar til Panama og að lenda í svaðinu hjá Süddeutsche Zeitung og víðar.
Myndin var tekin af ljósmyndara Morgunblaðsins í afmælisveislu fyrrverandi forsætis-ráðherra. Hún segir mikið, ef ekki allt. Hvað ætli hafi verið í rammanum sem þjóðminjavörður afhenti Sigmundi Davíð?
Konan sem varð á milli aðalleikendanna getur líklegast ekkert gert að því. C'est la vie!
Þjóðminjasafn Íslands | Breytt s.d. kl. 06:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þetta er ekki negri
7.6.2016 | 09:36
Í anda óhemjulegrar yfirborðsmennsku og hraðsoðinnar fáfræði nútímans, þar sem fólk með sérleyfi á frelsi og einkarétt á réttar skoðanir vill láta banna öðrum skoðanir og hugsanir, eru það vitaskuld ekki mikil tíðindi þegar Ríkislitasafn Dana, Statens Museum for Kunst (SMK), í Kaupmannahöfn breytir titlum á verkum í listasafni dönsku þjóðarinnar.
Öll verk sem sýna blökkumenn og negra, sem mjög lengi hafa á dönsku verið kallaðir negre (neger í eintölu) fá nafnabreytingu. Neger er orð sem líkt og negri á íslensku er vitaskuld upphaflega leitt af lýsingaorðinu niger á latínu sem þýðir einfaldlega svartur). Héðan í frá verða negrar kallaðir Afríkumenn á Statens Museum for Kunst (sjá hér).
Nú er þessi gullfallega smámynd af negrastúlku eftir hollenska meistarann Karel van Mander hinn þriðja, sem varðveitt er á SMK, ekki lengur af negra og bannað er að notast við upphaflegan titil verksins Negerhoved. Nú verða menn að kalla verkið "Et afrikansk hoved". Á að kalla svart fólk sem kannski er fætt og uppalið í Danmörku eða á Íslandi fyrir Afríkumenn? Hvar endar vitleysan?
Á Norðurlöndum urðu Norðmenn fyrstir til að hoppa á þessa bandarísku yfirborðsmennsku og banna negraorð og hottintotta í barnabókum. Vart er nokkur negri sjáanlegur lengur á prenti í Svíþjóð. Tvískinnunginn þrífst í Skandinavíu ekki síður en í BNA. Negrar sjálfir mega t.d. kalla sig nigga, en við bleika fólkið verðum að kalla þá Afríkumenn. Jafnvel þótt að Afríkumennirnir sé ekki fæddir í Afríku.
Vitaskuld eru margir Danir sem efast um þetta tiltæki Statens Museum for Kunst, enda er þetta ekkert annað en dómadagsrugl. Afríkumenn geta verið að mjög mismunandi uppruna. Í Afríku bjuggu negrar, en einnig fólk af ýmsum öðrum uppruna, svo sem Berbar, Arabar og gyðingar. Við eigum sameiginlega formóður og föður meðal þeirra sem nú á að kalla Afríkumenn. Öll erum við, misjafnlega sapiens, upphaflega komin frá Afríku, en höfum lýsts og aflitast á leiðinni norður. Eða þangað til að sumir, eins og Íslendingar, eru orðnir svo litlausir að þeir hætta rökhugsun þegar þeim er skipað það af fólki í löndum þar sem rökhugsun og skynsemi virðast vera bannorð.
Málverkið hér fyrir neðan er af manni, ljósum yfirlitum með rauðar kinnar, sem fæddist í Marokkó, en bjó í Lundúnum á 19. öld. Hann var gyðingur - sem fæddist í ...., jú .. Afríku. Forfeður hans þurftu að flýja frá Spáni eða Portúgal vegna þess að þeir voru gyðingar, og það var líklega einnig ástæðan fyrir því að ætt hans leitaði til Niðurlanda, Bretlandseyja og Marokkó. Sjálfur skilgreindi hann sig sem gyðing, en hann bar líklega spænskt eða portúgalskt nafn og ef til vill hollenskt, ef ekki nafn fyrir öll tækifæri, svona til vonar og vara ef ofsóknir hæfust aftur á morgun - en hann var samt sem áður Afríkumaður. Hann fæddist í Afríku. Fólk sem ekki vissi betur gæti álitið að hann væri Skoti, og ef myndin héngi á Statens Museum for Kunst, yrði víst að breyta titlinum á myndinni af gyðingnum sem hangir á safni í New York í Afríkumann til að fylgja jafnréttisreglu.
Hottintottar
Því má bæta við, að eitt myndverk á Statens Museum for Kunst innihélt hið "óheppilega" orð Hottentot (ísl. hottintotti). Það orð var búið til af Hollendingum og fyrst og fremst notað yfir fólk sem bjó á svæðum í Suður-Afríku og Namibíu nútímans, þar sem Hollendingar voru nýlenduherrar. Vísaði heitið til "klikk-" eða "smell-hljóða" sem heyrast í tungumáli sumra þjóða á þessu svæði, t.d. í zulu, xhosa, siswati, hjuthi, ndebele, sesotho, fanakalo, yeyi, mbukushu, kwangli og diriku. Hollendingum þótti hin smellandi hljóð hljóma eins og og hot og tot, sem gæti leitt líkum að því að Hollendingar fyrrum hafi verið með of mikinn eyrnamerg í eyrunum. Síðar var heitið hottintotti notað á niðrandi hátt um fólk sem stamaði og um fólk sem álitið var ómenntað og frumstætt.
En á þeim tíma sem orðið hottintotti var notað, var litið niður á annað fólk vegna uppruna, litarháttar og trúarbragða. Ef við fáum ekki að vita það og upplýsingar um fordóma í gömlum titlum á listaverkum eru fjarlægðir, vegna pólitískrar rétthugsunar, er á vissan hátt verið að falsa söguna.
Forn titill á verki á listasafni er ekki rasismi. En skoðanalögreglutilburðir sums "nútímafólks" geta hins vegar hæglega verið það. Þannig fjarlægir UNESCO á seinni árum menningartengsl þjóða við ákveðna staði sem er helgir þjóðum og sögu þeirra. Þetta er hins vegar gert undan þrýstingi og yfirgangi annarra þjóða sem vart þekkja annað úr menningu sinni en einræði og mannréttindabrot og sem eiga sér trúarbrögð sem opinskátt ala á fordómum gegn öðrum trúarbrögðum og kynþáttum og hvetja til heilags stríðs gegn þeim og jafnvel til útrýmingar. UNESCO hefur þannig fjarlægt tengsl gyðinga við Musterishæð og Grátmúrinn og gefið Grátmúrnum nýtt nafn sem friðþægir þá sem útrýma vilja gyðingum í Miðausturlöndum. Fólk sem getur ekki sagt negri, er oft sama fólkið sem í andlegri blindni styður hryðjuverkasamtök og mannréttindabrot, svo ekki sé talað um kúgun kvenna þar sem hún er verst. Sjálfsánægjan yfir því að telja sig besta og réttlátasta byrgir oft bestu mönnum sýn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ísland í töfralampanum: 8. hluti
3.6.2016 | 17:45
Hverjar eru þetta með leyfi? Jú, Gugga, Vigga og Maddí gátu greinilega ekki setið á sér lengur og urðu að fara í bíó hjá Fornleifi. Þær voru í óþreyju og eftirvæntingu sinni farnar að bryðja bolsíurnar sínar blessaðar stúlkurnar, og jafnvel Gunna sem enn er ekki búin að fá sér nýjar tennur. Þær biðu á fortóinu í allan dag og keyptu meira að segja biletin fyrir viku síðan svo þær gætu setið á fremsta bekk. Svona er þessar sýningar hjá Fornleifi nú vinsælar, og ætti landsbyggðin einnig að fara að átta sig á því.
Hvað er meira spennandi og yndisaukandi fyrir stúlkur á viðkvæmum aldri en myndir af vatni og gusum - þar með talið Geysi og Gullfossi. Þær hafa hvort eð er ekki kattarvit á því hvort er betri sem forseti Íslands, falleraður seðlabankastjóri eða fráfallinn kaþólikki. Það er svo leiðinlegt og þær velta ekki svo heimsspekilegum þönkum fyrir sér. Þær vilja í bíó og hafa fjör.
Geysir var ávallt vinsælasti túristatrekkjari Íslendinga, eða allt þar til að hann gerðist skindauður vegna of mikils grænsápuáts.
Engin ferðalýsing af Íslandi með virðingu fyrir sjálfri sér frá því á 17 öld fram á þá 20. var fullkomin nema að mynd væri með af Geysi í Haukadal. Fljótlega varð goshverinn vinsæll á skuggamyndum 19. aldar í syrpum um jarðfræði eða undur alheims. Útlendingar komu gagngert til Íslands til að berja þessa himnamigu íslensku þjóðarinnar augum.
England to Iceland 28, Riley Brothers. Þetta er sama mynd og mynd 31 (sjá neðar) en í stað litar á 31 hefur þessi mynd fengið handmálað tjald og karl vestan við það.
Þess vegna getur það engan undrað að heilar fjórar myndir hafi verið af Geysissvæðinu í Haukadal í myndasyrpu Riley Bræðra England to Iceland. Allir öfunduðu íslensku þjóðina af sjálfvirkum gosbrunnum.
Myndirnar af Geysi og Geysissvæðinu í syrpunni eru þessar:
28 Tourists' Tents at Geyser (framleidd af Riley Brothers í Bradford).
29 Great Geyser (framleidd af Reiley Brothers í Bradford).
30 Strokr in Sulks.
31 Strokr in Action (framleidd af E.G. Woods á 74 Cheapside í Lundúnum)
England to Iceland 29, Riley Brothers
Því miður tilkynnist hér með að mynd 30 var ekki til á Cornwall þegar Fornleifur keypti þar myndir úr syrpunni England to Iceland fyrir skömmu. En sem bragarbót fá áhorfendur myndina af Strokki að gjósa (31) í lit og í "action". Njótið, því enn eru ekki þekktar aðrar skuggamyndir úr þessari frægu syrpu frá Íslandi. Þær gætu leynst uppi á einhverju lofti verður maður þó að vona, svo að allar myndirnar komi í ljós.
Þess ber að geta, að mynd númer 29 er til á pappír á Þjóðminjasafninu og er eignuð Sigfúsi Eymundssyni. Fornleifur leyfir sér einnig að benda á að á mynd 28 sést tjald , sem hafa verið handmáluð á glerið ásamt manninum til hliðar við það.
Mynd 28 er í raun sama mynd og mynd númer 31. Tjaldið er af sömu gerð og tjald Rowleys veiðifélaga Burnetts (sjá fyrri kafla og Frank Ponzi 1995. Ísland fyrir aldamót, Brennholt; Bls. 143). Tjaldið er svo kallað "Kabúl-tjald". Fornleif grunar, að myndirnar frá Geysi hafi verið teknar af Burnett eða að Sigfús Eymundsson hafi verið honum innan handar við myndatökur í Haukadal. Myndirnar í syrpu Riley Bræðra virðast greinilega vera blanda af myndum Burnetts og Tevelyans og hins vegar Sigfúsar Eymundssonar.
Gullfoss
Í dag verður vegna skyndilegrar ofhitnunar aukasýning hjá Fornleifi, áhorfendum að kostnaðarlausu. Töfralampinn hefur náð að kólna aðeins.
Fyrst er mynd af Gullfoss úr syrpunni England to Iceland. Hún var tölusett sem mynd 32 og titilinn Gullfoss--upper. Einnig var önnur mynd í syrpunni af Gullfoss og bar hún vitaskuld titilinn Gullfoss -- lower og var númer 33. Þetta var greinilega allt mjög skipulegt. Því miður var Gullfoss--lower ekki lengur til þegar Fornleifur keypti skuggamyndirnar á Cornwall. Mynd 32 var framleidd í syrpunni England to Iceland af Riley Bræðrum frá Bradford og er myndin samkvæmt Þjóðminjasafninu tekin af Sigfúsi Eymundssyni og mun það örugglega rétt því safnið á þurrnegatífu með nákvæmlega sömu mynd.
Brúará viðbót
Brúará, mynd eftir Sigfús Eymundsson framleidd af E.G. Wood rétt fyrir aldamótin 1900.
Um daginn voru tvær skuggamyndir af Brúarfossum sýndar á Fornleifi (sjá hér). Fornleifur keypti reyndar þrjár myndir af Brúarárfossum á Cornwall. Sú mynd af Brúará sem ekki var sýnd um daginn verður sýnd hér í dag. Hún var úr syrpu þeirri sem E.G. Wood framleiddi og sem hann kallaði A travel to Iceland. Sú syrpa innihélt sama myndefni- og sömu númer og syrpa Riley Bræðra, enda keypti E.G. Wood útgáfuréttinn af Reiley Bræðrum.
Þar sem skuggmyndafyrirtækið E.G. Wood notaðist við sama myndefni og númeraröð á myndefninu á Brúará, er rökrétt að álykta að þessi mynd hafi hjá E.G. Wood komið í stað myndarinnar nr. 27, sem Riley Bræður kölluðu Bruera and Bridge. Þessi mynd E.G. Wood er miklu betri en yfirretúsheruð mynd Riley Bræðra. Alltaf má gera betur.
Hitt er þó ef til vill áhugaverðara að á myndinni stendur: S. EYMUNDSSON MED EINKARJETTI. Það þarf því ekki að fara í grafgötur með það hver myndasmiðurinn var.
Fyrri kaflar
Ísland í töfralampanum 1. hluti
Ísland í töfralampanum 2. hluti
Ísland í töfralampanum 3. hluti
Ísland í töfralampanum 4. hluti
Ísland í töfralampanum 5. hluti
Ísland í töfralampanum 6. hluti
Ísland í töfralampanum 7. hluti
Ljósmyndafornleifafræði | Breytt 14.5.2021 kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er skutlur flugu í þyrlu
2.6.2016 | 11:00
Líkt og sumir karlmenn leita ólmir að náttúrumyndum í sveittum og lösnum tölvum sínum, leitar Fornleifur starfsmaður minn uppi myndir af gömlum dísum sem komust í úrslit fegurðarsamkeppna um það leyti sem hann var sjálfur upp á sitt besta. Það góða við þetta hobbý hans er að sjaldan fylgir vírus svo gömlum snótum. Langt er á milli góðra funda, en nýskeð rakst hann á eina slíka mynd í Hollandi.
Þar sem Fornleifur fermdist í tvíhnepptum jakka, er mat hans á kvenlíkamanum mjög gamaldags, en þó afar klassískt. Hann leggur meiri áherslu á gott andlit en t.d. afturendann. Snyrtilegur klæðaburður og t.d. heiðgular maxíkápur telur Fornleifur meðal þess fremsta sem konur geta skartað. En allt klæðir rós, eins og Danir segja og allar konur eru fallegar á sinn hátt (svo vil ég ekki að einhverjir helv. femínistar fari að nöldra hér um gripasýningar og karlrembu).
Hátt klof er Fornleifi ekki að fyrirstöðu. Brjóstmálið skal ekki vera í stærra lagi enda karlinn sjálfur með innfallin brjóstkassa og heilinn skal vera fallegri á konum og betur stilltur en hoppandi ORA-baunin sem Fornleifur og aðrir menn eru oftast með í heila stað.
Myndin sem m.a. birtist í hollenska (frísneska) blaðinu Friese Koerier og víðar, og jafnvel allt vestur á Hollensku Antillaeyjum, í blaðinu Amigoe di Curacau, sýnir nokkrar yngismeyjar sem voru að spóka sig á haustmánuðum árið 1957. Þær voru að sýna föt á tískusýningu sem fimm fyrirtæki í Hollandi stóðu fyrir í Zandvoort, margrómuðum strandbæ vestur af Amsterdam.
Ungfrú Rúna
Vitað er að lengst til vinstri stendur ungfrú Rúna Brynjólfsdóttir frá Íslandi sem lenti í öðru sæti í einni af Íslandskeppnunum sem haldnar voru árið 1957. Við hlið hennar er mademoiselle Monique Lambert frá Frakklandi sem hafði orðið 2. í Miss France fyrr á árinu 1957 og önnur á Miss Europe í Helsinki árið 1955. Næst kemur engin önnur en Miss World '56, Petra Schurmann frá Þýskalandi (sem andaðist 2010 eftir glæsilegan feril). Þvínæst kemur Corine Rottschäfer frá Hollandi, með klórlitað hárið, sem varð Miss Evrópa (og síðar Miss World árið 1959). Og loks lengst til hægri Ungfrú Belgía '56, Madeleine Hotelet. Yngismeyjarnar voru þarna á þyrluflugvelli í Rotterdam. Þær eru sumar að bíða eftir því að komast í fyrsta þyrluflug ævi sinnar. Miss Belgía virðist vera eitthvað lasin, en kannski var hún bara flughrædd?
Hér er merk kvikmynd frá Miss World keppninni í Lundúnum árið árið 1957, sem Fornleifur fann á FB Heiðars Jónssonar snyrtis. Hvar annars staðar? Heiðar er örugglega álíka slakur í fornleifafræði og Fornleifur er í make-uppinu, en báðir kunna þeir hins vegar að meta góðan og skarpan prófíl. Á fréttaskotinu frá Lyceum árið 1957 sést þokkadísin Rúna Brynjólfs frá Íslandi þar sem hún gengur læðugang í Lundúnum. Sumir þurftu að setja upp kíkinn til að fatta fegurð íslenskra kvenna, nema að það hefi verið til að sjá smáatriðin. Rúna upplýsti að áhugamál hennar væru "to travel farther and to speak more languages". Það var nú meira en en Miss Finnland gerði, en hún vann Miss World titilinn árið 1957. Hún talaði aðeins finnsku, rúmmennsku og slatta í reykmerkjamállýskum, en var einnig sæmilega góð í gufu.
Rúna hafði gott göngulag
Hvar ætli Rúna Brynjólfsdóttir sé niður komin í dag? Fornleifur gróf hana upp eins og allt annað. Hún býr í úthverfi í Columbus, Ohio, og heitir Runa B. Cobey. Í gamla góða Vísir upplýsti hún lesendur árið 1965 að hún hefði gifst manni, Herbert Todd Cobey að nafni. Hann var hvorki meira né minna en með háskólapróf í sögu frá Yale og Harvard og gæti því hæglega hafa orðið forseti. Hann var líka leikritahöfundur og gaf út vikublað, sem er vona álíka merkilegt og að vera með blogg í dag.
Í stað þess að skrifa leiðinlega doðranta um Civil War hafði hann ofan af fyrir fegurðardísinni sinni frá Íslandi með því að reka vélafyrirtæki, sem sérhæfði sig í alls konar vélum og farartækjum sem aðrir framleiddu ekki. Árið 1965 bjuggu þau hjón í Georgestown í Norðvesturhluta Washington D.C. Þótt Bertie sé nú löngu látinn er glæsileg kona eins og Rúna vart á lausu, svo jafnaldrar Fornleifs, og þeir sem eldri eru, eru vinsamlegast beðnir um að sitja á strák sínum og láta hana í friði. Dóttir Rúnu getur hins vegar hjálpað ykkur. Hún er sérfræðingur í slíku.
Rúna í Rotterdam
Gamlar myndir | Breytt s.d. kl. 11:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ísland í töfralampanum: 7. hluti
1.6.2016 | 18:40
Brúarárfossar voru líkt og í dag mjög vinsælt myndefni fyrir fyrstu ljósmyndarana á Íslandi. Útlendingar heilluðust einnig snemma af fossunum, einnig fyrir öld ljósmyndarinnar. Þeir voru því tilvaldir í landkynningarefni eins og skuggamyndir. Svo mikið hefur mönnum þótt koma til fegurðar fossanna, að tvær myndir af þeim, annars vegar af fossunum og hins vegar af brúnni, eru með í syrpu Riley Bræðra England to Iceland, sem Fornleifur keypti nýlega nokkrar myndir úr á Cornwall.
Vafalaust er, að Sigfús Eymundsson er höfundur efri myndarinnar sem bar númer 26 í syrpu Riley Bræðra og kallast á ensku Bruera Rapids. Myndin er til í tveimur þurrnegatífu á Þjóðminjasafni Íslands (sjá hér og hér). Hin myndin sem er númer 27 og ber heitið Bruera and Bridge er mjög líklega einnig eftir hann.
Brúarárfossum voru þegar árið 1834 gerð skil af Frederik Theodor Kloss (sjá hér). Mynd Kloss kom seinna út prentuð sem litógrafía. Einnig er vel þekkt koparstunga Auguste Meyers frá 1838 í stórverki Gaimards: Voyage en Islande et au Groënland.
Meira er víst ekki hægt að teygja lopann um fossana og brýr á Brúará.
Mynd Auguste Meyers af Brúarárfossum.
Fyrri kaflar í sögunni um fyrstu skuggamyndirnar frá Íslandi:
Ísland í töfralampanum 1. hluti
Ísland í töfralampanum 2. hluti
Ísland í töfralampanum 3. hluti
Ísland í töfralampanum 4. hluti
Ísland í töfralampanum 5. hluti
Ísland í töfralampanum 6. hluti
Ljósmyndafornleifafræði | Breytt 14.5.2021 kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ísland í töfralampanum: 6. hluti
31.5.2016 | 18:21
Fimm mismunandi ljósmyndir frá Þingvöllum og nágrenni þeirra voru upphaflega í skuggamyndasyrpunni England to Iceland, sem Fornleifur festi nýlega kaup á. Aðeins ein myndanna er þekkt og varðveitt í dag og ber hún númerið 24 og titilinn Parsonage and Church, eða prestsetur og kirkja. Myndin er af Þingvallabænum og kirkjunni og tekin úr suðri. Fólk stendur á tröppum bæjarins og á hlaðinu. Vikið skal að því síðar, en fyrst farið yfir byggingarsögu húsa Þingvöllum á 19. öld.
Litmynd frá 1882
Og nú er það heldur betur fínt. Fornleifur býður upp á skyggnumynd í lit. Myndin er vitaskuld handlituð, en segjast verður eins og er að litunin hefur heppnast mjög vel. Æfðar hendur og fínlegar hafa unnið þetta verk. Hinar myndirnar frá Þingvöllum í syrpunni voru með stafsetningu Bretanna, en þær hafa líklegar farið forgörðum:
20 Lake Þingvellavatn
21 Almanagga
22 Falls of Oxara
23 Plain of Thingvellir
Skuggamynd númer 24 var seld af E.G. Woods þegar fyrirtækið var til húsa á 74 Cheapside í Lundúnum. Samkvæmt rannsóknum LUCERNA-teymisins,sem áður hefur verið sagt frá, var fyrirtækið skráð á því heimilisfangi nokkuð lengi, eða á tímabilinu 1861-1898.
Myndin hefur nær örugglega verið keypt af Riley Brothers, sem upphaflega voru með hana í sinni syrpu um 1885-86. E.G. Wood hefur því framleitt sína mynd númer 24 eitthvað síðar en 1886. Eins og áður segir, kölluðu Riley Bræður syrpuna frá Íslandi England to Iceland, en E.G. Wood nefndi hana A travel to Iceland.
Nú vill svo til að sama ljósmyndin er til í þremur mismunandi svarthvítum pósitífum á Þjóðminjasafni Íslandi og er hún eignuð Sigfúsi Eymundssyni (sjá hér, hér og hér).
Stereoskópi-mynd tekin af Sigfúsi Eymundsyni árið 1867.
Mynd Jóns Christján Stephánssonar af Þingvallabænum. Þó myndin sé örugglega tekin af Jóni Stephánssyni, eignar Þjóðminjasafnið nákvæmlega sömu mynd Sigfúsi Eymundssyni (sjá hér). Furðulegt, ekki satt? Það er nokkuð mikið af rugli, þegar kemur að "myndum" Eymundssonar á Þjóðminjasafninu.
Svo vel vill til, að nokkrar ljósmyndir eru til af prestsetrinu að Þingvöllum frá síðari hluta 19. aldar, sem sýna okkur byggingasögu bæjarins á aldar. Elstu myndirnar er í eigu Þjóðminjasafns eru frá því fyrir 1882. Elst þeirra er stereóskópí-mynd Sigfúsar Eymundssonar frá árinu 1867 (sjá frekar hér).
Þar sést kirkjan sem vígð var árið 1859. Fyrir þann tíma var lítil torfkirkja á staðnum og upplýsir Þjóðminjasafnið að það hafi stungna mynd ættaða úr enska dagblaðinu Mirror af þeirri kirkju, mynd sem Hjálmar R. Bárðarson gaf safninu, en sem Hjálmar keypti af föður Fornleifs, sem safnaði erle dum dagblöðum með efni frá Íslandi frá 17. 18. og 19. öld. Hins vegar er myndin ekki upprunalega úr Mirror heldur líklegast úr frönsku riti frá 1836 eftir X. Marmier, sem einnig var gefið út á hollensku í Leskabinet; Mengelwerk tot Gezellig Onderhoud voor Beschaafde Kringe í Amsterdam árið 1837. Langalangafi minn Izzäk hélt það rit, og hefur það verið í eigu Fornleifs frá barnæsku.
Þingvallakirkja 1836 eða fyrr.
Önnur ljósmyndanna var tekin 1871 af William Lord Watts. þriðja ljósmyndin sem er eldri en 1882 var tekin af Jóni Christni Stephánssyni (en er einnig til í annarri kópíu og eignuð Sigfúsi Eymundssyni).
Mynd William Lord Watts. Hún var tekin árið 1871 .
Breytingarnar á Þingvallabænum árið 1882
Sjáið svo hvað gerist: Á myndinni efst, sem að öllu líkindum tekin sumarið 1883 og sem einnig er til í þremur pappírskópíum á Þjóðminjasafni Íslands (sjá hér, hér og hér) - má sjá að burstabærinn sem sést á myndum Sigfúsar Eymundssonar (1867), Jóns Stephánssonar og Watts (1875) var rifinn.
Árið 1882 byggði s. Jens (Ólafur Páll) Pálsson tvö ný hús. Eitt þerra, sem er litað rauðbrúnt á skuggamyndinni myndinni efst var 5x10 metrar að stærð. Aftan við nýju húsin voru torfbyggingar, eldhús og búr. Er sr. Jens afhenti séra Jóni Thorsteinsson staðinn árið 1888 og flutti á Álftanes, var Jens talinn eigandi hins nýja húss. Framkvæmdin hafði ekki verið samþykkt af yfirvöldum og þau ekki tekið þátt í kostnaði.
Mynd þessa tóku Burnett og Trevelyan þann 13. júlí árið 1883 (sjá þa meru bók: Frank Ponzi 1995: Ísland fyrir aldamót. Brennholt, bls. 109) Fornleif grunar að þeir Burnett og Trevelyan hafi einnig tekið myndina efst og setur það fram sem vinnutillögu. Síðar hér í syrpunni um elstu skuggamyndirnar frá Íslandi skal sýnt að Burnett og Trevelyan tóku stundum tvær myndir á sama staðnum.
Ofan á eitt húsa séra Jens var bætt við hæð árið 1906. Núverandi Þingvallabær var reistur á gamla bæjarstæðinu 1928, en sneru húsin í vestur. Til að byrja
með voru aðeins 3 burstir en tveimur nýjum var bætt við árið 1974.
Þessa mynd tók Sigfús Eymundsson af Þingvallabænum. Hér er búið að spónklæða kirkjuþakið og eitt af þeim húsum sem séra Jens Pálsson byggði árið 1882 (sjá myndina efst til samanburðar). Einnig er komin blikkklæðning utan á eystra húsið og sömuleiðis vindfang á eystra húsið. Þjóðminjasafni upplýsir að þessi mynd sé frá 1886 og að þar sjáist sr. Jón Thorstensen ásamt heimilisfólki. Öllu líklegra er að framkvæmdirnar á húsunnum hafi farið fram síðla árs 1886 og að myndin sé frá því í fyrsta lagi frá árinu 1887, því Jens Pálssyni voru veittir Útskálar þ. 27. júlí 1886, en talið er að Jón Thorstensen hafi breytt húsunum.
Jón Helgason biskup teiknaði þessa mynd árið 1892
Þingvallabærinn ca. 1925. Nýr turn var settur á kirkjuna vegna konungskomunnar árið 1907.
Árin 1925-2016 í stórum dráttum
Árið 1925 var tekin mynd af Þingvallabænum, sem sýnir að önnur hæð var reist ofan á eystra húsið. Á eldri mynd sem tekin var og seld af Hans Petersen (sjá hér fyrir ofan), og sem er nokkuð eldri en nærmyndin, má einnig sjá þessa hækkun á íbúðarhúsinu.
Árið 1928 var svo nýr, nýrómantískur og klunnalegur Þingvallabær reistur úr steinsteypu að fyrirsögn Guðjóns Samúelssonar og var það gert fyrir Alþingishátíðina 1930, líklega því Íslendingar hér að þeir yrðu sér annars til skammar. Upphaflega var bærinn þrjár burstir, eins og sjá má á gamalli skyggnumynd, sem sett hefur verið út á veraldarvefinn, en árið 1974 var bætt við tveimur burstum við bygginguna og muna það orðið fáir og hefur bærinn nú verið friðlýstur með nýlegum viðbyggingum sínum. Sannast þar að Íslendingum líkar best við allt nýtt.
Fólkið á litskyggnunni frá 1883.
Lítum örlítið hér í lok þessarar sýningar á mannfólkið á litmyndinni efst. Myndin var tekin árið 1883, og líklegast af félögunum Maitland James Burnett og Walter H. Trevelyan, þótt öðru sé haldið fram af Þjóðminjasafni Íslands. Nöfn vinnumannanna eru ekki þekkt. En í gættinni stendur séra Jens Ólafur Páll Pálsson (1851-1912, síðar prófastur og Alþingismaður, og kona hans Guðrún Sigríður Pétursdóttir Guðjohnsen, dóttir Péturs organista og Alþingismanns (fæðingarstaður hans er rangt upp gefinn á vefsíðu Alþingis). Barnið sem stendur með þeim hjónum á myndinni er líklega eitt af mörgum fósturbörnum þeirra prestshjóna. Jens er unglegur á myndinni og fínn í tauinu með pípuhatt, en frú Guðrún Sigríður bara í peysufötum. Jens fékk Útskálaprestakall árið 1886 í lok júlí og fluttu hjónin fljótlega eftir það þangað.
Ísland í töfralampanum 1. hluti
Ísland í töfralampanum 2. hluti
Ísland í töfralampanum 3. hluti
Ísland í töfralampanum 4. hluti
Ísland í töfralampanum 5. hluti
Ljósmyndafornleifafræði | Breytt 14.5.2021 kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ísland í töfralampanum: 5. hluti
29.5.2016 | 07:26
Fornbíó Fornleifs hamrar járnið meðan það er heitt, en til þess þarf kol. Kolagrafir fornar eru ugglaust margar þar sem myndin hér fyrir ofan var tekin.
Hér birtist nefnilega 19. skuggamynd Riley Bræðra úr syrpunni England to Iceland. Hún ber heitið Guides and Ponies. Glerskyggnan ber merki Riley Bræðra efst i vinstra horni. Enginn getur því verið í vafa um ágæti og gæði þessarar myndar, svo ekki sé talað um landið fagra sem hún sýnir. Þar sem birki og reyniskógum var eytt með glórulausri ofbeit þegar fólk var ekki að að farast úr hor og sauðféð úr gaddi.
Myndin er tekin af meistara Sigfúsi Eymundssyni, nema að hann hafi framkallað hana fyrir aðra. Að minnsta kosti er sama myndin og á skuggamynd Riley Bræðra varðveitt á þurrnegatífu í Þjóðminjasafni Íslands (sjá neðar) og er tileinkuð Sigfúsi (sjá sömuleiðis hér og hér). Sú ljósmynd kom hins vegar úr safni Péturs Brynjólfssonar ljósmyndara, sem var barnungur þegar myndin var tekin, en það hefur verið um 1882-83.
Í Grafningi eða nærri Laugavatni?
Á myndinni má sjá fjóra karla, leiðsögumennina (Guides), sem bendir einhvern megin til þess að útlendingar gætu hafa verið með í för. Myndin sýnir einnig fjögur hross. Áð er við stórt og gamalt reynitré. Þjóðminjasafnið upplýsir að myndin sé tekin í Grafningi og að maður sjái líka á í bakgrunninum niðri á flatlendinu. Mér sýnist hins vegar að þetta séu aðeins voldugri vötn en á, og ímyndaði mér, áður en ég sá dóm Þjóðminjasafns fyrir þeirra mynd, að hún væri tekin nærri Laugavatni. Ef einhverjir geta skorið úr um það væru upplýsingar vel þegnar. Er myndin úr Grafningi eða úr nágrenni Laugavatns?
Reynirinn "í Grafningi" hélt líklegast áfram að vaxa og dafna, því í byrjun 20. aldar var tekin mynd reyni einum miklum (sjá hér). Myndina tók Magnús Ólafsson og á bakhlið hennar er ritað: 10 álna hátt Reyniviðartré í Grafningi. Ætli það pár sé nú ekki frekast ástæðan fyrir því að myndin af reyninum hér ofar í "brekkunni" er tileinkuð Sigfúsi Eymundssyni og sögð úr Grafningi? En er þetta nú í raun og veru sama tréð og á myndunum tveimur hér ofar? Hvar er þá fjallið í bakrunninum sem er á steríómynd Magnúsar Ólafsson, sem var tekin á tímabilinu 1905-1920?
Spurningar vakna alltaf í Fornbíói Fornleifs. Maðurinn með tyrknesku húfuna (Sjá nánar um tyrkneska húfur á Íslandi í 4. hluta greinasafnsins um myndir úr syrpunni England to Iceland) virðist að dæma af flóttalegu augnaráðinu ekki vera með nein svör á reiðum höndum. Hvað með ykkur lesendur góðir? Þið eru nú flest nokkuð fróð um staðhætti.
Ég þakka ykkur svo enn og aftur fyrir komuna, en ef þið eruð með einhver læti í salnum, hagið ykkur eins og vitleysingar og hendið poppi eða pippi í sýningastjórann, þá hendir hann ykkur óhikað út. Bíóstjórar hafa mikil völd.
Ísland í töfralampanum 1. hluti
Ísland í töfralampanum 2. hluti
Ísland í töfralampanum 3. hluti
Ísland í töfralampanum 4. hluti
Ljósmyndafornleifafræði | Breytt 14.6.2024 kl. 10:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Svartir sjóliðar á Íslandi
27.5.2016 | 17:56
Fornleifur er áhugamaður um sögu svarta mannsins á Íslandi og hefur gert sér far um að skrifa um hana í stað þess að fárast út af því hvaða orð maður notar um fólk sem er svo dökkt á hörund að ljósara fólk getur ekki tekið sér þau orð í munn.
Hér úti á vinstri vængnum má lesa eilítið um sögu svarta mannsins á Íslandi eftir ritstjóra Fornleifs. Það á við að hafa það til vinstri því þar í pólitíkinni ímynda margir sér, að þeir beri mesta virðingin fyrir minnihlutum og séu sérleyfishafar á réttar skoðanir og hugsanir. Það er nú vart að ég þori lengur að nota nokkuð orð um blökkumenn, því sama hvað maður skrifar, þá kemur oft kolruglað fólk, og segir mér að ekki megi maður nefna svarta með því orði sem ég nota; að maður sér kynþáttahatari ef maður noti eitthvað tiltekið vitameinlaust orð. Heyrt hef ég að svertingi, negri, svartur, blökkumaður, þeldökkur séu orðin algjör bannorð hjá háheilögu fólki, svo ekki sé nú talað um surt og blámenn. Mikill vandi er okkur á höndum, þegar málið fer að flækjast fyrir okkur.
Hér eru tvær furðugóðar myndir af svörtum mönnum sem komu við á Íslandi. Sú efri er tekin árið 1957 í Hveragerði og eru þetta foringjaefni frá Kongó úr sjóher Belgíu. Hattamerki þeirra sýnir að þeir hafa tilheyrt þeim hluta sjóhersins Belgíu sem hafði aðsetur í Kongó. Kragamerki sýna að þeir voru "officer candidates" (undirforingjaefni).
Offiserarnir þeldökku komu hingað á belgísku herskipi og var faðir minn oft leiðsögumaður fyrir áhafnir belgískra og hollenskra NATÓ-skipa. Það var einmitt í einni slíkri ferð, að pabbi sagði áhöfninni að setja vasaklútana sína í hverinn Grýtu í Hveragerði, sem stundum er kölluð Grýla. Svo var sett grænsápa í gatið. Andstætt því sem oft hafði gerst áður, þegar faðir minn lék þennan leik, komu engir hreinir vasaklútar. Það koma alls engir vasaklútar upp í næstu gosum. Menn gátu vitaskuld ekki beðið endalaust eftir snýtuklútum sínum, svo lagt var að stað án nýþveginna vasaklúta. Skömmu síðar munu tugir klúta hafa legið allt í kringum Grýtu og voru þeir jafnvel bundnir saman a hornunum.
Líklega hefur Kongómönnum þótt gaman og heimilislegt í bananalundi Hvergerðinga. Gaman væri að vita hvað foringjaefnið með myndavélina hefur tekið af myndum á Íslandi - hvað hefur honum þótt áhugavert að ljósmynda í því landi sem honum hefur ugglaus þótt álíka framandi og hvítbleikum íslendingi þætti allt í Kongó? Ef þessir menn eru á lífi, eru þeir líklega komnir fram á níræðisaldurinn.
Neðri myndin er hins vegar eins og sjá má tekin í Bankastræti. Nánar tiltekið fyrir utan Bankastræti 3. Þar sem vikublaðið Fálkinn hafði til húsa. Myndin, sem sýnir dáta af bandarísku skipi sem kom við í Reykjavík í síðara heimsstríði, er sennilegast tekin af Svavari Hjaltested ritstjóra, en hann mun síðar hafa lánað hana Gunnari M. Magnúss sem ætlaði að nota hana í bókarverk sitt "Virkið í norðri". Hvort myndi birtist í bókinni veit ég þó ekki.
Ljósmyndin af matrósunum birtist hins vegar ekki í Fálkanum. Að lokum lenti myndin á Þjóðminjasafninu og kom úr búi Gunnars. M. Magnúss. Vafalaust eru flestir mannanna á myndinni löngu látnir - og nei, þetta er ekki hann Morgan Freeman þarna fyrir miðju.
Mannfræði | Breytt 5.1.2020 kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ísland í töfralampanum: 4. hluti
26.5.2016 | 15:20
Unga konan á myndinni hér fyrir ofan var rangleg talin norsk þar til fyrir skemmstu. Hún, eða öllu réttara myndin af henni, var til sölu sem hvert annað aflóga rusl á eBay, og hún var í söluefni dæmd til að vera Norsari, eða þar til Fornleifur fann hana og gerði henni hærra undir höfði.
Nú er sömuleiðis komið í ljós, að myndin er mjög sjaldgæf. Hún er ekki til í söfnum og þangað til að þetta eintak fannst var myndin af þessari hárfögru kona aðeins nefnd í sölulistum fyrir glerskyggnur með myndum frá Íslandi frá 19. öld.
Ekki er hægt að búast við að fáfróðir Bretar viti hvaðan háeðalborin íslensk kona kemur, þegar hún er nefnd til sögunnar sem "Woman wearing Hufa". Það stendur svart á hvítu á mjóum límmiða á kantinum á skyggnumyndinni. Það var einmitt titill skuggamyndar nr. 13 í syrpunni England to Iceland sem upphaflega kom út hjá Riley bræðrum í Bradford um miðbik 9. áratugar 19. aldar.
Fyrir utan húfuna góðu, ber búningur hennar og skreyti öll einkenni íslensk upphlutar. Hún, blessunin búlduleit, er á sauðskinnsskóm þar sem hún rakar á fullu á ljósmyndastofu í Reykjavík. Greinilegt er að þetta var hefðarpía úr bænum, því svona héldu ekta sveitakonur ekki á hrífu, þó svo að rakstur hafi ávallt tengst rómantík og lír. Væntanlega hafa útlendingar sem horfðu hugfangnir á syrpuna England to Iceland haldið að íslenskar konur trítluðu út á tún eða út í mýri í sparifötunum. Af þessu má einnig sjá að landkynningarstarfssemi hefur í árdaga sem síðar verið eintóm lygi og glansmyndagerð, eins og svo oft síðar. Fyrst komu vitaskuld Landnáma og Íslendingabók.
Þetta eintak af syrpunni England to Iceland af nr. 13. "Woman wearing Hufa" var selt af E.G. Wood í Lundúnum, sem á einhverju stigi keypti réttinn til að selja Íslandsskuggamyndir Riley Bræðra og kallaði hana A travel to Iceland. Eins og hægt er að lesa á miðanum í efra vinstra horninu var E.G. Wood til húsa á 1 & 2 Queen Street i Cheapside í London. Heimilisfangið gefur til kynna hvenær myndin hafi verið framleidd. Þetta var heimilisfangs E.G.Wood árin 1898-1900. Myndatakan, sem eignuð verður Sigfúsi Eymundssyni fór hins vegar fram í byrjun 9. áratugar 19. aldar og jafnvel fyrr.
Garðahúfa einnig kölluð Kjólhúfa
Húfan sem konan ber, er heldur ekki hvaða húfa sem er. Þessi húfa kallast Garðahúfa en einnig kjólhúfa og eru nokkrar þeirra til á Þjóðminjasafni. Ein þeirra er nauðalík húfunni sem unga konan á myndinni er með. Þetta vissi Fornleifur ekki fyrr en nýlega, því greinilega hefur Garðahúfunni/kjólhúfunni ekki verið gert hátt undir höfði í yfirreið um sögu íslenskra Þjóðbúninga. Þetta höfuðfat íslenskra kvenna á 19. öld hefur heldur ekki ekki hlotið náð hjá hávirðulegri þjóðbúninganefnd, en formaður nefndarinnar Lilja Árnadóttir safnvörður á Þjóðminjasafni Íslands upplýsti Fornleif að garðahúfur og kjólhúfubúningur séu ekki "löglegur" þjóðbúningur.
Er eitthvað samsæri í gangi gegn þessu höfuðfati? Hér með stofnar Fornleifur vinafélag Garðahúfunnar/kjólhúfunnar í von um að þetta séríslenska höfuðfat, sem notað var á 19. öld, og hugsanlega fyrr, verði gert hærra undir höfði.
Ein af nokkrum Garðahúfum/kjólhúfum á Þjóðminjasafni Íslands. Hún var skráð og varðveitt í Nordiska Museet i Stokkhólmi og hefur safnnúmerið NMs-38809/2008-5-130, en er nú (síðan 2008) í varanlegri varðveislu Þjóðminjasafns. Húfunni er lýst sem: "Kvenhúfa (kjólhúfa). Efni svart flujel. Gullvírsborði, 1,7 að br., efst og marglitur, rósofinn silkiborði næst, br. 2 cm. Tvöfaldur kross af þeim á kolli: (hér er teikning). Á jöðrum efst eru bryddingar, með rauðu silki innst og svörtu flujeli ytri: Baldýruð stjarna eða 5 blaða blóm er á hliðum efst. Silkiskúfar, grænir og rauðir að aptan og framan efst. L. 27, samanl., h. 16 í miðju, 9 við enda, br. um miðju 17,5 cm. Gefin af R.A. Fóðruð með hvítum striga." Þó það komi ekki fram í skráningu, held ég að þetta sé lýsing Matthíasar Þórðarsonar sem skráði íslenska gripi í Nordiska Museet.
Uppruni Garðahúfunnar/kjólhúfunnar eða "Tyrknesku húfunnar"
Uppruni Garðahúfunnar er einnig mjög á huldu. Í grein sem Daniel Bruun skrifaði í Eimreiðina árið 1905, er þetta upplýst um Garðahúfuna, og þar birtist einnig brot af sömu myndinni og notuð var í skuggamyndina hér að ofan:
Sérstök tegund var »garðahúfan« eða »tyrkneska húfan« (22. og 23. mynd), sem óefað er mjög gömul á Íslandi. Hún minnir á fald þeirrar konu, er stendur framar á 1. mynd; en sú mynd er frá lokum 16. aldar. Jafnvel brúðir hafa borið slíkar húfur fram að 1868. Yfirleitt virðist smekk kvenna að hafa verið varið á þann hátt: Jafnhliða eftirsókninni eftir háa faldinum var og eftirsókn eftir fallega skreyttum húfum.
Hvaðan heitið tyrkneska húfan kemur, skrifar Daniel Bruun ekkert um.
Ein af garðahúfum þeim sem Daniel Bruun birtir myndir af í grein sinni í Eimreiðinni árið 1904.
Garðahúfunni/kjólhúfunni hefur svo um munar verið rutt út af síðum sögunnar. Getur hugsast að þessi húfa sé síðbúinn ættingi falda sem voru margs konar á Íslandi frá því á miðöldum? (Sjá hér). Mest af öllu líkist þessi húfa höfuðfati karla í Serbíu, sem kallast sajkaca. Sá hattur varð síðar betur þekktur í annarri gerð sem Titovka, og var slík húfa notuð af flokksmönnum Josip Broz Titos sem börðust vasklega gegn nasistum. Vitaskuld eru engin tengsl þarna á milli frekar en við svarta kjólhúfu Dorritar Moussaieff sem hún bar þegar hún heimsótti fyrrverandi páfa ásamt eiginmanni sínum (sjá hér).
Eins er víst að konan á myndinni er hálfgerð huldukona, og þæði Fornleifur allar upplýsingar um hana (þó ekki símanúmer hennar). Er hún formóðir einhvers í hinum gríðarstóra lesendaskara Fornleifs, þá hafi þeir vinsamlegast þegar samband við Fornleif, einn í einu. Fornleifur leyfir sér þó að detta í hug, að konan sé engin önnur en hin ævintýralega Sigríður E. Magnússon, kona Eiríks Magnússonar bókavarðar í Cambridge (sjá hér). Fornleif grunar að neðanstæð mynd Sigfúsar af konu í peysufötum með gítar sýni sömu konu og þá sem ber garðahúfuna á skuggamyndinni. Þá er nú ekki langt í að maður láti sér detta í hug að húfan hafi verið ein af mörgum hönnunarverkum hinnar litríku Siggu. Ekkert skal þó fullyrt, því svipaðar húfur þekkjast úr Flatey, Vopnafirði, Reykjavík og frá. Kannski var þetta höfuðfat algengara en við höldum.
Sigríður E. Magnússon á yngri árum? og á eldri árum.
Garðahúfan/Kjólhúfan er frægari en menn halda
Þó að æðstaráð þjóðbúninganefndar hafi stungið 5 tommu nálum í allar óskir um að garðahúfan/kjólhúfan sé löglegur hluti íslensks þjóðbúnings, þá var kjólhúfan nokkuð þekkt í þeim hluta Evrópu þar sem menn keyptu og notuðu súpukraft í matargerð sína. Súpukraftfyrirtækið Liebig hafði það fyrir sið að setja fræðsluefni á lítil spjöld í pakka eða við dósir með súpukrafti. Oft voru þetta litríkar myndasyrpur um lönd og þjóðir. Þýskur, sjálfmenntaður efnafræðingur Justus Freiherr von Liebig (1803-1873), hóf um miðja 19. öld að framleiða þurrkaðan kjötkraft með alls kyns "bætiefnum" til að bæta heilsu vina sinna sem hríðdrápust úr kóleru og alls kyns magakvillum (efnaeitrunum og geislun).
Fullvinnsla á dýrahræjum fyrir súpukraft var fljótlega flutt til Uruguay og síðar til Argentínu, þar sem þýskir innflytjendur og nautgripahjarðir þeirra eyddu landgæðum með ofbeit svo Evrópubúar gætu fengið ódýrt, þurrkað kjötsoð. En þrátt fyrir meira eða minna ómeðvitaða landeyðingu var fyrirtæki Liebigs Fríherra í mun um að fræða fólkið sem keypti kraftinn í teningum (sem einnig gengu undir heitinu OXO) eða sem duft í dós. Þetta var því miklu menningarlegri kraftmiðstöð en t.d. Maggi og Knorr sem sérhvert mannsbarn á Íslandi þekkir og sem aldrei hefur nokkuð barn frætt. Frá og með 1875 og fram á 8. áratug 20. aldar sendi fyrirtækið Liebig/OXO frá sér um 11500 myndir á 15 tungumálum.
Tvær seríur með myndum með íslensku efni voru settar í pakka með kjötkrafti frá Liebig (sjá meira um þær síðar) og í einni þeirra var mynd sem grafin hafði verið eftir myndinni af konunni með kjólhúfuna sem upphaflega seld var í sem skuggamynd hjá Riley Brothers og E.G. Woods. Konan með hrífuna og Garðahúfuna var því með þekktari íslenskum konum áður en Björk sönglaði sig til frægðar og Vigdís varð forseti - og aldrei hafa þær stöllur sett svo mikið sem tána í súputeningapakka. Liebig syrpan með sex myndum sem Kjól-/Garðahúfu-konan birtist í kallaðist á þýsku Liebig Bilder Serie 846 "Island, das Land der Edda" og var fyrst gefin út árið 1911-1912.
Manni leyfist líklega að spyrja: Hvers á þessi fræga garðahúfaeiginlega að gjalda, þá er hún ekki má teljast til búnaðs íslenskra þjóðbúninga?
Fáni Dana, Rødgrød med fløde, var enn notaður á Íslandi þegar Garðahúfan var upp á sitt besta, en ekki er hún ættuð úr Danaveldi.
Höfundur myndarinnar og aldur
Myndasmiðurinn sem tók myndina af konunni með Garðahúfun var vafalaust Sigfús Eymundsson. Það er auðséð á handmálaða tjaldinu á bak við hana sem einnig sést á nokkrum pappírskópíum eftir Sigfús sem varðveittar eru á Þjóðminjasafni Ísland, sem sjá má á Sarpi. (sjá t.d. hér, hér, hér, hér og hér). Sá möguleiki er einnig fyrir hendi, að einhverjir hafi fengið stúdíó Sigfúss Eymundarsonar að láni, en þá mynd nafns síns notaðist hann lengi á ljósmyndir sínar. Það verður ekki útilokað hér að aðrir hafi fengið að nota stúdíótjöld Sigfúsar - eða jafnvel að Sigfús hafi tekið myndir fyrir Burnett og Trevelyan (sjá 3. hluta).
Myndin hefur að öllum líkindum verið tekin í byrjun 9. áratug 19. aldar um 1881-83. Myndin er skömmu síðar nefnd í sölulistum Riley Bræðra og síðar í lista E.G. Woods.
Undirskriftasöfnun til stuðnings Garðahúfunni/Kjólhúfunni
Þeir sem vilja hefja Garðahúfuna aftur til vegs og virðingar, líkt og þegar hún var stjarna á kjötkraftsmyndum, mega vinsamlegast setja nafn sitt hér í athugasemdirnar. Konur og menn og aðrir sem vilja sauma sér slíkar húfur geta ugglaust fengið frekari upplýsingar á Þjóðminjasafni Íslands. Skammt er í Gleðigöngur og hvað er meira tilvalið fyrir menn sem ganga í kjól en kjólhúfa. Skúfhúfan, skotthúfan, spaðafaldurinn, sér í lagi krókfaldurinn, skildahúfan, skarðhúfan og skautið ættu að fara að vara sig. Konur eru fyrir löngu farnar að að kasta skúfhúfunni. Það er orðinn löglegur réttur heimavinnandi karla að ganga með þessa hatta, líkt og fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkurþorps sýndi okkur, en slík apparöt eru nú ef til vill einum of nýmóðins fyrir Fornleif. Setjum því brúna punktinn hér.
Auglýsing árið 1919 í Þjóðólfi. Aldrei tapaði neinn Garðahúfu.
Upplýsingar um garðahúfur/kjólhúfur á Þjóðminjasafni Íslands:
Þjms. 279 ; Kölluð garðahúfa
Þjms. 2052 ; Garðahúfa frá Hofi í Vopnafirði.
Þjms. 2457 ; Garðahúfa frá Reykjavík.
Þjms. 4509 ; Garðahúfa frá Reykhólum í Reykhólasveit.
Þjms. 4642 ; Skráð sem kjólhúfa. Frá Heydalsseli í Strandasýslu.
Þjms. 9206 ; Garðahúfa úr Flatey á Breiðafirði. (Sjá mynd hér fyrir neðan).
Og loks sú sem var meðal gripanna sem komu frá Nordiska Museet 2008.
2008-5-130; Skráð sem kjólahúfa. Sjá mynd ofar
Þakkir fær Lilja Árnadóttir fyrir að veita upplýsingar um garðahúfur Þjóðminjasafns. Húfurnar hafa því miður ekki allar verið ljósmyndaðar enn, og þess vegna er ekki hægt að sýna þær hér.
Fyrri kaflar
Ísland í töfralampanum 1. hluti
Ísland í töfralampanum 2. hluti
Ísland í töfralampanum 3. hluti
Ljósmyndafornleifafræði | Breytt 14.5.2021 kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ísland í töfralampanum: 3. hluti
23.5.2016 | 18:50
Sigga gamla tekur nú óðslega í nefið af einskærri gleði, því hér skal brátt hafin sýning á skuggamyndum frá Íslandi, sem framleiddar voru á seinni hluta 19. aldar á Bretlandseyjum. Síðast svo vitað sé voru myndirnar sýndar í Reykjavík af Þorláki Ó. Johnson á 19. öld. - Er nema von að Sigríður sé hamingjusöm?
Ritstjóri Fornleifs fann nýlega og keypti gamlar myndir af innfæddu eFlóamanni búsettum á Cornwall á Bretlandseyjum. eFlóinn (eBay) getur oft geymt áhugaverða gripi, þótt langt sé á milli dýrgripanna.
Skuggamyndirnar með íslensku efni, sem verður lýst hér á næstu dögum - og tveim þeirra þegar í þessum kafla (sjá neðar)- fundust fyrir algjöra tilviljun er höfundurinn var að leita að öðru efni með hjálp Google. Það er Fornleifi mikil ánægja að sýna fróðleiksfúsu fólki þessar merku skuggamyndir.
Þær glerskyggnur með Íslandsmyndum sem Þorlákur Ó. Johnson og Sigfús Eymundsson sýndu Reykvíkingum (sjá 2. hluta greinasafnsins um Ísland í töfralampanum), voru ugglaust fyrst og fremst framleiddar á Englandi. Við vitum að þangað sótti Þorlákur myndir sínar og væntanlega hafa hann og Sigfús, sem sýndi skuggamyndir með Johnson um tíma, verið milligöngumenn um að bresk fyrirtæki framleiddu myndaröðina England to Iceland sem í sölulistum var einnig kölluð From England to Iceland.
Hverjir tóku myndirnar ?
Nokkrar myndanna hefur Sigfús Eymundsson sannanlega tekið, því við þekkjum þær úr ágætu safni með pappírsljósmyndum Sigfúsar sem varðveitt er á Þjóðminjasafni Íslands.
Aðrar myndanna í syrpunni England to Iceland hafa aftur á móti án nokkurs vafa verið teknar af efnamönnunum og veiðifélögunum Maitland James Burnett (1844-1918) og Walter H. Tevelyan (1840-1884) sem komu til að stunda stangaveiðar og til að ljósmynda landið á árunum 1882-84. Eftir veikindi og dauða Trevelyans árið 1884, kom Burnett einn til Íslands næstu árin, eða fram til ársins 1888. Báðir tóku þeir ljósmyndir á Íslandi að því er talið er.
Sigfús Eymundsson, bóksali, útgefandi og myndasmiður. Sigfús rak fyrstu ljósmyndastofu Íslands frá árinu 1867.
Frank Ponzi gerði ferðum Burnetts og Trevelyans góð skil í bókinni Ísland fyrir aldamót (1995) og byggir hana á myndum og dagbókarbrotum sem hann fann og keypti á Bretlandseyjum.
Ponzi rakst hins vegar aldrei á skuggamyndir, þar sem notast hafði verið við sumar ljósmyndir Burnetts og Trevelyans. Sumar myndanna í syrpunni England to Iceland eru því skiljanlega ekki með í bók Ponzis og greinilegt er að Burnett og Trevelyan hafa í einhverjum tilvikum tekið fleiri en eina mynd á hverjum stað sem þeir heimsóttu. Vikið skal að því síðar. Einnig grunar mig, að Sigfús Eymundsson hafi verið þeim félögum innan handar við ljósmyndun.
Syrpan England to Iceland
Myndasyrpa með titlinum England to Iceland var seld af tveimur fyrirtækjum á Englandi í lok 19. aldar. Annars vegar, og til að byrja með, af Riley Brothers í Bradford í Yorkshire á England en einnig frá og með ca. 1890 af Lundúnafyritækinu E.G. Woods (sjá síðar). Í sölulistum E.G. Woods var syrpan kölluð A visit to Iceland.
Þessar syrpur með myndum frá Ísland virðast mjög sjaldgæfar, því áður en Fornleifur fann fáeinar þeirra hjá forngripasalanum á Cornwall, voru engar myndir úr syrpunni lengur þekktar nema af lýsingum í sölulista Riley bræðra og E.G. Woods sem Lucerna, vefsvæði fyrir rannsóknir á Laterna Magica hefur birt. Að auki keypti ég tvær myndir úr enn annarri syrpu sem ber nafn Sigfús Eymundarsonar [sic], en þannig ritaði Sigfús oft nafn sitt á fyrri hluta ljósmyndaraferils síns.
Skyggnumyndirnar, sem nú eru komnar í leitirnar úr syrpunni England to Iceland/From England to Iceland, eru aðeins 12 að tölu og eru þær bæði framleiddar af Riley Bræðrum og E.G. Woods og því ekki allar framleiddar á sama tíma þó svo að þær hafi verið teknar á sama tíma og af sömu ljósmyndurunum. Hins vegar passa númer myndanna sem límd voru á glerplöturnar við efni myndanna eins og því var lýst í fyrstu auglýsingum Riley bræðra fyrir syrpuna frá Íslandi.
Syrpan er því langt frá því öll fundin/varðveitt. Upplýst er í fyrstu auglýsingum að í syrpu Riley Brothers, sem upphaflega var búin til á tímabilinu 1882-85, en líklegast árið 1883, hafi verið 48 myndir.
Af þeim glerskyggnum sem nú eru komnar í leitirnar eru flestar merktar með tölu og merki framleiðanda, og koma þær upplýsingar heim og saman við sölulista Riley bræðra sem er varðveittur frá 1887. Lýsingar á skuggamyndunum 48 í lista Riley bræðra passa við efni myndanna sem fundust nýlega á Cornwall, einnig þeirra sem framleiddar voru af E.G. Wood. Hugsanlegt er, að þegar Riley bræður hafa snúið sér að kvikmyndagerð eftir 1890 hafi þeir selt réttinn af Íslandssyrpunni, sem og mörgum öðrum skuggamyndum til annarra fyrirtækja í þeim iðnaði.
Sölulistum með upplýsingar um Laterna Magica skuggamyndir hefur verið safnað skipulega af rannsóknarteymi við nokkra háskóla í Evrópu, á Bretlandseyjum, Hollandi og Þýskalandi, sem hefur miðstöð við háskólann í Trier í Þýskalandi. Þar miðla menni vel af þekkingu sinni á vefsíðunni LUCERNA the Magic Lantern Web Resource.
Fræðimenn á þessu sviði sem vinna saman að LUCERNA hafa skráð u milljón skyggnur og upplýsingar um þær. Einn þeirra, Dr. Richard Crangle í Exeter, hefur verið hjálplegur höfundi þessarar greinar með upplýsingar sem leiddu til þessara skrifa.
Riley Brothers
Reiley Brothes var fyrirtæki, sem í byrjun einbeitti sér að gerð skuggamynda, sölu þeirra og leigu, sem og sölu og leigu á sýningartækjum fyrir skuggamyndir. Fyrirtækið var stofnað árið 1884 í Bradford í Yorkshire eftir að ullarkaupmaðurinn Joseph Riley (1838-1926) hafði heillast af Laterna Magica sýningum. Riley hafði ungur aðhyllst meþódisma og með hjálp menntunarstefnu þeirra komist til metorða og í álnir.
Árið 1883 keypti Joseph Reiley (hér til vinstri á unga aldri) tæki og myndir handa tveimur sonum sínum Herbert og Willie Riley. Feðgarnir hófu fljótlega sýningar á myndum með trúarlegum og fræðilegum fyrirlestrum til að safna fé fyrir munaðarleysingjaheimili og samtökin Action for Children, sem er starfandi enn þann dag í dag.
Joseph sá verslunartækifæri í töfralampanum og stofnaði ásamt bróður sínum, Sam, fyrirtæki sem framleiddi skyggnur og sýningartæki. Fyrirtækið blómstraði og varð á fáeinum árum stærsta fyrirtæki á þessu sviði í heiminum. Fyrirtækið var rekið af bræðrunum Herbert og Willie undir yfirumsjón Josephs, en síðar árið 1894 hófu aðrir synir Josephs, Arnold og Bernard, einnig störf í fyrirtækinu. Árið 1894 stofnaði Herbert Riley útibú í New York og stjórnaði rekstri þar til dauðadags árið 1891.
Willie Riley, sem einnig var liðtækur rithöfundur, hélt aftur á móti til Parísar og komst þar í kynni við kvikmyndavél Lumiers. Fengu Riley bræður einkarétt á sölu Keneptoscopi-tækni Cecil Wrays árið 1896. Þetta voru tvenns konar tæki sem hægt var að sýna kvikmyndir með með því að setja aukabúnað á vel útbúna gaslýsta töfralampa þessa tíma. Riley bræður voru þannig einnig forgangsmenn í kvikmyndaheiminum og árið 1897 hófu Riley Brothers sölu á kvikmyndaupptökuvél og framleiðslu á 75 feta filmum. Allt fékk þó enda, því samkeppnin í kvikmyndageiranum í Bandaríkjunum var hörð. Fyrirtækið Riley Brothers hélt þó velli á Bretlandseyjum fram að síðara heimsstríði, þó í mýflugumynd undir lokin (sjá meira hér).
Hið góða skip Camoens
Mynd nr. 3. Leith Harbour - England to Iceland. Riley Brothers. (Stærð allra skyggnanna er 8,2 x 8,2 sm).
Allt hófst þetta með skyggnumyndunum og meðal hundruða syrpa sem Riley Brothers framleiddu var syrpan með myndum frá Íslandi: (From) England to Iceland. Innihald hennar var sem áður segir 48 myndir, og er vitað frá auglýsingum fyrirtækisins hvað þær sýndu. Margar þeirra, eða 14, sýndu ýmsa staði á Skotlandi.
Aðeins ein myndanna 14 frá Skotlandi í syrpunni (From) England to Iceland var hins vegar á meðal myndanna sem nýlega fundust hjá eFlóamanninum á Cornwall. Það er mynd nr. 3 í syrpunni, sem er líklegt að Burnett eða Trevelyan hafi tekið í ferðum sínum. Sýnir hún skip á höfninni í Leith og ber heitið Leith Harbour. Leith er hafnarborg Edinborgar á Skotlandi og fyrsta borgin sem ritstjóri Fornleifs leit augum í Evrópu í fyrstu utanlandsferð sinni árið 1970.
Skuggamynd númer 3 sýnir þó ekki skip það sem Burnett og Trevelyan sigldu jafnan á til Íslands. Það hét Camoens. Þegar Camoens sigldi ekki með farþega, m.a. fjölda Vesturfara, flutti skipið hross frá Íslandi í kola- og tinnámur á Bretlandseyjum, þar sem blessaðir hestarnir enduðu ævi sína á hræðilegan hátt. Hægt er að lesa ítarlega um voluð hrossin og þessa merku, bresku ferðalanga í fallegri bók Frank Ponzis, Ísland fyrir aldamót (1995), sem er þó að verða illfáanleg. Óskandi væri að hún kæmi út aftur.
Mynd nr. 39. Camoens in Ice -- Akureyri [eða öllu heldur í Trékyllisvík]. Riley Brothers.
Ein af síðustu myndunum í syrpunni England to Iceland var kölluð Camoens in Ice -- Akureyri. Hún var meðal myndanna sem Fornleifur fékk frá Cornwall fyrr á þessu ári og er tölusett sem nr. 39.
Það má þó teljast næsta öruggt að myndin sé ekki frá Akureyri eða Eyjafirði. Spurningin um fjörðinn sem myndin er tekin á var borin undir lesendur Fornleifs í gær. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur, sem er manna fróðastur um Strandir, áleit til að byrja með að myndin væri tekin á Ingólfsfirði (sjá hér). Hann hafði þó samband við Guðmund Jónsson fyrrv. hreppstjóra í Munaðarnesi, sem þekkir einnig vel til á þessum slóðum, sérstaklega frá sjó, þó hann sé nú fluttur á Grundarfjörð. Guðmundur, taldi víst að myndin væri tekin í Trékyllisvík og tekur Haukur Jóhannesson heils hugar undir það. Haukur ritaði mér eftir að þessi grein hafði birst: "Ég er búinn að bera myndina undir Guðmund á Munaðarnesi. Hann segir að myndin sé tekin á Trékyllisvík og það er rétt þegar betur er að gáð. Skipið hefur verið undir bökkunum innan við Krossnes og það sést yfir Melavíkina og upp á Eyrarháls. Haugsfjall er á sínum stað og Eyrarfjall en hægra megin sést í Urðanesið undan Urðartindi milli Melavíkur og Norðurfjarðar. Þetta er alveg örugg greining."
Fornleifur tekur einnig undir þetta og þakkar hér með Hauki og Guðmundi fyrir alla hjálpina í leit að hinu sanna um myndina af Camoens. Camoens var þarna í ísnum í Trékyllisvík og ekki á Akureyri eins og kaupendur myndanna fengu að vita árið 1887. Líklega er þessi mynd tekin á sama tíma og þessi mynd á pappír sem ég veit ekki hver tók, en líkast til voru það Burnett eða Trevelyan:
Höfundur og sýningarstjóri: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson (og Fornleifur)
Ísland í töfralampanum 1. hluti
Ísland í töfralampanum 2. hluti
Fornleifur heldur áfram sýningum á Íslandsmyndum sínum innan skamms, en óskar lesendum sínum góðrar nætur, þegar þeir hafa loks komist í gegnum þennan hluta Íslandskynningarinnar frá 19. öld.
Gamlar myndir | Breytt 14.5.2021 kl. 08:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)