Færsluflokkur: Fornleifar

Einstök fornleifarannsókn á Seyðisfirði

Vefnaður Seyðisfjörður

Mönnum er enn í fersku minni skriðuhamfarirnar á Seyðisfirði 18. desember 2020, þegar skálin í fjallinu utanvert í byggðinni á Seyðisfirði sunnanverðum tæmdi sig að hluta eftir fordæmalausar rigningar - sem væntanlega má tengja heimshitnun.

Miklar eyðileggingar urðu á mannvirkjum og menningarverðmætum, en mikil ólýsanleg mildi var að ekki varð manntjón. Þrátt fyrir margir íbúar hafi verið fluttir frá hættusvæði sem skilgreint var, voru á þriðja tug manna á svæðinu þegar aurskriðurnar féllu. Má segja að tilviljun og Guðs mildi (ef hann má yfirleitt nefna) hafi orðið þeim til bjargar.

Vegna ráðstafanna til að hamla frekari skriðuföllum, var svæðið rannsakað af fornleifafræðingum undir stjórn Ragnheiðar Traustadóttur frá fornleifafræðistofunni Antikva ehf. Undir aurnum komu fljótt í ljós gamlar bæjarrústir frá því á  landnámsöld fram til 1100, sem og frá yngri tíma, t.d. mylla og í kaupbæti happaþrennuvinningur fornleifafræðingsins sem á þessu verstu og hættulegustu tímum er forn kumlateigur; fjögur kuml þar með talið bátskuml. 

Sumrin 2021 og 22 hefur Ragnheiður rannsakað svæðið með dugmiklum hóp. Frábærir fundir hafa komið í ljós undir skriðunni miklu sem féll þ. 18. desember 2020. Rannsóknin og aðferðir Ragnheiðar eru til fyrirmyndar og gerir gamla fornleifafræðinga sem ekki grafa nema hér á Fornleifi græna af öfund.

Fornleifur kallinn hefur haft tök á því að fylgjast með á FB síðu rannsóknarinnar og FB Ragnheiðar, sem hann réði til starfa til Þjóðminjasafns sem verkefnasérfræðing. Þar ílentist hún ekki frekar en svo margt annað gott fólk.

Ekki síst hafa þrívíddarmyndir af fornleifunum sem gerðar voru með aðstoð sambýlismanns Ragnheiðar, dr. Knut Paasche, sem er fornleifafræðingur og vinnur í rannsóknarstöðu hjá NIKU (Norsk Institutt for Kulturminneforskning) vakið verðskuldaða athygli. Skoðið þær á FB rannsóknarinnar.

Næla Seydisfj

Mesta athygli forstöðumanns Fornleifs vakti þó spennandi haugfé kumlverjanna. Ragnheiður sýndi alþjóð meðal annars forláta tungunælu úr gröf konu og gat sendisveinn Fornleifssafns fljótt sagt að hún væri í Borre-stíl (sem Kristján Eldjárn kallaði Borró-stíl), einum af stílbrigðum sögualdar (víkingaaldar), og sýnt að álíka eintak er til á British Museum (sjá frekar hér)  sem safnið keypti árið 1990 af Lord Alistair McAlpine heitnum (síðar Baron of West Green, sem um tíma aðstoðarmaður Margaret Thatcher), sem og önnur (eftirlíking) til sölu á netmarkaðinum ETSY.  

Næla Alistair McAlpines

Nælan, sem British Museum keypti af aðstoðarmanni Margaret Thatcher (verð er ekki gefið upp). Hún virðist steypt í nær sams konar mót og nælan frá Seyðisfirði og festingar aftan á eru á sama stað á báðum gripunum. Nælan er 9,7 sm. að lengd. Mynd British Museum. Fyrir neðan: Eftirlíking seld á netinu.

316203999_2689161991217958_6006833648923082009_n

Merkar perlur, ásamt nælunni sýna í fljótu bragði svipaða mynd og Bjarni Einarsson dregur úr jörð á Stöðvarfirði, en líkt og þar hefur ekki komið upp einn einasti gripur undan skriðunni sem er eldra en um 850 e.Kr. Það er því varla nokkuð landnám fyrir landnám á Seyðisfirði frekar en á Stöð Bjarna Einarssonar, enda það fyrirbæri hálfgert skriðufall og grillufang í íslenskri fornleifafræði eins og Keltafárið sem Fornleifur hefur ritað um í tveimur nýlegum færslum.

Brot úr forláta silfurhring er einnig meðal haugfjár og forláta perla með gullþynnu sem verið er að greina af færustu sérfræðingum Norðurlanda. Jafnvel held ég að þarna sé "Auga Allah perla",  sem voru komnar í umferð á Íslandi og fannst ein slík í Stöðvarfirði. En sú perla kemur hvorki Allah né Arabíu við líkt Stöðvarmenn ímynda sér (sjá hér). Handverksmenn víkingaaldar kunnu ýmislegt fyrir sér í perlugerð og sörvin voru ekki aðeins borin að konum. Karlar á Íslandi báru mjög gjarnan perlur og hana nú.

245636665_172913585041735_4676844868672351315_n

perlekjede-scaled

Perla með gullívafi

Úrval af perlum frá Seyðisfirði. Neðsta perlan, sem er sýnd hér mikið stækkuð, er melónulaga perla með innlagðri gullþynnu. Ljósmynd. Antikva ehf./Fjörður-Seyðisfjörður fornleifar (FB).

Aðaldýrgripurinn (sjá myndina efst við þessa grein), sem fundist hefur við rannsóknir Ragnheiðar Traustadóttur og hennar hóps eru vefnaðarleifar sem fundust í einu kumlanna undir aurnum. Það er einstakur fundur á Íslandi, og þó víðar væri leitað. Enn er verið að rannsaka þær leifar og sér Ulla Mannering textílfræðingur við Þjóðminjasafn Dana m.a. um þær rannsóknir og ætla ég því lítið frekar að tjá mig um vefnaðinn. Ulla Mannering gat varla með orðum lýst ánægju sinni með að vera með í verkefninu á Íslandi er ég hringdi í hana í gær. 

Ein af þeim eðalpjötlum sem fundist hafa í einum af kumblunum eru leifar af ofinni flík (kyrtli?) sem greinilega hefur verið blár upphaflega. Fagur spjaldofinn renningur  gulum og rauðum lit er saumaður á kant klæðisins. Mynstrið minnir á norskan spjaldvefnað frá víkingaöld og mynstur á t.d. kúrdískum teppum síðar meir.

315963809_20fiördur hluti af vefnadi

Betra getur það því ekki orðið, og fornleifafræðingur vart orðið heppnari en Ragnheiður Traustadóttir - þó fornleifafræðin fjalli ekki um að detta í lukkupottinn og finna fjársjóði, líkt og halda mætti að hafi í raun og veru gerst þegar þessi rannsókn vindur upp á sig. Ragnheiður er vel að þessari lukku kominn, enda dugnaðarforkur hinn mesti. Engin yfirnáttúruleg fjölkynngi eða dómadags rugl einkennir fornleifafræðistörf hennar. Ég óska henni farnaðar við áframhaldandi rannsóknir.


Erlendur aftur genginn

193315880_10225666637510904_1084081600680305205_n

Hulda Björk Guðmundsdóttir fornleifafræðingur, kennari og hundasérfræðingur hefur undanfarnar vikur verið að grafa sig niður í bæjarhauginn á Árbæjarsafni. Á fasbók sinni sýnir hún fólki myndir af áhugasömu sauðfé, sem horfir furðu lostið upp á mannfólkið grafa ofan í jörðina í stað þess að bíta hina safaríku tuggu sem þarna vex ofan frjósamri torfunni.

Meðal glápandi sauðpeningsins er Erlendur afturgenginn, athyglissjúkur þríhyrndur hrútur með mórauðan sauðasvip. Ég leyfi mér að rupla mynd Huldu af Erlendi.

Hraðskreitt og ólygið andaglas Fornleifs, sem eitt sinn átti amma dr. Bjarna F. Einarssonar, segir mér ítrekað að þarna sé genginn aftur hrúturinn Erlendur sem Fransmenn keyptu og fluttu úr landi á 18. öld ásamt ánni Vigdísi (með ærinni fyrirhöfn) og hundinum Snata, sem síðar breytti nafni sínu í Seppý. Erlendur endaði líf sitt í París og lenti í mikilli kássu sem borin var fram í Bastillunni, eftir að hann hafði verið frægur pinup-hrútur í dýrafræðibókum í Frakklandi. Endalok Vigdísar voru, samkvæmt nýjustu rannsóknum mínum, meira á huldu, enda var hún heldur engin kótiletta lengur, þegar hún sneri aftur í Sauðlauksdal eilífðarinnar eftir farsæl fyrirsætustörf í Frans.

Myndin hér fyrir neðan er úr hrútakofa Fornleifssafns, ásamt öðrum fornum dýrafræðimyndum af Íslendingum og fé þeirra. Sjá enn fremur hér.

Hruturinn Erlendur b


Birtir nú til á Stöng? Eg er mjög efins

1204093 Stöng breytingar árið 2020

Mikið er nú hægt að koma mörgu röngu frá sér í einni frétt. En ég veit vitaskuld ekki, hvort það er við blaðamanninn að sakast, eða þá sem ætla nú að reisa einhvers konar gróðurhús yfir skálarústir á Stöng.

Tveir skálar, en ekki einn líkt og segir í fréttinni, eru undir núverandi þaki yfir rústum á Stöng í Þjórsárdal. Ég hef rannsakað báðar rústir að hluta til með góðu aðstoðarfólki og þekki því manna best ástand rústanna. Þriðji skálinn, sá elsti, liggur að hluta til undir skýlinu frá 1957, og nær undir rústir smiðju og kirkju sem eru austan við skálann.

Lenging byggingarinnar frá 1957 til austurs kemur hugsanlega í veg veg fyrir vatnsstraum inn í aðalrústina. Vandamálið með vatnslekann inn í rústina er að austurgaflinn á skýlinu hefur verið óþéttur, gluggar opnir og brotnir af mönnum og öðrum skepnum, og þekjan lek. Þar sem Þjóðminjasafnið ákvað á síðustu árum Þórs Magnússonar, með beinni fyrirskipun hans, að hætta við viðgerðir á skálunum og verndun á rústunum sem þó skiluðu góðum árangri, hefur ástandi ekki batnað. Aldrei var lokið við viðgerð austurgaflsins, sem þó var búið að gefa velyrði fyrir árið 1994. Þess vegna lekur þar enn inn, meðan að vandamálið hefur stórbatnað annars staðar eftir endurbætur undir stjórn minni og Guðmundar Lúters Hafsteinssonar arkitekts. Hér má lesa um viðgerðir á Stöng 1994 og 1996.

Bærinn á Stöng lagðist ekki í eyði árið 1104

Fréttin upplýsir að bærinn á Stöng hafi farið undir ösku árið 1104. Þetta er alrangt. Minjastofnun fer með rangt mál. Askan, eða réttara sagt vikurinn út 1104-gosinu hefur verið talsverður en íbúar fjarlægðu hann. Búið var áfram á Stöng fram yfir aldamótin 1200. Yngstur skálanna tveggja, sem undir skýlinu eru, var reistur eftir gos í Heklu árið 1104. Vikur og gjóska úr gosinu finnst í veggjum og í gólfi skálans. Furðu má sæta að Minjastofnun viti aðeins um einn skála.

Ágætt er að lokið sé við aðhlynningu á rústunum sem hófst árið 1992, en hugmyndin um að setja plast á þakið er út í hött. Ég veit ekki hvort að nægilega sterkt bylgjuplast sé til, til að halda snjóþunga sem oft gat verið nokkuð mikill áður heimshlýnun varð. En ég vona að yfirmaður Minjastofnunar sé ekki farin að hugsa og sjá eins og Greta litla Thunberg. Veðrið er ekki orðið svo miklu betra en fyrir 25 árum síðan. Plastþak mun hins vegar örugglega skapa gróðurhúsaáhrif á Stöng og öll fræ munu spíra vel undir gegnsæju plastþaki. Skýlið yrði að eins konar gróðurhúsi.  Minjastofnun yrðu öll að fara í árlegan burknaskurð. Það verður að halda jafnvægi í raka rústarinnar og það gerist ekki með plastþaki. Á mjög heitum sumrum munu (æ færri) ferðamenn sjá hálfskrælnaðar rústirnar á Stöng undir gegnsæju plastþaki.

Myndin sem útbúin hefur verið með framkvæmdaáætlun er með bakgrunn úr Google Earth. Gróðurfar á Stöng í dag er allt annað en sést á hugmyndinni. Allt er að kafna birkihríslum, sem menn hafa verið að planta alveg upp að hlaði á Stöng í Þjórsárdal, meðan þeir beita sauðfé og hestum á laun á uppgræðslu Landgræðslunnar, sem tugmilljónir króna hafa verið settar í, m.a.flugsáningu og áburðardreifingu.

94643070_10222132050068427_5190437272494800896_n

Stöng er að hverfa í haf af gróðursetningarátaki heimamanna, sem hefur farið algjörlega úr böndunum. Plantað hefur verið í rústir umhverfis bæjarhólinn og lög því brotin. Ljósm. Hulda Björk Guðmundsdóttir fornleifafræðingur og drónaflugkappi (2018).

95151639_10222132050868447_7637207148056805376_n

Ósamræmi og rangfærslur eru í skilti Minjastofnunar við rústir á Stöng. Ljósm. Hulda Björk Guðmundsdóttir fornleifafræðingur og drónaflugkappi (2018).

Ljósi punkturinn

Það ánægjulegasta fyrir þessa nýju viðleitni Minjastofnunar fyrir Stöng, nú þegar ferðamannaiðnaðurinn er dáinn af Kórónaveiru, er að stofnunin hefur greinilega slakað á draumsýnum sínum. Árið  voru menn í taumlausu fyrirhrunsæði og ætluðu að reisa Snobbhillvillu ofan á rústunum. Það var stórkostuleg skemmtisaga sem lesa má um hér og hér Efnt var til samkeppni og kostnaðurinn var áætlaður - haldið ykkur reipfast: 700.000.000 krónur. Ef þjóðin hefði verið rukkuð fyrir þá arfavitleysu, átti að standa sjöhundruðmilljónkróna á ávísuninni frá íslenskum skattgreiðendum, sjá hér. Mér var sagt að það ætti ekki að vera ferðamannaiðnaðurinn sem borgaði fyrir þær framkvæmdir. Sá iðnaður verður væntanlega heldur ekki aflögufær við bætur á Stöng nú, þó þangað sé beitt tugþúsundum ferðamanna, í rútu eftir rútu eftir rútu eftir rútu...

Vonandi kemst framkvæmdaráætlunin nú fyrir á stærri pappír en þá tvo pappírsmiða sem áætlunin fyrir 700.000.000 króna framkvæmdinni var skrifuð á. Og vonandi get ég fengið að sjá nýju áætlunina svo ekki verði úr því ný upplýsingamálskæra eins og síðast þegar mér var synjað um aðgang að framkvæmdaráætlun (sjá hér og hér)

horft_til_nor_urs

Sólin skein úr norðri á ákveðnu tímabili á Íslandi. Hér sést vinningstillagan að viðgerðum á Stöng. Hvergi er minnst á hana lengur, en fyrir verðlaunin hefði reyndar verið hægt að gera ýmislegt fyrir rústir á Stöng.

Að lokum tvær spurningar sem mig langar að fá svör við:

Hvað mikið borgar hinn blómlegi ferðamanniðnaður fyrir fyrirhugaðar framkvæmdir á Stöng nú? Fer ekki mest af arði í þeim iðnaði í eigin vasa sem líklega tæmast ört nú? Jú, kæru landar - hvorki Ísland né Íslendingar taka breytingum frekar blessuð sauðkindin. Minjastofnun jarmar eins og aðrar stofnanir á beit og hugsar ekki langt fram í tímann.


mbl.is Endurbyggja á Stangarskálann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var Ok

Reinheimenski-1024x683

Hér um daginn, þegar mannfræðihjú frá þriðja flokks háskóla í Texas voru með fjölmiðlasjó og útför við Okið, í fylgd Andra Snæs Magnasonar umhverfissinna og sjálfan sig, var mér hugsað til Noregs.

"Og hvers eiga Norðmenn að gjalda", spyrjið þið? Því er auðsvarað: Norðmenn þekkja, andstætt því sem gerist á Íslandi, muninn á jökli og íshettu (no: fonne sem er í raun sama orðið og fönnin okkar; Fonne-jöklar eru á ensku kallaðir ice-patches). Norðmenn hleypa heldur ekki hvaða fjölmiðlasirkus sem er upp á fjöllin hjá sér, t.d. mannfræðingum í fjársjóðaleit fyrir deildina sína heima í Texas með því básúna fávisku sína um jöklafræði, og bera til grafar jökul sem líkleg var aldrei jökull. Norðmenn rannsaka hlutina einfaldlega betur en menn virðast gera á Íslandi.

Tunic-after-conservation-1024x682

Kyrtill frá járnöld sem Landbreen-jökull hefur keflt. Ljósmynd Mårten Teigen, Kulturhistorisk Museum - Universitetet i Oslo. Lesið frekar hér um forngripi sem koma undan hlýskeiði því sem nú breytir jöklum í Noregi og annars staðar. 

Undan bráðnandi smájöklum Noregs og ísþekjum fjallstinda koma nú forngripir sem týnst hafa á 4000 ára tímabili, þegar jöklar byggðust upp og hörfuðu á víxl. Ísinn hefur varðveitt gripi sem menn týndu er þeir örkuðu um snævi þakin öræfin forðum á veiðum, lóðaríi eða ölvímu. Fyrr á tímum bjuggu menn lengra inni á öræfum en síðar og flestar afdalabyggðir í Noregi fóru svo að hverfa eftir að það kólnaði á sögulegum miðöldum á tímabili sem menn kalla Litla Ísöldin (ca. 1450-1900).

Norskir fornleifafræðingar hafa brugðist fljótt við og farið á svæði þar sem jökull er að hörfa á nútíma hlýskeiði (sem sumir telja fyrir víst að sé skapað af mannskepnunni, og hafa það fyrir trúarbrögð. Norskir fornleifafræðingar hafa tínt upp marga vel varðveitta gripi undan jöklum og snjóhettum, sem gerð eru góð skil á vefsíðunni https://secretsoftheice.com/ þar sem meðal annarra skrifar dugmikill danskættaður fornleifafræðingur, Lars Pilø að nafni, sem upphaflega er frá Sønderborg í Danmörku. Ég þekki lítillega til Lars þessa, þar sem hann las eins og ég fornleifafræði í Árósum. Þar lauk hann aldrei námi heldur fluttist til Noregs og lauk námi í Bergen, Einnig man ég eftir systur hans, Anne, sem var góðvinur tvíburabræðra sem bjuggu á sama gangi á stúdentagarði og ég í Árósi. Þeir lásu stjórnmálafræði. Einn tvíburanna kvæntist síðar góðri vinkonu konu minnar, en þær tvær eru einnig stjórnmálafræðingar. Svona er nú heimurinn lítill. ski_fra_reinheimen_fig04_stor

Línurit sem sýnir mismunandi stærð á "fonner" (smájöklum ice-patches) og jöklum á mismunandi tímum hlý- og kuldaskeið í Jötunheimum (Jøtenheimen). Skíðið frá Reinheimen (sjá efst) er frá járnöld. Sjá nánar hér. Við stefnum greinilega aftur á ástandið í byrjun og lok bronsaldar.

Fornleifafundur? við tind Oksins 2017

Nú aftur að Oki. Í september árið 2017 gengu félagar í FÍ hópnum "Næsta skref" á Ok, -  Félagi í þeim hóp er hinn góði drengur Sigurður Bergsteinsson, sem er starfsmaður Minjastofnunar Íslands. Hann skrifaði á FB um ferð sína á "fjallið sem var einu sinni jökull" eins og hann orðaði það á FB sinni. Það er þó stóra spurningin, hvort fjallið hafi nokkurn tíma verið eiginlegur jökull, eða réttara sagt að jökull hafi verið á fjallinu? Sigurður er, líkt og margir aðrir fornleifafræðimenntaðir menn, duglegur að horfa niður fyrir sig, fremur en fram á veg.Undan jökli

Og ég sem hélt að Siggi Bergsteinsværi hættur að reykja og kveikja í sinu vegna heimshitnunarinnar.Ljósmynd: Sigurður Bergsteinsson, birt á FB hans í September 2019.

Þess vegna fann hann í gönguferðinni árið 2017 skargrip í grjóturð skammt frá toppi Oksins. Þetta var glerhallur sem rammaður hefur verið í silfurumgjörð. Ekki var það falleg smíði og hafi líklegast týnst þarna af konu sem bráðnaði í hitanum er hún var þarna á göngu áður en félagarnir úr Næstu skrefum komu á staðinn.

Mér dettur í hug að spyrja Sigurð Bergsteinsson og Minjastofnun Íslands, hvor ekki sé hið besta mál að senda fólk út til að leita að leifum undan bráðnandi jöklum. Sigurður Bergsteinsson hefur þegar reynst stórtækur við forngripafund undan jöklum. Væri ekki tilvalið að láta Sigurð og minjaverði í héröðum þar sem jöklar eru enn til, ganga sér til heilsubótar í hvert sinn sem jökull bráðnar og deyr drottni sínum vegna synda Andra Magnasonar. Ef heppnin er með mönnum gætu þeir fundið heilfrosinn landnámsmann með vopnum og verjum sem skáka myndi íslíkinu Ötzy hvað varðar heimsfrægð - jú og ekki væri ónýtt á okkar tímum, ef upp úr klaka kæmi freðin fornkerling, vel rög, með belju í bandi. Hún myndi einfaldlega sigra heiminn.

En vinsamlegast flýtið ykkur hægt á Íslandi. Forfeður okkar í Noregi voru á hreindýraveiðum uppi á öræfum. Hreindýr hörfuðu oft upp á jökla til að vera laus við flugur og önnur sníkjudýr. Þar var auðvelt að veiða þau. Það voru líklega ekki miklar ástæður fyrir Forníslendinga að hætta sér upp á jökla.

Mannvistaleifar undan jökli og heimshitnun í dag

Nú er ég alveg viss um að HÍ fari að fjöldaframleiða fornísfræðinga til að sinna fornleifafundum undan jökli og snjóþekjum. En munum, Sigurður Bergsteinsson er frumherji slíkra fræða á Íslandi og menið sem hann fann sýndi óvenjumikið hlýskeið á fönninni á Okinu á okkar tímum, ekkert ólíku þeim sem áður höfðu breytt ásýndi Oksins eftir síðustu ísöld.

Þar með segi ég ekki, að hlýnun á okkar tímum geti ekki verið af mannavöldum. Ég er bara blendinn í trúnni og jafnan ekki auðtrúa. Ég væri líka viss um, að ég væri enn harðari á því að jöklabræðsla nútímans sé manninum að kenna (sérstaklega Andra Snæ), ef ég hefði komist með ranann í feita sjóði sem veita styrki til alls kyns rannsókna til að sanna heimshitnun af manna völdum. Það hefur Lars Holger Pilø ugglaust gert. Gegnt augljósum vitnisburði fornleifanna er hann gallharður á því að heimshitnun í dag sé einvörðungu af manna völdum (sjá hér). Gaman væri að vita hve mikið af rannsóknum Piløs, við hörfandi jökla í Noregi, eru fjármagnaðar af styrkjum til loftslagsrannsókna (les heimshitnunar). Persónulega finnst mér línuritið hér að ofan áhugaverðara en rannsóknir sem stundaðar eru eftir fjölmiðlaútfarir á löngu liðnum jöklum.

Að lokum er hér norskt háfjallabíó. Poppkorn bannað:


Það er mikið "stöð" á Stöðvarfirði.

Studstod

Vinur minn í fræðunum, Bjarni F. Einarsson, reynir nú að fá styrki til sumarvertíðarinnar austur á landi. Vona ég svo sannarlega, að það takist hjá Bjarna. Þó ég sé alls ekki á því að það sé stöð sem hann sé að rannsaka, eins og ég hef áður gert grein fyrir hér og hér (þegar Bjarni fann fornan skáta með hjálp fjölmiðla) , er örugglega mikið "stöð" hjá Bjarna svo ég tali tæpitungulausa málísku af þeim slóðum sem Bjarni grefur nú á . Nú hefur Bjarni í endalausri baráttunni við að fá fjármagn náð í auðtrúa þáttasmið á RÚV og sagt honum frá hugsmíðum sínum. Menn getað hlustað á það hér.

Bjarni talar í viðtalinu um Sama. Vitaskuld voru forfeður nútíma-Sama á meðal landnámsmanna á Íslandi og ekki bar "meðeim". Það kemur fram í ritheimildum og í samsetningu fornleifa ´á Íslandi. Beinamælingar Dr. Hans Christians Petersens, sem nú er prófessor við Syddansk Universitet. Niðurstöður Hans hef ég t.d. greint frá hérhér og hér, sem og í fræðigreinum erlendis, sýna það tvímælalaust. Landnámsmenn á Íslandi eru einnig komnir af Sömum, og ekki í minna mæli en af fólki frá Bretlandseyjum, þótt tala fólks frá Bretlandseyjum hafi rokið upp úr öllu valdi vegna annmarka í rannsóknum á DNA nútíma-Íslendinga og genamengi þeirra til að segja til um uppruna landnámsfólks.

Þegar Bjarni fer hins vegar að ræða notkun glerhalls (chalcedony) og jaspis sem er dulkornótt afbrigði af kísil, SiO2, rétt eins og glerhallur (draugasteinn), og tinnan sem ekki er til á Íslandi. Bjarni telur að þessi afbrigði af kísil, sem og hrafntinna (sem er ókristallað kísilgler/rhýólít, þar sem hlutfall kísils er meira en 65-70% af þunga steinsins), hafi verið slegnar til og notaðar á sama hátt og tinnan erlendis, þá minnkar "stöðið" og "höndur" hleypur í forneifræðinginn sem þetta ritar.

19598874_753416268177792_2578636673802400045_n

Jaspismoli frá Stöð. Það var fínlegur skurður sem Samarnir eystra unnu við. Mynd af fésbók Fornleifastofunnar

Mjög auðvelt er að rannsaka, hvað steinar með ásláttarmerkjum  hafa verið notaðir til að skera í, skrapa eða skafa. Íslenskir steinar sem kollega minn Bjarni telur að hafi verið slegnir til að búa til verkfæri ættu að sýna til hvers, ef þeir eru skoðaðir með rafeindasmásjá;  Því ekki er aðeins hægt að sjá hvaða lífræn efni hefur verð skorin með meintum steinverkfærum á meintri steinöld Bjarna á stöðinni í Stöðvarfirði. Sömuleiðis er hægt að sjá hvaða lífrænt efni var skorið með tinnu eða málmi, með því að skoða amboðin undir smásjá. Ugglaust er einnig hægt að sjá það á íslenskum steintegundum sem eru "mjúkari" en erlend tinna. Í fræðunum heitir það að leita að merkjum eftir lífrænt efni á egg steinamboða, Diagnostic of Residues on Stone Tool Working Edges .

Hrafntinna, gjóskugler (Obsidian), er hins vegar og líklega harðari og einsleitari í uppbyggingu en venjuleg tinna, og því erfitt að sjá hvað hún hefur verið notuð til að skera í, skrapa eða skafa - en einhver merki hefur skurður í leður eða annan efnivið skilið eftir sig.

Þangað til sannanir á notkun íslenskra steina með meintum ásláttarmerkjum hafa verið birtar, hef ég aðeins eina vitræna skýringu. Steinarnir voru notaðir til að slá við við eldjárn til að fá neista.  Eldjárn voru kveikjarar síns tíma  og til að þeir virkuðu urðu menn að nota steina. Ég vona að einhver geti stutt Bjarna í að rannsaka þessa 300 steina sem hann telur hafa verið handleikna af frændum okkar Sömum. 

Fræðsluefni um notkun eldjárns. Fornleifur biðst afsökunar á "tónlistinni". Kannski ætti Vísindavefur HÍ að velta fyrir sér að skýra notkun eldjárna, þó svo að hugsanlega sé hætta sé á málsókn frá Þórarni.

Ég hef manna mest stungið upp á samíska hluta Íslendinga, en við sjáum hann ekki að mínu mati með ásláttutækni þeirri sem Bjarni segist sjá í 300 steinum á Stöð í Stöðvarfirði. Bjarni verður að gera sér grein fyrir því að Samar voru á tímum landnáms á Íslandi orðnir mjög slungnir málmsmiðir. Af hverju hefðu forfeður okkar sem voru Samar, farið til Íslands, viljugir eða nauðugir, til að leika sér að tinnu, þegar þeir voru harla góðir málmsmiðir?

Önnur spurning sem Bjarni verður að svara til að tilgáta hans haldi vatni og vindi, er stóra spörninginn um hvað menn voru að skrapa, skafa og skera í með örsmáum íslenskum steinum. Eins og Bjarni F. Einarsson skilgreinir stöð, þá komu menn frá t.d. Noregi og sóttu auðlindir sem þeir fóru með til Noregs. Hvaða auðlindir í hafi og á landi höfðu menn ekki í og við strendur Noregs, sem þeir vildu frekar sækja til Íslands, og "láta Sama, sem fengu að koma með," sitja og nostra við skrap, skaf og skurð í risavöxnum langhúsum. 

Skýringar óskast Bjarni F. Einarsson, áður en stöðið verður einum of geggjað. Skrapsamakenningu Bjarna F. Einarssonar verður að undirbyggja betur.

Sökum stærðar rústarinnar á Stöð sem Bjarni lýsir næstum því sem eins konar álveri, með mismunandi vinnslurýmum, þá tel ég hins vega mjög mikilvægt að hann hljóti góða styrki sem fyrst, svo hann verði ekki að grafa þarna fram á grafarbakkann.

Gefið Bjarna því styrk! Bjarni er listagóður fornleifafræðingur, þótt tilgáturugl hans gangi oft fram úr hófi. Óvenjuleg stærð eldri skálans í Stöðvarfirði er eitt og sér næg ástæða til veita vel í rannsóknina. Annars stöðvast gott og gegnt verkefni.


Nú fjölgar Þórshömrum ört : Kennslustund í fornleifafræði

Thors Hammer Bergsstadir 2018

Svo virðist sem að áður óþekkt bæjarrúst hafi fundist í Þjórsárdal. Hvort það er rúst sem áður hefur verið vitað um, skal ósagt látið, en ekki hefur verið gefinn upp staðsetning á hana opinberlega. Best er að hún fái frið.

Fréttir af fundi Þórshamarsins berast eins og eldur í sinu um heiminn allan. Nú síðast til Japan. Það er þó fyrst og fremst vegna þórshamarsins skornum úr sandsteini sem fannst er fornleifafræðingar fóru að róta á yfirborði rústarinnar sem hefur verið frekar stórt.

Flest rústanöfn í Þjórsárdal voru búin til og útskýrð/skírð og staðsett með mikilli óvissu á 19. og 20. öld, t.d. Brynjólfi Jónssyni og síðar af Jóhanni Briem og Gísla Gestssyni.  Þegar bæjarrúst sem nú er nákvæmlega staðsett, gangstætt því sem áður var, fær nafn núlifandi Þjórsdælinga og er kölluð Bergstaðir eftir Bergi Björnssyni á Skriðufelli, er það góð lausn í stað vangavelta um staðarnöfn sem 19. aldar menn og voru að velta fyrir sér.  Þess má geta að bróðir áhugafornleifafræðingsins Bergs, Björn Hrannar, vann eitt sinn við viðgerðir á Stöng með Víglundi Kristjánssyni hleðslumeistara og var hinn mesti dugnaðarforkur. Þeir bræður eru sannir Þjórsdælingar.

Ljóst er að þetta er rúst staðsett, svipað og margar aðrar rústir í dalnum, fremst við lítið fell. Hvort varðveisla rústarinnar er góð, er eftir að koma í ljós. Líklegt er a er mest allt upp blásið, rústað og runnið til. Kannski er einhver heillegur kjarni eftir undir uppblásturssprengdu yfirborðinu og því vert að rannsaka staðinn að hluta til til að sjá hvers kyns er.

Þórshamratal: Öxi var upphaflega Þórshamar

Ef fornleifafræðingarnir, sem nú vinna við fornminjaskráningu í Þjórsárdal fyrir sveitarfélagið þar, hefðu haft góða og almenna þekkingu á íslenskri fornleifafræði úr námi sínu í HÍ, vissu þeir, að Þórshamarinn eða Mjölnistáknið sem þeir fundu í  mannvistarleifum á bæjarhólnum sem Bergur Þór Björnsson fann, er ekki annar Þórshamarinn sem fundist hefur á Íslandi líkt og haldið var kinnroðalaust fram í frétt sjónvarpsins/RÚV.

Hann er sá fimmti og jafnvel sá sjötti. Með þessari grein er ekki ætlunin að fjölga Þórshömrum Íslands á innan við hálfum mánuði. Þeir eru einfaldlega fleiri en tveir! Greininni er aðeins ætlað að vera fræðsla fyrir fornleifafræðinga sem greinilega fengu ekki nægilega góða menntun við Háskóla Íslands eða úr öðrum menntastofnunum. Vonandi nýtist greinin einnig öðrum sem nenna að lesa hana.

1

Fyrsti Þórshamarinn sem fannst á Íslandi er ugglaust sá hamar sem sést á líkneskinu frá Eyrarlandi í fyrrv. Öngulsstaðarhreppi í Eyjafirði. Ég tel persónulega að líkneskið eigi að sýna Þór með Mjölni og sömuleiðis fjarstæðu að velta því fyrir sér, að þetta sé mynd af Kristi að kljúfa kross.

eyrarlands_or

Eyrarlands Þór (Þjms. 10880). Ljósm. Þjóðminjasafn Íslands.

2

Annar Þórshamarinn sem fannst á Íslandi er líklegast blanda af krossi og Þórshamri. Það er krossinn frá Fossi í Ytrihreppi í Hrunamannahreppi, sem ég tel persónulega að sé kross frekar en hamarstákn, þó svo að hann sé seldur sem minjagripur í alls kyns forljótum afmyndunum um allan heim sem þórshamar. Þjóðminjasafnið kallar hann hins vegar enn Þórshamar og því ber að fylgja því safnið er heimahöfn krossins. Í sýningarbæklingi frá 1992-93 fyrir stórar Víkingasýningar sem haldnar voru í stórborgum Evrópu, benti ég fyrstur manna á að krossinn ætti sér hliðstæðu í Noregi (sjá hér).

kross_foss_1110065

Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson


3

Þriðji hamarinn, sem er úr silfri, fannst í bátskumli í Vatnsdal í Patreksfirði, og hef ég m.a. gert honum skil í grein í hinni góðu bók Gersemar og Þarfaþing sem Þjóðminjasafnið gaf út árið 1994 (sjá hér). Gripurinn er án nokkurs vafa Þórshamar.

Vatnsdalur Þórshamar 2 sideLjósmynd Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

4

Fjórði þórshamarinn sem fundist hefur, fannst á Stöng í Þjórsárdal árið 1992. Hann var skorinn út á enda beinprjóns og fannst í fyllingu grafar frá 11. öld og gæti hæglega hafa komist í hana úr gólfi byggingar sem var á Stöng, sem byggð var skömmu eftir landnám í lok 9. aldar.

Gröfin sem prjónninn fannst í var grafin í gegnum gólfið á þeirri byggingu (sjá grunnteikningu hér fyrir neðan). Upphaflega túlkaði ég hamarinn sem öxi, þótt samstarfsamaður minn einn hefði haft það á orði að prjónninn hafi upphaflega rétt eins geta verið þórshamarlíki. Hamarinn er skorinn út sem höfuð á beinprjóni. Greinilegt var að prjónninn hefði í öndverðu getað hafa orðið fyrir hnjaski þannig að af honum brotnaði og hann leit upp frá því út sem öxi.

þórshamar Stöng d

Beinprjónn sem fannst á Stöng í Þjórsárdal árið 1992 og sem upphaflega hefur haft form Þórshamars. Prjónsbrotið var 6 sm langt er það fannst, en hefur styst nokkuð við forvörslu. Ljósmynd Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson.

Thorshamar Stöng 2 hlið
Eftir fund Mjölnis á Bergsstöðum, er ég nú orðinn fullviss í minni sök varðandi prjóninn sem fannst á Stöng 1992. Höfuð prjónsins var að því er ég hélt með axarlagi. En nú verð ég að breyta um skoðun. Það var brotinn Þórshamar sem fannst á Stöng. Form beinprjónsins frá Stöng, utan þess sem á vantar, er ekki alveg eins og annarra Þórshamra frá sama tíma á Norðurlöndum, en aftur á móti nákvæmlega það sama og Þórshamarsins frá Bergstöðum.

Best er heldur ekki að gleyma því að ég minntist á möguleikann á því að prjónninn sem fannst á Stöng hefði upphaflega verið Þórshamar í grein sem ég skrifaði fyrir hið víðlesna danska tímarit Skalk árið 1996 (sjá hér).

GrafarfyllingPrjónninn fannst í fyllingu grafarinnar sem gefinn hefur verið blár litur á þessari teikningu. Hann er vafalaust ættaður úr gólfi rústar sem merkt er með C á teikningunni, sem var hús byggt um 900. Ofan á það hús var reist smiðja (B) og ofan á smiðjunni var byggð kirkja (A) sem hefur verið fjarlægð að hálfu til að rannsaka hluta smiðjunnar.Samsettur hamar bTil gamans gert.

5

Fimmti þórshamarinn er nú nýlega kominn undir hendur fólks með hvíta hanska. Einnig var ranglega hermt í frétt á RÚV, að þetta væri eini þekkti þórshamarinn sem skorinn hefur verið í stein.

Hann er skorinn úr steini. Þórshamar hefur einnig fundist ristur í stein á Grænlandi (sjá neðar) og Þórshamrar hafa til forna einnig verið skornir úr rafi, sem er steingert efni. Einn slíkur hefur t.d. fundist í Hedeby (Haithabu) ásamt mynd af Þórshamri sem hefur verið ristur í stein (kléberg). Kannski er þessi fáfræði um Þórshamra lélegri kennslu í HÍ að kenna?

Hvíthanskahamar

Bergsstaðahamarinn. Ljósm. RÚV

Hedeby thorshamre

Þórshamrar fundnir í Hedeby í Slésvík.

6

Ef til vill er sjötti íslenski þórshamarinn kominn í leitirnar. Ég hafði í vikunni samband við Berg Þór Björnsson varðandi fund hans á rústinni í Þjórsárdal, sem er ekki langt frá Reykholti í Þjórsárdal, sem nú ber nafn hans. Hann sagði mér frá fólki frá Selfossi sem hafði fundið þórshamar við rústina í Sandártungu, sem var rannsökuð af vanefnum árið 1939.  Hún er austur af bænum Ásólfsstöðum.(Reyndar hefur sorphaugur við rúsina verið rannsakaður nýlega og telur Gavin Lucas einn af kennurunum við HÍ í fornleifafræði að íbúar í Sandártungu hafi ekki verið eins miklir kotungar og Kristján Eldjárn hélt. Sandártunga fór fyrst í eyði á 17. öld).

Hafði ég samband við Ragnheiði Gló Gylfadóttur fornleifafræðing sem vinnur við fornleifaskráningu í Þjórsárdal á vegum einkafyrirtækisins Fornleifastofnunar Íslands. Ragnheiður sendi mér þessar upplýsingar um fundinn frá Sandártungu er ég hafði samband við hana:

"Ég fékk þennan grip í hendurnar fyrir viku. Og hann er ekki líkur öðrum þórshömrum sem ég þekki. Ég er enn að skoða hann, hann er mjög lítill og mögulega hægt að tengja hann við börn á einhvern hátt. En ég er að skoða gripinn og túlkunin gæti breyst í því ferli."

Það verður spennandi og fræðandi að sjá hvað kemur út úr rannsóknarferli Ragnheiðar Glóar Gylfadóttur við að greina meintan Þórshamar úr Sandártungu. Þann hamar hef ég ekki enn séð.

Brattahlid vævevægt

Kljásteinn úr klébergi sem á hefur verið ristur Þórshamar. Gripurinn fannst við fornleifarannsóknir í Brattahlíð. Ljósm. NM, København.

Þess ber að geta að aldursgreining með Þórshömrum er annmörkum háð. Menn voru til að mynda að krota Þórshamra á hluti eftir árið 1000 e. Kr. á Grænlandi. Við rannsóknir í Bratthlíð á 7. áratugnum fundu fornleifafræðingarnir kljástein úr tálgusteini (klébergi) sem á hafði verið krotaður Þórshamar. Annað hvort hefur listamaðurinn í Brattahlíð verið að krota hamar sem hann vildi smíða sér, eða að einhvern íbúa Brattahlíðar, sem flestir voru orðnir kristnir að því að talið er, hefur lengst eftir gömlu goðunum sínum, heima á gamla landinu (Íslandi). Tel ég síðari möguleikann líklegri en þann fyrri.
 
Því miður er prjónninn frá Stöng í dag ekki lengur eins og hann var árið 1993, er ég fann hann og ljósmyndaði hann áður en hann var afhentur til forvörslu. Hann er t.d. orðinn styttri en hann var er hann fannst. Hann var enn í kæliskáp á þáverandi forvörslustofu safnsins árið 1996 er mér var bolað úr starfi á Þjóðminjasafninu. Síðar, bæði 2004 og 2011, bað ég um ljósmyndir af prjóninum sem við fundum á Stöng, og fékk loks senda afar lélega mynd, sem ég get ekki notað til neins, því hún er ekki í nægilega góðum gæðum til að birta hana. Best er ekki að sakast við forverðina, þeir gerðu bara það besta sem þeir gátu á illa reknu safni. Mynd af af prjóninum frá Stöng hefur enn ekki birst á Sarpi (sarpur.is).

Efnið í Þórshamrinum frá Bergsstöðum

Stöng brot bÞrjú sandsteinsbrot úr skálum eða kerjum, sem fundust í yngsta skálanum á Stöng árið 1983 og 1992. Brotin á efrimyndinni heyra saman. Lengra brotið lengst er 9,4 sm. Brotið á neðri myndinni fannst árið 1992 vestan við kirkjuna á Stöng kantbrot af skal/keri og er um 4.4 sm að lengd. Ljósmyndir Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Stöng kantbrot sandsteinn

Efnið, þ.e.a.s. sandsteinninn í Þórshamrinum frá Bergsstöðum, sýnist mér sömuleiðis vera það sama og í skál einni mikilli sem fannst í búrinu á Stöng árið 1939.

Skál úr búri Stöng 1939

Skál eða bolli úr fínkornóttu móbergi sem fannst í búrinu á Stöng árið 1939. Mesta þvermál bollans er 38,5 sm og hæðin er 14 sm. Myndin er úr bókinni Forntida Gårdar i Island frá 1943.

Þrjú brot úr grýtum úr svipuðu efni fundust við fornleifarannsóknir á Stöng árið 1983 og 1984. 

Reyndar hafa einnig fundist á Stöng og víðar brot af írskum eða enskum sandsteini (Lithic Arenite) sem voru notaðir sem hverfisteinar og brýni. Þeir bera sama lit, en eru úr miklu harðari steini og innihalda kvarts-kristalla sem þessi steinn gerir ekki. Sandsteinninn í brýnunum og hverfisteinunum er miklu harðari og hentar ekki til þess að skorið sé í þá.

Ég leyfi mér því að halda að steintegundin í hamrinum sé úr nágranni fundarstaðarins og að efnið í hamrinum sé sandsteinsset sem steypst hefur inn í móberg við gos undir vatni eða ís. Líkt efni er t.d. í steinkistu Páls Biskups Jónssonar í Skálholti.


Þjórsárdalur var yfirgefinn í áföngum og lagðist ekki í eyði árið 1104

Þjórsárdalur á sér fullt af leyndarómum, sem almenningur virðist ekki hafa haft miklar spurnir af, þrátt fyrir mikið erfiði við að halda því í frammi. Ógurlegur ferðamannaiðnaðurinn sem nú tröllríður íslensku efnahagslífi á vissan hátt í að breiða gamlar dogmur úr. 

Í stuttu máli sagt þá fór dalurinn  ekki endanlega í eyði í miklu Heklugosi árið 1104.  Þetta sýndi ég fram með rannsóknum á aldri ýmissa forngripa sem fundist hafa á Stöng í Þjórsárdal, fjölda kolefnisaldursgreininga kolefnisaldursgreiningum og afstöðu gjóskulaga á 9. áratug síðustu aldar. Síðan hafa aðrir fornleifafræðingar og jarðfræðingar komist að sömu niðurstöðu og ég en um leið reynt að rúa höfund þessarar greinar heiðrinum fyrir þessari tilgátu minni um áframhaldandi byggð í Þjórsárdal eftir eldgosið 1104, sem á sínum tíma var vægast sagt ekki öllum um geð (sjá hér, hér og hér).

Sumir bæir á Þjórsárdalssvæðinu fóru í eyði fyrir 1104, aðrir eftir gosið og enn aðrir, líkt og Stöng, rúmum 100 árum eftir að gosið átti sér stað. Staðsetning bæjanna hafði mikið að segja um hvort byggð lagðist af í gosinu 1104 eða ekki. Uppblástur í hluta dalsins var engu síðra vandamál fyrir frumbyggjana þar en eldgosin.

Annar leyndadómur Þjórsárdals er að íbúar í dalnum á mismunandi tímum voru harla náskyldir hvorum öðru, og voru það greinilega þegar í Noregi. Þetta kom árið 1993 fram við mannfræðirannsóknir dr. Hans Christians Petersen (sem nú er prófessor við Syddansk Universitet) í verkefni sem við unnum saman að. Miklar líkur er á því að íbúar dalsins hafi að verulegum hluta átt ættir að rekja til nyrðri hluta Noregs. Um það er hægt að lesa í ýmsum greinum hér á Fornleifi.

Í Þjórsárdal voru menn völundarsmiðir og það vekur furðu hve oft sömu gerðir af fornminjum finnast í dalnum með sama skreytinu (sjá hér). Margar rústanna í dalnum eru með sama lagi, hinu svo kallaða Stangarlagi, sem er þó hin yngsta gerð af skálum sem reistir voru í dalnum og líklega ekki fyrr en um og eftir 1100.


Góði hirðirinn í Fellsmúla og lélegi hirðirinn við Suðurgötuna

1051644

Fréttir (sjá hér og hér) herma að Þjóðminjasafnið hafi fengið plastkassa frá Góða Hirðinum/Sorpuversluninni í Fellsmúla fullan af forngripum úr bronsi, járni og gleri, sem einhver skilaði af sér í Sorpu í nytjagám. Góði hirðirinn hirti góssið en glöggir sérfræðingar þeirra sáu að Þjóðminjasafnið ætti líklega frekar að fá gripina sem lent höfðu í nytjagám Sorpu í Kópavogi.

Einn ágætur starfsmaður Þjóðminjasafns  Íslands hefur nú sýnt þessa gripi Morgunblaðinu og Ríkissjónvarpinu en virðist greinilega ekki vita rass í bala um það sem hann hefur á milli handanna.

oexi goda hirdisins

Hann talar um að sumir gripanna geti verið frá miðöldum, t.d. öxin. Að tala um spjót úr bronsi frá miðöldum líkt og hann gerir er álíka og þegar bandaríski fornleifafræðingurinn sem er giftur ruðningsboltafréttamanninum í BNA taldi sig hafa fundið danska koparmynd frá lok Víkingatíma í Skagafirði (koparmynt var aldrei slegin í Danmörku á þeim tíma). Hann hafði reyndar fengið smá "hjálp" hjá myntsérfræðingi Seðalbanka Íslands, sem er eins og allir vita stofnun sem ekki þekkir aura sinna ráð.

s-l1600

Þessi öxi var til sölu á eBay. Kemur frá Úkraínu.

Það virðist nú greinilegt að starfsmenn Þjóðminjasafns Íslands hafa aldrei lært neitt um gripafræði rómverskar eða keltneskar járnaldar (keltneska járnöld kalla Danir stundum ældre romersk jernalder). Spjótsoddar þeir sem í kassanum fundust eru frá því um Krists burð eða skömmu síðar og öxin er af gerð sem notuðu var víða, en þó mest Mið-Evrópu. Slíkar fornar axir er í dag reyndar hægt að kaupa á eBay fyrir 100 bandaríkjadali. Þegar á bronsöld á áttundu öld f.Kr. var þessi gerð af flatöxum notuð í Evrópu, en síðar var farið að framleiða þær úr járni. Sú gerð sem hent var á haugana á Íslandi ver í notkun á frekar löngu tímabili, eða frá ca. tveimur öldum fyrir Krists burð fram á 1. öld eftir Krists burð.

56842971_2_x

Þessi öxi kom úr safni bresks safnara og var nýlega seld á uppboði.

Að mínu mati má telja líklegt að þessir gripir hafi komið frá Miðevrópu hugsanlega Póllandi eða Litháen.

Góði Hirðirinn og Sorpa sinntu skyldum sínum og sýndu frábæra árvekni, en Þjóðminjasafnið sýnir enn og aftur allt annað en afburðahæfileika. Safnið verður aldrei betra en starfsfólkið. Safnið ætlar að bíða þangað til einhver gefur sig fram sem eiganda þessara gripa;

"Við förum nú ekki í rannsóknir á þessu að svo stöddu"

eins og starfsmaður Þjóðminjasafnsins orðaði það í sjónvarpsfréttum 9. júní 2018. Já hvers vegna að afhjúpa vanþekkingu sína í einni svipan? Þetta er uppgjöf í beinni.

En það er tvímælalaust hlutverk Þjóðminjasafnsins að svara spurningum um þessa forngripi og nú þegar. Ef þeir eru ekki frá Íslandi, sem er afar ólíklegt - en er auðveldlega hægt að komast úr skugga um - ber safninu skylda að ganga úr skugga um hvaðan þeir eru ættaðir, svo ekki komist á kreik gróusögur um að þetta séu fornleifar frá "landnáminu fyrir landnám", sem mörgum manninum er svo hjartnæmt. Nú þegar eru  fjölmiðlar farnir að tala um að gripirnir gætu "sumir hverjir verið frá fyrstu öldum Íslandssögunnar" og hafa það eftir fornleifafræðingi á Þjóðminjasafni Íslands.

En ef þessi "fundur" úr Sorpu, líkt og ég held, hafi verið eign eins margra þeirra ágætu Austurevrópubúa sem sest hefur að á Íslandi, sem hugsanlega er látinn eða fluttur á brott, þá geta menn orðið að bíða heldur lengi eftir dæma má út frá þeirri aðferð sem starfsmaður  Þjóðminjasafnsins ætlar sér að nota: Að fara ekki rannsóknir á þessu að svo stöddu.

Keðjan sem fannst er alls ekki nokkurra áratuga gömul eins og haldið var fram á RÚV, og er hvorki úr Bauhaus eða Húsasmiðjunni. Glerið sem var í plastkassanum þarf ekki að vera úr lyfjaglasi. Það gæti allt eins verið úr rómversku glasi, til að mynda glasi fyrir ilmvötn.

Mér þykir líklegt að gripirnir séu ekki allir frá sama stað eða nákvæmlega sama tíma. Ég útiloka það þó ekki.


Áður en menn haldnir keltafári og ranghugmyndum um elstu sögu Íslands fara að ímynda sér að hér sé komið í leitirnar haugfé fyrir einn af leiðangursmönnum Pýþeasar frá Massalíu sem borinn var til grafar í Kópavogi, að þetta séu leifar eftir Rómverja eða jafnvel eftir Krýsa, góðkunningja Íslendinga úr bjánasagnfræði sjálfstæðisbaráttunnar -  svo ekki sé talað um lyklana að skírlífsbeltum Papanna og vopn þeirra, þá leikur enginn vafi á því skv. lögum, að það er algjör skylda Þjóðminjasafns Íslands að rannsaka þessa gripi og miðla fræðilegri þekkingu um þá. Safninu ber að hirða um þá fljótt og samviskusamlega líkt og starfsmenn Góða hirðisins/Sorpu gerðu, er þeir komu gripunum strax til Þjóðminjasafnsins, sem þeir héldu að hefði sérfræðiþekkingu til að upplýsa hvað þeir hefðu á milli handanna. En kannski er bara orðið betra að fara með fornleifar beint í Góða hirðinn  þegar þekkingin og áhuginn eru í algjöru lágmarki eins og raun ber vitni ?

Plastkassinn, sem gripirnir fundust í, gæti einnig veitt svarið við spurningunni um uppruna eiganda gripanna. Ekki sýnist mér hann vera úr Ikea, Bauhaus, Hagkaup, eða Húsasmiðjunni. Reyndar sýnist mér að á kassanum standi Plast Team, en það eru danskir kassar, sem seldir hafa verið á Íslandi. En þeir eru helst framleiddir í Slupsk í Póllandi. Nú verða menn því að vinna fyrir laununum sínum á Þjóðminjasafninu. Miðinn á kassanum gæti verið hjálplegur.

Kassinn


Dysnes, Dalvík og Dys

DMR-160516 2

Mjög ánægjulegt var í sl. mánuði að fylgjast í fréttum með rannsókn á kumlateignum við Dysnes í Eyjafirði. Það er enn án nokkurs vafa fundur sumarsins og skákar hann útstöðinni sem byggð hefur verið fyrir landnám í höfði dr. Bjarna F. Einarssonar.  Á Dysnesi voru rannsökuð bátskuml, því þar vilja hugaróramenn sem dreymir vota drauma um heimshitnun reisa alþjóðlega höfn þar sem Eyfirðingar geta gerst auðmjúkir þjónar þeirra sem sigla um ísfrí norðurhöf framtíðarinnar.

DMR-164262 2

Þótt fréttir væru fullar af kjaftæði, t.d þess hljóðandi að Dysnes væri eins og allir aðrir minjastaðir við ströndina, að fara á kaf eða brotna í sjó fram af öldugangi, er ljóst að þessi staður var alls ekki í neinni hættu af náttúrunnar völdum.

Eina hættan sem steðjaði að honum, áður en fornleifafræðingar fundu kumlateiginn, var græðgi manna sem sjá gull og græna skóga í hafnarstæði sem mun endanlega gera út af við allt líf í Eyjafirði.

Fréttinni af kumlunum sem voru í hættu var svarað fjálglega af pólitískum amlóða úr vinstrigrænum sem hrópaði í fjölmiðlum að fornleifafræðinga (les: sjálfseignar- og einkafyrirtækið Fornleifastofnun Íslands) vantaði 300.000.000 króna til að skrá allar strandminjar á Íslandi. Menn komast greinilega í einhverja vímu á sumrin. Ungstalínistinn úr VG, sem hefur látið sig heillast af fornleifabissness, vill láta ríkið gefa prívatfyrirtæki úti í bæ skitnar 300.000.000 til að hægt verði að reisa fullt af höfnum við heimskautabaug án þess að rekast á fornleifar. Já, þegar RÚV flytur aðeins fréttir af Pútín, Trump og örfáum gargandi vitlausum múslímum í gúrkutíðinni, kæta fornleifafræðingar fréttastofurblækur með hverri sensasjóninni á fætur annarri.

Kumblin á Dysnesi eru reyndar hinar áhugaverðustu fornleifar og verður spennandi að bíða þess hvað fæst úr frekari rannsókn á bátskumlunum, sem í æsingi leiksins urðu að skipakumblum hjá blaðamannasauðunum syðra. Kumlin minna mjög á kuml frá 9. og 10. öld í Norður Noregi, og á skosku eyjunum sem og í Sebbersund við Limafjörð í Danmörku.

DB83vLMXgAEZVVp

Ég skoðaði fallegar uppgraftarmyndir frá rannsókninni á Twitter-síðu Hildar Gestsdóttur sem ber sama nafn og varða ein forn sem vísaði mönnum leið yfir hálendið fyrir langalöngu. Beinakerling heitir síða nútímafornleifafræðingsins Hildar, og vísar víst til kunnáttu hennar í sjúkleika beina, en forðum bar varðan Beinakerling annað nafn sem var anus (í kvenkyns beygingu). Mig klæjaði í fingurna þegar ég sá myndirnar á anusi Hildar og gladdist yfir því hve miklu betur Hildur grefur en afi hennar hann Gísli frá Hala gerði. Ég minntist einnig Dalvíkurkumlanna sem fundust ekki langt fjarri fyrir 108 árum síðan og voru rannsökuð af danska liðsforingjanum og landkönnuðinum Daniel Bruun.

DCTNsTcXcAELYwr

Myndin efst á þessu bloggi sýnir burstadreng Daniels Bruuns, líklega strák frá Dalvík, sem hefur fengið heiðurinn að vinna við merkan fornleifagröft. Hann komst þó aldrei í blöðin. Nú var Bruun ekki fornleifafræðingur en kunni samt dável til verka og árangurinn af því þekkjum við frá frábærum verkum hans um Ísland og Grænland, þó hann sé kannski nú orðið þekktastur fyrir rannsóknir sínar í Suður-Túnis.

Svo skemmtilega vildi til að meðan Dysnes var rannsakað af kollegum mínum, komst ég sjálfur í lok júní í návígi við dysjar á nesi litlu um klukkustundarakstur frá Reykjavík. Ég var á ferð með góðum vini, konu minni og syni. Nesið að arna heitir einfaldlega Dys.

IMG_7806 (2)

Dys

Mér sýndist ég sjá að minnsta kosti fjögur kuml á staðnum og sex ef ég væri haldin ótemjandi ímyndunarafli "fóstru grænlensku kvennanna á Skriðu". Er ekki tilvalið að byggja höfn þarna við nesið? Jafnvel fríhöfn þar sem það besta sem Íslendingar eiga: súkkulaðirúsínur, Tommaborgarar og SS-pylsur verða seldar á uppsprengdu verði og opnaður verður almennilegur unisex hórukassi, Fjallkonan Fríð, svo þeir sem sigla um brædda póla geti létt á þungri pyngju sinni, áður en þeir eygja uppsveitir Vladivostok, Ósaka eða Shanghæ, eftir að þau bæli hafa farið undir ímyndunarvatn, og halda því áfram sem fyrst og fremst hefur drifið farmenn til dáða í aldanna rás.


Brotasilfur - óáfallið

60-3044_t5502e67e_m400_wmannamyndir_5_tif_x849c2892.jpg

Í þessari færslu má sjá tvær stórmerkar ljósmyndir sem finna má á vef Héraðsskjalasafns Austurlands. Hér bograr Kristján Eldjárn yfir silfursjóð sem fannst austur a landi, óáfallinn, árið 1980. Eldjárn þótti vitaskuld, sem eins konar fornleifafræðingi, furðulegt að sjóðurinn kæmi óáfallinn úr jörðu. Það þykir flestum reyndar enn í dag. Ég held að menn séu hættir að leita að skýringum. Það er svo óþægilegt.

Hér má lesa aðrar greinar Fornleifs um þennan sjóð:

Det ville som sagt være meget beklageligt for skandinavisk arkæologi... (2011) Greinin er ekki á dönsku.

Hvar er húfan mín? (11.12. 2012; sjá síðustu athugasemd neðst)

"Miklu betri en Silvo" (16.12.2012)

Moldin milda frá Miðhúsum er horfin (4.1.2013)

Hvað fær maður fyrir silfur sitt ?  (13.4.2013) Í þessari grein birtist eftirfarandi frásögn:

Auðun H. Einarsson segir frá (1.5. 1997, sjá færslu dags. 13.4.2013)

 

60-3043_t5502e66f_m400_wmannamyndir_5_tif_xcb785e45.jpg

Neðri myndin af vef Héraðssafns Austurlands er unaðsleg ljósmynd af finnandanum og syni hans. Gleðin skín úr augum þeirra. Ekki þótti finnandanum fundarlaunin góð, en síðar var bætt úr því fyrir tilstuðlan þingmanns eins frá Snæfellsnesi og skálds í Reykjavík, sem er sonur fyrrverandi forseta Íslands.


Ferill Fornleifaráðherranns í annálum Fornleifs

b8b14cd6f3faf96f160992e243df0447

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er sagður ofsóttur maður. Því trúir maður nú mátulega, enda tala öll verk hans sínu skýra máli. Flestir þekkja stjórnmálaferil og skipbrot þessa fyrrverandi RÚV-fréttamanns og tækifærissinna sem nú á sér helst vini í fólki sem ímyndar sér að hann hafi einn komið í veg fyrir Icesave-afhroðið.

Færri muna kannski að hann gerðist einnig Þjóðmenningaráðherra. Fornleifur fylgdist því vel með ferli Sigmundar sem ráðherra. Jafnvel betur en George Soros og aðrir sem sakaðir eru um að hafa brugðið fótum fyrir hinn heimsþekkta íslenska kökudeigsdreng.

Um leið og Leifur forni óskar lesendum sínum gleðilegra Jóla, leyfir hann sér að minna á greinar sínar um Sigmund og menningararfinn og það siðleysi sem einnig tíðkaðist í "Þjóðmenningarráðuneytinu".  

Nýlega kom út bókin Þjóðminjar, rituð af eins konar "ráðuneytisstjóra" Sigmundar í antikráðuneyti hans. Þar er að öllu að dæma sögð saga Þjóðminjasafns Íslands. Ekki býst ég við því að sagan sé rétt sögð í þeirri bók og það geri ég alveg kaldur án þess að hafa lesið hana. Ég þekki nefnilega höfundinn. Hér fyrir neðan má lesa greinar um Þjóðmenningarráðuneytið sem hún starfaði fyrir og það sem hún ætlaði sér að fá fyrir snúð sinn fyrir "störf" sín þar. Er nokkuð af þeim upplýsingum sem lesa má í pistlum Fornleifs með í bókinni? Varla. Eins rotið og ráðuneytið var og ráðherrann spilltur og firrtur, jafn satt er allt sem lesa má í pistlum Fornleifs um "þjóðmenningarráðuneyti" Sigmundar og starfsmann þess:

Úr annálum Fornleifs:

2013

16.10.2013. Kattarslagurinn um þjóðmenninguna og þjóðararfinn

13.11.2013  Fjórar drottningar í einum sal

2014

31.3.2014  Mikilvæg verðmæti

19.4.2014  Menninga19.4.2014rarfspizzan

6.5.2014     Beðið eftir Skussaráðuneytinu

2015

19.3.2015 Vangaveltur um Þjóðmenninguna og ESB

22.3.2015 Alveg eins og í henni Evrópu

2016

24.2.2016 Hinn mikli samruni Fornleifaráðherrans

25.2.2106 Sigmundur lögleysa

26.2.2016 Starf án vinnu. Hvað er nú það??

7.4.2016

Fallið mikla. Ómenning grafin upp á Panama og Bresku Jómfrúareyjum

8.6.2016 Birtingarmynd spillingarinnar

 804805_1283475_1297235.jpg

Veislan í algleymingi.

Fornleifur reyndist sannspárri en íslenska völvan sem lengi hefur hjálpað Dönum að sjá inn undir hulu framtíðarinnar. Í apríl 2014 ritaði Fornleifur þetta:

"Öllu líklegra tel ég, að áleggið á hjálparflatbökum til skuldsettra "fórnarlamba" eigin græðgi og óraunsæis verði m.a. sótt til þess sem skorið verður af í menningararfinum og menntakerfinu. Þau fáu grjúpán og sperðlar sem farið hefðu í aska menningararfsins í góðærum enda nú sem phoney baloney á pizzum menningarbakarans mikla. Þannig verður þetta meðan að fjármagni ríkisins verður hellt í kosningapizzur Framsóknarflokksins. Rýr hefur kosturinn hingað til verið, en óðal Simma bónda er ekkert menningaheimili, þótt hann kunni að baka pizza fiscale."


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband