»Allt út af einhverjum helvítis steini«

Kona í Perge

segir kona Íslendings, sem handtekinn var fyrir að hafa meintar fornminjar með í tösku sinni við brottför frá flugvellinum í Antalya á Tyrklandi sl. föstudag. Henni er vitanlega mikið niðri fyrir.

Reyndar eru svona dags daglega ekki seldar fornminjar á mörkuðunum við rústasvæðin í Perge og Aspendos, þar sem þau hjónin hljóta að hafa verið. Þetta hlýtur því að vera einhver stór misskilningur. Í Perge sitja oftast konur og selja perlur og leirmuni, og ef þær væru byrjaðar að selja ekta rómverskar styttur á 80€ væri líklega eftir því tekið.

Vill maður láta virða sín eigin lög, verður maður að virða lög í þeim löndum sem maður heimsækir.

Það hendir þó á stundum, að ferðamenn eyðileggi fornleifar eða taki með sér minjagripi sem þeir vita stundum ekki að eru fornleifar. Það eiga allir heilvita einstaklingar að vita, að maður á ekki að gera - jafnvel þeir sem koma frá löndum eins og Íslandi, þar sem Fornleifavernd og Minjastofnun leyfa byggingar hugarórabyggingar og suðrænar villur ofan á fornleifum og Þjóðminjasafnið týnir forngripum.

Upplýsingamiðill ferðamálayfirvalda í Tyrklandi www.goturkey.com, sem flestir lesa vitanlega ekki, vara menn einnig greinilega við því að kaupa fornleifar, og þar er fólki ráðlagt að hafa kvittanir á reiðum höndum fyrir kaupum á listmunum. Tyrkir hafa víst ekki enn gert sér grein fyrir því að ólæsi er líka mikið í öðrum löndum. Margir hafa víst lent í ströngu eftirliti Tyrkja á þessu sviði. Sjá hér

Í Tyrklandi er þjófnaður á fornleifum og ólögleg sala þeirra greinilega mikið vandamál, sem Tyrkir virðast helst vilja stöðva með því að stinga (blásaklausum) bláeygum útlendingum sem finna eða kaupa fornleifar í steininn. En það hendir einnig á stundum að útlendingarnir taka eitthvað með sér sem þeir finna og borga ekki fyrir.

Vonandi leysist úr máli Íslendingsins sem langaði í rómverska styttu fyrir 80 evrur, sem verður nú að teljast frekar ódýrt. En á Tyrklandi er fólk fátækara en Íslendingar í Svíþjóð. 


Stradivarius íslenskra langspila

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson langspil

Drengurinn á þessari ljósmynd er enginn annar en ritstjóri Fornleifs, Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, dekraður drengur úr vel stæðu raðhúsahverfi í austurhluta Reykjavíkur. Myndin var tekin vorið 1972. Ég er að leika á langspil sem ég smíðaði í skólanum með mikilli hjálp smíðakennara míns, Auðuns H. Einarssonar heitins.

Þessi grein er fyrsti hlutinn í safni upplýsinga um langspilið, sem ég mun setja hér á síðuna svo allir hafi aðgang að þeim upplýsingum.

Hvers konar börn smíða langspil?

Snemma beygðist hugur minn til flest þess sem gamalt er. Eftir því var tekið og drengurinn talinn frekar undarlegur. Hvaða 8 ára barn fer með eintak af gamalli og slitinni skólaútgáfu af Hávamálum upp í Öskjuhlíð í nestistösku sinni, og fer að lesa þau undir heitavatnstönkunum í sólinni án þess að skilja aukatekinn staf? Það gerði ég. Kennarinn tók af mér Hávamál og þetta einkennilega uppátæki kom til umræðu á næsta foreldrafundi. Ég varð snemma, allavega á 7. ári, heimagangur á Þjóðminjasafninu. Þangað fór ég tvisvar, stundum þrisvar í viku yfir vetrarmánuðina og hékk og skoðaði allt og las alla miða og alla bæklinga  og ræddi við gömlu gæslukonurnar, sem þótti gaman að tala við þennan fróðleiksfúsa strák, sem hafði Kristján Eldjárn í guða tölu. Gæslukonurnar á Þjóðminjasafninu, sem sumar hverjar voru ævafornar, urðu verndarenglar Fornleifs.

106616857_10222708385040612_3422861892052766868_n

Einn þeirra, sem tók eftir því hve undarlegur þessi drengur var, var smíðakennarinn minn í barnaskóla, sá ágæti maður Auðun H. Einarsson (1941-2009) en honum og minningu hans er þessi grein tileinkuð. Auðun kenndi mér smíði í  Æfinga- og tilraunadeild Kennaraskóla Íslands, sem í dag heitir Háteigsskóli. Þar kenndi Auðunn mér smíði frá haustinu 1969 til barnaprófs árið 1973. Auðun, sem margir þekkja fyrir smíðakennarastörf sín og vandaða smíðavinnu, sem og torfbæjabyggingar, var líka áhugamaður um allt fornt og sögu Íslands. Þar að auki var hann með hagari mönnum á Íslandi. Betri smíðakennara og smið gat maður ekki fundið.

Hin listagóða ljósmynd af Auðuni hér fyrir ofan er birt með leyfi fjölskyldu hans.

Gert upp á milli nemenda

Þótt að Auðun væri frábær kennari, varð honum einu sinni á í messunni. Hann gerði upp á milli drengjanna og bauð mér einum að smíða langspil og ekki öðrum. Líklega var það vegna þess að hann taldi mig geta valdið verkefninu. Hann þekkti hinn mikla forneskjuáhuga og teiknihæfileika, og hafði þar fyrir utan heyrt mig tala um langspil af miklum móð. Hann reyndi að haga því þannig til, að ég ynni eitthvað að verkefninu í skólanum, stundum á eftir tímum, en mest heima. Ég fór líka heim til hans vestur í bæ um helgar, þar sem hann var með lítinn bílskúr sem var fullur af smíðaefni.

Vitanlega hjálpaði Auðun mér mikið með smíðina á langspilinu. Hann treysti mér samt fyrir óhemjumiklu og það gerði þetta smíðaverkefni okkar afar ánægjulegt. En þetta skapaði auðvitað einnig öfund meðal sumra skólafélaganna. Einn bekkjafélaga minna, sem í dag er lögfræðingur, reyndi meira að segja að koma langspilinu fyrir kattarnef, þegar það var að mestu klárað.

Ég fór á Þjóðminjasafnið og fékk þar með leyfi þjóðminjavarðar að mæla langspil með bogadregnum hljómkassa sem þar var varðveitt og sem hefur safnnúmerið Þjms. 635. Ég fór í eitt skipti á safnið með bekkjafélaga mínum Eggert Pálssyni, sem nú er páku- og slagverkmeistari í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það var fyrsta eiginlega rannsóknarferð mín í fræðunum.

Ég hafði einnig samband við Önnu Þórhallsdóttur söngkonu sem lengið hafði reynt að efla áhugann á langspilinu og það gladdi hana, að heyra að strákpjakkur í barnaskóla væri að smíða sér slíkt hljóðfæri og ætlaði að leika eftir henni listina. Sjálf hafði hún látið smíða fyrir sig langspil eftir hljóðfæri frá 18. öld sem varðveitt er á Musikmuseet í Kaupmannahöfn (sem nú er hluti af Þjóðminjasafni Dana). Oft var Anna látin kyrja með sinni hástemmdu rödd og strjúka strengi langspilsins rétt fyrir hádegisfréttir í útvarpinu hér á árum áður. Ég mun brátt gefa lesendum mínum hljóðdæmi af hennar list. 

Þjms 365
Mackenzie Langspil
D130_1 lille
Efst er langspil á Þjóðminjasafni (Þjms. 635), en langspil dóttur Magnúsar Stephensens sem teiknað var árið 1810 í Viðey er fyrir miðju. Þessi hljóðfæri eru mjög svipuð og má telja næsta öruggt að sami maður hafi smíðað þau. Hljóðfæri mitt hefur þó reynst líkast mest því hljóðfæri frá 19. öld sem til er á Musikmuseet í Kaupmannahöfn (neðsta myndin) og sem upphaflega kom þangað árið 1915 úr búi dansks skólaumsjónarmanns (skolebetjent) sem Hans Peter Lyum hét (f. 1859; Hét upphaflega Nielsen) og bjó í Larslejestræde 9 í Kaupmannahöfn (allar upplýsingar um hann væru vel þegnar um þann mann og hvernig það kom til að hann átti langspil).

 

Ég mældi lengd og bil milli þverbandanna á gripbrettinu. Límingar, sögun, heflun og pússun hliðanna í hljómkassanum sá ég alfarið um, en Auðun hjálpaði náttúrulega með að líma saman gott tré í snigilinn og skera hann út,  skeyta saman og líma allt hljóðfærið. Eins og í fiðlu og gítar var hornlisti límdur til styrktar í innanverðum langspilskassanum. Auðuni og að útvega mahóní í gripbrettið. Ég náði í íbenholt fyrir lyklana (sem sumir kalla skrúfur eða stillingarpinna) og raspaði þá, þjalaði og pússaði eftir að Auðun hafði rennt sívalningana sem fara inn í snigilinn. Ég sá svo um lökkun og pússun. Eitt af því skemmtilegasta við þetta verkefnið, fyrir utan að heyra hljóminn þegar strengirnir voru komnir í, var að beygja eina hliðina. Það gerðum við heima hjá Auðuni yfir tvær helgar. Hliðin var mýkt með gufu og sett í koparklædda pressu sem Auðun hafði smíðað. Hliðin var svo lögð í pressu til að fá lags sitt.

Langspil 1 

»Eins og mjúkt selló«

Þegar langspilið mitt var tilbúið, fór ég með móður minni í hljóðfæraverslunina RÁN og keypti ýmsa strengi til að reyna í langspilið. Ég man þegar ég hrindi í Auðun til að láta hann heyra í gegnum símann hvernig hljóðfærið hljómaði. Auðun varð hinn ánægðasti og sagði kátur, »þetta hljómar eins og mjúkt selló«. Síðar fékk hann að heyra betur í hljóðfærinu.

Ég lék við tækifæri á langspilið, með fingrum og boga sem ég fékk að láni, en þó mest fyrir sjálfan mig. Ég spilaði þjóðlög og miðaldasmelli eftir eyranu en sjaldan fyrir áheyrendur. Hljómurinn í langspilinu var fallegur og dýpri og þýðari en í langspilinu á Þjóðminjasafninu sem var fyrirmyndin. Mér fannst sjálfum betra að heyra tóninn í mínu langspili en t.d. því sem Anna heitin Þórhallsdóttir spilaði öðru hvoru á í útvarpið. En það hljóðfæri var líka með bogadregnum kassa og var gert eftir hljóðfæri sem var frá 18. öld og sem nú er varðveitt á Musikmuseet í Kaupmannahöfn.

Svo varð maður eldri og það var ekki beint í lagi að vera kvæðamaður og sólisti á langspil í Menntaskólanum í Hamrahlíð, þar sem allir voru annað hvort að dansa í takt við Travolta eða Þursaflokkinn. Ég fór svo árið 1980 erlendis til náms og langspilið góða hékk áfram á veggnum í gamla herberginu mínu, þar sem það hangir enn móður minni til augnayndis. Engin tónlist hefur því miður komið úr langspilinu í langan tíma. Úr þessu ætla ég að bæta við fyrsta tækifæri og stend nú í að semja fornleifafræðingarímur og McGoverns-bálk um skálmöld í íslenskri fornleifafræði, sem henta örugglega vel i flutningi við undirleik mjúks sellós.

Langspil 2
Langspil 3
Langspil Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar smíðað 1971-72. Á hljóðfærið vantar nú útskorið lok á hljóðopið, strengina og stóla, sem margir voru reyndir til að fá sem bestan tón. Ljósm. Sigríður B. Vilhjálmsdóttir, sem einnig hefur tekið myndina að ofan með bláum bakgrunni.

David G. Woods finnur besta hljóðfærið

Árið 1981 dvaldist á Íslandi bandarískur sérfræðingur í tónmennt, David G. Woods. Á Fullbright-styrk rannsakaði hann íslenska langspilið og íslensku fiðluna, sögu þessara hljóðfæra og eiginleika. Hann rannsakið þau langspil forn sem hann hafði spurnir af og fékk sér til hjálpar ýmsa menn sem þekktu til hljóðfærisins og gátu smíðað það. Þeirra á meðal var heiðursmaðurinn Njáll Sigurðsson sem kennt hafði mér um tíma í Barnamúsíkskólanum þegar hann var nýkominn úr námi (og sem líklegast smitaði mig upphaflega af langspils-bakteríunni), og Auðun H. Einarsson sem tók Woods í smíðatíma.

Woods, sem síðar varð m.a. prófessor við háskólann í Connecticut í Bandaríkjunum lét smíða nokkur hljóðfæri, sem ég mun sýna ykkur síðar þegar hann er búinn að senda mér myndir. Þau voru smíðuð með gömul hljóðfæri að fyrirmynd. Auðun smíðaði eintak af því hljóðfæri sem ég mældi upp á Þjóðminjasafninu (þótt það hafi ekki að lokum orðið alveg eins).

Meira en áratug eftir dvöl Woods á Íslandi kom út frekar stutt grein eftir hann í Árbók hins islenzka Fornleifafélags árið 1993 sem Njáll Sigurðsson hafði þýtt. Árið 1993 hóf ég störf á þjóðminjasafninu og þá ræddi ég einmitt við Auðun um þessa grein dr. Woods. Woods greinir frá langspilsgerð, sem var að sögn Auðuns smíðuð eftir móti Auðuns og teikningu minni. Sú eftirlíking á hljóðfærinu (Þjms. 635) á Þjóðminjasafni reyndist samkvæmt tónmenntafræðingnum Woods vera það langspil sem hefði fegurstan tóninn.

Nýlega skrifaði ég prófessor emerítus David G. Woods í Connecticut tölvupóst og sagði honum frá fyrsta langspilinu með bogadreginn kassa sem Auðunn og ég smíðuðum eftir Þjms. 635. þessa góða langspils sem honum líkaði betur en mörg önnur. Þetta "Stradivaríus íslenkra langspila" var ekkert annað en samstarfsverkefni mitt og meistara Auðuns H. Einarssonar. 

Woods greindi einnig frá því í grein sinni í Árbók Fornleifafélagsins, að gerður hafði verið pakki fyrir kennslu í smíði langspila. Því miður hef ég ekki séð þessi gögn og þætti vænt um ef einhver gæti útvegað mér þau. 

Auðun kenndi fleiri börnum að smíða langspil

Ekki get ég útilokað að Auðun hafi smíðað langspil með öðrum nemanda áður en hann leyfði mér að smíða mitt hljóðfæri. En ef svo var, var það hljóðfæri ekki með bogadregnum hljómkassa. Tíu árum eftir að ég smíðaði mitt hljóðfæri með Auðuni, kenndi hann 14-15 ára krökkum að smíða ýmis konar hljóðfæri. Kennslan fór fram í kvöldtímum í Tónmenntaskóla Reykjavíkur við Lindargötu. 

1982 Tónmenntaskólinn við Lindargötu
Auðun og nemendur hans í Tónmenntaskóla Reykjavíkur árið 1982. Greinilegt er að tvær stúlknanna hafa smíðað "Stradivaríus Vilhjálms og Auðuns". Þarna má einnig sjá stoltan miðausturlandasérfræðing með gítar.

 

Á myndinni, sem birtist í Þjóðviljanum sáluga vorið 1982, má sjá fólk sem síðar hafa orðið þekktir tónlistarmenn og á sviði stærðfræði. Á þessu námskeiði ungra hljóðfærasmiða var til að mynda Jóhann Friðgeir Valdimarsson, síðar söngvari, og Katarína Óladóttir fiðluleikari, en í þessum hópi var einnig mjög svo efnilegt fólk sem því miður féll allt of snemma frá af ýmsum ástæðum, líkt og Auðun, sem snemma varð Alzheimer sjúkdómnum að bráð. Blessuð sé minning þess völundarsmiðs. 

Í þarnæstu færslu skal sagt frá ýmsum þeim

 heimildum sem til eru um

langspilið fyrir

 aldamótin

1900

langspil 4


Valkyrja fannst á Fjóni

valkyrja_odense_bys_museer
 

Þessi fagri gripur, sem hér sést frá öllum hliðum, fannst á Hårby á Fjóni. Vitanleg, eins og alltaf, voru það menn með málmleitartæki sem fundu þessa litlu styttu. Slík tæki má ekki nota á Íslandi til að leita að fornleifum og það er ekki hægt að undirstrika það of mikið. Ég ætla ekki að upplýsa meira um gripinn, en hér er hægt að lesa frekar.

Mér þótti þetta svo skemmtilegur fundur, að ég varð að deila honum með ykkur. Þetta er greinilega ekta valkyrja frá 9. öld og hún er sæt og snoppufríð. Hún bítur ekki óð í skjaldarrönd eða er með brjóstaslettur á sverði - eða skegg. Menn höfðu góðan smekk í Valhöll forðum. Þar hafa menn, eins og alls staðar, verið karlrembusvín sem vildu hafa valkyrjurnar sexí og sætar.

Það skal þó tekið fram að listamaðurinn hefur séð til þess að ekki sést í brjóstaskoruna á valkyrjunni. Ef svo hefði verið, hefði ég ekki geta sýnt Íslendingum þessa mynd.

valkyrie_1_foto_morten_skovsby
 

Ljósmynd efst: Asger Kjærgaard, Odense Bys Museer; Ljósmynd neðst: Morten Skovsby, finnandi myndarinnar.


Týnda táknið

Kambur Stöng 3

Nú haldið þið að ég sé enn og aftur að fara að skrifa um týnda gripi á Þjóðminjasafninu. Nei, þar er fæst týnt, geymt eða grafið.

Eitt er það forna skreyti, sem ég er nokkuð viss um að sé eitt það algengasta á fyrri öldum. Það hefur verið notað jafnt á Íslandi, sem í Kína og Egyptalandi, meðal Indíána, Sama og Rómverja. Engin tengsl eru nauðsynlega á milli þeirra sem notuðu þetta skreyti. Það er einnig tilfellið á Íslandi. Þetta munstur er svo einfalt, að varla er hægt að kalla það stíl, og svo alþjóðlegt og algengt í tíma og rúmi, að það er til einskis nýtt við tímasetningu, eins og maður getur þó varlega með öðrum stíltegundum, eins og t.d. dýrastíltegundunum víkingaaldar.

100px-Sun_symbol_svg

 

Mynstur það sem hér um ræðir er punktur og hringur utan um. Englendingar kalla þetta circle dot, dot and circle eða jafnvel circled dot, sem lýsir öllu sem lýsa þarf. Hálfguð okkar íslenskra fornleifafræðinga, Kristján Eldjárn, kallaði þetta depilhringi og er þá ágætt heiti.

Þetta "tákn" hefur t.d. verið notað af Dan Brown í bókinni The Lost Symbol, sem á íslensku heitir Týnda táknið.  Menn leggja mismunandi skilning í hvað depilhringir getur táknað, ef það táknar þá nokkuð, og er ekki bara einfaldasta mynstur/skreyti sem til er, og sem er einfalt að grafa eða slá í málm eða bein með þar til gerðu verkfæri, til dæmis þar til gerðum síl eða járnal (grafal). Ég les alls ekki Dan Brown, svo ég veit ekki hvaða þýðingu hann leggur í þetta "tákn". Ég hef þó heyrt að sumir sjá í þessu alsjáandi auga eða tákn fyrir Jesús. Það held ég að sé langsótt hringavitleysa.

Hér sýni ég lesendum mínum safn fallegra gripa á Þjóðminjasafni Íslands, sem fundist hafa á Íslandi og sem eru skreyttir með þessu einfalda munstri. Sumir depilhringirnir eru grafnir með sýl og aðrir slegnir með grafal. Þetta skreyti finnst á gripum út um allt land sem notaðir voru á löngu tímabili. Man ég t.d. eftir kefli úr sauðalegg, sem til er á Þjóðminjasafninu, sem alsett er þessu skreyti. Þó virðist sem depilhringurinn hafi verið sérlega algengur í Þjórsárdal. En ekki vil ég leggja of mikið í það.

Kambur Stöng teikn 85 2
Þjms. 13829, Ljósm. og teikn. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Kambar Skallakot 3 

Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 1983

Kambar frá Stöng (Þjms. 13829) og Sámsstöðum í Þjórsárdal (númer 30 og 31 í uppgreftri Sveinbjarnar Rafnssonar sem þar fór fram sumrin 1971-72; Sjá hér). Kambarnir eru af gerð (højryggede enkeltkamme) sem algengir voru í Noregi á 12. öld. Aldursgreining á kömbunum í t.d. Björgvin og Þrándheimi í Noregi var ein af mörgum ástæðunum til þess að ég dró tilgátu Sigurðar Þórarinssonar um eyðingu allrar byggðar í Þjórsárdal í gosinu í Heklu árið 1104 í efa. En sú meinloka, að halda að  Þjórsárdalur hafi farið í eyðið árið 1104 er harla lífseig. Jafnvel eftir að aðrir fornleifafræðingar en ég hafa reynt að gera þá skoðun að sinni eigin, er enn verið að kenna börnum vitleysuna í skólum landsins og ljúga þessu að ferðamönnum (sjá hér). Aðrir kambar en Þjórsárdalskambarnir, með depilhringaskreyti, en eitthvað eldri, eru einnig varðveittir á Þjóðminjasafni Íslands, en ég á víst ekki tiltækar myndir af þeim.

Prjónn Steinastadir

Ljósmynd og teikning Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson  

Nál úr bronsi, rúmlega 6 sm löng, með hnattlaga haus úr bronsi sem fannst við rústina á Steinastöðum í Þjórsárdal árið 1960 (skráð í aðfangabækur Þjms. sem 1960:42). Svipaðar nálar en fíngerðari og úr silfri eða gulli teljast venjulega til 10. og 11. aldar.

Prjónn 2 sh

 Ljósmynd V.Ö.V. 1988

Hringprjónn (dálkur), Þjms. 5252, frá Hróarsstöðum í S-Þingeyjarsýslu. Prjónninn er aðeins 6,2 sm langur og er úr bronsi. Prjónninn, sem er með 6 depilhringi á haus og 3 á prjóninum,fannst eins og svo margt á Íslandi í uppblæstri. Fyrir mörgum árum teiknaði ég og ljósmyndaði alla dálka sem fundust höfðu á Íslandi og sendi Thomas Fanning, sem var írskur fornleifafræðingur (einnig prestur/munkur) og , sem í áraraðir hafði rannsakað hringprjóna á Írlandi og annars staðar. Ég kynntist Fanning lítillega í Danmörku. Því miður dó Thomas Fanning um aldur fram og ég fékk aldrei neinar aldursgreiningar frá honum. Árið 1994 kom hins vegar út verk hans Viking Age Ringed Pins from Dublin. Samkvæmt tegundafræði hringprjóna í þeirri bók, sem byggði á rannsókn Fannings á fjölda hringprjóna sem fundust við fornleifarannsóknir í Dublin á 7. áratug 20. aldar, virðist þessi prjónn á grundvelli annarra áreiðanlegra aldursgreininga vera frá 11. öld. Þessi tegund telst til Polyhedral headed ringed pins. Síðar verður hér farið betur inn á hringprjónana sem varðveittir eru í Þjóðminjasafni Íslands. Þeir eru í dag eru sýndir í stílfræðilegri og tímatalslegri belg og biðu sem sýnir væntanlega að þekking starfsmanna á þessum gripum hefur ekki aukist síðan að Kristján Eldjárn ritaði sitt ágæta rit Kuml og Haugfé í heiðnum sið á Íslandi 

329
Hringur

Beinhólkur (Þjms. 329) sem fannst árið 1866 í dys við Rangá eystri. Á hólknum eru ristar (krotaðar, svo notuð séu orð Eldjárns) myndir af tveimur hjörtum (eða hreindýrum) í frekar Vest-norrænum stíl. Hirtirnir bíta lauf af stílgerðu tré (lífsins tré/arbor vitae). Hirtir sem er mjög kristið (einnig gyðinglegt: Zvi) tákn sem táknar hreinleika eða sál. Svo eru á hólkinum fjórir depilhringir. Menn hafa sökum skreytisins og fundastaðarins talið sér trú um að hringur þessi hafi tilheyrt Hirti bróður Gunnars á Hlíðarenda. Stílfræðilega getur það ekki staðist. Bergsteinn heitinn Gizurarson brunamálastjóri fór árin 1996 og  2000 á skeið í hugmyndafluginu í þremur áhugaverðum greinum í Lesbók Morgunblaðsins þegar hann skrifaði um þennan grip. Tengdi hann hólkinn vítt og breitt um steppur Asíu (sjá enn fremur hér). Ekki tel ég ástæðu til að rengja hugmyndir Bergsteins, en maður velur hverju maður trúir.  

Nálhús Stöng 1983:25 Copyright VÖV

Ljósmynd Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 1995

Nálhús úr bronsi sem fannst á Stöng í Þjórsárdal árið 1983 (Stöng 1983:25). Nálhúsið (sjá meira hér), sem er aðeins 4,5 sm að leng fannst neðst í gólfi skálarústarinnar sem er undir þeim skála sem menn geta enn skoðað á Stöng í Þjórsárdal. Nálhúsið er álitið vera af aust-norrænni gerð. Nálhúsið er frá 11. öld. 

Bjalla 2 
Ljósm. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 1989.
Batey bjalla 2

Bjalla úr bronsi, 2,5 sm, að hæð með depilhringum (Þjms. 1198). Fundin í kumlateig á Brú í Biskupstungum (Kumlateigur 29, skv. kumlatali Kristjáns Eldjárn í Kumli og Haugfé,1956, bls. 62-3). Bjallan og annað haugfé fannst fyrir 1880 af 10 ára stúlku og föður hennar. Kristján Eldjárn taldi víst, að þar sem steinasörvi (perlur) og bjalla hafi fundist á sama stað og vopn og verjur, að þarna hafi verið a.m.k. tvö kuml, karls og konu. Kristján Eldjárn gekk ekki með perlur (sörvitölur) svo vitað sé, en það gerðu hins vegar forfeður hans. Ekki getur því talist ólíklegt, að fundurinn sér úr kumli eins karls. Tvær aðrar bjöllur svipaðar hafa fundist á Íslandi, ein í kumli karls, hin úr kumli konu. Svipuð bjalla, sem fannst sem lausafundur á Freswick Links á Caithness á Skotlandi, er sýnd hér til samanburðar (sjá enn fremur hér).

nordlingaholl

Kirkjukambur úr bronsi, frá Norðlingahól hjá Melabergi á Miðnesi í Gullbringusýslu. (Þjms. 5021). Sjá meira um kambinn hér hér.


Fortíðarsyndir á 150 ára afmælinu

Týndur hlutur er ekki alltaf glataður
 

Nýverið var hér á blogginu greint frá því hvernig Þjóðminjasafnið vill koma skikki á varðveislumál sín og afhendingu fornleifa sem finnast við fornleifarannsóknir til safnsins (sjá hér og hér). Kannski var líka kominn tími til þess á 150 ára afmæli safnsins? Sumir telja hins vegar að Þjóðminjasafnið sé að fara inn á starfssvið nýrrar stofnunar, Minjastofnunar Íslands, en ekki ætla ég að dæma um það.

Í sambandi við tillögur að drögum að nýjum reglum sem Þjóðminjasafnið vinnur að um afhendingu gripa til safnsins hafði ég samband við Þjóðminjavörð með skoðanir mínar. Þjóðminjasafnið leitaði til fornleifafræðinga um tillögur. En um leið og ég gaf álit bað ég einnig um skýringar á því hvað varð um forngripi úr járni sem fundust við rannsóknir á Stöng í Þjórsárdal sem afhentir voru Þjóðminjasafni Íslands til forvörslu árið 1984. Sjá enn fremur hér.

Ég hef margoft bent á, að hvarf gripa og sýna er staðreynd á Þjóðminjasafni Íslands (sjá t.d. hér), og víst er að þar á bæ vilja menn sem minnst ræða um það mál. Sérstaklega nú á 150 ára afmælinu. Safn sem glatar og týnir einhverju er vitaskuld ekki gott safn. Söfn eiga að varðveita. Það liggur í orðinu. Lilja Árnadóttir safnvörður, sem týnt hefur sýni sem hún sjálf lét taka við mikilvæga rannsókn á varðveisluskilyrðum silfurs á Íslandi, vill ekki einu sinni svara fyrirspurnum um það hvað varð um sýnið. Því verð ég víst að biðja Menntamálaráðuneyti um að sækja svör fyrir mig. Hver veit, kannski þarf rannsóknarlögregluna í málið?

Stöng 1984
Frá rannsóknum á Stöng í ágústmánuði 1984. Þá var fór fram mjög vönduð rannsókn fyrir fjárveitingu úr Þjóðhátíðarsjóði, en Þjóðminjasafnið eyðilagði rannsóknarniðurstöður. Safninu var ekki treystandi. Nú vilja menn hvorki ræða um fyrri tíma vanda né viðurkenna hann.
 

Alls fundust 50 gripir við tveggja vikna rannsókn á Stöng í Þjórsárdal sem fór fram 11. ágúst til  og með 2. september 1984. 33 gripanna voru úr járni. Árið 1993, er ég hóf störf á Þjóðminjasafni Íslands, uppgötvaði ég mér til mikils hryllings að járngripirnir sem fundust á Stöng árið 1984 lágu allir undir skemmdum. Ég fann aðeins ryðguð brot og járnryk í kössunum. Kristín Sigurðardóttir, núverandi yfirmaður Minjastofnunar Íslands (einnig kallað pólska spilavítið), sem ber ábyrgð á því að svo kölluð Þorláksbúð hefur verið reist í Skálholti og sem ætlar sér að fara að reisa suðræna villu ofan á órannsökuðum rústum á Stöng í Þjórsárdal, hafði ekki gert neitt við forngripina. Árið 1984 var hún forvörður á Þjóðminjasafni Íslands og tók að sér að forverja gripina 50 sem fundust.

40-1984 Stöng

Hnífur þessi með leifum af tréskafti fannst þann 22.8. 1984 í svæði SC, í torfvegg skálans sem er undir rústinni sem nú liggur undir skemmdum vegna aðgerðaleysis Þjóðminjasafns, Fornleifaverndar Ríkisins og Minjastofnunar Íslands síðan 1996. Hvernig ætli  fundur Stöng84:40 líti út í dag? Ljósmynd Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 1984.

Úr skýrslu 1984

Teikningar af forngripum í rannsóknarskýrslu frá 1984. Teikn. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson 1984.

Fyrir rannsóknarskýrslu fyrir rannsóknina, sem ég sendi þjóðminjasafninu, hafði ég teiknað og ljósmyndað suma járngripina og eru það einu heimildirnar, fyrir utan fundarstað og mælingu á þeim og lýsingu, sem til eru í dag um þá fornmuni sem látnir voru grotna niður á Þjóðminjasafni Íslands. Ekki teiknaði ég alla gripi eða ljósmyndaði. Þá var maður ekki með stafrænar myndavélar eða skanna og maður nýtti tímann frá því að maður lauk rannsókninni þar til maður fór af landi brott til náms mjög vel og teiknaði það sem maður gat og ljósmyndaði. Forverðirnir og Þjóðminjasafnið stóðu hins vegar ekki við skyldur sínar. En rannsóknarleyfið fyrir rannsókninni á Stöng hafði Þjóðminjavörður gefið og þar með skyldað rannsakendur til að afhenda forngripi að rannsókn lokinni.(þetta var fyrir daga fornleifanefndar) og skuldbatt safnið sig til að forverja gripina.

Ég hef beðið Þjóðminjavörð um skýringar á þessu, en hún svarar engu um þetta mál. Hún trúir nefnilega á hugskeyti, því þegar ég minnti hana um daginn á erindið, þá segist hún hafa fengið hugskeyti, en hún svaraði samt ekki spurningum. Ég sendi reyndar ekki hugskeyti, mér að vitandi, og hef ekki móttakara fyrir slíkar sendingar frá öðrum. Reynið ekki einu sinni. Veffangið er öruggara vilhjalmur@mailme.dk

Ég hef einnig beðið Þjóðminjavörð um að leita skýringa hjá Kristínu Sigurðardóttur á því sem hún var að gera árið 1984. Skýringar hef ég enn ekki fengið. Bið ég hér með opinberlega forstöðumanns Minjastofnunar Íslands að skýra af hverju hún lét forngripi frá Stöng í Þjórsárdal grotna niður og eyðileggjast árið 1984. Ætlar hún að sýna ferðamönnum þetta afrek sitt í 700.000.000 kr. yfirbyggingu á Stöng sem hún ætlar að reisa yfir frekjulega valdníðslu sína án þess að hafa nokkra samvinnu við þann fornleifafræðing sem rannsakað hefur á Stöng í Þjórsárdal? Það held ég. Því hann hefur ekkert heyrt.

150 ára
"Týndur hlutur er ekki alltaf glataður" (Þór Magnússon 1988)

Gyðingar í hverju húsi

BenThors

 

Árið 2004 birtist tímaritsgrein eftir mig sem bar heitið Iceland, the Jews, and Anti-Semitism, 1625-2004. Greinin innihélt stutta og hraðlesna sögu gyðinga á Íslandi. Þar kom margt fram sem ekki hafði verið vitað eða birt áður, og annað var leiðrétt. 

Fyrir útgáfu þessarar greinar hafði kaflinn um gyðinga í Íslandssögunni (hans Þórs Whitehead) mest fjallað um að Framsóknarmenn hafi verið verri við gyðingana en Sjálfstæðismenn - og það er nú alls ekkert víst. Grein mín var langt frá því að vera tæmandi ritgjörð og í henni voru reyndar nokkrar smávægilegar villur. Greinin hefur einnig fengið gífurlega lesningu á vefsíðu, þar sem hún var einnig gefin út. Hún kom síðar út í bók. Upphaflega kom hún reyndar út á dönsku í styttri gerð í ársriti sögufélags danskra gyðinga Rambam sem ég ritstýrði um tíma.

 

Gyðingahatur á Íslandi 

Gyðingaþjóðin er svo forn, að hún telst til fornleifa, og þess vegna er við hæfi að skrifa um hana hér. Einnig þess vegan ætti fyrir löngu að vera búið að friða hana.

En öfgamenn á öllum "vængjum" vilja einatt eyðileggja það sem gamalt er, til að skapa það sem þeir kalla á öllum tungumálum "Dögun". Þeir vilja byrja með "hreint borð" og "frá grunni" (þeir eru fundamentalistar og róttækir), og hvað er þá verra en gamalt, gagnrýnið og gyðingar. Gyðingar hafa því með fornleifum, trúarbrögðum og öðru verið byltingarmönnum þyrnir í augum. Jafnvel Karl Marx hataði gyðinginn í sjálfum sér. Gyðingaþjóðin hefur verið svo lengi til, að sumir vilja ólmir útrýma henni og rétti hennar til að vera til. Það mun aldrei takast. Sannið til. 

Á Íslandi hafa gyðingar alltaf verið svo fáir, að ekki fara sögur af skipulögðum gyðingaofsóknum - ja fyrir utan að gyðingar á Íslandi hafa upplifað að bílar þeirra voru eyðilagðir þegar stríð var í Miðausturlöndum. Þeir þurfa að horfa upp á að sjúklegur gyðingahatari fær að spreða galli sínu á Moggablogginu. Maður nokkur, Arnold Eisen, gyðingur frá Bandaríkjunum, gekk fyrir nokkrum árum með kippah, kollhúfu gyðinga í Reykjavík, og lenti í hremmingum. Hann skrifaði um það vefgrein í Ísrael sem Morgunblaðið greindi frá: 

Skömmu síðar rákust Eisen og kærasta hans á hóp skólabarna á aldrinum 12-15 ára sem voru í skoðunarferð líkt og þau. "Ég stöðvaði bifreiðina og fór út til þess að taka mynd og sá einn drengjanna grípa um öxl félaga síns til þess að ná athygli hans og benda á höfuð sér og síðan á mig, segjandi eitthvað um kollhúfu gyðinga sem ég var með á höfðinu. Og þá var áhugi félagans vakinn, hann smellti saman hælunum og gerði Heil Hitlers-kveðju. Margir af krökkunum fóru að hlæja,"  Sjá hér .

Gyðingahatur á Íslandi er því miður staðreynd og það eykst fremur en hitt. Ég fletti aðeins veraldarvefnum árið 2006 og á einni kvöldstund safnaði ég þessu saman. Þar er meðal annars að finna athugasemd einhvers Rúnars Þórs, sem vildi segja ofangreindum Eisen til syndanna.

Á síðustu öld voru líka til nasistagerpi á Íslandi. Þeir þrömmuðu um og leituðu meira að segja að gyðingum til að hatast út í. Þeir fundu vitanlega fáa, þar sem afi Guðmundar Steingrímssonar hafði með öðrum fínum herrum lokað á gyðinga til Íslands. En í staðinn gerður þeir Thors-fjölskylduna að gyðingaígildi og kölluðu Ólaf Thors háæruverðugan rabbí. Þótt þeir fyndu fáa af ættbálki Abrahams, þá fundu þeir margir hverjir síðar feit embætti þegar þeir þroskuðust til höfuðsins. Einn varð t.d. lögreglustjóri og annar bankastjóri enda sagðist hann vera hagfræðingur þótt hann hefði aldrei lokið prófi í þeirri grein, þótt það standi á heimasíðu Alþingis, þar sem hann lét einnig taka til sín.

Á meðan sat t.d. mikið menntaður maður í gömlu húsi á Grettisgötunni. Hann var frá Þýskalandi, þaðan sem hann neyddist til að flýja til Íslands um þær mundir sem bankastjórinn fyrrnefndur var að læra nasistahagfræði við háskóla í Kiel. Áður en Ottó kom til Íslands hafði hann setið í fangabúðunum Buchenwald með bróður sínum, sem var myrtur þar árið 1938. Hinn hámenntaði gyðingur Ottó Arnaldur Magnússon þurfti hins vegar að hafa ofan fjölskyldu sinni með einkakennslu í málum og raungreinum sem og útgáfu á lausnarheftum á stærðfræðibókum skólanna. Hann var kærður til lögreglu fyrir útgáfu þessara hefta. Í Háskóla Íslands komu menn í veg fyrir að hann fengi vinnu við þann skóla.

Otto Weg 1963
Dr. Ottó Arnaldur Magnússon (Otto Weg) fékk aldrei vinnu við sitt hæfi á Íslandi. Þessi yndislegi og dagfarsprúði maður, sem ég kynntist sem barn og unglingur (hann var vinur föður míns) varð fyrir barðinu á íslensku gyðingahatri.

 

Brennimerktir sem gyðingar

En einn helsti þáttur sögu gyðinga á Íslandi er að hún er uppfull af mönnum sem ekki voru gyðingar. Íslendingar hafa stundað "Jew branding", þeir hafa brennimerkt menn sem gyðinga eða talið þá vera það, ef þeir voru hið minnsta dökkir á brún eða brá, með hrokkið hár, stórt nef eða ríkir. Þess vegna fengu t.d. Thorsararnir stimpilinn.

Menn sem lesa þessa grein mína taka líklega eftir því, að ég nefni ekki á nafn fjölda manna sem Íslendingar hafa venjulega ályktað að væru gyðingar eða gyðingaættum. Það var heldur ekki ætlun mín með greininni að gera tæmandi úttekt af ættum með gyðingablóð í æðum sér. En þeir sem sumir menn söknuðu voru reyndar ekki gyðingar, eða af gyðingaættum. Róbert Abraham Ottósson söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar var tæknilega séð ekki gyðingur og hafi ætt hans ekki verið það síðan á 19 öld, en Hitler hefði nú líklega ekki verið á sama máli. Ég skrifa hins vegar ekki um íslenska gyðinga út frá sjónarhorni Hitlers og Nürnberglaganna.

Frá lokum 19. aldar og fram á 21. öld hefur hins vegar borið mikið á því að ýmsir íslenskir fræðaþulir hafi þóst vita að önnur hvor dönsk ætt á Íslandi væri komin af gyðingum.  Svo er einfaldlega ekki. Sumir gerðu þetta af hatri í garð danskra kaupmanna, en aðrir, eins og Pétur Pétursson þulur, af miklum áhuga í garð gyðinga. Pétur var það sem skilgreinist sem fílósemít, og vildi þess vegna, að því er ég held, hafa sem flesta gyðinga á Íslandi.

***

Líklega vegna þess að grein mín um gyðinga á vefnum hefur mikið verið lesinn um heim allan og hefur jafnvel verið stolið úr henni án þess að menn geti heimilda, að menn eru enn að hafa samband við mig um meintan gyðinglegan uppruna sinn, eins og að ég sé einhver Judenexperte, en það kallaði maður sérfræðinga Sicherheitsdienst og Gestapo í gyðingum. Ég veiti ekki slíka "ættfræði"þjónustu.

Landsfrægir menn hafa í tveimur tilvikum haft samband við mig til að fá það á hreint, svona eitt skipti fyrir öll, hvort ákveðinn forfaðir þeirra hafi verið gyðingur. Svo var örugglega ekki. Ég held frekast að þeim hafi þótt það leitt en verið létt.

Hér skulu sagðar nokkrar sögur að röngum ættfærslum, illgjörnum sem og frekar saklausum eins og þeirri fyrstu:

Julius Thornberg

 

Dóttir fiðlusnillingsins

Nýlega hafði samband mig kona sem var að rannsaka ætt eina á Íslandi. Taldi konan það mögulegt, að danskur maður, Julius Thornberg, tónlistamaður og gleymdur fiðlusnillingur, hafi átt dóttur með íslenskri konur eftir stutt ævintýri í byrjun 20 aldar. Með tiltölulega einföldum aðferðum heima í stofu minni fann ég að maðurinn var af sænskum ættum og að í honum rann ekkert gyðingablóð sem hafði verið bókfest. Annað kom einnig út úr stuttri leit minni. Maðurinn hafði verið giftur píanóleikara frá Noregi, þegar hann átti í þessu sambandi við saklausa stúlku frá Íslandi. Maður þessi var m.a. konsertmeistari í Amsterdam og fiðluleikari við stórar hljómsveitir í Varsjá, og skömmu eftir að óskilgetna dóttirin fæddist fluttist hann til Berlínar en var miklu síðar konsertmeistari í Kaupmannahöfn. Dóttir hans vann á Ríkisútvarpinu á Skúlagötunni, þegar ég var þar sendisveinn á sínum tíma. Er þetta ekki stórmerkileg fjölskyldusaga, svo ekki þurfi að blanda í hana gyðingakreddu?

Mér er eiginlega mest hugsað til afkomenda þessa fiðlara. Hvað gerðist t.d. ef þeir væru brennandi í hatri sínu á Ísrael? Þau gerðu kannski það sama og maður nokkur ættaður frá Skagaströnd, sem fyrir mörgum árum svínaði Ísraelsríki til í röksemdafærslu sinni fyrir sakleysi Eðvald Heitins Hinrikssonar gyðingamorðingja þegar út kom eistnesk skýrsla sem endanlega staðfesti glæpi Eðvald. Þannig rök taldi Baldvin Berndsen  sig get komið með því hann upplýsti að hann væri kominn af gyðingi sem settist að á Skagaströnd (sjá hér) En Baldvin Berndsen hefur líklegast ekki lesið æviminningar forföður síns, Fritz Berndsens. Hann segir frá uppruna sínum í ævisögunni og hvernig hann hafði ungur verið shabbesgoy hjá gyðingum í Kaupmannahöfn og fengið fyrir það te og sykurbrauð. Sjá svar mitt til Baldvins Berndsen í grein í DV. Hvað er svo shabbesgoy? Það getið þið lesið um í grein minni í DV.

J Thornberg

Julius Thornberg var vitanlega snoppufríður karl, en ekki var hann gyðingur fyrir 5 aura

 

Tierney og Harmitage

Góður vinur minn, hörkuklár íslenskur sagnfræðingur, sem er mikill áhugamaður um sögu gyðinga og ætti fyrir löngu að vera búinn að gangast undir gyðingdóm og hnífinn, hafði fyrir nokkrum árum síðan samband við mig og taldi sig hafa fundið „nýja gyðinga" á Íslandi. Það voru fatakaupmennirnir William Tierney og mágur hans John Harmitage, og vildi hann vita hvað ég héldi um þessa uppgötvun sína. Mér þótti nú í fljótu bragði nafnið Tierney hljóma mjög kunnuglega og þó ég þekkti ekki í fljótu bragði nafnið Harmitage er nafnið Hermitage ekki óþekkt á Bretlandseyjum. Lítil athugun leiddi í ljós að þessir menn voru baptistar frá Leith á Skotlandi og var Tierney,outfitterí Bernards Street 49 í Leith, að sögn ættaður frá Frakklandi. Sögufélag gyðinga á Skotlandi kannaðist ekkert við neina gyðinga með þessi ættarnöfn á Skotlandi, enda var Tierney baptisti.

Kleerkoper

En hvað kom til að vinur minn sagnfræðingurinn og aðrir héldu að Tierney og Harmitage væru af ættbálki Salómons. Jú, sjáið nú til. Ritstjóri Þjóðólfs, Jón Ólafsson Alþingismaður, fékk lesendabréf, sem mér sýnist á stílnum að gæti verið skrifað af honum sjálfum. Þetta „bréf" og svarið, sem þið getið lesið hér fyrir neðan, birtist í Þjóðólfi þann 22. ágúst 1882. Jón ritstjóri taldi sig vita hvers kyns þeir væru þeir menn sem seldu notuð föt á Íslandi og taldi öruggt að ef kólera og bólan kæmi aftur væri það með gyðingum sem seldu gamla larfa.

Pest bola mislingar

Nú voru þessi „gyðingar" bara baptistar frá hafnarbænum Leith, en meira en 120 árum síðar þótti mönnum ástæða til að taka ættfræði íslensks gyðingahatara trúanlega. Skrítið?

 

Obenhaupt

Alberts þáttur Obenhaupts

Þrátt fyrir að ég nefni alls ekki kaupmanninn Albert Obenhaupt á nafn í greininni minni víðlesnu og margstolnu, fæ ég enn fyrirspurnir um uppruna hans með skírskotun til þess að menn haldi hann vera gyðing. Nú síðast frá manni sem skrifar sögu hestaútflutnings á Íslandi. Obenhaupt mun hafa flutt út gæðing til Danmerkur árið 1907 en tekið hann með sér til baka ári síðar, sem var auðvitað kolólöglegt.

Menn telja hann almennt gyðing og kemur það til vegna þess að Vilhjálmur Finsen, einn stofnenda Morgunblaðsins og síðar sendiherra, sem á Morgunblaðsárum sínum líkaði greinileg ekki við gyðinga, skrifaði um Obenhaupt í ævisögu sinni Alltaf á heimleið (1953). Finsen sagði hann vera gyðing og „það ekki af betri endanum" og hélt áfram; „Obenhaupt fór vitanlega að versla; „kaufen und verkaufen" (kaupa og selja) er orðtak gyðinga, hvar sem þeir eru á hnettinum. Hann flutti með sér sýnishorn af allskonar varningi, leigði stóra íbúð [Finsen meinar væntanlega að hann hafi tekið íbúðina á leigu] í Thomsenshúsi, þar sem síðar var Hótel Hekla, og barst mikið á. Hann drakk nær ekkert sjálfur, en hann veitti meir en almennt gerðist í Reykjavík þá. Þegar kaupmenn komu að skoða sýnishornin, var þeim ævinlega boðið inn í stofu og flaskan þá dregin upp. Svo var farið að tala um „Businessinn".

Menn hafa síðan áfram haldið því fram, að Albert Obenhaupt væri gyðingur og gekk reyndar um þverbak þegar blaðamaðurinn Jónína Leósdóttir, eiginkona Jóhönnu Sigurðardóttur, gerði það opinskátt að hann hefði heitið Obenhautt í grein í Helgarpóstinum árið 1987. Jónína hafði eftir Hannesi Johnson, syni Ólafs Johnson, sem keypti hús af Obenhaupt, að Obenhaupt hefði alls ekki verið Þjóðverji heldur rússneskur gyðingur. Það er rugl eins og allt annað um þennan ágæta mann. Hann var ekki gyðingur eða af gyðingaættum frekar en Bryndís Schram, sem gekk fyrir að vera það í Washington hér um árið, er hún var sendiherrafrú.

Albert Conrad Frederik Obenhaupt fæddist í Kaupmannahöfn þann 17.7. 1886 og þar var hann skírður. Hann var sonur verslunarmannsins Ludvigs Martin Heinrich Obenhaupts sem fæddist í Hamborg árið 1856. Móðir Alberts var Johanna Marie Sophia fædd Segeberg. Albert var því Dani af þýskum ættum og alls ekki gyðingur. Sonur hans einn dó á Íslandi og annar sonur Wolfgang Wilhelm var fermdur í Dómkirkjunni. Eftir 1930 var Albert Obenhaupt fluttur til Hamborgar, þar sem hann bjó og er skráður með útflutningsfyrirtæki (Export) firma fram til 1937, síðast á Pumpen 6, sem er fræg skrifstofubygging sem kölluð er Chilehaus og stendur enn.

Villa Frida
Draugahúsið í Þingholtunum

Albert Obenhaupt var maðurinn sem reisti Villa Frida við Þingholtstræti 29 A., þar sem Borgarbókasafnið var einu sinni til húsa. Í húsinu, sem fékk nafn konu hans, Fridu (sem var fædd Berger), bjó Obenhaupt aldrei svo heita megi. Nýr eigandi, Ólafur Johnson kallaði húsið Esjuberg. Obenhaupt reisti nokkur önnur merk hús á Íslandsárum sínum.

Miklu síðar var Esjuberg, eins og kunnugt er, selt norska málarameistaranum og fjáróreiðumanninum Odd Nerdrum. Húsið hlaut svo þau ömurlegu örlög að lenda í loðnum höndunum á afkomenda dansks rennismiðs. Hún heitir Gyða Wernersdóttir (Sørensen/ rest assured, no Jews in that family) og var um tíma kennd við Milestone. Nú er búið að framkvæma skemmdaverk á þessu fallega húsi "gyðingsins" vegna ömurlegrar "fagurfræði" hins gráðuga nýrýka liðs á Íslandi. 

Lengi vel hékk uppi mynd af Obenhaupt í stigagangi í Borgarbókasafninu. Mér virtist hann vera lítill, jafnvel dvergvaxinn, og dökkur á brún og brá. Menn hafa líklega ályktað sem svo að þar sem hann var dökkleitur þá hafi hann verið gyðingur. Er ­það er nokkuð fordómafull aðferð til að álykta um gyðinglegan uppruna fólks, ekki ósvipuð þeirri aðferð sem Ungverjar notuðu á sínum tíma. Þeir töldu alla sem rauðhærðir voru (og eru) vera gyðinga. Í Portúgal forðum þótti víst, að fyrir utan að borða ekki svínakjöt væru gyðingar, sem leyndust fyrir rannsóknarréttinum, ljósari en aðrir á húð. Vilhjálmur Finsen taldi víst að Obenhaupt auglýsti ekki í Morgunblaðinu þar sem hann var gyðingur. Það var líka lygi.

Pétur Pétursson heitinn þulur, og mikill áhugamaður um gyðinga á jákvæðan hátt, skrifaði um Obenhaupt fyrir nokkrum árum og hefur líklega líka verið með til að festa þessa farandsögu Finsens um Obenhaupt sem gyðing.

starofdavid

Frímúrarahús varð að húsi "gyðings"

Ísraelsmaður einn hafði eitt sinn samband við Icelandic Review. Hann hafði verið á Íslandi ásamt komu sinni og ritaði: Me and my wife spent two and a half weeks in Iceland in July 2007 and had a great time. I just wanted to ask a small question regarding the photo attached. It was taken in Hafnarstraeti or Austurstraeti in downtown Reykjavík. Since you don't have a synagogue in Reykjavík, do you know the story behind the “Star of David” on that building?

Rannsóknarblaðamaður Iceland Review rannsakaði málið og svaraði:

According to Snorri Freyr Hilmarsson, who is on the board of the House Preservation Society Torfusamtökin, the Star of David is on that building on Austurstraeti 9 (which currently houses the nightclub Rex) because it used to be a store owned by merchant Egill Jacobsen, who came from a Danish-Jewish family.

Egill Jacobsen Egill Jacobsen stórkaupmaður

Egill Jacobsen, sem kom til Íslands árið 1902 og dó þar af slysförum árið 1926. Hann var vissulega ekki af gyðingaættum, en hann var mikill kaupmaður í Reykjavík. Jacobsen er mjög algengt ættarnafn í Danmörku, en ekki á meðal gyðinga. Stjarnan sem á húsinu er komin til af því að á efri hæð hússins var lengi vel Frímúrarasamkomusalur og Egill Jakobsen var einn af stofnendum þeirrar reglu á Íslandi. Frímúrar hafa lengi ímyndað sér, að þeir væru eins konar musterisriddarar og þar með verndarar musteris Salómons. Þess vegna hafa sumar deildir þeirra löngum notað Davíðsstjörnuna, Magen David, sem tákn. Líkt og sirkil og hornamál og múrskeið. Synir Egils voru þeir Úlfar og Haukur og þóttu þeir nefstórir og dökkir, ja jafnvel "gyðinglegir", en þeir sóttu það í múttu sína Soffíu Sigríði sem var upphaflega Helgadóttir, snikkara í Þingholtsstræti. Hún rak verslun Egils Jacobsen áfram eftir lát manns síns með miklum myndarbrag þangað til hún dó árið 1973. Hún var mikil sjálfstæðiskona og í stjórn Hvatar til margra ára, og það gerir ekki fólk að gyðingum heldur. Ég man vel eftir henni í versluninni þegar ég var barn, mjög kringluleitri broshýrri konu - frá Íslandi. Synir hennar og Egils, Úlfar og Haukur voru brúnir á brá og með feita putta og stórt nef. En það voru sko íslensk erfðaeinkenni.

Hvað varðar fréttina á vefsíðu Iceland Review og upplýsingu starfskrafts Torfusamtakanna um húsið í Austurstræti 9, er ég fyrir löngu búinn að leiðrétta hana við blaðamann Iceland Review, sem ekkert gerði. Hún móðgaðist einna helst. Lygin er nefnilega lygilega oft góð frétt á Íslandi.

Lokaorð

Íslendingar hér áður fyrr og fordómar, þar var víst óaðskiljanleg eining. Útlendingahræðsla og afdalaháttur varð til þess að flestir Íslendingar kynntust lítið ef nokkuð þeim útlendingsgreyjum sem komu til landsins til að freista gæfunnar. Ef eitthvað var, hófust samskiptin vegna öfundar í garð sumra þeirra. En voru menn að hafa fyrir því að spyrja þá um þeirra hagi og fjölskyldutengsl? Nei, Íslendingar höfðu eingöngu áhuga sínum eigin, fallegu og frábæru ættum. Svo var það lengi, og er kannski enn.

Útlendir menn voru oft stimplaðir sem það versta af öllu, þ.e. gyðingar. Stimpillinn þjónaði nefnilega tilgangi. Ef menn voru stimplaður sem sjálfur óvinurinn, hluti af þeirri þjóð illmenna sem Passíusálmarnir hafa um langan aldur kennt Íslendingum að hata, þá hafði maður gott verkfæri til að gera keppinaut í viðskiptum, iðn eða mennt erfitt fyrir. Maður kallaði hann bara júða, ásakaði hann um að bera pest og kóleru til Íslands og vera til vandræða. Maður var tilbúinn að senda gyðinga í klær nasista.

Ég óska svo landsmönnum gleði við lestur Passíusálmanna í ár og fallegrar dauðahátíðar, þar sem þið kossfestið gyðing árlega í heilagri slepju og kennið gyðingum á öllum tímum um glæpinn og kallið það svo trú og jafnvel mikla list.


Rosmhvalsþankar

Wallie Dürer
 

Á góðri, fróðlegri og skemmtilegri bloggsíðu Haralds Sigurðssonar jarðfræðings, hefur á síðustu dögum spunnist svolítil umræða um færslu hans um rostungstennur. Margar góðar athugasemdir hafa verið skrifaðar um tönn og rengi (þ.e. reipi úr húðum þeirra) þessa merkilega dýrs sem eitt sinn var ekki óalgengt við strendur Íslands.

Samar, voru líka forfeður Íslendinga

Það voru Samar (Lappar/Finnar/Hálftröll) sem fyrstir veiddu þá rostunga og seldu rostungstönn þá sem norskir kaupmenn sigldu með suður í lönd, þar sem menn sóttust eftir þessu smíðaefni í stað hins dýra fílabeins sem var dýr vara af mjög skornum skammti allt fram á 14. öld.

Ég hef sjálfur bent á í fræðigrein, að ég telji, eins og aðrir á undan mér, að landnámsmenn hafi að þó nokkrum hluta komið frá nyrstu héröðum Noregs, og að sumir þeirra hafi verið af samískum uppruna (Lappar), sjá hér. Hans Christian Petersen líffræðingur og mannfræðingur við Syddansk Universitet, sem eitt sinn mældi elstu mannabein á Íslandi í samvinnu við mig, hefur einnig komist að þeirri niðurstöðu, að meðal fyrstu Íslendinganna hafi verið álíka margir einstaklingar frá norðurhluta Noregs, af samísku bergi brotnir, og þeir einstaklingar sem mælanlegir eru sem einstaklingar frá Bretlandseyjum, en sem ekki voru Norskir (norrænir) að ætterni og líkamlegu atgervi. 

Óttar inn háleygski

Norður af Hálogalandi og Þrumu (Troms) og þar austur af hafði verið mikið rosmhvalaveiði fyrir tíma landnáms á Íslandi. Þekkt er sagan af Háleygingnum Óttari frá Lófóti, sem kom á fund Alfreðs Konungs Engil-Saxa í Wessex á Englandi um 890 og færði honum rostungstennur. Á einhverju stigi hefur rostungsveiðin þar Nyrðra orðið óvænleg og hafa menn þá hugsanlega snúið sér til Íslands. Óttar kannaðist þó, að því er virðist, enn ekki við Ísland er hann greindi Alfreð mikla af Wessex, Englandskonungi frá ferðum sínum, löndum í norðri og rostungum.

Í frásögn á engilsaxnesku, sem að hluta til byggir á landafræði Paulusar Osoriusar frá 5. öld, að viðbættum upplýsingum frá valdatíma Alfreðs, er sagt að Óttar (Othere) sé sá Norðmaður sem byggi nyrst í sínu landi. Svo segir m.a. um Óttar og ferðir hans norður í Ballarhaf, norður í Varangri og austar á slóðir Finna (Sama) og Bjarma:

Bjarmarnir sögðu honum margar sögur, bæði af þeirra eigin landi og af löndum sem umhverfis lágu, en hann vissi eigi hvað mikið af því var satt, þar sem hann hafði ekki séð það með eigin augum. Svo var sem Finnarnir og Bjarmarnir töluðu nærri því sömu tungu. Megin ástæða hans fyrir ferð sinni þangað, fyrir utan að kanna landið, var vegna rostungsins [horshwæl], þar sem þeir hafa mjög gott fílstönn í vígtönnum sínum - þeir höfðu með sér nokkrar af þessum tönnum til konungs - og húð þeirra er mjög góð til skips reipa. Þessi hvalur [þ.e. rostungurinn] er miklu minni en aðrir hvalir; hann er ekki lengri en sjö álnir að lengd. Bestu hvalveiðar stunda menn í hans eigin landi; þeir eru fjörtíu og átta álna langir, þeir stærstu fimmtíu álna langir; og af þeim [hér á Óttar líklegast við rostunginn] segir hann, að hann, við sjötta mann, hafi drepið sextíu á tveimur dögum. Hann var mjög ríkur maður af þeim eignum sem ríkidómur þeirra mælist í, það er í villtum hjörtum. Hann hafði enn, þegar hann vitjaði konungs, sex hundruð óselda tamda hirti. Þessir hirtir eru kallaðir hreindýr [hranas á fornensku]. Þau eru mikils virði fyrir Finna því þeir nota þau til að fanga hin villtu hreindýr. Hann var á meðal höfðingja í þessu landi, en hann átti ekki meira en tvo tugi nautgripa, tuttugu sauði og tuttugu svín, og það litla sem hann plægði, plægði hann með hrossum [Þæt lytle þæt he erede erede he mid horsan]. (Þýðing Fornleifs).

Já, hvaðan skyldu fyrstu Íslendingarnir hafa komið, ef þeir hafa stundað veiði á rosmhval við Íslandsstrendur? Hverjir kunnu fagið? Svarið liggur í augum uppi. Það var fólk af Lappakyni. 

Sami

Í Króka-Refs sögu er skemmtileg lýsing á konungsgjöf sem Grænlendingar færðu Haraldi Harðráða til að mæra hann og til að freista liðveislu hans við að koma Ref fyrir kattarnef :

Eftir um sumarið bjó Bárður skip sitt til Noregs og gefur Gunnar honum gjafir. Gunnar sendir Haraldi konungi þrjá gripi. Það var hvítabjörn fulltíði og vandur ágæta vel. Annar gripur var tanntafl og gert með miklum hagleik. Þriðji gripur var rostungshaus með öllum tönnum sínum. Hann var grafinn allur og víða rennt í gulli. Tennurnar voru fastar í hausinum. Var það allt hin mesta gersemi.  

Refur, sem sest hafði að á Grænlandi, átti sér óvini, þar sem hann stóð í óvinsælum vatnsveituframkvæmdum (en minjar um slíkt sjást reyndar í landslaginu á Grænlandi í dag). Ekki tókust áform öfundismanna og andstæðinga Króka-Refs á Grænlandi um að drepa hann. En hann flýði frá Grænlandi. Hann steig síðar til metorða í Danmörku og fékk nafnið Sigtryggur af Sveini tjúguskeggi Danakonungi. Sagan upplýsir svo að Sigtryggur hafi dáið úr sótt á Suðurgöngu og sé greftraður í ríku munkaklaustri út í Frakklandi. Afkomandi Steins Refssonar er í Króka-Refs sögu sagður hafa verið Absalon biskup, sá er stofnaði Kaupmannahöfn. Já, trúi hver sem vill. Íslendingar voru auðvitað á bak við allt, og einhvern daginn finna Fransarar bein Refs í einhverju klaustrinu og allt verður sannað með DNA, gerð verður heimildamynd í fjórum þáttum og  mynd eftir hauskúpunni sem lítur þannig út:

Króka Refur
Króka-Refur kemur að ríku klaustri út í Frakklandi

 

_rvaroddur_fundinn_i_reykjavik
Örvaroddur úr Reykjavík

Hvað upplýsa fornleifarnar

Gamanmáll til hliðar. Ef við lítum svo á fornleifarnar, sem eru áþreifanlegri en Íslendingasögur og aðrar dægurbókmenntir fyrri tíma , þá  hefur við rannsóknir í Reykjavík meðal annars fundist örvaroddurinn hér fyrir ofan, sem er tilvalinn til að skjóta með og drepa stór dýr eins og rostung. Hið klofna blað skar yfir fleir æðar en ef menn voru að stinga dýrið með spjótum úr návígi, sem gat verið mjög hættuleg aðferð. Ég hef bent á, að örvaroddurinn sé af gerð sem þekkt er meðal Bjarma, Kvena og Samójeða í Asíu, en t.d. ekki í Skandinavíu. Meðal veiðimanna sem sumir telja að hafi sest að í Reykjavík, hafa því mjög líklega verið hálftröll (Samar/Lappar), fólk sem var stutt til hnésins úr nyrstu héruðum Noregs. Menn verða einnig að átta sig á því að þessir frumbyggjar Skandínavíu bjuggu og athöfnuðu sig miklu sunnar en þeir gera nú, allt suður í Herjedalen, og áttu í miklu meiri samskiptum við Norðmenn en þeir áttu síðar.

Buen Addja 1920 Saminn Buen Addja árið 1920

Vandamálið við tilgátur manna um veiðar á rostungi við Íslandsstrendur og bækistöðvar þeirra í og við Reykjavík er bara að ekki hefur fundist mikið af af rostungsbeinum í t.d. Reykjavík eða til að mynda við rannsóknir Bjarna Einarssonar suður í Vogi í Höfnum, þar sem hann telur sig hafa rannsakað skála veiðimanna (sjá um það hér). Vogur er ekki fjarri Rosmhvalanesi, sem nú heitir Miðnes og sem hefur gefið Miðnesheiðinni nafn sitt. Við vitum því sama og ekkert um þessar meintu veiðar á rostungi við Ísland, sem sumir halda að hafi verið stundaðar við landnám Íslands.

Lok rostungsveiða á Grænlandi

Nýlega hefur því verið haldið fram, að er framboð á fílabeini varð meira í Evrópu á 14 öld hafi efnahagur þeirra hrunið og þeir hafi í kjölfarið, vegna þess að þeir gátu ekki aðlagað sig eins og skyldi, farið frá Grænlandi. Þessi kenning er reyndar ekki ný og var sett fram af Else Roesdahl fyrrv. prófessor í Miðaldafornleifafræði við Háskólann í Árósi, en hún gaf út lítið hefti árið 1995, sem hún kallaði Hvalrostand, elfenben og norboerne i Grønland, þar sem hún kemur inn á þetta. Ég hafði þegar er ég var stúdent rætt þetta við hana og sagt henni frá íslenskum heimildum.

Ein þeirra segir frá strandi skips Grænlandsiskups við Ísland árið 1266, nánar tiltekið við Hítarnes á Mýrum. Sikip var drekkhlaðið rostungstönn. Rostungstennur merktar rauðum rúnum, líklegast búmerkjum veiðimanna eða bæja á Grænlandi, voru í nokkur hundruð ár að finnast á ströndinni. Við vitum að þessi tannaskip frá Grænlandi sigldu með varning sinn til Niðaróss og erkibiskup seldi tönnina áfram í Björgvin til flæmskra kaupmanna. Í heimildum var upplýst um verðið: Fyrir 802 kg eða 520 tennur fengust eitt sinn 12 pund og 6 solidi og í öðru tilviki fékkst 6 solidi turonen.argenti, en þá er líklega átt við þá myntir sem kallaðar voru gros tounois, fyrir 668 kg, eða um 373 tennur. Sextíu árum síðar var hins vegar orðið nóg framboð á fílstönn, og þá hefur markaðurinn fyrir grænlenska rostungstönnina væntanlega hrunið. Skömmu síðar yfirgáfu menn Vestribyggð, en í Eystribyggð tórðu þeir fram á 15. öld.

Rostungar og Íslendingar árið 1521 

Það var því ekki aðeins í Finnmörku, við Rosmhvalsnes eða í Norðursetu að menn gátu fundið fyrir þetta merka dýr. Meistari Albrecht Dürer teiknaði rostungshausinn efst í Niðurlandaför sinni árið 1521. Hann gerði sér sérstaka ferð til Zeelands, því þar var dautt dýr sem fangað hafði verið í Hollandshafi (Norðursjó). Þetta sama ár teiknaði hann einnig furðulegar en ríkar kerlingar frá Íslandi, sjá hér, sem gátu þakkað auð sínum verslun með fisk. En það var verslun sem Grænlendingar gátu aldrei almennilega tekið þátt í því þeir misstu skip sín og gerðust fátækir mjög eftir hrunið á tannamarkaðinum á 14. öld.  

Dürer reit á mynd sína: "Das dosig thyr von dem Ich do das haubt contrefett hab, ist gefange worden in die niderländischen See und mas XII ellen lang brabendisch mit für füssen." Álnamálið var þá ekki það sama og á Englandi á tímum Alfreðs mikla.


Possible, but not positive

Richard the guy in the parking lot
 

Nú telja menn að víst sé, að það hafi verið beinagrind Ríkharðs þriðja Englandskonungs, sem menn fundu undið bílastæði í Leicester i fyrra. Fornleifur greindi frá þeim fundi í september í fyrra. Breskir fjölmiðlar og heimsfjölmiðlar eru í dag með fréttir um krypplinginn og orkar þar margt tvímælis að mínu mati. Best þykir mér ein athugasemdin á the Guardian um að það kosti  £18.50 á sólahring, að hafa bílinn sinn í stæði í miðborg Leicester. Ef þetta er Ríkharður 3., þá hefur hann legið þarna í 192.649 daga og það gera hvorki meira né minna en 3.564.006 sterlingspunda. Kannski er afsláttur fyrir krypplinga og líklegast hefur Ríkharður verið með bláa skiltið, fyrir utan bláa blóðið? Það síðastnefnda hleypir fólki oft ókeypis inn.

En best er nú að fara á heimasíðu háskólans í Leicester og lesa um niðurstöðurnar þar. Niðurstöður kolefnisgreininganna eru ekki eins einfaldar og fjölmiðlar segja frá og vísindamenn háskólans, sem hafa látið greina beinin á tveimur mismundandi stöðum, greina ekki rétt frá niðurstöðunni eins og á að gera. Talningaraldurinn er t.d. ekki birtur en aðeins umreiknaður, leiðréttur aldur. Það get ég sem fornleifafræðingur ekki notað til neins, og verð því að draga aldursgreininguna í efa þangað til að betri fréttir fást. Á heimasíðu háskólans er reyndar skrifað: This does not, of course, prove that the bones are those of Richard III. What it does is remove one possibility which could have proved that these are not Richard's remains, en þessa setningu fundu blaðamenn auðvitað ekki eða birtu, því þeir þurfa að selja blöð og sensasjónin blindar þá alltaf. Kolefnisaldursgreiningin segir sem sagt akkúrat ekki neitt neitt sem sannar að það sé Ríkharður III sem sé fundinn undir bílastæðinu í Leicester.

dnaresults of whomever ever you want
 

Furðuleg birting DNA-rannsóknar

Þar að auki er sagt í fjölmiðlum, að DNA rannsóknin staðfesti skyldleika beinanna við meinta afkomendur ættingja Ríkharðs III sem sýni voru tekin úr, eins og lýst er hér.  Satt best að segja þykir mér greinagerðin fyrir niðurstöðunum nú afar þunnur þrettándi. Maður myndi ætla, að þúsundir Breta væru með sams konar mítókondríal genamengi og beinin í gröfinni og bein hugsanlegra ættingja.

Þetta er afar lélega framreidd niðurstaða. Maður vonar bara að DNA-niðurstöðurnar séu ekki mengaðar af Dr. Turi King sem framkvæmdi hluta þeirra. Þá væri það allt annar "konungur" sem menn eru að skoða. Slíkar varúðarráðstafanir hafa svo sem gerst áður í öðrum rannsóknarstofum, og þess vegna væri við hæfi að Dr. King birti líka niðurstöður DNA rannsókna á þeim sem framkvæmdu rannsóknina. Þann sið tóku danskir vísindamenn t.d. upp fyrir skömmu til að útiloka allan grun um mengun sýna.

Í því sem birt er á heimasíðu háskólans í Leicester, sé ég engin haldbær rök fyrir því að maðurinn í gröfinni hafi verið með hræðilega hryggskekkju. Hér eru nærmyndir af breytingum í hryggjarliðum, en er þetta nóg til að sýna fram á að einstaklingurinn sem fannst hafi verið krypplingur?

The-skeleton-of-Richard-I-013

Lítil og "ljót" þjóð á leiðarenda

End of reason
 

3. mars næstkomandi mun RÚV hefja sendingar íslenskra fræðsluþátta á ensku, íslensku framtíðarinnar, sem kallast Journey's End (Ferðalok á íslensku). Þættirnir verða sex í allt. Í þessum þáttum er myndavélinni beint að Íslendingasögunum, bæði út frá bókmenntalegu og fornleifafræðilegu sjónarhorni. Myndavélin dvelur einnig í nærmynd við fjölmarga sérfræðinga úr ýmsum greinum og stéttum. Þetta gæti orðið spennandi.

Lítil og ljót þjóð? 

Í kynningarslóða fyrir myndina  hegg ég eftir ýmsu afar fyndnu og bölvuðu rugli fyrir myndavélina. Takið t.d. eftir því  þegar einhver fræðingurinn, sem ekki sést, segir að "það sé svo gaman þegar lítil, ljót, fátæk þjóð í norðri hafi gert eitthvað svipað og Shakespeare, 3-400 árum áður" (1,47 mínútur inni í slóðann). Eitthvað er konan sú rugluð á ritunartíma fornbókmennta okkar og ekki er það beint fátæk þjóð sem lýst er í þessum ýkjubókmenntum, sem lýsa því best að á Íslandi hefur alltaf búið hástemmd þjóð með mikið sjálfsálit, sem vitanlega varð til þess að hún lifði allan andskotann af. 

Það að þjóðin sé ljót verður hins vegar að skrifast á reikning sérfræðingsins andlitslausa, því ég hef auðvitað alltaf staðið í þeirri vissu að Íslendingar væru fallegasta, gáfaðasta og besta þjóð í heimi. Annar hefði hún ekki getað skrifað Íslendingasögurnar og framleitt svona marga fornleifafræðinga, eða þáttaröð eins og Journey's End. 

Hringur

Beinhringur bróður Gunnars á Hlíðarenda? 

Á einum stað bregður fyrir beinhring (eftir 0,51 mín.) með útskurði, sem fannst á Rangárbökkum Eystri. Sumir menn, sem trúa sérhverju orði í fornsögunum, hafa reynt að tengja hringnum ákveðinni persónu, vegna þeirra mynda sem ristar eru í hringinn sem og vegna fundarstaðarins. Síðast skrifaði fyrrverandi brunamálastjóri í Reykjavík Bergsteinn heitinn Gizurarson um hringinn. Þegar ekki var allt á bál og brandi í vinnunni hjá Bergsteini, skrifaði þessi skemmtilega blindi bókstafstrúarmaður á ritheimildir, sem trúði fornsögunum betur en fornleifafræðingum, þrjár greinar í Lesbók Morgunblaðsins 1996 og 2000 um beinhringinn frá Rangá Eystri og fór hann allvíða í vangaveltum sínum. Lengi töldu margir, og vildu trúa, að þessi hringur hefði verið eign Hjartar Hámundarsonar, bróður Gunnars á Hlíðarenda. Menn töldu að að það væru hirtir sem sjást á hólknum. Hjartarhorn eru þetta ekki frekar en hreindýrahorn, stíllinn er frá 11. öld og þetta er kristið mótív. Engin för eru heldur eftir bogastreng á þessum hring, og ekkert sýnir að hann hafi verið notaður sem fingravörn við bogaskot. En hér er hann svo kominn í kynningarslóðann fyrir Ferðalok rétt á undan mynd af bogaskyttu. Það verður gaman að sjá hvernig menn fara fram úr sér við túlkun á honum þar.

Sláum því hér föstu, áður en þáttaröðin Journey's End verður sýnd, að þessi hringur sannar hvorki áreiðanleika Íslendingasagna, né að sögurnar nefni slíkan hring. Vangaveltur um Hjört Hámundarson og "Húnboga" í tengslum við hringinn er ekkert annað en þjóðernisrómantík af verstu gerð. Menn skoða helst ekki hringinn, enn spóla beint í Ísendingasögurnar og gefa hugórum sínum lausan tauminn. Það er ekkert sem fornleifafræðingar eiga að stunda of mikið.

Vice versa

Aðeins lengra fram í slóðanum stingur einn statistinn, einhver argasti drag-víkingur sem ég hef séð lengi, því sem mest líkist miðaldasverði (án blóðrefils) í þúfu við Þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal (sjá efst), sem oft er uppnefndur Gúmmístöng, og á sögn að vera eftirlíking af bæ á Þjóðveldisöld, en í raun aðeins votur draum þjóðernisrómantíkers á þeirri 20., sem misskildi eðli og aldur yngstu bæjarrústanna á Stöng í Þjórsárdal. Bær frá því um 1200 er ekki mjög snjöll sviðsmynd fyrir eitthvað sem á að gerast á 10. öld.

Byock og Egill 

Í slóðanum fyrir "Ferðalok", eins og myndin er víst kölluð á íslensku, bregður einnig fyrir germönskufræðingnum Jesse Byock, sem allt í einu varð fornleifafræðingur og vatt sinni  stjörnu í kross og settist að á Íslandi og er nú Íslendingur og fornleifafræðingur eins og svo margir aðrir.

Byock hóf rannsóknir sínar út frá blindri trú á Íslendingasögunum sem sagnfræðilegum heimildum. Hann var ekkert að pæla í deilum um bókfestu- eða sagnfestukenningar. Hann sá þetta með ferskum vestrænum augum, en í Ameríku þykir fínt að skilja allt upp á nýtt, (þótt sumir skilji ekki neitt). 

Byock byrjaði á síðasta áratug 20. aldar að leita að beinum Egils Skallagrímssonar m.a. út frá sjúkdómslýsingu og rændi heiðrinum af þeirri skoðun að Egill hefði verið með hinn illvíga Paget-sjúkdóm (Paget's disease), frá íslenskum lækni. Paget-sjúkdómur, veldur því meðal annars að bein verða mjúk og brothætt, en Byock taldi út frá lýsingum á meintum beinum Egils í Eglu, að þau hafi verið mjög hörð og að það lýsti Paget-sjúkdómi best. Byock segir örugglega ekki frá þessari meinloku sinni í þessari þáttaröð, sem ég vona að verði sýnd í öðrum löndum en á Íslandi, svo maður geti fengið dálítið entertainment um "litla og ljóta þjóð". Fornleifur eldar sér þá poppkorn yfir langeldinum og teygar ískaldan, amerískan mjöð. Þetta verður örugglega hin besta skemmtun ef dæma skal út frá kynningunni á Vimeo.

Sjálfur hef ég mildast í skoðun minni á gildi fornbókmenntanna og er ekki eins harður andstæðingur þeirra og t.d. kollega minn dr. Bjarni Einarsson. sérstaklega í ljósi þess að á Stöng í Þjórsárdal, þar sem ég þekki best til, fann ég og teymi mitt sönnun fyrir því að bein höfðu verið flutt í burtu samkvæmt ákvæðum Kristinnar laga þætti í Grágás. Stöng var líka í notkun lengur en áður var talið, og Grágás var svo að segja samtímaheimild við beinaflutninginn á Stöng. Það þýðir þó ekki að ég trúi því sem skrifað var 3-400 árum eftir að meintir atburðir sögualdar áttu sér stað. Egils-saga er fyrir mér gott drama síns tíma og ekkert meira og Byock er bara enn ein dramadrottningin í íslenskri fornleifafræði. Í raun er auðvelt að sjá að Íslendingasögurnar eru að lýsa ákveðnum aðstæðum á Sturlungaöld, þeim tíma sem sögurnar voru ritaðar á. Sorry Jesse!

Ég hef skrifað tvo stóra bálka um bein Egils og leit Byocks að þeim á öðru bloggi mínu og leyfi nú lesendum mínum, sem ekki hafa lesið það fyrr að lesa það aftur í heild sinni. Greinarnar voru upphaflega kallaðar Leitin að beinum Egils:

Egill 

Leitin að beinum Egils Skallagrímssonar 

Í gær birti kollega minn merka grein í Lesbók Morgunblaðsins. Ég frétti af grein Margrétar Hermanns-Auðardóttur gegnum Morgunblaðsbloggið. Við dr. Margrét erum kannski ekki lengur starfsfélagar, því hvorugt okkar hefur haft sérstaklega góð tök á því að vinna við fræðigrein þá sem við notuðum fjölda ára til að sérhæfa okkur í. Ég hef þurft að leita á önnur mið eftir að mér var vísað úr starfi og ég settur í ævarandi atvinnubann á Þjóðminjasafni Íslands (Það er víst einsdæmi á Íslandi). En Margrét hefur alla tíð verið útundan í greininni, einatt vegna öfundar og óskammfeilni ýmissa kollega hennar og aðila, sem hafa reynd að hefta framgang fornleifafræðinnar á Íslandi.

Grein Margrétar fjallar á gagnrýninn hátt um fornleifarannsóknir Jesse L. Byocks í Mosfellsdal; um leitina að beinum Egils Skallagrímssonar, rannsóknir á haugi hans; um kirkju þá sem menn telja að haugbúinn Egill hafi verið greftraður í eftir að haugurinn var rofinn, svo og rannsóknir á Mosfelli, þar sem bein kappans munu hafa verið flutt til hinstu hvílu.

Jesse L. Byock er ekki fornleifafræðingur, en hefur samt stjórnað fornleifarannsóknum á Íslandi í rúm 10 ár. Það sem Margrét Hermanns- Auðardóttir skrifar um rannsóknir hans í grein sinni í Lesbók Morgunblaðsins, get ég í alla staðið tekið undir. Hvet ég fólk til að ná sér í Lesbókina og lesa greinina gaumgæfilega. Þar er einnig hægt að lesa um vinnubrögð í Háskóla Íslands, sem eru fyrir neðan allar hellur.

Ég skrifaði 9 blaðsíðna greinargerð þegar umsókn um leyfi til rannsóknarverkefnisins "The Mosfell Archaeological Project" barst Fornleifanefnd árið 1995. Ég sat þá í Fornleifanefnd tilnefndur af Háskóla Íslands. Það varð uppi fótur og fit. Lektor einn í háskólanum kvartaði fyrir hönd Jesse Byocks til Fornleifanefndar (með bréfi og greinargerð) og til menntamálaráðherra, sem kallaði strax formann nefndarinnar á teppið. Formaðurinn reyndi svo með öllum mætti að fá mig til að draga greinargerð mína til baka og Byock framdi það sem í öðrum menningarheimi kallast Lashon hara. Ég neitaði, því hún stangaðist ekki á við neitt í Þjóðminjalögum. Ég var bara að vinna fyrir nefndarlaununum og ég sá líka óhemjumarga galla á umsókninni. Rannsókninni var síðan veitt leyfi og það reyndar gefið fornleifafræðingi er heitir Timothey Earle (sem ekki er lengur viðriðinn rannsóknirnar í Mosfellsdal), þar sem Byock uppfyllti ekki skilyrðin til að stjórna rannsókninni. Ég ákvað að sitja hjá við leyfisveitinguna. Í greinargerð minni frá 1995 sýnist mér, í fljótu bragði, að ég hafi reynst nokkuð sannspár.

Margrét telur Byock og starfsfélögum hans það til lasts, að þeir hafi ekki einu sinni vitnað í rannsóknir mínar á Stöng í Þjórsárdal. Það er líka rétt hjá Margréti. Það er ekkert nýtt eða neitt sem ég kippi mér upp við. Ég er harla vanur fræðilegri sniðgöngu eða að aðrir geri mínar uppgötvanir að sínum (mun ég skrifa um það síðar). Þegar Byock og aðstoðarmenn hans sóttu um leyfi til rannsóknanna árið 1995, var þó lögð áhersla á mikilvægi rannsókna í Mosfellsdal í ljósi niðurstaðna rannsókna minna á Stöng. Síðan þá hafa þær ekki verið nefndar á nafn af Mosfellsmönnum. Kirkjurústin á Stöng, sem ég hef ekki getað stundað rannsóknir á síðan 1995, er líklega frá svipuðum tíma og kirkjan á Hrísbrú sem Byock og félagar hafa rannsakað. Úr kirkjugarðinum á Stöng hafa bein verið flutt í annan kirkjugarð eftir ákvæðum Grágásar. Sjá Lesbókargrein um rannsóknina. [Sjá einnig hér]

Ef menn hefðu tekið tillit til greinargerðar minnar frá 1995, þar sem ég fjalla t.d. um tilurð sögunnar um haug Egils í Tjaldanesi, hefðu þeir ekki fyrir nokkrum árum asnast til að grafa í náttúrumyndun, þar sem ekkert fannst nema ísaldaruðningur. Hvers kyns "haugurinn" í Tjaldanesi er, kom einnig fram við fornleifaskráningu Þjóðminjasafnsins á svæðinu árið 1980. Árið 1817 könnuðust lærðir menn ekkert við þennan haug, þegar Commissionen for Oldsagers Opbevaring var að safna upplýsingum um fornleifar, fastar sem lausar, á Íslandi. Haugurinn er því rómantískt hugarfóstur frá 19. eða 20. öld, eins og svo margt annað í tengslum við The Mosfell Archaeological Project. Verkefnið teygir vissulega rómantíkina í fræðimennsku fram á 21. öld.

II

Pagets1D_CR 

 

"The skull gradually fills in with densitites, as shown here, and the skull thickens and softens"

Þessa skýringu á framskriðnum Paget's sjúkdómi er að finna á síðu Stanfords háskóla um sjúkdóminn.  Ekki urðu meint bein Egils "soft", smkv. Egils sögu og Byock, eða hvað?

Leit Jesse L. Byocks að beinum Egils eru náttúrulega tálbeita. Byock notar álíka aðferð til að fá fjármagn til rannsókna sinna og þegar Kári í DeCode dáleiðir menn með "ættfræðirannsóknum", sem sýna eiga ættir manna aftur til sagnapersóna í miðaldabókmenntunum. Það hjálpar greinilega fjársterkum aðilum að létta á pyngjunni. Góð saga selur alltaf vel.

En Byock hefur farið óþarflega fram yfir það sem sæmilegt er í þessari sölumennsku í fræðunum. Að minnsta kosti yfir það sem leyfilegt er í fornleifafræði. En fornleifafræðin fjallar um allt annað nú á dögum en það að leita uppi ákveðnar persónur. Það virðast íslenskufræðingar enn vera að gera, líkt og þegar þeir eru að leita uppi höfunda Njálu og annarra fornrita.

Osteitis_Deformans-1 

Þannig gæti Egill Skallagrímsson hafa litið út í ellinnni, hefði hann í raun og veru verið með Paget's disease eða þá yfirleitt verið til.

Til þess að gera Mosfells-verkefnið kræsilegra telur Byock mönnum trú um að Egils saga lýsi Agli með sjúkdómseinkenni Paget's disease. Hann trúir því greinilega einnig á söguna sem sagnfræðilega heimild. Hann hefur vinsað það úr af einkennum sjúkdómsins, sem honum hentuðu í greinum sínum um efnið í Viator (Vol 24, 1993) og Scientific American (1995).  Menn geta svo, þegar þeir hafa lesið greinar hans, farið inn á vef Liðagigtarsamtaka Kanada (The Arthritis Society), eða á þessa síðu, til að fá aðeins betri yfirsýn yfir sjúkdómseinkenni hjá þeim sem hrjáðir eru af þessum ólæknandi sjúkdómi. Þau einkenni eru langtum fleiri en þau sem Byock tínir til og flóknari en hausverkurinn og höfuðskelin á Agli. Byock hefur ekki sagt lesendum sínum alla sjúkdómssöguna; til dæmis að þeir sem eru hrjáðir af sjúkdóminum geti einnig liðið af sífelldum beinbrotum og verði allir skakkir og skelgdir fyrir neðan mitti. Hryggurinn vex saman og mjaðmagrindin afmyndast.  Byock heldur því fram að Agli hafi verið kalt í ellinni vegna þessa sjúkdóms. Annað segja nú sérfræðingarnir: "The bone affected by Paget's disease also tends to have more blood vessels than normal. This causes an increase in the blood supply to the area, and as a result the area may feel warmer than usual".Læknisfræði er greinilega ekki sterkasta hlið Byocks og óskandi er að hann stundi ekki lækningar í aukavinnu, líkt og þegar hann gengur fyrir að vera fornleifafræðingur á Íslandi.

Í greinum þeim um verkefnið, sem birtar hafa verið opinberlega, er heldur ekki verið að skýra hlutina til hlítar. Eins og til dæmis að tæmda gröfin að Hrísbrú sé undir vegg kirkjunnar sem þar fannst. Það þýðir að gröfin eða gryfjan er eldri en kirkjan sem samkvæmt kolefnisaldursgreiningu er frá því um 960. Kannski er erfitt fyrir bókmenntafræðing eins og Byock at skilja svona flókna hluti. Hann átti líka erfitt með að skilja grundvallaratriði í fornleifafræði árið 1995 og þurfti að hafa íslenskan fulltrúa sér innan handar. Mér skilst að þetta sé nú mest orðið norsk-bandarísk rannsókn og gerir Margrét Hermannsdóttir skiljanlega nokkuð veður úr því í grein sinni í Lesbók Morgunblaðsins. 5.5.2007.  Þegar sótt var um rannsóknarleyfi og fjárveitingar árið 1996 var greint frá því að samvinna yrði höfð við fáeina Íslendinga "for ethical reasons" .

Hvað varðar fjármögnun rannsóknarinnar, var alveg ljóst frá byrjun, að Byock hafði báðar hendur niður í íslenska ríkiskassann. Hann greindi mér hróðugur frá því, er hann reyndi að fá mig með í rannsóknina, að Björn Bjarnason væri "verndari" rannsóknarinnar og hefði lofað stuðningi, tækjum, fæði og þar eftir götunum. Björn bóndi hefur greinilega ekki brugðist  Byock og hafa eftirmenn hans á stóli menntamála verið álíka gjafmildir. Að Björn Bjarnason er meiri aufúsugestur á Hrísbrú en ég og kollegar mínir, sést á þessari og annarri færslu í dagbókum dómsmálaráðherrans.

Þegar íslenskir fornleifafræðingar með doktorsgráðu geta ekki starfað við grein sína sökum fjárskorts og aðstöðuleysis, vantar mig orð yfir þá fyrirgreiðslu sem prófessor Byock hefur fengið á Íslandi til að leita beina persónu úr Íslendingasögunum. Eins og ég skrifaði í greinargerð minni árið 1995 um leit hans af Agli: "Það er í sjálfu sér sams konar verkefni og leitin af beinum Jesús Krists og gröf hans eða leitin að hinum heilaga kaleik (The Holy Grail)".

En riddari nútímans leitar ekki að gylltum kaleik eða brandinum Excalibur, heldur Agli Skallagrímssyni. Riddarinn heitir Byock og atgeir hans heitir "Spin and PR". Riddarinn er reyndar búinn að afneita sér þeim óþægindum sem það virðist vera að vera Bandaríkjamaður í brynju. Hann fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 2004 (væntanlega á eðlilegri hátt en tengdadóttir ráðherra umhverfismála um daginn). Hver veit, kannski er Byock líka orðinn tengdasonur eftir langa búsetu á íslandi. Hann er að minnsta kosti orðinn "fornleifafræðingur", en það geta víst nær allir kallað sig á Íslandi sem kaupa sér skóflu.

Gárungarnir segja mér, að næsta verkefni Byocks sé að leita uppi Loðinn Lepp. Nafnið eitt bendir eindregið til þess að þessi norski erindreki á 13. öld hafi verið með sjúkdóm, sem lýsir sér í óhemju hárvexti, ekki ósvipað og á þessum kappa:

Loðinn leppur

Er Minjastofnun Íslands spilavíti ?

Minjastofnun
 

Nýlega var sett á laggirnar ný stofnun á Íslandi. Minjastofnun Íslands, sem sett er saman úr Fornleifavernd Ríkisins og Húsavernd Ríkisins. Í morgun sá ég auglýsta stöðu arkitekts við stofnunina, sem ég skoðaði, og athugaði þá hvort Minjastofnun var komin með nýja heimasíðu. Mig langaði að athuga hvort fyrrum forstöðumaður Húsaverndar Ríkisins hefði sagt upp störfum, en hann er arkitekt og einn þeirra sem sótti um stöðu forstöðumanns Minjastofnunar, en fékk ekki.

Stofnunin er komin með vísi að heimasíðu undir www.fornleifavernd.is, allbreytta frá þeirri fyrri. Ég leitaði einnig að upplýsingum um Stöng í Þjórsárdal og verkefni sem Fornleifavernd sáluga efndi til um Stöng í fyrra. Jú upplýsingarnar voru þar, en meira til mér til mikillar undrunar. Þegar ég leitaði að Stöng. Komu greinilega upp upplýsingar um póker, Kasíno og rúllettu á pólsku og ensku.

Þetta þótti mér afar furðulegt og hrindi í Minjastofnun og bað ritarann þar að leita að Stöng í Þjórsárdal á heimasíðunni og sá hún þá hvers kyns var. Lét hún Kristínu Sigurðardóttur yfirmann stofnunarinnar hafa mig í símann og hún varð vitaskuld líka undrandi, því póker og vefspilavíti held ég að sé ekki skemmtun sem dr. Kristín stundar, svo ég viti.  Kannski smá rúllettu? Nei, ekki held ég það.

Mér og öðrum, sem ég ef sýnt þetta, þykir nokkuð ljóst, að annað hvort er sá sem er að byggja upp þessa heimasíðu Minjastofnunar spilafíkill með mikla pólskukunnáttu, eða að einhver hefur brotist inn á heimasíðu stofnunarinnar og verpt þar einhverjum fúlum eggjum.

Þetta verður auðvitað að rannsaka, þótt það verði ekki beint fornleifarannsókn. En ég gef lesendum mínum hér tækifæri á að sjá þessa „nýju þjónustu" á pólsku sem mætti halda að Minjastofnun sé farin að veita. Kannski væri póker ágæt leið til að fjármagna þessa nýju stofnun? Menn þurfa auðvitað á einhvern hátt að fjármagna 700.000.000 króna verkefnið á Stöng.

Skoðið skjámyndirnar betur  með því að klikka á myndirnar

Minjasfotnun
Minjastofnun2

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband